Afleitt upphaf sænskra hægrimanna við völd

Fredrik Reinfeldt Ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst sænsku borgaraöflin hafa farið illa af stað við völd eftir að þau fengu hið gullna tækifæri eftir þingkosningarnar í september. Eftir tólf ára stjórnarandstöðu bjóst maður við miklu frá Reinfeldt og hans fólki, en mikil vonbrigði einkenna stöðu mála. Skandalar hafa verið áberandi og fyrsta vikan var sérstaklega vond en þá hrökkluðust tveir ráðherrar; Cecilia Stegö Chilò og Maria Borelius, úr stjórninni.

Staða Carl Bildt er ekki sterk þessa dagana. Hann virðist fastur í viðjar hneykslismáls og stefna hratt niður á við. Nýjustu fréttir um að hann hafi misst stjórn á skapi sínu í viðtali boðar ekki neitt gott, hvorki fyrir hann né sænsku ríkisstjórnina. Ég persónulega batt miklar vonir við endurkomu Bildt í sænsk stjórnmál. Hann stóð sig ágætlega sem forsætisráðherra á tíunda áratugnum og sem sáttasemjari síðar á Balkanskaganum. Hann var ídeal valkostur í embætti utanríkisráðherra. Það þurfti reyndan mann úr alþjóðastjórnmálum og mann með þekkingu í það embætti í stað Jans Eliassons.

Skv. nýjustu skoðanakönnunum hafa borgaralegu flokkarnir ekki meirihluta á bakvið sig. Það er skiljanlegt svosem eftir allan vandræðaganginn. Kosningar eru nýlega afstaðnar og enn tæp fjögur ár til kosninga. Það verður fróðlegt að sjá hvernig að þau ganga fyrir sig en ég spái því að ef ekki batni verulega yfir borgaralegu flokkunum og þau fari ekki að sýna alvöru verk og sterka forystu sem þörf er á muni illa fyrir þeim fara. Byrjunin er afleit en framhaldið veltur á næstu mánuðum og hvernig þá muni ganga.

Þessi hneykslismál hafa verið gjörsamlega óverjandi og sýna mikinn siðferðisbrest, sem er ólíðandi að sé til staðar í opinberu embætti að mínu mati. Ég dreg enga dul á að þetta hefur verið vond byrjun fyrir borgaralega og stjórn þeirra, og mikið pólitískt áfall fyrir Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, sem má ekki við frekari vandræðagangi eigi ekki illa að fara fyrir honum og stjórn hans strax í upphafi.

mbl.is Bildt ógnaði sænskum fréttamanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband