Breytt valdahlutföll í Washington

George W. Bush Ný valdahlutföll blasa við í bandarískum stjórnmálum í kjölfar þingkosninganna á þriðjudag. Demókratar hafa unnið sigur í báðum deildum Bandaríkjaþings og taka þar við völdum þann 3. janúar nk. er nýkjörið þing kemur saman í fyrsta skipti. Úrslitin tákna breytta stöðu fyrir George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, sem nú þarf að leita samkomulags og málamiðlana við þingmeirihluta demókrata og haga störfum sínum með öðrum og mildari hætti við breyttar aðstæður.

George W. Bush hefur aldrei verið maður málamiðlana eða samkomulags í bandarískum stjórnmálum. Það er svosem ekki furða, enda hefur hann getað farið sínu fram í ljósi sterkrar stöðu fylgismanna sinna. Það hefur verið afgerandi einstefna. Repúblikanar voru enda í tólf ár með völdin í fulltrúadeildinni og í rúm fjögur ár samfellt í öldungadeildinni. Hann hefur því lítið þurft að taka tillit til demókrata og skoðana þeirra. Það má því sjá merki nýrra tíma framundan í samskiptum forsetans og þingsins. Það er eðlilegt við þessar aðstæður og nauðsynlegt.

George W. Bush verður auðvitað að sætta sig við vilja þjóðarinnar. Þessi kosningaúrslit eru að mínu mati algjör áfellisdómur yfir honum og stjórn hans og hann verður að taka fullt tillit til þess, þó að hann fari ekki aftur í kosningar sjálfur, enda kemur stjórnarskráin í veg fyrir að forseti geti setið lengur en tvö kjörtímabil. Hann situr því síðara kjörtímabil nú og verður að leita samstarfs við demókrata, það er mjög einfalt mál. Það gerði allavega Clinton árið 1994 þegar að demókratar misstu báðar þingdeildir. Hann fór í samstarf við repúblikana og beitti lagni í þeim samskiptum. Bush ætlar greinilega að gera það sama.

George W. Bush er greinilega að vakna upp í nákvæmlega sömu stöðu og Bill Clinton fyrir tólf árum. Clinton nýtti sína töpuðu stöðu vel árið 1994 og sneri henni sér í vil með áberandi hætti. Hann hélt stöðu sinni og vann endurkjör sem forseti árið 1996 en náði vissulega ekki að snúa þinginu sér í vil í sömu kosningum. Hann beitti miklum klókindum og kænsku, en var þó sanngjarn í samningum við repúblikana. Til dæmis kom mörgum að óvörum er William Cohen var tilnefndur sem varnarmálaráðherra af Clinton eftir forsetakosningarnar 1996, enda var Cohen þingmaður repúblikana í öldungadeildinni. Ekki má búast við að slíkt gerist hjá Bush, en hann virðist skilja hvað gera þurfi.

Bush forseti gat ekki annað en breytt stefnu sinni eftir þetta tap og það var óumflýjanlegt að Donald Rumsfeld myndi fara frá. Val forsetans á Bob Gates sem varnarmálaráðherra mun vonandi sætta ólík sjónarmið, enda hefur Gates unnið innan CIA undir stjórn sex forseta úr ólíkum flokkum og verður nú ráðherra í ríkisstjórn þess sjöunda. Hann hefur mikla reynslu að baki og annan bakgrunn en Rumsfeld, svo að vonandi geta menn farið úr skotgröfum sem fylgdu persónu Rumsfelds og fært stöðu mála fram á veg. Raunar hefði farið betur á því að breytt hefði verið um stefnu fyrr og að Rumsfeld hefði vikið úr ríkisstjórn í kjölfar forsetakosninganna 2004 þar sem að Bush vann endurkjör.

Það verður fróðlegt að fylgjast með því þegar að Bob Gates, tilnefndur varnarmálaráðherra, fer fyrir þingið og hvernig það gengur fyrir sig. Það leikur enginn vafi á því að tilnefning Gates mildar mjög stöðu mála og tryggir nýja forystu í Pentagon, sem menn geta jafnvel orðið sáttir um, óháð flokkapólitík í Bandaríkjunum. Það er greinilegt að bæði George W. Bush og Nancy Pelosi, verðandi forseti fulltrúadeildarinnar, sem verður nú valdamesti forystumaður Demókrataflokksins, hafa í hyggju samstarf að einhverju leyti og byggja brýr á milli svæða sem hafa ekki verið til staðar og hefja samstarf með heilbrigðum og eðlilegum hætti. Því ber að fagna.

Nú fyrir stundu viðurkenndi George Allen, öldungadeildarþingmaður í Virginíu, formlega ósigur sinn fyrir Jim Webb í kosningunum í fylkinu. Með því hafa valdaskiptin í öldungadeildinni formlega verið staðfest og nýjir tímar að hefjast. Fyrr í dag hittust Bush og Pelosi í forsetaskrifstofunni ásamt trúnaðarmönnum flokka sinna og hófu viðræður um stöðu mála. Vel virtist fara á með þeim.

Það verður fróðlegt að fylgjast með bandarískum stjórnmálum næstu tvö árin, þann tíma sem demókratar og repúblikanar munu deila völdum hið minnsta. Bráðlega hefst svo hasarinn vegna forsetakosninganna 2008. Það er svo sannarlega spenna í loftinu, sem við stjórnmálaáhugamenn hljótum að fagna.

mbl.is Segir Bush hafa orðið að bíða með að tilkynna afsögn Rumsfeld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt bæjarmálavefrit á Akureyri

AkureyriVið, áhugafólk um stjórnmálaumræðu hér á Akureyri, höfum nú stofnað þverpólitískt bæjarmálavefrit undir heitinu Pollurinn og verður það á slóðinni pollurinn.net. Ritstjórar vefritsins verða Helgi Vilberg, skólastjóri Myndlistaskólans, og Jón Ingi Cæsarsson, varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður skipulagsnefndar Akureyrarbæjar.

Er stefnt að virkum og lifandi skrifum um bæjarmál og pólitík frá okkar sjónarhóli. Það var mér heiður að vera boðið að vera með í þessu verkefni og ætla ég mér að skrifa líflegar og góðar greinar um bæjarmál á þessum vef.


Ed Bradley látinn

Ed Bradley Ed Bradley, einn virtasti fréttamaður í bandarísku sjónvarpi, lést í dag úr hvítblæði, 65 ára að aldri. Bradley vann í 26 ár, eða frá árinu 1980, sem einn af þáttastjórnendum fréttaskýringaþáttarins 60 minutes á CBS. Er það að mínu mati besti fréttaskýringaþáttur sem völ er á í sjónvarpi. Bradley er margverðlaunaður sem fréttamaður, hlaut t.d. 19 Emmy-verðlaun, fyrir störf sín þar. Glæsilegur ferill að baki.

Þetta voru nokkuð óvæntar fréttir, enda hafði lítið verið fjallað um að Bradley væri veikur. Það er sjónarsviptir af Bradley fyrir CBS-sjónvarpsstöðina og verður fróðlegt að sjá hver muni taka sess hans í þessum virta fréttaskýringarþætti. Það var Bradley sem kom til Íslands fyrir nokkrum árum og gerði fréttaskýringu fyrir 60 mínútur um Íslenska erfðagreiningu og stöðu rannsókna á vegum fyrirtækisins og ræddi þá m.a. við Kára Stefánsson.

Umfjöllun CBS um andlát Ed Bradley

mbl.is Fréttamaðurinn Ed Bradley látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Oops... Britney did it again

Federline/Spears Skrýtin þessi stjörnutilvera oft á tíðum. MeðalJóninn er oft ekki alveg með á glamúrgleðina hjá stjörnunum. Nú er glamúrgellan Britney skilin í annað skiptið og komin í forræðisdeilu við Federline. Showið búið þar heldur betur og engin bros eftir framan í myndavélarnar. 

Á meðan er Paul McCartney í harðri baráttu við Heather sína, sem reyndist hið mesta skass er á hólminn kom, og vill hún nú fá vænar fúlgur Bítlafjár. Jafnast á við átök hjónanna í The War of the Roses þessi deilanna Macca við Mucca (eins og bresku slúðurblöðin kalla Heather).

Svo er allt búið hjá óskarsverðlaunaleikkonunni Reese og Ryan Íslandsvini. Átti það ekki að vera svo rock solid dæmi? Hlægilegt. Fyndin tilvera. Það er oft mesta feikið í brosum stjarnanna, ekki satt?

mbl.is Federline krefst forræðis yfir sonum sínum og Spears
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frjálslyndir hækka á umdeildri innflytjendastefnu

Fylgi flokkanna Það vekur mikla athygli að sjá fylgismælingar flokkanna nú. Frjálslyndir virðast fá nokkuð fylgi út á umdeilda innflytjendastefnu og kemur það ekki að óvörum. Þetta er týpísk dægurflugumæling. Hinsvegar hefur tali þeirra tekist að vekja athygli og allt að því deilur í samfélaginu. Það verður fróðlegt að sjá hvort þessi umdeilda innflytjendastefna heldur áfram að tryggja Frjálslyndum fylgi.

Annað sem vekur mikla athygli er fylgismæling Samfylkingarinnar, sem bætir allnokkru við sig á meðan að vinstri grænir missa mikið fylgi. Framsókn er heillum horfin með aðeins rúm 6% fylgi og fjóra þingmenn, eru minni en Frjálslyndir. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með rúmlega 38% fylgi og 25 þingsæti, vel yfir kjörfylginu 2003

mbl.is Fylgi Frjálslynda flokksins eykst mikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Demókratar ná völdum í öldungadeildinni

Þinghúsið í Washington Stórtíðindi urðu í bandarískum stjórnmálum nú laust eftir miðnætti að íslenskum tíma þegar að demókratar náðu völdum í öldungadeild Bandaríkjaþings eftir tæplega fjögurra ára meirihlutasetu repúblikana. Demókratar hafa því unnið stórsigur í þessum þingkosningum. Þeim tókst að sigra fulltrúadeildina fyrir tæpum sólarhring og hafa nú náð fullum völdum í þingdeildum Bandaríkjanna og hafa fellt báða þingmeirihluta repúblikana, sem voru rausnarlegir fyrir kosningar þriðjudagsins.

Demókratar tókst með naumum hætti að vinna sigra bæði í Virginíu og Montana. Nú undir lokin voru auga allra á stöðunni í Virginíu. Þar hefur Jim Webb nú tekist að fella George Allen úr öldungadeildinni og Jon Tester felldi Conrad Burns úr sæti sínu í Montana. Þetta eru stórpólitísk tíðindi. Þessir sigrar eru naumir en gríðarlega táknrænir og til marks um algjört afhroð repúblikana í kosningunum. Meirihluti repúblikana var 15 sæti í fulltrúadeildinni en 6 í öldungadeildinni. Þeir hafa nú fallið eins og spilaborg í þessum eftirminnilegu kosningum. Miklar sviptingar það.

Þessi kosningaúrslit eru gríðarlegt pólitískt áfall fyrir George W. Bush, forseta Bandaríkjanna. Hann hefur nú þegar fórnað Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra, og liggur afsögn hans fyrir og tilnefning Robert Gates sem eftirmanns hans. Fyrir viku sagðist Bush ætla að halda Rumsfeld til loka kjörtímabilsins. Vika er langur tími í pólitík og nú er allt breytt - Rumsfeld er á útleið. Það má kannski segja að sólarhringur sé langur tími í pólitík fyrir George W. Bush. Pólitísk staða hans hefur veikst til mikilla muna. Nú þarf hann að búa við þingið undir stjórn demókrata það sem eftir lifir valdaferli hans. Það verður honum ekki auðvelt.

Harry Reid, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, verður nú leiðtogi meirihlutans í þinginu og sá sem þar ræður för. Það verður svo sannarlega athyglisvert að fylgjast með næstu tveim árum í bandarískum stjórnmálum. Það verður lokasprettur stjórnmálaferils George W. Bush. Hans gullaldartíð í bandarískum stjórnmálum heyrir nú sögunni til og hann verður nú að feta í fótspor t.d. Ronalds Reagan fyrir tveim áratugum og una við yfirstjórn þingsins í höndum algjörra andstæðinga sinna. Þeir ráða stöðu mála við staðfestingu dómara- og ráðherraefna forsetans og í fleiri mikilvægum málum, t.d. skipan rannsóknarnefnda. Yfirtaka demókrata á öldungadeildinni er miklu meira pólitískt áfall en það að missa fulltrúadeildina.

Það eru svo sannarlega spennandi tímar framundan í pólitískum refskákum í þinghúsinu tignarlega í heimsborginni Washington, þar sem valdahlutföll hafa færst með dramatískum hætti á örskotsstundu frá liðsmönnum forsetans til andstæðinga hans. Þær tilfærslur hafa gríðarleg áhrif á það sem við tekur og stefnumótun forsetans. Nú verður hann að hugsa sína pólitísku tilveru og hugmyndir út frá því sem andstæðingarnir vilja.

Það má telja það nokkuð öruggt að það verði erfitt fyrir mann af hans tagi. Hann hefur nú þegar boðað Nancy Pelosi og Harry Reid á sinn fund í Hvíta húsinu á morgun til að ræða stöðu mála og reyna að vinna hlutina fram á veg í sameiningu. Einstefna repúblikana í bandarískum stjórnmálum er á bak og burt og nú verður Bush að líta til demókrata við keyrslu sína í gegnum stjórnmálastörfin. 

Framundan eru líflegir tímar fyrir okkur bandaríska stjórnmálaáhugamenn næstu 24 mánuðina, þangað til að Bush flýgur til Texas sem almennur borgari úr valdakerfinu í Washington.

Dems win Senate - frétt CNN

mbl.is Enn mjótt á munum í Virginíu; óljóst hvort kemur til endurtalningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. nóvember 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband