Manneskjulega hliðin á Saddam Hussein

Saddam Nokkrir dagar eru nú liðnir síðan að Saddam Hussein hvarf úr jarðneskri tilveru og var tekinn af lífi í Bagdad. Upphaflega átti að taka hálfbróður hans, Barzan Ibrahim al-Tikriti, af lífi í dag ennfremur ásamt Awad al-Bandar, sem var forseti hæstaréttar Íraks í valdatíð Baath-flokksins, en aftökunum hefur verið frestað. Um fátt er meira rætt þessa dagana en aðstæður við aftökuna á Saddam, sem þótti klúðursleg í alla staði og vera áberandi endurupplifun á einræðistilburðum í valdatíð Saddams sjálfs.

Greinilegt er að kalt stríð er skollið á milli írakska forsætisráðherrans og bandarísku ríkisstjórnarinnar sem skiptast á skotum með afgerandi hætti í kjölfar aftökunnar. Bandarísk stjórnvöld reyna nú greinilega að þvo hendur sínar af aftökunni. Öllum er ljóst að aftakan mun magna átök í landinu og verða vatn á myllu þeirra sem telja ástandið í Írak lítið sem ekkert hafa breyst. Bush Bandaríkjaforseti kom sér undan að svara spurningum um aftöku Saddams á blaðamannafundi sem haldinn var í gær, um væntanleg valdaskipti í þinginu í dag, í Rósagarði Hvíta hússins.

Mitt í allri umræðunni um aftökuna á Saddam Hussein og allar hliðar hennar er birt athyglisvert sjónarhorn á manneskjulegri hlið Saddams. Um fáa menn og persónuleg einkenni hans hefur verið rætt og ritað meira síðustu áratugina. Hann var umdeildur sem einræðisherra í Írak í yfir tvo áratugi en ekki síður eftir að hann hafði verið felldur af valdastóli og var orðinn fangi í vörslu Bandamanna, bæði meðan að réttarhöldin sögufrægu stóðu og handan þeirra er hann beið þess að verða líflátinn. Saddam var umdeildur og verk stjórnartíðar hans tala sínu máli. En eins og flestir menn átti hann greinilega sér manneskjulega hlið inn við innsta beinið einhversstaðar.

Sjúkraliðinn Robert Ellis komst í gegnum starf sitt í návígi við þennan umdeilda þjóðarleiðtoga, sem var höfuðandstæðingur Bandaríkjanna í valdatíð þriggja forseta og í tveim fjölmiðlastyrjöldum. Hann var valinn í það hlutskipti að sjá um Saddam í fangelsinu. Það hefur eflaust verið athyglisvert hlutskipti. Lýsingar Ellis á Saddam Hussein eru birtar í fjölmiðlum þessa dagana. Ellis mun hafa verið maðurinn sem útvegaði honum bækur að lesa, hugaði að heilsu hans og reyndi að halda blóðþrýstingi hans eðlilegum, enda voru honum gefin skýr fyrirmæli um að Saddam mætti ekki deyja í varðhaldi Bandamanna.

Ellis lýsir Saddam Hussein sem miklum bókaáhugamanni sem las allt á milli reyfara, gamansamra bóka og sögulegra rita, manni sem gaf fuglum brauðmola í fangelsisgarðinum, sagði brandara og var umhugað um heilsu sína. Það vekur sérstaka athygli að Ellis segir að Saddam hafi verið rólegheitamaður sem var notalegur í viðkynningu og virti sjúkraliðann sem jafninga sinn. Það er ekki laust við að þessar lýsingar bandaríska sjúkraliðans veki athygli.

mbl.is Saddam gaf fuglunum og las í fangelsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur fannberg

kannski hefur karlgreyið ekki verið svo slæmur inn við beinið sjálfur þó stjórnarhættir sýndu annað

Ólafur fannberg, 4.1.2007 kl. 07:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband