Umfjöllun um íslenskt sjónvarpsefni

Næturvaktin Það hefur verið áhugavert að sjá hversu mikið af vönduðu íslensku sjónvarpsefni hefur verið í boði í haust og stefnir í skemmtilegan sjónvarpsvetur. Íslenskt efni hefur sjaldan verið betra og boðar vonandi góða tíma framundan og vonandi öfluga viðbót á komandi árum. Sérstaklega er gott að Sjónvarpið hafi tekið sig á með íslenskt efni, en þeir hafa ekki staðið sig vel síðustu árin.

Ætla að fara yfir nokkra íslenska þætti sem ég man eftir og skrifa aðeins um þá.

Næturvaktin
Frábærir gamanþættir sem hitta algjörlega í mark. Einfaldir en vel skrifaðir með nettu skotheldu gríni. Pétur Jóhann Sigfússon er stjarna þáttanna, sem bensíntitturinn Ólafur Ragnar, en þeir Jón Gnarr og Jörundur Ragnarsson slá sannarlega ekki feilnótu. Góðir aukaleikarar krydda þættina. Með því að hafa svo ólíkar persónur saman á einum stað og byggja söguþráð í kringum hverja þeirra er mynduð bæði hlægileg stemmning og áhugaverð. Þetta er klárlega augljóst merki þess að við getum gert alvöru gamanþætti sem slá í gegn. Með bestu gamanþáttum í íslensku sjónvarpi fyrr og síðar.

Kiljan
Frábær bókmenntaþáttur á mannamáli. Agli Helgasyni hefur tekist það sem svo oft hefur mistekist hérna heima; að fjalla um bækur fagmannlega og á máli sem fólk, almennir bókalesendur á öllum aldri, skilur. Vönduð viðtöl, heiðarleg umfjöllun um bækur frá öllum hliðum og skemmtilegar álitspælingar með Kolbrúnu og Páli Baldvin. Þetta er frábær samsetning. Egill hefur áður fjallað um bækur í þáttum sínum með vönduðum hætti en hann blómstrar í þessu formi. Sérstaklega áhugavert að heyra í Braga Kristjónssyni, fornbókasala, sem kryddar þáttinn með frásögnum sínum. Besti sjónvarpsþáttur vetrarins, það sem af er.

Silfur Egils
Besti umræðuþáttur á Íslandi. Kannski er Silfrið eitthvað staðnað í uppbyggingu, en þetta form sem Egill hefur byggt upp er skothelt engu að síður. Bæði spjall með fjórum viðmælendum og svo viðtal þar sem Egill tekur fyrir einn gest til að ræða eitt efni, eða fara vítt yfir sviðið. Egill er frábær spyrill sem þorir að fara alla leið í spurningum en er líka með næmt sjónarhorn á það sem hann er að tala um. Eftir tvö kjörtímabil á sitthvorri stöðinni er Silfrið komið á RÚV í sama pakkanum, enda óþarfi að breyta því sem gengur vel. Þetta er þáttur sem klikkar ekki.

Mannamál með Sigmundi Erni
Sigmundur Ernir fer vel af stað með nýjan spjallþátt sinn. Hann er ekki að taka sama pakkann og Egill Helgason, heldur gerir hlutina á sinn hátt. Uppbyggingin er góð og viðtölin eru áhugaverð og tekið er fyrir það sem skiptir máli. Það er talað á mannamáli í þessum þáttum. Sigmundur Ernir er með snarpan stíl sem kemur sér oftast mjög vel. Er góð viðbót að taka fyrir menningu og listir og pistlar Einaranna fylla þáttinn. Eini gallinn, sem er mjög stór, er leikmyndin sem er ekki nógu góð og skemmir nokkuð fyrir þættinum í heildina. 

Laugardagslögin
Ágætis skemmtiþáttur sem hefur þó tekið smátíma að koma í gírinn. Byrjaði ekkert sérstaklega vel en hefur slípast til með hverju laugardagskvöldinu. Það er ágætt að hlusta á ný lög en mér finnst þó kannski einum of fátt að hafa þrjú lög og byggja heilan þátt upp í kringum það. Ágætis hliðarþættir með. Hinsvegar finnst mér Ragnhildur Steinunn og Gísli Einarsson ekki passa vel saman sem par til að stjórna þáttunum. Verst var það í fyrsta þættinum þar sem þetta var beinlínis vandræðalegt. Gríninnkomur Tvíhöfða eru alltof einhæfar.

Söngvaskáld
Góðir þættir að erlendri fyrirmynd þar sem söngvari kemur, tekur lagið og segir sögur af sér, lögunum og öllu milli himins og jarðar. Skothelt prógramm sem er virkilega áhugavert að fylgjast með. Einfaldur og góður þáttur.

Útsvar
Ágætis spurningaþáttur, í og með svolítið dreifaralegur og skemmtilega hallærislegur. Það er alltaf gaman að horfa á spurningaþætti og stemmningin er hin besta. Þóra og Sigmar standa sig vel að halda utan um þáttinn. Liðin eru oftast nær góð og fókusinn er hraður og góður. Þetta eru þættir sem renna vel í gegn og þeir sem hafa virkilega gaman af spurningaþáttum falla vel inn í stemmninguna í þessum.

07/08 bíó-leikhús
Snarpur en vandaður lista- og menningaþáttur sem tekur fyrir kvikmyndir og leikhús með góðum hætti. Þorsteinn J. og Andrea passa vel í að halda utan um þáttinn og úr verður áhugaverður blær umfjöllunar. Ásgrímur tekur kvikmyndir fyrir með skemmtilegum hætti, er ekki ofstúderaður í pælingum sínum og gerir sitt mjög vel, sem ávallt fyrr. Þetta er þáttur sem er ekki bara fyrir elítuna, heldur alla áhorfendur með snefilsáhuga á listum. Ekki ofsnobbaður þáttur eins og Mósaík áður.

Logi í beinni
Notalegur spjallþáttur með Loga Bergmanni. Er vissulega í anda Laugardagskvölds með Gísla Marteini sem var vinsælasti þáttur Sjónvarpsins fyrir nokkrum árum, en samt eru hlutirnir gerðir með þeim hætti sem hentar Loga. Góðir gestir, góð tónlist og yndislegt andrúmsloft. Getur ekki klikkað. Logi Bergmann er í essinu sínu þarna.

Spaugstofan
Langlífasti gamanþáttur íslenskrar sjónvarpssögu. Fjallar um fréttir vikunnar með sínum gamla góða hætti í grunninn. Brotthvarf Randvers var umdeilt og ekki bætti það þáttinn. Gestaleikarar setja svip sinn á þættina en gera misjafnlega mikið fyrir stemmninguna. Spaugstofan á það til að gera heilsteypt og vandað gamanefni en getur klikkað stórlega inn á milli. Heilt yfir alltaf áhugavert að fylgjast með. Þegar að þeir eru góðir toppar þá enginn en þeir eru orðnir gloppóttari en áður.

Sunnudagskvöld með Evu Maríu
Einlægir og vandaðir spjallþættir. Eva María er snillingur í að skapa hið rétta andrúmsloft, lætur viðmælandann tjá sig hreint út og nær inn að hjartarót með næmum spurningum og persónulegum. Kemur beint að kjarna málsins og kann sitt fag. Eva María er einn besti sjónvarpsmaðurinn sem við eigum í dag og er svona einskonar Jónas Jónasson nútímasjónvarpsins.

Allt í drasli
Áhugaverðir þættir þar sem skyggnst er inn í sóðaveröld landsmanna. Eva Ásrún og Margrét passa vel saman sem teymi í þessu þáttaformi og eru bæði einbeittar og líflegar. Rödd þulsins á milli atriða á vel við. Það er ótrúlegt að sjá hvað sumir geta safnað upp miklu af "drasli" inn í híbýli sín. Skemmtilega hversdagslegt sjónvarpsefni.

Kompás
Frábær fréttaskýringaþáttur sem þorir að taka á málum og talar mannamál í umfjöllun sinni. Stöð 2 gerir betur en Sjónvarpið í þessum efnum, en það er auðvitað með ólíkindum að ríkismiðillinn hafi ekki almennilegan fréttaskýringaþátt á dagskrá sinni. Það var reynt með Brennidepli, en svo var hann tekinn af dagskrá, eins kostulegt og það hljómar.

Tekinn 2
Áhugaverðir þættir, að bandarískri fyrirmynd Punk´d með Ashton Kutcher, þar sem þekkt fólk er tekið fyrir og hrekkt, oftast nær með sprenghlægilegum afleiðingum. Pottþéttur pakki og Auddi Blö er rétti maðurinn til að halda utan um hann.

Stelpurnar
Góðir gamanþættir með skemmtilegri blöndu af tvíræðum bröndurum og notalega svínslegum. Með bestu gamanþáttum síðustu ára. Stelpurnar klikka ekki.

Ertu skarpari en skólakrakki

Líflegir og snarpir þættir þar sem fullorðnir keppa við skólakrakka í gáfum. Gunnar Hansson stendur sig vel sem stjórnandi - klárir og skemmtilegir þættir.


Það sem mér finnst í heildina leiðinlegast eru auglýsingahléin inni í íslensku þáttunum, sem stundum eru sponseraðir af stórfyrirtæki og eru sýndir á áskriftastöðum. Þetta er alveg ólíðandi. Varð að bæta þessu við í blálokin.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fannar frá Rifi

við erum að borga dýrum dómum fyrir áksriftar stöðvar eins stöð2. ég borga fyrir dagskránna mánaðrlega. síðan voga þeir sér að troða inn einhverjum auglýsinga hléum? afhverju í ósköpunum? er ég ekki búinn að borga fyrir dagskránna með mánaðarlegum gjöldum? þarf að borga aukalega með því að sitja undir auglýsingum í miðjum þætti? nei ég held að ég muni ekki vera áskrifandi af stöð2 eða álíka stöðum sem láta okkur borga tvisvar fyrir sama efnið. 

Fannar frá Rifi, 4.11.2007 kl. 12:13

2 identicon

Heill og sæll, Stefán Friðrik og aðrir skrifarar !

Þarna; sem stundum oftar, erum við Fannar frá Rifi, verulega sammála. Hin frábæra Næturvakt, er; viðlíka fleirrum dagskrárliðum sundurskorin, af helvítis auglýsingafárinu, hvað plagast helzt, á bandarísku ruslmenningar stöðvunum, eftiröpunin líklega þaðan komin.

Einnig; Stefán og Fannar, hefir Ríkissjónvarpinu hrakað, eftir komu vikapilts Þorgerðar Katrínar; Páls Magnússonar hins dýra. Einkar sjálfumglaður og hrokafullur leiðindapjakkur; alger andstæða hálfbræðra sinna, þeirra Magnúsar og Ægis heitinna, hverjum ég kynntist, á Selfossi,  á sínum tíma, og starfaði meira að segja, hjá Magnúsi, á Eyrarbakka, í Plastiðjunni; sumarið 1980. Öndvegismenn miklir, þeir gengnu bræður. 

Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi / Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 4.11.2007 kl. 15:13

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka ykkur kommentin Fannar og Óskar Helgi.

Gott að heyra í ykkur með auglýsingarnar. Erum alveg innilega sammála greinilega í þeim efnum. Þetta er mjög hvimleitt, einkum og sér í lagi einmitt í Næturvaktinni sem er skorin í sundur með auglýsingum með ömurlegum hætti. Get sætt mig við þetta á stöðvum eins og Skjá einum sem er mér ókeypis en þetta er ólíðandi hvað varðar Stöð 2.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 4.11.2007 kl. 15:15

4 Smámynd: Stefán Þór Helgason

Sæll frændi,

Það er orðið langt síðan við höfum spjallað, verðum að fara að bæta úr því! En þetta er annars góð greining á innlendu dagskránni. Ég er sammála þér í flestu nema með þá hryllingsþætti sem "Ertu skarpari en skólakrakki" eru. Þeir finnst mér vera alveg hræðilegir. Fæ algjöra velgju þegar ég sé þá!

Annars bara bestu kveðjur í bæinn,

Stefán Þór Helgason, 4.11.2007 kl. 15:32

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Sæll frændi

Gaman að heyra í þér. Já, við verðum endilega að fara að taka spjall fljótlega, orðið alltof langt síðan síðast. Svo þarf ég að fara að stefna að því að koma suður, hefur staðið til alltof lengi og ekkert hefur gerst.

Já, þetta er svosem enginn háklassi þessi þáttur. Þetta verður eflaust einn af þessum þáttum sem verður skammlífur. Þetta er blanda sem að gengur í smátíma, en ekki lengi.

Verðum í bandi!

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 4.11.2007 kl. 15:52

6 Smámynd: Sigurlín Margrét Sigurðardóttir

Sæll Stefán

Frábær upptaling hjá þér á innlendu sjónvarpsefni.  Mikið vildi ég að sjónvarstöðvarnar sendu þættina út textaða í gegnum textavarpið.  Tæknin er til og um 10% þjóðarinnar þarf á því að halda. 

Bestu kveðjur

SMS

Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, 5.11.2007 kl. 13:35

7 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Sæl Sigurlín og takk fyrir góð orð

Er alveg sammála þér að það er til skammar að íslenskt efni sé ekki textað og gert aðgengilegt þeim sem ekki geta hlustað. Sérstaklega er afleitt að ríkisstöðin skuli ekki texta allt íslenskt, sem þá ekki er í beinni auðvitað. Annars hefur mér alltaf fundist að það ætti að hafa táknmálstúlk efst í horninu í fréttum. Það væri mun betra en svokallaðar táknmálsfréttir, þó þær séu auðvitað mjög mikilvægar einar og sér. Það þarf að hugsa þessi mál upp á nýtt og gera þetta almennilegt.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 5.11.2007 kl. 13:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband