Sarah Palin goes to Washington

Ákvörðun Söru Palin um að hætta sem ríkisstjóri í Alaska og sækjast ekki eftir endurkjöri ætti ekki að koma að óvörum. Hún ætlar greinilega að sækja sér stærra hlutverk innan Repúblikanaflokksins, sækja sér hlutverk í Washington... skrifa bókina umtöluðu og ferðast um lykilríkin í væntanlegum forsetakosningunum árið 2012 án þess að vera bundin í verkefnum í ríki mjög fjarri valdahringiðunni. Þessi ákvörðun er í raun ákvörðun um forsetaframboð, en svo verður að ráðast hvort hún sækist eftir sæti í öldunga- eða fulltrúadeildinni 2010 eða hugsar bara um 2012.

Ein stærsta spurningin í kjölfar forsetakosninganna í Bandaríkjunum 2008 var hvort Sarah Palin myndi gefa kost á sér sem forsetaefni repúblikana í kosningunum 2012. Hún var nær algjörlega óþekkt þegar John McCain valdi hana sem varaforsetaefni sitt og hlaut eldskírn sína pólitískt í átökunum þá 70 daga sem hún var við hlið hans. Áður en efnahagslægðin skall á voru raunhæfar líkur á að Palin yrði varaforseti en þær vonir gufuðu upp í skugga efnahagskreppunnar þegar McCain hafði í raun tapað forsetakosningunum og náði ekki stuðningi óháðra.

En Palin fékk ókeypis auglýsingu og kynningu í þessum forsetakosningum og er orðin heimsþekkt. Ræða hennar á flokksþinginu í St. Paul stimplaði hana inn sem einn af framtíðarleiðtogum Repúblikanaflokksins hvort heldur er í starfinu á landsvísu eða sem leiðtogaefni í valdakerfinu í Washington. Hún naut þess klárlega að mörgu leyti að vera algjörlega utan við valdakerfið í Washington sem er rúið trausti en tapaði að sumu leyti líka fyrir reynsluleysi sitt í utanríkismálum. Samt hafði hún álíka litla þekkingu á því og Obama og Clinton þegar þeir fóru í forsetaframboð.

Eitt kom áþreifanlega í ljós í kosningabaráttunni. Sarah Palin sameinaði repúblikana til að vinna fyrir flokkinn, hún tryggði þátttöku þeirra sem þoldu ekki John McCain og fundu ekki farveg til þátttöku í kosningabaráttunni eftir að hann sigraði Mitt Romney. En hún varð mjög umdeild og sumir líktu henni við George W. Bush, sem var ríkisstjóri áður en hann fór í forsetaframboð. Hún færði McCain það sem honum vantaði áþreifanlega fyrir flokksþing repúblikana; fólksfjölda á framboðsfundum og áþreifanlega ánægju flokksmanna með að leggja flokknum lið á erfiðu kosningaári.

Örlög kosningaslagsins réðust meðal óháðu kjósendanna sem völdu breytingar í stað reynslunnar. Barack Obama sigraði þrátt fyrir að hafa ekki verið lengi á sviðinu og með litla ferilskrá í utanríkis- og varnarmálum. Hann ávann sér styrk og stuðning innan flokksins með einlægni og baráttugleði. Kannski verður Sarah Palin framtíðarstjarna fyrir repúblikana. Það verður vissulega undir henni sjálfri komið. Hún hefur persónulega styrkleika sem geta nýst repúblikunum nú þegar John McCain er úr myndinni.

Kannski verður ræða Söru Palin í St. Paul álíka sterkt leiðarljós fyrir innsta kjarnann í Repúblikanaflokknum og ræðan hans Barack Obama var fyrir demókrata á flokksþinginu í Boston. Tíminn einn mun leiða í ljós hver framtíð repúblikana verði á þessum þáttaskilum sem hafa fylgt svíðandi tapi og miklu persónulegu áfalli fjölda forystumanna.

Sarah Palin tekur mjög djarfa ákvörðun um að hætta á þessum tímapunkti en skiljanleg sé mið tekið af því að vilja tryggja ríkisstjóraembættið hjá repúblikunum með því að Parnell taki við og svo að tryggja að hún komist nær miðpunkti stjórnmálabaráttunnar og geti farið í alvöru baráttu án þess að vera bundin öðrum verkefnum fjarri Washington.

mbl.is Palin hættir sem ríkisstjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óðinn Þórisson

Góð greining Stefán -
Þeir voru að fara yfir þetta á Fox News í gær, um leið og mönnum fannst þetta koma á óvart þá sögðu menn að Palin færi nú oft óhefðbundnar leiðir.
Hún á góðan séns á að velta Obama úr stóli forseta 2012 - það er klárt mál.

Óðinn Þórisson, 4.7.2009 kl. 11:06

2 Smámynd: Haraldur Haraldsson

sammála þessu mjög Stefán Friðrik/Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 4.7.2009 kl. 12:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband