Froðusnakk á Bessastöðum

org1
Ég gafst upp á að horfa á yfirborðsmennskuna í nýársávarpi forseta Íslands frá Bessastöðum nú eftir hádegið. Fannst þetta algjört froðusnakk og fannst tilraunir forsetans til að stappa stálinu í þjóðina pínlega vandræðalegar í besta falli. Ólafur Ragnar er ekki sameiningartákn þjóðarinnar á þessum örlagatímum. Sem klappstýra auðmanna og andlit útrásarinnar er hann stórlega skaddaður og getur ekki verið leiðarljós þjóðarinnar. Mjög einfalt mál, hversu svo sem hann reynir að fría sig ábyrgð.

Held að sagnfræðingar framtíðarinnar muni velta því fyrir sér hversu mikil mistök það hafi verið hjá Ólafi Ragnari að draga sig ekki í hlé á síðasta ári, frekar en halda í fjórða kjörtímabilið. Hafi hann einhvern tímann verið traustur þjóðhöfðingi með tengsl við landsmenn eru þeir tímar sannarlega liðnir. Ræðan var ágætis óður til þjóðarinnar en hún var því miður alveg innistæðulaus og var ekki einlæg. Gjá hefur orðið milli þjóðarinnar og forsetaembættisins. Erfitt er að treysta því sem þaðan kemur.

Ólafur Ragnar verður fórnarlamb þeirrar innistæðulausu velgengni sem hann var sendiherra fyrir á alþjóðavettvangi. Fall hennar er um leið fall veigamikils hluta forsetaferils hans. Þetta fellur allt flatt núna. Annað er óhjákvæmilegt. Svo fer sem fer. Eftir stendur forseti sem hefur misst bakland sitt og er stórlega skaddaður. Mun fara í sögubækurnar sem sameiningartákn auðmannanna.

mbl.is Þjóðarátak nýrrar sóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband