Kvikmyndapælingar á páskadegi

Walk the Line Það var alveg yndislegt að horfa áðan á stórmyndina Walk the Line á Stöð 2. Þar er listilega sögð lífssaga söngvarans Johnny Cash, sem varð einn besti söngvarinn í tónlistarsögu Bandaríkjanna á 20. öld. Svo sannarlega mjög sterk mynd, vel leikin og sögð með miklum krafti, enda rekur hún ævi Cash allt frá bernskuárum en fókuserar að mestu á upphaf frægðarferils hans, umfram allt þau tíu ár sem liðu frá fyrstu kynnum Johnny og June og þar til þau giftust loks árið 1968.

Joaquin Phoenix verður hinn goðsagnakenndi sveitasöngvari með glans og túlkar hann með bravúr og syngur meira að segja lögin hans með fítonskrafti. Reese Witherspoon brillerar með túlkun sinni á June, sem er hiklaust hennar besta leikframmistaða á ferlinum. Reese sýndi á sér nýja hlið í leik í myndinni og hlaut óskarinn fyrir túlkun sína. Þau eru sterkt par í myndinni og hún er sannkölluð upplifun fyrir kvikmyndaáhugafólk og þá sem meta mikils tónlist Cash. Flott mynd.

Eftir hádegið í dag horfði ég hinsvegar á Ben-Hur. Það var orðið alltof langt síðan að ég hef sett hana í tækið. Þetta er löng og vönduð mynd, sem þarf að horfa á í rólegheitum og njóta til fulls. Það er ekki ofsögum sagt að Ben-Hur sé ein sterkasta kvikmynd sögunnar, en hún hlaut ellefu óskarsverðlaun og hefur alla tíð verið á stalli ef svo má segja. Það er með klassamynd á borð við þessa að maður áttar sig alltaf á einhverju nýja við hvert áhorf. Þessi mynd er enn risastór, þó hún sé að verða hálfrar aldar gömul. Sannkallaður eðall!

Horfði svo á kvikmyndina Arthur með Dudley Moore, Lizu Minnelli og Sir John Gielgud. Ólík mynd, en samt alveg yndisleg. Þetta er auðvitað mjög öflug gamanmynd, en þar er sögð sagan af auðjöfrinum og glaumgosanum Arthur Bach sem lendir í þeirri vondu aðstöðu að þurfa að velja á milli ástarinnar og peninganna. Moore átti túlkun ferilsins í hlutverki Arthurs og hlaut sína einu tilnefningu til óskarsverðlaunanna fyrir. Shakespeare-leikarinn fágaði Gielgud fékk óskarinn fyrir að leika þjóninn kaldhæðna Hobson og sló eftirminnilega í gegn. Það er kaldhæðið að hans er nú frekar minnst fyrir þessa rullu en stóru sviðsverkin sín.

Síðast en ekki síst horfði ég á mynd sem mér hefur nú alltaf verið nokkuð kær; Foul Play með Goldie Hawn, Chevy Chase og Dudley Moore. Foul Play er alltaf viðeigandi vilji maður hlæja og hafa gaman af lífinu. Þar er sögð saga Gloriu sem lendir í ótrúlegum aðstæðum fyrir mikla tilviljun og endar með morðingja á eftir sér um San Francisco. Þessi víðfræga gamanmynd er að mörgu leyti stæling á mörgum bestu töktum meistara Alfred Hitchcock með flottum dassa af húmor. Lag Barry Manilow í myndinni sló í gegn og sama má sama um leik aðalleikaranna þó sennilega hafi Dudley Moore verið senuþjófur myndarinnar. Ein besta mynd ferils Goldie Hawn.

Í tónlistarspilaranum hér er að finna þrjú lög með Johnny Cash; Ring of fire, On the Evening Train og We´ll Meet Again. Fyrstnefnda lagið er eitt af vinsælustu lögum ferils hans en hin eru af hinum eftirminnilegu plötum undir lok ferilsins með síðustu hljóðritununum, árin 2002 og 2003. On the Evening Train er yndislegt lag, fallegur texti og túlkunin er næm. We´ll Meet Again er þekktast í túlkun Veru Lynn frá stríðsárunum og hljómaði t.d. í kvikmyndinni Dr. Strangelove. Að lokum er þar einn frægasti dúett Johnny og June; Jackson, algjört klassalag. Þarna er frægasta útgáfa þess, úr tónleikunum frægu úr Folsom-fangelsinu.

Í spilaranum er ennfremur að finna hið eftirminnilega lag Arthur´s Theme með Christopher Cross úr kvikmyndinni Arthur frá 1981. Það hlaut óskarinn sem besta kvikmyndalagið á sínum tíma og telst með bestu kvikmyndalögum undir lok 20. aldarinnar, víðfrægt lag eftir Burt Bacharach. Alltaf jafn gott.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

BARA ALLUR PAKKINN Í DAG! Johnny Cash og Charlton Heston flottir, ólíkir nútíma pissudúkkum, sem eru ekki karlmannlegri en Lísa í Undralandi og fröken Reese, sem fær nú hæst laun kvenna í Gljáskógabyggð, ef ég man rétt, en ég man aldrei rétt.

Sir Gielgud var einnig súper flottur en af annarri tegund manna, sproti úr breska heimsveldinu, sem var einu sinni í tíunda veldi en hefur í síðari tíð lent undir valtaranum hjá bæði Klakverjum og nú síðast Persum. Tekinn í landhelgi og flengdur.

Ekki til fyndnara fólk á hvíta tjaldinu en Goldie Hawn og Dudley Moore. Chevy Chase er sosum allt í lagi en ekkert umfram það, að mínu mati. Á hinn bóginn er ég mun minna hrifinn af Minnelli, eiginlega bara minna en ekki neitt. Allt í lagi að fá sér tvöfaldan viskí, en alls ekki í kók og engan veginn Bacardi, ásamt einu lagi með Bacharach, en láta þar við sitja.     

Steini Briem (IP-tala skráð) 9.4.2007 kl. 00:42

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka þér pælingarnar Steini. Þetta var flott blanda. Tók góðan dag í gær allsstaðar annarsstaðar en heima hjá mér og því mjög notalegt að gera hreinlega ekki neitt nema horfa á góðar myndir og þetta var mjög rólegt og yndislegt. Allt eru þetta góðar myndir allavega. Ben-Hur klikkar aldrei og gamanmyndirnar smellnar. Walk the Line er mjög sterk mynd.

Burt Bacharach er mjög misjafn, þetta lag hans er gott. Mjög sterkur partur af myndinni Arthur allavega. Annars hefur mér alltaf fundist Gielgud sterkasti partur hennar, alveg frábær túlkun. Hann var sannkallaður snillingur, kómískt að kvikmyndalega er þetta orðin eftirminnilegasta túlkun hans, ekkert slæmt vissulega en aðallega kómískt.

Hver er uppáhaldsmyndin þín Steini?

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 9.4.2007 kl. 01:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband