22.10.2006 | 21:59
Notaleg og góð helgi í Reykjanesbæ
Þinghaldi lauk síðdegis. Áður en ég hélt heim með kvöldflugi til Akureyrar leit ég við á kosningaskrifstofu Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, í Skúlagötu og átti gott spjall við Björn um fjölda mála, en mikið er um að vera í stjórnmálum og prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík verður um næstu helgi. Var ánægjulegt að ræða við Björn og Óskar Friðriksson, sem þar var staddur, en hann hefur alla tíð verið Sjálfstæðisflokknum mikilvægur í innra starfinu.
Vil þakka öllum þeim sem voru á þinginu fyrir góða helgi og mikla skemmtun. Var virkilega gaman og við sem fórum höfðum gagn og ánægju af vinnu helgarinnar, stefnumótun og samhentri vinnu sem þar fór fram. Kosningabarátta ungra sjálfstæðismanna er hafin af krafti. Bendi hérmeð á umfjöllun um stjórnmálaályktun málefnaþingsins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.10.2006 | 12:50
Málefnaþing SUS um helgina

Málefnaþing SUS verður haldið nú um helgina í Reykjanesbæ. Stefnir í hörkufjör og mikla skemmtun. Yfirskrift þingsins að þessu sinni er: Umhverfið er okkar. Munum við ungir sjálfstæðismenn því líta til umhverfismála, ræða þau í okkar hópi og tjá skoðanir okkar á málaflokknum. Ennfremur verður ráðstefna um umhverfismál á þinginu og öflug umræða um þau.
Hefst þingið með ráðstefnu um umhverfismál síðdegis. Fyrstur flytur ávarp Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Að því loknu flytja ræður þeir Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður umhverfisnefndar Alþingis og Andri Snær Magnason, rithöfundur. Í pallborði sitja þau Friðrik, Guðlaugur Þór, Andri Snær, Illugi Gunnarsson, hagfræðingur, og Unnur Brá Konráðsdóttir, sveitarstjóri.
Þetta verður lífleg og góð helgi í Reykjanesbæ. Það verður ánægjulegt að hitta góða félaga og samherja allsstaðar að um landið og eiga góða helgi saman. Þingin hjá okkur í SUS eru alltaf frábær. :)
20.10.2006 | 12:30
Svavar, Stasi og Jón Baldvin

Það er vandræðalegt fyrir Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrum utanríkisráðherra, að nú hafi komist upp að hann hafi viljað rannsaka fortíð Svavars Gestssonar, samráðherra hans í ríkisstjórn 1988-1991, með tilliti til þess hvort hann hefði starfað fyrir austurþýsku leyniþjónustuna Stasi á námsárum sínum í Þýskalandi. Mun sú athugun hafa farið fram meðan að báðir voru ráðherrar á fyrrnefndu tímabili. Það hefur margt komið fram í þessari viku. Greinaskrif Þórs Whitehead hafa afhjúpað ýmislegt. Þar vísar hann á að Jón Baldvin hafi falið Róbert Trausta Árnasyni, fyrrum sendiherra, þetta verk og hefur Róbert Trausti fjallað nú seinustu dagana um það.
Takast nú Jón Baldvin og Róbert Trausti á í fjölmiðlum um málið af hörku. Eins og Svavar Gestsson sjálfur hefur bent á er erfitt fyrir hann að taka afstöðu með öðrum þeirra, enda vitað mál að annar þeirra greinir rangt frá. Er þetta mál hið vandræðalegasta fyrir Jón Baldvin eftir þær uppljóstranir hans að skrifstofusími hans hafi verið hleraður. Er merkilegast af öllu að mun þessi athugun eiga að hafa farið fram í umboði Jóns Baldvins og Steingríms Hermannssonar, þáv. forsætisráðherra. Athygli vekur að Steingrímur hefur ekki viljað tjá sig um þetta mál. Ef rétt reynist er um að ræða mikinn álitshnekki yfir viðkomandi ráðherrum.
Í Kastljósi í gærkvöldi var rætt við Margréti Frímannsdóttur, síðasta formann Alþýðubandalagsins, um þessi mál. Virtist hún hella sér yfir Jón Baldvin og hafði fá góð orð um hans framgöngu að segja. Er greinilegt að vinstrimenn eru ekki lengur sameinaðir í því að standa með Jóni Baldvin í öllum þessum málum. Róttækasti hluti Samfylkingarinnar er hættur að verja hann og hans frásögn. Er enda alveg ljóst að þar hefur hann orðið margsaga og þetta mál er allt hið versta fyrir Jón Baldvin, sem var þegar í erfiðri stöðu að mörgu leyti. Merkilegast var að heyra í Svavari Gestssyni sjálfum sem greinilega gefur sér ekki að Jón Baldvin segi rétt frá.
Þetta er allt hið merkilegasta mál.
20.10.2006 | 11:45
Velheppnað umferðarátak

Árið 2006 hefur verið mjög erfitt í umferðinni. Margir hafa látið lífið í umferðinni, fjöldi alvarlegra slysa verið með ólíkindum mikill og fjöldi fólks í sárum vegna banaslysa í umferðinni. Fyrir nokkrum vikum var stofnað til umferðarátaksins Nú segjum við stopp. Tæp 40.000 manns rituðu nafn sitt í vefsöfnun átaksins og niðurstöður hraðamælinga á höfuðborgarsvæðinu sýna víst að hraðinn minnkaði eitthvað. Þetta átak var nauðsynlegt til að minna okkur á að það verður að hugsa þessa hluti upp á nýtt og reyna að stilla hraðanum í hóf.
![]() |
,,Nú segjum við stopp!" bar greinilegan árangur að mati Umferðarstofu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.10.2006 | 23:35
Hagnaður Google eykst til muna

Eitt mesta þarfaþing hversdagsins er leitarvélin Google. Flest okkar förum varla orðið í gegnum daginn nema að leita á náðir Google, t.d. að gúggla upplýsingum, myndum eða öðru því sem við viljum kynna okkur. Það er merkilegt að sjá nú fréttir af hagnaði Google. Hann nærri því þrefaldaðist á þriðja ársfjórðungi ársins 2006 og nemur 733 Bandaríkjadölum, eða rúmum fimmtíu milljörðum króna íslenskra. Á þriðja ársfjórðungi var hagnaðurinn nærri því 381 milljón dala. Þetta er því 92% aukning milli ára.
Þetta er ekkert smábatterí orðið semsagt. Þegar að Google var stofnað í september 1998 var það smotterísbissness nokkurra manna, lítið einkafyrirtæki. Höfuðstöðvar þess eru í Mountain View í Kaliforníu og þar vinna yfir 8000 starfsmenn. Google hefur þroskast hratt á þessum tíu árum, bara seinustu fjórum, ef út í það er farið, og eflst við hverja uppbyggingu tölvuiðnaðarins og styrkleika hans. Þessar tölur um stöðuna milli ársins 2005 og 2006 segir allt sem segja þarf um stöðuna nú. Þeir sem vilja kynna sér sögu Google geta litið á þessa vefslóð.
![]() |
Hagnaður Google eykst um 92% á þriðja ársfjórðungi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 23:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.10.2006 | 21:03
Ný útgáfa IE vafrans

Heldur betur breyting á Internet Explorer-vafranum sem kynntar voru í dag. Fyrstu breytingarnar á honum að ráði í heil fimm ár. Öryggismál og útlit verið bætt til mikilla muna og margt gert með hætti Firefox, t.d. hægt núna að skoða síður í flipum í stað nýrra glugga. Það er svo sannarlega mjög til bóta. Í heildina því góð breyting og til batnaðar að nær öllu leyti.
![]() |
Ný útgáfa Internet Explorer vafrans |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.10.2006 | 16:45
Oasis heiðruð
Jæja, þá á að fara að heiðra Oasis á næstu Brit-verðlaunum. Kemur ekki á óvart, enda ein besta hljómsveit Breta síðustu áratugina. Man vel þegar að hún varð fyrst fræg að ráði fyrir rúmum áratug. Þá voru fylkingar okkar Íslendinga, jafnt og Breta, í hvort að við fíluðum Oasis eða Blur. Svona svipað og áratug enn þar áður þegar að bitist var um hvor væri flottari Duran Duran eða Wham. Vilja þeir sem fíluðu Wham þá enn merkja sig því klístraða bandi? Ég var alltaf Oasis-maður, þoldi enda aldrei Blur í hreinskilni sagt. Oasis á mörg flott lög, ætli Don´t Look Back in Anger og Wonderwall standi ekki efst í mínum huga. Eðalband.
![]() |
Oasis verðlaunuð fyrir framúrskarandi árangur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.10.2006 | 15:46
Sleggjan reiðir til höggs

Það kemur fáum að óvörum að Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður, a.k.a. Sleggjan, tilkynni nú um leiðtogaframboð í Norðvesturkjördæmi. Það stefnir í mjög spennandi uppgjör milli Magnúsar Stefánssonar, félagsmálaráðherra, og Kristins um leiðtogastól Framsóknarflokksins í kjördæminu. Fram fer póstkosning allra flokksmanna á svæðinu. Það var mikið áfall fyrir Magnús og stjórn kjördæmisráðsins að ekki skyldi fást í gegn tillaga stjórnar um að velja frambjóðendur í efstu sæti á tvöföldu kjördæmisþingi. Hörð átök urðu milli stuðningsmanna Magnúsar og Kristins og átakakosningu um tillögu stjórnarinnar lauk með sigri liðsmanna Sleggjunnar.
Greinilegt er að Kristinn H. og hans stuðningsfólk vann merkilegan sigur á því kjördæmisþingi. Þeirra leið verður farin og við tekur póstkosning þar sem allir flokksmenn hafa jöfn áhrif. Með því verður ekki tryggður neinn fléttulisti vissra svæða og jafnt kynjahlutfall í efstu sæti eins og varð í aðdraganda þingkosninganna 2003. Engum hefur dulist samskiptaleysi þingmannanna tveggja í kjördæminu og milli þeirra hefur allt að því ríkt kalt stríð. Það hefur verið metið svo að Magnús Stefánsson hafi svo verið gerður að félagsmálaráðherra við brotthvarf Halldórs Ásgrímssonar úr stjórnmálum gagngert til að treysta stöðu hans í kjördæminu í pólitískum átökum við Kristinn.
Auk þeirra tveggja hefur Herdís Sæmundardóttir tilkynnt um framboð sitt í 1. sætið, en hún nefnir hið annað með í þeim efnum. Enginn vafi leikur á því að sá sem hagnast mest á póstkosningunni verður væntanlega Kristinn H. En hvort að þetta form á kosningu tryggir það mjög stöðu Kristins að hann verði leiðtogi Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi í kosningunum að vori verður að ráðast. Altént má fullyrða að félagsmálaráðherrann verði að berjast fimlega og af krafti til að halda sínu. Þetta verður mjög beitt og hressileg prófkjörsbarátta sem þarna verður háð.
Fyrst og fremst vekur mikla athygli gríðarlega hörð, allt að því óvægin, barátta fylkinga framsóknarmanna í kjördæminu og greinilegt að samstaðan þar er lítil sem engin og kristallast mjög vel í að stjórn kjördæmisráðs varð algjörlega undir með sína afstöðu til þess hvernig velja skuli efstu frambjóðendur.
![]() |
Sækist eftir fyrsta sæti Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.10.2006 | 14:50
Talsmaður neytenda í þingframboð

Nú hefur Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, tilkynnt um framboð sitt í annað sæti á lista Framsóknarflokksins í kraganum. Það verður væntanlega nokkur slagur um það sæti, en listinn verður kjörinn á tvöföldu kjördæmisþingi flokksins, eins og í öllum kjördæmum nema Norðvesturkjördæmi. Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, virðist óumdeild sem leiðtogi listans. Páll Magnússon, bæjarritari í Kópavogi, skipaði annað sætið í síðustu kosningum en ætlar ekki í framboð nú, enda orðinn embættismaður í Kópavogi og ætlar að helga sig því.
Ég er handviss um að Gísli Tryggvason er heiðursmaður, eins og hann á ættir til. Hann er vel ættaður inn í Framsókn. Faðir hans, Tryggvi Gíslason, var skólameistari MA í áratugi og föðurbróðir hans, Ingvar Gíslason, var þingmaður Framsóknarflokksins hér á Norðurlandi um árabil og menntamálaráðherra í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens 1980-1983. Það er nú svo að ég skil ekki algjörlega til fulls þennan titil talsmaður neytenda.
Er þetta talsmaður minn og þinn, lesandi góður, á neytendamarkaði? Botna ekki í þessu fimbulfambi. Er þetta ekki bara enn ein staðan sem er sett fram til að dekka framsóknarmenn hjá hinu opinbera. Kannski harkalegt mat, en hvað með það. En getur talsmaður neytenda farið í þingframboð og verið talsmaður á meðan? Þegar að stórt er spurt verður oft skelfilega fátt um svör.
![]() |
Gísli Tryggvason í framboð fyrir Framsóknarflokkinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.10.2006 | 13:27
Ágúst Ólafur stefnir á fjórða sætið

Á sama klukkutímanum og ég skrifaði hér og undraðist að Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, hefði ekki enn tilkynnt framboð sendi hann frá sér tilkynningu um framboð í fjórða sætið í prófkjöri flokksins í Reykjavík þann 11. nóvember nk. Með því tekur hann slaginn við Mörð Árnason, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, Helga Hjörvar, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, Valgerði Bjarnadóttur og Guðrúnu Ögmundsdóttur.
Það verður mikill hörkuslagur um þetta sæti greinilega og verður spennandi að sjá hver hreppir það og hvernig næstu menn raðast. Þetta verður greinilega spennuþrungið prófkjör sem áhugavert verður að fylgjast með.
![]() |
Ágúst Ólafur stefnir á fjórða sætið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.10.2006 | 12:22
Tilkynning Marðar - beðið eftir Stefáni og Ágústi

Nú styttist í að framboðsfrestur renni út í prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík, sem fram fer þann 11. nóvember nk. Nú hefur Mörður Árnason, alþingismaður, tilkynnt um framboð sitt í 4. - 6. sætið. Það er varla undrunarefni að þingmaður er hefur setið eitt tímabil vilji vera lengur, en Merði hafði mistekist naumlega bæði í kosningunum 1995 og 1999 að komast á þing. Það verður fróðlegt að sjá honum að muni ganga. Mikill fjöldi hefur gefið sig upp og orðinn þröngt setinn bekkurinn um 4.-6. sætið. Sú fyrsta til að gefa sig upp var Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarfulltrúi, og margir bæst svo við. Nýlega tilkynnti þó Gylfi Arnbjörnsson að hann hefði hætt við.

Beðið er eftir ákvörðun Stefáns Jóns Hafsteins, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar í Reykjavík, og Ágústs Ólafs Ágústssonar, varaformanns Samfylkingarinnar, um framboð. Mikla athygli vekur að varaformaðurinn Ágúst Ólafur hafi ekki enn gefið upp á hvaða sæti hann stefnir í væntanlegu prófkjöri, en það er öllum ljóst að fylgismenn Ingibjargar Sólrúnar flykkjast um sætin neðan við fjórða og fáir líta svo á að þeir eigi að bakka frá fyrir varaformanninn. Staða hans virðist vera mjög viðkvæm á þessu stigi.
Talað hefur verið um væntanlegt þingframboð Stefáns Jóns allt frá prófkjöri Samfylkingarinnar í febrúar. Þar missti Stefán Jón leiðtogastöðu sína hjá flokknum í borgarmálunum og hefur síðan horft í aðrar áttir, og það mjög skiljanlega. Þegar er Steinunn Valdís, sem var borgarstjóri síðustu misseri R-listans við völd, komin í þingframboð og vill halda í landsmálin, enda ekki áhugavert fyrir hana að vera í minnihlutaflokki undir forystu Dags B. Eggertssonar. Sama virðist vera með Stefán Jón. Talið er ansi líklegt að hann fari fram og tilkynni það í dag eða á morgun.
![]() |
Mörður sækist eftir 4.-6. sæti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.10.2006 | 09:47
Innanlandsflug hjá Iceland Express

