NFS líður undir lok í íslenskri fjölmiðlasögu

NFS Merki NFS hvarf endanlega úr íslenskri fjölmiðlasögu í kvöld í kvöldfréttatíma Stöðvar 2, þar sem fréttastofa Stöðvar 2 lifnaði við að nýju. Að baki er ársgömul saga fréttastofu NFS, sem átti að verða stórhuga nýjung í fréttaþjónustu landsmanna. 22. september sl. var slökkt á fréttastöðinni NFS en lógó og heitið á fréttastofunni stóð þó eftir, við dræmar undirtektir starfsmanna þar. Það var frekar tómlegt að halda störfum áfram við þessar aðstæður.

18. nóvember 2005 hóf NFS útsendingar. Allt frá fyrsta degi var áhugaverð dagskrárgerð á NFS og í raun ekkert til sparað, mikið var af beinum útsendingum og tekið á öllum helstu álitaefnum þjóðmálaumræðunnar í umfjöllun. Vandi stöðvarinnar var þó allt frá upphafi einn - og hann nokkuð stór, að flestra mati. Áhorf og auglýsingatekjur brugðust, það sem átti að vera eldsneyti stöðvarinnar inn í framtíðina gaf sig fljótt og hefur skuldahali stöðvarinnar jókst sífellt eftir því sem leið á þetta fyrsta og eina útsendingarár NFS. Hægt og rólega fjaraði stöðin út uns kom að leiðarlokunum eftir tíu mánaða starf.

Mörgum þótti hugmyndin djörf er hún var kynnt fyrst sumarið 2005 og ekki voru allir á eitt sáttir. Einn þeirra sem ekki var sáttur við hugmyndina var Páll Magnússon, þáv. fréttastjóri Stöðvar 2. Hann tók ákvörðun um að yfirgefa frekar skútu 365 en halda í verkefnið og munu átök hafa orðið á æðstu stöðum þegar að Páll sagði við yfirmenn 365 að þessi hugmynd myndi aldrei ganga og yrði myllusteinn um háls fyrirtækisins. Við svo búið sagði Páll upp og sótti um lausa útvarpsstjórastöðu hjá Ríkisútvarpinu í kjölfarið.

Í viðtali í sumar við tímaritið Mannlíf sagði Páll að þessi hugmynd um NFS hefði verið glapræði og ástæða þess að hann ákvað að vera ekki áfram hjá 365. Það er greinilegt að varnaðarorð Páls Magnússonar, útvarpsstjóra, sumarið 2005 vegna stofnunar fréttastöðvar 365 í sjónvarpi gengu að öllu leyti eftir. NFS varð dýr tilraun fyrir 365-fjölmiðlaveldið og það sligaðist vegna þess. Að því kom að skrúfað var en NFS-lógóið lifði lengur og varð eiginlega aðhlátursefni. Það var öllum ljóst seinustu vikur að aðeins tímaspursmál væri hvenær stokkað yrði upp.

Í kvöld var öllu skúffað niður eftir árstilraun og eftir stendur staða mála eins og var fyrir 18. nóvember 2005. Þetta var misheppnuð tilraun. Má þó til með að hrósa hinni nýendurvöktu fréttastofu Stöðvar 2 fyrir flottar breytingar, góð lógó og líflega útgáfu á fréttastefi Gunnars Þórðarsonar sem hefur fylgt Stöð 2 frá 1987. Það verður fróðlegt að fylgjast með stöðu mála eftir að NFS hefur nú endanlega verið sett í skúffuna í Skaftahlíð.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband