27.9.2006 | 10:40
Er þetta þrýstihópur fyrir orku í álverið?

Um þessar mundir eru tæp fjögur ár síðan að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, samþykkti ábyrgð til lána vegna Kárahnjúkavirkjunar í borgarstjórn. Það þótti á sínum tíma nokkur frétt, enda hafði hún verið afgerandi andstæðingur allrar stóriðju innan Kvennalistans, meðan að hún var borgarfulltrúi og alþingismaður flokksins. Hún tók þá afstöðu málsins, þrátt fyrir að myndast hefði meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks um það. Á þessum tíma var hún á sínum síðustu dögum á borgarstjórastóli, ákveðið hafði verið þingframboð hennar og hún varð forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar um allt land vikurnar sem á eftir fylgdu.
Ég páraði hérna í morgun nokkrar línur um Kárahnjúkavirkjun og tengd mál. Á morgun hefst fylling Hálslóns, táknrænn lokapunktur þess að það styttist í verklok við Kárahnjúka og álver við Reyðarfjörð. Það hefur verið tískufyrirbrigði að kenna þetta mál alfarið við stjórnarflokkana. Þeir hinir sömu geta þá reynt að færa rök fyrir því af hverju formaður Samfylkingarinnar studdi þá málið í borgarstjórn í janúarmánuði 2003, nú eða þá fjöldi þingmanna Samfylkingarinnar í kosningu á þingi árið 2002. Samfylkingin er á harðaspretti frá afstöðu sinni og er komin í felulitina. Það er því vart furða að umhverfisstefna flokksins virki hlægileg eftir umræðu um virkjun og álver fyrir austan.
Ég hef tekið eftir einu í tali Ómars, og fjallaði reyndar aðeins um það í morgun. Hann talar um að orka í álver fyrir austan geti komið með öðrum hætti. Allt í einu síðustu daga hefur Ómar breyst í harðan baráttumann þess að finna orku í álverið með öðrum hætti. Er það orðið baráttumálið? Ég veit að menn geta vart andmælt orðið álverinu en reyna þess þá frekar að aftengja virkjunina, enda vart annað hægt að berjast fyrir með fyllingu Hálslóns handan við hornið. Það er því ekki nema von að því sé velt fyrir sér hvort hér sé að myndast þrýstihópur undir forystu Ómars Ragnarssonar um að finna álveri við Reyðarfjörð aðra orku en myndast hefði í virkjun við Kárahnjúka.
Ég hef margar spurningar eftir að hafa lesið um þessa fundi og heyrt nú í morgun í Ómari Ragnarssyni segjandi í Íslandi í bítið að það verði að finna orku með öðrum hætti. Nokkrar spurningar sem ég hef:
Voru það skilaboð fundanna í gær að álver eigi að starfa við Reyðarfjörð? Er það vilji allra sem gengu þarna? Vill allt þetta fólk starfhæft álver í Fjarðabyggð? Er þetta þrýstihópur um að finna orku fyrir álver með öðrum hætti? Ég trúi því alveg mátulega.
Svo má spyrja sig hvaðan orkan eigi að koma. Ef ég þekki Þingeyinga rétt munu þeir vart vilja orkuna austur fyrir sig til afnota fyrir Austfirðinga. Þetta mál er því allt á nokkrum villigötum hjá þeim sem að mótmæla, finnst mér.
27.9.2006 | 09:07
...nú verður ekki aftur snúið

Það er tekið að hausta og vetrarvindarnir eru handan við hornið. Það er á þessum skilum sumars og vetrar sem fylling Hálslóns mun hefjast á morgun. Með því verða líka þáttaskil í málum fyrir austan. Allir sem líta raunhæft á stöðu mála fyrir austan sjá að þar eru framkvæmdir komnar svo langt á leið að ekki verður aftur snúið. Auðvitað hefur þetta verið umdeild framkvæmd og tekist hefur verið á um allar hliðar hennar. Það er því mjög undarlegt að sjá að sumir þeir sem barist hafa gegn henni telja að enn sé hægt að snúa við og við séum ekki komin að þeim tímamótum að raunhæft sé að hætta við. Það þarf vart sérfræðinga til að sjá að við erum komin lengra en svo að hætt verði við.
Í gærkvöldi stóð Ómar Þ. Ragnarsson fyrir mótmælum í Reykjavík, hér á Akureyri, austur á Egilsstöðum og vestur á Ísafirði gegn fyllingu Hálslóns. Það er lýðræðislegur réttur hans og annarra að hafa þær skoðanir að virkjun við Kárahnjúka sé röng framkvæmd. Það getur enginn tekið af honum og öðrum réttinn til mótmæla. Ég geri engar athugasemdir við það. Reyndar undrast ég það hversu seint Ómar Ragnarsson kemur til borðsins sem sannur mótmælandi. Hann hefði átt að hætta sem fréttamaður að málinu mun fyrr en tjá þess þá heldur sínar skoðanir, en ekki leika hlutlausan mann, verandi með skoðun. En það er hans ákvörðun og við það verður hann að lifa. Einfalt mál.
En ég tel að allir sem horfa raunhæft á málið sjái að við erum komin það langt á leið að ekki verður aftur snúið. Það má telja að allra vitlausasta hugmyndin í þessu öllu hafi verið það sem Ómar setti fram um að færa mætti álveri við Reyðarfjörð orku frá Norðausturlandi, sennilega frá Þeistareykjum, eða ég skildi hann varla öðruvísi. Hér höfum við fyrir norðan verið að deila um staðsetningu álvers. Þeir hér fyrir austan okkur vildu ekki veita orkunni til Eyjafjarðar ef álver kæmi þar og töldu óhugsandi að orka Þingeyinga yrði færð okkur í álver yrði því valinn staður í Eyjafirði. Það má því svo sannarlega telja enn óraunhæfara að þeir veiti henni austur á firði í álver á Reyðarfirði.
Mikil örvænting andstæðinga virkjunarinnar hefur blasað við öllum undanfarna mánuði. Það er svosem engin veruleg furða, enda er nú komið að hinni sönnu örlagastundu málsins. Hálslón er að verða að veruleika. Það má vel vera að einhverjum þyki það nöpur staðreynd. Það kemur þó varla neinum á óvart. Tekin hefur verið rimma um nær alla þætti þessa máls. Þeir sem eru á móti virkjun og álveri fyrir austan hafa tapað þeim öllum. Það er bara staðreynd. Þetta mál hófst ekki í sumar. Það hefur staðið á þessum forsendum í vel á fjórða ár. Rúm þrjú ár eru frá upphafi verksins við Kárahnjúka. Þessi lokahrota mótmæla er táknræn en boðar engin þáttaskil.
Allar ákvarðanir málsins hafa verið teknar. Það er orðinn veruleiki sem engu fær breytt, hvorki hugarflug né órar í aðrar áttir. Mér finnst undarlegt að hlusta á vel meinandi fólk tala um að ekki sé of seint að hætta við, verandi með veruleikann í þeirri átt að framkvæmdir fyrir austan eru að verða búnar. Allir órar um að færa orku í álver í Fjarðabyggð frá Norðausturlandi eru enda draumórar. Allar forsendur málsins nú sýna okkur að niðurstaða er fengin og ekki verður aftur snúið. Mótmæli gærdagsins voru því táknræn að mínu mati, en ekkert meir. Niðurstaða málsins er orðin ljós.
![]() |
Stefnt að því að hleypa í Hálslón á fimmtudag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.9.2006 | 22:33
Valgerður ávarpar allsherjarþing SÞ

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, ávarpaði í dag allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York. Ég var að enda við að lesa ávarp Valgerðar og fannst það nokkuð merkilegt í sannleika sagt. Vék hún þar mjög ítarlega að þróunaraðstoð og málefnum sem þeim fylgja. Kom fram í máli hennar að íslensk stjórnvöld myndu axla ábyrgð með auknum framlögum til þróunarsamvinnu. Fann ég skýran samhljóm með þeirri stefnu sem hún kynnti og mun gera að áherslum sínum í utanríkisráðherratíð sinni og þeim sem einkenndu utanríkisráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar, fyrrum formanns Framsóknarflokksins, en enginn hefur gegnt embættinu lengur. Hann vann ötullega að þróunaraðstoð.
Valgerður kynnti framboð Íslands til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna árin 2009-2010 með afgerandi hætti í ræðunni. Hefur nú verið opnuð heimasíða framboðsins og er greinilegt að mikla vinnu á að leggja í þetta verkefni. Valgerður hefur sjálf sagt að þetta verði eitt lykilverkefna í ráðherratíð sinni og það hefur komið vel í ljós með þeim þunga sem hún hefur helgað verkefninu. Áður hef ég farið yfir skoðanir mínar á því að sækjast eftir sætinu í Öryggisráðinu. Það er öllum ljóst sem líta á vefinn að mikill þungi og kraftur er settur í þetta verkefni að tryggja sætið. Baráttan mun verða hörð, eins og áður hefur komið fram. Auk okkar eru Tyrkland og Austurríki í kjöri.
Það er öllum ljóst að kostnaður vegna framboðs Íslands til þessa sætis verður umtalsverður, bæði þá sem snýr að kosningabaráttu sem nauðsynlegt er að heyja til að hljóta sætið við fyrrnefndar þjóðir og ennfremur þeirrar stækkunar sem yrði á umfangi utanríkisþjónustunnar ef Ísland tæki þar sæti. Á það ber að minnast að meirihluti þeirra mála sem tekinn er fyrir af Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna eru málefni sem Íslendingar hafa hingað til lítið sem ekkert beitt sér í. Enn finnst mér lykilspurningunni um það hvaða ávinningur hlytist með því að hljóta sætið sé með öllu ósvarað. Það er einn stóru gallanna í þessu máli, að mínu mati.
![]() |
Utanríkisráðherra fjallaði um aukin framlög til þróunarsamvinnu á allsherjarþingi SÞ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.9.2006 | 16:49
Samkomulag kynnt

Var að horfa á blaðamannafundinn í Þjóðmenningarhúsinu með Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Jóni Sigurðssyni, viðskiptaráðherra, þar sem að þeir kynntu samkomulag milli Bandaríkjanna og Íslands um varnir landsins. Fátt svosem sem þar kom fram er ekki hafði komið fram áður. Heimildir fréttamanna síðustu daga voru réttar að öllu leyti. Varnirnar eru tryggðar með þeim hætti að Bandaríkin skuldbinda sig til að sjá um að verja Ísland gegn vá með hreyfanlegum herstyrk. Varnir á Íslandi heyra sögunni til og við tekur uppstokkun á hinu gamla varnarsvæði, sem verður eign Íslands um mánaðarmótin þegar að síðustu ummerki herstyrks Bandaríkjanna heyra sögunni til.
Gert er ráð fyrir að forsætisráðherra og Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, undirriti bráðlega samning ytra við yfirvöld þar sem byggir á þessum grunni sem kynntur var í dag. Við blasir að Íslandi muni taka að sér að greiða fyrir niðurrif mannvirkja og hreinsun á svæðum sem tilheyrðu Bandaríkjahernum áður og taki við forræði þeirra að öllu leyti. Fara á yfir öll umhverfismál á svæðinu og færa svæðið allt til þess horfs sem viðunandi er. Við blasir að það verði mikið verkefni og mun verða stofnað félag til að halda utan um öll umsvif þar og færa allt til eðlilegs horfs í þeim efnum.
Að mörgu leyti er þetta eins og við var að búast, að sumu leyti eru þarna þættir sem vekja athygli. Heilt yfir er mikilvægt að óvissunni hafi verið eytt. Aðeins eru nú örfáir dagar þar til að Bandaríkjamenn halda á brott og það var orðið gríðarlega mikilvægt að öll atriði málsins væru almenningi ljós, enda um að ræða mikil söguleg þáttaskil, eins og forsætisráðherra sagði á blaðamannafundinum.
![]() |
Bandaríkin munu verja Ísland gegn vá með hreyfanlegum herstyrk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.9.2006 | 15:35
Tony Blair kveður á flokksþingi

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, flutti í dag kveðjuræðu sína sem leiðtogi Verkamannaflokksins. Þetta er síðasta flokksþingið í leiðtogatíð hans. Innan árs mun hann hætta í stjórnmálum og láta öðrum eftir sviðsljósið. Þetta var tilfinningarík kveðjuræða fyrir forsætisráðherrann. Það er svosem eðlilegt að svo sé, enda hefur hann verið leiðtogi flokksins í rúm 12 ár og verið forsætisráðherra Bretlands í rúm 9 ár. Það hlýtur að verða erfitt fyrir hann að láta af embættinu og víkja úr forystusveit breskra stjórnmála, enda er hann ekki nema 53 ára gamall og á væntanlega nóg eftir af starfsævinni þegar að hann yfirgefur erilinn sem fylgir vistinni í Downingstræti.
Blair viðurkenndi fúslega í ræðu sinni að það yrði erfitt fyrir sig að hætta. Það er alveg greinilegt að hann hefur stjórnað flokki og þjóð af nokkrum krafti og lagt sig allan í verkefnið. Það vakti mikla athygli að hann hældi Gordon Brown, fjármálaráðherra, mjög í ræðunni. Hann gekk þó hvorki það langt að lýsa yfir stuðningi við hann né heldur að lýsa yfir því hvenær nákvæmlega að hann hefði í hyggju að láta af embætti. Flestir stjórnmálaspekúlantar í Bretlandi spá því að það verði í maílok á næsta ári. 2. maí 2007 hefur Verkamannaflokkurinn ríkt samfellt í áratug og flestir telja að það sé sú dagsetning sem hann vilji ná á valdastóli áður en að hann lætur endanlega gott heita.
Sú kenning hefur þó heyrst að Blair muni hætta fyrir árslok og komi fólki á óvart. Það er talið mun ólíklegra. Flestir spá spennandi leiðtogaslag innan Verkamannaflokksins við brotthvarf Tony Blair úr forystusveitinni. Gordon Brown hefur verið arftaki valda innan Verkamannaflokksins í allan áratug Blairs við völd innan flokksins og greinilegt er að Bretar telja hann ekki afgerandi kost og heyrst hafa raddir um að Blair vilji að David Miliband eða Alan Johnson fari fram gegn Brown. En dagurinn í dag var dagur hyllingar fyrir Blair. Þetta er hans kveðjustund í raun, þó valdaskiptin verði síðar. Þarna var hann í raun kvaddur. Endalokin eru handan við hornið og ljóst að ólgan hefur minnkað.

Þetta var dagur gleði og hinna breiðu brosa fyrir Verkamannaflokkinn. Þarna voru Blair og Brown samstilltir saman. Þeir hafa hælt hvorum öðrum á báða bóga í gær og í dag. Reyndar setti skugga á þessa gleðivímu fréttir af því að Cherie Blair hefði muldrað orðið "lygari" yfir ræðu Browns þar sem hann sagði að það hefðu verið forréttindi að vinna í stjórnmálum undir leiðsögn og forystu Tony Blair. Gleðivíman var ekki meiri en það. Segja má reyndar að Tony Blair reyni sem mest nú að halda friðinn til að geta kvatt embættið með þeim sóma sem hann telur sæma sér eftir þennan langa valdaferil.
En nú taka spennandi tímar við innan Verkamannaflokksins og í breskum stjórnmálum. Síðasti þingvetur Blairs sem forsætisráðherra þýðir valdabaráttu bakvið tjöldin og uppgjör við liðna tíma - uppstokkun í forystusveit stjórnarflokksins. Spurningin er sú hver fari fram gegn Gordon Brown. Það trúir enginn því lengur að hann verði sjálfkjörinn eftirmaður forsætisráðherrans. Þetta verður harkaleg barátta um völd og áhrif sem við tekur nú.
Ræða Tony Blair - 26. sept. 2006
![]() |
Blair hælir Brown |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.9.2006 | 14:06
Hugsað til Washington
Hugurinn leitaði ósjálfrátt til Washington þegar að ég leit á vef Sivjar Friðleifsdóttur, heilbrigðisráðherra, og sá þar myndir hennar frá Georgetown. Það eru núna nákvæmlega tvö ár síðan að ég hélt ásamt þeim sem ég var með í utanríkismálanefnd SUS á sínum tíma til Washington. Það var alveg yndisleg ferð og virkilega skemmtileg. Við skoðuðum alla sögustaðina og fundum borgarstemmninguna. Þetta er í fyrsta skipti í borgarferð sem ég hef varla viljað fara heim. Stemmningin var alveg nákvæmlega eins og ég vildi helst. Mér leið hreinlega eins og ég hefði aldrei verið annarsstaðar. Merkileg tilfinning og svona líka virkilega notaleg.
Borgin er táknmynd fyrir stjórnmálasögu Bandaríkjanna og sögu heimsins. Þar hafa örlög heimsins jafnan ráðist, þar situr valdamesti maður heims á valdastóli og stjórnar öflugasta ríki samtímans. Það jafnast fátt á við að fara til Bandaríkjanna, og fyrir stjórnmálaáhugamann var auðvitað einstakt tækifæri að fara þangað innan við fjórum vikum fyrir forsetakosningar í landinu, en þegar að við fórum í októberbyrjun 2004 snerist allt um forsetakosningarnar milli Bush og Kerry. Ég hafði lengi viljað fara til Washington, segja má að ég sem þyki vera frekar mikill áhugamaður um stjórnmál og söguna hafi lengi beðið færis á að heimsækja þessa borg borganna.
Ég skrifaði ítarlegan pistil um ferðina og fór þar yfir allt sem mér þótti mikilvægast að fara yfir. Mér fannst alveg draumur að fara í Georgetown. Ég tók eitt mesta flipp í bókakaupum í Barnes and Noble þar. Keypti ég þar ítarlega yfirlitsbók um forsetaembætti Bandaríkjanna og umfjöllun um forseta landsins, ævisögu Dennis Hastert, umdeilda bók Kitty Kelley um Bush fjölskylduna, The American Evita, bók sem fjallar um Hillary Clinton með allt öðrum hætti en ævisagan hennar, og síðast en ekki síst ævisögu Lou Gannon um Ronald Reagan. Þetta var paradís á jörðu að fara þarna og ég held að þau sem voru með mér hafi haldið að ég tæki flog áður en yfir lyki. :)
Best af öllu fannst mér að fara út að borða þarna og ég nýtti þau færi vel ásamt hópnum. Þetta var alveg yndisleg ferð og þeir sem vilja lesa meira um hana lesi endilega pistilinn minn um ferðina. Það er farið yfir nær allt sem gerðist úti í ferðinni þar. Ég er búinn að ákveða að ég ætla að fara næsta vor eða sumar út og vera þá lengur en þessa örfáu daga en voru farnir út í október 2004. Það verður yndisleg ferð, ég held að ég geti alveg sagt það hreint út.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.9.2006 | 13:23
Samkomulag um varnarmál
Samkomulag hefur nú náðst milli Bandaríkjanna og Íslands um varnarmál. Það verður kynnt síðdegis á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu. Í viðtali á Morgunvaktinni í morgun fór Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, yfir þessi mál. Nú í hádeginu mun leiðtogum stjórnarandstöðuflokkanna hafa verið gerð grein fyrir samkomulaginu af Geir og Jóni Sigurðssyni, formanni Framsóknarflokksins og starfandi utanríkisráðherra. Mér skilst að það verði útvarpað og sjónvarpað frá blaðamannafundi leiðtoga stjórnarflokkanna kl. 16:00, svo að það verður hægt að fylgjast með þessu öllu í beinni.
Það er orðið tímabært að allar línur framtíðarskipulags varna landsins skýrist. Hálft ár er liðið frá einhliða ákvörðun Bandaríkjastjórnar - ákvörðun sem bar hvorki vitni drenglyndi Bandaríkjastjórnar né virðingu í okkar garð. Hún var eins einhliða og ómerkileg og orðið gat. Staða mála eins og hún blasti við okkur þann 15. mars var eins ómerkileg og hún myndi blasa við ef að maki einhvers sliti sambúðinni með SMS-skeyti. Þetta var jafn kalt og ómerkilegt, í sannleika sagt. Síðan hefur viðbúnaður minnkað hratt á varnarliðssvæðinu og þar eru nú aðeins eftir örfáir menn en enginn varnarviðbúnaður.
Varnarviðræðurnar síðustu mánuði hafa enda snúist aðeins um frágang mála. Mér hefur fundist viðræðurnar snúast meira um hvernig skipta beri hlutum upp og haga þeim með nýjum hætti. Í sannleika sagt hefur það ekki alveg snúist um varnarskuldbindinguna. Það er því óhætt að segja að þetta hafi verið nokkuð vandræðalegar viðræður. Þrennt skiptir máli núna: hvernig verður staðið við varnarsamninginn frá árinu 1951, hvernig verður viðskilnaður Bandaríkjamanna við svæðið og síðast en ekki síst hvernig tryggja megi rekstur alþjóðaflugvallarins, sem skiptir okkur auðvitað miklu máli. Þetta eru lykilatriði.
Ég er sammála Davíð Oddssyni, fyrrum forsætisráðherra, um það að í raun sé ekkert eftir af hinum 55 ára varnarsamningi og hefði verið heiðarlegast að segja honum upp og semja frá grunni. Þetta er sú skoðun sem ég hef sagt í mínum skrifum á heimasíðum mínum allt frá því að allt fór upp í loft árið 2003, þegar að þá átti einhliða að flytja allt burtu, svo til í skjóli nætur með örfárra vikna fyrirvara. Það var framkoma sem sýndi okkur vel hver hugurinn var í okkar garð. Það þurfti ekki frekari vitnanna við.
En nú liggur samkomulag fyrir. Það verður fróðlegt að kynna sér það og sjá hvernig staða mála verður, nú þegar að aðeins sólarhringar eru í endalok varnarviðbúnaðar Bandaríkjanna hérlendis.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.9.2006 | 12:46
Snarpur þingvetur að hefjast

Snarpur þingvetur er að hefjast á kosningamisseri. Á mánudag verður Alþingi sett af Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands. Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrum félagsmálaráðherra, starfsaldursforseti Alþingis, mun stýra fyrsta fundi þingsins. Eftir afsögn Halldórs Ásgrímssonar er Jóhanna orðin sá þingmaður sem lengst hefur setið á Alþingi. Hún hefur verið á þingmaður frá alþingiskosningunum 1978, en Jóhanna kom inn á þing í vinstrisveiflunni það vor. Að öllu óbreyttu stefnir í að Jóhanna verði áfram aldursforseti á næsta kjörtímabili, en hún hefur þegar tilkynnt um að hún ætli fram í kosningunum að vori.
Ég held að þetta verði mjög spennandi þingvetur sem er framundan. Það verður fróðlegt að sjá fjárlagafrumvarpið og stöðu mála hvað það varðar. Einkum verður áhugavert að sjá hvað ríkisstjórnin ætlar að gera varðandi lækkun matarverðs, sem er lykilmál. Hugmyndir ríkisstjórnarinnar voru í fréttum um helgina, en enn virðist vera unnið að niðurstöðu sem verði til fyrir upphaf þinghalds. Þær viðræður eru greinilega enn á viðkvæmu stigi, ef marka má það að Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra, vildi ekki veita viðtal í gær. Brátt mun svo ráðast framtíð varna landsins.
Það verður fróðlegt að heyra fyrstu stefnuræðu Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, að kvöldi 3. október, en þar verður í raun farið yfir mál kosningavetrarins og áherslumálin í aðdraganda þingkosninganna. Mitt í önnum þingsins verða þingmenn í prófkjörum og hætt við að einhverjir þeirra muni falla í þeim darraðardans öllum. Þetta verður því þungur vetur fyrir einhverja þingmenn. Miklar breytingar hafa reyndar orðið á þingskipan, en alls 14 alþingismenn hafa annaðhvort hætt nú þegar á þingi eða munu hætta í kosningunum að vori. Auk þeirra munu einhverjir ekki ná kjöri.
![]() |
Þing kemur saman í næstu viku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.9.2006 | 00:50
Um öryggisþjónustu og sögulegar hliðar hennar

Um fátt hefur verið rætt meira síðustu daga en tilvist öryggisþjónustu fyrr á árum eftir greinaskrif Þórs Whitehead í Þjóðmálum. Ég fékk ritið sent heim til mín fyrir helgina. Á laugardaginn hafði ég góðan tíma og fór í að lesa Þjóðmál, sem er eins og ávallt áður vandað undir ritstjórn Jakobs F. Ásgeirssonar. Þetta eru virkilega áhugaverð skrif hjá Þór og hiklaust það besta og jafnframt áhugaverðasta í Þjóðmálum að þessu sinni. Þór á auðvelt með að skrifa læsilegan og góðan texta, en ég hef áður lesið góðar bækur hans um stríðsárin á Íslandi, en hann hefur ritað margar áhugaverðar bækur um sögu mála á þessu tímaskeiði.
Í kvöld var athyglisvert viðtal við Steingrím Hermannsson, fyrrum forsætisráðherra og formann Framsóknarflokksins, í Íslandi í dag. Hann var dómsmálaráðherra í síðari vinstristjórn Ólafs Jóhannessonar, árin 1978-1979, og eftirmaður Ólafs í ráðuneytinu en hann gegndi embættinu samfellt í sjö ár, 1971-1978, fyrstu þrjú árin í eigin ríkisstjórn og síðar ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar. Telur Steingrímur óhugsandi að Ólafur hafi ekki vitað um öryggisþjónustuna, sjálfur hafi hann ekki haft hugmynd um hana. Steingrímur fer yfir þessi mál með góðum hætti og þetta var virkilega áhugavert viðtal sem Kristinn Hrafnsson tók við hann.
Það er fátt annað betra þessa dagana fyrir alla stjórnmálaáhugamenn en fá sér Þjóðmál og lesa þessa góðu og vönduðu grein Þórs. Virkilega áhugavert að lesa. Hvet alla til að gerast áskrifendur að Þjóðmálum á andriki.is. Þetta eru vönduð rit sem taka fyrir spennandi málefni. Það er alveg ljóst að þessi mál verða mikið rædd allavega á næstunni, enda eru þetta merkileg upplýsingar sem afhjúpast þessar vikurnar er tilkoma hennar verður almannarómur. Tek ég þó undir með Steingrími í viðtalinu með að skiljanlegt sé að þessu hafi verið komið á fót. Það verður enda að átta sig á þetta að þetta voru viðsjárverðir tímar sem þarna voru.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.9.2006 | 16:40
Cherie Blair kallar Gordon Brown lygara

Mitt í framboðsræðu Gordon Brown á flokksþingi Verkamannaflokksins í dag, þar sem hann reyndi að lofsyngja Tony Blair, mun Cherie Blair hafa muldrað orðið "lygari" örg á svip. Gordon Brown flutti ræðuna í morgun og snerist hún að nær öllu leyti um að byggja sig upp sem leiðtoga og kynna framtíðina sem hann vill færa flokknum. Fór hann fögrum orðum um forsætisráðherrann og talaði lofsamlega um hann og verk hans. Eitthvað mun lofsöngurinn hafa farið illa í forsætisráðherrafrúna sem mun hafa snúið upp á sig yfir ræðunni og muldrað þessi orð um fjármálaráðherrann. Það er greinileg gjá á milli þeirra hjóna og Browns, en í gær vildi Blair ekki lýsa yfir stuðningi við Brown.
Það á ekki af bresku krötunum að ganga í þessum mánuði. Fyrst er Tony Blair næstum hrakinn úr embætti af samverkamönnum Gordon Brown og svo reynir Brown að lofsyngja þann sem hann reyndi að grafa undan í framboðsræðunni. Það er merkilegur kúltúr þarna. En já Cherie tókst allavega að stela senunni, þó að hún hafi eflaust viljað gera það við aðrar aðstæður en þessar. Það þarf varla að taka það fram að talsmaður forsætisráðherrans neitar auðvitað að forsætisráðherrafrúin hafi kallað Gordon Brown lygara með þessum hætti. Þvílíkur vandræðagangur. Ekki batnar yfir óeiningunni innan Verkamannaflokksins og greinilegt að Blair-hjónin ætla sér ekki að styðja Brown til forystu.

Gordon Brown virðist reyndar eiga í verulegum erfiðleikum. Það er enda tekið að molna undan honum rétt eins og forsætisráðherranum. Í könnun Daily Telegraph í dag kemur fram að meirihluti Breta vilji ekki að hann verði eftirmaður Blairs og mælist nú David Cameron mun vinsælli meðal þjóðarinnar en Brown. Fallandi gengið í könnunum hlýtur að vera honum mikið umhugsunarefni. Hann allavega nýtti tímann sinn vel í ræðunni í Manchester í morgun og reyndi að gera sig að nýjum valkosti í breskum stjórnmálum.
Oft er sagt að það sé þunn línan á milli þess að vera erfðaprins í stjórnmálum og lúser. Þegar að menn hafa verið krónprinsar lengi getur svo farið að menn endi sem hlægilegir og missi af lestinni í orðsins fyllstu merkingu. Það verður fróðlegt að sjá hvernig fer fyrir Gordon Brown. Ef marka má orðaval Cherie Blair í dag munu þau hjón frekar dauð liggja en að styðja hann opinberlega sem leiðtogaefni flokksins í leiðtogakjöri sem verður innan árs í Verkamannaflokknum.
![]() |
Cherie Blair sögð hafa kallað Brown lygara |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.9.2006 | 15:42
Kristinn Pétursson í framboð

Á laugardag tilkynnti Kristinn Pétursson, fyrrum alþingismaður, um þá ákvörðun sína að gefa kost á sér í 2. - 3. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Kristinn tók sæti á Alþingi fyrir Austurlandskjördæmi í mars 1988 þegar að Sverrir Hermannsson var skipaður bankastjóri Landsbanka Íslands og átti sæti á þingi til loka kjörtímabilsins en féll í kosningunum 1991. Kristinn hefur alla tíð verið ófeiminn við að hafa skoðanir á mönnum og málefnum og oft látið harkalega í sér heyra og oft ekki vílað fyrir sér að gagnrýna með einbeittum hætti flokkssystkini sín.
Kristinn hefur verið þekktur fyrir að vera einkum laginn við að láta í sér heyra á kjördæmisþingum eða landsfundi og tala fyrir sínum skoðunum, einkum og sér í lagi á sjávarútvegsmálum. Hann er enda fiskverkandi á Bakkafirði. Hafði ég heyrt margar sögur af honum lengi og vel áður en ég fór á kjördæmisþingið hér í Norðaustri haustið 2002 á Egilsstöðum, skömmu eftir sameiningu flokksstofnanna í Norðurlandskjördæmi eystra og Austurlandskjördæm. Á þessu sama þingi var ákveðið að stilla upp fyrir kosningarnar 2003.
Á þessu kjördæmisþingi flutti Sigríður Ingvarsdóttir, þáv. alþingismaður, kjarnmikla og settlega ræðu, að mestu um sjávarútvegsmál. Sigríði mæltist vel og hún kom virkilega vel fyrir. Í kjölfar ræðunnar kom Kristinn í pontu og veittist harkalega að skoðunum Sigríðar á kvótakerfinu og gaf lítið fyrir hana né ræðuna. Þau tókust á þarna í heillangan tíma um sjávarútvegsmál og áttu mjög fátt sameiginlegt, svo vægt sé til orða tekið hreinlega. Þetta var ótrúleg rimma og gleymist fáum sem þarna voru. Kristinn hefur allavega aldrei farið troðnar slóðir.
Nú munu Sigga og Kristinn takast á um sömu sæti, en það liggur í loftinu að hún muni ennfremur sækjast eftir 2. - 3. sætinu. Veit ekki hvernig Kristni muni ganga en svo mikið er víst að hann mun ræða um sjávarútvegsmál með sínum rótgróna hætti í prófkjörsslagnum, ef ég þekki hann rétt.
![]() |
Kristinn Pétursson býður sig fram í Norðausturkjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.9.2006 | 15:02
Birna Lár gefur kost á sér

Ég sé að Birna Lárusdóttir, forseti bæjarstjórnar í Ísafjarðarbæ og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, hefur tilkynnt um framboð sitt fyrir komandi þingkosningar. Það er gleðiefni. Hún er góður kvenkostur fyrir flokkinn í Norðvestri fyrir komandi kosningar. Birna hefur verið mjög öflug í innra starfi flokksins og t.d. verið kjörin með afgerandi hætti í miðstjórn fjórum sinnum á landsfundi. Kynntist fyrst Birnu á landsfundinum 2001, þegar að hún fór í annað sinn inn í miðstjórn. Virkilega öflug kona og sterkur valkostur fyrir sjálfstæðismenn ofarlega á lista að mínu mati.
Það verður reyndar mest spennandi að sjá hvort það verður stillt á lista eða boðað til prófkjörs hjá flokknum í kjördæminu. Hef heyrt orðróm þess að þar eigi að stilla upp. Veit ekki hvað verður, en það styttist í kjördæmisþing flokksins, en það verður haldið 7. og 8. október, helgina á undan okkur hér í Norðaustrinu. Allir þrír þingmenn flokksins í kjördæminu ætla sér að halda áfram, svo að það stefnir í spennandi tíma þarna og gott mál að fólk sé farið að gefa upp vilja til framboðs. Það er allavega gleðiefni að fólk eins og Birna Lár skellir sér í slaginn.
![]() |
Birna Lárusdóttir gefur kost á sér á lista Sjálfstæðisflokks í Norðvesturkjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.9.2006 | 13:10
Dagný og Birkir takast á um annað sætið

Fastlega er búist við að Dagný Jónsdóttir og Birkir Jón Jónsson, alþingismenn Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, muni berjast um að skipa annað sæti framboðslista flokksins í kosningunum að vori. Jón Kristjánsson, fyrrum heilbrigðis- og félagsmálaráðherra, sem setið hefur á þingi í yfir tvo áratugi, skipaði sætið í kosningunum 2003 en hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til endurkjörs í komandi kosningum. Í aðdraganda kosninganna 2003 átti Framsóknarflokkurinn aðeins tvo þingmenn í kjördæmahlutunum og tókust því þau Jón og Valgerður Sverrisdóttir á um fyrsta sætið á tvöföldu kjördæmisþingi á Hrafnagili í janúar 2003. Vann Valgerður þar nokkuð auðveldan sigur.
Í þriðja og fjórða sæti listans völdust þau Dagný og Birkir Jón. Þau voru þá formaður og varaformaður SUF og voru í augljósu bandalagi þá um að veljast saman í þau sæti sem þau sóttust eftir og náðu með stuðningi Valgerðar og Jóns að verjast áhlaupi Þórarins E. Sveinssonar, fyrrum forseta bæjarstjórnar á Akureyri, um að fá annað af sætunum. Varð hann þess í stað í fimmta sætinu. Nú blasir við að þau muni takast á um annað sætið við brotthvarf Jóns Kristjánssonar úr stjórnmálum. Dagný er augljós fulltrúi Austfirðinga í flokkskjarna framsóknarmanna í sæti Jóns en engum hefur blandast hugur um að Birkir Jón stefnir hærra og hefur verulegan áhuga á forystustörfum innan flokksins.
Það stefnir því í ungliðaslag meðal framsóknarmanna hér. Það kemur svosem ekki bara til vegna valdabaráttu þeirra á milli heldur einfaldlega þeirri staðreynd að Framsóknarflokkurinn á verulega undir högg að sækja í kjördæminu. Eins og staðan er núna eru einfaldlega tvö nokkuð örugg sæti eftir að sækjast í kjördæminu. Árið 2003 vann Framsóknarflokkurinn afgerandi sigur í kjördæminu og tókst að hljóta fjögur þingsæti. Öllum að óvörum felldi Birkir Jón Samfylkingarkonuna Láru Stefánsdóttur útaf þingi undir lok talningar í kosningunum. Nú þykir staða flokksins öllu óvissari, hér sem og í raun um allt land. Það fer því væntanlega svo að þau berjast um að færast upp.
Úrslit sveitarstjórnarkosninganna í vor voru t.d. gríðarlegt áfall fyrir framsóknarmenn hér á Akureyri sem hlutu aðeins einn bæjarfulltrúa kjörinn. Það var sögulegt botnskrap hjá Framsóknarflokknum á Akureyri og ótrúlegt áfall fyrir fyrrum forystuflokkinn í bæjarmálum Akureyringa um áratugaskeið. Það áfall varð einmitt tilfinnanlega mikið fyrir flokksmenn alla í kjördæminu, enda vita allir að sterk staða í kosningum í Norðausturkjördæmi ræðst mikið af hlutfalli flokkanna í kosningum meðal Akureyringa og Eyfirðinga, þar sem stór hluti íbúa kjördæmisins býr.
Það verður spennandi að sjá hvernig þetta fer hjá Framsókn hér að vori í Norðaustri og hversu miklu rýrari útkoman verður þá. Við öllum blasir að verulegt fylgistap verður hjá þeim nú hér og því skiljanlegt að slegist sé um þann stól sem öruggur telst.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.9.2006 | 12:23
Bjarni Ben sækist eftir öðru sætinu

Bjarni Benediktsson, alþingismaður, hefur ákveðið að gefa kost á sér í annað sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í kraganum. Það fer því ekki svo að hann taki slaginn við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, eins og margir höfðu velt fyrir sér. Má því telja nær öruggt að Þorgerður Katrín verði ein í kjöri um fyrsta sætið og fái góða kosningu í það. Kjördæmisþing sjálfstæðismanna í kraganum verður 4. október nk. í Valhöll. Verður spennandi að sjá hvort það verði prófkjör eða uppstilling þarna. Altént er ljóst að ekki verður harður slagur um fyrsta sætið.
Nú eru nýir frambjóðendur farnir að tilkynna sig í kraganum. Í gær gaf Ragnheiður Elín Árnadóttir, aðstoðarmaður Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, allt frá því að hann varð fjármálaráðherra árið 1998, kost á sér í fjórða sæti framboðslistans. Enn er beðið eftir ákvörðun Sigríðar Önnu Þórðardóttur, fyrrum umhverfisráðherra og þingflokksformanns, sem setið hefur á þingi frá árinu 1991, Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, bæjarstjóra í Mosfellsbæ, Ármanns Kr. Ólafssonar, forseta bæjarstjórnar í Kópavogi, Sigurrósar Þorgrímsdóttur, alþingismanns og Jóns Gunnarssonar, formanns fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Kópavogi.
Búast má við spennandi framvindu mála í framboðsmálum sjálfstæðismanna í kraganum. Framundan er enda fjölgun þingsæta í kraganum, þar sem þingsætin verða 12 en ekki 11, enda færist þingsæti úr Norðvesturkjördæmi yfir í kragann. Á góðum degi gætu sjálfstæðismenn því hlotið 6 þingsæti í kjördæminu. Það er því eftir miklu að slægjast, enda aðeins þrír þingmenn eftir af þeim fimm sem Sjálfstæðisflokkurinn hlaut kjörna í alþingiskosningunum 2003.
![]() |
Sækist eftir öðru sæti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.9.2006 | 10:49
Matarskattur lækkar verulega

Skv. fréttum Sjónvarpsins í gærkvöldi stefnir í verulega lækkun matarskattsins, sem settur var á árið 1987. Talað er um lækkun um allt að 10%, úr 14% niður í 4%. Það hefur blasað við allt eftir tillögur nefndar Hallgríms Snorrasonar, hagstofustjóra, að taka þyrfti afgerandi ákvarðanir um matarverð hérlendis og koma með raunhæfar tillögur að lækka það. Svo virðist nú hafa verið gerst. Skatturinn var settur á í tíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar árið 1987 og sprakk stjórn hans tæpu ári síðar þegar að Sjálfstæðisflokkurinn vildi fella skattinn niður, en Jón Baldvin Hannibalsson, þáv. fjármálaráðherra, sem vaðið hafði eld og brennistein fyrir skattinn, vildi halda honum.
Matarverð hér á landi er alltof hátt og mikilvægt að leita allra leiða til að lækka það. Þetta eru góðar tillögur í þeim efnum, ef rétt reynist sem fram kom hjá Sjónvarpinu í gærkvöldi. Búast má við að leiðtogar stjórnarflokkanna; þeir Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra, muni kynna tillögur til lækkunar matarverðs í dag eða á morgun. Það er mikilvægt að lækka matarskattinn með krafti og það deilir enginn um það að þetta er gott innlegg í þá átt. Það er kominn tími til að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tryggi hér gott matarverð og ég held að þetta sé það mál sem brenni á langflestu fólki.
Vil annars hrósa Þórdísi Arnljótsdóttur fyrir fagmannlega og góða frétt um þessi mál í fréttatíma Sjónvarpsins í gærkvöldi. Svona á að gera þetta. Það var vönduð frétt og táknræn fyrir stöðu mála eftir lækkun skattsins, enda fór Þórdís í verslun 10-11 og tíndi þar í körfu ýmsar nauðsynjavörur í körfuna sína. Eftir að hafa borgað matvörurnar reiknaði hún út hversu mikið ódýrari matarkarfan myndi verða við lækkun matarskattsins. Góð fréttamennska þetta!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.9.2006 | 23:59
The Third Man

Var að enda við að horfa á klassamyndina The Third Man, frá árinu 1949, með Orson Welles og Joseph Cotten, í Sjónvarpinu. Sannkölluð eðalræma því á þessu sunnudagskvöldi. Þetta er ein af þessum gömlu og góðu sem alltaf á vel við. Er alveg gríðarlega mikill aðdáandi gamalla úrvalsmynda og það er því fátt betra á svona fínu sunnudagskvöldi en að rifja upp gömlu meistaraverk kvikmyndasögunnar. Þetta er góð noir-mynd og vel leikin, mjög skemmtileg áhorfs og gríðarlega flott að öllu leyti. Ómissandi fyrir alla kvikmyndafíkla. Þetta var því ekta popp og kók-kvöld við imbann. Vona að Sjónvarpið færi okkur fleiri svona eðalmyndir í vetur!
Kvikmyndir | Breytt 25.9.2006 kl. 00:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.9.2006 | 21:08
Vandað viðtal við Berglindi

Sunnudagskastljós Evu Maríu Jónsdóttur fer virkilega vel af stað. Horfði í kvöld á gott viðtal Evu Maríu við Berglindi Ásgeirsdóttur, sendiherra og fyrrum ráðuneytisstjóra og aðstoðarframkvæmdastjóra OECD. Berglind er virkilega heilsteypt og vönduð kona. Hún er nýlega flutt heim og viðtalið snerist mikið um það hvort að Berglind væri á leið í framboð á einhverjum vettvangi. Ætli að hún fari í forsetaframboð árið 2008? Stórt er spurt, það kæmi mér allavega ekki á óvart.
Ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar að ekki eigi að vera stjórnmálamaður á stóli forseta Íslands. Það fer best á því að forseti Íslands sé sameiningartákn. Stjórnmálamaður í miðjum klíðum harðrar stjórnmálabaráttu getur á okkar tímum ekki verið afgerandi sameiningartákn. Þetta höfum séð kristallast vel í forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar sem aldrei hefur tekist að vera forseti allra landsmanna, heldur bara þess hóps sem studdi hann í forsetakosningunum 1996. Það er mjög einfalt mál og blasir við.
Í kosningunum 1996 kaus ég (og vann fyrir) Pétur Kr. Hafstein. Það er mikill sómamaður og hann hafði aldrei verið í stjórnmálum og var afgerandi kostur fyrir þá sem vildu að forseti Íslands væri sameiningartákn en ekki pólitískt aktíft bardagaembætti. Ég gæti mjög vel hugsað mér Berglindi Ásgeirsdóttur sem forseta. Ég vil eftir tólf ára forsetaferil Ólafs Ragnars Grímssonar fá þjóðhöfðingja sem aldrei hefur verið í stjórnmálum meir en nokkru sinni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.9.2006 | 20:39
Góðir þættir um sögu Varnarliðsins
Var að enda við að horfa á fyrri hluta vandaðrar umfjöllunar Ingólfs Bjarna Sigfússonar um sögu Varnarliðsins hér á Íslandi. Í næstu viku er komið að endalokum varnarviðbúnaðar Bandaríkjanna á Íslandi, 55 árum eftir gildistöku tvíhliða varnarsamnings landanna. Það eru mörg áhugaverð viðtöl í þessum þætti og farið yfir söguna með merkilegum hætti. Virkilega gott sjónvarpsefni, enda sjaldan réttara að fara yfir þessa sögu en einmitt núna, þegar að þetta líður allt undir lok. Þetta er löng og merk saga og fyrir sagnfræðiáhugamann eins og mig er þetta virkilega áhugavert. Varnir Íslands og varnarviðbúnaður þess er mikilvægt mál og við stöndum á krossgötum óneitanlega nú.
Á þriðjudag á að kynna fyrir landsmönnum samkomulag Íslands og Bandaríkjanna um tilhögun mála eftir 1. október þegar að Varnarliðið líður undir lok. Á því leikur enginn vafi að heimsmyndin hefur breyst mikið á þeirri rúmlega hálfu öld sem bandarískt herlið hefur verið hérlendis. Hinsvegar er ógnin um hryðjuverk eða önnur voðaverk enn fyrir hendi og Keflavík er mikilvæg enn í dag vegna staðsetningar sinnar fyrir t.d. Bandaríkin. Íslendingar hafa í gegnum tíðina verið traustir bandamenn Bandaríkjamanna og oft lagt þeim lið í þeim málum sem þeir hafa veitt forystu á alþjóðavettvangi. Það hefur því verið sláandi að sjá ómerkilega framkomu Bandaríkjanna síðustu mánuði.
Í þessum þáttum verður greinilega farið yfir alla sögupunktana og þarna eru viðtöl við menn sem hafa verið miðpunktar í sögu Varnarliðsins í þessari 55 ára sögu. En nú er henni lokið og verður fróðlegt að sjá hvað tekur við um mánaðarmótin. Við sjáum kortlagningu þessara nýju tíma á þriðjudag á blaðamannafundinum þar sem samkomulag um tilhögun mála. Þegar að ég fór inn á þetta svæði í sumar var það eins og yfirgefinn bær í villta vestrinu. Dauðabragurinn á svæðinu kom vel fram í nýjustu myndunum sem sýndar voru í þættinum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.9.2006 | 19:17
Í minningu Jóns Páls

Í gærkvöldi fór ég í bíó til að sjá nýja heimildarmynd um Jón Pál Sigmarsson, sem ber heitið: Þetta er ekkert mál. Jón Páll Sigmarsson var goðsögn í lifanda lífi og einn mest áberandi Íslendingur níunda áratugar 20. aldarinnar. Frægð hans var enn í miklum blóma þegar að hann varð bráðkvaddur á besta aldri í janúar 1993, þá aðeins 32 ára að aldri. Þegar að ég var að alast upp var Jón Páll sigursæll út um allan heim, margverðlaunaður fyrir hreysti sína og styrkleika. Hann varð sterkasti maður heims fjórum sinnum, sem var auðvitað glæsilegt afrek og mjög oft sterkasti maður Íslands. Hann var glæsileg landkynning fyrir Íslands hönd og telst hiklaust einn af bestu sonum landsins.
Ég leit alltaf gríðarlega mikið upp til Jóns Páls og fylgdist með afrekum hans þegar að ég var yngri. Hann var gríðarlega virtur allavega af mínum vinahópi og ég held að allir ungir Íslendingar á frægðarárum Jóns Páls minnist hans sem öflugs átrúnaðargoðs. Ég gleymi aldrei fyrsta skiptinu sem að ég hitti Jón Pál. Það var þegar að hann var að árita plaköt á bílasýningu í Reykjavík árið 1987. Það verður reyndar aldrei sagt um mig að ég sé bílaáhugamaður en ég fór þangað gagngert, tíu ára gamall, bara því að ég vissi að hann væri þar og ég talaði heillengi við hann þennan dag.
Ég fylgdist mjög vel með sigrum Jóns Páls á þessum frægðarárum hans og ég á reyndar enn þessi nokkur plaköt sem að hann áritaði fyrir mig og ég átti reyndar eftir að hitta hann síðar á aflraunasýningu á Akureyri og svo í Reykjavík, nokkrum mánuðum áður en að hann dó. Það var öllum unnendum Jóns Páls Sigmarssonar gríðarlega mikið áfall þegar að hann dó í blóma lífsins í janúar 1993. Það voru verulega sorgleg endalok á merkum ferli. Í myndinni er ævi Jóns Páls lýst virkilega vel. Þar er farið yfir alla sigrana hans, vonbrigðin og endalokin sorglegu, sem enn sitja í mörgum sem mátu mikils frækna sigra þessa eins af bestu sonum þjóðarinnar.
Það er mikilvægt að þessi mynd hafi verið gerð. Það varð að festa ævipunkta Jóns Páls, frægðarsöguna og öll ógleymanlegu augnablikin á sigurgöngu hans í eitt heilsteypt form. Mikið myndefni er til um hann og þessi saga er sett saman með mjög glæsilegum og vönduðum hætti. Minning Jóns Páls var tekin að gleymast, enda margir sem ekki upplifðu frægðarsögu hans og þekktu persónu hans - það er því gríðarlega mikilvægt að til sé þessi góða heimildarmynd um hann.
Hjalti Úrsus Árnason, vinur Jóns Páls og félagi í aflraununum, á heiður skilið fyrir þessa góðu mynd, en hann hefur gert hana með miklum myndarskap og staðið með því vörð um minningu Jóns Páls. Nú þegar er þetta orðin vinsælasta heimildarmynd Íslandssögunnar og hefur hún verið jafnvinsæl í bíó á þessu hausti og vinsælustu Hollywood-myndirnar. Það umfram allt sýnir okkur að íslenska þjóðin metur minningu Jóns Páls mikils.
Þetta er vönduð og vel gerð mynd og ég hvet alla til að fara og sjá hana. Þetta er mynd sem er gerð af líf og sál um mann sem var virtur og dáður af þjóð sinni fyrir að vera heilsteyptur fulltrúi þjóðarinnar á erlendri grundu.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 19:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.9.2006 | 18:40
Blair vill ekki lýsa yfir stuðningi við Brown

Flokksþing Verkamannaflokksins verður sett í Manchester í dag. Þetta verður síðasta flokksþingið í leiðtogatíð Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands. Hann mun flytja kveðjuræðu sína sem leiðtogi á flokksþinginu á þriðjudag. Þetta hefur verið mánuður átaka fyrir Verkamannaflokkinn. Þar var tekist á af krafti um forystuna og var Blair neyddur til að lýsa því yfir, eftir afsagnir undirráðherra og bréfaflóð þingmanna flokksins, að hann myndi hætta í stjórnmálum innan árs. Blasti við að honum yrði steypt af stóli með sama hætti og íhaldsmenn steyptu Margaret Thatcher árið 1990 ef hann myndi ekki nefna tímaramma endaloka stjórnmálaferilsins. Hann var beygður til uppgjafar.
Búast má við að Blair vilji í þessari síðustu ræðu sinni sem flokksleiðtogi á flokksþingi hvetja til samstöðu. Mátti þetta sjá vel í viðtali við Blair í dag. Þar talar hann um að næstu ár eigi að vera ár málefna og uppbyggingar inn í þingkosningarnar 2009 en ekki innra hjaðningavíg sem skaði flokkinn. Greinilegt er að Verkamannaflokkurinn hefur skaðast gríðarlega í átökunum sem urðu í mánuðinum. Þær urðu það harðskeyttar að einingar mynduðust og tekist var á með það beittum hætti að landsstjórnin sat hjá í innanflokksáflogum en misstu yfirsjónar á sínum pólitísku verkefnum við stjórnvölinn. Greinilegt er að Bretar hafa fengið nóg af þessari óeiningu, ef marka má kannanir.

Það vekur mikla athygli í fyrrnefndu viðtali að Blair vill með engu móti lýsa yfir jafnafdráttarlausum stuðningi við Gordon Brown sem eftirmann sinn á leiðtogastóli og hann virtist gera fyrir síðustu þingkosningar vorið 2005 og skömmu eftir þær þegar að hann í fyrsta sinn nefndi Brown sem leiðtogaefni eftir brotthvarf sitt úr leiðtogastóli. Gordon Brown hefur verið álitinn krónprins flokksins alla leiðtogatíð Blairs og hávær orðrómur hefur alla tíð verið um að þeir hafi samið um skiptingu valda eftir snögglegt lát John Smith, leiðtoga flokksins, árið 1994. Brown hafi þá hætt við leiðtogaframboð sitt að því gefnu að hann fengi þá að verða eftirmaður Blairs við forystu flokksins.
Blair var fljótur að snúa umræðunni annað þegar að hann var inntur nú eftir stuðningi við Gordon Brown. Það er alveg augljóst að þegar að sá tími kemur að Blair hættir að þá munu hörðustu stuðningsmenn hans ekki una Gordon Brown þess að verða leiðtogi. Mikið er enda rætt um leiðtogaframboð Alan Johnson og David Miliband. Mörgum að óvörum hefur John Reid aftekið að vilja verða leiðtogi nú nýlega. Skoðanakannanir sýna að traust Breta á Verkamannaflokknum og forystu hans er tekið að dvína mjög og í könnun í síðustu viku kom fram að 2/3 telja flokkinn ekki verðskulda lengri tíma við völd.
Merkilegast af öllu í stöðunni er að nú sýna kannanir að David Cameron er orðinn langvinsælasti stjórnmálamaður Bretlands og hann mælist mun vinsælli en Gordon Brown. Það merkasta við stöðuna þessar vikurnar er að Gordon Brown hefur veikst með forsætisráðherranum í þessu valdatafli og er að verða ólíklegra að hinn afgerandi krónprins muni er á hólminn kemur taka við af Blair. Greinilegt er að Tony Blair vill ekki gefa Brown neitt forskot á sæluna í leiðtogaslagnum. Það er líklegast að slagurinn verði enda harður um forystuna innan flokksins.
Fullyrða má að samstaðan innan Verkamannaflokksins sé tekin að dvína mjög og óánægja flokksmanna með Blair hefur náð hámarki. Bíða flestir forystumenn vinstrihluta flokksins nú eftir brotthvarfi hans, enda er hann mjög hataður þar, eins og vel sást á ársfundi TUC um daginn, þar sem Blair var púaður niður. Þessi verkalýðsarmur flokksins hefur þriðjungsvægi í leiðtogakjörinu. Verður fróðlegt að sjá hvernig flokksþingið verði, hvort að það verði heilög kveðjusamkunda Blairs eða vettvangur ólgu og átaka.
![]() |
Blair vildi ekki lýsa stuðningi við Brown sem arftaka sinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)