Áfellisdómur yfir Ehud Olmert - afsögn mikilvæg

Ehud OlmertRúmu ári eftir að pólitíski skriðdrekinn Ariel Sharon hvarf af sjónarsviði stjórnmálanna í Mið-Austurlöndum vegna veikinda hefur eftirmanni hans, Ehud Olmert, tekist að grafa algjörlega undan trúverðugleika sínum og Kadima, flokksins sem Sharon stofnaði skömmu fyrir leiðarlokin og Olmert leiddi til kosningasigurs í mars 2006 - fyrst og fremst vegna minningarinnar um stjórnmálamanninn Ariel Sharon. Hann hélt völdum á bylgju samúðar og styrkleika Sharons fyrst og fremst.

Þessi skýrsla opinberrar rannsóknarnefndar á stríði Ísraels í Líbanon á síðasta ári er gríðarlegur áfellisdómur yfir bæði Ehud Olmert og eiginlega mun frekar reyndar Amir Peretz, varnarmálaráðherra. Það er afgerandi niðurstaða skýrslunnar að ráðherrarnir hafi leitt landið út í stríð án plans og hugmynda um hvert bæri að stefna. Enda varð þetta stríð mikil háðung fyrir ísraelsku stjórnina og hafði mikil og vond áhrif fyrir stjórnarflokkana; bæði Kadima og Verkamannaflokkinn í raun. Það blasir við öllum að staða beggja leiðtoganna er orðin mjög vond.

Ári eftir að Ariel Sharon fékk heilablóðfallið sem sló hann út af hinu pólitíska sviði spurðu ísraelskir fréttaskýrendur hvað Sharon myndi eiginlega segja ef hann vaknaði við það stjórnmálaástand sem væri í Ísrael í janúar 2007 miðað við eftir styrka stjórn hans allt þangað til í janúar 2006. Þetta var fyrst og fremst grín vissulega en um leið fúlasta alvara. Það var allt gjörbreytt. Olmert hafði mistekist að taka völdin föstum tökum og gert afdrifarík mistök æ ofan í æ. Það syrtir sífellt meir í álinn hjá honum.

Það er ekki undrunarefni að menn tali um að Ehud Olmert eigi að segja af sér. Ég tel að hann eigi að gera það, fyrst og fremst til að tryggja það að þau þáttaskil sem Ariel Sharon vildi tryggja með tilkomu Kadima klúðrist ekki algjörlega. Likud styrkist sífellt og að öllu óbreyttu mun Likud verða endurbyggt sem lykilafl að nýju. Kadima er rúin trausti. Það eina sem Olmert getur gert er að segja af sér meðan stætt er fyrir hann.

Það væri viðeigandi að Tzipi Livni, utanríkisráðherra Ísraels, og næst valdamesti stjórnmálamaður Ísraels tæki við. Hún er fimmtug, sterk stjórnmálakona sem boðar nýja tíma í ísraelskum stjórnmálum og hefði í raun frekar átt að taka við Kadima en Olmert, sem þrátt fyrir langan stjórnmálaferil hefur ekki staðið undir væntingum. Hann verður að segja af sér.


mbl.is Olmert leiddi Ísraelsmenn í stríð án undirbúnings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband