Í minningu Línu ömmu

Lína ammaAmma mín, Sigurlín Kristmundsdóttir, hefði orðið 95 ára í dag. Hún var kjarnakona með alþýðutaug og skaplag úr gulli. Lína amma var alþýðukona að austan. Hún þekkti bæði lífsins gleði og sorgir. Ung missti hún frumburð sinn í hörmulegu slysi. Hún bar þann missi alltaf innra með sér. Sennilega var ég einn af örfáum sem hún treysti síðar fyrir sorg sinni og lýsti angistinni sem greip hana nóvemberdagana árið 1944 þegar að Veiga skildi við.

Við vorum alla tíð mjög náin. Á mikilvægum stundum á ævi minni var hún til staðar með góð ráð og notalegheit sem var mjög mikils virði. Hún kenndi mér lífsins gullnu reglur. Hún var amman í kjallaranum: bjó á neðrihæðinni hjá okkur í Norðurbyggð, sá um okkur börnin fyrir og eftir skóla og var okkur svo innilega ómetanleg. Hún var auðvitað kletturinn okkar systkinanna; algjörlega einstök og hefur þann sess í huga okkar.

Hún eldaði alltaf hádegismatinn meðan að mamma var að vinna og var til staðar. Það er gylltur ljómi yfir minningu hennar í huga mér. Við hana gat ég allt rætt og við treystum hvoru öðru fyrir miklu. Við vorum trúnaðarvinir. Ég reyndi mitt besta að launa henni alla hlýjuna og trygglyndið seinustu árin er halla tók undan fæti hjá henni og heilsan byrjaði að dala. Hún átti það skilið að njóta atlætis míns þegar að hún gat ekki lengur séð um sig sjálf.

Amma kenndi mér að láta hjartað alltaf ráða för. Hún var ekki sammála mér í stjórnmálum og var ófeimin við að skamma mig og leiðbeina mér. Hún var með heilsteypt og góð ráð og alltaf til staðar. Slíkt er og verður ómetanlegt og hún hefur stóran sess í hjarta mér.

Blessuð sé minning hennar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dunni

Það var lán að eiga Línu að.  Ófáar stundirnar áttum við saman við eldhúsborðið í Ási. Þar ræddum við saman og spiluðum allt frá lönguvitlaysu til maríus og kasínu. Þegar Bogga var heima var það Hornafjarðarmanni. Þessar stundir verða greipaðar æfilangt minninguna.

Synd að hún gat ekki komið fyrir þig vitinu í pólitíkinni Stebbi minn. En sem betur fer verður samfélagið litskrúðugra eftir því sem skoðanir okkar eru fjölbreyttari.

Blessuð sé minning Línu Kristmundar.

PS.  Man svo vel eftir þessari af ömmu þinni þar sem hún stóð á útskornu hillunni í litlu stofnni í Ási. Hún er mér gleðigjafi.

Dunni, 2.10.2008 kl. 11:32

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka þér kærlega fyrir góðu orðin Dunni minn. Met mikils að lesa þínar minningar og hugleiðingar um ömmu. Hún var einstök kona, kjarnakona af bestu gerð.

bestu kveðjur
Stebbi

Stefán Friðrik Stefánsson, 2.10.2008 kl. 13:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband