Siðferðisleg skylda útrásarvíkinganna

Mér finnst Bjarni Ármannsson sýna gott fordæmi með því að rjúfa þögnina: endurgreiða Glitni, bæði nú og þegar hann greiddi hluta af frægum starfslokasamningi sínum. Með því viðurkennir Bjarni ábyrgð sína, fyrstur hinna margfrægu útrásarvíkinga, og þátttöku í sukkinu sem hefur sett landið á hausinn. Þetta kalla ég að taka ábyrgð á fallinu og allavega sýna lit, eitthvað annað en blaður út í bláinn. Framkoma hans er óverjandi og mun fylgja honum eftir, þó þessi ákvörðun ein og sér hafi fært honum einhvern frið frá mestu umræðunni.

Útrásarvíkingarnir hafa verið á flótta eftir bankahrunið. Sumir hafa farið í upphafin viðtöl í sjónvarpi og reynt að snúa okkur enn einn hring í blekkingarhringekju sinni með misgóðum árangri, þeir hafi ekki vitað að þetta hafi verið svona skelfilega slæm staða og hafi reynt sitt besta. Aðrir hafa ritað blaðagreinar til að telja öllum trú um að þeir hafi nú ekki verið svo slæmir og hafi bara verið að sinna sínum störfum. Eftir stendur þó sú staðreynd að þessir menn komu þjóðinni á hausinn. Niðurlæging hennar er algjör.

Aðalmálið nú er þó ekki orðagjálfur eða pínlegar afsakanir heldur það að auðmennirnir sem fengu digra starfslokasamninga og settu þjóðina á kaldan klakann í orðsins fyllstu merkingu borgi til baka og leggi lið. Það er siðferðisleg skylda þessara manna. Bjarni hefur átt góðan leik en fjarri því er að hann sé laus úr þessu máli. Vörn hans var vandræðaleg þrátt fyrir þessi útspil.

Eftir alla samningana og sukkið er komið nóg og tími til kominn að þessir menn svari fyrir ævintýralega framgöngu sína, sem hefur skaðað þjóðina í heild sinni.

mbl.is Bjarni endurgreiðir Glitni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband