Ógeðfelld aftaka Saddams

Saddam Hussein Aftakan á Saddam Hussein í blálok ársins 2006 var efst í huga allra stjórnmálaáhugamanna er árið var gert upp á gamlársdag, enda án vafa frétt ársins. Ég er einn þeirra sem horfði á upptökuna af aftökunni á Saddam sem gekk á netinu á gamlársdag. Ég fylltist óhug við að sjá það myndefni og þær aðstæður sem sjást á upptökunni, en upptakan er mjög afgerandi lýsing á síðustu mínútunni á ævi Saddams.

Það var vissulega mjög kuldalegt að sjá Saddam í þessu litla herbergi bíða örlaga sinna með böðlana sér við hlið. Ofan á allt annað var ógeðfellt að sjá og heyra orðaskipti böðlanna og Saddam áður en sá síðarnefndi fór niður gálgann og snaran hertist um háls hans. Það er óviðunandi andrúmsloft sem þar blasti við og þessi aftaka fékk á sig blæ hefndar en ekki réttlætis í kjölfar dóms. Þetta myndband er mun raunsærri útgáfa af sannleikanum eins og hann var á þessum vettvangi en opinberar myndir sem afhjúpaðar voru þann 30. desember, á dánardegi Saddams. Það leikur enginn vafi á því.

Ég hef alla tíð verið andsnúinn dauðarefsingum, eins og vel hefur komið fram. Hinsvegar sagðist ég hafa skilning með stöðu mála í Írak á þeim tíma sem dauðadómurinn féll. Saddam var dæmdur eftir lögum í Írak og því réttlæti sem þar er. Það er eins og það er bara. Ég tek undir skoðanir margra á því að það hefði verið réttara að Saddam hefði verið framseldur til Haag og mætt réttlætinu þar og málið allt hefði verið tekið jafnt fyrir og unnið betur að málum. En fortíðinni verður ekki breytt. Margir læra vonandi sína lexíu á þessu öllu saman og vonandi verður betur haldið á slíkum málum í framtíðinni hver sem á í hlut.

Saddam var tekinn af lífi og því verður ekki breytt. Það er alveg ljóst í mínum huga að Saddam varð að refsa fyrir sín skelfilegu verk á valdastóli og hann varð að fara fyrir dóm. Niðurstaðan er eins og hún er, en aftakan sem slík er mjög á gráu svæði eins og hún var framkvæmd og mjög margt við hana að athuga. Hana átti að stöðva af í því andrúmslofti sem við blasti á staðnum þessar lokamínútur ævi Saddams og í þeim hita sem var á milli hins dauðadæmda og böðlanna sem skiptust á kuldalegum kveðjum allt þar til sá fyrrnefndi gossaði niður gálgann. Þetta voru skelfilegar stundir en þó mikil lexía á þetta að horfa.

Örlögum Saddams verður ekki breytt, hann hefur verið líflátinn og jarðsettur í Tikrit. Hans saga er nú öll og hann heyrir nú fortíðinni til. Hann er ekki lengur sögupersóna í pólitískri tilveru Íraks. Spurning er þó hvaða áhrif hann hafi eftir dauða sinn, út yfir gröf og dauða. En það er algjörlega ljóst að framkvæmd aftöku hans var í senn ömurleg og sorgleg og það sem þar blasir við ber að fordæma.

mbl.is Litlu munaði að aftöku Saddams yrði frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur fannberg

hefði mátt dæma hann í Haag og þá í lifstiðardvöl án náðunar

Ólafur fannberg, 2.1.2007 kl. 19:51

2 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Ef aftakan hefði verið stöðvuð af þá hefði henni væntanlega verið frestað um einhverja daga. Spurning hvort það sé eitthvað manneskjulegra við að láta manngarminn ganga plankann tvisvar

Heiða B. Heiðars, 2.1.2007 kl. 19:55

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir skilaboðin.

Ólafur: Það hefði betur farið á því að hann hefði farið fyrir dómstól í Haag, eins og Slobodan Milosevic (sem dó í fyrra eins og Saddam) og því auðvitað væntanlega verið vistaður þar til dauðadags. Engin hefði orðið aftaka í því spili.

Aðal-Heiða: Í þessu andrúmslofti sem orðið var bar að stöðva þessa aftöku af. Það er skammarlegt að það skyldi ekki verða gert og er mikið umhugsunarefni. Það hefði væntanlega ekki breytt dómnum en aftaka við þessar aðstæður og svona vinnubrögð er fordæmisverð.

Stefán Friðrik Stefánsson, 2.1.2007 kl. 20:01

4 Smámynd: Egill Óskarsson

Er einhvern tíma rétt staðið að dauðarefsingu?

Egill Óskarsson, 4.1.2007 kl. 01:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband