Að vera eða ekki vera.... með skaup

SkaupiðAð vera eða ekki vera... með skaup, þarna er efinn. Nei án alls gríns, þá sá ég að bloggvinur minn, Atli Fannar Bjarkason, virðist víkja að hugleiðingum mínum hér á blogginu á nýársdag um Skaupið í fjölmiðlapistli sínum í Blaðinu í dag. Það er gott að heyra skoðanir annarra á því sem ég setti fram. Reyndar fékk ég mjög mikil viðbrögð á skrifin og mörg þrusugóð komment á nýársdag. Var mjög líflegt og gott hérna og allir með skoðanir. Hefði viljað fá komment frá Atla þar inn, enda alltaf gaman af því að heyra skoðanir annarra.

Áramótaskaupið er nú einu sinni þess eðlis að allir hafa á því skoðanir. Annaðhvort eru menn að dýrka skaupið eða hreinlega þola það ekki. Ég hef oft verið í þeim flokki að verja það og heyra þær skoðanir að það hafi verið ömurlegt. Nú, og reyndar í fyrra, var ég í þeim flokki að finnast það slappt. Einn góðvinur minn sendi mér póst og sagðist telja að ég hefði verið ósáttur vegna þess að lítil pólitík hefði verið í skaupinu. Margt til í því. Mér fannst vanta þennan klassíska húmor. En það er mitt mat. Ég sagði mínar skoðanir því ég vildi heyra í öðrum. Það tókst allavega.

Það verður sjaldan hægt að gera hið fullkomna skaup sem allir dýrka út af lífinu. Ég geri mér vel grein fyrir því. Ég ætla ekki að segja að ég hafi setið algjörlega með steinrunnið andlit yfir öllu skaupinu. Mér fannst nokkur atriði góð, t.d. Baugsmyndin "hlutlausa", andi Gísla á Uppsölum að heimta eitt stykki flatskjá og samningaviðræður við Kanana voru atriði sem mér fannst góð. Sumt var mjög misheppnað að mínu mati, sumt alveg glatað. En það er bara mitt mat - og mér dettur ekki í hug að allir séu sammála mér. En ég segi það sem mér finnst. Heiðarlegt og gott.

Þessi þjóð er svo skemmtilega ólík í grunninn að það er vonlaust að telja okkur geta gert skemmtiefni sem allir liggja flatir yfir hlæjandi sig máttlausa. Væntanlega gerðu aðstandendur Skaupsins sitt besta. Eflaust er það svo, þeirra húmor verður aldrei allra og það verður Spaugstofan ekki heldur, né t.d. Fóstbræður í denn og Stelpurnar nú. Það er alveg rétt hjá Atla að ég var svo ósáttur að ég vildi helst leggja Skaupið niður. En kannski voru það bara natúral fyrstu viðbrögð einhvers sem fannst skemmtiefnið missa marks. En það eru auðvitað bara pælingar.

Ég bjóst enda aldrei við að allir væru sammála mér, en ég lét það flakka sem var í hausnum á mér á nýársdag. Ég fékk allavega viðbrögð, góð komment, sumir ósáttir, aðrir ánægðir. Fínt bara. Það er alltaf gaman að rabba um málin, enn skemmtilegra um húmor en pólitík. Eða ég tel það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur fannberg

kvitt kvitt

Ólafur fannberg, 3.1.2007 kl. 17:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband