Getur Ólafur Ragnar bjargað forsetaembættinu?

Ólafur Ragnar Grímsson var ekki öfundsverður af því hlutskipti að tala til þjóðarinnar frá Bessastöðum eftir að forsetaembættið var gagnrýnt harkalega en þó verðskuldað í áramótaskaupinu. Ólafur Ragnar hefur í forsetatíð sinni gengisfellt forsetaembættið gríðarlega og veikt stöðu þess, sérstaklega síðasta árið þegar útrásardekrið sprakk framan í hann.

Virðing þjóðarinnar fyrir forsetaembættinu er ekki lengur til staðar og embættið er ekki lengur táknmynd sameiningartákns allra landmanna. Þátttaka Ólafs Ragnars í hinni misheppnuðu útrás hefur sérstaklega leikið embættið grátt - maðurinn á forsetavakt nýtur ekki þjóðarvirðingar.

Þetta kemur vel fram í áramótaskaupinu. Hægt og rólega hafa grínistar verið að vega meira að forsetaembættinu, sem mátti aldrei gera grín að áður. Eina dæmið um alvöru grínsneið til þess var þegar Edda Björgvins lék Vigdísi í góðu skaupi árið 1994 og fékk skammir fyrir.

Ólafur Ragnar á tvo kosti í stöðunni nú: að hugsa um þjóðina eða vinstrimenn á valdastóli. Ef hann vísar Icesave til þjóðarinnar getur hann bjargað stöðu embættisins að einhverju leyti og yrði sumpart hetja þeirra tugþúsunda sem hafa kallað eftir þjóðaratkvæði.

Erfitt er að lesa í orð hans í dag... en freistandi að líta svo á að hann hafi sent stjórnmálamönnum fyrr og nú sneið í dag, talað gegn flokksvaldi og yfirboðum. Þau orð eiga vel við í dag eftir vinnuferlið í Icesave-málinu þar sem þjóðin er klofin í fylkingar.

Sé hann sjálfum sér samkvæmur er valið einfalt. Sjálfur markaði hann spor í fjölmiðlamálinu. Nú er þjóðin að kalla eftir þjóðaratkvæði af mun meira krafti. Icesave-málið verður prófsteinn á hvort forsetinn hugsar um þjóðina eða stjórnmálamennina.

Hann mun breyta stöðu sinni og embættisins mjög með því að hugsa um þjóðina framar öllu öðru - gefa henni valdið til að taka hina stóru ákvörðun. Forsetinn hlýtur að treysta þjóðinni.

mbl.is Vilji þjóðarinnar hornsteinninn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband