Casino Royale

James Bond (Daniel Craig) Það er alltaf mikil tilhlökkun sem fylgir því þegar að nýr leikari markar sín fyrstu skref í hlutverki njósnarans James Bond. Þeir leikarar sem hafa túlkað hann hafa ávallt fært hlutverkinu nýja dýpt og nýjan grundvöll. Það gerist nú ennfremur. Nú sjáum við hinsvegar gjörólíkan Bond frá því sem við eigum að venjast. Nýjar og áhugaverðar hliðar fylgja þessari mynd að svo mörgu leyti. Casino Royale verður því vendipunktur í sögu Bond-myndanna að mínu mati.

Í þessari mynd er leitað aftur til upphafsins og grunnhliðanna sem skópu höfuðþætti frægðar myndanna um James Bond. Á síðustu árum hafði grunnur Bond-þemans veikst verulega að mínu mati. Vélkenndi hasarinn og verksmiðjutaktarnir voru orðnir verulega þreytulegir. Söguþráðurinn varð óraunverulegur og eiginlega óspennandi, allt að því fjarstæðukenndur. Þetta sást einna best í síðustu mynd, Die Another Day, árið 2002, sem fór eiginlega skrefið langt inn í óraunveruleika og fjarstæðukenndan grunn. Ekki bjartasta stund James Bond það.

Daniel Craig er nú orðinn James Bond í stað Pierce Brosnan. Valið á Craig var gríðarlega umdeilt og aðdáendun myndanna um allan heim var skapi næst að sniðganga hann í hlutverkinu. Efasemdarraddirnar dempuðust þegar að trailerinn kom fyrir sjónir almennings og þessi mynd slekkur allar efasemdir að fullu. Mér finnst þetta besta Bond-myndin í tæpa fjóra áratugi, það er mjög einfalt mál. Aðeins allra fyrstu myndirnar standast þessari snúning. Það mun ekkert breyta þeirri afstöðu minni að grunnur Bond sé byggður á persónu Sir Sean Connery í hlutverkinu. Þar liggur grunnur alls þess sem síðar kom. Það er kristaltært alveg í mínum huga.

Mínar uppáhaldsmyndir í þessari seríu eru og hafa verið From Russia with Love og Goldfinger. Auk þeirra stendur On Her Majesty´s Secret Service. Fyrir nokkrum vikum hefði mér sennilega varla órað fyrir að ég myndi segja að Daniel Craig myndi toppa bæði Roger Moore og Pierce Brosnan í hlutverkinu en sú er nú orðin raunin. Mér finnst Craig flottur í túlkun sinni. Hann færir okkur kærkomið fortíðarskot inn í heim James Bond. Það var sú hlið sem var að mestu horfin sem birtist okkur aftur hér. Mér fannst þetta stórfengleg mynd að öllu leyti. Sem mikill Bond-áhugamaður er ég því alsæll með allar hliðar myndarinnar. Það er engin feilnóta slegin í allri myndinni.

Það er enginn vafi í huga neins að Daniel Craig er kominn til að vera í hlutverki James Bond. Hann hefur endurbyggt arfleifð fallegasta hluta þessarar kvikmyndaraðar og gefið okkur heilsteyptan grundvöll í persónuna. Það er mjög mikið gleðiefni. Ég verð þó að viðurkenna að ég sé eftir Pierce Brosnan úr hlutverki James Bond. Mér fannst hann standa sig vel, en það sem klikkaði undir lokin á hans tíma í hlutverkinu var aðbúnaðurinn utan um allan pakkann. Handritin voru afspyrnuslæm og gervihliðin tók öll völd umfram það sem eðlilegt var. Því fór sem fór. En ég sé eftir Brosnan. En Craig tekur við af miklum krafti og hann lofar svo sannarlega góðu.

Í heildina vonast ég eftir jafn góðu í næstu myndum og var í Casino Royale. Ég skemmti mér í gærkvöldi og horfði á hina gömlu Casino Royale frá 1967, með Peter Sellers, David Niven og Woody Allen. Skemmtilega steikt mynd að öllu leyti. Gaman að sjá hana áður en skrifað er um Casino Royale anno 2006. Þessar myndir eiga fátt sameiginlegt nema að þungamiðja þeirra beggja er James Bond. Skemmtilega ólíkar myndir, báðar ómissandi á sinn skemmtilega hátt. Ég ætla nú næstu vikurnar að leggjast aftur yfir James Bond-safnið mitt og horfa á bestu myndirnar og upplifa þær aftur í ró og næði desember-mánaðar. Kærkomið það.

En Casino Royale byggir upp aftur grunn þess besta sem hefur einkennt James Bond-seríuna og við höldum aftur til upphafsins með stæl. Back to basics - það líkar mér. Sem Bond-fíkill segi ég og skrifa; meira svona!

mbl.is Roger Moore leikur í íslenskri auglýsingu á vegum UNICEF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Sammála.  Þetta varð betra en ég þorði að vona og það kom inn meiri kuldi (Coolness) nú en verið hefur lengi

Craig var góður og já þeta var bara vonum framar..

Eiður Ragnarsson, 28.11.2006 kl. 18:40

2 Smámynd: Jón Agnar Ólason

Ég hef sagt það allan tímann - frammistaða Craig, og tak hans á hlutverkinu um ókomin ár, markar upphafið að heimsyfirráðum okkar ljóshærða fólksins. Engum var það kærkomnara en undirrituðum að ljóshærður Bond skyldi standa sig svona líka sómasamlega.

Kv, James Blond. 

Jón Agnar Ólason, 28.11.2006 kl. 21:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband