15.6.2007 | 00:18
Lánleysi KR heldur áfram - sex leikir án sigurs

Það hlýtur að blasa við að einhver tíðindi eru væntanleg úr herbúðum KR. Staða liðsins er auðvitað langt undir öllum væntingum. Lið KR er stjörnum prýtt en samt sem áður er hlutskipti þess hreint og klárt botnskrap. Staða Teits Þórðarsonar telst varla góð og þeir eru varla margir sem veðja peningunum sínum á það að hann klári tímabilið með KR úr því sem komið er málum.
KR hefur alla tíð verið stórveldi í íslenskri knattspyrnu. Þrátt fyrir upp og ofan gengi á tímabilinu 1968-1999, er liðið var án Íslandsmeistaratitils, er staðan sem nú blasir við að verða sögulega eftirminnileg sem hin versta. Sumarið 2001 var álíka vandræðagangur yfir liðinu og þá fór liðið í gegnum allsherjar uppstokkun á ýmsum sviðum til að bæta úr.
Það yrðu varla stór tíðindi úr þessu þó að verulega yrði hrist til eftir þessa martraðarbyrjun gamla vesturbæjarveldisins.
![]() |
KR enn án sigurs eftir tap gegn FH |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.6.2007 | 23:35
Stjórnleysi og algjör glundroði í Palestínu

Það er mikil hætta á því að Hamas komi á íslömsku ríki á þessu svæði. Fari svo er útséð með að nokkuð vestrænt ríki vilji ljá máls á að tala máli Palestínu. Þegar hefur Evrópusambandið afturkallað aðstoð við svæðið og Bandaríkjastjórn mun að sjálfsögðu styðja Mahmoud Abbas út í rauðan dauðann. Hamas er fylking af því tagi sem ekki er hægt að styðja og viðbúið að þau ríki sem hafa ljáð máls á að styðja Palestínu hrökklist frá verði þarna íslamskt ríki og ofbeldið grasseri af því tagi sem verið hefur.
Það verður fróðlegt að sjá hvað tekur við. Það sem eftir er af palestínsku heimastjórninni er þó ekki beysið og vandséð hvernig þar verði komið á stjórntæku ástandi í þessum glundroða öllum. Þarna eru svo sannarlega krossgötur nú. Arafat hlýtur að snúa sér við í gröf sinni á Vesturbakkanum við þessi örlagaskil sem eru að eiga sér stað.
![]() |
Hamas lýsir yfir fullkomnum yfirráðum á Gasa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.6.2007 | 19:33
Er Eiður Smári að fara til Manchester United?

Ekki kvarta ég ef Eiður endar hjá Manchester United. Svo mikið er nú víst.
![]() |
Fullyrt að viðræður Barcelona og Man.Utd um Eið séu hafnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.6.2007 | 18:35
Hvöss skot ganga á milli Gunnars og Reynis

Ef marka má það sem Reynir sagði í dag er stefnt að frekari umfjöllun um Gunnar á síðum blaðanna. Er þar t.d. greinilega í pípunum að birta fleiri myndir af Gunnari á nektardansstaðnum Goldfinger í Kópavogi og fara yfir pólitísk verk hans á bæjarstjórastóli og tengsl hans við verktakabransann. Reynir stendur við alla umfjöllunina og svarar kærutali Gunnars með því að segjast ætla að gjalda líku líkt.
Ég veit eiginlega varla hvað skal halda um þetta mál. Mér finnst þó alveg ljóst að ekki er viðeigandi að bæjarstjóri heimsæki skemmtistað af þessu tagi og get ekki ímyndað mér annað en að efasemdir hafi vaknað um pólitíska stöðu hans vegna málsins. En sé ekkert að fela í málinu er eðlilegast að opna það allt og fara með þessi efni fyrir dómstóla. Reyndar er mjög athyglisvert að bæjarstjórinn svari ekki gagnrýni fjölmiðla efnislega.
Telji hann umfjöllunina aðför að sér er eina rétta leiðin að fara dómstólaleiðina með allar hliðar þess. Það er nauðsynlegt til að taka það fyrir með afgerandi hætti og kanna stöðu umfjöllunarinnar. Þó finnst mér ummæli Gunnars sem Reynir bendir á ganga frekar langt og úr gæti orðið heljarinnar darraðardans.
![]() |
Gunnar í mál við Mannlíf og Ísafold |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.6.2007 | 15:58
Gunnar I. Birgisson kærir Mannlíf og Ísafold

Embættisathafnir Gunnars eru í kastljósinu í Mannlífi sem nýlega er komið út. Þar er vikið að því sem blaðið telur spillingarmál og lóðabrask og ekki síður verktakatengslum Gunnars, málinu tengdu Goldfinger og síðast en ekki síst sviptir blaðið hulunni af því sem það telur ástæður þess að Gunnar varð ekki ráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, ölvunarakstri. Mikla athygli vakti árið 2003 þegar að Gunnar varð ekki ráðherra, heldur Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sem var fjórða á lista flokksins í Kraganum og löngum hefur ástæðum þess verið velt fyrir sér.
Gunnar hefur auðvitað sinn rétt að verja heiður sinn og eðlilegt að hann geri það telji hann óeðlilega að sér sótt með þessum skrifum. Það verður fróðlegt að fylgjast með næstu skrefum þessa merkilega stríðs Ísafoldar/Mannlífs og Gunnars Inga Birgissonar, hins mikla pólitíska risa í Kópavogi, sem þar hefur ríkt yfir bæjarmálunum í hartnær tvo áratugi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.6.2007 | 15:08
Kurt Waldheim látinn

Waldheim varð ungur diplómat, að því er segja má fljótlega eftir seinni heimsstyrjöldina. Hann vann sig sífellt upp og var tilnefndur framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna árið 1972 í stað U Thant. Áður hafði hann þó tapað forsetakosningum gegn Franz Jonas, sitjandi forseta, í Austurríki árið 1971. Waldheim sat í forsæti hjá SÞ í New York í áratug, allt til ársloka 1981. Hann hætti þó ekki glaður á brá, enda sóttist hann eftir þriðja kjörtímabilinu. Kína beitti neitunarvaldi gegn tilnefningu hans. Ferlinum lauk því þar með snubbóttum hætti.
Waldheim sóttist aftur eftir forsetaembættinu í Austurríki í kosningum sumarið 1986 þegar að Rudolf Kirchschläger, eftirmaður Franz Jonas, lét af embætti. Þá náði hann kjöri í embættið, orðinn 68 ára gamall. Í aðdraganda kosninganna komu fram uppljóstranir í austurrísku blaði um að Waldheim hefði verið tengdur inn í innstu kjarna nasista í Þýskalandi á stríðsárunum. Leyndarhjúpur hafði alltaf vofað yfir fortíð hans, sérstaklega á stríðsárunum í aðdraganda diplómatsáranna, og var dulúðinni stórlega aflétt með þeirri umfjöllun. Margir töldu að þær uppljóstranir myndu koma í veg fyrir kjör hans. Svo fór ekki. Hann sigraði í kosningunum.
En með forsetakjörinu var staða hans í raun orðin afleit og ímynd hans sem farsæls diplómats á SÞ-árunum skaddaðist nær algjörlega. Á sex ára forsetaferli sínum var Waldheim litinn hornauga og var að mestu einangraður í samskiptum við lykilríki í Evrópu og Bandaríkin sem vildu lítið saman við Waldheim sælda eftir það. Waldheim fór aldrei í opinbera heimsókn til Bandaríkjanna eða helstu ríkjanna í Evrópu í ljósi þessa og var því nær algjörlega í kuldanum. Samskipti Austurríkis við helstu ríki heimsins voru því í frostmarki þau ár sem hann sat á forsetastóli. Waldheim lét af embætti sumarið 1992 og varð Thomas Klestil eftirmaður hans.
Waldheim ritaði bókina In the Eye of the Storm. Þá bók hef ég lesið. Það er að mörgu leyti merkileg lesning. Mikla athygli vekur þó að hann víkur lítið sem ekkert að snubbóttum forsetaferlinum og einblínir þess þá frekar á sælutímann sinn í New York sem áhrifamaður stórrar alþjóðastofnunar. Síðar ritaði hann frekar um helstu lykilmálin undir lok starfsferilsins og gerði að mestu leyti upp við skuggana.
Waldheim verður fyrst og fremst minnst fyrir að vera einlægur og áberandi diplómat, en um leið fyrir skuggana sem fylgdu honum eftir sem maran mikla eftir að hann náði takmarki ævinnar, að hljóta forsetaembættið í Austurríki. Það valdaskeið var pínleg skelfing fyrir hann og hann naut sín aldrei til fulls í þeirri spennitreyju sem fortíðin varð honum að lokum.
![]() |
Kurt Waldheim látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.6.2007 | 13:42
Sumarþingi lokið - nýjir pólitískir pólar myndast

Sumarþingi lauk í gær. Þetta var óvenjulangt þing að sumri, enda mörg brýn mál verið sett á dagskrá og uppstokkun gerð á nefndum þingsins og ráðuneytum. Auk þess var farið yfir fjölda hitamála í kjölfar kosninganna. Þetta var auðvitað lærdómsríkt þing í þeim skilningi að þar hafa myndast nýjir pólitískir pólar og mikil uppstokkun orðið með stjórnarskiptum.
Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er mjög voldugur, 43 þingsæti. Að sama skapi er stjórnarandstaðan mjög veik með aðeins 20 þingsæti. Hún getur ekki stöðvað að stjórnarflokkarnir veiti afbrigði við að taka mál á dagskrá og hagað þinginu að sinni vild. Að auki er það svo að mikil gjá er á milli stærstu stjórnarandstöðuflokkanna sem hafa tekist harkalega á árum saman og eru að venjast því að vera komin á sama bátinn.
Þetta var stutt en snarpt þing. Nýjir pólar myndast, gamlir fjandvinir eru komin í stjórnarsamstarf og aðrir skipa minnihlutann og sumir eru að venjast því að vera óbreyttir eftir að hafa verið í ríkisstjórn árum saman og sumir að venjast stjórnarandstöðuvist í fyrsta skiptið á löngum þingferli. Þetta hefur verið umbreytingaskeið. Stjórnarandstaðan er vissulega mjög vængbrotin og hún virðist eiga erfitt með að fóta sig á svellinu. Eflaust mun það takast, eins og sést af nýlegum faðmlögum fjandvina á borð við Steingrím J. og Valgerði Sverrisdóttur.
Að sama skapi er athyglisvert að sjá Björn Bjarnason og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem samherja í ríkisstjórn, ekki aðeins hlið við hlið í samstarfi heldur með myndrænum og athyglisverðum hætti sem sessunautar í þingsal og á fundum ríkisstjórnar. Þar verða þau sessunautar meðan að bæði eru saman í ríkisstjórn, enda hún leiðtogi annars stjórnarflokksins og hann sá ráðherra sem lengst hefur setið í ríkisstjórn, rúm ellefu ár. Þetta er samstarf sem verður athyglisvert að fylgjast með svo sannarlega. Auk þessa verður sérstaklega athyglisvert að fylgjast með því hversu vel Geir og Ingibjörgu muni ganga að eiga farsælt samstarf og semja sín á milli um lykilmál.
Þingmeirihlutinn er svo stór að menn geta leyft sér að tala frjálslega og höggva jafnvel að næsta manni, þingmenn geta strítt ráðherrum með áberandi hætti. Hinn orðvitri Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, orðaði þetta svo skemmtilega í gær að þingmenn væru með handsprengjur í vösum og biðu færis að kasta þeim á ráðherrana. Alltaf gaman að Guðna. Reyndar finnst mér Guðni vera einmitt í essinu sínu núna, ég held að stjórnarandstöðuvistin muni gera hann tvíefldan á meðan að Steingrímur J. virðist vera að þorna upp í gremju, enda ekki furða fyrir mann eins og hann sem hefur hokrast í andstöðeymd í sextán ár samfellt.
Steingrímur J. var reyndar kostulegur í gær þegar að hann talaði um ríkisstjórn hins ófullgerða stjórnarsáttmála. Gremja Steingríms J. hefur ekki farið framhjá neinum eftir eldmessu hans yfir Samfylkingunni við stefnuræðu forsætisráðherra, sem missti gjörsamlega marks. Hann trompaðist á vondum tíma held ég að flestir séu sammála um. Í stað þess að byggja upp sína framtíðarsýn og tala málefnalega um lykilmál kjörtímabilsins var hann eins og maður sem upplifir makann kominn í fang annars manns og er að bogna af gremju og svekkelsi. Þetta var dapurt móment á ferli þess þaulreynda þingmanns.
Framundan er hitavetur í íslenskum stjórnmálum. Oftast nær er fyrsti þingvetur nýs kjörtímabils rólegheitatímabil, enda engar kosningar þá í augsýn nema mögulega forsetakosningar. Nú stefnir í átakatíma. Stjórnin er svo voldug að hún hefur þingið algjörlega í hendi sér. Best sást það í gær með kosningum í landskjörstjórn og kjörstjórnir í kjördæmum, en af fimm sætum hefur stjórnarmeirihlutinn fjögur til ráðstöfunar. Minnihlutinn er því að vakna upp við hlutskipti sitt. Samt sem áður mun hann bíta vel frá sér þó hann sé í eðli sínu veikur. Ég held að veturinn verði mjög eldfimur og hressandi.
Við öll sem fylgjumst með stjórnmálum vonumst auðvitað eftir því, enda er ekkert gaman að stjórnmálum ef stjórnarandstaðan er veik og máttlaus og hún verður því að stíga vel í lappirnar og sanna sig. Þar þarf að yfirvinna gremju milli aðila og fróðlegt að sjá hvernig það gengur. Þetta verður spennandi kjörtímabil - áhugavert að sjá nýju pólana myndast betur og vinna saman næsta vetur. Þá fyrst reynir á stöðu mála í raun.
![]() |
Sumarþingi slitið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.6.2007 | 00:54
Er Madeleine McCann látin?

Madeleine var numin á brott af hótelherbergi en foreldrar hennar höfðu skilið hana þar eftir á meðan þau fóru og fengu sér kvöldverð. Málið allt er hið undarlegasta og hefur það verið miðpunktur fjölmiðlaathygli af skiljanlegum ástæðum allt frá fyrsta degi. Ljóst er að portúgalska lögreglan vann málið allt of hægt í upphafi og klúðraði væntanlega rannsókninni á upphafsstigi. Sérstaklega var merkilegt að ekki var kannað betur er bútur úr barnsflík fannst í upphafi málsins skammt frá hótelinu.
McCann-hjónin hljóta að hafa upplifað hreint helvíti allt frá deginum sem dóttir þeirra hvarf. Þau munu eflaust alla tíð naga sig af samviskubiti sé það svo að Madeleine sé látin og ábendingarnar sem eru í fréttum nú séu réttar. Það sem hefur vakið mesta athygli mína er að þessi ábending og bréfið sem um er rætt er sláandi líkt því sem barst í belgísku morðmáli í fyrra þar sem bent var á staðinn þar sem lík tveggja stúlkna fundust.
Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist næstu dagana. Þetta mál hefur verið í miðpunkti breskra fjölmiðla og víða um heim undanfarna daga. Það verður fylgst með því sem gerist í nágrenni Praia de Luz næstu dagana.
![]() |
Nýjar vísbendingar um hvar Madeleine er að finna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 01:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.6.2007 | 20:49
Ársafmæli bæjarstjórnarmeirihlutans á Akureyri
Ár er í dag liðið frá því að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tók við völdum í bæjarstjórn Akureyrar. Samstarfið er sögulegt, enda í fyrsta skipti sem flokkarnir tóku upp samstarf. Aðeins ríkisstjórnarsamstarf flokkanna frá 24. maí 2007 er að auki til staðar á milli flokkanna. Miklar sviptingar urðu á Akureyri í bæjarstjórnarkosningum 27. maí 2006 - meirihlutinn féll og fylkingar riðluðust - það blasti við allt frá kosninganótt að um væri að ræða eina sterka samstarfshæfa mynstrið.
Miklar sviptingar hafa líka orðið á þessu fyrsta ári meirihlutasamstarfsins. Kristján Þór Júlíusson lét af embætti bæjarstjóra 9. janúar sl. Hann hafði þá verið bæjarstjóri á Akureyri síðan í júní 1998, lengst allra frá því að Helgi M. Bergs var bæjarstjóri í áratug 1976-1986. Sigrún Björk Jakobsdóttir tók við embætti bæjarstjóra og leiðtogahlutverki Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn. Hún hafði komið ný inn í bæjarstjórn í kosningunum 2002 og varð forseti bæjarstjórnar fyrir ári. Kristján Þór var mjög afgerandi leiðtogi Sjálfstæðisflokksins, leiddi flokkinn í þrem kosningum og hafði afgerandi umboð úr prófkjöri skömmu fyrir kosningarnar. Brotthvarf hans markaði aðra ásýnd á bæjarmálin.
Brotthvarf Kristjáns Þórs af bæjarstjórastóli eru hiklaust stærstu pólitísku tíðindi kjörtímabilsins það sem af er. Hann yfirgaf þó ekki bæjarmálin, heldur varð forseti bæjarstjórnar og hefur nýlega verið endurkjörinn forseti til næsta árs. Hann er þó á útleið úr bæjarmálunum og mun ekki gefa kost á sér í næstu kosningum, enda orðinn alþingismaður og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Það varð strax ljóst við úrslit kosninganna í fyrra og samninga meirihlutaflokkanna að Kristján Þór væri á útleið. Fylgi flokksins féll um nokkur prósentustig í kosningunum í fyrra og fjórði maðurinn, Hjalti Jón Sveinsson, var mjög tæpur í sessi.
Samningar meirihlutaflokkanna gerðu ráð fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn hefði embætti bæjarstjóra fyrstu þrjú ár kjörtímabilsins en Samfylkingin fjórða og síðasta ár kjörtímabilsins. Hermann Jón Tómasson, leiðtogi Samfylkingarinnar, verður því bæjarstjóri eftir tvö ár, í júní 2009. Það var öllum ljóst að Kristján Þór Júlíusson yrði varla formaður bæjarráðs í bæjarstjóratíð Hermanns Jóns, svo að örlög hans voru mjög ráðin strax þá að mínu mati. Ég gerði strax ráð fyrir því að Kristján Þór færi fram í leiðtogastól í kjördæminu við þennan samning og varð því ekki hissa á ákvörðun hans að fara fram þegar að ljóst var að Halldór Blöndal myndi hætta.
Sjálfstæðisflokkurinn hlaut ekki afgerandi umboð til að leiða bæjarmálin til fjögurra ára að mínu mati. Það voru að mínu mati fjöldamargar ástæður sem ollu því að flokkurinn hlaut ekki betra brautargengi og hann var að mínu mati stórlega lamaður að mörgu leyti eftir kosningar þó að hann héldi naumlega haus, enda mjög tæpt með fjórða mann og skammt á milli feigs og ófeigs í meirihlutaviðræðum. Vistaskipti Kristjáns Þórs eftir kosningarnar var eðlilegt skref að mínu mati. Það var bæði honum og Sjálfstæðisflokknum hér á Akureyri hollt að stokka upp stöðuna. Ég tel að það sé okkur mikilvægt að Akureyringur leiði kjördæmastarfið. Þar reynir nú á hann.
Sigrún Björk Jakobsdóttir tók við bæjarstjóraembættinu í merkilegri stöðu. Hún var fyrsti kvenkyns bæjarstjórinn hér og markaði skref í þeim efnum, sem skipta máli fyrir okkur í flokknum. Hinsvegar er öllum ljóst að hún er ekki að taka við fastsettu bæjarstjóraembætti. Hún hefur tímamæli fyrir framan sig og horfist í augu við það að missa bæjarstjórastólinn eftir tvö ár, sama hversu vel hún stendur sig. Samfylkingin fær stólinn á tilsettum tíma og hún verður aftur óbreyttur bæjarfulltrúi og gegnir með því formennsku í bæjarráði væntanlega síðasta árið. Það reynir mjög á hana og flokkinn í þeirri stöðu á þessu ári, eftir að hafa haft bæjarstjórastólinn í ellefu ár.
Ég hef ekki farið leynt með þá skoðun mína að þessi meirihluti hafi verið bragðdaufur og hægvirkur. Þar skiptir sköpum að aðeins tveir bæjarfulltrúar meirihlutans höfðu reynslu af því að vera aðalmenn í bæjarstjórn áður; bæjarstjórarnir Kristján og Sigrún. Hin hafa slípast misvel til og hafa verið að læra að synda úti í straumþungum sjónum. Það tekur oft á, jafnvel fyrir duglegt fólk. Það getur tekið mismikinn tíma. Sumir í þessum hópi eru misvel syntir eftir árið, sumir enn að læra tökin og enn efasemdir um hvernig að þeim takist upp. Það reynir á þetta fólk næstu þrjú árin, enda ætlast bæjarbúar til þess að þessi sterki meirihluti skili afgerandi verkum af sér.
Það er merkilegt að fylgjast með bæjarstjórnarfundum á N4. Mér finnst þeir oft mjög þunnur þrettándi og litlausir. Það er mjög hrópandi staðreynd að enginn einstaklingur undir 35 ára aldri á fast sæti í bæjarstjórn Akureyrar. Það var mjög dapurlegt að sjá í aðdraganda kosninganna fyrir ári að flokkarnir feiluðu gjörsamlega á hinum gullna séns að veita ungu fólki brautargengi til þess að fá öruggt sæti í bæjarstjórn. Sumir flokkar fólu ungu fólki hliðarsæti sem varabæjarfulltrúar, sem lítið reynir á í sviðsljósi þess sem gerist í bæjarstjórn, þar sem kastljós fjölmiðlanna er oftast til staðar. Það er afleitt að ungt fólk eigi ekki sterkari aðkomu að fronti stjórnmála hér.
Staða Sjálfstæðisflokksins á Akureyri er athyglisverð nú á þessari stundu. Bæjarstjórinn Sigrún Björk Jakobsdóttir og kjördæmaleiðtoginn Kristján Þór Júlíusson hafa sterka stöðu hér í bænum að því er virðist. Þrátt fyrir það er bæjarstjórinn að klára þriggja ára bæjarstjórnarferil sem fyrst var eyrnamerktur Kristjáni Þór og kjördæmaleiðtoginn varð hvorki ráðherra né nefndaformaður í kapal flokksins í maímánuði. Það er því ljóst að í júní 2009 hefur flokkurinn hér hvorki lykilembætti sem fylgja setu í ríkisstjórn eða því að stjórna bænum úr Ráðhúsinu, að óbreyttu.
Það eru eflaust margir hugsi yfir því, sérstaklega þeir sjálfstæðismenn sem lengst hafa unnið hér á Akureyri í flokksstarfinu og þekkja innviðina þar mest og best.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.6.2007 | 18:24
Halldór Blöndal formaður bankaráðs Seðlabankans

Halldór Blöndal lét af þingmennsku 12. maí sl. Hann sat á Alþingi 1979-2007 fyrir Sjálfstæðisflokkinn hér í Norðausturkjördæmi og Norðurlandskjördæmi eystra og var landbúnaðarráðherra 1991-1995, samgönguráðherra 1991-1999 og forseti Alþingis 1999-2005.
Það er gott að Halldór fær verkefni við hæfi nú að loknum stjórnmálaferli. Það verður eflaust auðvelt fyrir þá Davíð Oddsson og Halldór Blöndal að vinna saman innan Seðlabankans.
![]() |
Kosið í nýtt Seðlabankaráð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.6.2007 | 15:54
Vond aðkoma að sumarbústöðum
Einu sinni tók ég bústað hjá verkalýðsfélagi og kom að honum svona frekar subbalegum, þó engan veginn í eins döpru ástandi og lýst er í þessari frétt. Þetta er frekar ömurlegt, enda á maður von á að fá hreinan og góðan bústað í hendurnar og vonast til að fólk sé jafnþrifið og maður sjálfur þegar að kemur að því taka við svona bústað. En þetta er auðvitað misjafnt. En það er greinilega að það er að aukast að fólk gangi svona og svona um bústaðina. Þetta er ekki góð þróun.
![]() |
Æla, notaðir smokkar og rotnandi matarleifar tóku á móti gestum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.6.2007 | 13:36
Má nauðga 14 ára stelpu?
Þetta er reyndar ekki eina málið þessarar tegundar á síðustu vikum. Annað mál til hið minnsta sem er áþekkt þessu sem fyrr er nefnt hefur átt sér stað og hefur endað með sama hætti. Sýknað er vegna ónógra sannana þó að fyrir liggi verknaður af þessu tagi. Í báðum málum er um að ræða unga menn sem gefa engar ástæður að baki nema þá sem fyrr er nefnd, þ.e.a.s. að samræði hafi átt sér stað með vitund og vilja beggja aðila, þó vitað sé að stelpan sé varla með rænu vegna áfengisástands.
Þetta er í sjálfu sér mjög alvarlegt mál. Það er umhugsunarefni að fylgjast með hliðum þess og að sýknað sé í svona tilfellum. Mér finnst það alvarlegt að það sé haldið fram í dómskerfinu að þessar stelpur hafi viljað þetta og því eigi við svo búið að vera, málinu lokið þar með. Þetta er allavega mál sem vert er að velta fyrir sér, með tilliti til þessara dóma.
Eygló Harðardóttir, varaþingmaður, hefur ritað grein um þessi mál á vef sinn. Það eru góð skrif og ég bendi fólki eindregið á að lesa þau. Er mjög sammála skrifum hennar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.6.2007 | 11:18
Ísland skrapar botninn - Eyjólfur á að hætta
Íslenska landsliðið í knattspyrnu hefur nú fallið niður í 109. sæti á styrkleikalista FIFA. Aldrei hefur landsliðið okkar fallið neðar. Það skrapar botninn. Það er ekki beinlínis hægt að segja að þetta komi að óvörum. Liðið hefur spilað svo illa að undanförnu og er orðið svo illa farið að þetta eru engar stórfréttir í raun.
Það var með ólíkindum að sjá landsleikinn á milli Íslands og Svíþjóðar fyrir viku. Þar vorum við svo lélegir að við litum út eins og viðvaningar í knattspyrnunni. Leikurinn gegn Liechtenstein var sýnu verri, enda er það lið sem við áttum að vinna en okkur tókst ekki að leggja. Það eitt og sér er háðung fyrir okkur.
Það er augljós staðreynd að landsliðið hefur verið sífellt að slappast í þjálfaratíð Eyjólfs Sverrissonar. Hann hefur engum árangri náð með liðið eftir tæp tvö ár og ekki óeðlilegt að stór spurningamerki vofi yfir áframhaldandi þjálfaratíð hans og framtíðarsýnina sem hann er að færa liðinu. Þetta botnskrap er ólíðandi og á að leiða til uppstokkunar á liðinu. Það er fullreynt með þessa framtíðarsýn.
Ég er þeirrar skoðunar að þjálfarinn verði að hætta og fæ ekki séð að það sé hægt að veita honum fleiri tækifæri með liðið. Botnskrapið er orðið of áberandi til að veitt séu fleiri tækifæri.
![]() |
Ísland í 109. sæti á FIFA listanum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
13.6.2007 | 00:45
Falleg sýn af Íslandi utan úr geimnum

Man annars alltaf vel eftir því hér í denn tid þegar að veðurfréttamenn hjá Sjónvarpinu sýndu svarthvítar gervitunglamyndir. Þetta var á þeim tímum þegar að veðurkortin voru sýnd á hreyfiskjá, sem var ekkert annað en standur þar sem kortin voru límd á og var svo snúið. Þetta voru myndir sem voru nær svartar í gegn og mótaði fyrir útlínum.
Þetta er skemmtilegt í minningunni, rétt eins og gamla formið á veðurfréttunum. Þetta var á þeim tíma þegar að veðurfréttirnar snerust aðeins um veðrið og löngu áður en veðurfréttirnar urðu jafn mikið show og nú er. Ætli að Siggi stormur og Trausti Jónsson séu ekki bestu andstæðurnar í bransa þess sem var í den tid og þess sem gerist nú í showinu.
Annars var þetta yndislegur dagur. Sól og blíða hér á Akureyri. Þetta var einmitt dagur til að fá sér Brynjuís - sem er annars langbesti ís sem hægt er að fá sér, sérstaklega á svona funheitum og björtum unaðsdegi.
![]() |
Ísland séð utan úr geimi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.6.2007 | 22:33
Bush mest fagnað í Evrópu í gömlu kommúnistaríki

Var engu líkara en að Bush forseti væri staddur í Texas eða einhverju öðru helsta lykilvígi sínu í suðurríkjum Bandaríkjanna. Á sama tíma var honum tekið kuldalega í t.d. Þýskalandi og Ítalíu, sérstaklega reyndar í hinu síðarnefnda þar sem augljóst var af viðbrögðum almennings í Róm að þar væri hann enginn aufúsugestur eða velkominn á þeim slóðum.
George W. Bush hefur verið mjög umdeildur forseti á valdaferli sínum, sérstaklega í Evrópu. Það er mjög lítill áberandi stuðningur við hann og pólitíska stefnu hans í þessari heimsálfu. Hinsvegar er merkilegt að sjá að hann fær höfðinglegar móttökur í Albaníu af öllum löndum. Minnti móttökurnar helst á framboðsfund í lykilríki hans heima fyrir.
Fannst ansi fyndið að lesa þessa frétt af úramálinu mikla í Fushe Kruja. Það er erfitt að sjá hvað hefur gerst á þessari örskotsstund sem myndbrotið sýnir. Aðra stundina hefur hann úrið, hina stundina er það horfið. Þeir sem næst standa forsetanum fullyrða að lífverðir hafi tekið úrið.
Það er hinsvegar ekki ósennilegt miðað við móttökurnar sem hann fékk í Albaníu að einhver hafi viljað hnupla því. Bush var enda tekið með sama hætti og týnda syninum að snúa aftur á fornar slóðir, merkilegt nokk það.
![]() |
Armbandsúri George Bush stolið í Albaníu? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.6.2007 | 21:49
Tjaldsvæðið við Þórunnarstræti lokað um helgina

Draslið og sóðaskapurinn þá var af því kalíberi að það tók þrifsveit nokkra daga að koma hlutunum í samt lag og áður. Við hér við Þórunnarstrætið og bæjarbúar almennt vorum búin að fá alveg nóg. Nú hefur verið tilkynnt að tjaldstæðið verði eingöngu opið fjölskyldufólki með fellihýsi, hjólhýsi og tjaldvagna um verslunarmannahelgina. Svo hefur ennfremur verið frá árinu 2005. Samhliða þessu hefur gæsla verið stórefld og aðgengi breytt. Jafnframt hefur eftirlitið aukist til muna með tilkomu girðingu í kringum svæðið.
Ég hef annars alla tíð verið þeirrar skoðunar að tjaldsvæði á þessum stað sé barn síns tíma. Það hlýtur að koma að því fyrr en seinna að það leggist af, enda ekki fólki bjóðandi í miðri íbúðabyggð að mínu mati. Það hefur þó verið gert ástandið á þessu svæði fólki hér meira boðlegt þrátt fyrir allt. Því fagna ég þessari ákvörðun þriðja árið í röð.
Það var ólíðandi að meginfrétt verslunarmannahelgarinnar æ ofan í æ hafi verið óregla og sukk á tjaldsvæðinu við Þórunnarstræti og ómenningin sem þar grasseraði ár eftir ár. Með þessu öllu hefur verið tekið fyrir það, en betur má ef duga skal. Ég tel að það eigi að huga að því að loka þessu tjaldsvæði innan nokkurra ára.
![]() |
Akureyri: Tjaldsvæðið við Þórunnarstræti lokað dagana 14 -17. júní |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.6.2007 | 16:36
Valgerður og Steingrímur J. fallast í faðma

Skömmu eftir að Valgerður hafði lokið máli sínu um að afstaða Samfylkingarinnar til Íraksmálsins væri yfirklór kom Steingrímur J. í ræðustól og tók undir allt sem Valgerður hafði sagt, sagðist sérstaklega vera sammála henni. Þetta er nýmæli í samskiptum þeirra. Ekki er ár liðið síðan að svo mikið snarkaði á milli þeirra að þau gátu ekki hist augliti til auglitis í Íslandi í dag og Kastljósi Sjónvarpsins til að ræða um meðferð Valgerðar og iðnaðarráðuneytisins á greinagerð Gríms Björnssonar, jarðeðlisfræðings.

Svipað gerðist í Íslandi í dag kvöldið eftir að mig minnir, en þar birtist Valgerður fyrst í fyrirfram ákveðnu viðtali (sem tekið hafði verið upp) á Austurvelli og skömmu síðar sömu kvöldstund birtist þar Steingrímur J. í beinni. Fræg voru stóryrði Steingríms J. í bréfinu þar sem hann sagði Ríkissjónvarpið hafa brugðist skyldum sínum og vitnaði hann í þeim efnum í 3. grein útvarpslaga þar sem sagði að Ríkisútvarpið skuli halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi til orðs og skoðana.
Þetta var í júlí 2006. Valgerður var orðin utanríkisráðherra en skuggi greinargerðar Gríms Björnssonar elti hana uppi undir leiðsögn m.a. Steingríms J. Sigfússonar. Síðan er ekki liðið ár og nú eru þau orðin samherjar í stjórnarandstöðu og fallast í faðma í að ráðast að Samfylkingunni í þingsölum. Þetta er auðvitað mjög skondið allt saman og áhugavert, sérstaklega fyrir okkur sjálfstæðismenn að sjá. Hlutirnir eru oft ekki lengi að breytast í henni pólitíkinni.
Það verður fróðlegt að fylgjast með framboðs- og stjórnmálafundum hér í Norðausturkjördæmi haldi Steingrímur J. og Valgerður áfram samstarfi sínu og heitstrengingum í þingsölum. Það tekur okkur eflaust einhvern tíma að venjast þessum nýjasta pólitíska rómans hér á svæðinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.6.2007 | 14:59
Guðni segist ekki hafa séð Finn í heilt ár

Ummæli Finns í Viðskiptablaðinu, atlagan að Guðna, vakti mikla athygli í aðdraganda miðstjórnarfundar um helgina og gerði fátt annað en opna aftur með áberandi hætti þau sár sem reynt er að græða eftir skaðlegt afhroð Framsóknar í þingkosningum. Með því varð ljós óánægja fjölmennra hópa innan flokksins með formennsku Guðna, sem er ekki beinlínis ný af nálinni.
Orðrétt sagði Guðni í morgun um Finn: "Hann kaus sjálfur að hverfa. Hann var tilbúinn að koma aftur fyrir orð vina Halldórs og Halldórs sjálfs ef um það skapaðist friður og sátt innan Framsóknarflokksins. En það varð hvorki friður eða sátt um það innan Framsóknarflokksins né í þjóðfélaginu. Það risu miklar öldur gegn því að Finnur tæki við Framsóknarflokknum. Því fór sem fór. Það varð ekki hans hlutverk. Menn réru á ný mið og Jón Sigurðsson kom til skjalanna í framhaldi af því til þess að sætta Halldór við að fara af hans vinum."
Þetta eru merkileg orð. Þarna felst skot á Halldór Ásgrímsson greinilega, en hann setti augljóslega eigin hagsmuni ofar flokksheill þegar kom að vali á eftirmanni og leitaði langt yfir skammt til að finna eftirmanninn því ekki vildi hann Guðna. Það hefur líka Guðni sjálfur bent á í forsíðuviðtölum við DV og Fréttablaðið með áberandi hætti eftir að hann tók við formennskunni við afsögn eftirmanns Halldórs. Þar var allt gert upp við Halldór með áberandi hætti og greinilega sett fram í forsíðuletursstíl hvers eðlis lætin voru sem riðu yfir Framsóknarflokkinn þegar að Halldór hrökk upp fyrir sem stjórnmálamaður. Þar eru enn sár opin, sem þó er reynt að græða.
Tal Finns Ingólfssonar gerði ekkert annað en ýfa upp gömul sár. Það mátti enda finna skot hjá Guðna fólgin í ummælum hans um hvar sökin á afhroði flokksins 12. maí sl. væri staðsett. Þar var skotið til fyrri átaka og Guðni var eins og hinn sigrum prýddi maður sem glottir við tönn og segir með glottandi kímnissvip: I told you so. Guðni er að gera flokkinn að sínu með talinu um uppgjörið og því að líta svo áberandi til vinstri. Þar er horft til þess að gera flokkinn aftur að flokki í takt við þann sem Steingrímur Hermannsson byggði upp í fimmtán ára formannstíð sinni.
Staðan innan Framsóknarflokksins er mjög sérstök nú þegar að hafist er handa við að byggja upp brunarústirnar eftir stórbrunann mikla á undanförnum árum. Guðni tekur við hálfgerðu flaki þar sem mikil uppbygging tekur við. Þar er staðan nær algjörlega í grunnmælingu. Saminn hefur verið friður á yfirborðinu og sverðin hafa verið sett til hliðar og allir eru að reyna að bjarga sjálfum sér í miðjum vandræðunum. Allir hafa höggvið alla svo illa að skörðin eru orðin mikil. Nú er reynt að bjarga því sem eftir stendur af elsta starfandi stjórnmálaflokki landsins.
Guðni fær þó tækifærið sem hann vildi fá fyrir ári; að leiða flokkinn sinn og reyna að byggja hann upp til verkanna. Með honum til verkanna er valin Valgerður, sem augljós leiðtogi Halldórsarmsins í þingflokki Framsóknarflokki og í lykilkjarnanum. Siv, sem eina þingmanninum á höfuðborgarsvæðinu, er fundinn sess með þingflokksformennsku. Allir fornu höfðingjarnir hafa því sinn póst til að vinna á. Með því fá allir eitthvað og sáttin helst á því formi sem getur dugað.
Undir krauma þó átökin. Það sanna ummæli Finns Ingólfssonar sem enn er fúll út í Guðna fyrir að hafa lagt ráðherra- og formannsdrauma sína í rúst fyrir ári. Guðni fær tækifærið til að byggja flokkinn. Yfir vofir þó sú staða að flokksþingi, innan tveggja ára, verði vettvangur hins sanna uppgjörs aflanna gömlu. Þar gætu orðið harðvítug átök sem gætu jafnvel enn aukið á sundrungu Framsóknarflokksins. Það hefur ekki vantað hasarinn innan þessa gamla flokks sem hefur verið sjálfum sér verstur um nokkuð skeið.
Það blasa engin endalok þeirra hjaðningavíga við með afsögn Jóns Sigurðssonar og formennsku Guðna Ágústssonar. Þar kraumar undir svo eftir er tekið.
12.6.2007 | 12:34
Eiður Smári kominn á sölulistann

Hlutirnir eru jafnan ekki mikið að breytast í þessum bransa. Það verður fróðlegt að sjá hvert að Eiður Smári muni fara gangi salan eftir. Löngum hefur verið orðrómur um að hann færi jafnvel til Manchester United og Tottenham. Ennfremur gæti auðvitað farið svo að hann endi hjá West Ham, þar sem Eggert Magnússon ræður ríkjum.
Það er erfitt að spá í hver gengur kaupum og sölum í þessum bransa. En það verður þó fróðlegt að sjá hvar Eiður Smári lendir.
![]() |
Eiður Smári til sölu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.6.2007 | 21:10
Árni tekur við framkvæmdastjórn þingflokksins

Það er ánægjulegt að virkt fólk í ungliðastarfinu veljist til verkefna af þessu tagi og það styrkir kjarnann okkar að sjá að því er treyst til þess að leiða starfið innan þingflokksins. Árni ætti að þekkja vel til þingsins, enda er faðir hans skrifstofustjóri Alþingis og hefur unnið þar áratugum saman að mig minnir.
En Árna sendi ég innilegar hamingjuóskir. Hann er vel að þessu starfi kominn.
![]() |
Árni Helgason framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokks |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)