Mjög góð tíðindi að Iceland Express stefni að því að halda í innanlandsflugið. Ætlað er að fljúga sex sinnum á dag til Akureyrar og fjórum sinnum á dag til Egilsstaða. Stefnt er að því að bjóða upp á 30-40% lægri fargjöld en okkur er boðið upp á hjá Flugfélagi Íslands. Ekki veitir af að lækka flugfargjöld á innanlandsmarkaði, en það er rándýrt að fljúga innanlands og telst hreinn og klár munaður. Ekkert nema gleðiefni að þetta verði svona og altént fagna ég innkomu Iceland Express á þennan markað.
![]() |
Innanlandsflug hjá Iceland Express næsta vor |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.10.2006 | 09:21
Góður morgunþáttur

Það er alltaf notalegt að vakna snemma á morgnana með Morgunútvarpi Rásar 2, þar sem þau Gestur Einar Jónasson og Hrafnhildur Halldórsdóttir ráða ríkjum. Fínt morgunspjall þar, góð viðtöl og lög spiluð. Gestur Einar er auðvitað staðsettur hér á Akureyri en Hrafnhildur sunnan heiða. Það er vissulega gott að Gestur Einar er kominn aftur á góðan stað í dagskránni. Hann var tekinn af dagskrá fyrir um ári og falinn einhversstaðar á Morgunvakt Rásar 1 og heyrðist mjög lítið í honum. En nú er kominn með sinn sess. Einhver gárunginn sagði eitt sinn að hann gæti ekkert annað en talað um veðrið á Akureyri og eldgömul lög, en hann er nú betri en það held ég.
Ég veit það mjög vel að gott er að fara í viðtal til Gests Einars. Sjálfur fór ég í nokkuð eftirminnilegt viðtal við hann í febrúar. Þar ræddum við mál, sem sennilega telst það stærsta á minni ævi á þessu ári, og við fórum yfir allar hliðar þess. Sjaldan eða aldrei hef ég heyrt meiri viðbrögð á einu né neinu, en þetta viðtal tókst mjög vel. Það var ánægjulegt að fara yfir sína hlið á því máli með Gesti Einari. Leist vel á útkomuna úr viðtalinu, enda heyrði ég ekkert annað en að viðtalið hefði tekist vel og þar hefði verið farið mjög vel yfir stöðu mála. Gestur Einar kom einhvernveginn með réttu spurningarnar og þetta varð áhugavert viðtal, að mínu mati allavega.
En já, það er fátt betra á góðum morgni en hlusta á þennan þátt og ég hlusta ekki á annað fyrst á morgnana. Mjög gott yfir kaffibollanum og kornflögum á kafi í mjólk.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.10.2006 | 23:38
The Exorcist mest ógnvekjandi myndin
Kvikmyndin The Exorcist, í leikstjórn William Friedkin, varð efst í könnun tímaritsins Stuff um mest ógnvekjandi myndir í sögu kvikmyndasögunnar. Efstu myndirnar í könnuninni eru hver annarri ógnvænlegri og meira spennandi. Þær eru Rosemary's Baby, The Shining, Halloween, Jaws, Nightmare on Elm Street, Psycho, Candyman, Planet of the Apes og Alien. Ekki kemur valið á The Exorcist á óvart, þó ég verði að viðurkenna að Rosemary´s Baby náði meiri tökum á mér þegar að ég sá hana fyrst. Þvílík spenna. Svo er auðvitað Nightmare on Elm Street ansi grípandi.
The Exorcist hefur alla tíð verið ein mest umdeildasta kvikmynd sögunnar. Hún vakti hroll hjá kvikmyndahúsagestum árið 1973 og telst algjörlega ógleymanleg í huga þeirra sem hana hafa séð. William Friedkin, leikstjóri hennar, var einn bestu leikstjóra sinnar kynslóðar, en hann hefur t.d. leikstýrt The French Connection, sem tryggði Gene Hackman alheimsfrægð á einni nóttu. Myndin hlaut mörg verðlaun hjá bandarísku kvikmyndaakademíunni. Friedkin fékk leikstjóraóskarinn, Hackman valinn leikari ársins og myndin valin sú besta á árinu 1971.
Það er hægt með svo misjöfnum hætti að vekja skelfingu hjá kvikmyndahúsagestum. Allir sem séð hafa Psycho vita að hún hefur vissa sérstöðu í þessum flokki. Þar sést lítið sem ekkert blóð. Skelfing áhorfenda er fengin með snöggum klippingum og magnaðri tónlist meistara Bernard Herrmann. Sturtuatriðið fræga með hinni sálugu Janet Leigh hefur mikla sérstöðu í kvikmyndasögunni. Í því morðatriði er þó nær ekkert blóð, heldur snöggar klippingar og drastískasta útgáfan af stefinu fræga spilað mjög snöggt. Algjör snilld.
Hef ekki séð The Exorcist merkilega lengi. Þarf að rifja hana upp enn og aftur, en ég á hana hérna heima á DVD reyndar. Þarf að líta á hana eftir helgina, þegar að ég hef góðan tíma. Hvet alla til að líta á hana og þær myndir sem voru með henni á topp 10 í þessari merkilegu könnun.
![]() |
Særingarmaðurinn mest ógnvekjandi allra kvikmynda skv. tímaritskönnun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 23:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.10.2006 | 22:54
Ályktun stjórnar SUS um RÚV-frumvarp
Við í stjórn SUS sendum í dag frá okkur þessa góðu ályktun, þar sem við lýsum sárum vonbrigðum okkar með að menntamálaráðherra og ríkisstjórnin undir forystu Sjálfstæðisflokksins standi nú að frumvarpi sem ætlað er að efla rekstur Ríkisútvarpsins og styrkja stöðu þess á fjölmiðlamarkaði.
"Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna lýsir sárum vonbrigðum sínum með að menntamálaráðherra og ríkisstjórnin undir forystu Sjálfstæðisflokksins standi nú að frumvarpi sem ætlað er að efla rekstur Ríkisútvarpsins og styrkja stöðu þess á fjölmiðlamarkaði. Það stangast á við grundvallarhugmyndir sjálfstæðisstefnunnar að ríkisvaldið standi í samkeppni við einkaaðila, hvort sem það er á sviði fjölmiðlunar eða öðrum sviðum atvinnulífs.
Það er sorgleg staðreynd að engin skref hafa verið stigin í frjálsræðisátt í málefnum ríkisfjölmiðlunar frá því að þáverandi menntamálaráðherra, Ragnhildur Helgadóttir, fékk samþykkt á Alþingi frumvarp sem afnam einkaleyfi ríkisins á útvarps- og sjónvarpsrekstri. Síðan þá eru liðnir rúmlega tveir áratugir.
Varðandi menningarlegt hlutverk Ríkisútvarpsins, ítrekar SUS fyrri afstöðu sína þess efnis að ríkisstyrkt menning kæfir frumkvæði og sköpunargleði einstaklinga. Þegar stjórnmálamenn deila fé úr sameiginlegum sjóðum til sérhagsmunahópa er slík úthlutun jafnan eftir geðþótta fremur en hæfileikum listamanna og eftirspurn. Með því eru stjórnmálamenn í raun að þröngva upp á borgarana sínum eigin smekk á því hvað skuli vera menning. Hin raunverulega menning þokar þannig fyrir ríkismenningunni.
Þær fyrirætlanir menntamálaráðherra að auka skilvirkni í starfsemi Ríkisútvarpsins með hinu nýja frumvarpi eru góðra gjalda verðar. Ríkisrekstur á fjölmiðlamarkaði er hins vegar tímaskekkja og því hefði verið eðlilegt og skynsamlegt af menntamálaráðherra að draga ríkisvaldið alfarið út úr þeim rekstri, leggja stofnunina niður og selja eignir hennar."
Ég vil auk ályktunarinnar benda á sögupistil minn um Ragnhildi Helgadóttur, fyrrum menntamálaráðherra, sem birtist á vef SUS fyrr í þessum mánuði, en eins og fyrr segir lagði hún fram þá lykilbreytingu fyrir tveim áratugum að einkaaðilum skyldi leyft að reka ljósvakamiðla.
18.10.2006 | 21:27
10 í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í kraganum
Framboðsfrestur vegna prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi er nú runninn út. 10 gefa kost á sér í prófkjörinu sem fram á að fara laugardaginn 11. nóvember nk.
Í framboði verða:
Ármann Kr. Ólafsson, forseti bæjarstjórnar Kópavogs,
Árni Þór Helgason, arkitekt,
Bjarni Benediktsson, alþingismaður,
Bryndís Haraldsdóttir, varaþingmaður,
Jón Gunnarsson, framkvæmdastjóri,
Ragnheiður Elín Árnadóttir, aðstoðarmaður forsætisráðherra,
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ,
Sigurrós Þorgrímsdóttir, alþingismaður,
Steinunn Guðnadóttir, íþróttakennari,
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra
Heldur verður það nú að teljast líklegt að kjörnefnd muni bæta við frambjóðendum, með tilliti til prófkjörsreglna Sjálfstæðisflokksins, en henni er það heimilt standi fjöldi frambjóðenda ekki undir væntingum kjörnefndar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.10.2006 | 19:11
Ungir sjálfstæðismenn í NA standa sig vel
Það er mikið gleðiefni að ungir sjálfstæðismenn eru öflugir og vinna vel saman í Norðausturkjördæmi. Höfum við stofnað kjördæmasamtök og hafið góða samvinnu okkar á milli. Það sem ég er stoltastur af úr formannstíð minni í Verði var að standa að stofnun kjördæmasamtakanna og hefja samstarf milli kjördæmahlutanna, t.d. okkar norðanmanna við Austfirðingana, en lítið samstarf var fram að því í Norðausturkjördæmi milli ungliðanna. Það hefur svo sannarlega breyst.
Um helgina á kjördæmisþingi flokksins í Mývatnssveit komum við saman og unnum að séráliti okkar á stjórnmálaályktun þingsins. Er hún send út í nafni félaganna allra. Hvet alla lesendur til að lesa það og kynna sér skoðanir okkar ungliðanna.
![]() |
Ungir sjálfstæðismenn í NA-kjördæmi telja að ríkið þurfi að taka nýtingu auðlinda fastari tökum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.10.2006 | 13:55
Ályktun kjördæmisþings í Norðausturkjördæmi

Kjördæmisþing okkar sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi var haldið um síðustu helgi að Skjólbrekku í Mývatnssveit. Þar var góð samstaða um flest mál, bæði stjórnmálaályktun og þá ákvörðun að boða til prófkjörs í næsta mánuði. Þetta var gott kjördæmisþing og höldum við samstillt og öflug í næstu verkefni. Bendi hérmeð á stjórnmálaályktun kjördæmisþingsins.
![]() |
Sjálfstæðismenn í NA-kjördæmi fagna árangri ríkisstjórnarinnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.10.2006 | 12:04
Friðarsúla Yoko Ono í Viðey

John Lennon setti að mínu mati eftirminnilegast mark á tónlistarsögu 20. aldarinnar. Nú um þessar mundir eru 26 ár frá því að hann var myrtur í New York og hann hefði orðið 66 ára, hefði hann lifað, í þessum mánuði. Lennon og hljómsveit hans, The Beatles, slógu í gegn og unnu sér frægð fyrir ógleymanlega tónlist í upphafi sjöunda áratugarins. Framlag Bítlanna og Lennon varð til þess að breyta gangi sögu tónlistarinnar - ekkert varð samt eftir að þeir komu til sögunnar í tónlistinni. Bítlarnir liðu undir lok árið 1970. Seinustu ár ævi sinnar gaf Lennon út tónlist einn síns liðs á sólóferli eða með eiginkonu sinni, Yoko Ono. Hún hefur staðið vörð um minningu hans.
Nú stendur til að reisa friðarsúlu í minningu Lennons og undir merkjum Imagine, sem ber ennfremur heiti eins þekktasta lags Lennons á sólóferli hans, í Viðey. Um er að ræða ljóssúlu sem myndi standa upp í mikla hæð. Unnið er að lokaútfærslum verksins. Mér finnst það viðeigandi að heiðra minningu Lennons og tel hið besta mál að þetta verði hér á Íslandi. Lega landsins gerir það að verkum að það er mitt á milli austurs og vesturs og greinilega er Ísland valið til að birtunni stafi héðan um allan heiminn, enda miðja vegu milli risaveldanna. Greinilegt er að þessi friðarsúla er hjartans mál Yoko Ono nú, enda liggur hún mikla áherslu á verkið.
Hef ég lengi verið mikill unnandi tónlistar Lennons, sérstaklega áranna með Bítlunum og seinni hluta sólóferilsins. Eitt þekktasta lag Lennons er fyrrnefnt Imagine. Er það ekki annars uppáhaldslag okkar flestra. Tær snilld - best að birta ljóðið hérmeð.
Imagine there's no Heaven
It's easy if you try
No hell below us
Above us only sky
Imagine all the people
Living for today
Imagine there's no countries
It isn't hard to do
Nothing to kill or die for
And no religion too
Imagine all the people
Living life in peace
You may say that I'm a dreamer
But I'm not the only one
I hope someday you'll join us
And the world will be as one
Imagine no possessions
I wonder if you can
No need for greed or hunger
A brotherhood of man
Imagine all the people
Sharing all the world
You may say that I'm a dreamer
But I'm not the only one
I hope someday you'll join us
And the world will live as one
![]() |
Gerð friðarsúlu erfið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.10.2006 | 11:09
Juan Peron jarðaður í Buenos Aires

Eflaust kippast einhverjir lesendur upp við þessa fyrirsögn. Það eru jú 32 ár síðan að Juan Peron, þáv. forseti Argentínu, lést. Það er nú samt svo að Peron var jarðaður skammt utan við höfuðborgina Buenos Aires í gær. Fáir eru umdeildari og hafa verið í sögu Argentínu en Peron-hjónin, Evita og Juan. Juan Peron hefur verið jarðaður oftar en tvisvar frá því að hann lést þann 1. júlí 1974. Landið var í kaos þegar að hann dó. Hann hafði gert eiginkonu sína, Isabel Peron, að varaforseta við valdatöku sína (að nýju) árið 1973. Það var því hún sem tók við af honum. Hún var algjörlega óreyndur stjórnmálamaður og réð ekki við neitt. Henni var steypt af stóli árið 1976.
Margar bækur hafa verið skrifaðar um valdaferil Juan Peron. Hann var umdeildur leiðtogi, sem skipti þjóðinni í fylkingar með og á móti sér. Hann hefur þó sennilega verið umdeildastur árin eftir að hann dó og ekkja hans missti völdin í valdaráni. Margoft hafa verið gerðar tilraunir til að svívirða bæði lík hans og Evitu, konu hans. Hann missti völdin svo fljótt (í fyrra sinnið) eftir lát hennar að hann gat ekki verndað lík hennar, svo að illa fór. Eins fór fyrir honum, en einu sinni var gerð tilraun til að svívirða lík hans svo illa að mótmælendur reyndu að kveikja í því. Evita var goðsagnapersóna í lifanda lífi, um hana hafa verið gerður söngleikur og þekkt lög sem allir kannast við.
Eftir að Evita dó missti Peron völdin og hann varð aldrei eins vinsæll eftir lát hennar. Vandræði hafa verið með líkamsleifar Peron-hjónanna, enda eru enn starfandi fylkingar sem eru mjög andvíg því að virða minningu hjónanna. Það eru því auðvitað nokkur tíðindi að eftir 32 ár sé Peron jarðaður að nýju. Það varð reyndar lítil viðhöfn við þessa athöfn, enda voru óeirðir slíkar að forsetinn, Nestor Kirschner, gat ekki verið viðstaddur, sem segir sína sögu mjög vel um stöðu mála.
Umfjöllun um jarðsetningu Perons
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)