Guðfríður Lilja tekur sér varðstöðu með Ögmundi

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir er djörf og óhrædd við að standa vörð um sannfæringu sína, hún má eiga það. Frammistaða hennar í Silfri Egils í dag er henni til mikils sóma, en vekur um leið spurningar um hvaða lím sé eftir í vinstristjórninni. Hún er á síðasta snúningi - augljóst að Guðfríður Lilja tekur sér varðstöðu með Ögmundi sem stjórnarandstæðingar í Icesave-málinu og ætlar að passa upp á að sannfæring og samviska sé ekki seld ódýrt til Samfylkingarinnar, þar sem hugsjónalaus stjórnmál eiga sinn samastað.

Í besta falli er Guðfríður Lilja með orðum sínum að lýsa yfir vantrausti á verkstjórn forsætisráðherrans eða hreinlega að lýsa yfir frati á þau stjórnmál sem Samfylkingin stendur fyrir, þar sem gengið er fram af óbilgirni og barnaskap gegn vinstri grænum, sem löngum stóðu fyrir einhverjar hugsjónir en hafa verið að selja þau eins og fjölskyldusilfrið til að halda heimilinu saman. Þeir sem enn standa fyrir einhverjar hugsjónir eru ósáttir og eiga erfitt með að hemja gremjuna.

Þetta stjórnarsamstarf felur feigðina í sér.... þar loga margir eldar sem brátt geta sameinast í risabál. Kannski er ekki tilviljun að Guðfríður Lilja láti í sér heyra meðan Steingrímur er víðsfjarri, en augljóst er að mikil kergja er með það hvernig hann lætur valta yfir sig í hverju málinu á eftir öðru. Þarna eru mikil átök undir niðri. Fróðlegt verður að sjá hvernig þingflokksformaðurinn Guðfríður mun tala þegar þingið fer á fullt og þegar Icesave kemur aftur inn í þingumræðuna.


mbl.is Samþykktu Icesave blindandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll. Ég er sammála mati þínu á Guðfríði Lilju Grétarsdóttur. Hún hefur kynnt sig sem hreinskiptinn og opinn stjórnmálamann. Ég kynntist henni smávegis í kosningabaráttunni hér í SV-kjördæmi og finnst hún afar heillandi persóna. Hún tekur upp hanskann fyrir Ögmund og hlýtur að hafa ástæðu til þess.  Þetta er kannski plott til að koma því í gegn að Ögmundur skipti um ráðuneyti og verði í  betra sæti þar sem ekki skarast eins hagsmunir við ríkisstarfsmenn. Kannski líka undirbúningur að sprengju í samstarfið eða uppstokkun stjórnar VG, hver veit . .stjórnmál eru svo flókin .  kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 4.10.2009 kl. 22:28

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Málið er að Jóhanna hefur nú tækifæri til að skila  Alþingi til baka því valdi sem því ber samkvæmt stjórnarskrá. Þessi krafa stjórnmálaforingja um skilyrðislausa hlýðni þingmanna ætti að heyra fortíðinni til. Á sama hátt verður stjórnarandstaðan að skilja að þótt stjórnarfrumvarp nái ekki fram að ganga þá þýðir það ekki sjálfkrafa stjórnarslit.  En ég er ekki vongóður um að þessir gömlu pólitíkusar skilji kall alþýðunnar um breytta stjórnarhætti. Alþýðan vill að Alþingi taki ákvarðanir með hag þjóðarinnar að leiðarljósi en ekki þessa þröngu flokkshagsmuni

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 5.10.2009 kl. 13:25

3 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Já eða eins og einn talsmaður Sjálfstæðisflokksins sagði í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra " hvað eru alþingismenn að þvælast fyrir vexti í atvinnulífinu" Sú góða kona er greinilega búin að steingleyma því að það var einmitt rót vandans sem við blasir núna að Alþingi steinsvaf og var hvergi fyrir ofvirku neyslufíklunum í uppbyggingu og útrás aldarinnar. Kannski mundi hún það því hún var ekki sannfærandi og bar þessa vitleysu upp á vinkonu sína. kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 6.10.2009 kl. 22:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband