Pólitískur lífróður Valgerðar Sverrisdóttur

Valgerður Sverrisdóttir Ef marka má nýjustu könnun Gallups á fylgi flokkanna í Norðausturkjördæmi stefnir í að kosningabaráttan hér næstu vikurnar verði pólitískur lífróður Valgerðar Sverrisdóttur, utanríkisráðherra. Framsókn mælist aðeins með einn þingmann inni og hefur misst tæplega 20% fylgi og þrjú þingsæti. Um helgina munu frambjóðendur í tíu efstu sæti flokksins í kjördæminu í kosningunum 12. maí verða valdir á tvöföldu kjördæmisþingi í Mývatnssveit.

Þar stefnir í miklar breytingar, enda eru tveir þingmenn; Jón Kristjánsson og Dagný Jónsdóttir að draga sig í hlé. Jón er orðinn aldursforseti þingflokks Framsóknarflokksins eftir brotthvarf Halldórs Ásgrímssonar og hefur verið á þingi frá árinu 1984 en Dagný hefur aðeins setið eitt kjörtímabil á þingi og hljóta að teljast stórtíðindi að hún dragi sig í hlé eftir svo skamma þingsetu, en hún var presenteruð sem framtíðarefni flokksins hér í síðustu kosningum, eins og kunnugt er.

Valgerður Sverrisdóttir gefur ein kost á sér í fyrsta sæti framboðslistans og er örugg um sætið. Þrátt fyrir þá staðreynd vekur verulega athygli að Valgerður hefur opnað kosningaskrifstofu í göngugötunni og er þar með dagskrá alla daga og fjölda fyrirlestra um ýmis mál þessa vikuna og mikið líf og fjör. Skrifstofan er til húsa á sama stað og Kristján Þór Júlíusson, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og fráfarandi bæjarstjóri á Akureyri, var með prófkjörsskrifstofu í nóvember, í baráttu sinni við Arnbjörgu Sveinsdóttur og Þorvald Ingvarsson um það hver tæki við af Halldóri Blöndal. Ekki á Valgerður von á baráttu af því tagi.

Í síðustu kosningum vann Framsóknarflokkurinn afgerandi sigur; hlaut fjóra þingmenn og yfir 30% fylgi. Nú stefnir í afhroð, sé Gallup að mæla það sem er að gerast. Það hlýtur að valda Valgerði vonbrigðum. Hún mun veikjast mjög í sessi fái flokkurinn skell af þessu tagi. Því má líta svo á að opnun kosningaskrifstofu Valgerðar sé umfram allt leið hennar til að minna á sig á þessu svæði og reyna að peppa upp flokkinn í kjördæminu. Varla virðist veita af.

Flestir virðast hér ganga að því sem gefnu að þetta sé síðasta kosningabarátta Valgerðar og hún leggi nú allt í sölurnar fyrir gott gengi. Miklar breytingar blasa við með brotthvarfi beggja austfjarðaþingmanna Framsóknarflokksins og uppstokkun alveg augljóslega framundan á kjördæmisþinginu um helgina. En varla er verið að berjast upp á fleiri en tvö sæti nú, en væntanlega mun Birkir Jón, eini sitjandi þingmaður flokksins hér utan Valgerðar sem fer fram, hreppa það sæti.

En væntanlega telst þetta pólitískur lífróður. Valgerður hefur áður tekið slaginn og átt bæði góða og slæma daga pólitískt. Innan við ár er liðið síðan að Valgerður náði þeim sögulegum áfanga að verða utanríkisráðherra fyrst kvenna. Nú er spurning hvort að sú vegtylla verði henni sigursæl eða pólitísk bölvun sökum mikillar fjarveru erlendis.

Valgerður verður utanríkisráðherra - 10. júní 2006

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband