Saddam Hussein jarðsettur í Tikrit

Saddam Hussein Saddam Hussein, fyrrum forseti Íraks, sem tekinn var af lífi fyrir sólarhring, var jarðaður í heimabæ sínum, Tikrit, fyrir nokkrum klukkustundum. Hann var lagður til hinstu hvílu fyrir dögun að írökskum tíma í kirkjugarði í Awja-hlutanum í Tikrit. Lík Saddams var fyrir nokkrum klukkustundum afhent héraðshöfðingjum á svæðinu og greftrun fór fram að sið múslima skömmu síðar.

Lát Saddams og greftrun hans á sama sólarhringnum markar sláandi endalok á litríkum æviferli Saddams, sem var lykilpersóna í írökskum stjórnmálum og við Persaflóa í áratugi. Saddam hefur verið lykilpersóna átaka á svæðinu til fjölda ára og hefur verið táknmynd einræðisstjórnarinnar sem hann leiddi í yfir tvo áratugi. Dauði hans markar viss endalok þessa skeiðs í sögu landsins.

Skv. fréttum voru um 100 einstaklingar viðstaddir greftrun Saddams Husseins í Tikrit. Í sama kirkjugarðinum og hann hlaut sína hinstu hvílu eru ennfremur lík sona hans, Uday og Qusay, sem féllu sumarið 2003 í átökum við heri Bandamanna. Þar hvíla ennfremur aðrir fjölskyldumeðlimir Saddams. Beiðni dætra Saddams um að fá jarðneskar leifar hans afhentar til greftrunar í Yemen var hafnað og ákveðið af ríkisstjórn landsins að hann myndi hvíla á heimaslóðum.

Það leikur enginn vafi á því að dauði Saddams nú í lok ársins eru stærstu pólitísku tíðindi ársins og mestu tíðindi áratugarins væntanlega, ef undan er skilið Íraksstríðið sjálft og hryðjuverkin í Bandaríkjunum fyrir fimm árum. Þessi tíðindi marka þáttaskil. Það verður fróðlegt að sjá hvaða áhrif dauði Saddams Husseins muni í raun og sann hafa á stöðu mála í Írak næstu vikur og mánuði.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er sammála þér Stefán um að aftaka Saddams er einn af stærri viðburðum fyrsta áratugar 21 aldarinnar. Held líka að tímasetning aftökunnar sé ekki tilviljun, að hún eigi að marka endalok valda einræðis í Írak, enda framkvæmd undir lok árs. Þykir líklegt að valdið í Írak hafi lagt áherslu á að aftakan færi fram fyrir áramót, en ekki á eftir, þannig að táknrænt yrði að endalok væru en ekki upphaf ef aftakan færi fram eftir áramótin. Ég er ekki viss um að aftaka þessa fyrrum þjóðhöfðingja í Írak eigi eftir að valda aukningu á vargöldinni þarna, allt hefur verið í bál og brand hvort sem er. Hér á vesturlöndum er fólk alltaf að velta fyrir sér skilgreiningum, hvenær er borgarastyrjöld hafin og ekki. Fréttamenn tala mikið um að borgarastyrjöld sé í vændum í Írak, í mínum huga er hún búin að geisa um allnokkurt skeið. Þetta minnir mig ískyggilega á umræðu fréttamanna um yfirvofandi borgarastyrjöld í Palesetínu, þegar augljóst var að hún var löngu hafin að mati almennings eins og ég tilheyri.

En svona í lokin ætla ég að óska þér gleðilegs árs og vil segja í lokin að mér finnst gaman að lesa pistla þína um þjóðmálin. Þeir eru góðir og sýna vel framfarir þær sem netið hefur fært okkur. Er sossum sjálfur að blogga en hef ekki náð að tileinka mér það jafn vel og þú hefur náð.´Árið! 

Benóný Jónsson (IP-tala skráð) 31.12.2006 kl. 18:02

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka þér kærlega fyrir gott komment. Það er gott að við erum sammála um stöðuna þarna. Líst vel á þessar pælingar hjá þér allavega og hafði gaman af að lesa.

nýárskveðjur

Stefán Friðrik Stefánsson, 31.12.2006 kl. 18:49

3 identicon

Í kirkjugarði????????????? Ég hélt að Saddam hefði verið múslimi.

Kristján Sig Kristjánsson (IP-tala skráð) 1.1.2007 kl. 16:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband