Endalokin í augsýn fyrir Gordon Brown

gbrown
Eftir mikla erfiðleika allan forsætisráðherraferilinn og býsnavetur innan Verkamannaflokksins blasa pólitísku endalokin nú við Gordon Brown. Hann berst nú fyrir pólitísku lífi sínu við mikið ofurefli. Brown missti endanlega tökin á atburðarásinni í dag með afsögnum tveggja lykilráðherra, áður en að hrókeringum kom að loknum Evrópukosningum á morgun, og bréfi þingmanna þar sem þeir vígbúast gegn honum. Glundroðinn er algjör innan Verkamannaflokksins og þar eru allir að reyna að bjarga sjálfum sér, fyrst og fremst með því að slá Brown af.

Augljóst er að bæði Jacqui Smith (sem varð fyrst kvenna innanríkisráðherra þegar Brown varð forsætisráðherra í júní 2007) og Hazel Blears, tveir ráðherrar í fremstu víglínu, gera nær út af við Brown með tímasetningu afsagnanna. Þær eru engin tilviljun, settar fram til að valda forsætisráðherranum sem mestum skaða. Blears gengur reyndar svo langt að hún þakkar Brown ekki einu sinni samstarfið í afsagnarbréfi sínu.

Nú þegar þingmenn um allt land og jafnvel ráðherrar með sterkan prófíl horfa fram á að tapa sætum sínum í blóðbaði næstu kosninga undir forystu Browns munu þeir taka fram hnífana og brýna þá, slá af Brown til að eygja von á að halda sínum áhrifum og völdum lengur en út kjörtímabilið. Flest bendir til að Brown lifi ekki af pólitískt til að fara í hrókeringar á stjórninni. Væntanlega mun ein afsögn í viðbót nægja til að henda honum fram af hengifluginu.

Ergó: Brown horfist í augu við sömu pólitísku örlög og Margaret Thatcher. Hún var gerð upp innan eigin raða á örfáum dögum í nóvember 1990. Brown hefur barist á móti straumnum nær allt frá upphafi. Hann fékk sína hundrað daga eftir valdaskiptin sumarið 2007. Hann gældi við að boða til nóvemberkosninga árið 2007 þegar allt lék í lyndi í könnunum og fór í gegnum flokksþing án þess að svara kosningatalinu. Hann heyktist svo á því er yfir lauk.

Gordon Brown er andlit liðnu tímanna, fulltrúi hinna glötuðu tækifæra og spillingarinnar í þingkerfinu. Verkamannaflokkurinn á sér ekki viðreisnar von til uppbyggingar með hann í brúnni. Hann er jafn veikur leiðtogi og John Major. Viss öfl innan Íhaldsflokksins reyndu að sparka Major um miðjan tíunda áratuginn þegar allt var að sökkva. Hann stóð það af sér og leiddi flokkinn í algjöra slátrun í kosningunum 1997. Örlög Brown eru augljóslega þau sömu.

Verkamannaflokkurinn á möguleika á að snúa vörn í sókn með því að sparka Brown. Það gæti komið í veg fyrir tvo kosningaósigra. Næstu kosningar eru löngu tapaðar. Nýr forsætisráðherra og flokksleiðtogi gæti byggt upp til framtíðar á rústum Brown-stjórnarinnar. Nær öruggt má teljast að Alan Johnson, verkalýðskempan, sé eini maðurinn sem geti leitt það starf, enda nær óumdeildur og mjög traustur.

Ekki er óvarlegt að spá því að hann verði orðinn húsbóndi í Downingstræti mjög fljótlega og muni jafnvel verða sjálfkjörinn sem eftirmaður Browns.

mbl.is Brown hvattur til afsagnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband