Gerald Ford látinn

Gerald Ford Gerald Ford, 38. forseti Bandaríkjanna, er látinn. Hann lést í gær, á öðrum degi jóla, 93 ára að aldri, á heimili sínu að Rancho Mirage í Kaliforníu. Gerald Ford var elstur allra forseta í sögu Bandaríkjanna. Þann 12. nóvember sl. sló hann aldursmet Ronald Reagan, forseta, sem var 93 ára er hann lést í júní 2004. Ford lifði 44 dögum lengur en Ronald Reagan. Gerald Ford hefur þá merkilegu sérstöðu meðal 43 forseta í sögu Bandaríkjanna að hafa aldrei verið kjörinn til forsetaembættisins af kjósendum.

Gerald Ford á að baki stormasaman pólitískan feril og tók við forsetaembættinu á erfiðum tímum, bæði fyrir þjóðina og Repúblikanaflokkinn. Hann var þingmaður repúblikana í fulltrúadeildinni fyrir Michigan á árunum 1949-1973. Nær allan feril sinn þar voru repúblikanar í minnihluta, þeir náðu ekki meirihluta að nýju fyrr en árið 1994, og það með sögulegum hætti, en misstu hann aftur í nóvember 2006. Ford var leiðtogi minnihluta repúblikana í fulltrúadeildinni á árunum 1965-1973. Árið 1973 sagði Spiro Agnew, varaforseti í stjórn Richard M. Nixon, forseta, af sér embættinu vegna hneykslismála. Nixon ákvað að tilnefna Ford sem nýjan varaforseta (sá fyrsti tilnefndur í ljósi 25. greinar stjórnarskrár) og var hann staðfestur af öldungadeildinni í desember 1973.

Á þeim tíma sem Ford tók við varaforsetaembættinu var um fátt meira talað um Watergate-hneykslið, mál sem tengdist inn í helstu innviði stjórnkerfisins. Skref fyrir skref veikti málið sífellt stöðu Nixons forseta og lykilsamherja hans. Að því kom að sannanir sýndu svo ekki var um villst að Nixon vissi af málinu áður en hann hafði sagt áður. Honum varð ekki sætt eftir að þingið ákvað að stefna honum fyrir embættisafglöp og flest benti til að hann yrði rekinn frá embætti með skömm. Hann sagði af sér þann 9. ágúst 1974 og með því varð Ford fyrsti forseti Bandaríkjanna sem aldrei hafði verið kjörinn af landsmönnum sem forseta- eða varaforsetaefni. Hann tók við erfiðu búi. Stjórnkerfið var lamað vegna hneykslismála og erfiðleika.

Ford ákvað að náða Nixon skömmu eftir afsögn hans. Það olli miklum deilum og leiddi til óvinsælda forsetans sem náði aldrei að hrista skuggann af sér. Ford þótti vandvirkur stjórnmálamaður og standa sig vel miðað við flóknar aðstæður í forsetaembættinu, en hans biðu miklir erfiðleikar og lömuð ríkisstjórn hvað almenningsálitið varðaði, enda höfðu bæði forsetinn og varaforsetinn sem kjörnir voru í kosningunum 1972 hrökklast frá vegna alvarlegra hneykslismála. Staðan var breytt og forsendur mála við forsetakjörið 1972 hafði algjörlega breyst, enda hvorugur þeirra sem þá hlutu kjör eftir í embættum sínum. Tvisvar var reynt að ráða hann af dögum á forsetaferlinum.

Ford gaf kost á sér í forsetakosningunum 1976. Það gekk þó ekki auðveldlega fyrir hann að hljóta útnefningu Repúblikanaflokksins sem forsetaefni hans, en hann tókst á við Ronald Reagan, fyrrum ríkisstjóra í Kaliforníu, um útnefninguna og hafði betur eftir harðan slag. Forsetatign Fords réði þar úrslitum. Reagan átti síðar eftir að verða kjörinn forseti Bandaríkjanna í sögulegum forsetakosningum árið 1980, elstur forseta við völd og sat í átta ár. Ford valdi Bob Dole (sem varð forsetaefni repúblikana árið 1996) sem varaforsetaefni sitt. Tókst Ford á við Jimmy Carter, fyrrum ríkisstjóra í Georgíu, um embættið. Vann Carter nauman sigur á forsetanum eftir tvísýna og spennandi atkvæðatalningu.

Gerald Ford vék úr sviðsljósi stjórnmálanna, eftir tapið í forsetakosningunum 1976, er hann lét af embætti þann 20. janúar 1977, er kjörtímabili Richards M. Nixon lauk formlega. Til greina kom þó við forsetakosningarnar 1980 að Ronald Reagan myndi velja Ford sem varaforsetaefni sitt. Svo fór ekki og Reagan valdi George H. W. Bush í staðinn. Það er sennilega kaldhæðni örlaganna að eftir að Carter lét af embætti árið 1981, eftir að hafa tapað fyrir Reagan, urðu þau Gerald og Betty Ford perluvinir Jimmy og Rosalynn Carter.

Heilsa Ford var jafnan upp á hið allra besta. Hann fékk vægt heilablóðfall á flokksþingi Repúblikanaflokksins í Philadelphiu í Pennsylvaníu-fylki í ágúst 2000 og heilsu hans hrakaði jafnt og þétt eftir það. Þrátt fyrir að hann næði fullri fótavist eftir þau veikindi varð hann aldrei samur á eftir. Ford forseti kom ekki fram opinberlega síðustu mánuði ævi sinnar og var oft lagður inn á sjúkrahús síðasta hálfa árið með ýmis heilsufarsleg vandamál. Síðast kom hann fram opinberlega er Bush forseti heimsótti hann í vor á heimili sitt.

Ford forseti kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Betty Ford, í október 1948. Þau eignuðust fjögur börn. Hún tilkynnti formlega um lát eiginmanns síns í yfirlýsingu frá heimili þeirra, en þar lést Ford í faðmi fjölskyldu sinnar í gær. Laust eftir miðnættið sendi George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, út yfirlýsingu vegna andláts Fords forseta og hann mun ávarpa þjóðina frá Hvíta húsinu nú í morgunsárið.

Gerald Ford fór fram á viðhafnarútför þónokkru fyrir lát sitt og mun hann því liggja á viðhafnarbörum í Capitol Rotunda í þinghúsinu í Washington, líkt og Reagan í júní 2004, síðar í þessari viku væntanlega og verða jarðsunginn í dómkirkjunni í Washington. Gerald Ford hafði farið fram á að hann yrði jarðsettur við forsetabókasafn sitt í Grand Rapids í Michigan-fylki, heimafylki sínu, löngu fyrir lát sitt.

Gera má ráð fyrir að útför Ford forseta verði gerð frá Washington á laugardag eða strax eftir áramótin, en væntanlega verður hún fyrir 3. janúar, er þing á að koma aftur saman.

Æviágrip Gerald Ford á vef Hvíta hússins

mbl.is Gerald Ford fyrrverandi Bandaríkjaforseti látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband