Magnaðir tónleikar

Bó Ég fékk tónleikadisk Björgvins Halldórssonar í jólagjöf eins og allir Hafnfirðingar. Það var notaleg jólagjöf. Í kvöld voru tónleikarnir sýndir á Stöð 2 í boði Alcan, rétt eins og diskarnir til Hafnfirðinga. Eflaust eru margir þakklátir Alcan fyrir diskana og eins að sýna þá heima í stofu til allra landsmanna. Ég hef nokkrum sinnum horft á tónleikana um jólin, þar er hægt að stilla í alvöru hljóðgæði og setja allt í botn og njóta til fulls.

Að mínu mati er Bó Hall alveg frábær tónlistarmaður. Svo mikið er allavega víst að tónlistarsaga okkar verður ekki rituð án þess að minnast á ævistarf hans, en í fjóra áratugi hefur hann verið einn vinsælasti tónlistarmaður landsins. Hann slær ekki feilnótu á þessum tónleikum og allt er eins fullkomið eins og mögulegt má vera. Björgvin kann sitt fag og sannar enn og aftur hversu stór hann er í íslenskri tónlist.

Lagavalið á tónleikunum er gott, sannkallaður þverskurður alls þess besta sem hann hefur gert, þó alltaf sakni maður nokkurra laga. Það er gott að lagið Tvær stjörnur eftir Megas sé þarna. Mér hefur alltaf fundist það lag eitt hitt allra bestu síðustu áratugina. Innilega fallegur texti og lag eftir Megas, algjör perla í tónlistarsögu 20. aldarinnar. Þarna eru svo öll lykillögin sem marka frægð Björgvins. Óþarfi að telja þau upp. Flottast af öllu er að fá dúett feðganna Björgvins og Krumma við eðalsmellinn You Belong to Me.

Allavega, mögnuð skemmtun. Hvort sem er í boði Alcan heim í stofu eða bara heima á eigin diski. Rétt eins og afmælistónleikar Bubba er þetta eðaltónlistarviðburður sem nauðsynlegt er að eiga og njóta vel.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband