Dauðadómur yfir Saddam Hussein staðfestur

Saddam Hussein Í dag, á öðrum degi jóla, hefur áfrýjunardómstóll í Írak vísað frá áfrýjun á dauðadómi yfir Saddam Hussein, fyrrum forseta Íraks. Verður hann líflátinn innan 30 daga. Þetta eru mikil tímamót í þessu máli og óneitanlega kaldhæðnislegt að þau tímamót gerist á jólunum. Það virðist flest benda til þess að endalok Saddams verði því í byrjun nýs árs. Saddam var dæmdur til dauða þann 5. nóvember sl.

Verður Saddam Hussein hengdur verði refsingunni framfylgt. Dómnum var þegar áfrýjað og nú, aðeins 50 dögum síðar, hefur áfrýjun þessa umdeilda einræðisherra, sem ríkti í Írak með harðri hendi á árunum 1979-2003, verið hafnað. Valdaferli Saddams, sem var skrautlegur og hefur verið innlifun í margar bækur og heimildarmyndir, lauk í innrás Bandamanna í landið í marslok 2003 en stjórnin féll með táknrænum hætti í kastljósi heimsfjölmiðlanna þann 9. apríl 2003.

Þrjú ár voru liðin þann 13. desember sl. frá því að Saddam var handtekinn í sveitahéruðum Íraks. Það markaði mikil tímamót, enda hafði honum tekist að komast undan í rúmlega hálft ár og töldu flestir þá að honum yrði aldrei náð. Handtakan var alheimsviðburður og flestum gleymist vart myndirnar af Saddam fúlskeggjuðum og hrörlegum, eftir flóttann og að hafa í raun þurft að lifa sem útigangsmaður væri til að komast undan þeim sem leituðu hans.

Ekki er hægt að segja að dauðadómurinn yfir Saddam Hussein komi óvænt. Það hefur eiginlega blasað við frá handtökunni í desember 2003 að það kæmi til þessarar stundar. Ég hef margoft sagt það í skrifum að ég er ekki hlynntur dauðarefsingum. Það er mjög einfalt mál. Ég verð þó fúslega að viðurkenna að mér er nákvæmlega sama um Saddam Hussein og er ekki mjög áhyggjufullur yfir hans örlögum. Þeir sem hafa lesið um verk hans á valdastóli og vinnubrögð gegn pólitískum andstæðingum eru ekki mjög umhyggjusamir um velferð hans. Ég hef lesið það mikið um pólitísk verk hans að ég ætla ekki að verja þann mann.

Öll munum við eftir fréttamyndunum sem sýndu aftökuna á Elenu og Nicolae Ceausescu, forsetahjónum Rúmeníu, í desember 1989. Við fall einræðisstjórnar þessa kommúnistaleiðtoga voru þau elt uppi sem hundar væru og þau skotin eftir snöggleg réttarhöld. Svipmyndirnar af líkum þeirra fóru um allan heim og vöktu verulega athygli. Rúmenar voru kúgaðir af þessari einræðisstjórn og þar var sú afstaða tekin að drepa þau áður en kommúnistar gætu byggt sig upp aftur. Óttinn um bakslag í byltingunni réði afstöðunni. Ég var tólf ára þegar að ég sá þessar fréttamyndir og þær sitja enn í mér. Ég skildi afstöðu þeirra, þrátt fyrir allt.

Það er erfitt að meta það hvort að einræðisherrar sem halda þjóð sinni í kúgun og drepi pólitíska andstæðinga sína verðskuldi örlög sem þau er þeir velja andstæðingunum og meta eigi þá betur. Þetta er mikið umhugsunarefni. Heilt yfir styð ég ekki dauðarefsingar og á erfitt með að tala fyrir því. En ég hef ekki samúð með Saddam Hussein og er nokkuð sama um hver örlög hans verða. Ekki kippi ég mér mikið við fréttir af þessari niðurstöðu og ætla ekki að tala gegn honum, það er mjög einfalt mál.

mbl.is Dauðadómur yfir Saddam Hussein staðfestur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þetta er ekki spurning um að meta líf einræðisherra meira en saklaus líf sem þeir hafa eytt. Ekki heldur um samúð eða andúð. Það er einfaldlega rangt að eyða öðru mannslífi hvert svo sem það er. Andstaða gegn dauðarefsingum á að vera algjörlega skilyrðislaus. Mannslífi má aldrei  granda. Það er alltaf heilagt.

Sigurður Þór Guðjónsson, 26.12.2006 kl. 17:06

2 identicon

"Ég hef margoft sagt það í skrifum að ég er ekki hlynntur dauðarefsingum. Það er mjög einfalt mál. Ég verð þó fúslega að viðurkenna að mér er nákvæmlega sama um Saddam Hussein"

???????????????????

Kristján Sig. Kristjánsson (IP-tala skráð) 26.12.2006 kl. 17:55

3 identicon

maður sem eyðir eða drepur einum,þúsundum,milljónum manna á að vera tekinn að lífi gangvart öllum siðmannlegum lögum í þjóðfélagum.Ef Sigurður Þór sem skrifaði hérna fyrir ofan skilur það ekki ,veit ég ekki hvað skal segja.? villtu að hann skuli eða hafi drepið fleiri ?Mér fynnst allavegna lítið heilbrigði í talsmáta sem þessum að menn geti drepið fólk og ekki verið tekið að lífi.Ég styð dauða refsingar að öllu leiti gagn vart morðingum og nauðgurum.Saddam Hussein burn in Hell.

kristjan (IP-tala skráð) 26.12.2006 kl. 18:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband