Mun fréttastofa Stöðvar 2 verða lögð niður?

Sigmundur ErnirHávær orðrómur hefur verið um það síðustu daga að flaggskip Stöðvar 2 allt frá upphafi fyrir tveim áratugum, sjálf fréttastofan, verði jafnvel lögð niður á næstunni. Þessu hefur ekki verið neitað enn með áberandi hætti og er skrafað um þetta í öllum hornum og umræðan hefur grasserað mjög á netinu. Enn er ekki ár liðið frá því að slökkt var á NFS - fréttastöð 365, eftir að hafa gengið í innan við ár með miklum taprekstri. Þau endalok voru sársaukafull og reyndi á þá sem þar unnu.

Aðeins eru sjö mánuðir síðan að hætt var að nota merki NFS og uppstokkun varð, en segja má að vörumerkið hafi dáið í september 2006 með öllu dæminu og með ólíkindum að það væri notað í rúma tvo mánuði eftir að stöðinni var slátrað. Það hefur reyndar alltaf gengið á ýmsu hjá fréttastofu Stöðvar 2 og oftar en ekki hafa líflegustu fréttirnar sem nálægt starfsfólkinu þar hefur komið gerst inn á þeirra eigin gafli. Frægt var þegar að Elín Hirst og Sigríður Árnadóttir voru reknar sem fréttastjórar og ýmis starfsmannavandamál hafa orðið þar. Fjöldi þekktra nafna hefur farið þaðan á frekar skömmum tíma.

Það má reyndar spyrja sig hvort að eðli áskriftarstöðva sé að breytast. Er fólk sem kaupir sér áskrift fyrst og fremst að kaupa það vegna sápuópera og bandarísku afþreyingarþáttanna mun frekar en að kaupa sér aðgang að fréttum. Við lifum á þeim tímum að við höfum nægt framboð frétta og sækjum það í sífellt meiri mæli á netið og tengda miðla. Það er að verða sífellt minna um það að fólk horfi beint á fréttir. Veit það bara með sjálfan mig sem sífellt sjaldnar sest fyrir framan kassann á föstum tíma og fer þess þá frekar í tölvuna síðla kvölds og finn mér fréttir þar.

Það verður vissulega skaði ef 365 ákveður að slátra fréttastöðinni. Stöð 2 verður mun litlausari án þess metnaðarfulla starfs sem unnið er á fréttastofunni, enda hefur fréttapakki stöðvarinnar alla tíð notið mikils trausts í samfélaginu og með verkum þar er fylgst mjög vel. Þessi fréttastofa hefur alla tíð leikið lykilhlutverk í fjölmiðlun okkar, um það deilir enginn. Allt frá því að Stöð 2 fór hljóðlaus í loftið í október 1986 hefur stöðin verið stór partur í samfélaginu og samkeppni milli fréttastofanna í sjónvarpi verið í senn heiðarleg og nauðsynleg.

Það verður kaldhæðnislegt ef að þessi stóri fjölmiðlarisi hættir með fréttaflutning í ljósvakamiðlum. Það verður metið sem mikil uppgjöf. Eitt sinn hótaði sami fjölmiðlarisi að loka sjoppunni vegna fjölmiðlafrumvarpsins. Síðan eru liðin þrjú ár og ekkert varð af gildistöku þeirra frægu laga vegna atbeina húsbóndans að Bessastöðum. En það verður skondið ef fréttastofan, flaggskipið mikla, deyr vegna annarra þátta og vegna niðurskurðar á heimavelli. Ill verða þá örlögin talin.

Hver verður þá ímynd fjölmiðaveldisins? Ekki eru einu sinni tvö ár liðin frá því að þessi risi ætlaði að sigra heiminn með því að opna fréttastöð ala CNN/BBC og leggja þungamiðju á þann bransa. Nú er talað um að síðustu leifar þess sem þá eftir stóð, afgangur fréttaflaggskipsins verði lagt af. Það verður fróðlegt að sjá hvaða örlög framtíðin ber í skauti sér fyrir fréttahluta ljósvakamiðils fjölmiðlaveldisins.

Tengdir pistlar
Stöð 2 20 ára
NFS heyrir sögunni til
Slökknar á lífi fréttastöðvarinnar NFS
NFS líður undir lok í íslenskri fjölmiðlasögu


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Nema að þeir fái bara mbl.is til að sjá um fréttirnar á Stöð 2?

Sigurður Viktor Úlfarsson, 2.7.2007 kl. 19:56

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Það yrði nú eftirsjá í þeim. 

Ásdís Sigurðardóttir, 2.7.2007 kl. 20:01

3 Smámynd: Fannar frá Rifi

Baugur leggur nú ekki niður stöð 2 og tengda fréttamiðla meðan þeir standa í málaferlum. 

Ég þori að veðja að um leið og öll málaferlin klárast(ef þau klárast einhverntíman í allri þessari löngu vitleysu) þá verði algjör uppstokkun á fjölmiðlum 365. 

Fannar frá Rifi, 2.7.2007 kl. 22:18

4 Smámynd: Óðinn Þórisson

Dreg það í efa að 365 loki fréttastofunni en það er spuring hvort risasamningurinn um enska boltann sé að trufla þá eitthvað fjárhagslega.
Sammála Fannari að einhver uppsokkun verður á fjölmiðlum 365.

Óðinn Þórisson, 3.7.2007 kl. 09:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband