Sviptingar í Íhaldsflokknum - Boris ekki í framboð

Öllum að óvörum hefur Boris Johnson, fyrrum borgarstjóri í London, ákveðið að gefa ekki kost á sér sem leiðtogi breska Íhaldsflokksins. Ótrúlegar sviptingar, einkum í ljósi þess að Boris var helsta andlit Brexit-hópsins sem sigraði kosninguna um ESB-aðild Bretlands og leiddi baráttuna mikilvægasta sprettinn. Hann tók slaginn gegn David Cameron, forsætisráðherra, og hafði sigur í harðvítugri rimmu og lék lykilhlutverk í ósigri forsætisráðherrans, sem féll á sverðið eftir baráttuna.

Síðustu daga hafði verið sjálfgefið að Boris myndi rúlla upp leiðtogakjörinu og verða næsti forsætisráðherra og hafa betur gegn Theresu May, innanríkisráðherra. May hefur verið lykilmanneskja í ráðuneyti Cameron, innanríkisráðherra öll sex valdaár hans og verið mjög farsæl og setið lengst allra í ráðuneytinu í rúm 100 ár. Hún hefur mikinn stuðning í kjarnanum og sameinar andstæðinga Boris.

En pólitík er lúmsk og vika er langur tími í pólitík. Michael Gove sem stóð við hlið Boris í Brexit-baráttunni hafði verið talinn augljós arkitekt kosningabaráttu Boris og kandidat hans í fjármálaráðuneytið. Gove sneri baki við David Cameron með forystu sinni í Brexit hópnum og alkul í samskiptum þeirra, en Gove hafði verið náinn honum og guðfaðir Ivan, sonar forsætisráðherrans.

Þáttaskil í slagnum urðu er Gove og Boris náðu ekki saman um strategíu til að vinna úr sigri Brexit. Gove tilkynnti sjálfur um framboð og stakk Boris í bakið. Cameron og Osborne hafa greinilega leikið þátt í þessari fléttu og ná með því að slá Boris niður - óþægilegan keppinaut sem gerði út af við feril þeirra beggja.

Sigurvegararnir í þessari fléttu eru tveir:

Theresa May sem skyndilega er orðin líklegust til að hreppa hnossið og verða önnur konan á forsætisráðherrastóli á eftir Margaret Thatcher. Ný járnfrú gæti verið á leið í Downingstræti. Hún virðist samkvæmt könnunum njóta mikils fylgis og gæti orðið ansi öflugur forsætisráðherra.

George Osborne fjármálaráðherra gat ekki gefið kost á sér sjálfur til forystu. Hans pund féll með sterlingspundinu og stefndi í pólitísk endalok. Með því að splitta upp Gove og Boris hefur honum tekist að eygja von á að vera lykilmaður áfram með Gove eða May í Downingstræti. Áhrif hans virðast tryggð áfram hvernig sem fer. Hann hefði aldrei haldið embættinu hjá Boris.

Þetta verður hörð barátta og getur farið á hvorn veginn sem er. Theresa May og Michael Gove munu berjast um hnossið. Gove minnir um margt á John Major, hinn þögli kandidat sem sprettur fram úr skugganum og nær fullum völdum þvert á spár.


mbl.is Johnson gefur ekki kost á sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ævintýrið mikla í Frakklandi

Ævintýrið mikla hjá strákunum okkar á EM í Frakklandi heldur áfram með glæsibrag. Yndislegt var að sjá þá ná traustum en sögulegum sigri gegn enska landsliðinu nú í kvöld. Þar gekk allt upp en skipbrot hins forna stórveldis Englands var algjört. Samstaða þjóðarinnar hefur sjaldan náð meiri hæðum en nú - stórfenglegt að sjá hvernig strákunum hefur tekist að koma öllum á óvart með magnaðri frammistöðu sinni og stimpla sig inn sem eitt bestu liðanna í Evrópu.

Þetta er sérstaklega magnaður árangur eftir öll hin mögru ár landsliðsins forðum daga og í raun hefði engum órað fyrir slíkum árangri þegar liðið var í mikilli krísu fyrir örfáum árum og tekin var sú djarfa ákvörðun að leita til útlendings um að þjálfa liðið. Innkoma Lars Lagerback hefur verið magnþrungin, allt frá fyrsta leik hans var ljóst að þáttaskil voru í vændum og liðið blómstraði svo út í undankeppni fyrir HM 2014.

Mikil vonbrigði voru að komast ekki á HM eftir leiðinlegt tap gegn Króatíu í samanlögðu einvígi heima og utan. Freistandi var þá að óttast hið versta, að niðursveifla tæki við og uppgjöf kæmi í liðið. Öðru nær. Liðið hélt áfram að bæta sig, vann magnaða sigra, gerði nokkur jafntefli og tókst að tryggja EM sætið með sönnum bravúr, nokkrum leikjum fyrir lok undankeppninnar.

Væntingar fyrir EM hafa verið miklar, en samt voru landsmenn rétt fyrir mótið farnir að stilla sig og vonuðust aðeins eftir viðunandi lágmarksárangri, að engin yrði niðurlægingin. Strax við tvö jafntefli var vonin um að komast upp úr riðlinum fyrir hendi og sætur sigur gegn Austurríki kórónaði velgengnina. Væntingar fyrir leikinn gegn Englendingum voru því miklar. 

Strákarnir hafa staðist álagið með sóma, sýnt hversu traust heild þeir eru. Þetta mátti sjá í góðri mynd Sölva Tryggvasonar og Sævars Guðmundssonar, Jökullinn logar, þar sem saga liðsins frá lokum undankeppni EM til Frakklandsferðarinnar er rakin með bravúr, sérlega vel klippt og góð mynd. Þar sést hversu samhentur hópurinn er. Slík samstaða er forsenda fyrir árangri og gefur væntingar um fleiri sigra á komandi árum.

Ein lykilforsenda þess er góður stuðningur íslensku þjóðarinnar. Tólfan hefur verið traustur aðili í þessum árangri - sérstaklega er magnað að sjá hvernig hópurinn hefur náð að peppa upp alla áhorfendur og þjóðina með því að lyfta þjóðsöngnum okkar í hæstu hæðir og vekja gamla smellinn, Ferðalok (Ég er kominn heim) með Óðni Valdimarssyni til lífsins að nýju. Þetta er auðvitað ekkert nema tær snilld.

Nú er einvígi við Frakka í augsýn, um næstu helgi, á þjóðarleikvanginum sjálfum. Væntingar þjóðarinnar eru í hámarki og öll þjóðin fylgir liðinu okkar eftir, hvort sem er ytra eða hér heima. Samstaðan er einlæg traust og sönn. Þetta vekur athygli um alla álfuna og þó víðar væri leitað. Við erum að rita nýjan kafla í íþróttasögu okkar, sem og knattspyrnusöguna sjálfa. Litla stórþjóðin er mætt til leiks.

Við erum sigurvegarar hvernig sem fer um næstu helgi. Afrekið verður stórt hvernig sem fer og við verðum ekki vanmetin aftur. Þetta er ævintýrið okkar - megi það vara sem lengst.


mbl.is Ísland áfram eftir sögulegan sigur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr forseti - hugleiðing að loknu forsetakjöri

Ég vil óska nýjum forseta til hamingju með kjörið. Honum fylgja allar góðar óskir með vonum um farsæld honum og þjóðinni til heilla í önnum á forsetavakt. Embætti forseta Íslands er alltaf í mótun. Mikilvægt embætti þegar á reynir. Það sást vel á örlagatímum í forsetatíð Kristjáns Eldjárn og Ólafs Ragnars Grímssonar. Þjóðhöfðinginn þarf að skynja hjartslátt þjóðar, hafa sannfæringu, kraft og þor bæði á ljúfum stundum og þegar móti blæs.

Halla Tómasdóttir átti magnaða lokaviku í baráttunni og náði verðskuldað að vega að forskoti sigurvegarans sem átti dapran lokasprett og hefði örugglega tapað væri kosið t.d. að viku liðinni. Um leið sópaði hún fylgi til sín og var að sameina marga með sér, betur en aðrir. 

Er stoltur af Davíð og hafa stutt hann í þessari vegferð - einlægni hans og hreinlyndi kom vel fram í uppgjörinu við úrslitin. Nú vil ég gjarnan að hann skrifi ævisögu sína og geri upp við liðna tíð og skelli í smásagnabók og skáldsögu. Hann er snilldarpenni og einlægur í því sem hann skrifar og gerir. Sannur heiðursmaður sem ég met mikils.

Stóra lexían að loknu forsetakjöri er þó sú að gera verður breytingar á umgjörð kjörsins. Forsetaefni eiga að safna mun fleiri meðmælendum og njóta meira fjöldafylgis og um leið verðum við að tryggja að forseti sé kjörinn með meirihluta greiddra atkvæða, hvort sem kosið verður í tveimur umferðum eða tekin upp írska leiðin með fyrsta og öðru vali og talið þar til sigurvegarinn nær meirihlutastuðning. 

Viðtal við fráfarandi forseta var eitt af stærstu augnablikum kosningavökunnar. Það er ekki öfundsvert fyrir nýjan forseta að taka við af Ólafi Ragnari, sem hefur með mælsku sinni og forystuhæfileikum verið traustur á forsetavaktinni. Hann getur farið sáttur frá Bessastöðum eftir góða forsetatíð.

Ég kaus ekki Ólaf Ragnar árið 1996 en dáðist mjög sérstaklega af framgöngu Guðrúnar Katrínar sem var sannur sigurvegari þeirrar baráttu og var glæsileg forsetafrú meðan hennar naut við. Andlát hennar var reiðarslag fyrir þjóðina og Ólafur hélt áfram án hennar, bæði umdeildur og einlægur í sínum verkum, síðar með Dorrit sér við hlið, glæsileg og einlæg kona sem þjóðin varð skotin í. Ekki var auðvelt að feta í fótspor Guðrúnar en henni tókst það með sóma.

Var oft ósáttur við Ólaf en líka oft sáttur. Hann var traustur þjónn þjóðarinnar, byggði traust samband við fólkið í landinu og hélt tryggð við hinar dreifðu byggðir í öllum sínum verkum. Í síðustu kosningum sínum kaus ég hann - þar réði mestu hversu vel hann stóð sig í Icesave-málinu.

Þar stóð hann vaktina fyrir þjóðina þegar aðrir brugðust. Hann þorði að verja málstað þjóðarinnar, taka slaginn og snúa taflinu við. Framganga hans þar verður lengi í minnum höfð. Ég vona að nýr forseti höndli viðlíka aðstæður með slíkum sóma þegar á reynir. Við vonum öll það besta.

 

mbl.is Guðni verður yngsti forsetinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsetakjör

Ég styð Davíð Oddsson í forsetakjöri í dag. Um leið og hann gaf kost á sér til embættisins var ég ákveðinn í því að styðja hann og tala máli hans í þessum kosningum. Davíð hef ég alltaf stutt til verka og metið mikils sannfæringu hans, kraft og þor í pólitísku starfi.

Ég gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn um leið og ég hafði aldur til 15 ára gamall. Þar réði mestu að Davíð leiddi þann flokk og mótaði starf hans, maður með alvöru hugsjónir sem mér líkaði. Davíð er sannur leiðtogi, hefur verið farsæll forystumaður í pólitísku starfi, leiddi menn saman til verka, vissulega umdeildur og ákveðinn en um leið má treysta að hann þorir og hikar ei.

Ég vil forseta sem getur tekið erfiðar ákvarðanir, hefur sannfæringu þegar á reynir og er ekki á flótta frá skoðunum sínum - stendur vörð um sjálfstæði þjóðarinnar, hefur reynslu af samskiptum við erlend ríki - forseta sem mun standa með þjóðinni á örlagastundu eins og fráfarandi forseti gerði með svo miklum glæsibrag.

Sá valkostur er Davíð Oddsson. Hann er traustsins verður.


mbl.is Sjötti forsetinn kjörinn í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband