Stöð 2 20 ára

Stöð 2

Í dag eru 20 ár frá því að Stöð 2 hóf útsendingar. Stöð 2 hefur fyrir löngu markað sér sess í sjónvarpssögu landsins. Hún var fyrsta einkarekna sjónvarpsstöðin sem hóf útsendingar hérlendis. Stöð 2 hóf útsendingar að kvöldi fimmtudagsins 9. október 1986 með ávarpi sjónvarpsstjórans, Jóns Óttars Ragnarssonar. Ávarpið fór út hljóðlaust og tæknibilanir hrjáðu stöðina í fyrstu og t.d. varð fyrstu tvær vikurnar að taka upp fréttatímann fyrirfram til að sýna á stöðinni. Á fyrsta útsendingardeginum kom Ronald Reagan, forseti Bandaríkjanna, til landsins á leiðtogafund sinn með Mikhail Gorbachev, leiðtoga Sovétríkjanna, sem stóð í Reykjavík dagana 11. og 12. október 1986.

Þó að tæknibilanir og erfiðleikar hafi gert það að verkum að stöðin gat ekki fjallað um leiðtogafundinn með viðunandi hætti varð það fall í raun fararheill. Stöðin var stofnuð í upphafi af Jóni Óttari, Ólafi Jónssyni og Hans Kristjáni Árnasyni. Djörfung þeirra og ákveðni reif stöðina upp fyrsta og í raun erfiðasta hjallann. Þeir lögðu út í mikla innlenda dagskrárgerð og voru menn framkvæmda og krafts í forystu Stöðvar 2. Miklir fjárhagserfiðleikar á fyrstu árunum leiddu að lokum til þess að þeir misstu yfirstjórnina úr sínum höndum árið 1990 og nýjir fjárfestar tóku yfir stjórn Stöðvar 2. Þó er það öllum ljóst að án krafts Jóns Óttars og Hans Kristjáns hefði stöðin aldrei orðið eitt né neitt.

Í 55 ár var einkaaðilum bannað að reka ljósvakamiðla. Í verkfalli opinberra starfsmanna árið 1984 lamaðist starfsemi Ríkisútvarpsins. Leiddi það til endurskoðunar á útvarpslögum undir forystu Ragnhildar Helgadóttur, menntamálaráðherra, í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Ný útvarpslög sem heimiluðu einkaaðilum að reka ljósvakamiðla var samþykkt í júní 1985. Bylgjan hóf fyrst einkarekinna útvarpsstöðva útsendingar hérlendis í ágúst 1986. Hugmyndin á bakvið Stöð 2 var vissulega metin djörf á sínum tíma. Vissulega voru rekstrarerfiðleikar lengi meginstef í sögu Stöðvar 2, en víst er að enginn hefði viljað vera án þeirra þáttaskila sem stöðin markaði.

Á 20 árum hefur Stöð 2 sannað fyrir okkur öllum mikilvægi tilveru sinnar svo um munar. Stofnun hennar markaði mikil þáttaskil í fjölmiðlasögu landsins. Það er því svo sannarlega rétt að óska starfsmönnum og eigendum Stöðvar 2 til hamingju með daginn. Stöð 2 gegnir enn gríðarlega mikilvægu hlutverki í frjálsri fjölmiðlum. Hún varð fyrst sjónvarpsstöðvanna sem til urðu eftir að ríkiseinokunin var afnumin og vegna þess er hún okkur frelsisunnendum og hægrimönnum svo kær. Megi hún lengi lifa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband