Ekki viðunandi útkoma fyrir Sjálfstæðisflokkinn

Geir H. Haarde Það er fróðlegt að sjá sundurliðun á nýjustu skoðanakönnun Gallups á fylgi flokkanna. Mér finnst það athyglisvert að fylgi Sjálfstæðisflokksins stendur í stað milli mánaða og það hækkar ekki. Mér finnst þetta varla geta flokkast sem viðunandi staða fyrir Sjálfstæðisflokkinn í ljósi alls og þetta er ekki góð útkoma miðað við að það styttist í kosningar. Vissulega er flokkurinn yfir kjörfylginu 2003, en þá voru aðstæður með þeim hætti að viðbúið var að fylgið myndi lækka. Sótt var harkalega að Davíð Oddssyni með óvönduðum meðölum og margt annað var flokknum erfitt.

Hér í Norðausturkjördæmi batnar staðan ekki milli mánaða. Í könnuninni þar á undan misstum við yfir 6% fylgi í einni gusu þrátt fyrir að prófkjör hefði farið fram í þeim mánuði, fjölmennt og vel heppnað prófkjör. Það var alveg greinilegt að tvö mál hafa verið í umræðunni hér og voru í þessu prófkjöri, mál sem situr í fólki hér. Það er annarsvegar mál Árna Johnsen, sem að óbreyttu er aftur á leið á þing, og hinsvegar þjóðlendumálin, sem mun ekki efla okkur hér á þessum slóðum. Vel hefur komið fram í máli Kristjáns Þórs Júlíussonar, leiðtoga flokksins í kjördæminu, að hann styður ekki málflutning fjármálaráðherra í þeim efnum.

Það er algjörlega ljóst þegar að litið er á þessa skoðanakönnun að Sjálfstæðisflokkurinn á ekkert gefið í þessum efnum. Þetta verða átakakosningar þar sem hvert atkvæði ræður úrslitum um hvernig stjórn verður mynduð. Allir flokksmenn verða að vinna fyrir sigri í vor og tryggja að flokkurinn hafi þá stöðu að kosningum loknum að geta leitt sterka tveggja flokka ríkisstjórn. Sagan sýnir að tveggja flokka stjórnir hafa verið farsælastar. Reyndar þekkjum við yngri kjósendur fátt annað en sterkar tveggja flokka stjórnir, en þriggja til fjögurra flokka stjórn hefur ekki setið síðan að síðasta vinstristjórn sat hér undir lok níunda áratugarins og við upphaf þess tíunda. Sjálfstæðisflokkurinn hefur markað sterka forystu og það er valkostur hans nú sem fyrr.

Þessi skoðanakönnun er vissulega enginn stóridómur komandi þingkosninga. Þetta er vísbending í áttina að því hvað kemur upp úr kjörkössunum eftir fjóra mánuði. Þessi skoðanakönnun er ávísun upp á það að Sjálfstæðisflokkurinn er með litlu meira raunfylgi nú en í þingkosningunum 2003, sem voru ekki góðar fyrir flokkinn, þó það hafi tekist þá að koma í veg fyrir vinstristjórn. Ég hef ekki farið leynt með þá skoðun mína að framboð Árna Johnsen muni veikja flokkinn í þessari jöfnu kosningabaráttu og ég er ekki einn um þá skoðun innan Sjálfstæðisflokksins. Á því máli verður að taka og ég tel að allir sjálfstæðismenn sem eru þeirrar skoðunar eigi að láta í sér heyra af krafti.

Við hér í Norðausturkjördæmi höfum öll sóknarfæri til þess að vinna góður sigur í vor og að fá fjóra þingmenn kjörna í alþingiskosningunum eftir fjóra mánuði. Listi okkar er með þeim hætti að sóknarfærin eru til staðar. Kannanir hafa sýnt okkur um nokkuð skeið með mest fylgi í kjördæminu og að Kristján Þór Júlíusson verði fyrsti þingmaður kjördæmisins þann 12. maí. Markmið okkar hér er alveg skýrt. Við þurfum ekki á innansveitarvanda að halda, vísa ég þar til mála Árna Johnsen sem hefur æ ofan í æ sýnt og sannað að hann er ekki traustsins verður og fór illa með það traust sem honum var sýnt í nóvember og lét þar ófyrirgefanleg ummæli falla að mínu mati.

En þessi könnun er ein slík á langri leið en vekur alla sjálfstæðismenn til umhugsunar um það að ekkert er öruggt í þessum efnum - það er enn langt til kosninga.

mbl.is Sjálfstæðismenn fengju meirihluta í borginni samkvæmt nýrri könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband