Boris í lykilráðuneyti - klókindi hjá Theresu May

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, er klók að skipa Boris Johnson sem utanríkisráðherra. Með því heldur hún keppinaut um völdin innan flokksins við efnið í lykilráðuneyti við ríkisstjórnarborðið - hann verður því að standa í verkunum á vaktinni í stað þess að vera óþægilegur gagnrýnandi á hliðarlínunni. Boris átti sennilega ekki von á þessu mikla embætti og leit út fyrir að vera undrandi á vegtyllunni í kvöld.

Boris er umdeildur stjórnmálamaður, á auðvelt með að ná athygli fjölmiðla og tala í fyrirsögnum. Sá eiginleiki byggði hann upp sem pólitíkus á eigin forsendum. Hann virkaði ekki sannfærandi í þinginu forðum daga og hann fann sinn farveg sem litríkur borgarstjóri í London í átta ár. Hann er nú aftur kominn á vettvang þingsins en ekki verið líklegur til að fúnkera sem hliðarmaður í lykilráðuneyti. Þar er hann óreyndur og óskrifað blað.

Margir innan Íhaldsflokksins telja hann ótækan til forystustarfa og sást það í vægðarlausri atlögu Michael Gove að honum - kaldrifjaðri rýtingsstungu sem vandlega var stýrt af innsta kjarna fráfarandi forsætisráðherra og heppnaðist að vissu leyti en Boris sá við þeim með því að fara úr leiðtogaslagnum og halda virðingu sinni. Atlagan var gerð til að ganga frá honum og gera hann hjákátlegan kjána sem yrði auðmýktur.

May veit sem er að Boris yrði henni óþægur ljár í þúfu sem óbreyttur þingmaður sem gæti veitt henni skráveifu sem hávær álitsgjafi fjölmiðla sem ekki þarf að bera byrðina. Hún setur Boris því í væna pressu við valdaborðið - nú þarf hann að höndla samskipti við erlend ríki, ferðast um heiminn og taka að sér verkefni fjarri heimahögum sem verða honum krefjandi. Annað hvort mun hann falla í þessum krefjandi verkefnum eða rísa til frekari valda, svo mikið er ljóst.

Örlög George Osborne, pólitísks fóstbróður David Cameron, eru háðugleg. Hann missir fjármálaráðuneytið og fær ekki annað verkefni í ríkisstjórn - sparkað frekar kuldalega. Osborne var fyrir nokkrum mánuðum talinn líklegur eftirmaður Camerons en féll í Brexit-sigrinum. May sendi honum væna pillu í ræðu við komuna í Downingstræti og ætlar greinilega að breyta hressilega um taktík í fjármálaráðuneytinu með því að setja Philip Hammond þar inn.

Í fyrsta skipti í breskri stjórnmálasögu skipa tvær konur samtímis tvö af valdamestu embættum ríkisstjórnarinnar. Amber Rudd tekur við af May sem innanríkisráðherra - við getum átt von á að margar konur fái ráðherraembætti er tilkynnt verður um önnur ráðherraembætti á morgun. Svo vekur óneitanlega athygli að gamall fjandvinur David Cameron, David Davis, sem tapaði fyrir honum í leiðtogakjörinu 2005 og lenti upp á kant við hann í skuggaráðuneytinu 2008, fær uppreisn æru og mun leiða ESB útgönguna sem Brexit-ráðherra. Svo fær Liam Fox sem var rekinn af Cameron 2011 aftur ráðherraembætti.

May markar því kúrsinn strax á fyrstu klukkustundunum. Hún ætlar að stjórna á eigin forsendum og tekur viðsnúning frá Cameron-árunum - slær af helsta samstarfsmann hans síðasta áratuginn og sendir hann á öftustu þingbekkina, rekur alla helstu spunameistara Camerons í Downingstræti og reisir aftur til virðingar forna fjandmenn hans. Hún verður sönn járnfrú annarra hægrigilda en David Cameron stóð vörð um.


mbl.is Johnson skipaður utanríkisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvennabylgja fylgir Theresu May í Downingstræti 10

Theresa May fetar í dag í fótspor Margaret Thatcher sem önnur konan á forsætisráðherrastóli í Bretlandi. Hún verður þrettándi forsætisráðherrann í valdatíð Elísabetar II Englandsdrottningar, sem hefur ríkt frá árinu 1952. Eins og ég rakti um daginn var ég viss um að hún yrði forsætisráðherra þegar Boris Johnson féll frá leiðtogaframboði eftir atlögu Michael Gove. Aðeins hún og Boris höfðu þann styrk og myndugleik sem þurfti til að taka við af David Cameron.

Hef áður á þessum vettvangi rakið feril May sem er stórglæsilegur bæði innan Íhaldsflokksins sem og í stjórnmálastarfi almennt. Hún er vel að starfinu komin og líkleg til að verða öflugur leiðtogi hægrimanna í Bretlandi hvort sem kosið verður á næstu mánuðum eða 2020 sitji hún út fullt kjörtímabil. Verkamannaflokkurinn er í algjörri upplausn pólitískt innan og utan valdakjarnans í Westminster og ekki líklegt að hann verði mikil ógn í bráð.

Þegar Margaret Thatcher varð forsætisráðherra í maí 1979 var hún eini kvenkyns ráðherrann og innkoma hennar í leiðtogahlutverk innan Íhaldsflokksins og síðar í Downingstræti 10 söguleg í ljósi karlaveldisins í breskum stjórnmálum. Hún bauð karllægu valdakerfi byrginn og hafði sigur, sem var meiriháttar pólitískt afrek á þeim tímum. Thatcher var hörkutól og mjög leitt að hún náði ekki að lifa þennan dag að kona tæki að nýju við valdataumum í Bretlandi.

Afrek hennar var mikið og segir margt að þegar hún hætti 1990 þótti mörgum ósennilegt að kona næði aftur embættinu næstu hálfu öldina jafnvel. Árin urðu 26 þar til kona kom aftur sem forsætisráðherra í Downingstrætið og segir reyndar margt um sögulegt afrekið núna að báðir lokavalkostir hægrimanna um forsætisráðherraembættið voru konur.

Theresa May verður forsætisráðherra á öðrum, breyttum og betri tímum en Margaret Thatcher forðum daga. Nýr forsætisráðherra mun eflaust setja sitt mark á embættið og koma með aðrar konur með sér í lykilembætti nú, eitthvað sem hefði verið óhugsandi árið 1979 þegar einu valkostir Thatcher í lykilstöður voru einmitt allt karlmenn.

May er hörkutól í pólitísku starfi og mun láta til sín taka, þekkt fyrir að vera sönn kjarnakona sem fer eigin leiðir alls óhrædd. Nú verður kona forsætisráðherra í Bretlandi, kona er kanslari í Þýskalandi og mjög líklegt að Hillary Clinton verði bráðlega forseti Bandaríkjanna fyrst kvenna.

Þetta eru sannarlega áhugaverðir tímar í pólitísku starfi og verður gaman að fylgjast með þeim, sérstaklega Theresu May er hún fetar fyrstu skrefin í nýju embætti og mun setja mark sitt á þau strax með ráðherravalinu. Hún verður töff í sínu hlutverki.


mbl.is Hverjir verða í ríkisstjórn May?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Theresa May á leið í Downingstræti 10

Eftir fyrstu umferð í leiðtogakjöri breska Íhaldsflokksins leikur enginn vafi á því að Theresa May er líklegasti eftirmaður David Cameron sem forsætisráðherra Bretlands og flokksleiðtogi. Hún hefur meirihlutaastuðning í þingflokknum, 100 atkvæða forskot á næsta frambjóðanda, og hlaut stuðning þeirra tveggja sem helltust úr lestinni með fæst atkvæði. May er því með pálmann í höndunum. 

Krafan um að hún taki við af Cameron strax í sumar í staðinn fyrir leiðtogaslag fram á haustið hlýtur að vera hávær eftir næstu umferð fái hún yfir 200 atkvæði eins og stefnir nú í. Framboð Michael Gove sem varð til að binda endi á framboð Boris Johnson hefur misheppnast og vopnin snúist allsvakalega í höndum hans og líklegt að hann detti út í næstu umferð.

Boris lék skákina feiknavel eftir svik Gove - hætti strax við framboð og skildi Gove eftir í svaðinu með Svarta Péturinn. Afhjúpaði klækjabrögð hans snilldarlega með þögninni. Svo lýsti Boris yfir stuðningi við Andreu Leadsom og markaði með því Leadsom sem helsta keppinaut May um embættið og eykur með því líkur á að Gove nái ekki í einvígið í póstkosningu, fari hún yfir höfuð fram þegar Gove er úr leik.

Eini möguleiki Gove á að ná í einvígið gegn Theresu May verður ef sumir stuðningsmenn May færa stuðning taktískt yfir á Gove til að henda Andreu Leadsom út úr slagnum og velja veikari keppinautinn. Skv. könnunum á Leadsom mun meiri möguleika en Gove í póstkosningunni. Stuðningsmenn May hafa neitað þessari taktík en fróðlegt verður að sjá niðurstöðu næstu umferðar sem fer fram á morgun.

Theresa May er að mínu mati vænn og góður kostur í Downingstræti 10, yrði öflugur forsætisráðherra. Þó hún lýsti yfir stuðningi við áframhaldandi veru Breta í ESB gerði hún það með vissum snilldarbrag, hún var ekki leiðandi í baráttunni og lét Cameron og George Osborne það eftir. Þeir féllu í baráttunni og hún situr eftir nær óumdeild og með yfirburðastöðu innan flokksins.

May verður önnur konan til að taka við valdataumunum í Downingstræti á eftir járnfrúnni Margaret Thatcher. May tók sæti á breska þinginu í kosningunum 1997 þegar Íhaldsflokkurinn galt afhroð og missti völdin eftir 18 ára valdasetu - í hópi þeirra sem endurreistu flokkinn aftur til valda og virðingar.

Hún hefur verið í lykilvaldahópi flokksins nær allan þingferil sinn - fyrsta konan til að vera formaður innri flokkskjarnans, tók sæti í skuggaráðuneytinu þegar árið 1999 og sat í því allt þar til flokkurinn komst til valda og hún varð innanríkisráðherra 2010. Enginn hefur setið lengur í innanríkisráðuneytinu sl. 150 ár en hún.

Hún er því traustur valkostur reynslu og festu - vel að embættinu komin. Íhaldsflokkurinn ætti að vera vel undirbúinn undir kosningar undir hennar stjórn verði kosið fyrir 2020.


mbl.is Theresa May sigraði í fyrstu umferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takk strákar!

Íslenska þjóðin getur verið svo innilega stolt af strákunum sínum við leikslok á EM þrátt fyrir svekkjandi tap fyrir heimamönnum á Stade de France. Við mættum einfaldlega ofjörlum okkar, alveg grátlegt að missa dampinn í fyrri hálfleik, en strákarnir komu til baka eftir áfallið og náðu að rétta sinn hlut með sóma.

Frammistaða liðsins hefur auðvitað verið algjört ævintýri og sameinað þjóðina í eina öfluga liðsheild. Þakklæti og stolt lifir eftir þetta mót hjá þjóðinni allri. Nú er bara að byggja ofan á þennan árangur og horfa til framtíðar.

Við kveðjum Lars með söknuði - arkitektinn að þessu mikla ævintýri. Hann kom með fagmennsku og trausta verkstjórn í landsliðið og hefur lyft grettistaki í íslenskri knattspyrnu.

Strákarnir hafa lært mikið á skömmum tíma, vaxið við hverja raun og náð ógleymanlegum árangri. Liðsheildin og stuðningur þjóðarinnar hefur spilað saman í magnaða heild. Okkur eru sannarlega allir vegir færir eftir Frakklandsævintýrið.


mbl.is Ísland er úr leik á EM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband