Forysta Frjálslyndra svíkur loforð við Sigurjón

Sigurjón Þórðarson Svo virðist vera sem að forysta Frjálslynda flokksins hafi ákveðið að svíkja loforð við Sigurjón Þórðarson, fyrrum alþingismann, um að hann yrði framkvæmdastjóri flokksins. Eftir því sem sögur herma hefur verið ákveðið á æðstu stöðum að Magnús Reynir Guðmundsson, bæjarfulltrúi á Ísafirði og náinn samstarfsmaður Guðjóns Arnars Kristjánssonar, formanns Frjálslynda flokksins, verði áfram framkvæmdastjóri flokksins, en hann var ráðinn þar til verka eftir að Margréti Sverrisdóttur var sagt upp á síðasta ári.

Enn hefur ekki verið tilkynnt opinberlega af hálfu Frjálslynda flokksins um þá ákvörðun að ráða Magnús Reyni sem framkvæmdastjóra og þar með svíkja loforðið við Sigurjón. Sögur herma að gengið hafi verið frá því samhliða ákvörðun um þingframboð Sigurjóns hér í Norðausturkjördæmi, sem var vonlítið alla tíð, að hann yrði framkvæmdastjóri flokksins næði hann ekki endurkjöri á Alþingi. Í kjölfarið var ákveðið að Kristinn H. Gunnarsson, sem verið hafði alþingismaður Alþýðubandalagsins og Framsóknarflokksins, tæki sæti Sigurjóns, annað sætið á eftir Guðjóni Arnari, í Norðvesturkjördæmi.

Ólga ríkir vegna málsins innan Frjálslynda flokksins samkvæmt mínum heimildum. Grasrót Frjálslynda flokksins mun styðja Sigurjón til verka og vill að honum verði tryggður sess innan forystu flokksins á þessu kjörtímabili, fyrst að hann er ekki í þingflokki Frjálslynda flokksins. Að margra mati hefur Sigurjón alla tíð verið áberandi í innra starfinu, unnið verkin sem hefur þurft að vinna. Eftir því sem heimildir segja er innra starf Frjálslynda flokksins í molum eftir alþingiskosningarnar í vor. Þar sé mikið verk framundan og deildar meiningar eru um ágæti framkvæmdastjórans, sem þykir nátengdur formanni flokksins, enda að vestan.

Staða Frjálslynda flokksins er mjög sérstök eftir þingkosningarnar í vor. Þingflokknum var hent fyrir borð, að formanninum frátöldum, og eftir stóð undarleg blanda af þingflokk. Á meðan að Sigurjón og varaformaðurinn Magnús Þór Hafsteinsson féllu náðu Kristinn H. Gunnarsson (sem var þingmaður Framsóknarflokksins þangað til rétt fyrir kosningar), Jón Magnússon (sem var formaður Nýs afls) og Grétar Mar Jónsson (varaþingmaður Magnúsar Þórs á síðasta kjörtímabili) kjöri sem þingmenn flokksins. Varaformaðurinn var utangarðs og líka ritari flokksins, Kolbrún Stefánsdóttir, sem mistókst naumlega að verða fyrsta konan á þingi fyrir flokkinn.

Það virðast vera spennandi tímar framundan enn eina ferðina í Frjálslynda flokknum. Ólga og sundurþykkja hafa einkennt flokkinn alla tíð. Flestum er í fersku minni að á fyrsta kjörtímabili flokksins gengu Valdimar Jóhannesson (sem nærri var því að ná kjöri á Alþingi sem jöfnunarmaður í kosningunum 1999) og Gunnar Ingi Gunnarsson, sem hafði verið varaþingmaður Sverris Hermannssonar, úr flokknum og Gunnar Ingi hleypti Margréti Sverrisdóttur ekki inn á þing. Auk þess gekk Gunnar Örlygsson úr flokknum með hvelli og allir muna eftir því þegar að Margrét yfirgaf flokkinn í kastljósi fjölmiðla í janúar.

Er enn ein krísan í uppsiglingu með svikum á loforðinu við Sigurjón? Er grasrótin fúl út í forystu flokksins, sérstaklega formanninn, fyrir að svíkja þetta loforð? Það er ekki nema von að áhorfendur sápuóperunnar um völd og áhrif í Frjálslynda flokknum spyrji.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Góð grein og þarna er lyst mjög vel,óánægju manna sem ekki rekast i örðum flokkum,og koma sér ekki saman um leiðir/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 12.9.2007 kl. 15:44

2 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Óttalegt bull um mál sem þú virðist ekki þekkja nokkuð til eintómar ágiskanir um að heimildir hermi hitt og þetta.  Ég er flokksbundinn í þessum flokki og hef starfað fyrir hann og kannast ekki við þessar fullyrðingar þínar um mikla ólgu innan flokksins og að innra starf í flokknum sé í molum.  Ég hef ekki heyrt um  neinar deilur um störf núverandi framkvæmdastjóra flokksins Magnús Reynir Guðmundsson.  Hvað varðar Margréti Sverrisdóttur þá tapaði hún einfaldlega í lýðræðislegri kosningu en henni stóð til boða að taka efsta sæti í Reykjavík-Suður en hafnaði því og fór aðra leið og Jón Magnússon tók það sæti og hefði Margrét verið samvinnufús væri hún í dag þingmaður fyrir flokkinn.  Hvað varðar Sigurjón Þórðarson ættir þú að spyrja hann sjálfan um þessi svik sem þú talar um og ég veit að Sigurjón er þannig gerður að hann svarar þér örugglega og bendi ég þér á að hann er með síðu hér á blogginu og auðvelt að finna hana.  Ef þér finnst svona slæmt að hann næði ekki kjöri af hverju kaustu hann þá ekki í vor.  Ef hægt er að kalla eitthvað sápuóperu þá eru það þessi skrif þín og vertu svo ekkert að bulla um hluti sem þú veist ekkert um.

Jakob Falur Kristinsson, 13.9.2007 kl. 01:24

3 Smámynd: Katrín

Gúrkutíð?  Tilheyri grasrót Frjálslyndra og get sagt þér það að þessi mál eru ekkert að flækjast fyrir okkur flokksmönnum.  Bendi þér á sápuóperuna innan þíns eigin flokks sem birtist t.d.  í mótvægisaðgerðum ríkistjórnarinnar.  

Annar segja sumir að það sé ávallt gaman að skemmta skrattanum

Katrín, 13.9.2007 kl. 14:03

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir góð orð Halli.

Ég stend við hvert orð í þessari grein Jakob. Þú getur litið á þessi skrif á vef Jens Guð sem dæmi. Ég hef mjög afgerandi heimildir um stöðu mála innan úr Frjálslynda flokknum, ég get sagt það alveg hreint út.

Stefán Friðrik Stefánsson, 13.9.2007 kl. 14:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband