Fjölskylduvörn Ingimundar Kjarval

Jóhannes KjarvalÞað blandaðist engum hugur um það sem sáu Kastljós og sjónvarpsfréttir í kvöld að Ingimundur Kjarval og fjölskylda hans er allt annað en sátt við dóm Héraðsdóms Reykjavikur í dag. Þar tapaði fjölskyldan baráttu sinni við Reykjavíkurborg fyrir því að fá málverk ættarföðurins Jóhannesar Sveinssonar Kjarvals aftur í sína vörslu. Nær allt ævistarf Jóhannesar hefur verið eign Reykjavíkurborgar frá árinu 1968.

Stór deila milli aðstandenda Jóhannesar og Reykjavíkurborgar hefur verið hvort Jóhannes hafi gefið safnið með löglegum hætti og allt standist í þeim efnum. Fullyrðir fjölskylda listmálarans að andlegt ástand hans hafi verið með þeim hætti að hann hefði ekki verið með réttu ráði á þessum tíma sem um ræðir. Stór hluti niðurstöðunnar í dómnum í dag virðist vera byggð á orðum og ummælum Geirs Hallgrímssonar, fyrrum forsætisráðherra, sem var borgarstjóri í Reykjavík árið 1968 er samningurinn kom til sögunnar.

Eins og flestir vita er meginhluti verkanna geymdur á Kjarvalsstöðum, en safn borgarinnar var nefnt eftir Jóhannesi og er á Klambratúni í Reykjavík. Barátta Ingimundar og fjölskyldu hans er orðin mjög löng. Hef ég fylgst með henni nokkurn tíma, en á síðustu árum hefur Ingimundur verið virkur við að skrifa á spjallvefnum Málefnin, en þar var ég mjög virkur við að skrifa á sínum tíma en er nær hættur skrifum þar nú. Ingimundur hefur greinilega lítinn áhuga á að beygja sig undir þennan úrskurð og stefnir í áfrýjun þessa dóms og farið verði jafnvel fyrir erlenda dómstóla staðfesti Hæstiréttur dóm héraðsdóms.

Það verður fróðlegt að fylgjast með þessu máli. Krafturinn virðist hvergi nærri farinn úr Ingimundi ef marka má orð hans, en hann sagði sérstaklega fjölmiðlum til syndanna í viðtölum í dag. Það voru hörð og áberandi orð. Greinilegt er að hann telur þetta vörn sína fyrir hönd fjölskyldunnar og greinilegt að hann er ekki á þeim slóðum að gefa eftir í átökum við borgina, sem hann hefur verið í átökum við nú í áratugi.


mbl.is Héraðsdómur telur sannað að Kjarval hafi gefið borginni teikningarnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bessí Jóhannsdóttir

Sæll Stefán

Ég var alin upp við það að Kjarval hefði gefið Reykjavíkurborg listaverkin og ég man eftir því að Alfreð heitinn forstöðumaður Kjarvalstaða var mikll vinur Kjarvals og hef ég enga trú á að hann hafi verið þess sinnis að einhver annar ætti listaverkin. Óttaleg þráhyggja en ekki spurning um réttlæti.

Gleðilegt ár og takk fyrir skemmtileg skrif á liðnu ári.

Bessí

Bessí Jóhannsdóttir, 4.1.2007 kl. 00:29

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka þér kærlega fyrir þetta innlegg Bessí og góð orð um vefinn. Já, þetta mál Ingimundar er vissulega orðin nokkur þráhyggja en vonandi fæst fljótlega niðurstaða í það, endanleg niðurstaða.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 4.1.2007 kl. 00:51

3 Smámynd: Egill Óskarsson

Ingimundi er reyndar almennt mjög uppsigað við fjölmiðla. Hann varð mjög reiður þegar morgunblaðið neitaði að birta auglýsingu frá honum sem var mikil ádeila á ákveðna aðila og hélt því reyndar fram að blaðinu hlyti að vera skylt skv. lögum að birta það sem fólk væri tilbúið að greiða fyrir. Og að hans mati hafa fjölmiðlar brugðist skyldu sinni þegar þeir hafa fjallað um þetta mál því að hans sjónarmið hafa ekki náð að komast nógu vel að að hans mati.

Egill Óskarsson, 4.1.2007 kl. 01:04

4 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Stebbi.

Sá ekki viðtalið við Ingimund á Stöð 2 en svo vill nú til að Ingimundur var útilokaður af spjallvefnum press.is þar sem hann reifaði sín mál um tíma.

Ég var þar skráð og kvartaði fyrir hans hönd og þá var opnað á hann en lokað aftur svo dó þráðurinn drottni sínum.

Honum hefur ekki gengið vel að fá inni í fjölmiðlum með þetta mál miðað við umfjöllun um málarekstur annars konar af ýmsum toga, það verður að segjast eins og er.

Aulaháttur borgaryfirvalda fyrr og síðar að ganga ekki til viðræðna við afkomendur Kjarvals um þessi mál er algjör. Því miður.

 kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 4.1.2007 kl. 01:59

5 Smámynd: Egill Óskarsson

Það voru mjög málefnalegar ástæður fyrir því að aðgangur Ingimundar að spjallsvæði vefs BÍ var takmarkaður á sínum tíma. Þar átti að fara fram fagleg umræða um blaðamennsku en á hverjum einasta vef sem var stofnaður í langan tíma braust Ingimundur inn og hleyptu umræðunni upp í rifrildi um sín hugðarefni. Hann var oft hrikalega orðljótur í garð blaðamanna og sakaði þá um mjög alvarlega hluti sem hann gat engan vegin sannað á þá. 

Egill Óskarsson, 4.1.2007 kl. 03:16

6 identicon

Það er nú meira í þessu Kjarvals máli en þolir dagsljósið. Mér þykir það alveg augljóst eftir að hafa skoðað það aðeins.

Jón Frímann (IP-tala skráð) 6.1.2007 kl. 20:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband