Demókratar taka við völdum í þingdeildum

Þinghúsið í Washington Demókratar hafa tekið við völdum í deildum Bandaríkjaþings. Þeir ráða nú báðum deildunum í fyrsta skipti frá því í janúar 1995. Nancy Pelosi hefur verið kjörin forseti fulltrúadeildarinnar, fyrst kvenna. Pelosi er með þessu valdamesta konan í stjórnmálasögu Bandaríkjanna, önnur í valdaröðinni á eftir varaforseta Bandaríkjanna. Demókratar hafa verið valdalausir í fulltrúadeildinni frá sögulegum kosningaósigri í forsetatíð Clintons en réðu öldungadeildinni 2001-2003.

10 nýjir öldungadeildarþingmenn og yfir 50 fulltrúadeildarþingmenn sverja nú embættiseið sinn í fyrsta skipti. Samhliða breytingunum fá demókratar formennsku í öllum þingnefndum og leiða allt þingstarfið með því. Það er eitt mesta pólitíska áfall George W. Bush á stormasömum pólitískum ferli hans að repúblikanar skuli hafa misst áhrifin í þinginu, en við það þarf hann að una það sem eftir lifir kjörtímabilinu, en því lýkur 20. janúar 2009. Það stefnir í erfiða valdasambúð flokkanna, og mikil átök á bakvið tjöldin.

Á blaðamannafundi í gær kom vel fram það mat forsetans að sambúðin yrði erfið, enda stefna demókratar á að breyta vinnureglum þingsins strax á fyrstu dögunum eftir valdaskiptin. Stefna þeir að því á fyrstu 100 tímum valdaferilsins í þingdeildunum að setja siðareglur í þinginu, hækka lágmarkslaun, stokka upp reglur um námslán og lækka verð lyfseðilsskyldra lyfja. Stefnir í hörð átök fylkinganna í þinginu á næstu dögum. Í könnunum hafa demókratar afgerandi stuðning þjóðarinnar við breytingarnar og virðast vera að tala máli sem þjóðin styður. Það er enn eitt pólitíska áfallið fyrir Bush forseta.

Bush var harðorður á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í gær og virtist vera að senda óbein skilaboð til demókrata um að þeir geti sett samstöðutal flokkanna í uppnám og hann geti beitt neitunarvaldi í meira mæli en áður. Það stefnir í harða valdasambúð, jafnvel að ekkert verði úr samstöðutali sem var allsráðandi eftir kosningarnar fyrir tveim mánuðum. Það er alveg ljóst að flestir stjórnmálaáhugamenn munu fylgjast með því hvernig þessum öflum gengur að deila völdum næstu tvö árin.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband