Færsluflokkur: Sjónvarp

Mun fréttastofa Stöðvar 2 verða lögð niður?

Sigmundur ErnirHávær orðrómur hefur verið um það síðustu daga að flaggskip Stöðvar 2 allt frá upphafi fyrir tveim áratugum, sjálf fréttastofan, verði jafnvel lögð niður á næstunni. Þessu hefur ekki verið neitað enn með áberandi hætti og er skrafað um þetta í öllum hornum og umræðan hefur grasserað mjög á netinu. Enn er ekki ár liðið frá því að slökkt var á NFS - fréttastöð 365, eftir að hafa gengið í innan við ár með miklum taprekstri. Þau endalok voru sársaukafull og reyndi á þá sem þar unnu.

Aðeins eru sjö mánuðir síðan að hætt var að nota merki NFS og uppstokkun varð, en segja má að vörumerkið hafi dáið í september 2006 með öllu dæminu og með ólíkindum að það væri notað í rúma tvo mánuði eftir að stöðinni var slátrað. Það hefur reyndar alltaf gengið á ýmsu hjá fréttastofu Stöðvar 2 og oftar en ekki hafa líflegustu fréttirnar sem nálægt starfsfólkinu þar hefur komið gerst inn á þeirra eigin gafli. Frægt var þegar að Elín Hirst og Sigríður Árnadóttir voru reknar sem fréttastjórar og ýmis starfsmannavandamál hafa orðið þar. Fjöldi þekktra nafna hefur farið þaðan á frekar skömmum tíma.

Það má reyndar spyrja sig hvort að eðli áskriftarstöðva sé að breytast. Er fólk sem kaupir sér áskrift fyrst og fremst að kaupa það vegna sápuópera og bandarísku afþreyingarþáttanna mun frekar en að kaupa sér aðgang að fréttum. Við lifum á þeim tímum að við höfum nægt framboð frétta og sækjum það í sífellt meiri mæli á netið og tengda miðla. Það er að verða sífellt minna um það að fólk horfi beint á fréttir. Veit það bara með sjálfan mig sem sífellt sjaldnar sest fyrir framan kassann á föstum tíma og fer þess þá frekar í tölvuna síðla kvölds og finn mér fréttir þar.

Það verður vissulega skaði ef 365 ákveður að slátra fréttastöðinni. Stöð 2 verður mun litlausari án þess metnaðarfulla starfs sem unnið er á fréttastofunni, enda hefur fréttapakki stöðvarinnar alla tíð notið mikils trausts í samfélaginu og með verkum þar er fylgst mjög vel. Þessi fréttastofa hefur alla tíð leikið lykilhlutverk í fjölmiðlun okkar, um það deilir enginn. Allt frá því að Stöð 2 fór hljóðlaus í loftið í október 1986 hefur stöðin verið stór partur í samfélaginu og samkeppni milli fréttastofanna í sjónvarpi verið í senn heiðarleg og nauðsynleg.

Það verður kaldhæðnislegt ef að þessi stóri fjölmiðlarisi hættir með fréttaflutning í ljósvakamiðlum. Það verður metið sem mikil uppgjöf. Eitt sinn hótaði sami fjölmiðlarisi að loka sjoppunni vegna fjölmiðlafrumvarpsins. Síðan eru liðin þrjú ár og ekkert varð af gildistöku þeirra frægu laga vegna atbeina húsbóndans að Bessastöðum. En það verður skondið ef fréttastofan, flaggskipið mikla, deyr vegna annarra þátta og vegna niðurskurðar á heimavelli. Ill verða þá örlögin talin.

Hver verður þá ímynd fjölmiðaveldisins? Ekki eru einu sinni tvö ár liðin frá því að þessi risi ætlaði að sigra heiminn með því að opna fréttastöð ala CNN/BBC og leggja þungamiðju á þann bransa. Nú er talað um að síðustu leifar þess sem þá eftir stóð, afgangur fréttaflaggskipsins verði lagt af. Það verður fróðlegt að sjá hvaða örlög framtíðin ber í skauti sér fyrir fréttahluta ljósvakamiðils fjölmiðlaveldisins.

Tengdir pistlar
Stöð 2 20 ára
NFS heyrir sögunni til
Slökknar á lífi fréttastöðvarinnar NFS
NFS líður undir lok í íslenskri fjölmiðlasögu


Sýnt á sér magann í þráðbeinni

Katie Couric Það eru ekki allir kvenkyns fréttaþulir jafn settlegir og hún Katie Couric. Þegar að ég sá þessa frétt um fréttaþulinn sem beraði sig í beinni átti ég hreinlega von á einhverju örlítið meira krassandi. Svo var þó ekki - aumingja konan beraði bara á sér mallakútinn. Lítið ögrandi og athyglisvert við það, eða hvað?

Það hlýtur þó að hafa verið stuðandi móment fyrir fréttaþulinn að átta sig á því að hún sýndi mallann á sér í beinni. Þar fór sennilega trúverðugleiki stöðvarinnar í niðurfallið. Bretar eru svo skemmtilega íhaldssamir. Það hlýtur einhverjum þó að hafa fundist þetta skemmtilegt. Vonandi verður Emma Baker ekki rekin þó hún hafi afhjúpað sig að hluta í beinni.

Katie Couric er eins og fyrr segir fagmannleg dama á CBS, hún tók við af Dan Rather þegar að hann fór með skottið á milli lappanna eftir frægt klúður sitt í frétt um Bush forseta skömmu fyrir forsetakosningarnar 2004. Henni varð þó einu sinni á að geifla varirnar og tala í bræðiskasti við tæknimann án þess að átta sig á að hún væri í beinni. Geðstirðargeiflan varð að colgate-tannkremsbrosi með det samme.

Oft fyndin þessi showbiz tilvera í beinni, ekki satt?

mbl.is Bresk fréttakona berar sig í beinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magnús Magnússon látinn

Magnús Magnússon látinnSjónvarpsmaðurinn Magnús Magnússon er látinn úr krabbameini, 77 ára að aldri. Það leikur enginn vafi á því að Magnús varð ein skærasta stjarna bresks sjónvarps fyrir þætti sína Mastermind, sem til fjölda ára voru á dagskrá BBC og nutu mikilla vinsælda. Hann fæddist í Reykjavík, en bjó nær alla ævi sína erlendis, en hann fluttist til Skotlands tæplega ársgamall.

Magnús hélt vel í íslenskrar rætur sínar og talaði íslensku vel og hélt í málið með góðum hætti. Magnús gerði fjölda þátta um Ísland og þýddi bækur, bæði Íslendingasögurnar og nokkur skáldverk Halldórs Laxness. Sérstaklega hljóta að teljast eftirminnilegir þættir hans um fornleifafræði og sögu víkinganna, en hann var mikill áhugamaður um þá tíma og sinnti vel fornri arfleifð gamalla tíma hérlendis. Hann var sannur Íslendingur.

Magnús hlaut heiðursverðlaun íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar á Edduverðlaunahátíðinni í september 2002. Áður en hann tók við verðlaununum flutti Tómas Ingi Olrich, þáv. menntamálaráðherra, langa ræðu um verk og störf Magnúsar. Það var nokkuð merkileg ræða, enda varð mér þá fyrst ljóst hversu mjög Magnús hefði haldið í ræturnar sem hann hafði hlotið í gegnum það að vera Íslendingur og verið sannur áhugamaður um málefni fortíðar og nútíðar hér heima á Íslandi.

Þakkarræða Magnúsar sem hann flutti er hann tók við þessum heiðursverðlaunum er mér í fersku minni. Hún einkenndist af hógværð hans og frásagnargleði umfram allt. Mjög skemmtileg ræða og ég á hana einhversstaðar á spólu og þarf að grafa hana upp, væri áhugavert að sjá hana aftur, svo og ræðu Tómasar Inga við þetta tilefni. Þarna talaði Magnús íslensku og fipaðist hvergi í því. Hann hélt vel í málið og aðdáunarvert hvað hann talaði fallega íslensku eftir öll þessi ár. 

Það er raunar sérstaklega ánægjulegt fyrir okkur Íslendinga hversu vel hann hélt við íslenskt mál og sýndi með því vel að hann mat uppruna sinn mikils. Við lát þessa heimsfræga sjónvarpsmanns með íslensku ræturnar er okkur sennilega það fyrst og fremst efst í huga að hann var sannur Íslendingur og sýndi það alla tíð mjög vel.


mbl.is Sjónvarpsmaðurinn Magnús Magnússon látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hví er kostnaður við skaupið trúnaðarmál?

Skaup 2006 Sitt sýnist hverjum um Skaupið á gamlársdag. Ég hef sagt mínar skoðanir hér og fengið komment frá þeim sem eru sammála og ósammála. Hið besta mál. Botna samt engan veginn í því af hverju kostnaður við þetta Áramótaskaup er talið trúnaðarmál. Þeir sem stýra Ríkisútvarpinu hafa neitað að gefa Fréttablaðinu, sem spurði um málið í gær og í dag, upp kostnaðartölurnar.

Fréttablaðið hefur nú kært þessa neitun Ríkisútvarpsins til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Það er mjög undarlegt að ekki megi liggja fyrir hvað þetta skaup hafi kostað. Það sjá reyndar allir að þetta skaup var nokkuð dýr, miklu var til kostað og útkoman er ekki óumdeild, eins og allir hafa séð sem heyrt hafa álit almennings á skaupinu á netinu og í allskonar þáttum þar sem óvísindalegar mælingar hafa farið fram.

Ég hef margoft sagt hér að það sé erfitt að gera skemmtiefni sem allir séu hoppandi glaðir yfir. Þetta er ekki fyrsta skaupið sem er umdeilt. En í ljósi alls tel ég ekki óviðeigandi að kostnaður við það sé gefinn upp. Sé tal um að það hafi kostað um eða yfir 40 milljónir er það vissulega mikið umhugsunarefni hvort þeim peningum hafi verið vel varið.

Að vera eða ekki vera.... með skaup

SkaupiðAð vera eða ekki vera... með skaup, þarna er efinn. Nei án alls gríns, þá sá ég að bloggvinur minn, Atli Fannar Bjarkason, virðist víkja að hugleiðingum mínum hér á blogginu á nýársdag um Skaupið í fjölmiðlapistli sínum í Blaðinu í dag. Það er gott að heyra skoðanir annarra á því sem ég setti fram. Reyndar fékk ég mjög mikil viðbrögð á skrifin og mörg þrusugóð komment á nýársdag. Var mjög líflegt og gott hérna og allir með skoðanir. Hefði viljað fá komment frá Atla þar inn, enda alltaf gaman af því að heyra skoðanir annarra.

Áramótaskaupið er nú einu sinni þess eðlis að allir hafa á því skoðanir. Annaðhvort eru menn að dýrka skaupið eða hreinlega þola það ekki. Ég hef oft verið í þeim flokki að verja það og heyra þær skoðanir að það hafi verið ömurlegt. Nú, og reyndar í fyrra, var ég í þeim flokki að finnast það slappt. Einn góðvinur minn sendi mér póst og sagðist telja að ég hefði verið ósáttur vegna þess að lítil pólitík hefði verið í skaupinu. Margt til í því. Mér fannst vanta þennan klassíska húmor. En það er mitt mat. Ég sagði mínar skoðanir því ég vildi heyra í öðrum. Það tókst allavega.

Það verður sjaldan hægt að gera hið fullkomna skaup sem allir dýrka út af lífinu. Ég geri mér vel grein fyrir því. Ég ætla ekki að segja að ég hafi setið algjörlega með steinrunnið andlit yfir öllu skaupinu. Mér fannst nokkur atriði góð, t.d. Baugsmyndin "hlutlausa", andi Gísla á Uppsölum að heimta eitt stykki flatskjá og samningaviðræður við Kanana voru atriði sem mér fannst góð. Sumt var mjög misheppnað að mínu mati, sumt alveg glatað. En það er bara mitt mat - og mér dettur ekki í hug að allir séu sammála mér. En ég segi það sem mér finnst. Heiðarlegt og gott.

Þessi þjóð er svo skemmtilega ólík í grunninn að það er vonlaust að telja okkur geta gert skemmtiefni sem allir liggja flatir yfir hlæjandi sig máttlausa. Væntanlega gerðu aðstandendur Skaupsins sitt besta. Eflaust er það svo, þeirra húmor verður aldrei allra og það verður Spaugstofan ekki heldur, né t.d. Fóstbræður í denn og Stelpurnar nú. Það er alveg rétt hjá Atla að ég var svo ósáttur að ég vildi helst leggja Skaupið niður. En kannski voru það bara natúral fyrstu viðbrögð einhvers sem fannst skemmtiefnið missa marks. En það eru auðvitað bara pælingar.

Ég bjóst enda aldrei við að allir væru sammála mér, en ég lét það flakka sem var í hausnum á mér á nýársdag. Ég fékk allavega viðbrögð, góð komment, sumir ósáttir, aðrir ánægðir. Fínt bara. Það er alltaf gaman að rabba um málin, enn skemmtilegra um húmor en pólitík. Eða ég tel það.


Eigum við að leggja niður áramótaskaupið?

Skaup 2006 Ég hugsaði upphátt um Áramótaskaupið í gær og sagði mínar skoðanir á því og spurði hreinlega hvort ætti að leggja það niður. Ekki stóð á viðbrögðum og ég fékk yfir 20 komment þar sem fólk sagði sitt mat á öllum hliðum mála. Fleiri voru sammála mér en ósammála, sem er gott mál. Á nýársdag ár hvert er um fátt meira rætt en Skaupið, kosti þess og galla. Þetta er frægt álitaefni. Þakka öllum þeim sem létu í sér heyra hérna á síðunni. 

Fyrst og fremst mátti ég til með að segja upphátt það sem ég var að pæla og líka opna á að heyra í öðrum. Það er nú einu sinni svo að Áramótaskaupið er þess eðlis að það er sumum að skapi og öðrum ekki. Það er vonlaust að allir verði sammála um það. Mér finnst þó mjög margir hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með það. Eftir stendur hiklaust þær pælingar hvort það sé orðið réttlætanlegt að halda úti dagskrárlið með þessum hætti áfram sem veldur vonbrigðum ár eftir ár. Það er greinilegt að sitt sýnist hverjum.

Persónulega fannst mér Skaupið átakanlega slappt í ár. Það er bara þannig. Eflaust er ekki hægt annað en vonast eftir að það verði betra að ári, en ég get samt ekki sagt annað en það sem ég sagði í gær í þessari stöðu. Kannski tek ég þó bara undir með Sigurlín Margréti og bið um Óskar Jónasson bara aftur og eða bara tek undir með öðrum sem skrifaði um að Stelpurnar eigi að fá að gera skaupið. Þær hafa verið að standa sig vel. Margar pælingar í þessu. Vonlaust að allir verði sammála.

En takk enn og aftur fyrir öll kommentin.

Leggjum niður áramótaskaupið

Skaup 2006 Ég er enn að jafna mig á áramótaskaupinu sem okkur landsmönnum var boðið upp á í gærkvöldi. Það var með þeim hætti að mér stökk varla bros á vör og það sama gilti um þann félagsskap sem ég var staddur í, það var lítið sem ekkert hlegið. Þetta er meira og minna ekki húmor sem ég er hrifinn af. Ég brosti yfir einum þrem atriðum, en þar með var það algjörlega upp talið.

Það er því miður að verða árviss viðburður að ekki sé horfandi á þetta áramótaskaup. Miklu er kostað til, en það verður lélegra með hverju árinu. Ég man ekki eftir almennilegum skaupum síðan að Óskar Jónasson gerði tvö eftirminnileg árin 2001 og 2002. Skaup Spaugstofunnar árið 2004 var allt í lagi en ekkert meistaraverk, en það var þó hægt að hlæja að því og hafa gaman af.

Að þessu sinni var talað niður til aldraðra, öryrkja og þeirra sem minna mega sín. Hafi þetta átt að vera húmor féll hann í senn bæði dauður og flatur í mínum húmorsbókum, sem eru á eilítið hærra plani. En semsagt; mikil vonbrigði og bömmer yfir þessu skaupi. Einfalt mál.

Á ekki bara að fara að leggja niður þetta skaup og huga að betri dagskrárgerð yfir allt árið, frekar en dæla peningum í einn misheppnaðan sjónvarpsviðburð? Ég tel að það væri affarasælla.

NFS líður undir lok í íslenskri fjölmiðlasögu

NFS Merki NFS hvarf endanlega úr íslenskri fjölmiðlasögu í kvöld í kvöldfréttatíma Stöðvar 2, þar sem fréttastofa Stöðvar 2 lifnaði við að nýju. Að baki er ársgömul saga fréttastofu NFS, sem átti að verða stórhuga nýjung í fréttaþjónustu landsmanna. 22. september sl. var slökkt á fréttastöðinni NFS en lógó og heitið á fréttastofunni stóð þó eftir, við dræmar undirtektir starfsmanna þar. Það var frekar tómlegt að halda störfum áfram við þessar aðstæður.

18. nóvember 2005 hóf NFS útsendingar. Allt frá fyrsta degi var áhugaverð dagskrárgerð á NFS og í raun ekkert til sparað, mikið var af beinum útsendingum og tekið á öllum helstu álitaefnum þjóðmálaumræðunnar í umfjöllun. Vandi stöðvarinnar var þó allt frá upphafi einn - og hann nokkuð stór, að flestra mati. Áhorf og auglýsingatekjur brugðust, það sem átti að vera eldsneyti stöðvarinnar inn í framtíðina gaf sig fljótt og hefur skuldahali stöðvarinnar jókst sífellt eftir því sem leið á þetta fyrsta og eina útsendingarár NFS. Hægt og rólega fjaraði stöðin út uns kom að leiðarlokunum eftir tíu mánaða starf.

Mörgum þótti hugmyndin djörf er hún var kynnt fyrst sumarið 2005 og ekki voru allir á eitt sáttir. Einn þeirra sem ekki var sáttur við hugmyndina var Páll Magnússon, þáv. fréttastjóri Stöðvar 2. Hann tók ákvörðun um að yfirgefa frekar skútu 365 en halda í verkefnið og munu átök hafa orðið á æðstu stöðum þegar að Páll sagði við yfirmenn 365 að þessi hugmynd myndi aldrei ganga og yrði myllusteinn um háls fyrirtækisins. Við svo búið sagði Páll upp og sótti um lausa útvarpsstjórastöðu hjá Ríkisútvarpinu í kjölfarið.

Í viðtali í sumar við tímaritið Mannlíf sagði Páll að þessi hugmynd um NFS hefði verið glapræði og ástæða þess að hann ákvað að vera ekki áfram hjá 365. Það er greinilegt að varnaðarorð Páls Magnússonar, útvarpsstjóra, sumarið 2005 vegna stofnunar fréttastöðvar 365 í sjónvarpi gengu að öllu leyti eftir. NFS varð dýr tilraun fyrir 365-fjölmiðlaveldið og það sligaðist vegna þess. Að því kom að skrúfað var en NFS-lógóið lifði lengur og varð eiginlega aðhlátursefni. Það var öllum ljóst seinustu vikur að aðeins tímaspursmál væri hvenær stokkað yrði upp.

Í kvöld var öllu skúffað niður eftir árstilraun og eftir stendur staða mála eins og var fyrir 18. nóvember 2005. Þetta var misheppnuð tilraun. Má þó til með að hrósa hinni nýendurvöktu fréttastofu Stöðvar 2 fyrir flottar breytingar, góð lógó og líflega útgáfu á fréttastefi Gunnars Þórðarsonar sem hefur fylgt Stöð 2 frá 1987. Það verður fróðlegt að fylgjast með stöðu mála eftir að NFS hefur nú endanlega verið sett í skúffuna í Skaftahlíð.

Innihaldsríkt viðtal við Styrmi

Styrmir Gunnarsson Var að horfa á gott viðtal Evu Maríu Jónsdóttur við Styrmi Gunnarsson, ritstjóra Morgunblaðsins, í Sunnudagskastljósi Evu Maríu á sunnudagskvöldið. Þetta var innihaldsríkt og notalegt viðtal. Styrmir fer þarna yfir blaðamannsferilinn, góða fóstbræðravináttu hans við Jón Baldvin, Halldór Blöndal og Ragnar Arnalds, hlerunarmálin, kalda stríðið, tengsl Morgunblaðsins og Sjálfstæðisflokksins, varnarmálin, tölvupóstsmálið fræga og yfirvofandi starfslok hjá Morgunblaðinu.

Eva María er lagin að stýra góðum viðtölum, enda bæði mannlegur og beittur spyrill, skemmtileg blanda í raun. Það er gleðiefni að Eva María sé með spjallþátt á prime time sjónvarpstíma. Hún á hvergi annarsstaðar heima en með alvöru þátt á alvöru tíma. Það var gott að fá hana aftur á skjáinn í haust og þetta viðtal er það besta í þessum þætti í vetur frá fyrsta viðtali vetrarins, við Davíð Oddsson, fyrrum forsætisráðherra. Hvet alla til að horfa á þetta góða viðtal.

Viðtal við Styrmi Gunnarsson

Mýrin sigursæl á Eddunni - Ingvar besti leikarinn

Mýrin Mýrin, stórfengleg kvikmynd Baltasars Kormáks eftir þekktri sögu Arnaldar Indriðasonar, var sigursæl á Edduverðlaununum í kvöld og var valin besta kvikmynd ársins. Ingvar E. Sigurðsson og Atli Rafn Sigurðarson hlutu leikaraverðlaunin fyrir hlutverk sín í myndinni og Baltasar var valinn leikstjóri ársins. Mugison fékk auk þess verðlaun fyrir tónlist í myndum Baltasars; Mýrinni og A Little Trip to Heaven. Karlakórsstemmningin í Mýrinni er einn af hápunktum myndarinnar. Það leikur því enginn vafi á því að Mýrin var sigurvegari kvöldsins.

Leikstjórinn Ragnar Bragason hlaut handritsverðlaunin fyrir kvikmyndina Börn, Óttar Guðnason hlaut verðlaun fyrir útlit myndar með kvikmyndatökunni í A Little Trip to Heaven, Anna og skapsveiflurnar var valin stuttmynd ársins, Skuggabörn var heimildarmynd ársins, hinn vandaði fréttaskýringarþáttur Stöðvar 2, Kompás, var valinn sjónvarpsþáttur ársins og Jón Ólafs, nýr skemmtiþáttur Sjónvarpsins, hlaut Edduna sem skemmtiþáttur ársins. Stelpurnar hlutu verðlaunin sem leikið sjónvarpsefni ársins annað árið í röð og vakti mikla athygli að sjónvarpsmyndin Allir litir hafsins eru kaldir, skyldi ekki hljóta þau.

Ómar Ragnarsson var hylltur er hann hlaut verðlaunin sem sjónvarpsmaður ársins.  Á 40 árum Sjónvarpsins hefur Ómar verið í hlutverki íþróttafréttamanns, skemmtikrafts, íhuguls spyrils í mannlegum og heillandi viðtölum og fréttamanns sem kannað hefur landið og mannsálina í víðri merkingu þess orðs. Eftir stendur merk starfsævi sem allir virða. Ómar á sennilega heiðurinn af einni stærstu stund íslenskrar sjónvarpssögu. Það var þegar að hann kynnti okkur fyrir Vestfirðingnum Gísla á Uppsölum, alþýðumanni sem lifði er á 19. öld væri en í raun var uppi á tækniáratugum 20. aldar. Ég virði framlag Ómars mikils - hann á skilið allt hið besta fyrir sitt ævistarf.

Kvikmyndin Mýrin var sigurvegari kvöldsins. Í heildina séð er Mýrin algjört meistaraverk. Ég hreifst mjög af henni er ég sá hana fyrir mánuði. Glæsileg kvikmynd í alla staði. Það hefur sannast af viðtökum landsmanna að hún er sátt og dómar um hana hafa verið nær allir á einn veg. Það var mikið gleðiefni að Ingvar E. skyldi hljóta Edduna fyrir stórleik sinn í hlutverki Erlendar Sveinssonar. Hér eftir sjáum við Erlend í hans túlkun og sjáum engan annan fyrir okkur er bækurnar eru dregnar fram á dimmu vetrarkvöldi eða fögru heiðbjörtu sumarkvöldi. Hann túlkaði einmanalegt og innantómt líf hins hugula rannsóknarlögreglumanns af mikilli snilld. Glæsilega gert.

Þjóðin hefur með því að fjölmenna í bíó sýnt það með skýrum hætti að hún vill framhald á. Öll viljum við sjá bækurnar lifna við. Þetta eru stórfenglega skrifaðar bækur og það er greinilegt að þjóðin hefur áhuga á því að þær verði kvikmyndaðar. Þjóðin vill sjá fleiri myndir og Ingvar E. aftur í hlutverki Erlendar. Sigurför Mýrinnar segir allt sem segja þarf. Það hlýtur að verða framhald á. Það er allavega nóg af eftirminnilegum sögum eftir Arnald til að kvikmynda.

Í heildina var þetta skemmtilegt sjónvarpskvöld. Fannst þó kynnarnir missa nokkuð marks, húmorinn var ekki upp á marga fiska og betra væri að láta fagmenn sjá um þessa hlið gríns, ef á að hafa grín yfir höfuð. Þetta var vandræðalegt í besta falli. Svo er það hreinn skandall að ekki sé verðlaunað í flokkum karla og kvenna fyrir leik. En samt sem áður; skemmilegt kvöld.


mbl.is Mýrin fékk flest Edduverðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband