15.11.2006 | 20:00
Stjórn SUS ályktar um Árna Johnsen

"Að gefnu tilefni gerir stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna þá kröfu til Árna Johnsen sem hugsanlegs þingmanns Sjálfstæðisflokksins að hann sýni auðmýkt þegar hann ræðir um þau brot sem hann var sakfelldur fyrir í starfi sínu sem þingmaður. Háttsemi sú sem Árni var dæmdur fyrir var ekki tæknileg mistök" heldur alvarleg og mjög ámælisverð afbrot.
Þátttakendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi hafa nú veitt Árna Johnsen annað tækifæri til að sýna að hann geti staðið undir því trausti sem kjósendur sýna kjörnum fulltrúum. Fyrsta skrefið í að endurvinna traust flokksmanna og almennings í landinu er að iðrast fyrri mistaka af einlægni og koma fram af auðmýkt og virðingu.
Ef Árni Johnsen tekur sæti á Alþingi munu fjölmiðlar og aðrir fylgjast vandlega með störfum hans þar. Ætla má að embættisstörf hans verði í meira mæli undir smásjánni en gildir um aðra þingmenn. Standi Árni Johnsen undir þeim auknu kröfum sem til hans verða gerðar hefur hann nýtt tækifærið og lagt grunninn að því að endurheimta það traust sem hann glataði við áðurnefnd afbrot."
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.11.2006 | 17:51
Á að íslenska heiti kvikmynda?
Það er fátt sem jafnast á við það að skella sér í bíó og sjá vandaðar og vel gerðar kvikmyndir. Ég fer mjög oft í bíó og hef gaman af að stúdera kvikmyndir sem listform og allar hliðar þeirra. Seinustu vikurnar hefur verið nóg af góðum myndum í bíó og því hef ég oft skellt mér og kíkt á þær nýjustu.
Það er mikið talað um hvort íslenska eigi heiti kvikmynda. Er menntamálaráðherra nú að tala fyrir því að íslenska eigi heitin. Stefnt er að því sérstaklega á morgun vegna dags hinnar íslensku tungu. Ég hef mjög lítið spáð í þessu svosem. Ég fer í bíó alveg sama hvort er. Það skiptir litlu máli í raun að mínu mati. The Departed er alveg jafngóð hvort sem hún er presenteruð sem slík eða Hinir framliðnu, sem væri væntanlega íslenskaða heitið annars.
Ég skil að málverndarsinnar geri mál úr þessu. En hvernig sem fer munum við alltaf kalla The Departed, meistaraverk Martin Scorsese, (sem er ein vinsælasta myndin í bíó þessar vikurnar) því nafni sama hvort hún er auglýst þannig eður ei. Þetta er kynningarheiti myndarinnar á veraldarvísu. Þannig að ég skil ekki þessa umræðu alveg. En ef þetta róar einhverja málverndarsinna er mér svosem alveg sama. Ég kalla myndir ávallt sínu heiti, alltsvo hið erlenda, enda er það heiti myndarinnar á heimsvísu.
![]() |
Titlar erlendra kvikmynda þýddir í tilefni af degi íslenskrar tungu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.11.2006 | 13:11
Málefni Akureyrarflugvallar rædd á Alþingi

Það er mikilvægt að framkvæmdir tali í stað gagnslausra orða. Það hefur verið talað um lengingu Akureyrarflugvallar um þónokkuð skeið, en ekkert gerst í þeim efnum. Nú hafa Akureyrarbær og KEA boðið flýtifjármögnun til að hægt sé að lengja brautina á vellinum, eins og fram kom í hádegisfréttum Bylgjunnar. Það eru mikil vonbrigði að aðstæður séu með þeim hætti að Iceland Express treystir sér ekki lengur til að halda úti vetrarmillilandaflugi til bæjarins. Grunnforsenda þess að hafa millilandaflug er að lengja brautina.
Það er gleðiefni að þverpólitísk samstaða sé um stöðu mála. En orð megna sín mjög lítils ef þeim fylgja ekki sýnilegar efndir. Þeirra hefur verið beðið lengi frá Sturlu Böðvarssyni, samgönguráðherra. Það er vonandi að þessi ráðherra sé þess megnugur að standa við stóru orðin og koma þessu máli úr umræðugírnum og á vegferð framkvæmda. Það er það sem skiptir máli, ekki innihaldslaust blaður.
![]() |
Lenging flugbrautar á Akureyrarflugvelli rædd á Alþingi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.11.2006 | 11:59
Fer Jacques Chirac fram í þriðja skiptið?

Nú hefur hið merkilega gerst að Bernadette, eiginkona forsetans, hefur lýst því yfir að ekki sé útilokað að forsetinn fari fram þriðja sinni. Það var gert með mjög áberandi hætti í Nouvel Observateur. Greinilegt er að verið að reyna að kanna stöðu forsetans með áþreifanlegum hætti. Chirac er gamall pólitískur refur og veit að með því að láta eiginkonu sína vera boðbera tíðindanna getur hann betur skannað landslagið og viðbrögð landsmanna. Það kemur þó á óvart að hann taki þessa afstöðu.
Það er samt ljóst að forsetinn á undir högg að sækja. Frekar litlar líkur verða að teljast á því að hann fari fram aftur í forsetakjöri eins og staða mála er þessar vikurnar. En með þessu er greinilegt að forsetinn hefur ekki enn tekið formlega ákvörðun um að hætta, eins og svo víða hefur verið talað um. Það er greinilegt að ákvörðunin er handan við hornið, enda fer að líða að hörku kosningabaráttunnar, en forsetakjörið fer fram í tveim umferðum í apríl og maí, ef forseti er ekki kjörinn í fyrri umferð, sem sjaldan hefur gerst.
Mikið er talað um forsetaframboð Segolene Royal og Nicolas Sarkozy. Heldur verður nú að teljast líklegt að það verði þau sem berjist um lyklavöldin í Elysée-höll, embættisbústað franska forsetaembættinsins, að vori. Chirac verður varla persóna í þeim kosningaslag. En þetta er merkilegt útspil sem við verðum vitni að með viðtalinu við Bernadette Chirac og mjög til vitnis um að forsetinn hefur ekki enn slegið formlega á framboð sitt.
Það verða þó að teljast hverfandi líkur að hann leggi í framboð til annarra fimm ára og enn ólíklegra að hann kæmi sem sigurvegari út úr þeim kosningaslag.
![]() |
Eiginkona Chiracs segir hann íhuga framboð þriðja kjörtímabilið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.11.2006 | 10:42
Eðlileg ákvörðun hjá Iceland Express

Bæjaryfirvöld og fleiri aðilar hafa talað af krafti fyrir þessum þáttum, en fyrir daufum eyrum stjórnvalda sem draga lappirnar í málinu. Því hefur farið sem farið hefur. Mér finnst mikilvægt að þakka vel það sem vel er gert, öll metum við þetta flug milli Akureyrar og heimsborga mikils. Iceland Express hefur að mínu mati staðið sig mjög vel og fyrirtækið á heiður skilinn fyrir þá þjónustu sem það hefur veitt fólkinu á svæðinu. Þetta er því skiljanlegt að þau taki þessa ákvörðun út frá grunnforsendum mála. Það er enda mikilvægt að skrefið verði stigið til fulls og ráðist í endurbætur á vellinum.
Það er lykilatriði málsins. Beðið er eftir því að þessar endurbætur komi, enda eru þær forsendur þess að millilandaflug sé raunhæft á vetrarmánuðum í heildina litið.
![]() |
Eðlileg ákvörðun Iceland Express miðað við aðbúnað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.11.2006 | 23:59
"Tæknileg mistök" Árna Johnsen

Í kvöld var viðtal við Árna Johnsen í fréttum. Fór hann yfir málið eftir að Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, tjáði sig um það í gær. Skilaboð Geirs voru kristalskýr - Árni nyti stuðnings forystu flokksins og trausts þeirra. Það voru skilaboð sem eru umdeild innan flokksins. Það veit ég mjög vel. Í kvöld talaði Árni af iðrun og baðst fyrirgefningar á stöðu mála. Það er gott og blessað og hefði átt að gerast fyrir margt löngu. Enginn getur fyrirgefið iðrandi syndara sem ekki iðrast nema með herkjum og ósannfærandi túlkun á brá. Það er algjör grunnforsenda þess að fyrirgefning sé möguleg. Það er mitt mat, ég er viss um að margir séu mér sammála.
Eitt orðalag sló mig nokkuð. Árni sagðist hafa gert tæknileg mistök á sínum tíma. Ég leiddi hugann að því hvernig í ósköpunum sé hægt að kalla það sem gerðist er leiddi til pólitískra leiðarloka Árna fyrir fimm árum tæknileg mistök. Þetta er óheppilegt orðalag og hjálpar engum, allra síst þingmannsefninu sem sunnlenskir sjálfstæðismenn sáu í Árna Johnsen. Ekki urðu þessi ummæli til að milda afstöðu mína, svo mikið er víst. Það er að mínu mati algjört lágmark að Árni bæðist afsökunar og gerði þessi mál upp. Ástæða þess að mörgum mislíkar pólitísk upprisa hans á Suðurlandi þessa dagana er einmitt að iðrunina vantar í kjölfar þess að hann sat sinn dóm.
Það eitt myndi bæta stöðu Árna mikið í huga margra, almennra flokksmanna innan Sjálfstæðisflokksins og ekki síður landsmanna í heildina litið. Það er mannlegt að brjóta af sér en forhert að geta ekki viðurkennt með heiðarlegum hætti það sem aflaga fór. Það er grunnforsenda þess að maður geti tekið syndara í sátt er á hólminn kemur. Það er altént mitt mat.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 15.11.2006 kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.11.2006 | 19:32
James Bond snýr aftur í Casino Royale

Mikið hefur verið deilt um Daniel Craig sem James Bond og sitt sýnist hverjum, eins og ávallt. Mörgum finnst hann stílbrot í hlutverkið í langri sögu Bond-myndanna, en hann mun væntanlega koma með sinn stíl og eðlilegt er að breytt sé um nú. Ég hef alla tíð verið gríðarlegur Bond-aðdáandi. Ég á allar myndirnar 20 sem gerðar hafa verið og er fíkill í spennu og hasar myndanna. Hraðskreiðir bílar, stórhættuleg og seiðandi glæpakvendi, banvænir bardagasnillingar og forríkir glæpamenn eru auðvitað stór þáttur í hverri Bond-mynd og við viljum auðvitað engar drastískar breytingar frá þessum höfuðreglum.
James Bond, þarf varla að kynna fyrir nokkru mannsbarni. Í fjóra áratugi hefur þessi lífseigi kvennabósi skemmt bíógestum um allan heim með hnyttnum tilsvörum og fáguðu skopskyni. Það jafnast sjaldan neitt á við það að fá sér popp og kók og hverfa inn í hugarheim sagnanna. Uppáhaldið mitt í þessum myndaflokki er og hefur alla tíð verið Goldfinger frá árinu 1964. Þvílík dúndurmynd, alveg klassi. Sean Connery er og hefur alla tíð verið minn uppáhaldsBond og sá sem bæði skapaði hlutverkið á hvíta tjaldinu og markaði fyrstu og mikilvægustu sporin í hlutverkinu.
Annars hlakka ég svo sannarlega til að sjá nýjustu myndina. Ég held að þessi skothelda blanda af spennu, hasar og gríni klikki aldrei.
![]() |
Englandsdrottning væntanleg á heimsfrumsýningu Casino Royale |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.11.2006 | 18:55
Kyngir niður snjó á Akureyri

Maður hugsar hinsvegar óneitanlega til jólanna í svona veðri. Ég er einmitt þessa dagana að vinna við að klára jólakortin. Ég bý þau til sjálfur þetta árið, eins og í fyrra. Ég ætla að skrifa á þau öll fyrir vikulok, svo að það sé frá. Svo tekur eitt og annað við sem eftir er af verkum fyrir jólin, en ég er langt kominn með þennan undirbúning. Ég er einn þeirra sem klárar grunnverkin í nóvember og nýt þess að eiga desember rólegan, við bókalestur og rólegheit. Þannig á desember að vera.
En hér snjóar og snjóar. Okkur mun ekki vanta áminningar um veturinn hér næstu dagana, svo mikið er nú alveg víst.
![]() |
Norðanbálviðri og ófærð norðanlands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.11.2006 | 15:11
Ólafur Ragnar minnist Eysteins Jónssonar

Ólafur Ragnar sat í miðstjórn Framsóknarflokksins 1967-1974 og í framkvæmdastjórn 1969-1973. Á þessum fyrstu árum Ólafs Ragnars í Framsóknarflokknum var Eysteinn Jónsson, formaður flokksins. Eysteinn var öflugur maður í íslenskri stjórnmálabaráttu. Hann varð yngstur allra ráðherra, leiddi flokkinn og var lengi forystumaður á sínum heimavelli í pólitík fyrir austan. Í skjóli Eysteins Jónssonar hóf Ólafur Ragnar Grímsson stjórnmálaþátttöku sína. Það kom mér því ekki að óvörum að forsetinn Ólafur Ragnar Grímsson hefði flutt ávarp til heiðurs Eysteini, en hann hefði orðið tíræður um þessar mundir. Þar er talað af virðingu um pólitísk verk Eysteins og forystu hans í íslenskum stjórnmálum.

Segir Ólafur Ragnar svo í minningargreininni um það er Eysteinn þar í þeirri ferð tilkynnti Ólafi Ragnari að hann ætlaði að hætta formennsku í flokknum árið 1968: Í skugga sólarinnar, sem sleikti hin sögufrægu fjöll, sagði hann mér að nú ætlaði hann að hætta formennsku í Framsóknarflokknum. Rétti tíminn væri kominn. Honum varð ekki þokað þótt ég beitti öllum þrótti og ákafa ungs manns til að telja honum hughvarf. Auðvitað lét svo sterkur stofn íslenskra stjórnmála ekki ungan strák hagga sér. Hugurinn var skýr. Ákvörðunin hafði verið tekin. Rökin voru margvísleg en þó var fjarri því að hann ætlaði að draga sig í hlé.
Í upphafi áttunda áratugarins lenti Ólafur Ragnar upp á kant við forystu flokksins og hann stofnaði ásamt fleirum ungliðum í Framsóknarflokknum, samtök Möðruvellinga, sem voru til vinstri í flokknum. Ólafur Ragnar vildi kanna þann kost að sameina Framsóknarflokkinn og vinstri flokkana í einn flokk. Ólafur Jóhannesson, sem á þeim tíma var forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, var andvígur þessum hugmyndum og Ólafur Ragnar yfirgaf flokkinn ásamt samherjum sínum með miklum hvelli. Hann gekk þá í flokk Hannibals Valdimarssonar, Samtök frjálslyndra og vinstri manna og var t.a.m. formaður framkvæmdastjórnar flokksins 1974-1976. Eftirmálann þekkja allir.
Ólafur Ragnar skrifar af virðingu um Eystein Jónsson. Ræða Ólafs Ragnars er minnisvarði um einn merkasta stjórnmálamann íslensku þjóðarinnar. Það er ekki óvarlegt að telja að Austfjarðagoðinn Eysteinn Jónsson hafi verið sá stjórnmálamaður sem mest mark setti á Ólaf Ragnar Grímsson og mótaði hann til framtíðar í íslenskum stjórnmálum. Leikur lítill vafi á því. Eysteinn mótaði þann mann hugsjónalega sem nú er forseti Íslands til verka í stjórnmálum og þess sem síðar tók við.
Ræða Ólafs Ragnars Grímssonar um Eystein Jónsson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.11.2006 | 14:30
Baráttan um forsetaembættið í USA að hefjast

Þrátt fyrir að þingkosningar séu aðeins nýlega afstaðnar er stutt stund milli stríða í þessum efnum. Það er auðvitað mikið verkefni að halda í forsetaframboð í Bandaríkjunum og krefst allt að eins og hálfs árs grunni við uppbyggingu maskínu til verka. Það má því gera ráð fyrir að línur um hverjir fari fram þar muni ráðast fyrir mitt næsta ár. Svipuð vinna er þegar hafin í herbúðum Hillary Rodham Clinton, öldungadeildarþingmanns í New York, sem hlaut glæsilegt endurkjör á dögunum. Það varð ekki til að stöðva orðróminn um framboð að Hillary talaði í sigurræðu sinni til allra landsmanna með þjóðernisást og hvatningu á vörum, en ekki bara þeirra sem kusu hana í borg háhýsanna.

John McCain varð undir í hörðum forkosningaslag innan repúblikana við George W. Bush. Það var eftirminnilegur slagur vissulega, enda leit út fyrir framan af að McCain myndi sigra forsetasoninn frá Texas og niðurlægja framboðsvonir hans. Svo fór ekki, Bush komst í höfn og vann að lokum sögulegan sigur í Flórída-fylki gegn Al Gore. 36 dagar óvissunnar í Flórída í nóvember og desember 2000 gleymist engum stjórnmálaáhugamanni sem upplifði þá merkilegu daga. Að lokum stóð hann uppi sem sigurvegari. Árið 2004 hjálpaði McCain Bush við að ná endurkjöri með athyglisverðum hætti. Nú vill hann reyna aftur við að ná forsetaembættinu.

Það stefnir í gríðarleg átök líka í Demókrataflokknum og ljóst að ekki verður Hillary Rodham Clinton krýnd sem forsetaefni vilji hún taka skrefið alla leið. Það verða lífleg átök á báðum stöðum. Þetta er reyndar óvenju galopinn forsetaslagur, enda er þetta í fyrsta skipti frá árinu 1952 þar sem hvorki sitjandi forseti eða varaforseti verða í kjöri og því mikil uppstokkun framundan innan beggja flokka.
![]() |
Giuliani tekur fyrsta skref í átt að forsetaframboði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.11.2006 | 23:58
Guðjón Arnar öskrar á Erlu Ósk
Þar fór Guðjón Arnar yfir sína hlið mála eftir ummæli varaformanns flokksins, Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, og sjálfskipaðs postula flokksins, Jóns Magnússonar, sem þó gegnir engum trúnaðarstörfum þar. Erla Ósk var fulltrúi ungliða sem sendu frá sér þverpólitíska ályktun vegna skoðana "Frjálslyndra" og Amal var þarna sem innflytjandi auðvitað. Guðjón Arnar var greinilega mjög önugur yfir skoðunum ungliðanna og lítil gleði á hans brá yfir því að ungliðar allra flokka nema hans sendu frá sér ályktunina og minntu á skoðanir sínar.
Erla Ósk var hin rólegasta og talaði yfirvegað og af stillingu og Amal var greinilega ekki ánægð með Frjálslynda flokkinn vegna bakgrunns síns og talsmáta félaga Guðjóns Arnars um málaflokkinn. Greinilegt var að Guðjón var hinn versti í garð Erlu Óskar og sýndi ekki beint gleðisvip og stillingu yfir tali hennar um innflytjendamál.

Mátti sjá þær stöllur og þáttastjórnendur allt að því titrast til yfir þessu skaplagi og látum. Undraðist ég það að formaður stjórnmálaflokks geti ekki talað yfirvegað og af stillingu um þessi mál. Það er ekki alveg hægt að skilja þessa framkomu.
Þakka ég góðum vini í ungliðastarfinu fyrir að benda mér á þetta, enda hafði ég ekki séð viðtalið. Mér fannst það alveg kostulegt. Áhugavert að sjá það og sérstaklega hvernig Guðjón Arnar kom fram í viðræðum með formanni Heimdallar.
Ein spurning (svari sá sem vill) er ekki virk ungliðahreyfing í Frjálslynda flokknum?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.11.2006 kl. 00:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.11.2006 | 22:46
Guðrún Ögmundsdóttir hættir í stjórnmálum

Guðrún hefur á Alþingi verið talsmaður margra málaflokka og vakið athygli á sér fyrir að þora að fara gegn straumnum í fjölda málaflokka. Það er að mínu mati talsverð tíðindi að henni hafi ekki verið veitt brautargengi lengur í stjórnmálastörfum fyrir Samfylkinguna. Hafði mig lengi grunað að hún gæti orðið sá þingmaður flokksins sem færi verst úr prófkjörinu, en taldi þó að hún hlyti að sleppa frá falli, enda verið lengi með sterkan stuðningsmannahóp, hóp ólíks fólks. Eitthvað hefur staðan breyst í þeim efnum og því er komið að leiðarlokum hjá þessari kjarnakonu í stjórnmálum eftir litríkan feril.
Mér fannst áhugavert að heyra hádegisviðtalið við hana á Stöð 2 í dag. Þar var hún t.d. að undrast að aðeins ein kona muni leiða lista af hálfu flokksins í vor. Einhverjir eru eflaust leiðir með pólitísku leiðarlokin hennar. Mér finnst Samfylkingin verða litlausari á þingi þegar að Guðrún Ögmundsdóttir stígur af hinu pólitíska sviði eftir að flokksmenn ákváðu að skipta henni út úr þingflokknum með þessum hætti í kosningu um hverjir skipi forystusveit Samfylkingarinnar að vori.
![]() |
Guðrún hættir afskiptum af stjórnmálum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.11.2006 | 19:19
Þorsteinn Pálsson minnist ekkert á Suðrið

Í leiðara í Fréttablaðinu í morgun fer Þorsteinn Pálsson, ritstjóri og fyrrum forsætisráðherra, yfir úrslitin í prófkjörum helgarinnar. Mikla athygli vekur að Þorsteinn skrifi ekkert um úrslitin í Suðurkjördæmi. Í 16 ár var Þorsteinn Pálsson kjördæmaleiðtogi Sjálfstæðisflokksins á Suðurlandi og leiddi flokkinn þar af krafti. Í ljósi þeirrar stöðu varð Þorsteinn ráðherra til fjölda ára og ennfremur formaður Sjálfstæðisflokksins. Þorsteinn víkur í engu orðum að stöðu mála á sínu gamla svæði. Að sumu leyti er það vissulega skiljanlegt.
Árni Johnsen var í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurlandskjördæmi í aðdraganda alþingiskosninganna 1999 kjörinn eftirmaður Þorsteins á leiðtogastóli og var í þeim stóli í tvö ár, eða þar til honum varð alvarlega á í messunni og hrökklaðist úr pólitík með skömm. Nú rúmum fimm árum síðar er Árni kominn aftur með sterkt umboð flokksmanna á svæðinu og hlaut t.d. 1877 atkvæði í fyrsta sætið, innan við þúsund færri en Árni M. Mathiesen, nýr kjördæmaleiðtogi í Suðrinu. Það er ljóst að pólitísk tíðindi helgarinnar er að finna að mestu í Suðrinu, þó margt athyglisvert hafi gerst hjá Samfylkingunni í Reykjavík.
Í kosningunum var eftirmanni Árna Johnsen á leiðtogastóli í gamla Suðurlandskjördæmi, Drífu Hjartardóttur, sem tók þingsæti Þorsteins eftir kosningarnar 1999, hafnað með athyglisverðum hætti. Það er mjög eftirtektarvert að ritstjóri Fréttablaðsins fer yfir prófkjörsúrslit helgarinnar og þar er ekki stafkrókur um stöðuna í hans gamla kjördæmavígi á árum áður. Sennilega telur hann það ekki rétt að spá í spilin þar, en þá hefði hreinlegast og best verið að skrifa um eitthvað annað. Svona yfirferð um kjördæmaspilin eftir prófkjörin án umfjöllunar um pólitíska upprisu Árna Johnsen, leiðtogakjör Árna M. Mathiesen og fall Drífu Hjartardóttur er varla trúverðugt.
Ég verð að viðurkenna að mér hefur fundist í senn fróðlegt og áhugavert að lesa leiðaraskrif Þorsteins Pálssonar eftir að hann kom sér fyrir á ritstjóraskrifstofum Fréttablaðsins við Skaftahlíð. Þar skrifar enda lífsreyndur maður með mikla og fjölþætta reynslu af lífinu og tilverunni. Þar talar reyndur maður á sviði stjórnmála og fjölmiðla og er ennfremur vel kunnugur lífinu utan landsteinana. Þorsteinn er enda víðsýnn maður og getur skrifað með jafnöflugum hætti um alþjóðastjórnmál sem hina hversdagslegu rimmu íslenskra stjórnmála.
En ég rakst fljótt á að ekkert var skrifað um Suðrið er ég las Fréttablaðið í morgun og sú þögn er hrópandi í hausi mér enn þegar að liðið er að kvöldi dags, satt best að segja.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.11.2006 | 14:39
Utankjörfundarkosning hafin í prófkjörinu

Mér finnst kosningabaráttan vegna þessa prófkjörs fara vel af stað. Fjórir frambjóðendur hafa nú opnað kosningaskrifstofu hér á Akureyri. Virðist mér því vera mjög vel tekið. Með þessu er brotið blað í prófkjörssögunni hérna hjá okkur en kosningaskrifstofur af þessu tagi er nýtt fyrirbæri á þessum slóðum. Við Akureyringar fögnum því vel að fólk fókuseri sig á okkar málefni og málefnaáherslur. Því er aðeins fagnað og það vel á þessum slóðum. En það líður að lokum baráttunnar og kjördagur er í sjónmáli.
Það hafa verið sviptingar í prófkjörum víða að undanförnu og fróðlegt að sjá hvernig þetta verður hjá okkur undir lok mánaðarins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.11.2006 | 13:27
Frábær skrif Egils Helgasonar um prófkjör

Þetta er merkilegur tími í stjórnmálum og svolítið gaman að upplifa þetta allt. Ég hef það mikinn áhuga á stjórnmálum að mér leiðist ekki svona árstími, þrátt fyrir allt. En eru prófkjörin að stefna í rétta átt? Ég leyfi mér að efast stórlega um það. Peningahyggja prófkjöranna eru að verða ansi áberandi. Það fer enginn standandi orðið í gegnum prófkjör nema að vera þekkt andlit, hafa standandi veitingar á rándýrri kosningaskrifstofu allan daginn og vera með colgate-tannkremsbros.
Egill fjallar vel um þetta í hugvekju sinni. Þar segir m.a.
Allt hefur þetta yfirbragð lýðræðis, en er kannski ekkert sérlega lýðræðislegt. Og kemur að vissu leyti í staðinn fyrir að flokkar hafi stefnu. Prófkjörið er kannski eina alvöru lífsmarkið í flokknum. Þetta tekur líka óskaplegan tíma. Þingmaður er varla kominn í sæti sitt fyrr en hann er farinn að hugsa um prófkjör. Þar etur hann kappi við ætlaða samherja sína - fátt skapar meira hatur innan flokka en prófkjör.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.11.2006 | 12:19
Geir Haarde segir Árna Johnsen njóta trausts

Í viðtalinu sagði Geir að Árni nyti trausts forystu Sjálfstæðisflokksins. Þetta eru skýr skilaboð sem þarna koma fram. Ég er ekki viss um að allir sjálfstæðismenn um allt land séu sammála Geir. Þetta er mjög umdeilt og flestir þeir sem ég hef rætt við undrast þessa útkomu. Auðvitað má segja að þetta sé niðurstaða lýðræðislegs prófkjörs. Þetta er val fólksins á þessu svæði. Það er ekki flóknara en það. Ég ætla ekki að falla í þann fúla pytt að segja að fullorðið fólk sé fífl með sínu vali. Það var ákveðið að boða til prófkjörs meðal flokksmanna og þetta er mat þeirra á frambjóðendunum. Einfalt mál.
Fólk í Suðurkjördæmi verður auðvitað að eiga við sig hverja það kýs sem fulltrúa sína með fúsum og frjálsum vilja. En valið er umdeilt. Ég verð að vera ósammála formanninum í þessu máli, enda tel ég það ekki Sjálfstæðisflokknum fyrir bestu að Árni sé svo ofarlega á lista eftir allt sem gerst hefur. Oft hefur verið sagt að hinum iðrandi syndurum skuli fyrirgefa og við eigum að hafa mildilegt hjartalag til að fyrirgefa og horfa í gegnum allt sem gerst hefur. Það er gott og blessað en iðrandi syndurum er ekki hægt að fyrirgefa nema að iðrun sé til staðar. Það er erfitt annars.
Eftirmál þessa prófkjörs eru mikið í fréttum nú. Það er eðlilegt. Ég ætla að vona að þessi útkoma verði ekki það dýrkeypt fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem stofnun að hún kosti ekki flokkinn atkvæði um allt land í þingkosningunum í maí. En ég óttast það, í sannleika sagt.
![]() |
Gleymdist að telja 87 atkvæði í prófkjöri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.11.2006 | 01:47
Endurkoma Árna Johnsen - fall Drífu og Guðjóns

Ég fór víða í dag og um fátt var meira rætt en það að Árni er á leið aftur á þann stað sem hann var á er honum varð svo eftirminnilega á í messunni fyrir aðeins örfáum árum. Sitt sýnist hverjum auðvitað, en mér fannst viðbrögðin vera víðast á sömu lund. Ég verð að taka fram að ég hef ekkert nema gott um Árna sem slíkan að segja, en ég tel að það boði ekki gott fyrir Sjálfstæðisflokkinn að hann fari beint í annað sætið í þessari lotu. Það er of skammt liðið frá atburðunum sem deilt var um tengt persónu Árna.
En þetta er vilji sjálfstæðismanna í kjördæminu og við það verður svo sannarlega að una. Ákveðið var að boða til prófkjörs og þetta er það sem úr því kom. Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi hafa greinilega valið í fjölmennu prófkjöri sína frambjóðendur og það er hinn sanni lokadómur alls í þessu máli. Árni Johnsen hefur langa þingreynslu að baki og hefur notið stuðnings sjálfstæðismanna á Suðurlandi til þingmennsku í mörgum prófkjörum og var t.d. kjörinn leiðtogi flokksins á Suðurlandi í kosningunum 1999 þegar að Þorsteinn Pálsson, núverandi ritstjóri Fréttablaðsins, hætti þátttöku í stjórnmálum.

Stærstu tíðindi þessa prófkjörs fyrir utan pólitíska endurkomu Árna Johnsen er ekki kjör leiðtogans heldur pólitísk endalok Drífu á þingi, sem húrrar niður listann í prófkjörinu og festir sig í sjötta sætinu, en í besta falli fá sjálfstæðismenn fjóra menn væntanlega að vori þarna. Það hlýtur að teljast afar ólíklegt að Drífa taki sjötta sætið við þessar aðstæður og meti sinn pólitíska feril kominn á ís. Það eru bitur skilaboð sem henni eru rétt. Ég skynjaði það núna að Drífa hefði ekki stuðning Vestmannaeyja og Suðurnesja að öllu leyti og svo fór sem fór. Það er enda verulega erfitt að fljúga hátt þarna án stuðnings úr þeim áttum.
Ég hef kynnst Drífu í flokksstarfinu og tel hana heiðarlegan og heilsteyptan stjórnmálamann með hjarta úr gulli. Sérstaklega var ánægjulegt að kynnast henni á málefnaþingi SUS á Hellu árið 2002. Ekki hefði mér órað fyrir á þeirri stund að innan fimm ára hefðu sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi vísað Drífu Hjartardóttur á dyr með svona köldum hætti. En svona er pólitíkin oft grimm og hörð. Það voru mér nokkur vonbrigði að hún skyldi lenda svo neðarlega og það eru ekki góð skilaboð sem send eru með því að henda þingkonu, sem hefur notið virðingar og trausts til trúnaðarstarfa, út með þessum hætti. Þetta eru þó greinilega skýr skilaboð kjósenda í prófkjörinu, sem þarna koma fram.

Gaui er öflugur maður sem hefur sinn kraft og hefur verið áberandi í starfi flokksins, sérstaklega verið öflugur í flokksstarfinu í Eyjum. Það er greinilegt að framboð Árna og Gríms Gíslasonar gerði út af við möguleika Gaua sem hefði annars náð góðu sæti. Hann náði um tíma undir lok talningar þriðja sætinu, fór svo í fjórða en húrraði svo út í óvissuna er yfir lauk. Það hlýtur að vera kurr í Eyjum í mörgum með stöðu Gaua, ef ég þekki hans nánustu stuðningsmenn rétt.
Gunnar Örlygsson, sitjandi þingmaður kjörinn af lista Frjálslyndra, fór nú í fyrsta skipti í framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn og hlaut nokkuð skýr skilaboð í raun út úr því. Ekki er hægt að segja að staða Kristjáns Pálssonar sé beysin miðað við aðstæður og verður að teljast afar ólíklegt að hann sjái hag sínum borgið í framboð á næstunni. En svona er þetta bara. Þessi úrslit eru stingandi grimm í ljósi örlaga nokkurra þingmanna flokksins, einkum Drífu og Guðjóns, sem hafa unnið fyrir flokkinn mjög lengi og unnið honum gagn.
En dómur flokksmanna virðist skýr. Það verður fróðlegt að fylgjast með eftirmálum prófkjörsins, enda er varla hoppandi gleði á Hellu og í Eyjum með örlög þingmannanna tveggja sem eru nú efst af hálfu flokksins á þingi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.11.2006 | 23:55
Gerald Ford langlífastur bandarískra forseta

Gerald Ford var þingmaður repúblikana í fulltrúadeildinni fyrir Michigan á árunum 1949-1973. Nær allan feril Ford í fulltrúadeildinni voru repúblikanar í minnihluta þar, þeir náðu ekki meirihluta þar fyrr en árið 1994, og það með sögulegum hætti, en misstu hann svo aftur nú í kosningunum í vikunni. Ford var leiðtogi minnihluta repúblikana í fulltrúadeildinni á árunum 1965-1973. Það ár sagði Spiro Agnew, varaforseti í stjórn Richard M. Nixon, forseta, af sér embættinu vegna hneykslismála. Nixon ákvað að tilnefna Ford sem nýjan varaforseta og fór hann fyrir öldungadeildina og var staðfestur sem varaforseti í desember 1973.
Á þeim tíma sem Ford tók við varaforsetaembættinu var um fátt meira talað um Watergate-hneykslið, mál sem tengdist inn í helstu innviði stjórnkerfisins. Skref fyrir skref veikti málið sífellt stöðu Nixons forseta og lykilsamherja hans. Að því kom að sannanir sýndu svo ekki var um villst að Nixon vissi af málinu áður en hann hafði sagt áður. Honum varð ekki sætt eftir að þingið ákvað að stefna honum fyrir embættisafglöp og flest benti til að hann yrði rekinn frá embætti með skömm. Hann sagði af sér þann 9. ágúst 1974 og með því varð Ford fyrsti forseti Bandaríkjanna sem aldrei hafði verið kjörinn af landsmönnum sem forseta- eða varaforsetaefni. Hann tók við erfiðu búi. Stjórnkerfið var lamað vegna hneykslismála og erfiðleika.
Ford ákvað að náða Nixon skömmu eftir afsögn hans. Það olli miklum deilum og leiddi til óvinsælda forsetans sem náði aldrei að hrista skuggann af sér. Ford þótti vandvirkur stjórnmálamaður og standa sig vel miðað við aðstæður í forsetaembættinu, en hans biðu miklir erfiðleikar og lömuð ríkisstjórn hvað almenningsálitið varðaði, enda höfðu bæði forsetinn og varaforsetinn sem kjörnir voru í kosningunum 1972 hrökklast frá vegna alvarlegra hneykslismála. Staðan var breytt og forsendur mála við forsetakjörið 1972 hafði algjörlega breyst, enda hvorugur þeirra sem þá hlutu kjör eftir í embættum sínum.
Ford gaf kost á sér í forsetakosningunum 1976. Það gekk þó ekki auðveldlega fyrir hann að hljóta útnefningu Repúblikanaflokksins sem forsetaefni hans, en hann tókst á við Ronald Reagan, fyrrum ríkisstjóra í Kaliforníu, um útnefninguna og hafði betur eftir harðan slag. Forsetatign Fords réði þar úrslitum. Reagan átti síðar eftir að verða kjörinn forseti Bandaríkjanna í sögulegum forsetakosningum árið 1980, elstur forseta við völd og sat í átta ár. Ford valdi Bob Dole (sem varð forsetaefni repúblikana árið 1996) sem varaforsetaefni sitt. Tókst Ford á við Jimmy Carter, fyrrum ríkisstjóra í Georgíu, um embættið. Vann Carter nauman sigur á forsetanum eftir tvísýna og spennandi atkvæðatalningu.
Gerald Ford vék úr sviðsljósi stjórnmálanna, eftir tapið í forsetakosningunum 1976, er hann lét af embætti þann 20. janúar 1977, er kjörtímabili Richards M. Nixon lauk formlega. Til greina kom þó við forsetakosningarnar 1980 að Ronald Reagan myndi velja Ford sem varaforsetaefni sitt. Svo fór ekki og Reagan valdi George H. W. Bush í staðinn. Það er sennilega kaldhæðni örlaganna að eftir að Carter lét af embætti árið 1981, eftir að hafa tapað fyrir Reagan, hafa Gerald og Betty Ford orðið perluvinir Jimmy og Rosalynn Carter.
Heilsa Ford var jafnan upp á hið allra besta en henni hefur þó hrakað jafnt og þétt seinustu tvö árin. Hann kemur nú ekki lengur fram opinberlega og hefur oft á þessu ári verið lagður inn á sjúkrahús vegna veikinda og greinilegt að mjög er tekið að halla undan fæti hjá honum.
Æviágrip Gerald Ford á vef Hvíta hússins
12.11.2006 | 21:23
Össur skrifar sig pent frá tveim konum
Ingibjörg Sólrún fékk innan við 70% atkvæða í fyrsta sæti flokksins, þó að enginn væri annar í framboði um sætið. Það vekur mikla athygli í ljós þess að þar fer formaður flokksins, "sameiningartákn" R-listans og vinsæll borgarstjóri í níu ár og síðast en ekki síst vonarstjarna vinstrimanna, eins og hún var kölluð æ ofan í æ fyrir alþingiskosningarnar 2003. Þessi kona var sótt af kjörnefnd eftir prófkjörið í nóvember 2002 og talin svo mikilvæg að henni var valinn sess í baráttusæti, sem leiddi reyndar til þess að samstarfsflokkar hennar sviptu hana því sem var henni kærast; borgarstjórastólnum sínum og með því öllum völdum og áhrifum sem mest hana skiptu.
Ingibjörg Sólrún hefur verið eins og vafrandi vingull eftir að hún missti borgarstjórastólinn. Hún er eins og gamall vonarneisti með flottustu fiðlu heims í farteskinu, en fiðlan er orðin svo fölsk að enginn vill hlusta á vonarneistann spila lengur lögin sín. Það er enginn eftir nema fastagestirnir sem vilja hlusta á fagnaðarerindið. Það er kannski ekki skaðlegt fyrir Ingibjörgu Sólrúnu að fá ekki nema þessi prósentustig en það er niðurlægjandi fyrir hana í sínu fyrsta prófkjöri, þar sem átti nú að sanna í eitt skipti fyrir öll að hún væri hin afgerandi leiðtogi Samfylkingarinnar; hún væri hin eina og sanna sem gæti stillt Samfylkingunni upp sem sigursveit og valkosti vinstrimanna.
Össur skrifar um úrslitin eins og Ingibjörg Sólrún, sem felldi hann af formannsstólnum, sé ekki til og hafi ekki verið í kjöri. Það er ekki minnst orði einu á stöðu hennar sem leiðtoga flokksins í Reykjavík. Skilaboðin geta vart verið skýrari en þetta. Össur ber enn harm sinn í brjósti. Það var ráðist að honum með heift og kergju á sínum tíma. Honum átti að bola út fyrir að þekkja ekki sinn vitjunartíma og "leyfa ekki" Ingibjörgu Sólrúnu að vera formaður. Formannsslagurinn var harðvítugur. Össur barðist hetjulegri og öflugri baráttu en varð undir. Hann var særður en ekki veginn í þeim slag. Hann lifir enn sínu pólitísku lífi á eigin vegum og minnti vel á stöðu sína með öflugum vefskrifum.
Guðrún Ögmundsdóttir er ekki nefnd á nafn í pistli Össurar. Hún fékk mest áberandi skellinn í þessu prófkjöri, þann sem eftir situr í einhverjum eflaust. Guðrún, sem varð fimmta í prófkjörinu í nóvember 2002, lenti nú í því ellefta og þingmannsferli hennar er að ljúka. Enginn vafi á því og Guðrún er greinilega særð þó hún beri sig vel, enda kjarnakona með stáltaugar. Guðrún vann sín verk af heilindum og heiðarleika en var ekki fljúgandi á milli glanstímaritanna og fréttastofanna. Hún var þó áberandi á mörgum sviðum. Einhverjir eiga eftir að missa þar hauk í horni. Það vekur mikla athygli að Össur sér ekki ástæðu til að víkja einu orði að örlögum Gunnu Ö við dagslok átakanna.
Guðrún er heilsteypt þegar að hún birtir heildarreikning prófkjörsframboðs síns og minnir væntanlega aðra í prófkjörinu á að birta skuli reikninga. Það er merkilegt að líta yfir tölurnar og hvernig þær skiptast. Þetta er merkilegur reikningur. Enn merkilegri eru þó reikningsskil Össurar við þessar tvær konur þegar að hann gerir upp prófkjörið. Þessar fyrrum fylgiskonur Kvennalistans sem fengu skell með mjög ólíkum hætti sjást þar ekki og þær eru ekki áberandi í yfirferð fyrrum formanns Samfylkingarinnar, sem enn er að jafna sig á hjaðningavígum ársins 2005 í Samfylkingunni. Þeirra sést enn merki með kostulegum hætti, ekki satt?
![]() |
Guðrún Ögmundsdóttir birtir kostnaðartölur vegna nýafstaðins prófkjörs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.11.2006 | 17:30
Beiskur sigur ISG - lítil nýliðun - Guðrún fellur

Um var að ræða beina og breiða braut fyrir formanninn. Þetta er því varla gleðiefni fyrir hana. Í Silfri Egils laust eftir hádegið voru Ingibjörg Sólrún og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, nýr kjördæmaleiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Kraganum, að fara yfir tíðindi gærdagsins og mátti greina beiskju í tali ISG. Hún sagði að í Samfylkingunni tíðkaðist nú svo sannarlega ekki að menn fengju rússneskar kosningar. Þetta var ekki sannfærandi tal hjá flokksformanninum, sem var án allra kosninga krýnd sem forsætisráðherraefni, frambjóðandi í Reykjavík norður árið 2003 og varaformaður Samfylkingarinnar.
Kjörsókn hjá Samfylkingarmönnum var heldur ekkert til að hrópa ferfalt húrra fyrir. Þar kusu innan við 5000, færri en í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins í Suður- og Suðvesturkjördæmi í gær. Miðað við að þarna var um að ræða galopið prófkjör vekur þetta allverulega athygli. Sjálfstæðismenn fengu vel yfir 10.000 manns til að kjósa í lokuðu prófkjöri í Reykjavík í lok síðasta mánaðar. Ingibjörg Sólrún hlýtur ekki sterkt umboð sem leiðtogi í Reykjavík, miðað við að hafa verið borgarstjóri í níu ár og auk þess ein í kjöri auðvitað um sætið. Það var allavega ekki sannfærandi að hlusta á hana tala um þetta. Þess má reyndar geta að þetta er fyrsta prófkjörið hennar.
Þetta var prófkjör hinna sitjandi þingmanna heilt yfir sagt. Í sjö efstu sætunum eru sitjandi þingmenn, sem raða sér þar upp. Össur Skarphéðinsson heldur leiðtogastól sínum í Reykjavík og fær nokkuð góða kosningu, miðað við allt sem á hefur gengið hjá honum. Hann missti flokksformennskuna fyrir einu og hálfu ári þegar að svilkonan Ingibjörg Sólrún lagði í hann. Össur má vel við una og hefur risið upp aftur pólitískt svo um munar. Gratúlera með hinum vestfirska sagnamanni. Jóhanna Sigurðardóttir missti leiðtogastólinn sinn og verður í öðru sætinu á lista leiddum af Ingibjörgu Sólrúnu. Jóhanna er eins og flestir vita starfsaldursforseti þingsins.

Um sjöunda sætið tókust undir lok talningarinnar þau Mörður Árnason og Steinunn Valdís Óskarsdóttir. Mörður hafði sætið að lokum og Steinunn Valdís varð áttunda. Það hljóta að teljast mikil vonbrigði fyrir Steinunni Valdísi að hafa ekki komist ofar, sé tekið mið af því að hún var borgarstjóri fyrir Samfylkinguna undir lok stormasamrar valdasögu R-listans og borgarfulltrúi fyrir flokkinn allt frá stofnun. Steinunn Valdís stefndi á fjórða sætið, en endar sem fjórða á öðrum listanum í borginni. Þetta er skv. skoðanakönnunum ekki tryggt þingsæti. Níunda varð Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur, en hún var sjötta í fyrstu tölum, og hlýtur hún að vera sár með að hafa ekki halast inn ofar.
Valgerður Bjarnadóttir, ekkja Vilmundar Gylfasonar og dóttir Bjarna Benediktssonar (og því systir Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra) varð tíunda í prófkjörinu. Vala hefur lengi verið virk í stjórnmálum. Hún var stoð og stytta Vilmundar á stormasömum stjórnmálaferli og vann ötullega með honum í blíðu og stríðu. Hún hvarf úr íslensku þjóðlífi að mestu eftir sviplegt fráfall Vilmundar. Fyrir nokkrum árum sneri hún aftur og varð virk innan Samfylkingarinnar og fór nú fram í fyrsta skipti. Ég taldi að hún yrði ofar, en ég hefði haldið að Vala yrði öflugur liðsmaður fyrir flokkinn í öruggt sæti. Heilt yfir er því staða mála sigur sitjandi þingmanna og aðeins einn nýliði í átta efstu.

Tíðindi prófkjörsins er því sigur sitjandi þingmanna, beiskur 70% sigur ISG í fyrsta sætið þar sem enginn slagur var í raun og fall Guðrúnar Ögmundsdóttur. Ofan á allt annað situr eftir merkilega lítil kjörsókn miðað við galopið prófkjör í sjálfri höfuðborginni. Var ekki Bingi annars að segja á vef sínum að þetta sé svipað og var í prófkjöri Framsóknarflokksins í Reykjavík í janúar? Ekki held ég að ISG verði hrifin af þeim samanburði, hreint út sagt.
![]() |
Niðurstaðan ljós í prófkjöri Samfylkingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)