Fer Jacques Chirac fram í þriðja skiptið?

Jacques Chirac Jacques Chirac hefur alla tíð verið umdeildur stjórnmálamaður og verið í eldlínu pólitískra átaka í áratugi. Rúmur áratugur er nú liðinn frá því að Chirac hlaut kjör sem forseti Frakklands og hann var endurkjörinn fyrir nokkrum árum. Nú líður að lokum annars kjörtímabilsins. Flestir hafa talið ólíklegt að hann myndi fara fram í forsetakjöri að vori, enda er hann að verða 75 ára gamall og er tekinn að reskjast. Auk þess hafa óvinsældir hans aukist til muna og hallað undan fæti.

Nú hefur hið merkilega gerst að Bernadette, eiginkona forsetans, hefur lýst því yfir að ekki sé útilokað að forsetinn fari fram þriðja sinni. Það var gert með mjög áberandi hætti í Nouvel Observateur. Greinilegt er að verið að reyna að kanna stöðu forsetans með áþreifanlegum hætti. Chirac er gamall pólitískur refur og veit að með því að láta eiginkonu sína vera boðbera tíðindanna getur hann betur skannað landslagið og viðbrögð landsmanna. Það kemur þó á óvart að hann taki þessa afstöðu.

Það er samt ljóst að forsetinn á undir högg að sækja. Frekar litlar líkur verða að teljast á því að hann fari fram aftur í forsetakjöri eins og staða mála er þessar vikurnar. En með þessu er greinilegt að forsetinn hefur ekki enn tekið formlega ákvörðun um að hætta, eins og svo víða hefur verið talað um. Það er greinilegt að ákvörðunin er handan við hornið, enda fer að líða að hörku kosningabaráttunnar, en forsetakjörið fer fram í tveim umferðum í apríl og maí, ef forseti er ekki kjörinn í fyrri umferð, sem sjaldan hefur gerst.

Mikið er talað um forsetaframboð Segolene Royal og Nicolas Sarkozy. Heldur verður nú að teljast líklegt að það verði þau sem berjist um lyklavöldin í Elysée-höll, embættisbústað franska forsetaembættinsins, að vori. Chirac verður varla persóna í þeim kosningaslag. En þetta er merkilegt útspil sem við verðum vitni að með viðtalinu við Bernadette Chirac og mjög til vitnis um að forsetinn hefur ekki enn slegið formlega á framboð sitt.

Það verða þó að teljast hverfandi líkur að hann leggi í framboð til annarra fimm ára og enn ólíklegra að hann kæmi sem sigurvegari út úr þeim kosningaslag.

mbl.is Eiginkona Chiracs segir hann íhuga framboð þriðja kjörtímabilið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband