Færsluflokkur: Sjónvarp

Ed Bradley látinn

Ed Bradley Ed Bradley, einn virtasti fréttamaður í bandarísku sjónvarpi, lést í dag úr hvítblæði, 65 ára að aldri. Bradley vann í 26 ár, eða frá árinu 1980, sem einn af þáttastjórnendum fréttaskýringaþáttarins 60 minutes á CBS. Er það að mínu mati besti fréttaskýringaþáttur sem völ er á í sjónvarpi. Bradley er margverðlaunaður sem fréttamaður, hlaut t.d. 19 Emmy-verðlaun, fyrir störf sín þar. Glæsilegur ferill að baki.

Þetta voru nokkuð óvæntar fréttir, enda hafði lítið verið fjallað um að Bradley væri veikur. Það er sjónarsviptir af Bradley fyrir CBS-sjónvarpsstöðina og verður fróðlegt að sjá hver muni taka sess hans í þessum virta fréttaskýringarþætti. Það var Bradley sem kom til Íslands fyrir nokkrum árum og gerði fréttaskýringu fyrir 60 mínútur um Íslenska erfðagreiningu og stöðu rannsókna á vegum fyrirtækisins og ræddi þá m.a. við Kára Stefánsson.

Umfjöllun CBS um andlát Ed Bradley

mbl.is Fréttamaðurinn Ed Bradley látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stöð 2 20 ára

Stöð 2

Í dag eru 20 ár frá því að Stöð 2 hóf útsendingar. Stöð 2 hefur fyrir löngu markað sér sess í sjónvarpssögu landsins. Hún var fyrsta einkarekna sjónvarpsstöðin sem hóf útsendingar hérlendis. Stöð 2 hóf útsendingar að kvöldi fimmtudagsins 9. október 1986 með ávarpi sjónvarpsstjórans, Jóns Óttars Ragnarssonar. Ávarpið fór út hljóðlaust og tæknibilanir hrjáðu stöðina í fyrstu og t.d. varð fyrstu tvær vikurnar að taka upp fréttatímann fyrirfram til að sýna á stöðinni. Á fyrsta útsendingardeginum kom Ronald Reagan, forseti Bandaríkjanna, til landsins á leiðtogafund sinn með Mikhail Gorbachev, leiðtoga Sovétríkjanna, sem stóð í Reykjavík dagana 11. og 12. október 1986.

Þó að tæknibilanir og erfiðleikar hafi gert það að verkum að stöðin gat ekki fjallað um leiðtogafundinn með viðunandi hætti varð það fall í raun fararheill. Stöðin var stofnuð í upphafi af Jóni Óttari, Ólafi Jónssyni og Hans Kristjáni Árnasyni. Djörfung þeirra og ákveðni reif stöðina upp fyrsta og í raun erfiðasta hjallann. Þeir lögðu út í mikla innlenda dagskrárgerð og voru menn framkvæmda og krafts í forystu Stöðvar 2. Miklir fjárhagserfiðleikar á fyrstu árunum leiddu að lokum til þess að þeir misstu yfirstjórnina úr sínum höndum árið 1990 og nýjir fjárfestar tóku yfir stjórn Stöðvar 2. Þó er það öllum ljóst að án krafts Jóns Óttars og Hans Kristjáns hefði stöðin aldrei orðið eitt né neitt.

Í 55 ár var einkaaðilum bannað að reka ljósvakamiðla. Í verkfalli opinberra starfsmanna árið 1984 lamaðist starfsemi Ríkisútvarpsins. Leiddi það til endurskoðunar á útvarpslögum undir forystu Ragnhildar Helgadóttur, menntamálaráðherra, í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Ný útvarpslög sem heimiluðu einkaaðilum að reka ljósvakamiðla var samþykkt í júní 1985. Bylgjan hóf fyrst einkarekinna útvarpsstöðva útsendingar hérlendis í ágúst 1986. Hugmyndin á bakvið Stöð 2 var vissulega metin djörf á sínum tíma. Vissulega voru rekstrarerfiðleikar lengi meginstef í sögu Stöðvar 2, en víst er að enginn hefði viljað vera án þeirra þáttaskila sem stöðin markaði.

Á 20 árum hefur Stöð 2 sannað fyrir okkur öllum mikilvægi tilveru sinnar svo um munar. Stofnun hennar markaði mikil þáttaskil í fjölmiðlasögu landsins. Það er því svo sannarlega rétt að óska starfsmönnum og eigendum Stöðvar 2 til hamingju með daginn. Stöð 2 gegnir enn gríðarlega mikilvægu hlutverki í frjálsri fjölmiðlum. Hún varð fyrst sjónvarpsstöðvanna sem til urðu eftir að ríkiseinokunin var afnumin og vegna þess er hún okkur frelsisunnendum og hægrimönnum svo kær. Megi hún lengi lifa.


Glæsileg afmælisveisla Sjónvarpsins

Sjónvarpið

Í gær voru 40 ár liðin frá fyrsta útsendingarkvöldi Ríkissjónvarpsins. 30. september 1966 hófust útsendingar með ávarpi Vilhjálms Þ. Gíslasonar, útvarpsstjóra, skemmti- og afþreyingarþáttum, að ógleymdum blaðamannafundi þar sem dr. Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sat fyrir svörum. Halldór Kiljan Laxness, skáld, las svo upp úr bók sinni, Paradísarheimt. Fyrsti framhaldsþátturinn í Sjónvarpinu var á dagskrá það kvöld, en það var Dýrlingurinn, með Roger Moore, sem síðar lék njósnara hennar hátignar, sjálfan James Bond, í aðalhlutverki. Mun Savanna-tríóið hafa verið með fyrsta skemmtiþáttinn. Merkileg dagskrá.

Að baki er 40 ára eftirminnileg og glæsileg saga. Hvað svo sem segja má rekstrarfyrirkomulag þessarar stofnunar, sem ég hef verið allnokkuð ósáttur við í gegnum árin, má þó fullyrða að þessi stofnun hefur átt merka sögu og glæsilega hápunkta sem vert er að minnast. Það hefur t.d. verið gaman að fylgjast með eftirminnilegum hápunktum úr þessari sögu í góðum, en alltof stuttum, upprifjunarþáttum síðustu vikurnar. Efnið sem Sjónvarpið á í sínum fórum eru menningargersemar sem standa verður vörð um. Það mætti reyndar endursýna meira af íslenska leikna efninu, sem eru svo sannarlega algjörar perlur.

Afmælinu var fagnað með glæsilegri afmælisveislu í útsendingu í útvarpshúsinu við Efstaleiti í gærkvöldi. Ég missti af útsendingunni í gær en horfði á hana nú eftir hádegið í endursýningu. Þetta var alveg yndisleg útsending og ánægjulegt að fylgjast með. Vel stýrt af Evu Maríu, Þórhalli, Sigmari, Jóhönnu og Ragnhildi Steinunni. Innilega til hamingju með afmælið Sjónvarpsfólk. Að baki er merk saga og íslenskt þjóðlíf hefði orðið miklu fátækara án Sjónvarpsins. Það er því ástæða til að gleðjast á svona tímamótum og minnast þess sem eftir stendur. Það er rík og eftirminnileg saga, tel ég.


Hemmi Gunn í toppformi

Hemmi Gunn

Hemmi Gunn var svo sannarlega í toppformi í gærkvöldi þegar að hann fór af stað með nýja þáttinn sinn, Í sjöunda himni, sem er sendur út beint á NASA. Hemmi var ókrýndur konungur íslenskra skemmtiþátta í áraraðir og hélt úti vinsælasta sjónvarpsþætti íslenskrar sjónvarpssögu, Á tali með Hemma Gunn, í rúman áratug. Allan þann tíma var hann vinsælasti spjall- og skemmtiþátturinn í íslensku sjónvarpi og sló sífellt áhorfsmet.

Þátturinn í gær var líflegur og hress. Góðir gestir og skemmtilegt andrúmsloft. Flott að sjá Magna og Dilönu taka þarna lagið saman. Björgvin Halldórsson var í aðalviðtali þáttarins og sýnt var smábrot af tónleikum hans með Sinfó um síðustu helgi. Hafa verið sannkallaðir dúndurtónleikar. Eins og það getur best orðið í íslensku sjónvarpi. Svo var mjög gaman að sjá þrjá söngvara ólíks tímabils syngja saman syrpu, þá Magna, Björgvin og sjálfan meistarann Ragga Bjarna, söngvara allra kynslóða.

Kapphlaup stjórnmálaleiðtoganna var þó alveg frábært. Steingrímur J. sigraði og Geir tókst að verða á undan ISG. Jón Sigurðsson var alveg ótrúlega skammt frá því að láta sjálfan Guðjón Arnar slá sér við en hann náði að bjarga sér undan því. Í framhaldinu urðu Steingrímur og Guðjón að flytja mínútuávörp. Það var ekki umhverfisvernd eða kvótakerfið sem urðu umræðuefnin, heldur ást og daður. Fyndið og skemmtilegt.

En já, Hemmi fer vel af stað. Notalegt og gott fimmtudagskvöld, efast ekki um að þau verði öll svona undir forystu Hemma Gunn, sem enn og aftur sannar að hann er besti gleðigjafinn í íslensku sjónvarpi. Allavega, fyrsti þátturinn var hrein snilld og gaman að horfa á hann. Meira af svona, takk!


The Sopranos aftur á skjáinn

The Sopranos

Mögnuð stund í Sjónvarpinu í kvöld! Soprano-fjölskyldan aftur komin á skjáinn, eftir alltof langt hlé. Alveg hreint magnað. Ég er svo sannarlega sáttur. Hafa verið uppáhaldsþættirnir mínir um árabil. Sannkölluð snilld í sögu bandarískra sjónvarpsþátta. Klassaleikur og flott handrit - ekki hægt að hafa það betra. Það verða topp fimmtudagskvöld fyrir framan Sjónvarpið í vetur. Þetta verða þrususögulok sem verða hjá þessari fjölskyldu, enda líður nú svo sannarlega að sögulokum bráðlega. En já, svo sannarlega algjör eðall þessir þættir.

Farið á mikilli hraðferð yfir merka sögu

Sjónvarpið

Á laugardag eru 40 ár liðin frá fyrsta útsendingardegi Ríkissjónvarpsins. Því mun verða fagnað um helgina með veglegri afmælisútsendingu. Allan þennan mánuð höfum við hinsvegar fengið tækifæri til að líta á merka sögu Sjónvarpsins þessi 40 ár. Sýndir hafa verið þættir með merkum klippum, t.d. verið rakin saga tónlistar, leikrita, gamanefnis, fræðsluefnis og svona mætti lengi telja. Allir hafa þessir þættir verið virkilega áhugaverðir og ég hef passað mig á því að reyna að sjá þá alla.

Hinsvegar hefur gallinn verið sá að þessir þættir hafa verið dreifðir út um allt í kvölddagskránni og þeir eru alveg skelfilega stuttir. Það er farið yfir merk atriði á hundavaði á 10 mínútum. Sumt sem er merkilegra en annað verður stutt klippa í stórum haug merks efnis. Þetta er frekar snautlegt og undarlegt að Ríkissjónvarpið geti ekki haft veglegri samantekt um allt það góða sjónvarpsefni sem það á í sínum fórum eftir þessa löngu sögu sem að baki er.

Til dæmis fannst mér þetta sérstaklega snautlegt þegar að farið var yfir merkilegt fræðslu- og menningarefni að þar var klippt hratt á milli, ólíku efni blandað saman og farið yfir þetta með alveg ótrúlegum hraða. Í nokkrum þáttum var svo farið yfir klippur úr gömlum áramótaskaupum. Það var virkilega áhugavert en sama gerðist með það og í þessu. Reyndar var farið betur yfir sögu skaupanna en sjálfs menningarefnisins. Reyndar verður aldrei sagt að Sjónvarpið hafi staðið sig vel í menningarefninu.

Hefði Sjónvarpið viljað minnast sögu sinnar með almennilegum hætti hefði þar verið allt árið lagt undir og farið skilmerkilega og ítarlega yfir þessa merku sögu. Þessi vinnubrögð að demba í okkur tíu mínútna hraðklipptu efni er frekar dapurt og ber hvorki vitni fágun né virðingu fyrir því merka sögulega efni í sjónvarpssögu landsins sem það óneitanlega er.

Slökknar á lífi fréttastöðvarinnar NFS

NFS

Sem 110% fréttafíkill verð ég að viðurkenna það fúslega að ég sé verulega eftir NFS, fréttastöð 365-miðla. Fjölmiðlalitrófið missir vissan glampa núna þegar að slökknar yfir tilveru hennar. Það var vissulega nokkuð merkilegt að sjá það þegar að Sigmundur Ernir Rúnarsson og Edda Andrésdóttir kvöddu í gærkvöldi NFS. Það var greinilega erfið stund fyrir þau, sérstaklega auðvitað Sigmund Erni sem fréttastjórnanda stöðvarinnar alla þá tíu mánuði sem hún var í loftinu. Það var þungt yfir fréttaþulunum og það sást vel á bakgrunninum þar sem ljósin á fréttastofunni í Skaftahlíðinni höfðu verið dempuð. Andrúmsloftið var lævi þrungið og engin gleði á andlitum fréttaþulanna.

Á skjánum hjá mér er svart þar sem áður var NFS. Lífið hefur slökknað þar yfir í orðsins fyllstu merkingu. Það verður að segjast alveg eins og er að skaði er af missi þessarar stöðvar. En þetta er tilraun sem var reynd og hún mistókst í þessari mynd. Það er hin kalda niðurstaða. Við sem erum fréttafíklar og njótum ítarlegra fréttaskýringa og diskúteringa um stjórnmál, þjóðmál í öllum myndum, söknum þessa góða kosts í fréttaumfjöllun. Það er bara þannig. En kannski var það alla tíð óhófleg bjartsýni að halda það að fréttastöð geti lifað á Íslandi í baráttu við allt hitt afþreyingarefnið, snöggsoðnu tónlistarmyndböndin og annað af þeim kalíber.

Ég vorkenni öllum þeim fjölda eðalfólks sem fengu uppsagnarbréf í gær og misstu starf sitt. Ég vil þó segja við þetta fólk að ég var einn þeirra sem hafði gaman af NFS og ég mun sakna stöðvarinnar. Ég mun sakna þess sem þau gerðu á NFS. Við sem dýrkum fréttir og kjarnann í fréttaumfjöllun söknum þess að geta ekki stillt á hana til að sjá eitthvað merkilegt gerast í beinni. Það verður reyndar merkilegt að sjá hvað tekur við. Greinilegt er að fréttir verða bara sagðar á Stöð 2 hér eftir inni í Íslandi í bítið, á hádegi og svo á slaginu 18:30 í slottinu þar sem kvöldfréttatími NFS var áður þar sem fréttapakki dagsins var áður zoom-eraður saman.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég dáðist að Lóu Aldísardóttur og félögum hennar sem stóðu vaktina síðustu klukkutíma NFS. Þau stóðu sig ótrúlega vel miðað við aðstæður. Það hefði verið hreinlegast að loka stöðinni strax kl. 17:00. Sérstaklega fannst mér átakanlegast að sjá fimmfréttatímann. Þar var alvaran yfir öllu og í bakgrunninum voru fréttamennirnir og tilvera þeirra á þessum svarta föstudegi þeirra. Allt var þetta í beinni - þetta var frétt dagsins og hún gerðist á fréttastofunni. Svona getur oft tilveran verið hörð og það er svosem engin ný frétt að fjölmiðlaheimurinn er ekki tryggasta atvinnugrein sögunnar.

En já þessi tilraun mistókst. Verður hún reynd aftur? Tæplega, og þó, maður skyldi svosem aldrei segja aldrei. Reyndar verður fróðlegt að fylgjast nú með því sem við tekur. En já, ég mun sakna NFS. Ég væri varla heiðarlegur við sjálfan mig og fréttanefinu mínu ef ég segði þetta ekki. Þeim sem voru á NFS óska ég góðs og vona að þau eflist við þennan mikla mótvind. En já það er svo sannarlega svart á NFS núna. Over and out!

mbl.is Tuttugu sagt upp hjá NFS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband