Fallegur nýársdagsmorgunn á Akureyri

Akureyri Ég óska lesendum enn og aftur gleðilegs árs og þakka fyrir árið sem liðið er. Nýtt ár heilsaði með snjókomu hér á Akureyri og það var létt snjókóf þegar að fólk var að skjóta upp flugeldum, svo að heildarmyndin yfir flugeldaspreðinu þetta árið varð ekki fullkomin, en skemmtunin við að skjóta upp flugeldum var samt engu minni en áður. Gleðin var svo mikil fram á nóttina, mikið spjall, djamm og ánægja og því í heildina virkilega gaman. Nákvæmlega sú stemmning sem á að vera á svona stundu.

Nýársmorguninn er fallegur á Akureyri. Snjór er yfir og friðsæl og notaleg stemmning. Sr. Matthías Jochumsson, prestur og heiðursborgari okkar Akureyringa, var merkur maður. Ég lauk lestrinum á ævisögu hans endanlega núna í morgun í frið og ró hérna heima. Yndisleg bók sem ég mæli svo innilega með. Ég hef alla tíð metið Matthías mikils og virði ljóð hans og prestsverk hér. Akureyringar hafa alltaf metið þau mikils, enda er sóknarkirkjan okkar um leið kirkja byggð í minningu hans. Farið er vel yfir alla hápunkta ævi Matthíasar í þessari ævisögu, sem ég heillaðist mjög af. En ég er líka einn af þeim sem finnst þjóðsöngurinn fallegur og vil engu með hann breyta.

Kl. 12:15 ætla ég að horfa á áramótaávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar, bæjarstjóra, á bæjarssjónvarpsstöðinni N4 (áður Aksjón). Ávarpið hefur verið hefð í bæjarstjóratíð Kristjáns Þórs. Nú er komið að leiðarlokum á bæjarstjóraferli Stjána og innan tíu daga hefur Sigrún Björk Jakobsdóttir tekið við lyklunum að hornskrifstofunni í Ráðhúsinu, sem flestir kalla bæjarstjóraskrifstofuna. Við bæjarbúar munum því horfa vel á ávarpið núna, sem um leið er kveðja Kristjáns til bæjarbúa á þessum tímamótum. En ekki fer hann langt, enda verður hann forseti bæjarstjórnar.

Fyrir okkur sem höfum unnið með Kristjáni Þór innan Sjálfstæðisflokksins á Akureyri eru það tímamót að hann láti af leiðtogahlutverkinu í bæjarmálahópnum. Það hafa verið hæðir og lægðir í samskiptum okkar en ég mun alltaf meta mikils framlag Kristjáns Þórs fyrir hönd Akureyrarbæjar á þessum áratug sem hann hefur verið sem bæjarstjóri hér. Hann hefur unnið farsælt verk, mikil uppbygging var á þessum tíma og bærinn efldist að flestu leyti. Kristján Þór er maður sem fer ekki troðnar slóðir og hefur því alla tíð verið umdeildur. En menn komast aldrei í gegnum stjórnmálin nema að það gusti af þeim. Það gildir um Kristján Þór.

Fyrir tæpri öld spurði séra Matthías um hvað nýárs blessuð sól boðaði. Enn í dag er þetta fagra ljóð hans ómissandi á nýársdag. Um leið og ég endurtek nýárskveðjur á fyrsta degi ársins sem ég verð þrítugur á vona ég að nýárið verði okkur Akureyringum farsælt og að þáttaskilin í bæjarmálunum gangi vel fyrir sig og Sigrúnu Björk farnist vel í sínu nýja verkefni.

Hvað boðar nýárs blessuð sól?
Hún boðar náttúrunnar jól,
hún flytur líf og líknarráð,
hún ljómar heit af Drottins náð.

Sem Guðs son forðum gekk um kring,
hún gengur ársins fagra hring
og leggur smyrsl á lífsins sár
og læknar mein og þerrar tár.

Ó, sjá þú Drottins björtu braut,
þú barn, sem kvíðir vetrarþraut,
í sannleik hvar sem sólin skín
er sjálfur Guð að leita þín.

Því hræðst þú ei, þótt hér sé kalt
og heimsins yndi stutt og valt,
og allt þitt ráð sem hverfult hjól,
í hendi Guðs er jörð og sól.

Hann heyrir stormsins hörpuslátt,
hann heyrir barnsins andardrátt,
hann heyrir sínum himni frá
hvert hjartaslag þitt jörðu á.

Í hendi Guðs er hver ein tíð,
í hendi Guðs er allt vort stríð,
hið minnsta happ, hið mesta fár,
hið mikla djúp, hið litla tár.

Í almáttugri hendi hans
er hagur þessa kalda lands,
vor vagga, braut, vor byggð og gröf,
þótt búum við hin ystu höf.
Sr. Matthías Jochumsson (1835-1920)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband