Gerald Ford kvaddur í Washington

Gerald FordLíkkista Gerald Ford, 38. forseta Bandaríkjanna, liggur nú á viðhafnarbörum í Capitol Rotunda, hvelfingu þinghússins, í Washington. Þúsundir almennra borgara hafa farið í þinghúsið til að votta Ford forseta sína hinstu virðingu í gær og í dag. Það hlýtur að teljast sérstaklega mikið miðað við að rigning er í Washington nú og ekkert sérstakt veður, eða svo segir bandarískur vinur minn sem þar býr og fór að kistu forsetans í dag og stóð nokkuð lengi í biðröð.

Ég tel að pólitísk arfleifð Geralds Fords komi vel fram í þessu. Sá fjöldi sem vill minnast hans er nokkur og það segir allt sína sögu. Þrátt fyrir að Ford hafi ekki tekist að hljóta kjör í embætti forseta Bandaríkjanna og hafi verið valinn varaforseti að útnefningu Nixons forseta og síðar tekið við forsetaembættinu á örlagastundu metur fólk verk hans. Ford sóttist fyrirfram aldrei eftir forsetaembættinu en hlýtur þau eftirmæli að hafa tekist á hendur skyldur embættisins á þeirri stundu sem fáir hefðu viljað það.

Ford græddi sár milli forsetaembættisins og þjóðarinnar eftir að Richard Nixon hafði veikt stöðu embættisins og trúverðugleika þess i Watergate-málinu. Það sést vel þessa dagana að Bandaríkjamenn meta vel hvernig Ford kom fram á þessum örlagatímum. Það er og verður hans mesta pólitíska arfleifð. Áratugalangur ferill Fords í fulltrúadeildinni, bæði sem flokksleiðtogi og þingmaður hefur horfið í skuggann í fjölmiðlaumfjöllun af því hlutskipti hans að taka við Hvíta húsinu í kjölfar Watergate. Það þurfti að lækna sár og efla embættið með forseta sem gat verið sáttasemjari milli fylkinga.

Ford tókst vel upp í þeim efnum og til marks um það eru hlýleg orð stjórnmálamanna í báðum stóru flokkunum sem hafa lofað Ford síðustu dagana með mjög áberandi hætti. Einna sterkust hljóta að teljast orð Jimmy Carter, sem varð eftirmaður Fords á forsetastóli, en Carter sigraði hann í forsetakosningunum 1976. Þeir urðu perluvinir handan vistar beggja í Hvíta húsinu og athygli hafa vakið hlýleg orð Carter-hjónanna í garð Fords. Það segir sína sögu.

Fyrir nokkrum dögum var skrifað um Ford á Vef-Þjóðviljanum. Ég er ekki oft ósammála þeim í skrifum þar en ég var það í þessum efnum. Ég tel Ford hafa unnið merkilegt verk á forsetastóli, þó vissulega hafi hann hlotið önnur söguleg eftirmæli en margir aðrir forsetar. Atbeini hans við að stýra málum eftir þá skelfilegu stöðu sem Nixon lét eftir við brotthvarf sitt er og verður metið mikils eitt og sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband