Bæjarstjóraskipti - kosningabarátta að hefjast

Kristján Þór Júlíusson Kristján Þór Júlíusson lætur af embætti bæjarstjóra hér á Akureyri síðdegis á morgun á bæjarstjórnarfundi eftir níu litrík ár á þeim stóli. Hann heldur þó ekki beinlínis í sólarfrí á fjarlægum slóðum við starfslokin, heldur tekur nú við hörð kosningabarátta næstu fjóra mánuðina í Norðausturkjördæmi. Í þeirri kosningabaráttu leiðir Kristján Þór framboðslista Sjálfstæðisflokksins og tekur við leiðtogahlutverkinu af Halldóri Blöndal.

Í morgun áttust þeir nafnar Kristján Þór og Kristján L. Möller, alþingismaður, sem leiðir sem fyrr framboðslista Samfylkingarinnar hér í kjördæminu, við á Morgunvaktinni á Rás 1. Það var fróðlegt og gott spjall. Segja má að baráttan sé nú að hefjast. Meginumræðuefni þeirra við upphaf kosningabaráttunnar var nýjasta skoðanakönnun Gallups á fylgi flokkanna hér í kjördæminu og um allt land. Það var greinilegt að Kristján Möller átti þar í nokkrum vandræðum með landsfylgi Samfylkingarinnar og vildi lítið ræða þau mál.

Það er skiljanlegt að forystumenn Samfylkingarinnar vilji lítið fara yfir landsfylgi Samfylkingarinnar. Flokkurinn er minni en VG í tveim kjördæmum, jafnstór honum í einu og minnstur allra flokkanna í einu kjördæmi. Samfylkingin mælist með 15 þingsæti nú, fimm færri en í kosningunum 2003. Það er því ekki beinlínis af mörgu að státa við þessa stöðu mála fyrir þann flokk nú. Hér í Norðausturkjördæmi mælist flokkurinn minni en í síðustu kosningum en fær þó þrjá í stað tveggja þingmanna, enda mælast þeir með jöfnunarsæti kjördæmisins nú. Þó er staða Samfylkingarinnar brothætt og merkilegt að heyra í Kristjáni Möller eins og staðan er nú.

Kristján Þór var léttur í þessu viðtali og horfir greinilega bjartsýn til kosninganna. Það er ekki undarlegt við þær aðstæður að Sjálfstæðisflokkurinn mælist flokka stærstur hér og bætir miklu fylgi við sig frá kosningunum 2003, sem voru ekki góðar fyrir flokkinn hér. Að sama skapi blasir afhroð við Framsóknarflokknum, sem mælist nú aðeins með einn mann inni, ráðherrann Valgerði.

Það virðist allt benda til þess að við sjálfstæðismenn séum að stefna í góðar kosningar hér; að Ólöf Nordal sé örugg inni á þingi og menn horfi til þess að ná Þorvaldi Ingvarssyni inn á þing í þessari stöðu. Það hlýtur að vera baráttumál okkar hér á þessum fyrstu vikum baráttunnar að vinna að því að fjórir sjálfstæðismenn fari hér inn á þing. Það er lykilmál nú, tel ég.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband