Geir segir af sér - Ólafur Ragnar í lykilstöðu

Í fyrsta skipti á þrettán ára forsetaferli sínum leikur Ólafur Ragnar Grímsson lykilhlutverk við myndun ríkisstjórnar nú þegar Geir H. Haarde hefur beðist lausnar fyrir ríkisstjórn sína. Hann getur rofið þing að tillögu forsætisráðherra, rætt við formenn flokkanna og reynt að finna nýtt stjórnarmynstur og skipað utanþingsstjórn, en hún hefur aðeins setið einu sinni á lýðveldistímanum en var tvisvar í burðarliðnum í forsetatíð Kristjáns Eldjárns á áttunda áratugnum.

Allan sinn forsetaferil hefur Ólafur Ragnar eflaust beðið mjög óþreyjufullur eftir því að veita formlegt umboð til stjórnarmyndunar. Komið er að þeim tímapunkti. Allt frá því að Ólafur Ragnar tók við forsetaembættinu 1. ágúst 1996 sat ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks við völd og var algjört formsatriði að halda því samstarfi áfram þar sem hún hélt þingmeirihluta í kosningunum 1999 og 2003. Stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar myndaðist án atbeina hans að mestu.

Nú kemur í fyrsta skipti til hans kasta að veita almennt stjórnarmyndunarumboð þar sem fráfarandi starfsstjórn er til staðar og hefur fallið og staðan við myndun stjórnar er galopin, þó flest bendi til að flokkar hafi talað sig saman að einhverju leyti. Við slit samstarfs Sjálfstæðisflokks og Framsóknar árið 2007 kallaði Ólafur Ragnar formenn flokkanna ekki til sín heldur veitti Geir Haarde strax umboðið.

Fróðlegt verður að sjá hvort að þetta er upphaf ferlis þar sem Ólafur Ragnar getur leikið þann örlagavald sem hann hefur eflaust alltaf viljað vera í íslenskum stjórnmálum. Gestakoma formannanna á Bessastaði er örugglega tækifærið fyrir Ólaf Ragnar til að vera mikilvægur hlekkur á milli stjórnmálamanna við myndun ríkisstjórnar.

Forsetinn, sem er gamall pólitískur refur og margreyndur stjórnmálamaður fyrir forsetaferilinn, nýtur örugglega sviðsljóssins.

mbl.is Forsætisráðherra á fund forseta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Við Ólafur Ragnar finnum til okkar í tómarúminu!

Heimir Lárusson Fjeldsted, 26.1.2009 kl. 17:57

2 identicon

Enda samdi hann ágætis fræðigrein sem kom út árið 1977, "The Icelandic Multilevel Coaliton System" sem fjallar einmitt um stjórnarmyndanir á Íslandi. Þetta þurftum við nemendur hans að lesa á sínum tíma.

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 23:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband