Kjördæmisþing 20. janúar - listinn brátt til

KÞJ Kjördæmisþing Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, þar sem framboðslisti flokksins í kjördæminu verður staðfestur, mun verða haldið þann 20. janúar nk. Þá fer kosningabarátta flokksins hér af stað á fullu, innan við fjórum mánuðum fyrir þingkosningar. Kjörnefnd vinnur nú að endanlegri uppröðun á framboðslistann. Sex efstu sæti framboðslistans munu væntanlega verða skipuð eftir prófkjörinu þann 25. nóvember sl, en það var fjölmennt og vel heppnað.

Kristján Þór Júlíusson, nýr leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, lætur af embætti bæjarstjóra á Akureyri á þriðjudag og mun þá halda alfarið til verka í kosningabaráttunni. Hann mun þó verða forseti bæjarstjórnar Akureyrarkaupstaðar í stað Sigrúnar Bjarkar Jakobsdóttur, verðandi bæjarstjóra. Mikil uppstokkun verður reyndar í bæjarmálunum á bæjarstjórnarfundi á þriðjudag, en utan bæjarstjóraskipta og breytinga á forsetaembætti bæjarstjórnar verður uppstokkun í nefndum, enda hættir Sigrún Björk í bæjarráði, framkvæmdaráði og stjórn Akureyrarstofu.

Það er ekki hægt að segja annað en að listi okkar sjálfstæðismanna sé vel skipaður hvað efstu sætin viðvíkur eftir þetta prófkjör, sem fyrr er nefnt. Þrjár konur urðu í fimm efstu sætunum, þar af tvær í þrem efstu sætum. Það stefnir ekki í að aðrir flokkar hér muni skipa betur málum hvað varðar jafnréttismálin en við sjálfstæðismenn. Við Akureyringar eigum tvo fulltrúa í fjórum efstu sætum og Austfirðingar eiga tvo fulltrúa í sömu sætum, þar af tvö nokkuð örugg þingsæti, ef marka má skoðanakannanir. Eins og kannanir hafa verið að spilast að undanförnu höfum við þrjú örugg þingsæti og getum á góðum degi vel verið að hljóta fjögur sæti. Að því er að sjálfsögðu stefnt.

Nýjasta könnunin sýnir slæma stöðu Framsóknarflokksins, sem mælist aðeins inni með leiðtoga framboðslistans, Valgerði Sverrisdóttur, utanríkisráðherra. Samfylkingin og VG eru þarna bæði með þrjú þingsæti, þar af er Samfylkingin með jöfnunarsætið. Ég á ekki von á að úrslitin verði með þessum hætti, en þessi mæling er mjög athyglisverð. Sérstaklega er hrikaleg útreið framsóknarmanna, sem hér hafa nú fjögur þingsæti, athyglisverð. Hrun er væntanlega eina almennilega orðið yfir það allt. Samfylkingin virðist svosem ekki beint vera að blómstra, enda missir flokkurinn talsvert fylgi frá síðustu kosningum.

En ég held að þetta verði spennandi kosningabarátta hér næstu mánuðina. Ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn muni hér koma sterkur til leiks með sinn framboðslista. Í sex efstu sætum eru aðeins þrjú sem voru á sömu slóðum síðast; Arnbjörg Sveinsdóttir, Þorvaldur Ingvarsson og Sigríður Ingvarsdóttir. Ég tel að innkoma Ólafar Nordal verði okkur heilladrjúg, en ég hef fundið vel að hún hefur góðan stuðning til verka og kemur með ferskan blæ í stjórnmálin hér. Ég vænti mikils af hennar verkum í þessari kosningabaráttu og á þingi eftir 12. maí.

Þetta verður lifandi barátta og áhugaverð, tel ég. Fari kosningar á borð við þá könnun sem fyrr er nefnd stefnir í verulega uppstokkun hér á stöðu mála og sigur Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, sem yrði sögulegt og gott. Markmið okkar hér hlýtur enda að tryggja góðan sigur og fjóra menn - og ráðherrastól í vor.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband