Purnell sparkar Brown fram af hengifluginu

Gordon Brown
Gordon Brown riðar til falls af valdastóli eftir dramatíska afsögn krataungstirnisins James Purnell í kvöld. Afsögnin markar þáttaskil í breskum stjórnmálum í tvennum skilningi; forsætisráðherrann er hvattur til að segja af sér af ungum lykilmanni frá Blair-tímanum og talað er hreint út um að hann sé vandamálið opinberlega í fyrsta skipti. Fram að þessu hefur þetta verið pískrað í bakherbergjum og í tveggja manna tali innan Verkamannaflokksins og svo auðvitað í pressunni. Nú er þetta opinbert.

Flest bendir til að fall Browns verði vægðarlaust og blóðugt. Ungstirnin sem unnu svo náið með Tony Blair eru að stíga fram og taka af skarið eftir allt hikið og bakstungarnar bak við tjöldin. Þessu er einfaldlega lokið. Gordon Brown er stórlega skaddaður eftir atburðarás síðustu tveggja sólarhringa. Þrjár afsagnir í fremstu víglínu er einfaldlega of mikið fyrir forsætisráðherra sem hefur í ofanálag misst tök á stöðunni. Hann hefur misst stuðning flokkskjarnans og almennings.

Erfitt að segja hvað gerist á morgun. Fleiri afsagnir gætu verið framundan. Þessi afsögn er samt mjög stór tíðindi. Hinn 39 ára gamli Purnell hefur verið í innsta kjarna flokksstarfsins í tvo áratugi og var fóstraður af Blair og í hópnum sem tryggði sigurinn árið 1997. Hann kom svo á þing undir leiðsögn Blairs árið 2001 og varð ráðherraefni á augabragði. Hann er samviska Blair-hópsins og er eflaust að gera þetta undir leiðsögn Blairs sem nú vill fullnaðarhefndir gegn Brown.

Þetta er samt miklu miklu stærra. Verkamannaflokkurinn er stjórnlaus og á enga möguleika á að byggja sig upp, hvað þá vinna kosningar undir skaddaðri forystu Skotans í Downingstræti. Hann mun ekki fara standandi úr Downingstræti. Næstu dagar verða blóðugir. Nú tekur við formleg krafa um afsögn, studd af 75-100 þingmönnum og væntanlega formlegt vantraust dugi það ekki til.

Ég held að brotthvarf Thatchers, sem var tekin af lífi pólitískt 1990, verði sem barnaleikur miðað við sláturtíðina sem er hafin innan Verkamannaflokksins. Kaldhæðnislegast af öllu er að svona aftökur hafa ekki farið þar fram áður í sviðsljósinu, mun frekar bakvið tjöldin. Þessi afsögn opnar tjöldin og sýnir okkur grimmdina og blóðbaðið sem er í augsýn.

Brown vill ekki fara með heill og hag flokksins í huga. Hann er að hugsa um sjálfan sig og arfleifð sína. Eðlilega kannski. Hann var þrettán ár í skugga Tony Blair og fékk loksins tækifærið mikla fyrir tveimur árum. Hann hefur misst allt úr höndunum smátt og smátt og nú virðist pólitísk aftaka blasa við klækjarefnum skoska.

Mun hann taka lokabaráttuna eða segja af sér sjálfviljugur á næstu dögum. Býst við hinu fyrrnefnda. Þetta verður blóðugt. Sá sem rís úr þeim hörmungum þarf að taka í fanginn flokk sem er búinn að naga sig inn að kjarna, er skaddaður og sár; klofinn í herðar niður.

Næstu kosningar eru þegar tapaðar en væntanlega er spurt hvort Verkamannaflokkurinn getur risið aftur úr rústunum og átt sér viðreisnar von síðasta árið fyrir kosningar og byggt sig upp í aðdraganda stjórnarandstöðuvistar, hreinnar eyðimerkurgöngu.

Verkalýðskempan Alan Johnson virðist sá eini sem gæti leitt það erfiða starf sem forsætisráðherra fyrir kosningatapið, þó það verði vanþakklátt verkefni og hann muni tapa að vori. En mun hann taka frumkvæðið nú? Eða nær annar því?

Eftir dramatíska afsögn Purnells er ljóst að sá sem stígur fram úr hópi reyndu þingmannanna og tekur Brown endanlega af lífi pólitískt verður næsti húsbóndi í Downingstræti. Verður það Johnson eða rís einhver annar úr rústunum?

mbl.is Enn einn ráðherrann segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pétur Steinn Sigurðsson

Góð grein hjá þér Stefán, ég verð að segja það að almennt er ég ekki að óska mönnum slæmra hluta en þegar kemur að Gordon Brown þá get ég nú ekki setið á mér um að óska honum alls hin versta í pólitískri framtíð og vona ég að hann falli með stórum hvelli og það STRAX

Pétur Steinn Sigurðsson, 5.6.2009 kl. 02:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband