Boris Johnson á sigurbraut

Boris Johnson stefnir hraðbyri að lyklavöldum í Downingstræti 10 eftir sannfærandi sigur í fyrstu umferð leiðtogakjörs Íhaldsflokksins í dag - hlaut 114 atkvæði, 70 atkvæðum meira en sá næsti og mun meiri stuðning en næstu tveir til samans. Mjög ólíklegt verður að teljast að nokkur geti stöðvað Boris úr þessu - hann hlaut meiri byr meðal þingmanna í fyrstu umferðinni en flestir spámenn áttu von á.

Baráttan í leiðtogaslagnum hefur að mestu staðið um það hver fari með Boris í kosningu meðal almennra flokksmanna - ráðherrarnir Jeremy Hunt og Michael Gove takast á um stuðning ráðandi afla í flokknum, þeirra sem treysta ekki Boris fyrir stýrinu á þjóðarskútunni í Brexit-málinu. Báðir urðu þeir þó fyrir áfalli - þrátt fyrir stuðning öflugra ráðherra fengu þeir vel innan við 50 atkvæði. Staðan er til vitnis um að þingmenn skynji æ betur að Boris einn geti rétt við hnignandi kúrs flokksins.

Einn lykilspámaður úr ranni May-kjarnans hafði spáð Boris 85-90 atkvæðum en Hunt 60-65 rétt fyrir kjörið. Úrslitin stuðuðu enda þá sem mest höfðu varað við Boris og vildu alvarlegri mann við stýrið. Vonbrigði þeirra sem veðjuðu frekar á Hunt en Johnson leyndu sér ekki, einkum ráðherranna Amber Rudd og Penny Mordaunt. Þrátt fyrir kannabisskandal Gove um helgina sló það ekki kappann út af laginu, hann fór nær 40 atkvæðum en flestir töldu. Hunt virðist ekki hafa grætt á hefðbundnum kjarnastuðningi. Dominic Raab hlaut ágætan byr en ekki nægan til að krafsa í bakland Boris.

Í næstu umferð þarf stuðning 33 þingmanna - þá falla minni spámenn líklega út. Sajid Javid, innanríkisráðherra, fékk mun minni stuðning en búist var við og ekki líklegur til að komast lengra líkt og Matt Hancock og Rory Stewart. Stóra spurningin er hvort þeir ná stuðningi til að haldast á floti úr átt þeirra þriggja sem duttu út í dag. Meðal þeirra var Andrea Leadsom sem varð önnur í leiðtogaslagnum við Theresu May 2016 en lagði ekki í póstkosninguna á móti henni þegar á reyndi - gulltryggði kjör hennar en stakk hana í bakið á lykilaugnabliki undir lokin. Hún fékk ekki byr nú - Boris studdi hana líka þá.

Sá eini sem getur sett Boris Johnson út af sporinu úr þessu virðist vera hann sjálfur - eigin yfirlýsingar og gjörðir í hita leiksins. Á einmitt það virðist May-kjarninn og andstæðingar hans innan flokksins stóla á þegar á hólminn kemur og slagurinn færist úr þingflokknum í bakland flokksins - kosningu meðal 130.000 félaga víða um landið. Þar eykst pressan og fjölmiðlar eiga meiri rullu í lokaslagnum í yfirheyrslum í beinni útsendingu.

Lengi vel vonaði sami kjarni að Boris Johnson yrði stöðvaður í þingflokknum og gæti ekki slegið um sig í grasrótinni. Þingmenn skynja æ betur að enginn á meiri og betri tækifæri til að rétta kúrsinn og eygja betri von á endurkjöri í kosningum en Boris. Hann nýtur sín vel meðal almennra flokksmanna - hefur mikla tiltrú í baklandinu. Mikið þarf til að stöðva siglingu hans að fullum völdum - ráðandi kjarninn á fá svör við velgengni hans.

Boris virðist eflast við hverja raun - sjóaður í slagnum, græðir á borgarstjórasetu sinni í London þar sem hann komst til valda á lykil- valdasvæði Verkamannaflokksins með mjög sannfærandi hætti og hefur styrkst í átökum í valdatíð Theresu May, einkum eftir afsögn úr utanríkisráðuneytinu á lykilaugnabliki. Og hefur undirbúið sókn sína að Downingstræti 10 af miklu öryggi - framkoma og tjáning fimlega þaulskipulögð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband