Sigrún Björk tekur við embætti bæjarstjóra

Sigrún Björk Jakobsdóttir Sigrún Björk Jakobsdóttir verður í dag fyrsta konan á bæjarstjórastóli í sögu Akureyrarkaupstaðar. Hún tekur við embættinu af Kristjáni Þór Júlíussyni á bæjarstjórnarfundi sem hefst kl. 16:00. Hún verður leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Akureyrar samhliða því. Sigrún Björk hefur setið í bæjarstjórn frá árinu 2002 og hefur verið forseti bæjarstjórnar frá því í júní 2006.

Það er alveg ljóst að leiðtogaskiptin innan Sjálfstæðisflokksins marka nokkur þáttaskil í bæjarmálunum. Kristján Þór hefur leitt Sjálfstæðisflokkinn í áratug og verið bæjarstjóri frá 9. júní 1998. Sigrún Björk varð önnur í prófkjöri flokksins í febrúar á síðasta ári og hlaut ein, utan Kristjáns Þórs, bindandi kosningu þar. Hún hefur setið í stjórn Sjálfstæðisfélags Akureyrar og verið áberandi í öllu flokksstarfinu hér.

Það er að mínu mati mikið gleðiefni að Sjálfstæðisflokkurinn eigi fyrsta kvenkyns bæjarstjórann í sögu Akureyrar. Þetta er því merkilegur dagur í bæjarmálunum hér. Kristján Þór Júlíusson tekur við sem forseti bæjarstjórnar samhliða því að hann víkur sem bæjarstjóri. Uppstokkun verður á nefndum og ráðum. Hjalti Jón Sveinsson, bæjarfulltrúi, tekur sæti Sigrúnar Bjarkar í bæjarráði og Elín Margrét Hallgrímsdóttir, bæjarfulltrúi, tekur sæti í framkvæmdaráði, stjórn Fasteigna Akureyrarbæjar og verður formaður stjórnar Akureyrarstofu, auk þess að gegna formennsku í skólanefnd. 

Þetta er stór dagur í bæjarmálunum. Sigrún Björk Jakobsdóttir verður tíundi bæjarstjórinn í sögu Akureyrarkaupstaðar, frá árinu 1919, og fyrsta konan. Því fylgja mikil tímamót. Ég vil óska Sigrúnu Björk Jakobsdóttur innilega til hamingju með embættið. Við höfum átt langt samstarf í flokksstarfinu hér og unnið saman í mörgum verkefnum. Ég þekki hana því vel og veit því vel að hún á eftir að verða mjög áberandi og öflug í þessu krefjandi verkefni.

Sigrún Björk var í góðu viðtali hjá morgunhönunum Gesti Einari og Huldu Sif hér á Akureyri í morgun. Bendi lesendum á að hlusta á viðtalið.

mbl.is Nýr bæjarstjóri tekur við á Akureyri í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sigrún í "góðu viðtali" hjá Gesti og Huldu segir þú.  Mér fannst þetta nú vera algerlega fáránlegt viðtal, eins og reyndar stærstur hluti þess fréttaflutnings sem hefur verið uppi um bæjarstjóraskiptin á Akureyri.  Viðtalið snérist að mestu leiti um það hvernig hinn nýji bæjarstjóri ætlaði að klæðast í starfi og hvort hún ætlaði að andlitsmála sig meira eða minna en hingað til.  Hvaða andsk.. máili skiptir það?  Og hvaða máli skiptir yfirleitt hvort bæjarstjóri Akureyrar er karl eða kona?  Svona málflutningur er vatn á millu ofstækisfullra kvennrembinga sem kalla sig femínista.  Þoli ekki svona kynja-kjaftæði.   

Vil þó að lokum taka fram að mér finnst Gestur Einar nær undantekningalaust mjög fínn útvarpsmaður.

Friðrik Vilhelmsson (IP-tala skráð) 10.1.2007 kl. 10:22

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Tek undir það að pólitíkin hefði getað verið meira áberandi í þessu viðtali. Hinsvegar er þetta dagur gleði fyrir nýjan bæjarstjóra. Nú reynir á forystu hennar. Skipulagsmálin verða hér mál málanna og fróðlegt með þeim að fylgjast. Hún fær eins og aðrir sína gleðidaga í byrjun en svo taka hörðu verkin við og þá fyrst er hægt með alvöru að vega og meta hvernig viðkomandi stendur sig. Það líður að þeim dögum og viðkomandi verður metinn eins, sama hvort hvort um er að ræða konu eða karl.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 11.1.2007 kl. 21:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband