Styttist í bæjarstjóraskipti á Akureyri

Sigrún Björk Jakobsdóttir Sigrún Björk Jakobsdóttir tekur við embætti bæjarstjóra á Akureyri á fundi bæjarstjórnar á þriðjudag af Kristjáni Þór Júlíussyni, sem gegnt hefur embættinu í níu ár. Hún verður fyrsta konan sem tekur við embættinu og tíundi bæjarstjórinn í sögu Akureyrarkaupstaðar. Með þessum breytingum verður Sigrún Björk leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Akureyrar, en Kristján Þór verður forseti bæjarstjórnar, en mun ekki taka sæti í nefndum hjá bænum.

Það er óhætt að segja að bæjarstjóraskiptin marki tímamót fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Akureyri. Með nýjum leiðtoga koma eflaust nýir tímar. Sigrún Björk vann annað sætið í prófkjöri flokksins í febrúar í fyrra og hlaut ein bindandi kosningu þar, utan Kristjáns Þórs. Hún hefur setið í bæjarstjórn í fimm ár og verið áberandi í nefndastarfi fyrir bæinn, sérstaklega í menningarmálanefnd, sem varð Akureyrarstofa í uppstokkun nýs meirihluta á nefndum á síðasta ári. Elín Margrét Hallgrímsdóttir tekur nú við þeirri öflugu nefnd.

Kristján Þór hefur verið áberandi sem bæjarstjóri í þau níu ár sem hann hefur gegnt embættinu og í þeim þrem kosningum sem hann hefur leitt Sjálfstæðisflokkinn í hér í bænum frá árinu 1998. Bæjarstjóraferill hans hefur verið tími framkvæmda og er þar yfir margt að fara. Í síðasta nýársávarpi sínu sem bæjarstjóri fór Kristján Þór yfir þau verk sem meirihlutar undir forystu hans á þessum tíma hefur staðið fyrir og var það löng upptalning framkvæmda og verkefna. Það eru tímamót að hann yfirgefi bæjarstjóraembættið og markar umfram allt breytingar fyrir Sjálfstæðisflokkinn hér.

Það er þegar vitað er Sigrún Björk tekur við embætti bæjarstjóra að hún hefur vissan tíma til verka, ef meirihlutinn situr þ.e.a.s. út kjörtímabilið. Samið var um það eftir bæjarstjórnarkosningarnar á síðasta ári í meirihlutasamningi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að Sjálfstæðisflokkurinn hefði embættið fram til sumarsins 2009 en Samfylkingin hefði síðasta árið fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 2010.

Nú tekur það verkefni við fyrir Sigrúnu Björk að gera embættið að sínu og sýna með því hver styrkur hennar sem stjórnmálamanns er í raun og veru. Hún hefur verið þekkt fyrir það í okkar hópi að vera vinnusöm og dugleg og nýtur þeirra kosta er hún heldur í þetta verkefni er Kristján Þór færir sig yfir í verkefnin á kjördæmavísu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur fannberg

innlitskvitt

Ólafur fannberg, 6.1.2007 kl. 23:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband