Mun Al Gore snúa aftur?

Al Gore Um þessar mundir eru sex ár síðan að Al Gore hvarf úr miðpunkti stjórnmálaumræðu eftir að hafa naumlega mistekist að verða forseti Bandaríkjanna í jöfnustu forsetakosningum í sögu landsins. Nú er talað um pólitíska endurkomu hans og hvort hann muni gefa kost á sér í forkosningum demókrata, sem hefjast eftir ár, við val á forsetaefni flokksins. Al Gore hlaut fleiri atkvæði í forsetakosningunum 2000 á landsvísu en George W. Bush en mistókst að sigra í fleiri fylkjum Bandaríkjanna og tapaði því í kjörmannasamkundunni.

Eins og flestir vita er forsetakjörið í Bandaríkjunum kosning á kjörmönnum fylkjanna. Þeir sem sigra í sem flestum fylkjum hljóta Hvíta húsið. 270 kjörmenn þarf til að hljóta hnossið. Í 36 daga börðust Gore og Bush hatrammlega eftir kjördag fyrir því að hljóta 25 kjörmenn Flórída-fylkis. Þar réðust örlögin. Gore var framan af örlagaríkri kosninganótt spáð sigri þar. Allar stóru fréttastöðvarnar hlupu á sig og urðu að bakka frá spádómnum. Bush hlaut fylkið er á hólminn kom en með nær engum teljanlegum mun. Flórída varð fylki örlaganna í kosningunum.

Gore ákvað að véfengja þau úrslit er ljóst varð að innan við 1000 atkvæði skildu að. Fór hann fyrir dómstóla með mál sitt og reyndi að hnekkja staðfestum úrslitum í fylkinu og krafðist algjörrar endurtalningar allra atkvæðaseðla. Eftir lagaströggl og deilur í tæpa 40 daga viðurkenndi Gore loks ósigur sinn þann 13. desember 2000 eftir að hæstiréttur Bandaríkjanna hafði fellt þann úrskurð sinn að Bush hefði unnið Flórída og ekki yrði um frekari endurtalningar að ræða. Dómurinn var þó ekki einróma í því mati og skiptist eftir frægum sögulegum fylkingum í forsetatíð William H. Rehnquist í réttinum, árin 1986-2005. Gore fór sár af velli átakanna. Naumari gat tapið ekki orðið.

Richard M. Nixon og Al Gore eiga það sameiginlegt að hafa tapað naumlega forsetakosningum meðan að þeir gegndu embætti varaforseta. Báðir tóku þeir tapið gríðarlega nærri sér. Merkilega margt er líkt með sálrænu áfalli þeirra eftir tapið. Nixon tapaði fyrir John F. Kennedy með svo naumum hætti að lengi vel var óvíst um úrslitin. Deilt var um úrslitin í Illinois meðal annars. Ólíkt Gore véfengdi Nixon ekki stöðu mála þar og bakkaði frá stöðu mála. Ósigur Gore var mun tæpari en Nixons fjörutíu árum áður. Það hefur margt verið rætt og ritað um tap Nixons. Hann var brennimerktur af því alla tíð. Gore gekk í gegnum svipaðan sálrænan öldudal.

Nixon tókst að eiga sér endurkomu. Hann gaf kost á sér í forsetakosningunum 1968. Framan af benti flest til þess að keppinautur hans í kosningunum yrði Robert F. Kennedy, bróðir Kennedys forseta, sem sigraði Nixon átta árum áður. Það hefði orðið söguleg rimma og athyglisverð. Af henni varð ekki. Kennedy var myrtur í Los Angeles eftir forkosningasigur í júní 1968 með sama sjónræna skelfilega hættinum í kastljósi fjölmiðlanna og bróðir hans fimm árum áður. Keppinautur Nixons varð Hubert Humphrey, varaforseti Johnson-stjórnarinnar. Nixon vann kosningarnar naumlega. Forsetaferill hans varð stormasamur en honum tókst að ná endurkjöri árið 1972.

Richard Nixon neyddist til að segja af sér vegna Watergate-hneykslisins árið 1974, fyrstur forseta í sögu landsins. Það voru söguleg endalok en forsetaferill hans lamaðist vegna þessa umdeildasta pólitíska hneykslismáls sögunnar. Það verður seint sagt að Nixon og Gore eigi pólitískt margt sameiginlegt. Um margt voru þeir sem dagur og nótt. Bitur reynsla þeirra við tap í forsetakosningum er þó kaldhæðnislega lík þegar á er litið. Báðir mörkuðust þeir alla tíð af tapinu. Nixon tókst að eiga sér endurkomu og eiga söguleg ár á forsetastóli, með mörgum afrekum á vettvangi utanríkismála. Þau féllu þó öll í skugga pólitískra endaloka hans, en valdaferlinum lauk með skömm.

Al Gore er sagður vera að hugsa stöðu sína. Margir telja hann eitt sterkasta forsetaefni flokksins þrátt fyrir mistækan stjórnmálaferil sem markast af góðum og slæmum dögum í stjórnmálum. Lykiltromp Gore er fyrst og fremst pólitísk reynsla. Hann var varaforseti Bandaríkjanna á tímum Clinton-stjórnarinnar 1993-2001 og hefur reynslu á vettvangi alþjóðastjórnmála og málum í Washington. Barátta hans í umhverfismálum hefur líka markað honum aðra tilveru sem gæti orðið honum drjúg er á hólminn kemur.

Það verður fróðlegt að sjá hvort að hann snýr aftur á pólitíska sviðið í aðdraganda kosninganna þar sem eftirmaður keppinautar hans í sögulegustu forsetakosningum Bandaríkjanna frá upphafi verður valinn.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband