Brown reynir að halda völdum með uppstokkun

Af veikum mætti hefur Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, tekist að klára uppstokkun í ríkisstjórn sinni. Þetta er síðasta tilraun Browns til að sýna að hann sé enn við völd og hafi pólitískt kapítal til að taka ákvarðanir og hrókera mönnum til á pólitíska taflborðinu að eigin hætti, en ekki annarra. Þessi ráðherrauppstokkun er samt mjög veikburða, enda hafa fáir komið beinlínis fram til að styrkja forsætisráðherrann í sessi. Sumir bíða færis, annað hvort með hníf í hendi eða byssu. Loft er lævi blandið í Downingstræti.

Stóru tíðindin eru þau að Alan Johnson fær innanríkisráðuneytið, eitt valdamesta embætti breskra stjórnmála við brotthvarf Jacqui Smith. Johnson er með öll tromp á hendi núna. Hann gæti klárað Brown endanlega og tryggt sér forsætið og leiðtogastöðuna ef hann vildi. Ákvörðun hans um að þiggja embættið gefur til kynna að hann ætli að bíða einhverja daga og taka af skarið með þessi mál á eigin forsendum en ekki annarra. Johnson er nú valdamesti maðurinn í atburðarásinni og ætlar sér að tefla fumlaust en ábyrgt.

Alistair Darling heldur fjármálaráðuneytinu. Brown er það veikur í sessi að hann þorir ekki að færa Darling til, af ótta við að Darling stingi hann í bakið. Við þær forsendur yrði Darling að Geoffrey Howe fyrir Gordon Brown. Howe var trausti bandamaður Margaret Thatcher þar til í nóvember 1990 og varði hana í öllum innri og ytri rimmum. Þegar hann sneri við henni baki var öllu lokið og hann tók hana af lífi pólitískt, gerði hana viðkvæma. Darling hefur næg vopn til að klára Brown, sem þorir ekki að færa hann til.

Brotthvarf John Hutton, varnarmálaráðherra, veikir forsætisráðherrann svo enn í sessi, enda augljóst að hann er ekki að hætta einvörðungu vegna hagsmuna fjölskyldunnar. Hutton hættir þó í stjórnmálum til að tryggja að hann líti ekki út sem banamaður forsætisráðherrans. Erfitt samt. Brown slær á þær raddir sem töldu að hann gæti ekki farið í uppstokkun. Hún er samt eins veikburða og við var að búast.

Gordon Brown er í pólitísku tómarúmi og vandséð hvernig hann geti þraukað í heilt ár við þessar aðstæður. Þrauki hann samt helgina af og vond kosningaúrslit í byggða- og Evrópukosningum gæti hann haldist við völd eitthvað fram á sumarið. Nú í þessu sá ég að Verkamannaflokkurinn hefur tapað völdum í Staffordshire. Þar hafa þeir verið við völd samfellt allt frá árinu 1981.

Þetta er táknrænt. Verkamannaflokkurinn hefur nú tapað öllum völdum á sveitarstjórnarstiginu og munu væntanlega missa Lancashire og Derbyshire, síðustu vígin sín. Tap þar væru hin nöpru endalok fyrir Verkamannaflokkinn hvenær svo sem þeir missa völdin í Downingstræti.

Húsbóndinn þar hefur kannski völd í húsinu en hann hefur misst allt vald til að drottna. Þessi uppstokkun breytir engu um að hann fjarar út á valdastóli sínum. Eina spurningin nú er hvort hann nær að snúa vörn í sókn og leiði þá kratana í algjöra slátrun í næstu kosningum.


mbl.is Hutton hættir sem varnarmálaráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband