Engin fyrirsögn

Michael HowardHeitast í umræðunni
Þingkosningar verða í Bretlandi eftir tvo sólarhringa, á fimmtudag. Allar skoðanakannanir benda enn til öruggs sigurs Verkamannaflokksins. Það sem vekur þó mikla athygli nú á lokasprettinum er að fjöldi óákveðinna hefur aukist mjög. Rúm 30% segjast í einni könnun dagsins vera óákveðin og svipað hlutfall er í þeim fleiri. Ljóst er að flokksleiðtogarnir reyna allt til að heilla almenning og hafa áhrif á afstöðu þeirra í kosningunum þessa dagana. Þeir eru á ferð og flugi um landið og ræða við almenning og læta taka af sér myndir í hinum ýmsu stellingum. Mikla athygli vakti í gær þegar Michael Howard leiðtogi Íhaldsflokksins, fór í strætó og ræddi við fólk, hljóp með kosningableðla í hús í hverfi í Manchester og setti í bréfalúgur og bankaði upp á hjá fólki. Ennfremur vakti mikla athygli að hann ferðaðist stóran hluta gærdagsins í laxableikri skyrtu, með efstu töluna fráhneppta og var bindislaus. Það er greinilega margt reynt þessa dagana til að breyta ímyndinni. Löngum hefur þótt helsti akkilesarhæll hans, hvað hann hefur verið litlaus og kuldalegur og eru ímyndaspekúlantarnir greinilega að vinna með að breyta frambjóðandanum og það með einbeittum hætti.

Óneitanlega fannst mörgum skondið að sjá leiðtogann í laxableikri skyrtu og hlaupandi með kosningabæklinga í hús. Ekki síður fannst mörgum það allkostulegt að sjá Tony Blair leiðtoga Verkamannaflokksins, í mannþvögu í verslun að skoða farsíma með Gordon Brown og kaupa sér ís með flokksfélögum að loknum útifundi í miðborg Sheffield. Það er eitthvað sem veldur því að ég fæ mikið hláturskast þegar ég sé þá félaga Brown og Blair saman á kosningarúntinum. Það er óneitanlega húmorískt að sjá þessa tvo kappa orðna svona kammó og vinalega og reyna að brosa í takt saman. Það að þeir tveir ferðist saman nærri því um allt eru eins og ég sagði í gær tíðindi kosningabaráttunnar. Það sýnir okkur ljóslega að Blair er ekki lengur meginfókus flokksins og að Brown er svona seldur með. Eða eins og einn gárunginn sagði í gær á breskum vef: Vote Mr. Blair - Get Mr. Brown!. Þannig er þetta. Annars má ekki gleyma þriðja flokksleiðtoganum, Charles Kennedy. Hann er á fullu um allt og vakti athygli í gær með því að fara á krá með Greg Dyke fyrrum forstjóra BBC, og halda þar blaðamannafund. Þar gagnrýndu þeir harkalega báðir Blair og stjórn hans. Kennedy hefur seinustu vikur vakið mesta athygli fyrir að hafa nýlega eignast sitt fyrsta barn og hefur flokkurinn notað það óspart í baráttu sinni. En kosningabaráttan er semsagt á fullum swing og nóg um að vera, þó auðvitað blasi við af könnunum að spurningin sé um hversu stór þingmeirihluti kratanna verði næstu árin. En það má þó ekki gleyma því að allt getur gerst og svo gæti farið að Blair vinni, en verði í spennitreyju órólegu deildar flokksins á næstunni.

Eiður Smári GuðjohnsenEiður Smári Guðjohnsen varð um síðustu helgi Englandsmeistari í knattspyrnu með liði sínu, Chelsea. Var það glæsilegur árangur hjá honum og hans liði. Enginn vafi leikur á að Chelsea hefur spilað glæsilean bolta á þessari leiktíð og ættu allir knattspyrnuáhugamenn að geta tekið undir það að þeir eiga titilinn skilið. Þó að ég hafi alla tíð haldið með öðru liði samgleðst ég með Eið og hans félögum í Chelsea. Titillinn er þeirra og er það einfaldlega verðskuldað. Eiður hefur átt glæsilegan feril síðasta árið og var það auðvitað endanlega staðfest í desembermánuði í fyrra er hann hlaut titilinn íþróttamaður ársins 2004. Hann var fyrsti knattspyrnumaðurinn sem hlaut titilinn í 17 ár, eða frá því að faðir hans, Arnór Guðjohnsen, hlaut þennan titil.

Eiður átti mjög gott ár í fyrra með Chelsea og mörk hans áttu þátt í því að liðið hafnaði í öðru sæti í ensku úrvalsdeildinni 2004 og að það komst í undanúrslit Meistaradeildarinnar. Titillinn núna er svo auðvitað toppurinn á ferli þessa frábæra knattspyrnumanns. Hann hefur verið yfirburðamaður í íslenska landsliðinu og skoraði þrjú af fjórum mörkum liðsins í undankeppni EM. Eiður Smári var fimmti knattspyrnumaðurinn sem hlaut titil íþróttamanns ársins, en áður höfðu auk Arnórs og Eiðs hlotið titilinn þeir Ásgeir Sigurvinsson (tvisvar), Guðni Kjartansson og Jóhannes Eðvaldsson. Það verður gaman að fylgjast með Chelsea og Eiði Smára næstu vikurnar, sérstaklega núna í Meistaradeildinni þessa dagana og hvort þeir nái að hampa titlinum þar að þessu sinni.

Punktar dagsins
Guðrún Katrín Þorbergsdóttir forsetafrú

Eins og ég sagði frá í gær hefur heimasíða forsetaembættisins nú loksins opnað. Er ekki hægt að segja annað en að vefurinn sé allur hinn glæsilegasti. Gleymdi ég mér gjörsamlega seint í gærkvöldi eftir fund og spjall við góðan vin við að skoða vefinn, líta á myndasöfnin og æviágrip forseta lýðveldisins í gegnum tíðina og ýmsan fróðleik sem þarna er. Gaman er að lesa gömul nýársávörp fyrri forseta, innsetningarræður þeirra og margt fleira fróðlegt sem þarna er. Hafa nú verið settar þarna inn flestar ræður núverandi forseta frá því að hann tók við embætti fyrir tæpum áratug. Jafnframt er gaman að líta þarna á upplýsingar um fálkaorðuna, sögu Bessastaða, fánans og margs fleira. Vefurinn er semsagt í alla staði góður og veglegur. Mikið til hans vandað. Sérstaklega hafði ég gaman af að skoða myndasafn og æviágrip frænda míns, dr. Kristjáns Eldjárns, sem var þriðji forseti lýðveldisins og sat á forsetastóli í tólf ár. Það var kominn tími til að æviágrip hans og ekki síður myndir af þessum merka manni væru aðgengilegar á netinu. Hvorugt var þar að finna áður.

Þegar forsetaferill núverandi forseta verður rakinn síðar meir mun vonandi aldrei gleymast framlag Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur, fyrri konu hans, sem var forsetafrú fyrstu tvö ár forsetaferils hans, en hún lést úr hvítblæði, í Bandaríkjunum, haustið 1998. Ég held að það sé ekki á neinn hallað þegar fullyrt er að Guðrún hafi verið sigurvegari forsetakosninganna 1996. Hún kom, sá og sigraði. Framlag hennar í sigrinum þá var mikill og hún markaði sér spor í sögu þessa embættis, þó hennar nyti við alltof skamma stund. Ég gleymi aldrei þegar Guðrún kom hingað á listaviðburð í apríl 1998, skömmu eftir að hún veiktist fyrra sinni af sjúkdómnum sem felldi hana því miður að velli síðar sama ár. Þá bar hún túrban á höfði til að hylja ummerki sjúkdómsins í kjölfar erfiðrar lyfjameðferðar. Síðar um þetta vor hætti hún að ganga með hann og var fyrirmynd annars fólks um að veikindi eru ekki feimnismál og ég veit sem er að hún hafði áhrif á marga sem þurfa að berjast við erfið veikindi af þessu tagi. Ég skal því fúslega viðurkenna að ég hef alla tíð borið mikla virðingu fyrir þessari konu.

Dalvík

Allt virðist loga þessa dagana í ólgu og látum í Dalvíkurbyggð. Lætin krauma undir vegna ákvörðunar bæjarstjórnarinnar þar um að loka Húsabakkaskóla, sveitaskólanum í Svarfaðardal. Vegna þess gengur nú undirskriftalisti um Svarfaðardal, þess efnis um að hvetja til þess að slitin verði tengslin milli dalsins og Dalvíkurbyggðar. Sveitarfélagið var stofnað með sameiningu Dalvíkurbæjar, Árskógshrepps og Svarfaðardals árið 1998. Það er vel skiljanlegt að sú ákvörðun um að loka skólanum sé erfið fólki í sveitinni þarna út með firði. En sú ákvörðun var nauðsynleg. Staða sveitarfélagsins er með þeim hætti að fólk verður að horfa framan í stöðuna þar, en getur ekki lifað á tilfinningalegum rökum. Það voru engin rök nema tilfinningaleg lengur með skólarekstri í Svarfaðardal. Á það ber að minnast að 6 kílómetrar eru á milli skólanna tveggja sem um ræðir. Þannig að allir sjá hvers eðlis málið er, alltsvo þeir sem vilja sjá það. Komi til sameiningarkosninga hér í firðinum er grunnatriði þess að ég samþykki slíka sameiningu að sveitarfélögin reyni eftir fremsta megni að taka til í fjármálum sínum. Það gera Dalvíkingar núna og það er mikilvægt. Það er skammarlegt fyrir fólk í dalnum að láta eins og það lætur, ég segi það bara hreint út.

Catch Me If You Can

Seint í gærkvöldi var horft á góða kvikmynd. Að þessu sinni var litið á hina mögnuðu mynd Catch Me If You Can, í leikstjórn meistara Steven Spielberg. Frábær mynd þar sem sögð er ótrúleg saga eins snjallasta svikahrapps sögunnar, Frank Abagnale Jr. Hann ólst upp við gott uppeldi foreldra sinna, Paulu og Franks. Við skilnað foreldra sinna tók hann að blekkja alla í kringum sig. Hann strauk að heiman og tókst með eintómum blekkingum að verða t.d. læknir og flugmaður, þrátt fyrir að hafa aldrei farið í nokkurt nám. Hann giftist meira að segja Brendu, dóttur saksóknara, en Frank varð t.d. aðstoðarmaður hans. Í gegnum þetta allt er hann hundeltur um landið af alríkislögreglumanninum Carl Hanratty. Spennandi eltingaleikur lögreglumannsins á eftir hinum útsmogna Abagnale, tekur á sig margar myndir. Létt og skemmtileg kvikmynd frá Spielberg sem gerir hér mynd sem er gjörólík því sem hann hefur verið að fást við almennt á ferlinum. Úr verður áhugaverð mynd sem allir ættu að hafa gaman af. Leonardo DiCaprio og Tom Hanks eru flottir í aðalhlutverkunum. Senuþjófurinn er þó óskarsverðlaunaleikarinn Christopher Walken sem á sannkallaðan stórleik í hlutverki Franks eldri og hlaut verðskuldaða óskarsverðlaunatilnefningu sem besti aukaleikarinn fyrir vikið. Góð afþreying.

Mótmæli á Akureyri - 29. apríl 2005

Eins og vel hefur komið fram hér á vefnum stóðum við bæjarbúar hér á Akureyri fyrir þögulli mótmælastöðu sl. föstudag gegn ofbeldis- og glæpaþróun hér í bænum. Þangað mættu um 1500 manns og tóku til hendinni og lyftu á loft rauðu dómaraspjaldi - táknræn mótmæli semsagt. Í dag klukkan 17:00 verður borgarafundur í Ketilhúsinu þar sem þessi mál verða áfram rædd. Baráttan heldur áfram og við skulum þar öll koma saman og fara yfir þessi mál - ég hvet því alla Akureyringa til að fara í Ketilhúsið í dag.

Saga dagsins
1943 14 bandarískir hermenn fórust er flugvél fórst á Fagradalsfjalli á Reykjanesi, m.a. Frank M. Andrews yfirhershöfðingi Bandaríkjanna - eftirmaður hans varð Dwight D. Eisenhower, síðar forseti
1970 Álver Íslenska álfélagsins hf. í Straumsvík vígt við hátíðlega athöfn af Kristjáni Eldjárn forseta
1979 Bundinn endi á 5 ára valdatíð vinstrimanna á Bretlandi - breskir íhaldsmenn vinna mikinn sigur - Margaret Thatcher verður forsætisráðherra í stað James Callaghan sem setið hafði í embætti í 3 ár
1986 Flugvél er grandað í hryðjuverki Tamíl Tígra á eyjunni Sri Lanka - 21 lætur lífið í hryðjuverkinu
1986 Íslendingar taka í fyrsta skipti þátt í Eurovision-keppninni - lagið Gleðibankinn lendir í 16. sæti

Snjallyrðið
Look at a day when you are supremely satisfied at the end. It's not a day when you lounge around doing nothing; its when you had everything to do, and you've done it.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)


Engin fyrirsögn

Michael Howard og Tony BlairHeitast í umræðunni
Aðeins sex sólarhringar eru í þingkosningar á Bretlandseyjum. Baráttan harðnar sífellt og leiðtogar stóru flokkanna nota hvert tækifæri sem þeim gefst til að kasta á milli sín árásarflaugum. Í gærkvöldi voru leiðtogarnir þrír, þeir Tony Blair leiðtogi Verkamannaflokksins, Michael Howard leiðtogi Íhaldsflokksins, og Charles Kennedy leiðtogi frjálslyndra demókrata, gestir í viðtalsþættinum Question Time á BBC. Er þetta í eina skiptið í kosningabaráttunni sem þeir koma fram og svara spurningum fréttamanna með þessum hætti. Athygli vakti þó að þeir sátu ekki samtímis fyrir svörum, heldur hófst þetta með hálftímayfirheyrslu á Kennedy, svo Howard og að lokum Blair. Kom svosem fátt nýtt fram þarna. Þó reyndi Blair með miklum herkjum að svara spurningum um Íraksmálið og nýjum uppljóstrunum tengdu því. Sögðu gárungarnir að Blair hefði svitnað eins og Nixon við að verja stöðu sína, enda segir einn lesandi á fréttavef BBC er umræðurnar eru ræddar að hann hefði átt að þurrka svitablettinn fyrir ofan vörina oftar.

Í ítarlegum pistli á vef Heimdallar í dag fer ég yfir kosningabaráttuna og kem með ýmsa mikilvæga punkta í umræðuna. Nóg er um að fjalla þegar kemur að breskum stjórnmálum og pælingum í umræðunni þar þessa dagana í kosningaslagnum. Ég hef alla tíð haft mjög mikinn áhuga á breskum stjórnmálum. Man ég vel eftir seinustu valdaárum Margaret Thatcher sem sat á forsætisráðherrastóli árin 1979-1990 og gleymi aldrei atburðarásinni að morgni 22. nóvember 1990 er spurðist út að hún væri að segja af sér embætti. Það var söguleg stund óneitanlega. Man ég vel eftir kosninganóttinni í apríl 1992 er John Major tókst þvert á allar skoðanakannanir að halda völdum og tryggja með því fjórða sigur Íhaldsflokksins í röð. Það var sögulegur sigur á skoðanakönnunum, eins og frægt varð. Kosninganóttin 1997 er svo auðvitað ógleymanleg, en þá unnu kratar og Blair sögulegan sigur á hægriblokkinni og Major féll af valdastóli. Það voru söguleg úrslit, enda varð Blair yngsti forsætisráðherrann frá árinu 1827 og var það fyrsti kosningasigur kratanna eftir óslitna 18 ára valdatíð hægrimanna. 2001 voru kosningarnar óspennandi með eindæmum og staðan breyttist lítið. Nú gæti stefnt í spennandi kosningar, allavega vonar maður það, svona sem áhugamaður um málin. Enginn vafi leikur á að íhaldsmenn hafa verið sterkari seinustu vikur en jafnan áður og Verkamannaflokkurinn á undir högg að sækja. Svo virðist þó vera nú að stjórnin haldi velli og að Blair haldi forsætisráðherrastólnum enn um sinn. En klukkan tifar já í kjördag og þrátt fyrir spennu á þessum kafla slagsins bendir þó flest til þess að úrslitin sem slík séu ráðin. En við spyrjum að leikslokum.

Davíð Oddsson utanríkisráðherraDavíð Oddsson utanríkisráðherra, flutti á Alþingi í morgun skýrslu sína um utanríkismál. Þar tjáði hann þá skoðun sína að áleitnar spurningar hefðu komið upp í hans huga varðandi kostnað við framboð Íslands til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, til setu þar árin 2009 og 2010. Í ræðunni sagði hann orðrétt: "Ljóst er að á brattann verður að sækja gegn keppinautunum, en auk Íslands eru Austurríki og Tyrkland í framboði til þeirra tveggja sæta sem tilheyra Vesturlandahópnum svonefnda. Það er óneitanlega miður að honum skuli ekki hafa tekist að komast að samkomulagi um að einungis tvö ríki væru í framboði þannig að smærri aðildarríkjum gæfist kostur á að taka þátt í störfum öryggisráðsins án þess að þurfa að leggja í dýra og erfiða kosningabaráttu. Í utanríkisráðuneytinu var gerð kostnaðaráætlun upp á rúmar 600 milljónir króna vegna kosningabaráttunnar og setunnar í ráðinu. Gera verður ráð fyrir að þegar líði á kosningabaráttuna aukist harkan í henni enn frekar en orðið er og þar með kostnaðurinn. Af þessum ástæðum öllum hefur framboð Íslands verið til skoðunar, sem lýkur á næstu vikum. Ef halda á framboðinu áfram má ekki bíða mikið lengur með að hefja kosningabaráttuna af fullum krafti".

Er ánægjulegt að Davíð tjái sig með þessum hætti. Hef ég alla tíð verið mjög andvígur því að Ísland myndi sækja um þessa aðild, enda um að ræða mjög kostnaðarsama kosningabaráttu sem taki bæði langan tíma og alls óvíst sé um árangur í því. Eins og sést hefur er nauðsynlegt, ef heyja á baráttu um sætið af einhverri alvöru, að eyða í það stórpeningum án þess að nokkuð sé um það öruggt að Ísland muni vinna sætið. Er að mínu mati rétt að staldra aðeins við og hugsa málið betur. Á það ber að minnast að meirihluti þeirra mála sem tekinn er fyrir af Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna eru málefni sem Íslendingar hafa hingað til lítið sem ekkert beitt sér í. Eins og fram hefur komið að hálfu okkar í stjórn og utanríkismálanefnd Sambands ungra sjálfstæðismanna, og ítrekað í stjórnmálaályktunum sambandsþings í Borgarnesi 2003 og málefnaþings á Selfossi 2004, þykir ungum sjálfstæðismönnum skorta á að sýnt sé með skýrum hætti fram á hvaða ávinningur hlýst af setu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Kostnaðurinn er það mikill að fá þarf betur fram hver ávinningurinn sé, eigi að halda áfram á þessari braut. Með ræðu sinni nú hefur Davíð að mínu mati opnað svo ekki verði um villst á það að slá málið út af borðinu. Tel ég einsýnt að það muni brátt gerast af krafti að umræðan um þetta mál deyji út og málið slegið af, þegar tímasetning hentar.

Punktar dagsins
Akureyri

Boðað er til þögullar mótmælastöðu gegn ofbeldi á Akureyri klukkan 17:00 í dag á Ráðhústorgi. Það er ómögulegt fyrir okkur Akureyringa í ljósi nýlegra atburða hér í bænum að horfa þegjandi á það sem hefur gerst. Það er komið að okkur, bæjarbúum öllum, að rísa upp og mótmæla og taka á þessum málum. Svona ógeðslegheit og ómenningarbragur á enga samleið með þeirri stefnu sem við í bæjarstjórnarmeirihlutanum höfum markað okkur með fjölskyldustefnu bæjarins. Akureyri á að vera þekkt fyrir að vera fjölskylduvænt sveitarfélag: fjölskyldu- og skólabær. Það er sú stefna sem við höfum markað og við getum því ekki setið þegjandi hjá og horft upp á þessa þróun að misyndismenn vegi að rótum bæjarins og okkar mannlífsbrag. Unnið hefur verið af krafti af því að marka bænum þann sess að hann sé vettvangur heilbrigðs fjölskyldulífs en ekki vettvangur misyndismanna og villimennskuaumingja sem vega að heilbrigðum rótum mannlífs. En já, í dag fáum við bæjarbúar færi á að segja okkar skoðun. Það eru því eindregin tilmæli mín til Akureyringa allra að koma á Ráðhústorg í dag klukkan fimm og taka þátt í að mótmæla. Þar munum við halda á lofti rauðu dómaraspjaldi og tjá okkar hug með því. Burtu með þennan fjárans ósóma og nú verða menn að taka til hendinni, það er ekkert sem heitir með það! Látum í okkur heyra!

RÚV

Menningarmálanefnd SUS hélt í gærkvöldi opinn fund um nýtt frumvarp um Ríkisútvarpið, sem hefur verið lagt fram á þingi og er nú í vinnslu þar. Á fundinum sátu fyrir svörum þingmennirnir Guðlaugur Þór Þórðarson og Kolbrún Halldórsdóttir fluttu framsöguerindi á fundinum og sátu að því loknu fyrir svörum ásamt Hafsteini Þór Haukssyni formanni SUS. Ef marka má umfjöllun á netinu var um að ræða fjölsóttan og öflugan fund. Er það mjög ánægjulegt, enda um að ræða málefni sem þörf er að taka vel fyrir og ræða. Mun Kolbrún hafa lýst því yfir á fundinum að ef velja þyrfti á milli þess að breyta RÚV í hlutafélag eða sameignarfélag, þá væri hún frekar hlynntari hlutafélagaleiðinni. Kom fram af hálfu Guðlaugs Þórs að hægri- og vinstrimenn gætu væntanlega náð saman um að einskorða hlutverk RÚV við svið íslenskrar menningar. Eins og fram kom í sunnudagspistli mínum þann 20. mars tel ég sem hægrisinnaður einstaklingur þetta frumvarp afleitt. Ég tel að það styrki RÚV um of og undirstöður þess með undarlegum hætti. Ég hef styrkst sífellt meir í þeirri skoðun minni seinustu vikurnar um að Ríkisútvarpið verður að einkavæða og klippa á tengingu fjölmiðla við ríkið. Það er ótrúlegt að Sjálfstæðisflokkurinn sé nú að leggja fram frumvarp á sínum vegum sem styrkir enn frekar grundvöll RÚV og það sem það byggir á. En ég hvet fólk til að lesa þau skrif mín um málið.

Jón Baldvin og Bryndís

Árið 2002 er ég varð 25 ára, fékk ég athyglisverða afmælisgjöf frá einum vina minna. Hann vissi auðvitað hvar ég var staddur í pólitík og ákvað að eigin sögn að gera mér þann óleik að gefa mér í gjöf viðtalsþáttinn Prívat þar sem Hans Kristján Árnason fjölmiðlamaður, ræddi við Jón Baldvin Hannibalsson sendiherra og fyrrum ráðherra og formann Alþýðuflokksins. Viðtalið sem gefið var út á myndbandsspólu árið 2001 og var á dagskrá Stöðvar 2 fyrr sama ár er mjög fróðlegt og gagnlegt og áhugavert á að horfa. Hrekkurinn hjá þessum mæta vini mínum, sem er vinstrimaður og krati frá æskuárum, gekk ekki upp enda tilkynnti ég honum er ég opnaði gjöfina að ég hefði lengi borið talsverða virðingu fyrir Jóni Baldvini og hefði haft álit á honum sem stjórnmálamanni, þrátt fyrir að vera stundum mjög ósammála honum, en það er önnur saga. Ég hef nokkrum sinnum horft á þetta ítarlega viðtal og alltaf haft gaman af, seinast í gærkvöldi. Einn af helstu kostum Jóns Baldvins er skemmtilegur frásagnarhæfileikinn og það er engu líkt að hlusta á hann fjalla um málefni Eystrasaltsríkjanna, EES málið og fleiri hitamál stjórnmálaferils hans. Hvet ég alla til að fá sér þessa spólu ef möguleiki er á og lesa ennfremur fyrra bindi góðrar ævisögu hans, en hún heitir Tilhugalíf og kom út á árinu 2002.

Reyðarfjörður

Ferðinni er heitið austur um helgina. Er eitt og annað þar á seyði sem gaman verður að taka þátt í. Fór ég síðast austur undir lok janúarmánaðar. Var það mjög ánægjuleg og góð ferð. Sérstaklega var gaman að kynna sér stöðu mála á Reyðarfirði vegna álversframkvæmdanna. Þar var allt komið á fullt þá og er enn meiri kraftur kominn í dæmið núna. Verður fróðlegt að líta á málin þar og framkvæmdirnar. Þar hefur nýlega verið vígð vegleg verslunarmiðstöð og svo eru þar nokkrar deilur um væntanlegt íþróttahús þar, sem er í stíl við Bogann, hér á Akureyri. Ekki vantar því málefnin þar og nóg að líta á þar. Ætla ég að kynna mér þetta allt um helgina ásamt fleiru. Það leikur enginn vafi á því að Fjarðarbyggð er orðinn miðpunktur Austurlands og er það ánægjuefni. Sérstaklega er gleðilegt að sjá hversu mjög Reyðarfjörður hefur styrkst. Verður fínt að eiga stund og líta á hvað er að gerast þarna og kynna sér málin vel. Það er því svo sannarlega skemmtileg helgi framundan austur á fjörðum.

Saga dagsins
1106 Jón Ögmundsson var vígður sem fyrsti biskupinn að Hólum í Hjaltadal - hann lést á árinu 1121
1958 Söngleikurinn víðfrægi, My Fair Lady var frumsýndur í London - varð kvikmyndaður árið 1964
1986 Wallis Warfield Simpson hertogaynja af Windsor, jarðsungin við látlausa athöfn - ástarsamband hennar og Edward VIII konungs Englands, leiddi til þess að hann afsalaði sér bresku krúnunni 1936. Giftust árið eftir og bjuggu eftir það í Frakklandi. Edward lést 1972. Þau hvíla hlið við hlið í Windsor
1992 Fjöldaóeirðir í Los Angeles í kjölfar sýknudóms yfir þeim sem réðust á Rodney King árið áður
1994 Steingrímur Hermannsson skipaður seðlabankastjóri - þá baðst hann lausnar sem formaður Framsóknarflokksins og alþingismaður Framsóknarflokksins. Hann hafði þá setið á þingi frá árinu 1971 og verið ráðherra nær samfellt árin 1978-1991. Steingrímur var dóms- og landbúnaðarráðherra 1978-1979, sjávarútvegs- og samgönguráðherra 1980-1983, forsætisráðherra 1983-1987 og 1988-1991 og utanríkisráðherra 1987-1988. Hann hafði verið formaður flokksins frá 1979. Eftirmaður hans á formannsstóli Framsóknarflokksins var Halldór Ásgrímsson, sem verið hafði varaformaður frá 1980

Saga morgundagsins
1945 Adolf Hitler sviptir sig lífi ásamt Evu Braun eiginkonu sinni í neðanjarðarbyrgi í Berlín - Hitler hafði þá tapað stríðinu. Hann ríkti yfir Þýskalandi allt frá 1933, en tók sér einræðisvald á árinu 1936
1973 Richard Nixon forseti, tekur ábyrgð á Watergate málinu en hafnar persónulegri aðild að því - málið jókst sífellt að vöxtum og eftir því sem á leið varð ljóst að Nixon hafði verið tengdur því. Hann sagði af sér fyrstur forseta Bandaríkjanna í ágúst 1974, enda blasti við að þingið myndi ákæra hann
1975 Víetnamstríðinu langa lýkur formlega er Saigon stjórnin tilkynnir uppgjöf sína fyrir Vietcong
1991 Davíð Oddsson verður forsætisráðherra er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks tók við völdum - stjórnin sat til 1995 en Davíð sat á forsætisráðherrastóli samfellt til 15. september 2004
1993 Ein fremsta tennisstjarna heims, Monica Seles, var stungin í bakið - náði ekki aftur fyrri stöðu

Snjallyrðið
The best minds are not in government. If any were, business would steal them away.
Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna (1911-2004)


Engin fyrirsögn

Ásdís Halla BragadóttirHeitast í umræðunni
Tilkynnt var um fimmleytið í dag að Ásdís Halla Bragadóttir bæjarstjóri í Garðabæ, hefði verið ráðin forstjóri BYKO. Þessi tíðindi komu mér í opna skjöldu og eiginlega eru þau tíðindi pólitískt sem mér hefur brugðið mest við að heyra seinustu árin. Það eru alltaf tíðindi þegar pólitískir forystumenn færa sig til með þessum hætti og takast á hendur önnur verkefni. Það hefur verið mjög ánægjulegt að fylgjast með pólitískri forystu Ásdísar Höllu í Garðabæ. Þau fimm ár sem hún var bæjarstjóri þar hefur Garðabær eflst og hefur náð mikilli forystu á mörgum sviðum varðandi málefni sveitarfélaga almenns eðlis.

Sérstaklega hefur verið gaman að kynna sér stefnu Garðabæjar í skóla- og menntamálum og þátt Ásdísar Höllu í þeirri stefnu sem þar hefur verið mörkuð með mjög farsælum hætti. Þriðja hvert barn á leikskólaaldri í Garðabæ er í einkareknum leikskóla og árið 2006 þegar nýr skóli opnar í Sjálandshverfi mun þetta hlutfall hækka í annað hvert barn. Með verkum sínum í Garðabænum hefur Ásdís Halla horft til framtíðar í þessum málaflokki og ennfremur farið nýjar og markvissar leiðir og starfað vel eftir skoðunum og áherslum okkar SUS-ara í menntamálum.

Ásdísi hefur tekist að umbylta skólakerfi bæjarins með glæsilegum hætti og stokka það upp og gera það að fyrirmyndarkerfi í íslenskum menntamálum: kerfi sem aðrir hafa hug á að taka upp og þróa í þá átt að fylgja frumkvæði sjálfstæðismanna þar. Athygli hefur alla tíð vakið hversu hljóðlega þessi mikla breyting, eða ætti maður ekki miklu frekar að segja bylting, í skólamálum hefur gengið yfir. Er það eflaust til marks um hversu vel hún hefur gengið. Á fleiri sviðum hefur Ásdís Halla að standa sig vel. Sérstaklega er gaman að kynna sér málefni nýs vefs bæjarins. Nýi vefurinn boðar alger tímamót í rafrænum samskiptum sveitarfélags við íbúa sína. Allir Garðbæingar geta fengið lykilorð að vefnum og gert eigin útgáfu af vefnum, tekið þátt í umræðum og ákvarðanatöku almennt. Meðal þess sem hægt er að skoða á vefnum er staða gjalda svo sem fasteigna- og leikskólagjalda. Hægt er að senda formleg bréf til bæjarstjórnar og senda inn athugasemdir við auglýst skipulag.

Ánægjulegt hefur verið að fylgjast með því hvernig unnið hefur verið í málum þarna. Eins og fyrr segir hefur Ásdís Halla unnið af krafti og er mjög ánægjulegt að kynna sér stöðu mála í sveitarfélaginu og öflugt starf hennar og annarra forystumanna flokksins þar. Þar hefur verið unnið með kraft að leiðarljósi á nær öllum sviðum. Garðabær undir forystu Ásdísar Höllu hefur verið bær tækifæranna, sveitarfélag sem er í fararbroddi og hún hefur verið virt fyrir störf sín þvert á stjórnmálalínur. Það er besti vitnisburðurinn um verk hennar að hún hefur leitt farsæl mál með glæsilegum hætti. Það er mér mjög mikil vonbrigði að hún víki úr sveitarstjórnarpólitík og feti annan stíg. Að mínu mati er hún einn frambærilegasti stjórnmálamaður sinnar kynslóðar. Að henni er svo sannarlega eftirsjá, það er alveg óhætt að fullyrða það. Ég óska henni góðs gengis og farsældar á nýjum vettvangi, en lýsi yfir hryggð minni á brotthvarfi hennar úr stjórnmálum. Það hefur verið ánægjulegt að kynnast forystu hennar innan flokksins og vonandi kemur hún aftur síðar.

Jón Baldvin Hannibalsson sendiherraÞað er merkilegt að fylgjast með formannsslagnum í Samfylkingunni. Formannsefnin, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Össur Skarphéðinsson, hika ekki við að skjóta hvort á annað, þó pent sé og baráttan er hörð. Það sést best á málum seinustu daga sem sannar hversu gríðarleg smölun var í flokkinn undir lokin. Þar var þroskaheft fólk á sambýlum og unglingar á sextánda ári í grunnskóla engin undantekning frá öðrum. Klögumálin ganga víða og kjörnefndin hefur haft í nógu að snúast við að leiðrétta allnokkrar skráningar. Nú hafa gamlir kratahöfðingjar sem sitja á friðarstóli í opinberum störfum eftir pólitíska þátttöku til fjölda ára látið til sín taka í slagnum. Nýlega birtist á stuðningsmannavef Össurar stuðningsgrein við hann eftir Sighvat Björgvinsson framkvæmdastjóra Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og fyrrum viðskiptaráðherra og formann Alþýðuflokksins. Þar telur hann upp staðreyndir sem hann telur grunn þess að Össur eigi að vera áfram á formannsstóli.

Í dag birtist á stuðningsmannavef Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur grein eftir Jón Baldvin Hannibalsson þar sem hann svarar skrifum Sighvats. Skrifum hans verður vart tekið öðruvísi á þessum vef en sem svo að hann styðji Ingibjörgu Sólrúnu til formannsembættisins. Hvergi í greininni lýsir hann þó yfir beinum stuðningi við formannsframboð hennar. En það svona liggur í línunum hvar stuðningur hans liggur. Það er merkilegt að fylgjast með þessum tveim höfðingjum kratapólitíkurinnar skrifast á með þessum hætti. Sérstaklega í ljósi þess að Jón Baldvin studdi Sighvat til formannsembættisins er hann hætti árið 1996 og þeir voru samherjar á þeim tíma. Nú reyndar hafa formannskandidatarnir á þeim tíma þeir Sighvatur og Guðmundur Árni sameinast að baki Össuri. Fylkingarnar í þessum formannsslag eru því ansi merkilegar og virðast ekki fara eftir gömlum flokksböndum. En eftirtektarverðast er að tveir menn með sendiherraígildi skrifist á með svona opinberum hætti um pólitík. Sighvatur er sem framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar með sendiherraígildi og Jón Baldvin er sendiherra í Finnlandi, eins og kunnugt er. Fyrir nokkrum mánuðum töldu vissir Samfylkingarmenn óviðeigandi að sendiherra okkar í Danmörku tjáði sig um pólitík með setu í stjórnarskrárnefnd en nú virðast engin bönd gilda um kratahöfðingjana tvo er þeir koma aftur á sviðið.

Punktar dagsins
Michael Howard og Tony Blair

Vika er til þingkosninganna í Bretlandi. Harkan í slagnum er meiri nú en nokkru sinni að margra mati. Mjög hart er fram gengið í að tjá skilaboð flokkanna og persónuskítkastið milli helstu leiðtoganna ber keim þess sem var í bandarísku forsetakosningunum fyrir nokkrum mánuðum. Ekkert virðist til sparað. Jafnast hefur mjög saman með flokkunum og er munurinn nú orðinn innan skekkjumarka. Annars virðast fylgissviptingarnar vera miklar milli daga, annan daginn er Verkamannaflokkurinn með nokkuð forskot en hinn eru flokkarnir stóru svo til jafnir. En það er alveg ljóst að Íhaldsflokkurinn á enn séns í stöðunni. Allnokkur sæti kratanna eru í hættu og gætu fallið á hvern veg sem er í mörgum af einmenningskjördæmunum. Merkilegt er að fylgjast með rimmunni milli þeirra Tony Blair og Michael Howard. Þar er sko ekkert slegið af. Howard hefur gengið fram af miklum krafti og sakað forsætisráðherrann um ósannindi og hafa svikið þjóðina.

Segja má að hann hafi fengið uppreisn æru þegar áliti ríkislögmanns Bretlands um Íraksstríðið, sem efaðist um lögmæti innrásarinnar í Írak kæmi ekki til önnur ályktun frá Sameinuðu þjóðunum, var lekið í BBC. Þetta lagaálit var aldrei birt þá og því er ljóst að Blair hefur hagrætt sannleikanum er hann sagði að önnur lagaálit hefðu ekki komið til á sínum tíma. Þetta er auðvitað vatn á myllu íhaldsmanna þessa dagana, enda virðast ummæli þeirra og frjálslyndra um Blair hafa verið rétt seinustu vikurnar. Nú hefur svo forsætisráðuneytið birt lagaálitið á vef sínum, til að sporna við gagnrýninni. En eftir stendur auðvitað að forsætisráðherrann hefur orðið missaga um málið og hefur haft lagaálit ríkislögmannsins algjörlega að vettugi. Hvað sem Blair segir eða gerir breytir ekki þeim staðreyndum. Þetta óneitanlega kemur sér illa fyrir hann að fá þetta upplýst aðeins sjö dögum fyrir kosningar. En hvort og þá hvaða áhrif þetta muni hafa ræðst auðvitað í kosningabaráttu næstu daga. En harkan eykst sífellt.

Laura Welch Bush og Jay Leno

Laura Welch Bush forsetafrú Bandaríkjanna, var gestur spjallþáttastjórnandans Jay Leno í þætti hans í vikunni. Þar var hann aðallega að ræða við hana um lífið í Hvíta húsinu og störf hennar seinustu vikur. Er þetta í fjórða skipti sem hún kemur til Leno frá forsetakosningunum í fyrra. Forsetafrúin hefur vakið athygli að undanförnu fyrir að fara ferðir án eiginmannsins, t.d. til Íraks og Afganistans. Hefur hún verið mun meira áberandi það sem af er þessu kjörtímabili en var á hinu seinasta. Enginn vafi leikur á því að Bush-hjónin bæði eru mun meira áberandi og koma fram með mun afgerandi hætti en var á fyrra kjörtímabilinu. Þau þurfa enda ekki að óttast aðrar kosningar. Stjórnmálaferli forsetans lýkur er kjörtímabilinu lýkur í janúar 2009. Þau munu þá setjast að í Texas og sinna rólegheitalífi. Leno spurði reyndar forsetafrúna hvort hún stefndi á framboð sjálf er kjörtímabilinu lyki. Er varla undarlegt svosem að sú spurning vakni í ljósi þess að samkvæmt skoðanakönnunum er forsetafrúin vinsælli en forsetinn. Hún svaraði spurningunni neitandi, enda sagðist hún varla geta beðið þess að opinberum störfum eiginmannsins lyki, svo þau gætu þá vikið úr opinberu lífi. Það er alveg ljóst þegar skoðanakannanir eru skoðaðar að framganga forsetafrúarinnar hefur styrkt mjög persónufylgi forsetans í gegnum tíðina. Til dæmis blasir við að hann hefði átt mun erfiðara með að ná endurkjöri í nóvember 2004 án hennar.

A Streetcar Named Desire

Horfði í gærkvöldi á úrvalsmyndina A Streetcar Named Desire sem er byggð á samnefndri sögu eftir Tennessee Williams, sem var ein þekktasta skáldsaga 20. aldarinnar. Árið 1947 færði kvikmyndaleikstjórinn Elia Kazan söguna á svið á Broadway og hlaut mikið lof fyrir. Fjórum árum síðar gerði hann myndina. Útkoman var ein eftirminnilegasta kvikmynd 20. aldarinnar. Mögnuð saga sem segir frá fegurðardísinni Blanche sem kemur í heimsókn til systur sinnar Stellu og mannsins hennar, Stanley. Smám saman komast þau að raun um að Blanche segir ekki alltaf satt. Hver er munurinn á sjálfsblekkingu og draumaveröld? Lánleysið blasir allsstaðar við og það eina sem hægt er að binda vonir við, eru þráin, girndin og ástin. Í aðalhlutverkum voru Vivien Leigh, Kim Hunter, Karl Malden og nýstirnið Marlon Brando, sem hafði slegið í gegn, 23 ára gamall, í hlutverki Stanley á Broadway í sýningunni 1947. Brando átti leiksigur í hlutverki Stanley Kowalski og varð stórstjarna í kvikmyndaheiminum á einni nóttu og einn frægasti leikari 20. aldarinnar. Vivien Leigh, Kim Hunter og Karl Malden fengu öll óskarinn fyrir leik sinn og Kazan var tilnefndur fyrir leikstjórn og Brando fyrir magnaðan leik sinn. Ég hvet alla kvikmyndaunnendur til að sjá þetta magnaða meistaraverk ef þeir eiga tök á því, betri mynd er vart hægt að sjá.

Sjálfstæðisflokkurinn

Sjálfstæðisflokkurinn mælist langstærsti flokkur landsins í nýrri skoðanakönnun sem Frjáls verslun hefur gert fyrir vefinn heimur.is, sem er viðskiptavefur blaðsins. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 38% fylgi, Samfylkingin hlýtur rúmlega 31%, Vinstrihreyfingin - grænt framboð mælist með 14%, Framsóknarflokkur hefur tæp 11% og Frjálslyndir hljóta 5%. Samkvæmt þessu hlyti Sjálfstæðisflokkur 24 þingsæti, Samfylkingin 20, Vinstri grænir 9, Framsókn 7 og Frjálslyndir 3. Könnunin var framkvæmd í þessari viku, dagana 25. - 27. apríl. Vissulega ber að taka allar skoðanakannanir með vara, en þessi mæling er engu að síður mjög í takt við könnun Gallups í marsmánuði. Það er alltaf gott fyrir okkur í flokknum að fá góða mælingu. Það er allavega mjög hvetjandi að sjá svona tölur, þó alltaf séu skoðanakannanir bara vísbendingar, ekkert meira.

Saga dagsins
1237 Bardagi háður að Bæ í Borgarfirði - það féllu fleiri en 30 manns alls í þessum mikla bardaga
1819 Tukthúsið í Reykjavík gert að embættisbústað - þar er nú skrifstofa forsætisráðherra Íslands
1945 Benito Mussolini fyrrum einræðisherra Ítalíu, tekinn af lífi á flótta ásamt ástkonu sinni, Clöru Petacci - hann var við völd á Ítalíu frá 1922, en tók sér alræðisvald 1928 en svo steypt af stóli 1943
1969 Charles De Gaulle forseti Frakklands, biðst lausnar eftir ósigur í þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem kosið var um breytingar á stjórnarskrá landsins. De Gaulle hafði þá setið á forsetastóli í 11 ár
1986 Sovétstjórnin viðurkennir loks tilvist kjarnorkuslyssins í Chernobyl-kjarnorkuverinu í Úkraínu

Snjallyrðið
The greatness comes not when things go always good for you. But the greatness comes when you're really tested, when you take some knocks, some disappointments, when sadness comes. Because only if you've been in the deepest valley can you ever know how magnificent it is to be on the highest mountain.
Richard Nixon forseti Bandaríkjanna (1913-1994)


Engin fyrirsögn

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Þingflokkur Framsóknarflokksins birti formlega í dag upplýsingar um eignir þingmanna flokksins. Er þar um að ræða eignir þeirra í fasteignum, fyrirtækjum, sjóðum og prívateignir sem gera þarf upp almennt. Ennfremur eru talin upp laun fyrir störf utan þingsins, boðsferðir og gjafir almenns eðlis. Fór ég í dag ítarlega yfir listann með upplýsingunum og tel þetta mjög gott framtak hjá Framsóknarflokknum. Reyndar má telja líklegt að þetta leiði til þess að forsætisnefnd setji reglur um slíkt almenns eðlis hvað varðar alla þingmenn. Að mínu mati er sjálfsagt að þingmenn gefi slíkt upp, enda eiga þingmenn að vera með hreinan skjöld gagnvart umbjóðendum sínum. Að mínu mati eiga allir þingmenn nú að feta í þessi fótspor og taka upp þennan hátt á.

Undanfarnar vikur og mánuði hefur mikið verið talað um eignatengsl þingmanna Framsóknarflokksins við hin og þessi öfl í landinu og fyrirtæki af ýmsu tagi og margar dylgjur gengið í þinginu um það. Sérstaklega hafa þingmenn Samfylkingarinnar haft hátt um það og talað af krafti, að því er virðist að mestu til að reyna að dekka innri ólguna í eigin flokki og starta umræðu á annarlegum forsendum um málin. Segja má að ummæli Samfylkingarþingmanna hafi jaðrað við dylgjur og árásir á undarlegum forsendum. Það sjá allir sem fara yfir þennan lista að þingmennirnir eru margir hverjir ekki með neinn eignarhlut í fyrirtækjum en sumir þingmenn og makar þeirra eiga eitthvað í fyrirtækjum en þó verulega smávægilega hluti.

Það sannast þegar litið er yfir listann að þingmenn Samfylkingarinnar fóru offari í þingumræðum fyrr á árinu þegar dylgjað var um vissa þingmenn Framsóknarflokksins. En eftir stendur að Samfylkingin og flokkarnir á undan þeim vinstra megin, Þjóðvaki og hvað þeir heita allir, hafa talað og talað um þessi mál í rúman áratug, undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur. Það mætti þó segja mér að Jóhanna blessunin sé fúl yfir að þurfa frumkvæði framsóknarmanna til að birta tölur fyrir sinn flokk. Jóhanna hefur prívat og persónulega aldrei lagt í það sjálf að birta svona tölur opinberlega. Ekki það að ég telji hana stóreignamanneskju eða eitthvað stórhættulega í þessum efnum. En málið er það að þau hefðu getað tekið frumkvæðið en misstu það til Framsóknarflokks. Ég hef heyrt á mörgum seinustu daga sem ég þekki innan Samfylkingarinnar að fólki þar finnist blóðugt að frumkvæðið í þessu verði framsóknarmanna. En umræðustjórnmálin eru víst svona í réttinni hennar Ingibjargar Sólrúnar, menn tala þar til frumkvæðið færist annað. En hvað ætli Samfylkingin druslist ekki til núna eftir baráttu í áratug og verði eftirbátur Framsóknarflokksins í þeim efnum. Það hefur verið mál þeirra síðan 1995 allavega að taka þetta system upp en missa svo frumkvæðið til Framsóknar af öllum flokkum. Þetta er ansi kómískt, ekki satt lesandi góður?

Ingibjörg Sólrún og Össur í KastljósinuFormannsefnin í Samfylkingunni, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Össur Skarphéðinsson, áttust við í Kastljósinu í gærkvöldi. Heldur settlegra var yfir þarna en í Íslandi í dag í síðustu viku. Engum duldist þó sem á horfði að þau eru að berjast um allt eða ekkert í pólitík hvað varðar forystu í landsmálapólitík. Þrátt fyrir loforð um að bæði haldi áfram í stjórnmálum tapi þau slagnum liggur í loftinu að það þeirra semt tapi víki úr forystusveitinni og láti hinu eftir sviðið að mestu leyti. Össur sem formaður flokksins í fimm ár og leiðtogi í kjördæmi að hálfu flokksins í síðustu kosningum getur varla með góðri samvisku verið undirmaður ISG á skútunni ef hann tapar og ISG sjálf mun eiga erfitt með að koma inn á þing í haust og taka sess í þinginu hafi hún tapað formannsslagnum fyrir Össuri og þar með fyrstu einstaklingskosningu sinni í pólitík.

Voru nokkur lúmsk skot sem flugu á milli en greinilega mjög settleg. Bakvið tjöldin eru þau ekki eins settleg. Sögur eru um að fólk í öðrum flokkum hafi verið skráð í flokkinn og fengið atkvæðaseðla vegna formannskjörsins án þess að það hafi gengið í flokkinn sér vitanlega. Svo kom skondnasta dæmið í gærkvöldi þar sem voru nokkrir tíundu bekkingar í borginni sem skráðu sig í flokkinn í röðum. Það er vissulega ánægjulegt ef ungt fólk hefur skoðun í pólitík en einhvernveginn ber skráning þeirra merki smölunar fyrir annan frambjóðandann. Það er merkilegt að fylgjast með þeirri örvæntingu ISG-liða í umræðunni að ætla Sjálfstæðisflokknum það að stjórna kjörinu. Það er eitthvað nýtt að Ingibjörg og sveitin hennar opinberi hræðslu sína við Sjálfstæðisflokkinn, en það er nú einu sinni svo, lesandi góður, að öll hennar valdabarátta seinustu árin hefur einkennst af því að magna upp samstöðu gegn Sjálfstæðisflokknum. Það er skondnara en allt annað í stjórnmálaumræðunni þessa dagana að fylgjast með ISG og innstu hjörð hennar reyna að nota Sjálfstæðisflokkinn og flokksbundið fólk þar sem grýlu innan eigin raða til að reyna að fá hinn almenna flokksmann til að styðja sig þegar við blasir að engan veginn er öruggt lengur að hún nái kjöri og jafnvel gæti stefnt í að þessi forna vonarstjarna vinstrimanna tapi fyrstu einstaklingskosningu sinni.

Punktar dagsins
Charles Kennedy, Tony Blair og Michael Howard

Nú þegar níu sólarhringar eru í að kjörstaðir opni á Bretlandseyjum er kosningabaráttan að taka á sig enn harðari og óvægnari mynd en verið hefur. Ljóst er af lokasprettinum að enginn tekur neina sénsa. Þrátt fyrir gott gengi í skoðanakönnunum tefla kratarnir á engin vöð og leggja allt í slaginn, meiri kraft tel ég en 1997 og 2001. Helgast það auðvitað af því að staðan er brothættari nú en þá, þó vissulega sé fylgismunurinn nokkur miðað við skekkjumörkin. Var greinilegt að settlegt yfirbragð var yfir flokksleiðtogunum er þeir komu fram saman opinberlega í dag við afhjúpun minnismerkis um lögreglumenn í London, en heldur betur þótti kalt yfirbragð á þeim. Myndin hér að ofan segir meira en mörg orð. Harkan í slagnum er mikil og settlegheitin megna ekki að hylja kuldalegheitin milli allra þriggja helstu flokksleiðtoganna innbyrðis. Í dag sakaði Michael Howard forsætisráðherrann um að hafa sagt þjóðinni ósatt vegna Íraksmálsins æ ofan í æ. Jafnframt sagðist hann enn trúa því að íhaldsmenn gætu unnið kosningarnar, það væri enginn leikur búinn fyrr en hefði verið flautað af. Í dag urðu kratar fyrir áfalli, enda sagði þingmaðurinn Brian Sedgemore sig úr flokknum og fór yfir til frjálslyndra. Segja má að rólegt hafi verið yfir Charles Kennedy leiðtoga frjálslyndra. Flokkur hans er þó að bæta við sig í könnunum og virðist græða að hafa einn flokka verið á móti Íraksstríðinu. En klukkan tifar í kjördag og kosningabaráttan harðnar.

Diane Keaton og Woody Allen í Annie Hall

Fór í gærkvöldi á stefnumótunarfund í Borgir. Gekk mjög vel og var mjög notalegt og gott spjall um málaflokkinn sem við tókum fyrir. Hann er reyndar stór og mikill, en það var notalegast af öllu við að fara yfir hann hvað okkur hefur gengið vel í honum. Nóg samt um að spjalla og fara yfir. Áttum við mjög góða stund þarna og ræddum málin fram og til baka. Sérstaklega var gaman að spjalla við Þóru, en hún hafði margar sögur af segja af blakmótinu, en þar landaði hún og hennar lið Íslandsmeistaratitli, glæsilegt hjá Þóru. Eftir fundinn leit ég í heimsókn til Hönnu systur. Tvíburadætur hennar, Andrea og Berglind, eru algjörar fótboltagellur og æfa og keppa bolta alveg á fullu í Boganum þessar vikurnar. Þær eru að fara í ferð til Danmerkur í júníbyrjun með liðinu. Er þar um að ræða kynnis- og æfingaferð. Þær eru alveg á fullu þessa dagana að safna sér inn fyrir ferðinni. Það vantar ekki ættardugnaðinn í stelpurnar. Dáist alveg að þeim, þær eru sko á fullu og gera þetta af sál og krafti. Eru að selja brauð, harðfisk, eldhúsrúllur og ég veit ekki hvað og hvað. Nóg um að vera. Keypti af þeim brauð og slatta af harðfiski. Það er um að gera að leggja hönd á plóginn hjá þessum upprennandi Danmerkurförum. :)

Er heim kom horfði ég á Annie Hall, hina stórfenglegu kvikmynd meistara Woody Allen. Er þetta frábær mynd, hiklaust ein af mínum uppáhaldsmyndum. Í henni eru góðir kómískir þættir en einnig má finna fyrir alvarlegum undirtón og skemmtilegri sýn á nútímaástarsamband þess tíma. Er í raun sjálfsævisöguleg úttekt á sambandi Allens og Diane Keaton en þau eru bæði tvö hreint ómótstæðileg í myndinni. Hér er nóg af hinum venjulegu en alltaf óvæntu Allenbröndurum og pælingum um ástina en líka dýpri og innilegri íhuganir, enda er Annie Hall persónulegasta mynd Allens fyrr og síðar, gerð af einstakri hlýju og miklum skilningi og ógleymanlegum húmor. Fjallar um stormasamt ástarsamband grínista og söngkonu sem á sér háleit markmið í lífinu og mikla drauma. Inn á milli fljóta hressilegir brandarar og snjallar athugasemdir um lífið og tilveruna að hætti Woody Allen. Diane Keaton hlaut óskarinn fyrir leik sinn og myndin var valin besta kvikmynd ársins og Allen hlaut leikstjóraóskarinn. Klassísk kvikmynd sem verður sífellt meira meistaraverk með hverju áhorfi. Frábær mynd sem ég horfi reglulega á. Ávallt viðeigandi - alltaf ljúf.

Vinir (Friends)

Nú í vikunni var ég að kaupa restina af hinum frábæru Friends-þáttum á DVD. Um þessar mundir er ár liðið síðan að þessi einn vinsælasti sjónvarpsþáttur seinasta áratugar, og óneitanlega ein af helstu táknmyndum tíunda áratugarins, leið undir lok er lokaþátturinn var sýndur í Bandaríkjunum. Til marks um vinsældir þáttanna horfðu rúmlega 50 milljón manns á lokaþáttinn í Bandaríkjunum, er hann var sýndur þann 6. maí 2004. Þættirnir um Vini nutu alla tíð mikilla vinsælda, frá því fyrsti þátturinn var sýndur í Bandaríkjunum þann 22. september 1994. Þættirnir voru á þessum áratug sýndir í rúmlega 100 löndum. Aðalleikarar þáttanna: Courtney Cox Arquette, Matthew Perry, Jennifer Aniston, David Schwimmer, Lisa Kudrow og Matt Le Blanc (sem voru öll nær óþekkt við upphaf sýninga þáttanna), fengu við lok framleiðslu þeirra, alls eina milljón dollara, um 73 milljónir íslenskra króna, fyrir hvern þátt. Mikil leynd ríkti yfir sögulokum þáttarins í fyrra og t.d. voru mörg atriði lokaþáttarins tekin upp leynilega án áhorfenda í upptökusal og leikendur og aðrir sem unnu að gerð þáttanna voru látnir sverja þagnareið. Fylgdist ég með þáttunum um Vini allt frá byrjun fyrir 10 árum og alltaf haft mjög gaman að þeim. En já, það er gott að það verður hægt um langa hríð að ylja sér við hinar góðu minningar um Vinina á DVD.

Eskifjörður

Ég er að fara austur um helgina. Það er alltaf gaman að fara austur, eiginlega fer maður þangað alltof sjaldan. Austfirðirnir skipa sérstakan sess í hjarta mínu, enda á ég þar marga ættingja og vini. Mamma er frá Eskifirði og þangað er því alltaf gaman að koma í heimsókn. Afi minn, Friðrik Árnason, bjó þar alla tíð, allt til dánardags árið 1990. Hann var hreppstjóri þar til fjölda ára og varð fyrsti heiðursborgari Eskifjarðarbæjar. Amma mín, Sigurlín Kristmundsdóttir, fluttist austur árið 1923 með foreldrum sínum og bræðrum og bjó þar allt til ársins 1974 er hún fluttist með mömmu og fjölskyldu minni norður. Pabbi er að norðan og fór svo að mamma fluttist norður með honum þá. Ég bjó því aldrei fyrir austan sjálfur. Amma var jarðsett fyrir austan er hún lést fyrir fimm árum, en hún bjó í Eyjafirði seinustu 26 árin. Á laugardaginn ætla ég mér að fara í kirkjugarðinn á Eskifirði og eiga þar stund með sjálfum mér við legstað ömmu og afa. Það er alltaf gott að helga þeim sem eru farnir stund í huga sér. Á ljósmyndavef Helga Garðarssonar á Eskifirði er að finna fjöldann allan af gömlum og góðum myndum. Er viðeigandi að benda á nokkrar myndir hér sem mamma hefur nýlega sent Helga úr ljósmyndasafni fjölskyldunnar.

Lína amma - Friðrik afi - mamma - Afi og Frissi - langafi og langamma - mamma og Hjalli frændi

Saga dagsins
1834 Tvö skip og fjórtán bátar fórust í gríðarlegu ofsaveðri á Faxaflóa og með þeim fórust 42 menn
1923 Albert Bretaprins (síðar George VI konungur) kvænist Elizabeth Bowes-Lyon - varð konungur Englands árið 1936 og ríkti allt til dauðadags árið 1952. Elizabeth lifði George í hálfa öld og lést 2002
1986 Kjarnorkuslys verður í kjarnorkuverinu í Chernobyl í Úkraínu - hið mesta í mannkynssögunni
1991 Davíð Oddsson þáv. borgarstjóri, tók í notkun móttöku- og flökkunaraðstöðu Sorpu í Gufunesi
1993 Niðursveiflu í efnahagsmálum á Englandi lýkur formlega - þrátt fyrir að staða efnahagsmála bættist til mikilla muna árin á eftir tapaði Íhaldsflokkurinn þingkosningunum í landinu á árinu 1997

Snjallyrðið
Freedom consists not in doing what we like, but in having the right to do what we ought.
Jóhannes Páll II páfi (1920-2005)


Engin fyrirsögn

AkureyriHeitast í umræðunni
Óhætt er að fullyrða að okkur íbúum Akureyrar hafi brugðið mjög í síðustu viku, rétt eins og eflaust öllum landsmönnum, vegna atburða sem átti sér stað er 17 ára strákur hér í bænum var keyrður upp á Vaðlaheiði og skotið á hann úr loftbyssu. Enginn vafi er á því að þar var um að ræða aðför að stráknum af hálfu handrukkara sem voru að innheimta fíkniefnaskuld. Ég verð að segja það fyrir mig alveg hreint út að ég varð orðlaus yfir þessum fréttum og hef ekki talið rétt að skrifa hér vegna þessa máls fyrr en nú.

Satt best að segja átti ég ekki von á að skuggahliðarnar væru orðnar svona áberandi í bæjarlífinu og mér er einfaldlega brugðið. Það er ljóst að dópdraugurinn er kominn hingað af enn meiri krafti en okkur hafði órað fyrir og menn verða að horfast í augu við stöðu mála og það sem meira er að leggja til atlögu gegn vágestinum af krafti nú. Samkvæmt fréttum þessa dagana munu mennirnir tveir sem áttu hlut að máli í árásinni að stráknum ganga nú lausir en þeir voru þó báðir á skilorði. Er engin furða þó reiði bæjarbúa kraumi undir af enn meiri krafti vegna þess.

Mér er ofboðið vegna þessa máls, sem og flestum bæjarbúum. Nú er komið að því að við segjum hingað og ekki lengra! Nú verða menn að taka til hendinni og leggja til atlögu. Svona ógeðslegheit og ómenningarbragur á enga samleið með þeirri stefnu sem við í bæjarstjórnarmeirihlutanum höfum markað okkur með fjölskyldustefnu bæjarins. Akureyri á að vera þekkt fyrir að vera fjölskylduvænt sveitarfélag: fjölskyldu- og skólabær. Það er sú stefna sem við höfum markað og við getum því ekki setið þegjandi hjá og horft upp á þessa þróun að misyndismenn vegi að rótum bæjarins og okkar mannlífsbrag. Unnið hefur verið af krafti af því að marka bænum þann sess að hann sé vettvangur heilbrigðs fjölskyldulífs en ekki vettvangur misyndismanna og villimennskuaumingja sem vega að heilbrigðum rótum mannlífs.

Það er ómögulegt að horfa þegjandi á það sem hefur gerst hér seinustu daga. Það er komið að okkur, bæjarbúum öllum, að rísa upp og mótmæla og taka á þessum málum. Ég og fleiri bæjarbúar undir forystu Ragnars Hólms Ragnarssonar höfum ákveðið að standa fyrir mótmælum hér í bænum á föstudag og tjá skoðun okkar á þessari ómenningu og lýsa yfir eindreginni andstyggð okkar á þessum verknaði og dópmenningunni yfir höfuð sem virðist verða æ meira áberandi hér. Á þeim fundi fáum við bæjarbúar færi á að segja okkar skoðun. Það eru því eindregin tilmæli mín til Akureyringa allra að koma á Ráðhústorg klukkan fimm á föstudag og taka þátt í að mótmæla. Þar munum við halda á lofti rauðu dómaraspjaldi og tjá okkar hug með því. Burtu með þennan fjárans ósóma og nú verða menn að taka til hendinni, það er ekkert sem heitir með það! Látum í okkur heyra!

Gordon Brown og Tony Blair10 dagar eru til þingkosninga á Bretlandi. Kannanir sýna öruggt forskot Verkamannaflokksins á Íhaldsflokkinn. Að óbreyttu munu þeir því halda velli og Tony Blair halda forsætisráðherrastólnum enn um sinn og ná að landa sögulegum áfanga á ferli sínum: að leiða kratana til þriðja kosningasigurs síns í röð. Fram til þessa hefur aðeins Margaret Thatcher tekist í breskri pólitík að vinna þrisvar í röð. Svo virðist vera að þrátt fyrir að Íraksmálið brenni á fólki og mörgum kjósendum blöskri forysta Blairs í því máli og vinnubrögð hans muni honum verða falin forystan áfram. Allar kannanir það sem af er gefa það eindregið til kynna. Svo virðist vera sem að sú yfirlýsing hans um að þetta verði síðasta kosningabarátta hans hafi gert það að verkum að það slagorð gangi að það sé allt í lagi að kjósa Blair áfram því hann sé að fara að hætta og menn vilji hrósa honum að einhverju leyti. The Sun sem hefur lýst yfir stuðningi við kratana hefur sagt að það sé í lagi að kjósa Blair enn einu sinni, en nefnir engar málefnalegar ástæður fyrir því.

Eins og sjá má af meðfylgjandi mynd er Gordon Brown eins og skugginn á eftir Blair þessa dagana. Hvert sem Blair fer, fer Brown líka. Er þetta til marks um það að Brown er orðinn meginsegull flokksins á kjósendur. Nýleg könnun sýndi að flokkurinn myndi hljóta 48% fylgi ef Brown væri leiðtogi hans. Er enginn vafi lengur á því að Brown er orðinn sá sem flestir telja að taki við af Blair. Segja má að svo hafi þetta verið allt frá því Blair varð leiðtogi flokksins árið 1994 og forsætisráðherra árið 1997. Er enn talað mjög um leynisamning þeirra um skiptingu valda við andlát John Smith fyrir 11 árum. Segja margir að Blair hafi svikið þann samning, en sé nauðsynlegt nú að fá Brown með sér í kosningaferðir til að styrkja sig. Hefur hann talað um að hann muni sitja út næsta kjörtímabil. Er þó ólíklegt að hann muni gera það, ef marka má vilja Brown til að hljóta embættið. Þessa dagana er harkan sífellt að aukast í slagnum. Í dag sökuðu kratarnir hægrimenn um að svíkja stefnu Thatcher í efnahagsmálum með tillögunum og sögðu að henni hlyti að bregða við stefnu flokks síns. Á móti svaraði Michael Howard því til að kratarnir væru að reyna að hlaupa undan því að svara fyrir afglöp sín í Íraksmálinu. Skotin ganga á milli og baráttan harðnar, dag frá degi, þó flest bendi til að úrslitin sem slík séu ráðin.

Punktar dagsins
Ronald Reagan (1911-2004)

Í ferð minni til Washington DC fyrir hálfu ári keypti ég fjöldann allan af bókum um bandarísk stjórnmál og ævisögur þekktra stjórnmálamanna. Er ég var staddur í bókaverslun Barnes and Noble í Georgetown stóðst ég sérstaklega ekki mátið og ákvað að kaupa ævisögu Lou Gannon um Ronald Reagan 40. forseta Bandaríkjanna. Átti ég smárit byggt á bókinni en lengi viljað eignast allt ritið, sem eru tvær þykkar bækur í veglegri öskju. Þarna var bókin og ég gat ekki hugsað mér að fara án þess að kaupa kassann með bókunum tveim. Eftir að ég kom heim fór ég að lesa bækurnar og er óhætt að fullyrða að um er að ræða mjög vandaða umfjöllun um ævi forsetans og verk hans. Hef ég lesið margar bækur um ævi hans og verð í sannleika sagt að telja þessa þá bestu og jafnframt ítarlegustu. Er þetta gríðarlega vönduð samantekt og sennilega ein sú besta í bókarformi um forsetaferil Reagans og ekki síður um verk hans sem ríkisstjóra í Kaliforníu. Gannon fylgdist sem blaðamaður með ríkisstjórakosningunum 1966 þegar Ronald Reagan tók fyrst þátt í stjórnmálum og síðar í forsetakosningunum 1980, er Reagan náði kjöri til forsetaembættis, og hefur mikið skrifað um stjórnmálaferil hans.

Segir Gannon á leiftrandi hátt frá persónu Reagans og stefnumálum hans á valdastóli. Reagan var fyrsti forseti Bandaríkjanna sem beitti sér ákveðið gegn auknum ríkisútgjöldum og afskiptasemi ríkisins. Ásamt Margaret Thatcher færði hann hægrimönnum um allan heim þá trú að hægt væri að vinda ofan af gríðarlegum ríkisafskiptum. Afskipti ríkisins af viðskiptum og fleiri ráðandi þáttum samfélagsins var alla tíð sem eitur í beinum hans. Kraftmikil trú hans á einstaklinginn og mátt einkaframtaksins var grundvallarstef í öllum orðum og gerðum hans sem stjórnmálamanns og æðsta manns heims í 8 ára valdatíð sinni. Hann leiddi Kalda stríðið til lykta, tryggði endalok kommúnismans og trygga forystu Bandaríkjamanna á vettvangi heimsmálanna. Ronald Reagan setti sem forseti Bandaríkjanna mark sitt á söguna með baráttu sinni fyrir lýðræði og ekki síður með því að fylgja sannfæringu sinni í hvívetna og vera trúr lífshugsjónum sínum. Það er því mikil lífslexía fyrir alla hægrimenn að lesa þessa vönduðu ævisögu forsetans og hvet ég alla til þess að gera það. Um er að ræða góða og vel gerða bók með lifandi lýsingu um ógleymanlegan mann í sögunni.

Lawrence of Arabia

Ein er sú kvikmynd sem almennt er talin skyldueign fyrir hvern kvikmyndaáhugamann og er því eitt af meistaraverkum kvikmyndasögunnar. Ég horfði á þessa mynd í gærkvöldi. Í Lawrence of Arabia er rakin saga hins goðsagnakennda landkönnuðar T.E. Lawrence, sem lést árið 1935. Hann hélt út í eyðimörkina í fyrri heimsstyrjöldinni sem breskur hermaður og náði að sameina Araba í stríðinu gegn Tyrkjum. Þetta stórglæsilega kvikmyndaverk David Lean er ævintýralegt í jafnt umgjörð sem innihaldi, frábærlega kvikmynduð, klippt, skrifuð og leikin og nýtur sín hvergi betur en á breiðtjaldi. Sögulegur stórmyndastíll leikstjórans er varla tilþrifameiri en í þessu verki, það er mjög listilega spunnið við hið smáa mannlega. Leikaraliðið er ekki af verri endanum með Peter O'Toole í sínu frægasta og langbesta hlutverki, en hann fer á kostum í hlutverki Lawrence og vann sinn stærsta leiksigur í þessu hlutverki. Myndin var tilnefnd til 10 óskarsverðlauna en hlaut sjö, þ.á m. sem besta kvikmynd ársins, fyrir leikstjórn Lean, magnaða tónlist Maurice Jarré og kvikmyndatöku Freddie Young, sem enn er jafn stórfengleg nú og árið 1962. Ég hvet alla kvikmyndaunnendur til að sjá þetta magnaða meistaraverk ef þeir eiga tök á því, betri mynd er vart hægt að sjá. Ráðlegg ég að horft sé á lengstu útgáfu sem mögulegt er að sjá, því lengri sem myndin er, því betra og heilsteyptara meistaraverk sérðu.

Strákarnir á Stöð 2

Óhætt er að segja að mikið hafi verið deilt um þáttinn Strákana á Stöð 2 seinustu vikur og mánuði, eða allt frá því þeir hófu göngu sína á stöðinni í febrúar. Áður voru Auddi, Sveppi og Pétur með þáttinn 70 mínútur á PoppTíví sem sló í gegn en óhætt er að segja að þeir félagar hafi vakið athygli þar og verið alls óhræddir við að gera allt milli himins og jarðar. Þátturinn var sýndur á PoppTíví milli 22:00 og 23:10 og því var áhorfendahópurinn eldri en þeir sem horfa á Strákana milli 20:00 og 20:30 öll virk kvöld nema föstudaga. Ég verð að viðurkenna að ég hef oft lúmskt gaman af að horfa á þáttinn og lít reglulega á hann. En deila má vissulega um hvort um sé að ræða þroskandi efni fyrir krakka, enda er margt sprellið og hugdetturnar langt yfir velsæmismörk. En sumt er aðallega fyndið og saklaust. Nú hefur Ingibjörg Rafnar umboðsmaður barna, sent yfirmönnum Stöðvar 2 bréf og hvatt þá til að færa þáttinn lengra inn í kvölddagskrána, til að yngstu áhorfendurnir sjái ekki þáttinn. Er ég satt best að segja ekki sammála umboðsmanninum. Við megum ekki gleyma að börnin eru ekki sjálfs sín herrar á heimilinu. Það eru foreldrarnir sem ráða því auðvitað hvort þau fái að horfa á þáttinn. Það á að vera þeirra að bera ábyrgð á börnum sínum og ráða hvort og hvenær þau sjá þessa þætti, en ekki yfirmanna Stöðvar 2. Það er alveg einfalt mál.

Þóra Ákadóttir forseti bæjarstjórnar

Líflegt var yfir bænum um helgina. Telja má öruggt að vel á þriðja þúsund manns hafi verið hér í bænum vegna öldungamóts Blaksambands Íslands og Andrésar andar leikanna á skíðum. Íþróttalífið hér er alltaf blómlegt og sérstaklega skemmtilegt að sjá hversu margir hafa komið til bæjarins víðsvegar að af landinu. Um þarsíðustu helgi var líka hér talsverður fjöldi vegna söngkeppni framhaldsskólanna, sem gekk mjög vel og var skemmtilegt á að horfa. En mótin hér um helgina voru víst mjög vel heppnuð og ánægjuleg, ef marka má það sem ég hef heyrt. Annars varð vinkona mín, Þóra Ákadóttir forseti bæjarstjórnar, og lið hennar Íslandsmeistari í sínum flokki í blakinu á mótinu. Ég vil óska Þóru innilega til hamingju með þann glæsilega árangur.

Saga dagsins
1915 Hótel Reykjavík og ellefu önnur hús við Austurstræti í Reykjavík, brunnu í miklum eldsvoða
1944 Fyrsta alíslenska óperan, Í álögum, eftir Sigurð Þórðarson, var frumflutt í leikhúsi LR í Iðnó
1991 Bifreið var ekið í fyrsta skipti upp á tindinn á Hvannadalshnjúk, sem er hæsti tindur landsins
1999 Haldið var upp á Dag umhverfisins í fyrsta skipti hérlendis - leiddi til meiri umræðu um málin
2002 Tveir táningsbræður voru sýknaðir af því að hafa myrt hinn 10 ára gamla Damilola Taylor, sem var myrtur í Peckham í London í nóvember 2000. Með þessu fór rannsóknin að mestu á byrjunarreit

Snjallyrðið
The greatest honor history can bestow is that of peacemaker.
Richard Nixon forseti Bandaríkjanna (1913-1994)


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um 10 ára afmæli ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Að loknum þingkosningum 1995 var staðan með þeim hætti að stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks var brostið. Kom þar tvennt til: málefnalegur ágreiningur hafði verið milli flokkanna í kosningabaráttunni, einkum hvað varðar Evrópusambandið, og ennfremur var meirihluti stjórnarinnar naumur, aðeins eitt sæti. Deilur höfðu verið innan stjórnarinnar fyrir kosningarnar og kvarnast af þingmeirihlutanum við klofning innan Alþýðuflokksins og sólómennsku sumra þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Það var hárrétt ákvörðun hjá Davíð að slíta stjórnarsamstarfinu við kratana og leita eftir samstarfi við Framsóknarflokkinn. Hefur það samstarf skilað stjórnmálalegum stöðugleika og tryggt öflugt og gott þjóðfélag sem er vel stjórnað. Þrátt fyrir að flokkarnir hafi fengið á sitt borð mörg stór og erfið mál hefur flokkunum auðnast undir tryggri forystu formanna þeirra að leysa þau og vinna saman með samhentum hætti að því að vinna að þeim málum sem skipta okkur öll máli. Ávöxtur verka stjórnarinnar seinustu tíu árin blasa allsstaðar við eins og fyrr segir og leikur enginn vafi á að blómlegt er um að lítast. Allt í kringum okkur sjáum við hversu vel hefur til tekist.

- í öðru lagi fjalla ég um kjör Benedikts XVI á páfastól. Fer ég yfir ævi hans og feril í umfjöllun minni og fjalla um þennan umdeilda trúarleiðtoga sem tryggði sér páfastólinn með skjótum hætti í páfakjörinu. Kjör hans markar ekki mikil þáttaskil hjá rómversk - kaþólsku kirkjunni. Hinn nýkjörni páfi er 78 ára að aldri. Hann er því tveimur áratugum eldri en Jóhannes Páll II var þegar hann varð páfi árið 1978. Að svo gamall maður skuli verða fyrir valinu þykir vera vísbending um þrennt: yfirlýsing um að íhaldssöm stefna páfatíðar Jóhannesar Páls II haldist óbreytt og meginstef hennar verði áfram við lýði, að kardinálarnir hafi talið óæskilegt að velja of ungan mann til embættisins og með því auðvitað að nýr páfi verði ekki lengi við völd og síðast en ekki síst að hér hafi menn sæst á málamiðlun. Þegar eftir kjörið heyrðust margar óánægjuraddir. Einkum hafa mannréttinda- og kvenréttindahópar gagnrýnt harkalega kjör Ratzingers. Um er að ræða mann sem hefur vakið athygli fyrir íhaldssamar skoðanir og áherslur. Hann hefur hafnað öllum hugmyndum um nútímavæðingu kirkjunnar og er harður andstæðingur frjálslyndari stefnu og áherslna. Ég vona að honum farnist vel í embætti og muni verða jafnöflugur boðberi kristinnar trúar og friðarboðskapar og forveri hans.

- í þriðja lagi fjalla ég um formannsslaginn í Samfylkingunni sem sífellt harðnar og átakalínurnar þar og umræðu vissra aðila þess efnis að sjálfstæðismenn komi að formannskjöri flokksins. Þegar ég lít á þennan slag sé ég augljós sóknarfæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn í sigri beggja þessara formannsefna. Augljós niðurstaða er að ISG sé betri kostur fyrir okkur sjálfstæðismenn því hún mun að mínu mati minnka Samfylkinguna og stækka Sjálfstæðisflokkinn. Hinsvegar yrði að mínu mati ómögulegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að mynda ríkisstjórn með ISG. Hún hefur talað þannig að í raun hefur hún útilokað Sjálfstæðisflokkinn. Össur er líklegri til að halda Sjálfstæðisflokknum niðri í fylgi og Samfylkingunni stærri. Hann er hinsvegar líklegri til að vilja og geta starfað með Sjálfstæðisflokknum. Í þessu tvennu eru því sóknarfæri fyrir sjálfstæðismenn úr að vinna.

Punktar dagsins
Angelo Sodano kardináli kyssir á hönd Benedikts XVI páfa

Benedikt XVI páfi var formlega settur í embætti við útimessu á Péturstorginu í Róm í morgun að viðstaddri um hálfri milljón pílagríma. Við það tækifæri tók páfi við táknum páfavaldsins, fiskimannshringnum margfræga, sem eitt sinn var notaður til að innsigla postulabréf, og sjali úr ull af lambi. Með messunni hófst formlega embættisferill páfans og flutti hann predikun við þetta tækifæri þar sem hann ítrekaði að hann myndi halda uppi merkjum og stefnu forvera síns. Sagði hann að hugur sinn væri hjá öllum konum og körlum, vantrúuðum jafnt sem trúuðum. Benedikt XVI sagði að forveri hans væri nú kominn heim meðal dýrlinganna í himnaríki, en gekk þó ekki svo langt að segja að Jóhannes Páll skyldi tekinn í dýrlingatölu. Sú umræða er nú mjög uppi um að Jóhannes Páll II verði tekinn í dýrlingatölu. Vissulega er það eftirmanns hans að taka það til skoðunar og ráða ferlinu. Reyndar má minna á það að eftir að hann var kjörinn til embættisins á þriðjudag nefndi páfi forvera sinn sem hinn mikla. Það eru vissulega skilaboð um það hvort páfi verði tekinn í heilagra manna tölu. Er greinilegt að nýjum páfa er annt um að eiga góð samskipti við fjölmiðla og bauð þeim t.d. til sín í Páfagarð í gær og hélt einskonar blaðamannafund. Er ljóst að hann fetar mjög í fótspor forverans, sem þótti mjög fjölmiðlavænn páfi.

Der Untergang

Seinnipartinn í gær fór ég í Borgarbíó og sá þýsku úrvalsmyndina Der Untergang eða The Downfall. Myndin er gerð eftir sjálfsævisögu Traudl Junge, einkaritara Adolfs Hitlers, og gerist á síðustu 10 dögunum fyrir fall þriðja ríkisins í apríl 1945. Rauði herinn nálgast Berlín og meðan riðar veldi Hitlers til falls. Hann og nánustu samverkamenn neyðast til að hírast í byrgi sínu og bíða þess óumflýjanlega; endalokanna. Myndin hefur vakið athygli vegna þess að hún sýnir Hitler sem manneskju en ekki skrímsli. Las ég bók Junge um jólin og hafði beðið eftir myndinni, enda með mikinn áhuga á pólitík almennt. Óhætt er að segja að myndin sé góð og áhrifamikil. Myndin kemur til skila til áhorfandans með ljóslegum hætti bæði sturluninni og örvæntingunni sem ríkti í borginni þessa daga er veldi Hitlers er komið að leiðarlokum. Á þessum dögum sem myndin lýsir er Þýskaland nasistaríkis Hitlers í dauðateygjunum, og tími uppgjörsins, sem blasað hefur við að er handan við hornið, er framundan. Það er mjög erfitt að lýsa myndinni í mörgum orðum. Í þessu tilfelli er svo sannarlega sjón sögu ríkari. Myndin er full af upplifunum tímabils sem einhvernveginn flestir telja stóran hluta 20. aldarinnar en enginn vill í raun kannast við. Stórbrotin og ógleymanleg mynd sem ég varð mjög hugsi yfir. Hvet alla til að sjá hana. Þetta er mynd sem enginn má missa nokkru sinni af.

Björn Bjarnason flytur ræðu sína

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, ávarpaði í gær ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um baráttu gegn glæpum og opinbert réttarfar, sem haldin er þessa dagana í Bangkok, höfuðborg Thailands, dagana 18. til 25. apríl. Í ræðu sinni vék Björn að þáttum sem setja svip sinn á yfirlýsinguna, sem gefin verður út í lok ráðstefnunnar. Nefndi hann fjóra þætti: í fyrsta lagi mikilvægi þess, að einstök ríki yrðu, innan alþjóðareglna og eigin laga, að finna hinn gullna meðalveg til þess að tryggja öryggi borgaranna án þess að ganga um of gegn friðhelgi einstaklingsins. Allar aðgerðir og lagabreytingar sem gerðar væru til þess að berjast við skipulagða glæpastarfsemi, yrðu að taka mið af mannréttindareglum og flóttamannasamningum. Í öðru lagi nauðsyn þess að virkja hinn almenna borgara til samstarfs við þær opinberar stofnanir, lögreglu og aðra, sem gæta almannaöryggis. Í þriðja lagi að hindra misnotkun á nýrri tölvu- og fjarskiptatækni í þágu glæpastarfsemi. Lagði hann áherslu á að lögregla yrði að hafa nauðsynlegar heimildir til að sinna verkefnum sínum, án þess að tækniframfarir veittu brotamönnum nýtt eða aukið skjól. Í fjórða og síðasta lagi er það svo að forðast að nýta ný úrræði í réttarkerfinu. Var fróðlegt að lesa ræðu Björns og hvet ég lesendur vefsins til að líta á hana.

Sir John Mills (1908-2005)

Breski óskarsverðlaunaleikarinn Sir John Mills lést á heimili sínu í Buckinghamshire í gær, 97 ára að aldri. Mills var ein af goðsögnum breskrar leiklistar á 20. öld. Segja má hann hafi verið sá seinasti sem kvaddi af gömlu kynslóðinni sem setti mest mark sitt á kvikmyndaheim landsins og leikhúsmenninguna. Hann var einstaklega fjölhæfur og góður leikari. Mills hóf leikferil sinn á sviði í London en hann stundaði nám í konunglega listaháskólanum þar. Síðar hélt hann til Hollywood og lék þar í fjölda kvikmynda. Hann lék í rúmlega 100 kvikmyndum á glæsilegum ferli, t.d. Great Expectations, War and Peace, Gandhi og Ryan´s Daughter. Fyrir síðastnefndu myndina hlaut Mills óskarinn árið 1971 fyrir leik í aukahlutverki. Túlkun hans í þeirri mynd á þorpshálfvitanum Michael í litla írska þorpinu er ógleymanleg. Eftirlifandi kona hans er leikskáldið Mary Hayley Bell, en þau kvæntust árið 1941. Lætur Mills eftir sig þrjú börn. Dóttir hans, Hayley Mills, var barnastjarna og lék í fjölda þekktra kvikmynda á fimmta og sjötta áratugnum. Túlkun hennar á Pollýönnu er ógleymanleg. Með Mills er fallinn í valinn einstakur leikari, sannkallaður snillingur í næmri túlkun á svipmiklum karakterum á hvíta tjaldinu.

Saga dagsins
1914 Dauðadómur var kveðinn upp á Íslandi í síðasta sinn - dómnum var breytt í ævilangt fangelsi
1970 90 námsmenn ruddust inn í skrifstofur menntamálaráðuneytisins við Hverfisgötu í Reykjavík til að lýsa yfir stuðningi við kröfur námsmanna erlendis. Settust þau í ganga en borin svo út af lögreglu
1977 Skákmaðurinn Vlastimil Hort setti heimsmet í fjöltefli á Seltjarnarnesi - tefldi við 550 manns
1993 Sprengjutilræði IRA, Írska lýðveldishersins, í City hverfinu í London - rúmlega 40 slösuðust
1996 Feðgarnir Arnór og Eiður Smári Guðjohnsen léku í landsleik gegn Eistlandi - Ísland sigraði 3:0

Snjallyrðið
Being president is like being a jackass in a hailstorm. There's nothing to do but to stand there and take it.
Lyndon B. Johnson forseti Bandaríkjanna (1908-1973)


Engin fyrirsögn

10 ára afmæli ríkisstjórnar
Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks


Ríkisstjórnin - 23. apríl 1995

Áratugur er í dag liðinn frá því að ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hófst. Það var sunnudaginn 23. apríl 1995 sem ráðherraefni flokkanna komu saman á Bessastöðum á ríkisráðsfundi undir forsæti Vigdísar Finnbogadóttur þáverandi forseta Íslands, og tóku við embættum sínum. Stjórnin hafði verið mynduð eftir að upp úr stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, sem setið hafði að völdum í 4 ár, hafði slitnað með miklum hvelli. Í þingkosningunum sem fram höfðu farið þann 8. apríl 1995 hafði Sjálfstæðisflokkur misst eitt þingsæti frá þingkosningunum 1991, hlotið 25 í stað 26 en Alþýðuflokkurinn misst þrjá, farið úr 10 í 7. Meirihluti flokkanna var því naumur, aðeins 1 þingsæti. Flokkarnir höfðu 32 þingmenn en þáverandi stjórnarandstaða 31 þingsæti.

Munaði Alþýðuflokknum mjög um sérframboð Jóhönnu Sigurðardóttur fyrrum félagsmálaráðherra og varaformanns flokksins, sem hafði farið úr ríkisstjórn og klofið sig frá flokknum sumarið 1994, eftir að hafa tapað fyrir Jóni Baldvin Hannibalssyni þáverandi utanríkisráðherra, í harðvítugu formannskjöri á flokksþingi Alþýðuflokksins. Með því voru gerðar upp valdaerjur þeirra sem staðið höfðu í nokkur ár. Stofnaði hún flokkinn Þjóðvaka sem bauð fram í öllum kjördæmum í kosningunum 1995 en hlaut mun minna fylgi en búist hafði verið við. Segja má að klofningurinn hafi verið afdrifaríkur þegar á hólminn fyrir bæði Jón Baldvin og Jóhönnu. Bæði misstu þau með honum ráðherrastóla sína og pólitísk áhrif í ríkisstjórn. Tími Jóhönnu sem hún skírskotaði til í frægri ræðu sinni við tapið 1994 hefur ekki enn komið. Klofningur Alþýðuflokksins skaðaði bæði Jón Baldvin og Jóhönnu og þau misstu valdasess sinn.

Í kjölfar kosninganna 1995 tóku við stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks. Fljótt varð ljóst að grunnurinn var brostinn og meirihlutinn of naumur til að leggja í ferðalag til fjögurra ára með aðeins eins sætis meirihluta. Sjálfstæðisflokkurinn sleit því viðræðunum um páskahelgina 1995 og Davíð sagði af sér fyrir hönd stjórnarinnar þriðjudaginn 18. apríl 1995. Við tóku stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Davíð Oddsson formaður Sjálfstæðisflokksins, og Halldór Ásgrímsson formaður Framsóknarflokksins, hittust sömu helgi og handsöluðu samkomulag um stjórnarmyndunarviðræður. Eftir nokkurra daga viðræður var samkomulag flokkanna um samstarf staðfest af æðstu stofnunum þeirra. Að því loknu voru ráðherrar flokkanna valdir og tóku þeir við embættum sínum á fyrrnefndum fundi að Bessastöðum á þessum apríldegi í vorsólinni á Álftanesi.

Allir þekkja söguna sem fylgir í kjölfarið. Samstarfið stendur enn og er það til marks um hversu farsællega ríkisstjórn flokkanna hefur starfað og leitt farsæl mál til lykta með mikla samstöðu og kraft að leiðarljósi. Í Íslandssögunni hefur aðeins viðreisnarstjórnin svokallaða, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, setið lengur. Hún sat í 12 ár, á tímabilinu 1959-1971. Það er því ljóst að starfi stjórnin til loka kjörtímabilsins, í maí 2007, mun hún slá met viðreisnarinnar. Upphaflega var fjöldi ráðherra í stjórninni 10. Að loknum þingkosningunum 1999 var ákveðið að fjölga ráðherrunum í 12 og hefur svo verið síðan. Á þessum áratug hafa 22 setið í stjórninni, 12 frá Sjálfstæðisflokki en 10 frá Framsóknarflokki. Formenn stjórnarflokkanna eru þeir einu sem setið hafa í stjórninni allan tímann. Björn Bjarnason var menntamálaráðherra 1995-2002 en kom svo aftur í stjórnina ári síðar og hefur setið þar síðan.

Stjórnin hefur gengið í gegnum tvennar kosningar, árin 1999 og 2003, og hefur þingmeirihluti stjórnarinnar veikst í báðum kosningunum. Við stofnun hafði stjórnin 40 þingsæti af 63. Sjálfstæðisflokkur hafði 25 þingsæti en Framsóknarflokkurinn 15. Eftir þingkosningarnar 1999 tapaði stjórnin tveim þingsætum í heildina. Framsóknarflokkur missti þrjú þingsæti, hlaut 12 en Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig einum þingmanni og hlaut 26 í stað 25 áður. Í þingkosningunum 2003 veiktist þingmeirihlutinn nokkuð. Þá missti Sjálfstæðisflokkurinn 4 þingsæti, hlaut 22 í stað 26, en Framsóknarflokkurinn hélt sínum 12. Því er staðan nú eftir 10 ára samstarf flokkanna að ríkisstjórnin hefur 34 þingsæti en stjórnarandstaðan 29. Flokkarnir hafa í báðum kosningunum gengið óbundnir til kosninga en framlengt samstarfið og litið á samstarf sem besta kostinn.

Davíð Oddsson hafði verið forsætisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks og var það áfram við upphaf samstarfs flokkanna vorið 1995. Hann sat á forsætisráðherrastóli allt til 15. september 2004. Sömdu flokkarnir um það við upphaf núverandi kjörtímabils að forsætisráðuneytið færðist þá formlega yfir til Halldórs en þess í stað myndi Sjálfstæðisflokkurinn hljóta 7 ráðherra af 12. Davíð varð utanríkisráðherra er Halldór varð forsætisráðherra. Við þessar hrókeringar á síðasta ári hafði Davíð setið lengur í forsæti ríkisstjórnar landsins en nokkur annar, þrem árum lengur en sá sem næstlengst sat, Hermann Jónasson. Davíð sat í embætti forsætisráðherra í 13 ár, 4 mánuði og 16 daga. Hann sat á þessum tíma í forsæti fjögurra ríkisstjórna og stýrði á sama tíma alls 960 ríkisstjórnarfundum. Ferill hans er því stórglæsilegur.

Ráðherrar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á þessum áratug eru eftirtaldir:

Sjálfstæðisflokkur
Davíð Oddsson (frá 1991)
Björn Bjarnason (1995-2002 og frá 2003)
Friðrik Sophusson (1991-1998)
Halldór Blöndal (1991-1999)
Þorsteinn Pálsson (1991-1999)
Geir H. Haarde (frá 1998)
Árni M. Mathiesen (frá 1999)
Sturla Böðvarsson (frá 1999)
Sólveig Pétursdóttir (1999-2003)
Tómas Ingi Olrich (2002-2003)
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (frá 2003)
Sigríður Anna Þórðardóttir (frá 2004)

Framsóknarflokkur
Halldór Ásgrímsson (frá 1995)
Páll Pétursson (1995-2003)
Ingibjörg Pálmadóttir (1995-2001)
Finnur Ingólfsson (1995-1999)
Guðmundur Bjarnason (1995-1999)
Guðni Ágústsson (frá 1999)
Valgerður Sverrisdóttir (frá 1999)
Siv Friðleifsdóttir (1999-2004)
Jón Kristjánsson (frá 2001)
Árni Magnússon (frá 2003)

Ríkisstjórnin - 31. desember 2004

Áratugur er ekki langur tími í sögu íslensku þjóðarinnar: segja má að sá tími sé eins og örskotsstund á langri vegferð. Hinsvegar leikur enginn vafi á því að það er sögulegt og mikil tíðindi að tveir flokkar hafi setið í forystu ríkisstjórnar landsins svo lengi sem raun ber vitni og unnið saman að forystu stjórnmála landsins. Þegar saga ríkisstjórna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forystu Davíðs og Halldórs verður gerð upp í sögubókum framtíðarinnar mun þeirra verða minnst fyrst og fremst fyrir glæsilegan árangur á vettvangi efnahagsmála. Í tíð ríkisstjórna þessara tveggja flokka, á þessu tímabili, unnu þeir að því að tryggja glæsilegan grundvöll að margvíslegum framfaramálum á flestum sviðum þjóðlífsins. Styrk staða ríkisfjármála á þessu tímabili hefur leitt í senn til hagsældar einstaklinga og fjölskyldna og styrkt stoðir atvinnulífsins okkar.

Margt hefur áunnist og breytingar á þjóðfélaginu verið miklar á þessum tíma. Þessar breytingar hafa leitt til aukins frelsis handa viðskiptalífinu og almenningi, hagsældar og bættra lífskjara langt umfram það sem gerst hefur í nálægum löndum. Umgjörð atvinnulífsins er nú betri en áður, starfsskilyrði þess hagstæðari, skattar almennings og fyrirtækja lægri og svigrúm til athafna meira en áður. Tekist hefur að treysta forsendur velferðarkerfisins með öflugu atvinnulífi á grundvelli stöðugleika í efnahagsmálum. Tekist hefur að byggja upp traust og farsælt samfélag undir traustri forystu þessara tveggja flokka. Uppstokkun á fjármálamarkaði og innleiðing frjálsra fjármagnshreyfinga sköpuðu nauðsynlegar forsendur fyrir einkavæðingu banka- og fjármálakerfisins. Þessar breytingar, ásamt aðild að EES hafa verið veigamikill hluti þess að tekist hefur auka hagvöxt umfram það sem þekkist í nágrannaríkjum okkar.

Til fjölda ára höfðu íslensk stjórnvöld leitað eftir samstarfi við erlend fyrirtæki um uppbyggingu orkufreks iðnaðar hérlendis. Nú er staðan sú að erlend stórfyrirtæki í iðngeiranum bíða í röðum hreinlega eftir því að setja hér upp verksmiðjur sínar. Nú er unnið á Austurlandi að byggingu Kárahnjúkavirkjunar og álveri við Reyðarfjörð. Undir farsælli forystu stjórnarflokkanna var málið leitt til lykta með farsælum hætti. Fyrir lok kjörtímabilsins mun álver Alcoa verða orðið að veruleika. Stjórnarflokkarnir unnu samhentir að því að tryggja það að þetta mætti verða að veruleika meðan stjórnarandstaðan var með mótbárur og reyndi með ýmsum hætti að bregða fæti fyrir verkefnið. Þegar það var orðið að veruleika skipti viss hluti stjórnarandstöðunnar, sem kenndur er við vindhana, um kúrs svo lítill sómi var að fyrir þá. En fólk á Austurlandi veit hver tryggði þessar framfarir og uppbyggingu fyrir austan - það voru stjórnarflokkarnir. Að lokum mun þetta skila sér í aukinni atvinnu- og verðmætasköpun hérlendis og auknum skatttekjum.

Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson

Skoðum nokkrar grunntölur málsins undir lokin:

* Hagvöxtur hefur aukist um 51%
* Kaupmáttur heimilanna hefur aukist um 55%
* Hreinar skuldir ríkissjóðs lækkað um meira en helming
- úr 330 milljörðum árið 1995 í 150 milljarða árið 2005
* Heildarverðmæti landsframleiðslu hefur meira en tvöfaldast
* Tekjuskattur verður tæp 22% árið 2008 en var 33% árið 1995
* Atvinnuleysi minnkað um helming, úr 5% árið 1995 í 2,5% 2005
* Afkoma ríkissjóðs farið úr 25 milljarða halla 1995 í 10 milljarða afgang 2005
* Sérstakur tekjuskattur mun verða afnuminn sem og allir eignaskattar til ríkisins

Það er því margt sem stjórnarflokkarnir geta verið stoltir af þegar saga ríkisstjórna flokkanna árin 1995-2005 og síðar verður skoðuð í sögulegu ljósi af komandi kynslóðum. Um er að ræða eitt mesta og áþreifanlegasta framfaraskeið í sögu íslensku þjóðarinnar, tímabil sem við öllum getum verið stolt af um ókomin ár. Um það verður vart deilt þegar þessi áratugur er gerður upp, og árangur hans er skoðaður í sögulegu ljósi, að samfélagið hefur bæði styrkst og þroskast mjög. Það samfélag sem við þekktum fyrir áratug hefur tekið miklum stakkaskiptum, til hins betra. Það sem er ánægjulegast er að tækifærin eru sífellt fleiri framundan og það eru sóknarfæri um allt. Með bjartsýni og gleði getum við farið yfir áratuginn okkar við stjórnvölinn og leyft okkur að horfa með enn meiri bjartsýni til framtíðarinnar sem framundan er.

Saga dagsins
1902 Halldór Kiljan Laxness skáld og rithöfundur, fæðist í Reykjavík. Hann gaf út fyrstu skáldsögu sína, Barn náttúrunnar, árið 1919. Hann nam erlendis, fyrst hjá Benediktsmunkum í Lúxemborg 1922-23 og síðan í Kristmunkaskóla í London 1923-24. Hann dvaldist langdvölum erlendis, en átti fast heimili að Gljúfrasteini í Mosfellssveit frá 1945. Halldór hlaut Bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1955, en hlaut margar aðrar viðurkenningar og verðlaun. Eftir hann liggur mjög mikill fjöldi skáldverka og rita, auk þýðinga. Halldór lést þann 8. febrúar 1998. Minningarsafn um Laxness er staðsett að Gljúfrasteini
1903 Sigfús Blöndal hóf söfnun í orðabók sína - gefin út árið 1920 og hefur komið út þrisvar síðan
1995 Annað ráðuneyti undir forsæti Davíðs Oddssonar tók við völdum - sat til loka kjörtímabilsins 1999. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur setið samfellt við völd í heilan áratug
1997 Páll Skúlason heimspekiprófessor, kjörinn rektor Háskóla Íslands - mun láta af störfum í sumar
2001 Fréttablaðið kom út í fyrsta skipti - hefur á stuttum tíma orðið útbreiddasta dagblað landsins

Snjallyrðið
Good humor is the health of the soul, sadness is its poison.
Chesterfield lávarður skáld (1694-1773)


Engin fyrirsögn

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Óhætt er að segja að Framsóknarflokknum og Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherra, hafi tekist að slá öll vopn úr höndum andstæðinga sinna á þingi með því að taka vel á umræðu þeirra um að flokkurinn sé spilltur og táknmynd óheiðarleika. Sú ákvörðun flokksins að setja sér reglur um og ráðast í það að birta opinberlega upplýsingar um fjárhag og eignir og eftir atvikum eignarhlut þingmannanna í atvinnurekstri, þóknun fyrir önnur launuð störf, og aðild að hagsmunasamtökum og upplýsingar um gjafir, hlunnindi og boðsferðir er hárrétt. Um er að ræða gott fordæmi fyrir aðra flokka og ætti að hreinsa dægurþrasaumræðuna sem stjórnarandstaðan stendur fyrir í þinginu æ ofan í æ. Einkum er hún þó sett fram til að dekka yfir valdabaráttuheiftina innan Samfylkingarinnar, þar sem formaður og varaformaður flokksins eru í baráttu um allt eða ekkert í forystusveitinni. Tel ég það hárrétt hjá Framsóknarflokknum að beina því til forsætisnefndar þingsins að hún setji slíkar reglur sem Framsókn leggur til og hefur sett sjálfri sér nú.

Mun þetta vonandi taka á umræðunni. Er reyndar stórmerkilegt að fulltrúar stjórnarandstöðunnar sem hvað hæst hafa galað um að stjórnarflokkarnir séu spilltir og sé með lokað bókhald hreinsi ekki til hjá sjálfri sér eða hafi sett sjálfri sér slíkar vinnureglur sem Framsóknarflokkurinn hefur sett fram. Er það þá þeim væntanlega ánægjuefni að geta hætt að karpa og opnað eigin híbýli og sýnt landsmönnum stöðuna hjá þeim sjálfum fyrst málið er komið í þennan farveg. Það þarf þá varla að karpa endalaust um sömu hlutina æ ofan í æ. Ekki er ég mikill pólitískur stuðningsmaður forsætisráðherrans og Framsóknarflokksins - hinsvegar hefur mér gramist að sjá aðför vissra þingmanna aftur og aftur að forsætisráðherranum og væna hann um að vera peð fyrirtækja og sjávarútvegsgreifa vegna eignarhlutar hans í Skinney-Þinganesi á Hornafirði. Hefur nú verið upplýst að forsætisráðherra á heil 2,2% í því fyrirtæki, sem hann erfði eftir foreldra sína. Það er nú allt og sumt, smávægilegur hlutur sem ekkert segir í raun. Enda virðist mér að menn séu nú hættir að fimbulfamba um að forsætisráðherra sé kvótagreifi. Það eru æði margir kvótasægreifar ef þeir sem eiga 2,2% í sjávarútvegsfyrirtæki eru það. Eða ég get ekki betur séð. En menn taka nú á umræðunni og tel ég þetta skref Framsóknarflokksins mjög jákvætt. Reyndar fannst mér svo Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra, taka vel á umræðu vissra afla gegn einkavæðingarferlinu í hreint frábærum pistli sem ég hvet alla til að lesa. En hvað gerir stjórnarandstaðan nú? Nú er það þeirra að gera slíkt hið sama, ella er allur málflutningur þeirra eins og spangól í holri tunnu.

Paul Martin séð með augum skopmyndateiknaraPaul Martin forsætisráðherra Kanada, hefur nú formlega beðið kanadísku þjóðina afsökunar vegna spillingar sem upplýst var í flokki hans, Frjálslynda flokknum, sem stjórnað hefur landinu allt frá árinu 1993. Hann ávarpaði þjóðina í því markmiði að reyna að bjarga stjórninni og flokknum frá stjórnmálakrísu. Peningaþvætti og fjárspilling er meðal þeirra þátta sem Frjálslyndi flokkurinn hefur verið sakaður um. Martin hét því í sjónvarpsávarpi sínu í gærkvöldi að allir í flokknum myndu gangast undir rannsókn, hann eins og allir aðrir forystumenn hans og þingmenn. Hann hét því í ávarpinu að efna til nýrra þingkosninga um leið og rannsókn málsins hefur verið lokið. Enginn vafi leikur á því að kosningar nú muni leiða til falls ríkisstjórnarinnar. Almenningur í Kanada virðist hafa misst alla trú á forystu flokksins og þeir sem hafa trúað honum, þrátt fyrir umræðuna, hafa misst trúna á forystu Martin, eftir að sannanirnar voru afhjúpaðar um tengsl flokksins vegna spillingarmálanna.

Enginn vafi leikur á því að stjórnarandstaðan muni nota þetta mál til að klekkja á forsætisráðherranum og flokki hans. Martin er sérlega tengdur málinu enda var hann fjármálaráðherra þegar spillingin á að hafa átt sér stað árið 2002. Í kosningunum í fyrra munaði hársbreidd að stjórnin félli en Martin hefur ríkt síðan í minnihlutastjórn, sem hefur verið varin vantrausti af smærri flokkum. Nú er staðan orðin þannig að þeir eru orðnir tvístígandi og stjórnin riðar til falls. Er enginn vafi á því að með þessu sjónvarpsávarpi er Martin að spinna atburðarás til að friða kjósendur og reyna, þrátt fyrir loforð um annað, að koma í veg fyrir þingkosningar síðar á árinu og friða með þessu smáflokkana. Vandséð er að það muni takast. Við blasir að mikil valdþreyta er komin í frjálslynda og þetta mál sligar þá mjög, enda hafa lög að öllum líkindum verið brotin. Martin hefur verið forsætisráðherra frá 12. desember 2003, er forveri hans, Jean Chretien, lét af embætti eftir 10 ára forsætisráðherraferil. Skv. skoðanakönnunum í Kanada myndu frjálslyndir missa tæplega 2/3 þingmanna sinna ef kosið væri nú. Íhaldsflokkurinn mælist nú með rúm 40% fylgi og hefur ekki mælst hærri síðan á níunda áratugnum er hann var leiddur af Brian Mulroney sem þá var forsætisráðherra landsins. Að óbreyttu stefnir því í hægristjórn bráðlega í Kanada.

Punktar dagsins
Minjasafnskirkjan - mynd Jóns M.

Það var alveg yndislegt að vakna snemma í gærmorgun hér á Akureyri. Sólin var björt og fögur er hún skein inn um eldhúsgluggann meðan ég fékk mér kaffi og ristað brauð og vorblærinn yfir öllu. Ég fór snemma í góðan hjóltúr út í þorp og svo inn í Kjarnaskóg og fékk mér þar góðan göngutúr í góða veðrinu. Fátt er eins gott til að slappa virkilega af að fá sér góðan hjóltúr og svo fínt labb í Kjarnaskógi. Gulls ígildi hreint út sagt. Í hádeginu fór ég í hádegismat til Hönnu ömmu. Þar var eins og venjulega yndislega góður matur, hún amma er snilldarkokkur. Eftir það fórum við amma inn í kirkjugarð og vorum þar aðeins að dytta að, en amma setur jafnan sumarblóm á leiði ættingja sinna. Vorum við þar dágóða stund í blíðunni. Um þrjúleytið fórum við saman í Minjasafnið. Þar var yndisleg fjölskyldustemmning og skemmtilegt andrúmsloft. Ilmur af lummum og heitu súkkulaði fyllti þar loftið í bland við kátínu og gleði. Hallgrímur Gíslason flutti stutta ræðu um sumardaginn fyrsta og gamlar hefðir tengdar honum. Var það fróðlegt og gott erindi. Ennfremur flutti Guðrún Kristinsdóttir safnvörður, ræðu um dagskrá safnsins í sumar og til ársloka og það sem gert hefði verið þar það sem af er árinu.

Að því loknu var boðið upp á lummur og soðbrauð. Með brauðinu var svo boðið upp á ekta-gott og heitt súkkulaði og Svala fyrir börnin. Var þetta virkilega gaman og það er vissulega alltaf ánægjulegt að líta á þetta góða safn okkar allra. Samhliða þessu var í safninu ljósmyndasýning Ragnars Axelssonar, Framandi heimur. Þar getur að líta mannlífsmyndir teknar á ferðum Ragnars víða um heim. Þetta er í fyrsta skipti sem myndir Ragnars eru til sýnis á Akureyri. Mikill fjöldi lagði leið sína á safnið og munu á fjórða hundrað manns hafa þegið þar veitingar og litið á sýninguna. Er það svo sannarlega ánægjulegt, allavega var skemmtileg stemmning á safninu. Hittum við þarna Önnu, konu Mugga föðurbróður míns, og Hönnu Þóreyju dóttur þeirra og fjölskyldu hennar, og var því um margt rætt. Á fimmta tímanum var svo fjöldasöngur í gömlu Minjasafnskirkjunni og sungum við þar ekta sumarlög, sem alltaf eiga við í sumar og sól eins og var í gær. Benni frændi og Andri leiddu sönginn og tók ég þátt í þessu með þeim. Svo skemmtilega vildi til að í gær voru einmitt 27 ár síðan ég var skírður í kirkjunni. Var þetta skemmtilegur dagur á safninu. Í gærkvöldi fórum við Benni svo í bíó og sáum kvikmyndina, Sahara, sem er alveg ágæt.

Þórgnýr Dýrfjörð menningarfulltrúi Akureyrarbæjar, Hlynur Hallsson, Þórkatla Sigurbjörnsdóttir, Erlingur Sigurðarson, Lilja Hallgrímsdóttir, Guðmundur Jónsson, Bogi Pétursson, Alma Dís Kristinsdóttir og Sigrún Björk Jakobsdóttir formaður menningarmálanefndar

Menningarmálanefnd Akureyrarbæjar hélt síðdegis í gær í Amtsbókasafninu sína árlegu Vorkomu á sumardeginum fyrsta. Veitti Sigrún Björk Jakobsdóttir formaður menningarmálanefndar Akureyrarbæjar, við það tækifæri hinar ýmsu viðurkenningar frá nefndinni. Meðal þess voru starfslaun listamanna til sex mánaða. Þau hlutu að þessu sinni þeir Hlynur Hallsson fyrir myndlist og Erlingur Sigurðarson fyrir ritstörf. Hlynur hefur farið ótroðnar slóðir í listsköpun sinni og vakið athygli utan landsteinanna. Erlingur er rithöfundur og einn helsti fræðimaður þjóðarinnar í rannsóknum á Davíð Stefánssyni skáldi frá Fagraskógi. Nýsköpunarverðlaunin hlaut að þessu sinni Alma Dís Kristinsdóttir, Guðmundur Jónsson hlaut viðurkenningu fyrir byggingarlist, viðurkenning húsverndarsjóðs var veitt til minningar um Kristján Pétursson húsasmíðameistara og Lilja Hallgrímsdóttir var heiðruð fyrir framlag sitt til tónlistarlífs á Akureyri. Síðast en ekki síst hlaut Bogi Pétursson, oftast kenndur við Ástjörn, viðurkenningu fyrir framlag sitt til menningar- og félagsmála. Mikið innilega á Bogi það skilið. Ég fór til hans í sumarbúðirnar á Ástjörn þrenn sumur í röð, 1986-1988, og kynntist því vel hversu yndislegur og gefandi persónuleiki Bogi er. Það var heilsteypt og góð mótandi reynsla að dvelja þar. Alla tíð hefur Bogi verið gulls ígildi í mínum huga.

Tony Blair og Gordon Brown

13 dagar eru nú til þingkosninganna á Bretlandi. Baráttan hefur harðnað mjög seinustu daga og hefur hún einkennst af hnútuköstum leiðtoga stóru flokkanna um ágæti flokkanna og grunnstefnumála sinna. Greinilegt er að LP háir baráttu sína á öðrum grunnpunktum en áður undir forystu Blair. Hann er aðeins meira til vinstri núna, er minna í tískuklisjum og spunamennskunni en leitar þess þá meira í velferðarpólitík að takti norrænna jafnaðarmanna. Einn stærsti kostur LP að þessu sinni er vel unnin stefnuskrá. Það má líka segja um grunnstefnu CP, þar er vel talað og hreint út og hnitmiðað. Báðar stefnuskrár eru vel unnar útfrá átakapunktum beggja flokka í baráttunni nú og gagnast þeim á þeirra átakalínum gegn hinum flokknum. Íhaldsflokkurinn hefur mjög talað um innflytjendamálin í kosningunum og leitt þar umræðuna. Nú hefur Blair farið inn á þá braut líka og komið með sína punkta í umræðuna. Velferðar- og innflytjendamál verða að öllum líkindum meginmál kosningabaráttunnar.

Svo er Howard að koma með spennandi skattatillögur í umræðuna. Hann er að lofa að niðurgreiða einkalífeyrissparnað einstaklinga með því að leggja til að ríkisstjórnin leggi til 10 pund fyrir hver 100 sem sett eru í slíkan sparnaðarkost. Spennandi tillaga. Kannanir eru að sýna þá stöðu að allt geti gerst en þó virðist halla að sigri LP, þriðju kosningarnar í röð. En það er spurt að leikslokum. Vakið hefur mikla athygli að fylgi breska Verkamannaflokksins hefur aukist eftir að Blair fór að hampa Brown meira en áður. Í stað þess að staða hans innan stjórnarinnar væri ótrygg eftir kosningarnar er hann orðinn lífakkeri Blair til áframhaldandi valda. Honum er flaggað eins mikið og mögulegt má vera. Þetta er alveg kostulegt. Enginn vafi er á að staða forsætisráðherrans hefur veikst. Meirihluti þjóðarinnar, rúmur helmingur hennar, treystir honum ekki til að segja satt lengur, en fyrri tvö skiptin sem hann hefur leitt flokkinn hefur hann verið langt innan slíkra marka. Greinilegt er að dagar Blairs eru svo til liðnir og hvernig sem þessar kosningar fari taki Brown brátt við.

Reykjavíkurflugvöllur

Í dag birtist ítarlegur pistill minn um málefni Reykjavíkurflugvallar á íhald.is. Mín skoðun á málefnum vallarins er alveg skýr - ég vil að hann verði áfram á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir það fyrsta í mínum huga snýst þetta mál um þá ábyrgð og þær skyldur sem höfuðborgin okkar þarf að bera gagnvart öllum landsmönnum öllum. Þar er allt í senn miðpunktur stjórnsýslunnar og þar á viðskipta- og menningarlíf landsins sínar höfuðstöðvar. Það er mjög einfalt í mínum huga að greiðar samgöngur allra landsmanna, til og frá Reykjavík, eru forsenda þess að höfuðborgin geti sinnt sínu hlutverki með eðlilegum hætti. Fari völlurinn hlýtur hlutverk svæðisins þarna að breytast, eða ég tel það augljóst. Grunnpunktur af minni hálfu er að völlurinn sé á höfuðborgarsvæðinu. Það er innri ákvörðun yfirvalda í sveitarfélaginu hvar hann sé ætli Reykjavík og svæðið þar í kring að standa undir nafni sem höfuðborg og vera áfram sá miðpunktur sem hann hefur verið til fjölda ára. En ég hvet áhugasama til að lesa pistilinn.

Saga dagsins
1917 Jón Helgason, 51 árs guðfræðiprófessor, kjörinn biskup - hann gegndi embættinu allt til 1938
1942 Bandaríkjamenn tóku við yfirstjórn alls heraflans á Íslandi af Bretum, er hernámu landið 1940
1950 Leikritið Íslandsklukkan, er byggt var á þekktri skáldsögu Halldórs Kiljans Laxness, í leikgerð Lárusar Pálssonar, frumsýnt í Þjóðleikhúsinu - var í fyrsta skipti sem verkið var sett upp á leiksvið
1971 Francois Duvalier einræðisherra Haiti, er nefndur var Papa Doc, lést, 64 ára að aldri. Duvalier var forseti Haiti frá 1957 til dauðadags en stjórnaði við algjört einræði frá 1964. Sonur hans, Jean-Claude Duvalier, er nefndur var Baby Doc, tók við völdum en var steypt af stóli í uppreisn árið 1986
1994 Richard Nixon fyrrum forseti Bandaríkjanna, lést, í New York, 81 árs að aldri. Nixon var einn af umdeildustu stjórnmálamönnum Bandaríkjanna á 20. öld. Hann varð fulltrúadeildarþingmaður árið 1947, öldungardeildarþingmaður árið 1950 og varaforseti Bandaríkjanna, fertugur að aldri, árið 1953. Hann bauð sig fram til forseta árið 1960 en tapaði fyrir John F. Kennedy. Honum tókst að ná kjöri á forsetastól árið 1968. Hann varð að segja af sér forsetaembætti 1974, vegna Watergate-hneykslisins

Snjallyrðið
Nothing is a waste of time if you use the experience wisely.
Auguste Rodin myndhöggvari (1840-1917)


Engin fyrirsögn

Gleðilegt sumar!

Gleðilegt sumar


Íslendingur, blað sjálfstæðisfélaganna hér á Akureyri, kom út í gær. Þar eru eins og fram kom hér í gær allt í senn ítarlegar greinar, fréttir um bæjarmálin og ýmislegur fróðleikur úr bæjarlífinu. Í ítarlegri grein eftir mig í blaðinu fjalla ég um skólamálin. Fyrir áhugasama birti ég hér með greinina.

Skólabærinn Akureyri - öll lífsins gæði


Í sveitarstjórnarkosningunum 1998 fórum við sjálfstæðismenn fram undir kjörorðinu: Kraftur í stað kyrrstöðu. Það hefur sannast, svo ekki verður um villst, að kraftur hefur verið mikill hér og verið áþreifanlegur og sést í öllum tölum síðan, þegar farið er yfir stöðu mála. Kraftur kom í stað kyrrstöðu undir forystu okkar sjálfstæðismanna í samstarfi okkar fyrst við Akureyrarlista og síðar Framsóknarflokk, og hefur verið til staðar í valdatíð okkar í bænum. Akureyri er svo sannarlega í öndvegi sveitarfélaga, enda vel hér haldið á málum og staða bæjarins mjög sterk og kraftmikil þegar litið er til framtíðar. Við sem búum á Akureyri vitum vel og finnum á samfélaginu okkar hversu öflugt og kraftmikið það er. Segja má að lykilorð seinustu ára hér á Akureyri séu vöxtur og kraftur. Þetta blasir við þegar allar grunntölur eru skoðaðar.

Að mínu mati er einn helsti styrkleiki Akureyrar hversu sterkur skólabær hann er. Þar eru mjög framsæknir skólar sem eru í senn bæði undirstaða og grundvöllur framtíðar. Hér er mjög öflugt framboð menntunar allt frá æskuárum til fullorðinsára. Í byrjun mánaðarins var haldið hér í bænum opið íbúaþing um skólamál. Var um að ræða stefnuþing þar sem til umræðu voru drög að skólastefnu Akureyrarbæjar. Þingið fór fram í nýjum sal Brekkuskóla, en glæsileg nýbygging skólans var tekin í notkun fyrir nokkrum mánuðum. Vel var mætt á íbúaþingið, enda eru skólamálin, og verða ávallt, stór og víðfeðmur málaflokkur sem skiptir alla máli. Skólamálin eru hjarta og sál hvers sveitarfélags - það gildir ekkert annað um Akureyri en önnur sveitarfélög. Skólamálin eru þess eðlis að þau skipta okkur öll máli.

Hér á Akureyri eru tólf leikskólar: Naustatjörn, Iðavöllur, Lundarsel, Flúðir, Síðusel, Holtakot, Pálmholt, Sunnuból, Krógaból, Klappir, Kiðagil og Tröllaborgir. Grunnskólarnir eru svo sjö talsins: Brekkuskóli, Giljaskóli, Glerárskóli, Hlíðarskóli, Lundarskóli, Oddeyrarskóli og Síðuskóli. Ennfremur eru að sjálfsögðu bæði leikskóli og grunnskóli í Hrísey. Framundan er bygging nýs leikskóla við Helgamagrastræti sem þegar er hafin af fullum krafti, en hann á að opna á næsta ári, og kemur þá til sögunnar nýr og öflugur leikskóli á Brekkunni og er það mikið gleðiefni fyrir barnafjölskyldur sem búa á Brekkunni. Við tekur svo næsta verkefnið á næsta kjörtímabili sem er bygging grunnskóla í Naustahverfi, Naustaskóla. Það er því öflugt skólalífið hér og getum við Akureyringar verið stoltir af skólamálum okkar og skóladeildinni okkar sem vinnur gott starf undir forystu Gunnars Gíslasonar.

Menntaskólarnir okkar hér í bænum eru mjög öflugir. Nemendur koma hingað til Akureyrar alls staðar að af landinu til að sækja þar nám og taka svo auðvitað þátt í félagslífinu þar með miklum krafti. Menntaskólinn og Verkmenntaskólinn eru mikilvægar stoðir samfélagsins okkar. Er mikill kraftur í framhaldsskólunum okkar. Sést það best á nýlegri hátíð ungs fólks á Akureyri er bar heitið Birting. Samhliða hátíðinni var frumfluttur söngleikur sem ber heitið Rígurinn og fjallar eins og nafnið gefur til kynna um ríginn milli skólanna tveggja en söngleikurinn var sameiginlegt verkefni skólanna. Var mjög gleðilegt að sjá skólana taka höndum saman með þessum hætti og vinna með slíkum krafti að þessari hátíð. Dagskráin á hátíðinni var litrík og skemmtileg. Þar var t.d. listasýning, tónleikar með ýmsu ívafi og fatahönnunarkeppni, svo fátt eitt sé nefnt. Rúsínan í pylsuendanum var svo söngkeppni framhaldsskólanema í Íþróttahöllinni að kvöldi 16. apríl. Er þetta í annað sinn sem keppnin er haldin hér.

Háskólinn á Akureyri er svo óneitanlega helsta djásnið okkar í skólamálunum. Hann hefur sífellt vaxið og dafnað, þá tæpu tvo áratugi sem hann hefur verið til. Að mínu mati er uppbygging Háskólans á Akureyri einhver mikilvægasta og þarfasta byggðaaðgerð, sem gripið hefur verið til hérlendis á síðari árum. Alla tíð hefur ríkt mikil samstaða á gervöllu Norðurlandi um mikilvægi háskólanáms á Akureyri. Leikur enginn vafi á því að tilkoma hans og það að hann hafi verið efldur til muna á seinustu árum hefur skipt miklu máli hvað varðar samfélagið okkar. Háskólinn er ein helsta meginstoð fólks hér þegar það velur sér framtíðarbraut: hvað það ætli að taka sér fyrir hendur og gera í kjölfar náms. Skólinn er nú sem fyrr hornsteinn uppbyggingar hér á þessu svæði. Þar er öflugt námsframboð og stendur fólki sem kemur úr framhaldsskólunum til boða nægir valkostir er tekin er sú ákvörðun hvert skuli stefna á framtíðarbrautinni.

Það er gott að alast upp á Akureyri, samfélagið er traustur grunnur öflugs mannlífs og einn helsti styrkleiki þess eru öflugt skóla- og menningarlíf. Lengi hef ég talið bæinn okkar vera kjörinn vettvang til að búa á. Hér er allt sem einkenna má kraftmikinn byggðakjarna, en þó með blæ stórborgar. Hér er barna- og fjölskylduvænt umhverfi, nálægðin er mikil milli heimilis annarsvegar og hinsvegar skóla og vinnustaðar, mikið og öflugt úrval menningarviðburða, góð útivistar- og íþróttaaðstaða og síðast en ekki síst góðir menntunarmöguleikar sem felast í öflugu skólaumhverfi okkar, eins og fyrr segir. Á Akureyri eru einfaldlega öll lífsins gæði.

Saga dagsins
1800 Sex bátar frá Staðarsveit og Breiðafirði farast í miklu norðanveðri í firðinum - 37 manns létust
1926 Elísabet II Englandsdrottning fæðist - hún hefur setið á valdastóli í rúm 53 ár, frá árinu 1952
1945 Rauði herinn hertekur úthverfi Berlínarborgar og færist mjög nær innstu kjörnum þess sem eftir var af veldi Hitlers og þriðja ríkisins - stjórn nasista féll undir lok mánaðarins og í kjölfar þess sviptu Adolf Hitler og nánustu samverkamenn hans sig lífi. Átökum seinni heimsstyrjaldarinnar við nasistaríki Þjóðverja lauk með friðardeginum 8. maí. Stríðinu lauk um sumarið með uppgjöf Japana
1965 Staðfest voru á þingi lög um útgáfu nafnskírteina til allra einstaklinga sem eru eldri en 12 ára
1971 Mikið var um dýrðir í Reykjavík er fyrstu íslensku handritin komu aftur til landsins frá Danmörku með herskipinu Vædderen. Þetta voru Flateyjabók og Konungsbók Eddukvæða. Alls voru afhent 1807 handrit á tímabilinu 1971-1997. Koma handritanna til landsins var sýnd í beinni útsendingu Sjónvarps

Snjallyrðið
Ó, blessuð vertu sumarsól,
er sveipar gulli dal og hól
og gyllir fjöllin himinhá
og heiðavötnin blá.
Nú fossar, lækir, unnir, ár
sér una við þitt gyllta hár.
Nú fellur heitur haddur þinn
á hvíta jökulkinn.

Þú klæðir allt í gull og glans,
þú glæðir allar vonir manns,
og hvar sem tárin hvika á kinn
þau kyssir geislinn þinn.
Þú fyllir dalinn fuglasöng,
nú finnast ekki dægrin löng,
og heim í sveitir sendirðu æ
úr suðri hlýjan blæ.
Páll Ólafsson skáld (1827-1905)


Engin fyrirsögn

Benedikt XVI páfi

Benedikt XVI páfi

Benedikt XVI páfi söng sína fyrstu messu sem trúarleiðtogi rómversk - kaþólsku kirkjunnar í morgun í Sixtínsku kapellunni í Páfagarði í Róm, þar sem hann var kjörinn páfi í gær. Var það í fyrsta skipti sem hann var skrýddur formlegum páfaskrúða. Tók hann í hendur starfsmanna sinna og gerði krossmark yfir þeim er hann gekk til kapellunnar. Páfinn hóf þessa fyrstu messu sína í embætti með því að fara með bæn á latínu og flutti síðan predikun á latínu. Benedikt XVI sagði í predikuninni að það yrði hans helsta verkefni í embætti að vinna að einingu allra kristinna manna. Sagðist hann hafa í hyggju að efna til opinna og einlægra viðræðna við iðkendur annarra trúarbragða og einnig sagðist hann hafa hug á því að dreifa valdi innan rómversk - kaþólsku kirkjunnar. Benedikt XVI sagðist hafa orðið undrandi á því að sigra í páfakjörinu og hljóta það verkefni að taka við embætti af Jóhannesi Páli II. Sagðist hann ekki hafa gert sér væntingar um að hljóta embættið. Sagði hann að forveri sinn hefði skilið eftir sig frjálsari, hugrakkari og yngri kirkju. Predikunar Benedikts XVI páfa hafði verið með eftirvæntingu, enda ljóst að hann myndi þar koma með grunnlínur embættisferils síns.

Við blasir að hinn nýi páfi muni í öllum meginlínum fylgja grunnáherslum forvera síns. Benedikt XVI var í rúma tvo áratugi einn nánasti samverkamaður Jóhannesar Páls II og því ljóst hvert hann sækir fyrirmynd sína í forystu kirkjunnar. Greinilegt er að það er Benedikt XVI mikið í mun að fullvissa þá sem hafa áhyggjur af kjöri hans um að hann sé víðsýnni en orð hans í fortíðinni gefa til kynna. Eins og fram kom í predikuninni í morgun að hálfu páfans sagðist hann finna fyrir návist forvera síns og að hann myndi vísa honum veginn í réttar áttir í embættinu. Virðist vera af úrslitum páfakjörsins að nýji páfinn sé álitinn millibilspáfi af kardinálunum. Sjálfur virðist hann hafa gefið til kynna við kjörið að hann yrði aðeins tenging fyrri páfa og embættistíðar hans inn í framtíðina. Hefur mikið verið rætt um heilsu páfa. Hann fékk heilablóðfall árið 1991 en náði sér fljótt af því. Orðrómur er uppi um það að nýji páfinn sé ekki heill heilsu og hann muni eiga erfitt með að sinna störfum sínum þegar líður á. Til dæmis nefna menn að hann muni ekki verða víðförull páfi í takt við forvera sinn og leggja meiri áherslu á trúarleg gildi starfsins.

Benedikt XVI páfi

Joseph Ratzinger sem nú hefur verið kjörinn sem Benedikt XVI páfi, fæddist í smábænum Markl am Inn syðst í Bæjaralandi þann 16. apríl 1927. 14 ára gamall var hann skráður gegn vilja sínum í Hitlersæskuna, sem nasistar skylduðu alla þýska drengi til, en var fljótlega sleppt úr henni þar sem hann var þá þegar kominn á þá braut að læra til prests. Undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar mannaði hann loftvarnabyssur við München eins og aðrir landar hans á sama aldri, en hann hafði ekki lokið grunnherþjálfun þegar ófriðurinn var úti. Innan kirkjunnar skiptast menn mjög í tvö horn í afstöðu til Ratzingers. Fylgismenn hans segja að reynsla hans af uppvexti í Þýskalandi nasismans hafi innrætt honum sannfæringu fyrir nauðsyn þess að kirkjan láti að sér kveða og kirkjan standi vörð um sín gömlu gildi. Enn þann dag í dag er deilt um eðli þátttöku hans í Hitlersæskunni og andstæðingar hans hafa lengi haldið því fram að hann hafi verið flæktari í starf þess en hann vill vera láta. Gagnrýnendur hans segja hann standa fyrir harðlínustefnu innan kirkjunnar.

Ratzinger hlaut prestsvígslu árið 1951, þá 24 ára gamall, og var strax 1953 orðinn háskólakennari í kaþólskri guðfræði. Hann átti mjög farsælan feril sem guðfræðiprófessor í nokkrum þýskum háskólum. Þar var hann allt til ársins 1977 er hann var skipaður erkibiskup í München. Síðar sama ár var hann skipaður kardináli af Páli VI. Er hann annar tveggja kardinála sem sátu páfakjörið í vikunni sem kaus ennfremur Jóhannes Pál II sem páfa árið 1978. Jóhannes Páll II kallaði Ratzinger svo til starfa í Vatíkaninu árið 1981 og skipaði hann þá yfirmann trúarráðs kaþólsku kirkjunnar sem vakir yfir trúarkenningum og trúarlegum gildum innra starfsins. Um er að ræða eitt af áhrifamestum embættunum innan kaþólsku kirkjunnar, lykiláhrifmann í Vatíkaninu. Hann verið leiðtogi æðstaráðs Vatíkansins allt frá árinu 2002 og verið einn litríkasti forystumaður rómversk - kaþólsku kirkjunnar síðustu árin. Hann jarðsöng Jóhannes Pál II á Péturstorginu þann 8. apríl sl. Segja má að hann hafi sett mark á forystusveit kirkjunnar undanfarna þrjá áratugi og sífellt hækkað í tign og er nú orðinn trúarleiðtogi kirkjunnar.

Hann hefur skapað sér orðstír fyrir stranga íhaldssemi í útleggingu guðsorðsins, en jafnframt fyrir að vera skarpgreindur hugsuður. Hann og forveri hans voru alla tíð nánir bandamenn í íhaldssamri túlkun kenningarinnar og tóku mjög undir skoðanir Páls VI í þeim efnum, en fræg var andstaða hans við fóstureyðingar, er fram komu í riti hans árið 1968. Hefur hann verið nefndur þýski skriðdrekinn og Rottweiler Guðs af gárungum, vegna skoðana sinna og einbeitni í að halda í meginstoðir kirkjunnar og lykiltrúarsetningar hennar. Ratzinger komst snemma upp á kant við meirihluta trúsystkina sinna í heimalandinu. Ef marka má fréttir evrópskra vefmiðla er það reyndar svo að nær allir hinir þýsku kardinálarnir, sem sátu kjörfund páfa, hafi ekki viljað sjá Ratzinger í embættinu og ekki stutt hann nema þegar ljóst var orðið að hann myndi hljóta kjör í embættið. Ástæða óánægjunnar er að margir þeirra rekja það til hans að frá Vatíkaninu komu tilskipanir um að kaþólskum prestum í Þýskalandi skyldi bannað að veita þunguðum unglingsstúlkum ráðgjöf og um að kaþólskum unglingum skyldi ekki heimilt að fermast í sameiginlegri guðsþjónustu með lútherskum nágrönnum árið 2003.

Það er því óhætt að segja að nýr páfi sé umdeildur maður og ekki allir á eitt sáttir með hann. Þegar eftir kjörið heyrðust margar óánægjuraddir. Einkum hafa mannréttinda- og kvenréttindahópar gagnrýnt harkalega og segja fortíð páfa staðfesta að hann sé íhaldssamur og talsmaður rangra gilda og fylgi ekki grunnmannréttindalínum. Hef ég í dag kynnt mér vel grunnáherslur páfans og mörg ummæli hans í gegnum tíðina. Er enginn vafi á að þar fer íhaldssamur maður sem er lítið fyrir nýtískutal og tildurumræður. Hann er harður andstæðingur margra hluta sem við almennt teljum sjálfsagða í mannlífi okkar. En nú er það framhaldið að sjá hvort nýtt embætti, sem hefur margar skyldur og nýjar áherslur í för með sér, hafi einhver áhrif á grunnáherslur Ratzingers fyrir kjörið eða hvort hann einbeiti sér að innri trúarstörfum í stað ferðalaga og trúboðs um allan heim.

Það hvernig Benedikt XVI höndlar embættið og þróar það í takt við sjálfan sig verður fróðlegt að fylgjast með. Fannst mér fróðlegt að lesa messu hans í dag og það sem hann segir þar og vonast ég eftir því að þar sé gefinn sá tónn að hann verði mildari en svartsýnustu menn spá fyrir um.

Punktar dagsins
Silvio Berlusconi

Silvio Berlusconi forsætisráðherra Ítalíu, gekk í dag á fund Carlo Azeglio Ciampi forseta Ítalíu, og baðst lausnar af hálfu ríkisstjórnar sinnar. Ekki er þó Berlusconi að fara frá fyrir fullt og allt og boða til þingkosninga, heldur er hann að leitast eftir öðru stjórnarmyndunarumboði og að mynda á ný starfhæfa ríkisstjórn í landinu. Deilur hafa verið innan hægristjórnar Berlusconi seinustu vikurnar. Deilurnar innan stjórnarinnar eiga rætur sínar að rekja til þess að samstarfsflokkar flokks forsætisráðherrans, Forza Italia, hafa þrýst á hann að segja af sér og mynda nýja ríkisstjórn á grundvelli nýs stjórnarsáttmála í kjölfar afhroðs, sem flokkarnir biðu í sveitarstjórnarkosningum fyrir skömmu. Ekki eru því deilur um málefni beint, heldur vilja flokkarnir stokka upp grunn stjórnarsáttmálans. Tekur það verkefni nú við, en við blasir að sömu flokkar verði áfram innan stjórnarinnar og samkomulag náist með þessu um áherslur að nýju og stjórnin klári kjörtímabil sitt, sem rennur út vorið 2006. Engin ríkisstjórn hefur verið jafn lengi við völd á Ítalíu frá síðari heimsstyrjöld, en hún hefur setið allt frá vorinu 2001, er hægriflokkarnir unnu glæsilegan kosningasigur. Blasir við að Ciampi forseti feli forsætisráðherranum nú aftur stjórnarmyndarumboð og samið verði um að klára kjörtímabilið, eins og fyrr segir.

ISG og Össur

Frambjóðendur til formennsku í Samfylkingunni, þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Össur Skarphéðinsson, mættust í fyrsta skipti í kappræðum í Íslandi í dag, í gærkvöldi. Var merkilegt að horfa á þessar kappræður þeirra. Greinilegt var að þetta var þeim vandræðalegt og erfitt að mörgu leyti, enda vissulega í fyrsta skipti sem við horfum á svo harðvítuga baráttu um embætti milli samherja og fjölskyldufélaga til fjölda ára. Mér fannst Össur taka þessa fyrstu lotu slagsins með nokkrum glæsibrag. Hann svaraði spurningum hreint út, var með skýrar línur og öflug svör. Ingibjörg lenti í vandræðum, enda virðist hún engar skoðanir hafa á málefnum samtímans. Sérstaklega vakti þetta athygli er kom að málefnum Reykjavíkurflugvallar. Á þeim hafði hún enga skoðun og reyndi að koma sér undan umræðunni með frasablaðri, sem er við að búast af henni eftir allt klúðrið með völlinn í borgarstjóratíð hennar. Hún skynjar að hafi hún skoðun styggi hún einhvern og reynir að koma sér undan umræðunni. Svo var ekki fjarri því að ISG hafi verið hrædd við að tala um viðskilnaðinn við borgina og þingframboðið árið 2002, sem var eitt klúður, eins og við vitum öll. Reyndar fannst mér sem ISG liði illa að sitja andspænis Össuri þarna og tala um málefnin með hann sem andstæðing sinn. Annars opinberaðist þarna að málefnaágreiningur formannsefnanna er sáralítill.

Akureyri

Mjög gott veður hefur verið hér fyrir norðan í dag. Er ekki annað hægt að segja en að vetrinum ljúki með notalegum og góðum hætti. Segja má reyndar að veturinn hafi verið mildur og góður. Veðrið var með besta móti að mestu leyti á vetrinum. Fyrir jólin var að mestu hið besta veður. Um jólin kom leiðindasnjóbylur og í fyrsta skipti til fjölda ára var snarvitlaust veður á sjálfum aðfangadegi. Í kjölfar þessa var leiðindaveður megnið af janúar. Snjóaði mjög mikið og töldu margir að væri að stefna í snjóavetur á borð við 1995 og 1999, þegar var vægast sagt mikill snjór hér í firðinum, með því mesta í seinni tíð. Undir lok janúar fór snjórinn í miklu góðviðri og var veðrið að mestu með besta móti fram á vorið. Í dag, við lok sumarsins, er blíða og virkilega gott veður. Ekki mun vetur og sumar frjósa saman eins og að margra mati þykir vita á gott. Vonandi mun sumarið verða okkur gjöfult og gott þrátt fyrir það og mikil veðurblíða hér í firðinum.

Sjálfstæðisflokkurinn

Í dag kom út Íslendingur, blað sjálfstæðisfélaganna hér á Akureyri. Þar eru ítarlegar greinar, fréttir um bæjarmálin og ýmislegur fróðleikur úr bæjarlífinu. Í ítarlegri grein eftir mig í blaðinu fjalla ég um skólamálin. Ennfremur eru þar greinar eftir Kristján Þór, Sigrúnu Björk og Jónu. Þema blaðsins er vöxtur. Eins og vel sést, þegar blaðið er skoðað, er staða sveitarfélagsins sterk. Það er öflugt og kraftmikið og hiklaust í öndvegi sveitarfélaga. Það er því í senn bæði ljúft og ánægjulegt að telja í blaðinu upp mikilvæga hluti sem skipta máli og gerst hafa það sem af er árinu, og ekki síst undir stjórn okkar sjálfstæðismanna allt frá 1998. Með blaðinu fjöllum við um málefnin sem skipta okkur öll miklu máli. Hér á Akureyri eru öll lífsins gæði og alltaf jafn gaman að kynna bæjarbúum stöðu mikilvægra málaflokka og þá punkta sem skipta máli.

Saga dagsins
1602 Einokunarverslun Dana á Íslandi hófst þegar konungurinn veitti borgurum Kaupmannahafnar, Málmeyjar og Helsingjaeyrar einkaleyfi til að versla hér á landi. Einokunin stóð allt til ársloka 1787
1950 Þjóðleikhúsið var formlega vígt - opnaði húsið með frumsýningu á Nýársnóttinni eftir Indriða Einarsson. Einnig var sett í fyrsta skipti á svið í húsinu leikritið Íslandsklukkan byggð á skáldsögu Halldórs Kiljans Laxness. Framkvæmdir við glæsilegt leikhúsið við Hverfisgötu hófst árið 1928, en lá lengi niðri vegna seinni stríðsins og fjárskorts. Leikhúsbyggingin var hönnuð af Guðjóni Samúelssyni
1972 Ellefu íslenskir námsmenn í Gautaborg og Uppsölum réðust með valdi inn í sendiráð Íslands í Stokkhólmi og héldu því í tvær stundir - þeir voru með þessu að mótmæla aðstöðu námsmannanna
1999 Fjöldamorð í Columbine skólanum í Denver í Colorado-fylki - tveir nemendur skólans, Eric Harris og Dylan Klebold, drápu 13 manns í skothríð og margir særðust. Að því loknu sviptu þeir báðir sig lífi. Michael Moore gerði umdeilda heimildarmynd um þennan atburð, Bowling for Columbine, árið 2002
2000 Þjóðmenningarhúsið við Hverfisgötu opnað við hátíðlega athöfn - húsið var helgað menningu landsins og sögu í gegnum aldirnar. Allt frá opnuninni hafa þar verið athyglisverðar heildarsýningar

Snjallyrðið
All our dreams can come true, if we have the courage to pursue them.
Walt Disney teiknimyndajöfur (1901-1966)


Engin fyrirsögn

Joseph Ratzinger kjörinn páfi - verður Benedikt XVI

Benedikt XVI páfi hylltur af mannfjöldanum á Péturstorgi

Þýski kardinálinn Joseph Ratzinger hefur verið kjörinn páfi og verður því trúarleiðtogi rómversk - kaþólsku kirkjunnar. Það var laust fyrir klukkan fjögur að íslenskum tíma, um sex að ítölskum tíma, sem hvíti reykurinn hóf að koma upp úr skorsteini Sixtínsku kapellunnar, til marks um að páfi hefði verið kjörinn. Deilt var um það í tvær mínútur hvort reykurinn væri svartur eða hvítur en þegar bjöllurnar á Péturstorginu tóku að hljóma varð öllum ljóst að kardinálarnir höfðu komist að niðurstöðu í kjörinu. Enginn vafi var lengur á því að kardinálarnir höfðu kjörið páfa, 17 dögum eftir andlát Jóhannesar Páls II og á öðrum degi páfakjörsins í Sixtínsku kapellunni. Það kom óneitanlega mörgum í opna skjöldu hversu fljótlega páfakjörið gekk að þessu sinni. Er um að ræða eitt fljótlegasta páfakjör á seinni árum. Sérstaklega vekur það athygli sé litið til þess hver hlaut kjör. Á síðustu 100 árum hafa aðeins Pius XII og Jóhannes Páll I verið valdir með skjótvirkari hætti. Báðir náðu þeir kjöri á fyrsta degi kjörsins: Pius XII árið 1939 en Jóhannes Páll I árið 1978. Sá fyrrnefndi sat í 19 ár en hinn síðarnefndi aðeins í 33 daga og var hann forveri hins vinsæla Jóhannesar Páls II, sem sat í 27 ár.

Um 50 mínútum eftir að ljóst varð að páfi hefði verið kjörinn kom Jorge Arturo Medina Estivez kardínáli, fram á svalir Péturskirkjunnar og tilkynnti um kjör Ratzingers í embætti páfa. Skv. gömlum hefðum var textinn hinn sami og ávallt áður. Hæst bar þegar kallað var eins og venjulega: Habemus Papam - við höfum eignast páfa. Var tilkynnt að Ratzinger hefði valið sér páfanafnið Benedikt XVI. Benedikt er eitt af vinsælustu páfaheitunum. Síðasti páfinn með þessu nafni, Benedikt XV, sat á páfastóli 1914-1922. Hann var mjög frjálslyndur og því þótti mörgum valið koma á óvart. Á það ber þó að minnast að fyrsti páfinn með nafninu var mjög íhaldssamur. Er talið að með nafnavalinu sé nýr páfi að skírskota til hins fyrsta Benedikts umfram allt. Tugþúsundir trúaðra kaþólikka hrópuðu "Benedikt, Benedikt" og "Lifi páfinn" á Péturstorginu í kjölfar tilkynningarinnar. Í stuttu ávarpi til mannfjöldans sagði hann að það væri hlutskipti sitt að taka við af hinum mikla Jóhannesi Páli II, en að hann áliti sig vera einfaldan, auðmjúkan verkamann í víngarði Drottins. Fyrsta embættisverk hans var að syngja bænina "Urbi et orbi".

Benedikt XVI mun formlega verða settur inn í embætti við hátíðarmessu á sunnudagsmorgun. Í heild sinni var ræða hins nýja páfa eftirfarandi: "Dear brothers and sisters, after the great Pope, John Paul II, the cardinals have elected me, a simple and humble worker in the Lord's vineyard. The fact that the Lord can work and act even with insufficient means consoles me, and above all I entrust myself to your prayers. In the joy of the resurrected Lord, we go on with his help. He is going to help us and Mary will be on our side. Thank you."

Benedikt XVI páfi hylltur af mannfjöldanum á Péturstorgi

Benedikt XVI er 265. páfinn í sögu kirkjunnar og er sá fyrsti sem hlýtur kjör í embættið á hinu þriðja árþúsundi. Nærri því þúsund ár eru liðin frá því að kirkjan hafði síðast þýskan mann sem sinn æðsta trúarlega leiðtoga. Það var Viktor II sem sat á páfastóli 1055-1057. Forveri Benedikts XVI var fyrsti páfinn í 455 ár sem ekki var Ítali. Það kemur þægilega á óvart að eftirmaður hans sé ekki heldur Ítali, heldur verði Þjóðverji nú páfi í fyrsta skipti í tæp 1000 ár. Benedikt XVI hefur starfað í Vatíkaninu allt frá árinu 1981 og er annar kardinála sem sátu páfakjörið sem kusu Jóhannes Pál II árið 1978, en hann hefur setið þar frá 1977. Hann verið leiðtogi æðstaráðs Vatíkansins allt frá árinu 2002 og verið einn litríkasti forystumaður rómversk - kaþólsku kirkjunnar síðustu árin. Hann jarðsöng Jóhannes Pál II á Péturstorginu þann 8. apríl sl. Segja má að hann hafi sett mark á forystusveit kirkjunnar undanfarna þrjá áratugi og sífellt hækkað í tign og er nú orðinn trúarleiðtogi kirkjunnar. Hann þykir íhaldssamur og hefur verið nefndur Rottweiler Guðs af gárungum, vegna skoðana sinna og einbeitni í að halda í meginstoðir kirkjunnar og lykiltrúarsetningar hennar.

Kjör Benedikts XVI markar ekki mikil þáttaskil hjá rómversk - kaþólsku kirkjunni. Hinn nýkjörni páfi er 78 ára að aldri. Hann er því tveimur áratugum eldri en Jóhannes Páll II var þegar hann tók við páfadómi árið 1978. Að svo gamall maður skuli verða fyrir valinu þykir vera vísbending um þrennt: yfirlýsing um að íhaldssöm stefna páfatíðar Jóhannesar Páls II haldist óbreytt og meginstef hennar verði áfram við lýði, að kardinálarnir hafi talið óæskilegt að velja of ungan mann til embættisins og með því auðvitað að nýr páfi verði ekki lengi við völd og síðast en ekki síst að hér hafi menn sæst á málamiðlun. Að mínu mati kemur þessi niðurstaða nokkuð á óvart. Ég hafði búið mig undir það að nýr páfi yrði meiri málamiðlun en hér liggur fyrir. Menn myndu jafnvel velja lítt umdeildari páfa. Það er enginn vafi á því að Benedikt XVI hefur verið óvenju umdeildur og ófeiminn við að tjá sig um trúarleg efni með íhaldssömum og gamaldags hætti og þykir enn íhaldssamari en margir forvera hans á páfastóli.

Mér þykja það tíðindi að kjörið stóð ekki lengur en raun bar vitni og reyndar má segja að það séu stærstu tíðindin hversu fljótt kjörið tók og að jafn umdeildum manni hafi tekist að ná 2/3 greiddra atkvæða og ná samstöðu um sig með svo skjótum hætti. Um er að ræða mann sem hefur vakið athygli fyrir íhaldssamar skoðanir og áherslur. Hann hefur hafnað öllum hugmyndum um nútímavæðingu kirkjunnar og er harður andstæðingur frjálslyndari stefnu og áherslna. Hann hafnar því að konur fái að verða prestar, og að prestar fái að gifta sig auk þess sem hann fordæmir algjörlega t.d. fóstureyðingar, getnaðarvarnir, samkynhneigð og rokktónlist. Hann er andvígur því að Tyrkir fái inngöngu í Evrópusambandið og hefur sagt það myndu verða mikil mistök ef land sem að mestu væri byggt múslimum myndi ganga í sambandið. Hann er andsnúinn kommúnisma og hefur sagt í rituðu máli að slíkar stjórnir hafi verið smán okkar tíma. Kjör hans í embættið með svo fljótlegum hætti að hann nái kjöri í fjórðu umferð er staðfesting þess að hann hafi frá upphafi náð taki á kjörinu og náð að koma í veg fyrir tilraunir hófsamari og frjálslyndari kardinála til að útiloka hann.

Ég vona að nýjum páfa farnist vel í embætti og hann muni stjórna rómversk - kaþólsku kirkjunni með farsælum hætti og muni verða jafnöflugur boðberi kristinnar trúar og friðarboðskapar og forveri hans, sem sinnti embættinu í 27 ár af miklum glæsileik.

Punktar dagsins
Akureyri

Fjölmennasta íbúaþing í sögu landsins, Akureyri í öndvegi, var haldið hér á Akureyri í september 2004. Komu þar saman vel yfir þúsund manns, til að ræða málin, skiptast á hugmyndum og eiga góða stund saman og vinna af krafti að miklu framfaramáli: að móta hugmyndir til að efla hjarta okkar góða bæjar. Þar var spennandi starf unnið og gagnlegt, gaman var að móta miðbæinn okkar og framtíð okkar sem höfum fylgt Akureyri frá upphafi og viljum eyða ævinni hér og gera bæinn sem bestan fyrir samferðarmenn okkar og þau sem bæinn munu erfa í fyllingu tímans. Niðurstöður þingsins voru nýttar til að skilgreina forsendur í alþjóðlegri hugmyndasamkeppni. Í samkeppni bárust um 140 tillögur, víðsvegar úr heiminum í hugmyndasamkeppnina. Þetta var mun meiri þátttaka en búist hafði verið við og á sér enga hliðstæðu hér á landi í sambærilegri keppni. Upphaflega hafði verið ákveðið að kynna niðurstöður formlega á sumardaginn fyrsta, á fimmtudag. Svo verður ekki, enda eru tillögurnar það margar og fjölbreyttar að frestað hefur verið til 7. maí að kynna niðurstöðurnar. Í dómnefndinni sitja Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, Árni Ólafsson arkitekt, Hlín Sverrisdóttir skipulagsfræðingur og landslagsarkitekt, Pétur H. Ármannsson arkitekt og Þorvaldur Þorsteinsson forseti Bandalags íslenskra listamanna. Verður mjög fróðlegt að fylgjast með framhaldi málsins og kynna sér niðurstöðurnar formlega í næsta mánuði.

Dr. Angela Merkel

Eitt og hálft ár eru til þingkosninga í Þýskalandi. Í seinustu þingkosningum, í september 2002, hélt vinstristjórnin í landinu, undir forsæti Gerhard Schröder naumlega völdum. Jafnaðarmannaflokkurinn missti mikið fylgi en stjórnin hélt vegna fylgisaukningar samstarfsflokksins, græningja. Munaði mjög litlu að kosningabandalag hægrimanna, undir forystu Edmund Stoiber forsætisráðherra Bæjaralands og leiðtoga CSU, næði völdum. Hefur stjórn Schröders allt frá því verið veik í sessi og staðið höllum fæti gegn öflugri stjórnarandstöðu í þinginu. Einn er galli hægrimannanna í þýskri pólitík. Þeir geta ekki með góðu sameinast um einn afgerandi leiðtoga fyrir næstu þingkosningar. Stefnir allt í að Stoiber og dr. Angela Merkel leiðtogi CDU (kristilegra demókrata) muni slást um hvort þeirra verði kanslaraefni hægriblokkarinnar (CDU/CSU) í þeim kosningum. Mörgum hefur þótt eðlilegt að Merkel leiddi baráttuna, enda hefur Stoiber fengið sitt tækifæri. dr. Angela Merkel fengi að taka slaginn og skora kanslarann á hólm. Er það bæði sögulega séð réttast, miðað við styrkleika CDU, og það að Merkel hefur ekki fengið tækifærið enn til að leiða bandalagið og reyna á styrk sinn pólitískt.

Margir sjá þýsku útgáfuna af Margaret Thatcher í henni og að hún verði leiðtogi hægrimanna í Evrópu með sama hætti og Thatcher náði sinni stöðu fyrir tæpum þrem áratugum. Merkel er töffari í þýskri pólitík og þykir í flestu andstæða hins íhaldssama Edmund Stoiber. Angela komst til áhrifa innan CDU á valdatíma Helmut Kohl og þykir almennt vera pólitísk fósturdóttir hans. Hún er fimmtug, tvífráskilin og barnlaus og því langt í frá lík hinum 63 ára forsætisráðherra Bæjaralands sem þykir vera ímynd hins heilbrigða fjölskyldulífs sem hinn harðgifti fjölskyldufaðir. Stoiber hefur hug á að reyna aftur að leggja í kanslarann og Merkel hefur hug á að verða fyrsti kvenkyns kanslari Þýskalands. Aðeins annað þeirra getur þó leitt hægriblokkina til valda. Tel ég persónulega rétt að Angela leiði næstu kosningabaráttu, hún hefur þann kraft og kjark sem þarf til að leggja hina máttlitlu vinstristjórn jafnaðarmanna og græningja að velli. Nauðsynlegt er að þau sameini krafta sína og verði bæði í forystu kosningabaráttunnar en Angela sem leiðtogi CDU leiði slaginn að þessu sinni. Ég hef lengi haft áhuga á þýskri pólitík og fylgist vel með þýskum netfréttum af pólitíkinni og málefnum þar.

Göran Persson

Eins og fram hefur komið í skrifunum hér seinustu vikurnar hefur mjög hallað á ógæfuhliðina fyrir Göran Persson forsætisráðherra Svíþjóðar og leiðtoga Jafnaðarmannaflokksins. Fylgi flokksins og persónulegt fylgi hans hefur minnkað mjög seinustu mánuðina og nýlegar skoðanakannanir hafa staðfest að helsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Moderata, er orðinn stærsti flokkur landsins og Persson hefur misst mikið fylgi. Einkum er um kennt klaufalegum viðbrögðum hans og Lailu Freivalds utanríkisráðherra, við náttúruhamförunum í Asíu og lánleysi sænsku stjórnarinnar almennt í málinu. Skv. fréttum í dag er Persson nú talinn vera að íhuga alvarlega að segja af sér embættum sínum og hætta í pólitík á landsfundi flokksins í október. Er það nýlunda að heyra það, en hann hefur fram að þessu þráfaldlega neitað að víkja úr embættum sínum. Persson hefur verið leiðtogi flokksins og forsætisráðherra frá árinu 1996, í tæpan áratug. Orðrómur hefur verið um það seinustu vikur að Margot Wallstrom varaforseti ESB, taki við leiðtogahlutverkinu af Persson. Nú hefur hún lýst því yfir að hún hafi ekki áhuga á starfinu. Það eru þó engin tíðindi, enda sagðist Persson fyrir áratug ekki hafa áhuga á að taka við af Ingvari Carlsson sem leiðtoga. Reyndin varð sú að hann varð engu að síður eftirmaðurinn. Því er staða Wallstrom sterk og ekki ólíklegt að hún taki við fyrir næstu kosningar.

Húsavík

Fór í morgun til Húsavíkur til að fara á fund og var þar meginpart dagsins. Gekk það mjög vel og farið yfir mörg góð málefni og voru góðar samræður þar og hreinskiptar um stöðuna almennt í málaflokknum. Hafði gagn og gaman af þessu. Í hádegishlénu náði ég að hóa saman nokkrum á staðnum sem ég þekki til að fá okkur að borða saman á veitingastað. Þar voru góðar umræður og fínt að fara yfir málin. Það var gott veður þar og gaman að fara þessa ferð. Á heimleiðinni stoppaði ég við hjá vini mínum sem býr á Svalbarðsströnd og áttum við þar gott spjall. Kom svo heim undir kvöld, eftir fínan dag og gott spjall við fjölda fólks.

Saga dagsins
1246 Haugsnessfundur, mannskæðasta orrusta í sögu landsins, var háð í Blönduhlíð í Skagafirði. Brandur Kolbeinsson og Þórður kakali áttust við. 100 manns féllu. Veldi Ásbirninga leið undir lok
1917 Leikfélag Akureyrar var formlega stofnað - það starfaði í upphafi sem áhugamannaleikfélag
1956 Rainier fursti í Mónakó, kvænist bandarísku óskarsverðlaunaleikkonunni, Grace Kelly - þau eignuðust þrjú börn saman: Karólínu, Albert og Stefaníu. Hjónaband þeirra var umtalað og vakti
mikla athygli. Grace furstaynja fórst í bílslysi árið 1982. Rainier ríkti allt til dauðadags árið 2005
1993 Sértrúarsöfnuður David Koresh í Waco í Texas, fyrirfer sér eftir mánaðarlangt umsátur FBI
1995 Bílsprengja grandar stjórnsýslubyggingunni í Oklahoma í Kansas - tæp 200 manns létu lífið í árásinni. Að baki henni stóðu Timothy McVeigh og Terry Nichols. McVeigh var dæmdur til dauða og tekinn af lífi árið 2001, en Nichols var dæmdur í lífstíðarfangelsi. Minnisvarði til minningar um hina látnu í sprengjuárásinni var vígður á grunni hússins, 19. apríl 2005, er tíu ár voru liðin frá árásinni

Snjallyrðið
Every artist dips his brush in his own soul, and paints his own nature into his pictures.
Henry Ward Beecher rithöfundur (1813-1887)


Engin fyrirsögn

Nýr páfi kjörinn

Hvítur reykur í Vatíkaninu - nýr páfi kjörinn

Nýr páfi hefur verið kjörinn í Vatíkaninu í Róm. Klukkan 15:57, eftir að kardinálarnir höfðu kosið fjórum sinnum um nýjan páfa, á tveim dögum, steig hvítur reykur upp úr skorsteininum á Sixtinsku kapellunni í Róm. Áður hafði þrisvar stigið upp svartur reykur. Páfakjör hófst seinnipartinn í gær, 16 dögum eftir að Jóhannes Páll II páfi lést. Sorgartímabili vegna andláts hans, Novemdialis, lauk á sunnudag. Í gær fór fram ein umferð, en tvær svo í morgun. Í þeirri fjórðu hefur því náðst tilskilinn meirihluti. Nýr páfi mun koma út á svalir Péturskirkjunnar innan skamms. Til marks um kjör nýs páfa hefur klukkum Péturskirkjunnar í Páfagarði verið hringt. Mikill mannfjöldi er á Péturstorginu í Róm og bíður þess að tilkynnt verði formlega hver er nýr trúarleiðtogi rómversk - kaþólsku kirkjunnar.


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um harðvítuga valdabaráttu í Samfylkingunni í væntanlegu formannskjöri þar sem Össur og Ingibjörg Sólrún takast á með sífellt beinskeyttari hætti. Fer ég yfir umræðuna um svokallaða framtíðarnefnd flokksins og vinnubrögð hennar og vendingar vissra Samfylkingarmanna í þá átt að sjálfstæðismenn taki afstöðu í kjörinu og beiti sér beint til stuðnings Össuri. Hversvegna ættu sjálfstæðismenn að skipta sér af innbyrðis væringum Ingibjargar og Össurar um formennsku flokksins? Ég bara spyr? Það er varla undrunarefni að Birni Bjarnasyni sé varla vel við Ingibjörgu Sólrúnu og hennar verk, t.d. á vettvangi borgarmálanna. Þau hafa verið andstæðingar þar til fjölda ára og sjálfstæðismenn í borginni eru engir stuðningsmenn stjórnunarstíls hennar og óráðsíu í borginni. En ég get ekki heldur séð að sjálfstæðismenn séu neitt sérstakir stuðningsmenn Össurar beint. Hinsvegar er það óneitanlega svo að Ingibjörg Sólrún er umdeildari stjórnmálamaður en Össur. Hún hefur átt erfitt með að fá fulltrúa annarra flokka til að treysta sér og er besta dæmið um það hvernig hún hefur haft það pólitískt seinustu tvö árin. Hún hefur alveg verið á ís pólitískt. Össur hefur allt annan bakgrunn og gæti alveg unnið með öðrum flokkum á breiðari grundvelli en Ingibjörg Sólrún.

- í öðru lagi fjalla ég um málefni Héðinsfjarðarganga og minni á mikilvægi þess að pólitísk loforð forystumanna stjórnarflokkanna vegna framkvæmdanna standi. Fer ég yfir skoðun mína á málinu almennt. Við blasir að Gunnar Birgisson ætli nú að leggja fram breytingatillögur á þingi sem markast af því að taka þessi göng út af samgönguáætlun og gera út af við samgönguumbætur á landsbyggðinni almennt. Slík ósvinnuefnistök eru með ólíkindum. Í umræðu sem gengur í samfélaginu er vegið að okkur hér fyrir að vilja efla byggðirnar. Þar erum við kölluð kjördæmapotarar því við viljum efla byggðirnar og styrkja heildirnar. En engum fjölmiðlamanninum eða spekingnum í umræðunni fyrir sunnan dettur auðvitað í hug að kalla Gunnar Birgisson kjördæmapotara. Þeir sem kalla Halldór Blöndal, Arnbjörgu Sveinsdóttur og Birki Jón Jónsson kjördæmapotara fyrir að berjast að þessu hljóta þá að færa þann stimpil á Gunnar með því að krefjast þess að peningar fari utan af landi í hans kjördæmi og til höfuðborgarinnar. En svo er ekki gert? Hversvegna er það svo? Þessi tvískinnungur er með ólíkindum. Það vilja allir styrkja sínar byggðir og bæta. En vinnubrögð Gunnars eru með þeim hætti að slátra beinlínis þeirri framkvæmd sem var lofað hér í kosningum og okkar kosningabarátta byggðist á. Vonandi tekst sú barátta hans ekki.

- í þriðja lagi fjalla ég um þá ákvörðun Halldórs Blöndals forseta Alþingis að víta þingmann Samfylkingarinnar vegna skorts á almennum mannasiðum á Alþingi. Ákvörðun Halldórs verður þingmönnum vonandi umhugsunarefni og þeir læri þá gullnu reglu að þingmenn sýni hvor öðrum tilhlýðilega virðingu og virði fundarstjórn forseta og a.m.k. grípi ekki fram í fyrir honum þegar hann er að tala.

Punktar dagsins
Össur og ISG á fundi á Akureyri

Formannsslagurinn í Samfylkingunni er hafinn af fullum krafti, nú þegar rúmur mánuður er til landsfundarins. Skráningu í flokkinn fyrir landsfundinn er lokið og því getur hin formlega kosningabarátta hafist af fullum krafti. Bæði hafa nýtt sér vel tæknina í baráttunni. Össur opnaði fyrr á árinu öflugan bloggvef, leggur hann mikla rækt við hann og vinnur af krafti, hann tjáir þar skoðanir sínar og vinnur öflugur í baráttunni. Nú hafa stuðningsmenn hans opnað vef um framboð Össurar. Líst vel á hann, er hann byggður utan um málefni og árangur og það sem meira er jákvæð komment um næstu tvö ár. Vefur ISG er óttalegur halelújavefur án innihalds. Það er einfalt mál. Hann er eiginlega að drukkna í oflofi og einhverri yfirtrúarstemmningu. Segja má einnig að hann sé afskaplega sterílíseraður og ópersónulegur. Össur er mun öflugri í að skrifa beint til lesandans, talar um heitustu málin og er nær lesandanum í pælingum. Hann þorir að hafa skoðanir og tjá sig, en Ingibjörg notar ekki vefinn sem samskiptaleið til fólks með skrifum þar inn sjálf, nema ef frá er talið stöku sinnum nokkrir punktar. En svona er þetta bara. Þessi slagur harðnar sífellt. Er gott að Össur víkur ekki fyrir Ingibjörgu sjálfviljugur. Er mitt mat að hann hafi styrkst seinustu daga og vikur. Það er vissulega þeim báðum gott að fá mælingu á stöðu sinni í flokkskjarnanum.

Gordon Brown og Tony Blair

Baráttan fyrir þingkosningarnar í Bretlandi þann 5. maí er á fullu og leiðtogar flokkanna á fullu um allt land að kynna stefnu sína og boðskap fyrir kjósendum. Eftir að Verkamannaflokkurinn bætti við sig aftur um miðja vikuna og sundur dró milli flokkanna hefur nú aftur færst saman og aftur munar nær engu á stóru flokkunum. Staðan er orðin með sama hætti og var í kringum þá tímasetningu er boðað var til kosninganna. Stefnir allt í jafnar og tiltölulega spennandi slag. Athygli vekur að Tony Blair er nú farinn að flagga Gordon Brown mun meir en hefur verið. Í upphafi ársins gat Blair ekki á blaðamannafundi einu sinni lofað að Brown yrði ráðherra eftir kosningarnar en nú er annað hljóð komið í strokkinn. Nú er Brown flaggað sem mest má vera og hann er kominn í þungamiðju kosningaslagsins. Það er alveg ljóst að hvernig sem þessar kosningar fara er Brown að fara að taka við Verkamannaflokknum, það er bara spurning um hvenær. Blasir þetta við. Reyndar segja fróðir að tímasett hafi þegar verið hvenær valdaskiptin verði ef LP heldur völdum. Blair hefur laskast og hvernig sem fer er Brown orðinn þungamiðja flokksins, meginsegullinn á almenning, og hans tími er að renna upp. Þarf engan sérstakan sérfræðing til að sjá að Blair er orðinn þreyttur og útbrenndur og sést á könnunum að persónufylgi hans er dapurt og Brown er orðinn aðalstjarnan og tekur brátt við valdataumunum ef flokkurinn heldur velli.

Reykjavíkurflugvöllur

Annað kvöld kl. 20:00 verða haldnar kappræður um Reykjavíkurflugvöll í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands. Frummælendur á fundinum verða Egill Helgason sjónvarpsmaður og Jón Karl Ólafsson forstjóri Icelandair. Fundurinn er haldinn á vegum Heimdallar og sjálfstæðisfélaganna í Nes- og Melahverfi, Vestur- og Miðbæjarhverfi, Hlíða- og Holtahverfi, Austurbæ og Norðurmýri. Hljómar spennandi fundur. Ekki veitir af umræðu um þessi mál. En mín skoðun á málefnum vallarins er alveg skýr - ég vil að hann verði áfram á höfuðborgarsvæðinu.

Geir H. Haarde fjármálaráðherra

Í gær voru liðin sjö ár síðan Geir H. Haarde tók við embætti fjármálaráðherra af Friðriki Sophussyni. Enginn hefur nú setið lengur á stóli fjármálaráðherra en Geir. Á þessum tímamótum vil ég senda bestu kveðjur til Geirs og óska honum góðs í störfum sínum og forystu í ráðuneytinu á komandi árum. Óhætt er að segja að Geir hafi á þessum sjö árum haldið vel utan um ríkiskassann og sérstaklega er ég glaður með skattatillögur hans undir lok seinasta árs og að hafa leitt þau mál farsællega og vel til lykta.

Saga dagsins
1913 Járnbraut, sú fyrsta og eina hérlendis, var tekin í notkun - hún var notuð allt til ársins 1928
1939 Ríkisstjórn Hermanns Jónassonar, Þjóðstjórnin, tók formlega við völdum - hún sat í þrjú ár
1961 Leikstjórinn Billy Wilder hlaut leikstjóraóskarinn fyrir hina stórfenglegu kvikmynd sína, The Apartment. Wilder telst einn af mestu snillingum bandaríska kvikmyndaheimsins á 20. öld. Fáir innflytjendur sem flutt hafa til Bandaríkjanna hafa náð betur að fanga ameríska mannlífsmenningu eða notað tungumálið jafn listilega í kvikmyndahandritum sínum og hann. Wilder var sannkallaður meistari í að tjá mannlíf og koma með húmorinn á rétta staði í handrit og gæða þau einstöku lífi. Hlaut fyrri leikstjóraóskar sinn fyrir hina frábæru The Lost Weekend árið 1945. Wilder lést árið 2002
1984 Lögreglukonan Yvonne Fletcher var myrt í óeirðum við sendiráð Líbýu í London - leiddi dauði hennar til harkalegra deilna milli landanna sem voru leyst með heimsókn Tony Blair til Líbýu 2004
1994 Listasafn Kópavogs, Gerðarsafn, var opnað - var kennt við Gerði Helgadóttur myndhöggvara

Snjallyrðið
A person without a sense of humor is like a wagon without springs. It's jolted by every pebble on the road.
Henry Ward Beecher rithöfundur (1813-1887)


Engin fyrirsögn

Vigdís Finnbogadóttir
75 ára


Frú Vigdís Finnbogadóttir

Frú Vigdís Finnbogadóttir fjórði forseti Íslenska lýðveldisins, er 75 ára í dag. Vigdís hefur markað sér sess í sögunni með verkum sínum og forystu, bæði á alþjóðavettvangi og sem þjóðhöfðingi Íslands. Alla tíð hef ég borið mikla virðingu fyrir Vigdísi og framlagi hennar til bæði jafnréttismála og ekki síður sextán ára dyggri þjónustu sinni við landsmenn alla á forsetaferli sínum. Kjör Vigdísar Finnbogadóttur í embætti forseta Íslands í júní 1980 vakti mikla og verðskuldaða athygli um allan heim. Hún var fyrsta konan sem kjörin var þjóðhöfðingi heimalands síns í almennum kosningum. Kjör hennar markaði því mikil og jákvæð þáttaskil fyrir konur um heim allan. Forsetaferill hennar var mjög farsæll og einkenndist af sterkum og órjúfanlegum samskiptum hennar við almenning. Hún var sannkallað sameiningartákn allra landsmanna, manneskja sem landsmenn treystu og báru virðingu fyrir, hvar svo sem þeir voru í flokki eða hvaða stjórnmálaskoðanir þeir höfðu. Hún var samnefnari alls þess sem máli skipti. Sést það best í því að hún var kjörin í embættið með rúmlega 30% greiddra atkvæða en náði að ávinna sér traust þeirra sem ekki kusu hana. Það er bæði helsti styrkleiki Vigdísar og besti vitnisburðurinn um verk hennar.

Frú Vigdís Finnbogadóttir fæddist í Reykjavík, 15. apríl 1930. Hún er dóttir Finnboga Þorvaldssonar prófessors, og Sigríðar Eiríksdóttur hjúkrunarfræðings, sem var formaður félags íslenskra hjúkrunarfræðinga í 36 ár. Vigdís útskrifaðist frá MR árið 1949 og hélt ári síðar í nám til Sorbonne í Frakklandi þar sem hún nam frönsku og leikhúsfræði. Hún fór síðar til Parísar og hélt námi sínu þar áfram. Við heimkomuna til Íslands að loknu námi hóf hún störf hjá Þjóðleikhúsinu og vann þar í nokkur ár við ritun leikskrár og faglega stjórnun leikhússins. Undir miðjan sjöunda áratuginn hélt hún til Kaupmannahafnar í framhaldsnám í leikhúsfræðum. Við heimkomuna eftir námið í upphafi áttunda áratugarins heillaði hún landsmenn er hún kenndi frönsku í Ríkissjónvarpinu. Árið 1972 var Vigdís ráðin leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur. Lagði megináherslu þar á íslensk leikverk og frægt varð hvernig hún vakti athygli á leiklistarhöfundum og lagði rækt við nýja kynslóð höfunda, leikara og leikstjóra. Árið 1980 gaf hún kost á sér til embættis forseta Íslands, eftir að á hana hafði verið skorað af fjölda fólks úr öllum stjórnmálaflokkum. Hún háði markvissa baráttu ásamt þrem meðframbjóðendum og sigraði í kosningunum sem haldnar voru 29. júní 1980. Vigdís sat á forsetastóli í 16 ár og vann hug og hjörtu íslensku þjóðarinnar.

Þegar litið er yfir ævi Vigdísar og verk hennar á forsetastóli vekur helst athygli hversu vel hún náði til almennings. Hún varð ein af fólkinu, látlaus en glæsilegur fulltrúi allra landsmanna. Í forsetatíð sinni ferðaðist hún mikið um landið og náði virðingu jafnt íslensks alþýðufólks sem konungborinna í Evrópu. Hún hefur ótrúlegan sjarma og nær sambandi við hvern þann sem hún hittir með ótrúlegum hætti. Hvert sem hún fór, hvort sem það var fámenn byggð á Íslandi eða höfuðborg fjarlægs ríkis, vakti hún verðskulda athygli. Hún bar með sér bæði ferska vinda og heillandi andrúmsloft. Einkum þess vegna náði hún svo vel til allra, hún var samnefnari svo margs sem íslensk þjóð telur skipta máli og í henni sá fólk traustan fulltrúa sem hægt var að ná samstöðu um. Þar skiptir að mínu mati sköpum að hún kunni þá list að skilja að forsetaembættið og dægurþras stjórnmálanna. Hún var yfir dægurþrasið hafin og náði að vera traustverðugur fulltrúi allra. Það er umfram allt lykillinn að því hversu farsæl forsetatíð hennar og verk almennt í þágu allra landsmanna eru, bæði þegar litið er yfir forsetaferilinn og ekki síður þegar tjáð sig er um persónu hennar. Verk hennar og forysta í embættinu sameinuðu þjóðina að baki heilsteyptri manneskju.

Hjartans mál Vigdísar á ferli hennar hafa verið náttúruvernd og málvernd. Í þessu tvennu geta allir landsmenn sameinast. Hún valdi sér baráttumál sem sameinuðu þjóðina. Barátta hennar fyrir verndun menningararfsins og íslenskrar tungu, sem er heilagast af öllu sem við eigum, hefur skipt sköpum. Man ég fyrst eftir Vigdísi er hún kom hingað til Akureyrar í opinbera heimsókn árið 1981. Hún vakti þá sem ávallt síðar í mínum huga mikla athygli fyrir það hversu alþýðleg og blátt áfram hún var í öllum sínum verkum. Þá sem síðar á forsetaferlinum gróðursetti hún tré og minnti með því að hvert tré skiptir máli og að náttúran skiptir máli. Forysta hennar í þeim efnum hefur sérstaklega verið farsæl og var það eitt jákvæðasta baráttumál hennar að hvert sem hún fór um landið gróðursetti hún alltaf tvö tré: eitt fyrir strákana á staðnum og eitt fyrir stelpurnar eins og hún sagði jafnan. Tvö tré fyrir framtíðina. Á henni byggist jú allt lífið. Jákvæð og mannleg barátta hennar fyrir mannréttindum og mannlegum gildum hafa alla tíð heillað mig, jafnt sem smákrakka á Akureyri fyrir 24 árum sem nú í dag, löngu eftir að forsetaferli hennar er lokið og jákvæð verk hennar standa eftir.

Það er það merkasta við hana að verk hennar lifa svo góðu lífi. Forysta hennar í embættinu í mikilvægum málum á enn vel við og skipti sköpum. Það er einfalt. Látlaus og hrífandi samskipti hennar við almenning hitti alla í hjartastað sem hana hafa hitt. Sérstaklega er mér þar eftirminnilegt þegar hún fór vestur á firði snjóflóðaárið mikla 1995. Þá fór hún í minningarathöfn sem haldin var til minningar um fórnarlömb snjóflóðanna á Flateyri og Súðavík. Heillaði hún mig og alla sem á horfðu í sjónvarpi er hún gekk til aðstandenda, huggaði þá og styrkti, bæði með hlýleika sínum og ekki síst nærveru á þessum sorgartímum. Þá sem ávallt sannaði hún hversu sterk hún var, sterkur þjóðarleiðtogi en samt ein af landsmönnunum öllum. Hún var þjónn allra landsmanna og hlúði að þeim, á jákvæðan og mannlegan hátt. Hún þekkir líka mannlega reisn og hefur kynnst því af eigin raun að þurfa að berjast bæði fyrir lífinu og tilveru sinni. Ung missti hún einkabróður sinn í slysi og hefur jafnan sagt að harm sinn hafi hún alla tíð borið í hljóði. Barðist hún hetjulega við krabbamein áður en hún var kjörin á forsetastól og hafði sigur í þeirri baráttu. Vigdís þekkir því nístandi sársauka og lífsbaráttuna vel. Sársauki hennar hefur mótað persónu hennar og verk, enda leiftrar hún bæði af hlýju og glæsileika hvar sem hún er.

Ég var fyrir tæpu ári, í júní 2004, mitt í átökum um hennar gamla embætti, viðstaddur menningarhátíð á Dalvík þar sem hún flutti ræðu og kom fram sem fulltrúi allra landsmanna, þá tæpum áratug eftir að hún flutti frá Bessastöðum og skilaði af sér farsælu verki og heilsteyptu embætti. Á þeim tíma sem þá var liðinn hafði embætti hennar breyst úr sameiningartákni sem allir landsmenn gátu stutt til verka og verið stoltir af, í það að vera sundrungarafl á vettvangi landsmála. Var mjög ánægjulegt þar að ræða við hana, en skuggi átakanna sem þá voru um embætti hennar voru þá ofarlega í huga. Mikla athygli mína vakti þá að heyra það að allt sem hún hefði gert á forsetaferlinum hefði hún gert með heill landsmanna í huga og markað sér ákvarðanir og stefnumörkun með tilliti til þess hvað myndi styrkja heildina og efla samstöðu þjóðarinnar. Hún var farsæll leiðtogi og vann af krafti í embættinu þennan tíma, enda var hún sameiningartákn allra landsmanna. Heilsteypt verk hennar bera vitni persónunni og kostum hennar. Á afmæli hennar stendur efst í huga mér framlag hennar til eflingar náttúruvernd, íslensku máli og menningararfinum og síðast en ekki síst heilsteypt forysta hennar í málefnum alls þess sem skiptir okkur máli.

Ég óska Vigdísi innilega til hamingju með daginn og vil nota tækifærið til að þakka henni öll hennar farsælu verk og að vera jafn öflugt og jákvætt leiðarljós okkar landsmanna allra í gegnum tíðina. Framlag hennar og verk á opinberum vettvangi bera vitni heilsteyptri konu sem vann í þágu landsmanna allra. Gamalt kínverskt máltæki segir að það sé einkenni farsæls fólks að það stuðlar að farsæld annarra. Þetta gamla kínverska máltæki á vel við um Vigdísi forseta.

Punktar dagsins
Halldór Blöndal forseti Alþingis

Halldór Blöndal forseti Alþingis, vítti á miðvikudag Lúðvík Bergvinsson fyrir ummæli hans í ræðustól Alþingis. Lúðvík réðist harkalega að forseta og sýndi honum dónaskap og vanvirðingu og braut klárlega þingsköpin. Lét hann eftirfarandi orð falla: "Forseti, ég hef orðið...". Með þessu var hann að vega að forseta og sýndi fádæma dónaskap og bar að víta hann fyrir. Alveg klárlega. Lúðvík hafði kvatt sér hljóðs á fundinum og kallaði eftir utandagskrárumræðu um störf einkavæðingarnefndar. Sló þá Halldór í bjöllu og sagðist óska eftir því að Lúðvík tæki skýringar og upplýsingar forseta Alþingis gildar. Þá greip hann frammí fyrir Halldóri og sýndi honum fádæma vanvirðingu. Hélt Lúðvík áfram: "Þú ert sífellt, sí og æ, að grípa frammí fyrir þingmönnum, sí og æ að grípa frammí fyrir þingmönnum, virðulegi forseti, þannig að þetta gengur ekki hér, hér er bara ritskoðun hér á hinu háa Alþingi, forseti sífellt berjandi í bjölluna, meðan háttvirtir þingmenn hafa orðið, og eiga í erfiðleikum með að koma sínum sjónarmiðum á framfæri, vegna hávaða í hæstvirtum forseta. Hvernig á að halda hér uppi umræðum hér á hinu háa Alþingi, í hvert sinn sem einhver óþægileg umræða hefst, þá hefur forseti upp raust sína og lemur bjölluna endalaust."

Halldór sló þá í bjölluna og sagði: "Þau ummæli háttvirts þingmanns, forseti, ég hef hér orðið, eru vítaverð". Við svo sat. Lúðvík hefur síðar sagt að hann hafi ekki verið að rægja forseta eða ráðherra og bera þá röngum sökum eða sýnt þeim vanvirðingu. Eins og Halldór hefur bent á er það skylda þingmanna að sýna þinginu og forsetanum tilhlýðilega virðingu og hreyta ekki til þeirra ónotum. Nú hefur þingflokkur Samfylkingarinnar lýst yfir undrun sinni og mótmælt ákvörðun forseta um að ummæli Lúðvíks skyldu hafa verið vítt. Er með ólíkindum að þingflokkurinn leggi blessun sína yfir ruglið í Lúðvík. Það blasir við að hann sýndi þinginu og forsetanum vanvirðingu og víturnar því mjög eðlilegar. Er kjaftagangurinn í Lúðvík óverjandi og með ólíkindum að þingmaður á Alþingi hafi svo litla stjórn á sér sem raun ber vitni. Er svosem ekki nýtt að það opinberist að Lúðvík er óttalegur dóni og hefur ekki haft fyrir því að læra almennilega almenna mannasiði. Ákvörðun Halldórs verður þingmönnum vonandi umhugsunarefni og þeir læri þá gullnu reglu að þingmenn sýni hvor öðrum tilhlýðilega virðingu og virði fundarstjórn forseta og a.m.k. grípi ekki fram í fyrir honum þegar hann er að tala.

Rainier III fursti (1923-2005)

Rainier III fursti í Mónakó, var jarðsunginn í Monte Carlo í dag. Fjöldi konunga og drottninga auk þjóðarleiðtoga um allan heim vottuðu honum virðingu sína með því að vera við útför hans. Hann lést í síðustu viku, 81 árs að aldri, á sjúkrahúsi í Monte Carlo. Hann hafði legið þar seinustu vikurnar mikið veikur og var í dái undir lokin og því ljóst að hverju dró seinustu vikurnar og að hann lægi banaleguna. Hefur Albert sonur hans tekið við furstadæminu, en Albert hafði tekið við skyldustörfum föður síns nokkru áður en hann lést, enda þótti ljóst hver stefndi. Rainier fursti ríkti í Mónakó í 56 ár, eða allt frá árinu 1949. Er hann lést, var hann einn af þeim þjóðarleiðtogum heims, sem lengst höfðu ríkt. Rainier var af Grimaldi-ættinni, sem ráðið hefur ríkjum í Mónakó í rúmar sjö aldir. Hann tók við furstadæminu árið 1949, af afa sínum, Louis II. 19. apríl 1956 kvæntist Rainier fursti, bandarísku óskarsverðlaunaleikkonunni Grace Kelly. Þau eignuðust þrjú börn saman: Karólínu, Albert fursta og Stefaníu. Grace fórst í bílslysi í hæðunum fyrir ofan Monte Carlo 14. september 1982, 52 ára að aldri. Eftir lát hennar var Rainier mun minna í sviðsljósinu og lét börnum sínum það eftir að eiga sviðsljósið og athygli fjölmiðla. Seinustu árin sást hann sjaldan opinberlega. Rainier var jarðsettur í dómkirkju Monte Carlo við hlið eiginkonu sinnar.

Al Pacino í The Insider

Horfði í gærkvöldi á úrvalsmyndina The Insider. Hún er hvort tveggja í senn ádeila á tóbaksiðnaðinn bandaríska og þá ekki síst hinn ábyrgðarlausa fréttaflutning í Bandaríkjunum. Hér segir af Dr. Jeffrey Wigand sem rekinn er úr starfi sínu sem vísindamaður hjá Brown & Williamson, einu af stærstu tóbaksfyrirtækjum Bandaríkjanna, eftir að hafa reynt að benda yfirmönnum fyrirtækisins á hin heilsuspillandi áhrif tóbaksins. Hann sætir miklu harðræði frá fyrirtækinu eftir að þeim fer að gruna að hann muni jafnvel veita fjölmiðlum innanhússleyndarmál og upplýsingar sem gætu komið fyrirtækinu illa. Þeir skera á allar greiðslur til hans, hann fær líflátshótanir og það er njósnað um hann. Á svipuðum tíma fær fréttastjórnandi hjá hinum virta fréttaskýringaþætti CBS, 60 minutes, Lowell Bergman send vísindaleg gögn frá nafnlausum sendanda sem virðast veita innsýn í tóbaksheiminn. Sækist hann eftir aðstoð Jeffrey til að rýna í málið. Eftir miklar fortölur ákveður Jeffrey að tala við Bergman um hluta málsins. Skömmu seinna er Jeffrey ákærður fyrir samningsrof og allt er í framhaldi af honum tekið, húsið og sjúkratrygging hinnar astmasjúku dóttur hans.

Þar með eru góð ráð dýr fyrir Jeffrey, sem er nú svo sannarlega á flæðiskeri staddur, og ákveður hann að lokum að tjá sig um málið í þættinum vitandi það að ekki verður aftur snúið, hvorki fyrir sig né fjölskyldu sína. Hann tekur ákvörðun um að leysa frá skjóðunni og um leið að hleypa öllu í bál og brand, og greina frá hinum nöpru staðreyndum um hinn ógeðfellda tóbaksmarkað og spillinguna sem þar þrífst. Minnir að mörgu leyti á stórmyndina All the President´s Men, þar sem fjallað var um hvernig Watergate-hneykslið varð Richard Nixon að falli, svo að hann varð að segja af sér forsetaembætti. Óviðjafnanleg á öllum sviðum: meistaraleg leikstjórn Michael Mann er mjög fagmannleg, kvikmyndataka Dante Spinetti er afar góð og er gott dæmi um fagmannlega og um leið nýstárlega kvikmyndatöku. Russell Crowe vinnur leiksigur í hlutverki Wigand og Al Pacino er stórfenglegur sem Bergman og vinnur þar enn einn leiksigurinn. Frábær mynd, hæfir öllum þeim sem unna kvikmyndum með sannan og heilsteyptan boðskap sem er settur fram á hreint glæsilegan hátt. Í The Insider er rakin saga sem er táknmynd hins góða sem sigrast loks á hinu illa og gerspillta.

ISG

Mikil harka er komin í formannsslag Samfylkingarinnar eins og vel hefur sést seinustu daga í fjölmiðlum. Formannsefnin keppast við að vekja athygli á sér í fjölmiðlum og stuðningsmenn þeirra skrifa hverja greinina eftir aðra í Moggann og svara hvoru öðru með misjöfnu kappi og látum. Hefur verið reynt að grafa merkilegustu hluti upp í umræðunni og seinustu daga hefur mikið verið fjallað um að í fimmtugsafmæli Ingibjargar á gamlársdag hafi borgin lánað hjólbörur undir kampavín. ISG hefur svarið af sér öll tengsl að málinu og aðeins sagt að vinkonur hennar hafi staðið þarna að baki. Einn húmoristinn á netinu orti nett kvæði um þessa skondnu innsýn í siðferði ISG. Hún hljóðar svo:

Imbu þar víst allir mærðu,
er sú oft í langförum.
Konur einnig kerlu færðu,
kampavín í hjólbörum.


Saga dagsins
1785 Skálholtsskóli var lagður niður - ákveðið var að flytja biskupssetur frá Skálholti til Reykjavíkur
1930 Vigdís Finnbogadóttir fjórði forseti Íslenska lýðveldisins, fæddist í Reykjavík - hún varð fyrsta konan sem kjörin var þjóðhöfðingi í opnum kosningum. Vigdís sat á forsetastóli í 16 ár, 1980-1996
1971 Leikarinn George C. Scott hlaut óskarinn fyrir stórglæsilega túlkun sína á George S. Patton hershöfðingja í kvikmyndinni Patton - túlkun hans á Patton þykir með betri leikframmistöðum 20. aldarinnar, enda náði hann með undraverðum hætti að tjá persónuna og gæða hana lífi í þessari stórglæsilegu úrvalsmynd. Scott var einn af litríkustu leikurum sinnar kynslóðar. Hann lést árið 1999
1989 96 manns létust er þeir tróðust undir í skelfilegu slysi á fótboltaleikvanginum í Hillsborough
1990 Vigdís Finnbogadóttir forseti Íslands, fagnaði sextugsafmæli sínu - í tilefni afmælisins var gefið út afmælisrit til heiðurs henni, Yrkja - varð ritið grundvöllur Yrkjusjóðs sem vann að gróðursetningu

Snjallyrðið
Every time you don't follow your inner guidance, you feel a loss of energy, loss of power, a sense of spiritual deadness.
Shakti Gawain rithöfundur (1947)


Engin fyrirsögn

Þjóðvegur 1Heitast í umræðunni
Lengi hef ég verið mikill talsmaður þess að hafa öfluga umfjöllun um umferðarmál og minna fólk sífellt á mikilvægi þess að keyra varlega og varast slys. Umferðarslys eru sorgleg og tíðni þeirra hérlendis er alltof mikil. Umferðarslys breyta lífi fólks að eilífu. Ekkert verður samt eftir þau. Þeir vita það best sem misst hafa náinn ættingja eða vin í slíku slysi hversu þung byrði það er að lifa eftir þau sorglegu umskipti og sárin sem fylgja slíku dauðsfalli gróa seint eða aldrei. Það er sorgleg staðreynd að árlega er fjöldi fjölskyldna í sárum vegna dauðsfalls af völdum umferðarslyss. Síðustu ár hafa Umferðarráð og síðar Umferðarstofa staðið sig vel í að tjá sig um þessi mál og koma boðskapnum sem einfaldast og best til skila. Sérstaklega fannst mér þetta heppnast best í auglýsingaherferð á síðasta ári þar sem hljómaði tónverk Jóns Ásgeirssonar við Vísur Vatnsenda Rósu og á meðan voru sýndar myndir af vegum og myndir látinna kristölluðust þar. Það er dæmi um auglýsingaherferð sem heppnast, látlaus en þó áhrifamikil og kemur mikilvægum boðskap til skila.

Það er þó mitt mat að Umferðarstofu hafi brugðist hrikalega bogalistin seinustu vikurnar. Mér hefur blöskrað nýlegar auglýsingaherferðir Umferðarstofu, það er alveg einfalt mál og lái mér hver sem vill. Þær skjóta hátt í efnistökum en það er skotið svo langt yfir markið að vart hefur sést annað eins lengi. Birst hafa auglýsingar sem eru Umferðarstofu til skammar. Sérstaklega ein þeirra sem sýndi barn detta fram af svölum. Sjálfsagt er að fá fram umræðu og vekja fólk til lífs um þessi mál og tryggja umferðaröryggi. En þarna er alltof langt gengið. Verst fannst mér að sjá börn notuð í þessu skyni með þessum grófa hætti þar sem farið er langt yfir strikið. Er það ekki Umferðarstofu til framdráttar að auglýsa með þessum hætti og taldi ég að þessi lágkúrulega framsetning myndi fá menn á þeim bænum til að hugsa sinn gang. Sú varð nú ekki aldeilis raunin. Nú seinustu daga hefur birst okkur herferð þar sem smákrakkar á leikskóla ausa út úr sér fúkyrðunum og sjást svo í lokin fara heim með foreldrunum sem ausa þar fúkyrðum yfir næsta ökumann. Þessar auglýsingar missa marks og eru ekki til neins. Nema þá að Umferðarstofa sé orðin að málverndarráði allt í einu! Umferðarstofa á að beita sér fyrir auglýsingum í takt við það sem hefur birst seinustu árin, mun frekar en feta sig á þessa braut. Mega auglýsingar um stórmál sem þarf að vekja fólk til umhugsunar um ekki ganga of langt og þurfa aðilar að passa sig, enda auðvelt að feta sig út af brautinni og misstíga sig hrapalega.

Til Umferðarstofu eru skilaboðin frá mér einföld: það þarf ekki að skjóta hátt til að hitta í mark. Einfaldur og beinskeyttur boðskapur með mannlegu yfirbragði virkar best. Einfalt mál! Bestar af auglýsingum Umferðarstofu seinustu mánuðina eru sérstaklega tvær einfaldar auglýsingar en mjög einbeittar í tjáningu án ofsa eða hvassleika. Um er að ræða auglýsingar sem bera heitið Dáinn og Hægðu á þér.

SíminnSöluferli Símans er hafið. Er ánægjulegt að selja eigi Símann, hefði það átt að hafa gerst fyrir löngu. En söluferlið núna orkar tvímælis, sitt sýnist hverjum um það. Sjálfur hef ég tjáð þá afstöðu að ég skilji það ekki til fulls, það er mjög undarlegt, allt að því fishy eins og kanarnir myndu segja. Nú er talað um að þessum og hinum framsóknaraðlinum í samfélaginu hafi verið lofað hnossinu. Ekki get ég fullyrt neitt um það, en þetta eru gróusögurnar sem ganga. Merkilegast af öllu er að Gróa frá Leiti er orðin helsta meginstoð Samfylkingarinnar í þingumræðum. Er ótrúlegt að fylgjast með frumhlaupi Samfylkingarþingmanns að taka slíkt tal upp áður en vitað er hver býður í hlutinn og með hvaða hætti. Er greinilegt að Samfylkingarþingmenn eru að nota þingið til dægurþrasumræðu til að dekka yfir ólguna í eigin röðum, þar sem allt logar á milli í hnútuköstum og óeirðum.

Í gær skrifaði Agnes Bragadóttir fréttastjóri viðskiptafrétta Moggans, góða grein í blaðið og tjáði þar andstöðu sína við skipulag sölunnar og vildi að landsmenn tækju sig saman í málinu og byðu í saman. Frábær grein hjá Agnesi, svo sannarlega orð í tíma töluð og skemmtileg vangavelta um þetta mál. Viðbrögðin munu hafa verið svo góð að Agnes hefur nú tekið sér launalaust leyfi frá Morgunblaðinu og vinnur nú ásamt Orra Vigfússyni að því að safna tilboðum og bjóða svo saman í fyrirtækið. Er nú komið á fjórða þúsund tilboða í sarpinn hjá þeim og öðrum aðila sem er að safna. Gott mál, mjög svo. Mikilvægt að margir bjóði í og ferlið sé galopið, það er ótækt að eitthvað sé eyrnamerkt einhverjum og því rétt að koma með voldugt tilboð af þessu tagi. Öll munum við eftir því hvernig farið var að við söluna á Búnaðarbankanum til hins svokallaða S-hóps árið 2002. Sú sala og vinnubrögð eru vítaverð og mikilvægt að koma í veg fyrir þau. Það er algjörlega ótækt ef á að fara að rétta Símann fyrirfram ákveðnum aðila. Taka verður ferlið allt með opnum og gegnsæjum hætti. Vonandi verður það svo. Ég fagna frumkvæði fólks til að fá almenning til að bjóða í. Hið besta mál - þetta er hið rétta ferli og gott ef sem flestir bjóða í hlutinn.

Punktar dagsins
Gröf Jóhannesar Páls II páfa

Aðgangur var í dag leyfður að gröf Jóhannesar Páls páfa II í grafhýsi Péturskirkjunnar í Róm. Fimm dagar eru nú liðnir frá því að hann var jarðsettur þar að lokinni glæsilegri kveðjuathöfn, fjölmennustu útför mannkynssögunnar, eins og vel hefur komið fram. Flestir pílagrímarnir sem vottuðu honum virðingu sína eftir andlátið og við útförina hefur haldið nú heim á leið og rólegt er yfir miðborg Rómar, miðað við það ástand sem skapaðist þar fyrir viku, dagana eftir andlátið og fyrir útförina. Nokkur hundruð manns fóru að gröf páfa í dag og vottuðu honum virðingu sína. Sorgartímabili kaþólskra vegna andláts páfa, Novemdialis, lýkur á sunnudag. Á mánudag koma kardinálarnir saman í Róm og kjósa nýjan páfa. Í ítarlegum pistli sínum á vef SUS í dag fjallar vinur minn og nafni, Stefán Einar Stefánsson, um ferlið sem fylgir páfakjöri og kemur með sínar vangaveltur á andlát páfa og það sem við tekur er eftirmaður hans verður kjörinn í næstu viku. Er þessa dagana ferlið vegna kjörsins í undirbúningi, verið er að koma húsgögnum og tilheyrandi hlutum fyrir í Sixtínsku kapellunni í Róm og þessa dagana keppast skraddararnir, á klæðskeraverkstæðinu sem saumar fyrir Vatíkanið, við að sauma á nýjan páfa og þar sem auðvitað er ekki vitað hver hann verður er allur viðhafnarklæðnaður saumaður í þrem stærðum, svo öruggt sé að hann passi á nýjan páfa, sem verður auðvitað að koma fram strax eftir kjörið í viðeigandi klæðum og taka við embættinu.

Grace Kelly og Cary Grant í To Catch a Thief

Horfði í gærkvöldi á enn eina úrvalsmyndina. Að þessu sinni var litið á To Catch a Thief, kvikmynd meistara Sir Alfred Hitchcock. Jafnan er spennan í hámarki og hárfínn húmor fylgir með sem aukahlutur í myndum Hitchcocks. Að þessu sinni er blandan með öðrum hætti og húmorinn meira yfirgnæfandi - spennumyndin er því með áberandi gamansömu ívafi. Fjallar þessi yndislega kvikmynd um dementarán á frönsku ríveríunni og tilraunir þekkts demantaræningja, John Robie, sem er saklaus til að reyna að finna hinn seka en hann er undir grun og flestir telja hann hinn seka. Góð ráð eru því dýr fyrir hann. Í aðalhlutverkum eru Cary Grant og Grace Kelly og fara þau á kostum í hlutverkum Robie og Frances Stevens, en hún flækist inn í atburðarásina sem dóttir einnar af þeim konum sem lendir í klóm demantaræningjans. Grace, sem að mínu mati er fallegasta kona sögunnar, glansar í hlutverki Frances. Hún var aldrei meira heillandi á sínum ferli en í þessari mynd og enginn vafi á því í mínum huga að hún slær út náttúrufegurð ríveríunnar og gott betur en það. Leikstjórinn var heillaður af Grace og harmaði mjög þegar hún tók þá ákvörðun um miðjan sjötta áratuginn að hætta kvikmyndaleik og giftast Rainier fursta af Mónakó, sem hún kynntist við tökur á myndinni. Grace fórst í bílslysi í hæðunum fyrir ofan Monte Carlo 14. september 1982, 52 ára að aldri. Kaldhæðnislegt var að slysið átti sér stað á sömu slóðum og hið hið fræga bílaatriði Grace og Cary Grant í myndinni. Myndin stendur alltaf fyrir sínu, sannkallað augnakonfekt og ávallt gleðigjafi.

Tony Blair

Tony Blair forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi breska Verkamannaflokksins, kynnti í dag kosningastefnuskrá Verkamannaflokksins fyrir komandi kosningar. Staðfesti hann ennfremur í dag að þetta yrði hans seinasta kosningabarátta. Hann hefur í hyggju, að láta af embætti á kjörtímabilinu, ef hann heldur velli í kosningunum. Það er því ljóst að óháð kosningaúrslitunum leitar Blair nú í síðasta skipti eftir endurkjöri. Merkilegt er að lesa kosningastefnuskrá Verkamannaflokksins. Hún er full af fyrirheitum og loforðum. Vaknar sú spurning hvað Blair og kratarnir hafa verið að gera seinustu átta árin, eftir langan valdaferil. Blair hefur að fáu að státa eftir þessi átta ár og því merkilegt að lesa stefnuskrána. Greinilegt er þó núna að Blair og Gordon Brown fjármálaráðherra, hafa samið um frið og koma nú fram við hvert tækifæri til að sýna fram á að stríðsöxin milli þeirra hafi verið grafin. Er ekki laust við að sú hugdetta komi upp að þeir hafi samið um hvenær Blair láti af embætti ef flokkurinn heldur völdum og hvernig völdum verði skipt við brotthvarf Blairs. Ljóst er þó að kosningabaráttan er komin á fullt. Stóru flokkarnir tveir hafa kynnt stefnu sína og á morgun munu Frjálslyndir gera slíkt hið sama. Spennandi lokasprettur er því framundan í Bretlandi: barátta um persónur og beitt málefni á næstu vikum.

Kosningastefnuskrá Íhaldsflokksins 2005
Kosningastefnuskrá Verkamannaflokksins 2005

Margrét og Heiðar í Allt í drasli

Seinustu vikur hefur þátturinn Allt í drasli verið á dagskrá Skjás 1. Í þeim þætti fara Heiðar Jónsson snyrtir, og Margrét Sigfúsdóttir skólastjóri Hússtjórnarskólans, heim til fólks og bjóðast til að taka þar til með aðstoð fyrirtækis sem annast þrif og veita aðstoð og ráðleggingar til fólksins. Hefur verið með ólíkindum að sjá útganginn á heimili fólksins sem verið hefur í þáttunum. Draslið og óhirðan hefur farið yfir öll eðlileg mörk. Þar sem ég þyki mjög þrifinn og svona þess háttar einstaklingur að þrífa vel í kringum mig hefur mér blöskrað að sjá sum heimilin, reyndar öll ef út í það er farið. Það er óskiljanlegt að fólk safni upp drasli og óþverra um alla íbúð og láta þrif sitja á hakanum að svona miklu leyti. Hefur verið fyndið að fylgjast með Heiðari snyrti á heimilum þessa fólks, en hann á ekki beinlínis að venjast svona trakteringum. Svo fer Hjálmar alveg á kostum sem þulurinn í þáttunum, kemur með alveg bráðfyndin komment á sóðaskapinn. En þetta eru kostulegir þættir og þeir sýna okkur kostulega hlið á samfélaginu og vonandi hafa þau áhrif að þeir sem safna draslinu fari að þrífa og haldi í því horfinu. Það er jú fátt betra en að vera á hreinu og góðu heimili.

Saga dagsins
1961 Guðmundur Arason, var nefndur hinn góði, vígður biskup að Hólum - sat á þeim stóli í 34 ár
1844 Jón Sigurðsson kjörinn á Alþingi - hann var lengi forseti þingsins og sat þar til æviloka 1879
1964 Leikarinn Sidney Poitier hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á Homer Smith í myndinni Lilies of the Field - hann varð fyrsti þeldökki leikarinn er hlaut óskarinn fyrir leik í aðalhlutverki. Í kjölfarið hafa þrír aðrir hlotið slík verðlaun: Denzel Washington og Halle Berry árið 2002 og Jamie Foxx árið 2005. Poitier braut blað í sögu þeldökkra leikara og verðlaunanna og er án vafa einn af eftirminnilegustu karlleikurum 20. aldarinnar og hefur farið á kostum í mörgum litríkum hlutverkum
1972 Listmálarinn Jóhannes Sveinsson Kjarval, einn besti málari í sögu landsins, lést, 86 ára að aldri. Hann ánafnaði Reykjavíkurborg listaverkum sínum og var því listasafn borgarinnar nefnt eftir honum
1998 Allir bankastjórar Landsbanka Íslands: Björgvin Vilmundarson, Halldór Guðbjarnarson og Sverrir Hermannsson, sögðu af sér embættum sínum vegna hneykslismála. Deilt var harkalega á bankann og bankastjórana vegna spillingar í t.d. laxveiði- og listaverkakaupum. Í kjölfarið var ákveðið að aðeins yrði ráðinn einn bankastjóri í staðinn og hlaut Halldór J. Kristjánsson ráðuneytisstjóri, starfið þá

Snjallyrðið
I've always found that the speed of the boss is the speed of the team.
Lee Iacocca viðskiptamógúll (1924)


Engin fyrirsögn

Össur SkarphéðinssonHeitast í umræðunni
Tæpir 40 dagar eru þar til landsfundur Samfylkingarinnar hefst. Bráðlega hefst svo formlega póstkosning um formannsembætti flokksins þar sem valið stendur á milli Össurar Skarphéðinssonar núverandi formanns, og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur varaformanns. Hefur slagurinn milli þeirra harðnað til muna seinustu daga. Í síðustu viku birtist grein í Mogganum eftir Einar Karl Haraldsson, einn helsta taktíska skipuleggjanda Össurar, þar sem skotið er mjög föstum skotum að Ingibjörgu og svokallaðri framtíðarnefnd undir forystu hennar á vettvangi flokksins. Er enginn teboðsbragur á þeirri grein og fast skotið. Á sunnudag kom svo Össur í Silfur Egils og tjáði sig um slaginn við Ingibjörgu og skaut í margar áttir. Athyglisverðust var sú yfirlýsing hans að framtíðarnefndin væri óttalega bitlaus og ekkert nýtt hefði komið frá henni nema fyrirfram töluð orð og stefna fyrri tíma. Framtíðarstefnan væri því engin. Sagði hann nefndirnar lokaðar og vinnubrögðin klíkuleg. Óneitanlega var um að ræða kraftmikið skot á svokölluð umræðustjórnmál Ingibjargar Sólrúnar.

Nú hefur svo komið fram að einn helsti talsmaður flokksins í utanríkismálum, Guðmundur Árni Stefánsson leiðtogi flokksins í kraganum, hafi sagt skilið við utanríkismálahluta hópsins því að hann hafi talið nefndina og starf hennar lokað og lítt þokast áfram í réttar áttir. Hefur hann í viðtölum í dag tekið undir gagnrýni Össurar í viðtalinu á sunnudag og sagt að vinnuferli nefndarinnar væri lokað og aðþrengt og erfitt fyrir nýtt fólk að komast þar að til beinnar ákvarðanatöku og að koma með skoðanir. Össur gekk reyndar svo langt að kalla stefnumörkun framtíðarnefndarinnar óttalegar skyndibitalausnir. Merkilegt var svo að sjá skrif Páls Baldvins Baldvinssonar í DV í síðustu viku. Er þar að finna beitta og vægðarlausa aðfinnslu að ISG og verkum hennar á borgarstjórastóli, en eins og flestir vita einkenndist ferill hennar af einu klúðrinu á eftir öðru. En þessi umræða er kostuleg og spurning hvort flokkurinn klofnar vegna innbyrðis átaka. Ljóst er að seinasti mánuður formannsslagsins verður harðskeyttur og beittur og sennilega eru átökin rétt að byrja. Þau hafa lengi verið bakvið tjöldin en koma nú beint fram í dagsljósið. Kemur svosem varla á óvart að það gerist, þegar átökin harðna. En þau eru á milli helstu forystumanna flokksins og því er ekki nema von að spurningin vakni hvort meginstoðir flokksins þoli slík hnútuköst. Ég fjalla annars meira um þessi mál í sunnudagspistli mínum og kem með mína sýn á átökin og það sem er að gerast í þessum svilaslag um formennsku Samfylkingarinnar.

Gunnar BirgissonSturla Böðvarsson samgönguráðherra, kynnti samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar í ítarlegri framsögu á Alþingi í dag. Í kjölfarið voru svo langar og ítarlegar umræður um ræðu ráðherra og áætlunina almennt. Hún hefur verið kynnt víða seinustu vikur og áherslur hennar liggja vel fyrir og hefur farið fram góð umræða um hana almennt í samfélaginu, sem veitir vart af. Samgöngumál eru stór og víðfeðmur málaflokkur sem skiptir okkur öll máli, enda eru samgöngur stór og veigamikill þáttur alls mannlífsins. Öll þurfum við jú að fara á milli staða og góðar samgöngur skipta því máli, sérstaklega okkur hér á landsbyggðinni. Sami söngurinn var eins og venjulega í vissum þingmönnum. Þar kom fram sá háværi og óttalega þreytandi söngur að hagsmunir höfuðborgarsvæðisins væru fyrir borð bornir og ekki tekið tillit til aðstæðna þeirra. Er þetta ekki nýr söngur og satt best að segja er hann farinn að hljóma æði falskur í augum flestra, nema viðkomandi einstaklinga.

Sérstaka athygli mína vöktu í dag stórkallalegar yfirlýsingar Gunnars I. Birgissonar alþingismanns og verðandi bæjarstjóra í Kópavogi, um Héðinsfjarðargöng. Hann kallaði þau vitleysu og lét hörð orð falla í garð þeirra. Þótti mér afskaplega hvimleitt, sem Norðlendingi sérstaklega, að heyra þessar yfirlýsingar flokksbróður míns og baráttufélaga í stjórnmálum og get ekki annað en gagnrýnt harkalega tjáningu hans á þessum málum og þann vettvang sem hann velur sér til tjáningar. Frjáls er hann að skoðunum sínum, en hann verður auðvitað að gera sér grein fyrir því að þessi ummæli hans verða ekki vel séð hjá landsbyggðarfólki. Með þessum ummælum er þingmaðurinn að tala almennt um samgöngur á landsbyggðinni og vinnsluferli þeirra og kalla mikilvægar samgöngutengingar úti á landi vitleysu og óþarfa og hendir í okkur hér fyrir norðan sérstaklega hrollkaldri vatnstusku. Sú tuska kemur þó ekki að óvörum, við höfum nefnilega séð hana áður. Það er svosem skiljanlegt að hann beri hag síns svæðis fyrir brjósti, en það afsakar ekki ótrúleg ummæli hans. Það er mjög hvimleitt að sjá baráttufélaga sína í stjórnmálum vega að svæðum hér úti á landi og gera lítið úr eðlilegum samgöngubótum. Eins ágætur og Gunnar er almennt verð ég að lýsa yfir hörðu vantrausti á tjáningu hans á samgöngumálum. Þessi tjáning hans á samgöngumálum hér fyrir norðan vekur reiði mína og undrun, svo vægt sé til orða tekið.

Punktar dagsins
Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, heilsar elsta Akureyringnum, Jóhönnu Jónsdóttur. Til hliðar eru forsetahjónin

Forsetahjónin komu í opinbera heimsókn til Akureyrar í gær. Á flugvellinum í gærmorgun tóku bæjarstjórahjónin, Kristján Þór Júlíusson og Guðbjörg Ringsted, á móti forsetahjónunum ásamt Þóru Ákadóttur forseta bæjarstjórnar. Var víða farið, t.d. í VMA, leikskóla, dvalarheimilið Hlíð og í Háskólann þar sem haldið var málþing um menntamál. Í gærkvöldi var haldin skemmtidagskrá í Íþróttahöllinni. Dagskráin var fjölbreytt; upplestur, dans og tónlistaratriði frá klassík til þungarokks. Fjöldi fólks kom þar saman og átti góða stund. Bæjarstjóri og forseti fluttu þar ávörp og sæmdi forseti þar 23 ungmenni verðlaunum sem bera heitið: Hvatning forseta Íslands til ungra Íslendinga". Í morgun fóru forsetahjónin í heimsókn í Menntaskólann á Akureyri og sátu þau fyrir svörum á Hólum, sal MA. Einnig fóru þau t.d. í Norðlenska, Norðurmjólk, Sundlaugina, Kexsmiðjuna, Vífifell, Slippstöðina, Kjarnalund og Íþróttahöllina. Opinberri heimsókn forsetahjónanna til Akureyrar lýkur í kvöld en á morgun fara þau í opinbera heimsókn í Eyjafjarðarsveit. Á vef bæjarins er að finna fjölda mynda frá ferð forsetahjónanna norður.

Meðal þeirra er mynd sem sýnir Kór aldraðra, sem söng fyrir forsetann á dvalarheimilinu Hlíð í gær. Amma mín, Hanna Stefánsdóttir, hefur verið í kórnum allt frá stofnun árið 1988. Hún var formaður kórsins í 13 ár, frá árinu 1992 og lét af því embætti fyrr á þessu ári. Á myndinni sést í kórinn í bakgrunni, er forseta var afhend mynd eftir einn vistmanna. Í fremstu röð, milli Dorritar og starfsmanns Hlíðar sem afhendir formlega myndina, eru amma og vinkona hennar, Helga. Amma er nær starfsmanni Hlíðar á myndinni. Hér fyrir ofan er hinsvegar mynd þar sem bæjarstjóri og forsetahjónin heilsa Jóhönnu Jónsdóttur, elsta íbúa Akureyrarbæjar, en hún er 105 ára gömul. Árið 1981 þegar Vigdís Finnbogadóttir kom í fyrstu opinberu heimsókn sína til Akureyrar fór hún einnig á Hlíð. Þá hitti hún ennfremur langafa minn, Stefán Jónasson útgerðarmann, sem þá var elsti íbúi bæjarins, 100 ára að aldri. Lést hann árið eftir. Á ég gamla blaðaúrklippu úr Vísi þar sem er mynd af langafa og Vigdísi. Er þar vitnað í að hann hafi verið spurður hvernig honum hefði þótt forsetinn. Svarið er einfalt: "Hún er myndarleg og heilsteypt kona og hefur notalega nærveru." Skemmtilegt að eiga þessa úrklippu.

Helle Thorning-Schmidt

Helle Thorning-Schmidt var í dag kjörin leiðtogi danska Jafnaðarmannaflokksins. Sigraði hún naumlega í kjörinu, hlaut 53% greiddra atkvæða en keppinautur hennar, Frank Jensen, hlaut 47% atkvæða. Tekur hún við forystu flokksins af Mogens Lykketoft sem var leiðtogi flokksins frá árinu 2002. Flokkurinn hefur verið í stjórnarandstöðu frá 2001 og missti þá leiðtogahlutverk sitt í dönskum stjórnmálum. Mistókst honum að endurheimta það í kosningunum í febrúar og missti reyndar meira fylgi í þeim. Óheillasagan hélt því áfram og Lykketoft sagði af sér sem leiðtogi. Deilt var harkalega í leiðtogaslagnum nú um áherslur til hægri og vinstri í flokksstarfinu. Thorning-Schmidt vildi leiða flokkinn að miðju eða jafnvel til hægri en Jensen vildi halda fast í róttæka vinstristefnu og gömul gildi flokksins. Þótti mörgum sú stefna hafa brugðist í seinustu kosningum og var Jensen umdeildur vegna skoðana sinna. Thorning-Schmidt hlaut t.d. stuðning Nyrups, fyrrum forsætisráðherra Danmerkur og leiðtoga flokksins í 10 ár. Mun nú það verða hlutskipti hennar að leiða flokkinn næstu árin og inn í kosningarnar 2009. Thorning-Schmidt er tengdadóttir Neil Kinnock sem var leiðtogi breska Verkamannaflokksins í áratug, 1983-1992. Verður fróðlegt að fylgjast með henni í hlutverki leiðtoga stjórnarandstöðunnar í dönskum stjórnmálum á næstu árum.

Sunset Boulevard

Horfði í gærkvöldi á meistaraverk Billy Wilder, Sunset Boulevard. Er hún ein af mínum uppáhaldsmyndum, alltaf klassísk. Mögnuð svört kómedía um leikkonuna Normu Desmond sem muna má sinn fífil fegurri frá tímum þöglu myndanna þegar hún var nafli alheimsins í bransanum. Nú er hún aðeins skugginn af sjálfri sér, alein og bitur og lifir í blekkingu um forna frægð sem er ekki lengur til staðar. Þegar hún kynnist ungum handritshöfundi sér hún í hillingum að hennar tími geti komið aftur, en er allt sem sýnist hjá leikkonunni? Endalaust er hægt að velta fyrir sér þessari mynd sem á eldfiman hátt fjallar um skuggahliðar kvikmyndabransans og á mjög opinskáan hátt. MGM mógúllinn Louis B. Mayer var sár yfir hversu óvæginn Wilder var í umfjöllun sinni, en þarna birtist einkar óvægin úttekt á bransanum og kostir og gallar Hollywood glyssins koma vel í ljós. Einnig hvernig frægðin getur gert fólk áhrifamikið og allt að því vitfirrt með tímanum. Hlaut óskarinn fyrir handritið og Wilder var tilnefndur fyrir leikstjórn sína. Gloria Swanson sem átti stórleik í hlutverki Normu Desmond var tilnefnd fyrir leik sinn en þurfti að lúta í lægra haldi fyrir Judy Holliday í Born Yesterday. Þótti hneyksli að Swanson vann ekki, enda var hún aldrei betri á ferli sínum en í þessari mynd. Hún geislar í hlutverki Normu. Stórfengleg kvikmynd, sem allir verða að sjá.

Hildur Vala Einarsdóttir

Rúmur mánuður er nú liðinn síðan að Hildur Vala Einarsdóttir var kjörin poppstjarna ársins 2005 í Idol-stjörnuleit. Fór hún alveg á kostum í keppninni og steig aldrei feilspor allan þann tíma sem keppnin stóð. Hún var allan tímann langbesti keppandinn og verðskuldaði því sigurinn mjög. Í dag var tilkynnt í Íslandi í bítið og Morgunblaðinu að Hildur Vala myndi taka við sem söngkona hljómsveitarinnar Stuðmanna. Ragnhildur Gísladóttir hefur ákveðið að hætta tímabundið að minnsta kosti í hljómsveitinni. Ljóst er að skarð hennar verður vel mannað og verður gaman að fylgjast með Hildi Völu í þessu hlutverki, þegar hún fer að taka gömlu góðu Stuðmannalögin. Er ljóst að enginn getur tekið skarð Ragnhildar en Hildur Vala fer eflaust þarna inn á eigin forsendum og tekur slaginn á eigin forsendum, sem og allt annað á seinustu mánuðum. Fyrir okkur Stuðmannaaðdáendurna verður gaman að fylgjast með Hildi Völu og Stuðmönnum þegar þau fara um landið í sumar.

Saga dagsins
1919 Snjóflóð féll úr Staðarhólshnjúk við Siglufjörð og tók með sér öll mannvirki síldarverksmiðju og sex önnur hús sem þar voru. Eyðileggingin varð algjör þar. Alls 9 manns létust í snjóflóðinu. Einnig féllu snjóflóð á Engidal við Siglufjörð og í Héðinsfirði. 7 manns létust í hinu fyrrnefnda en tveir í hinu
1945 Franklin Delano Roosevelt forseti Bandaríkjanna, deyr á heimili sínu í bænum Warm Springs í Georgíu-fylki. Roosevelt var 32. forseti landsins og hafði setið allt frá 1933 í embætti. Enginn hefur setið lengur á forsetastóli en hann. Leiddi hann Bandamenn í seinni heimsstyrjöldinni. Hann náði þó ekki að lifa það að sjá fullnaðarsigurinn í átökunum verða að veruleika með uppgjöf Þjóðverja í maí
1961 Sovétmaðurinn Yuri Gagarín fór fyrstur manna út í geiminn - hann varð heimsþekktur vegna þess og urðu Bandaríkjamenn æfir vegna þess að þeir náðu ekki að verða á undan Sovétmönnum í þessu mikla kapphlaupi. Náðu þeir þó lokasigri í geimmálunum 1969. Gagarín lést í flugslysi árið 1968
1983 Leikarinn Sir Ben Kingsley hlaut óskarinn fyrir stórfenglega túlkun á sjálfstæðishetju Indverja, Mahatma Gandhi, í kvikmyndinni Gandhi, sem fjallaði um ævi hans og öfluga baráttu fyrir sjálfstæði heimalandsins - túlkun hans á Gandhi þykir með betri leikframmistöðum 20. aldarinnar, enda náði hann með undraverðum hætti að tjá persónuna og gæða hana lífi í þessari stórglæsilegu úrvalsmynd
1987 Sir Sean Connery hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á hinum úrræðagóða Jim Malone í kvikmyndinni The Untouchables - Connery er einn besti leikari Breta og best þekktur fyrir að hafa fyrstur allra leikið njósnara hennar hátignar, James Bond, í kvikmynd og mótað hlutverkið leikrænt

Snjallyrðið
A dream we dream alone is only a dream. But a dream we dream together is reality.
Yoko Ono Lennon tónlistarmaður (1933)


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um útför Jóhannesar Páls páfa II sem fram fór á föstudag. Áhrif páfa á alþjóðavettvangi hefur birst vel seinustu vikuna, allt frá andláti hans. Náði það hápunkti á þessum fagra apríldegi í Róm er hann var kvaddur. Staða Jóhannesar Páls II páfa sem friðarpostula og öflugs trúarleiðtoga var staðfest með því að fjöldi þjóðarleiðtoga og forystumanna á alþjóðavettvangi komu til útfararinnar og vottuðu með því honum virðingu sína. Útför páfa staðfesti að friðarboðskapur er sá boðskapur sem heldur merki fólks hæst á lofti. Mér fannst merkilegt að lesa erfðaskrá páfa sem birt var um miðja vikuna. Þar eru íhuganir páfa um lífið og tilveruna, trúartilganginn og skyldur sínar. Þar er ekki verið skv. venjulegum erfðaskrám að útdeila veraldlegum eigum eða dauðum hlutum sem hafa í raun engan tilgang þegar kemur að innsta kjarna tilverunnar. Páfi lét ekki eftir sig veraldlegar eigur og lifði íburðarlitlu lífi. Hann var fulltrúi trúar og friðarbaráttu í verkum sínum. Það sést vel í íhugunum hans í erfðaskránni. Það fyrsta og síðasta sem hafði tilgang í huga hans var trúin, það að vera málsvari kaþólsku kirkjunnar og vera öflugur leiðtogi hennar. Þessi gildi hafði hann í huga allt til loka.

- í öðru lagi fjalla ég um sífellt harðnandi formannsslag í Samfylkingunni. 40 dagar eru þar til landsfundur Samfylkingarinnar hefst. Bráðlega hefst svo formlega póstkosning um formannsembætti flokksins þar sem valið stendur á milli Össurar Skarphéðinssonar núverandi formanns, og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur varaformanns. Hefur blasað við nú nokkurn tíma að formannskosningin verði vettvangur átaka og láta í innsta hring á sama vettvangi, markað af fjölskyldu- og vinaslag sem ekki á sér mörg fordæmi í íslenskum stjórnmálum. Össur hefur eflst seinustu daga, hefur opnað kosningaskrifstofu tengda kjörinu og fer fram af krafti á vef sínum og talar um það sem er að gerast. Á vef Ingibjargar Sólrúnar er hátrúarleg og háfleyg persónuleg stemmning allsráðandi. Greinilegt er að skjallið og oflofið um ISG eru farin að virka öðruvísi á almenning. Enda er það svo að of mikið skjall getur endað sem háð. Fer ég yfir slaginn, sem að mínu mati snýst mun frekar um persónur en gallhörð málefni.

- í þriðja lagi fjalla ég um niðurstöður nefndar menntamálaráðherra um eignarhald á fjölmiðlum, en söguleg og þverpólitísk sátt náðist um niðurstöðuna. Er það mjög ánægjulegt og gleðiefni að hægt hafi verið að samtvinna áherslur og skoðanir á þessu mikilvæga málefni og lægja hinar gríðarlegu öldur í málinu. Nú, eins og áður, er ég þeirrar skoðunar að setja verði grunnreglur um fjölmiðla en ítreka sem fyrr andstöðu mína við að RÚV sé undanskilið slíkri allsherjar úttekt og standi svo eftir með einhver fríspil. Slíkt er ólíðandi.

Punktar dagsins
Dorrit Moussaieff og Ólafur Ragnar Grímsson

Á morgun koma forsetahjónin, Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff, til Akureyrar og Eyjafjarðarsveitar í opinbera heimsókn sem stendur til miðvikudags. Forsetinn heimsótti Eyjafjörð einn vorið 1999 en kom þá ekki í opinbera heimsókn til Akureyrar og hefur ekki fyrr farið í heimsókn til bæjarins í forsetatíð sinni. Ákveðið að hann myndi gera sér sérferð til bæjarins þegar að því kæmi. Nú er sú stund runnin upp. Forsetahjónin koma til Akureyrarflugvallar kl. 8.30 í fyrramálið. Munu þau heimsækja margar stofnanir og fyrirtæki hér í bænum á morgun og á þriðjudag. Á morgun verður opið málþing á vegum Háskólans á Akureyri og Akureyrarbæjar undir yfirskriftinni: Menntun og nýsköpun - byggðastefna nýrrar aldar. Fer málþingið fram í húsnæði HA að Borgum og hefst kl. 14:30. Forsetinn mun flytja þar ræðu ásamt fleirum. Annað kvöld verður samkoma með fjölbreyttri dagskrá í Íþróttahöllinni. Þar verður hátíðardagskrá og munu bæjarstjóri og forsetinn flytja þar ávörp. Á miðvikudag verða forsetahjónin í opinberri heimsókn í Eyjafjarðarsveit. Á morgun verða forsetahjónin í Verkmenntaskólanum, leikskólanum Iðavöllum, í Oddeyrarskóla, dvalarheimilinu Hlíð, Borgum, Minjasafninu, handverksmiðstöðinni Punktinum og Listasafninu. Það er því spennandi dagskrá framundan og ánægjulegt að kynna forsetahjónunum öll lífsins gæði okkar hér á Akureyri.

Howard og Blair séð með augum skopteiknara

25 dagar eru nú til þingkosninga í Bretlandi. Mikill hasar er hlaupinn í kosningabaráttuna og eru leiðtogar flokkanna á fleygiferð um landið, hitta kjósendur og kynna stefnu sína og skoðanir. Það er í mörg horn að líta þessa dagana hjá þeim Michael Howard, Tony Blair og Charles Kennedy. Skoðanakannanir sýna að mjög mjótt er á mununum milli stærstu flokkanna og hvert atkvæði gæti skipt máli. Stefnir í jöfnustu kosningar á Bretlandseyjum frá árinu 1992 þegar John Major og Neil Kinnock börðust hatrammlega í jafnri baráttu, sem Major vann, þvert á allar skoðanakannanir. Í ítarlegum pistli á vef Heimdallar á föstudag fór ég yfir kosningabaráttuna í Bretlandi: þar rakti ég átakalínur breskra stjórnmála seinustu ár og baráttumálin. Stefnir flest í að innflytjenda- og velferðarmál verði aðalmál kosninganna að þessu sinni. Hefur íhaldsmönnum tekist með miklum krafti að leiða kosningaumræðuna og taka taktísku punktana vel á sitt band. Er það mjög öflugri kosningabaráttu að þakka og vel stjórnaðri. Ekki kætir það Blair og kratana að vita að flokkurinn hefur nær alltaf, nema þá 1997, veikst eftir því sem nær kjördegi hefur dregið. Verður fróðlegt að sjá hvað muni gerast á næstunni í þessu máli, en það er ljóst að kosningarnar verða þær mest spennandi frá árinu 1992, þegar litlu sem engu munaði að flokkarnir yrðu hnífjafnir. Snörp og kappsöm barátta er framundan næstu vikurnar, fram að kjördeginum 5. maí nk.

Cheers (Staupasteinn)

Skjár 1 hefur undanfarnar vikur rifjað upp fyrir okkur kynnin af hinum stórkostlegu gamanþáttum Cheers sem eru með skemmtilegustu gamanþáttum í bandarísku sjónvarpi seinustu áratugina. Þættirnir gengu undir nafninu Staupasteinn, í þýðingu Guðna Kolbeinssonar, þegar þeir voru sýndir á miðvikudagskvöldum hjá Ríkissjónvarpinu hér í denn, sællar minningar. Cheers voru með langlífustu gamanþáttum í bandarísku sjónvarpi, en þeir gengu sleitulaust í heil 11 ár, eða frá 1982-1993. Leikhópurinn samanstóð af t.d. Ted Danson, Shelley Long, Kirstie Alley (sem kom inn í þættina við brotthvarf Long 1987), Nicholas Colasanto (er fór á kostum sem Coach fyrstu þrjú árin, en hann lést snögglega 1985), Rhea Perlman, John Ratzenberger, Woody Harrelson, George Wendt og Kelsey Grammer. Grammer fór á kostum í hlutverki sálfræðingsins Frasier Crane frá 1984, en fór svo í eigin þátt 1993 og var með þá allt til 2004, eða í heil 11 ár. Grammer lék því Frasier samfleytt í tvo áratugi. Voru Cheers þættir sem ég hafði gaman af til fjölda ára og horfði á, enda alveg magnaður húmor í þeim. Það er sönn ánægja að horfa á þættina, nú frá byrjun og horfa á þátt eftir þátt í seríu eftir seríu, öll 11 árin. Skjár 1 á þakkir skildar fyrir þetta framtak.

Sigrún Björk Jakobsdóttir

Í gestapistli á vef mínum fjallar Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi og formaður menningarmálanefndar Akureyrarbæjar um jafnréttismál. Fer hún yfir áleitnar spurningar tengdar málaflokknum og spyr sig að því á hvaða leið jafnréttisbaráttan sé í upphafi 21. aldarinnar. Í pistlinum segir svo: "Konur eru jafnhæfar körlum til að takast á við stjórnunarstörf og þær hafa að þar að auki aðrar skoðanir og önnur sjónarmið heldur en karlar og spyrja annarrra spurninga. Um þetta verður ekki deilt. Fyrirtæki hafa nefnt sem ástæður, fyrir fæð kvenna í stjórnum þeirra, að það sé erfitt að finna konur til að taka þessi verkefni að sér, hinsvegar sáum við í fyrra tilboð eða auglýsingu frá sterkum konum innan Háskólans í Reykjavík sem buðu sig fram til starfa. En þessi vilji HR kvenna skiptir engu máli - hlutföllin í fyrirtækjum í úrvalsvísitölunni breyttust ekki ? þetta voru bara krúttlegar konur að ybba gogg." Athyglisverðar pælingar hjá Sigrúnu um jafnréttismál sem ég hvet lesendur til að líta á.

Saga dagsins
1886 Magnús Stephensen skipaður landshöfðingi - sat allt þar til heimastjórn tók við hér árið 1904
1940 Alþingi samþykkti að fela ríkisstjórn landsins formlega meðferð konungsvalds í kjölfar innrásar Þjóðverja inn í Danmörku - mánuði síðar hernámu Bretar svo Ísland. Segja má að konungssambandi Íslands og Danmerkur hafi lokið formlega með þessari ákvörðun, enda var íslenskt lýðveldi stofnað formlega árið 1944, fyrir stríðslok. Ísland stóð því í fyrsta skipti í margar aldir, í raun á eigin fótum
1972 Leikararnir Ben Johnson og Cloris Leachman hlutu óskarinn fyrir túlkun sína á Sam the Lion og Ruth Popper í kvikmyndinni The Last Picture Show. Lágstemmd og glæsileg túlkun þeirra í þessari mynd var hátindur leikferla þeirra beggja. Myndin varð gríðarlega vinsæl og hafði mjög mikil áhrif á kvikmyndagerð og menningu áttunda áratugarins og var meðal seinustu stórmynda Hollywood sem gerð var í svarthvítu. Segja má að hún hafi verið táknmynd endaloka gamallar kvikmyndamenningar
1979 Ólafslög samþykkt formlega á Alþingi - lögin fjölluðu um stjórn efnahagsmála og voru mjög umdeild, enda var ekki full samstaða um þau í ríkisstjórn. Lögin voru kennd við Ólaf Jóhannesson forsætisráðherra. Stjórnin lifði af deilurnar, en sprakk með hvelli vegna annarra mála haustið 1979
1998 Sögulegir friðarsamningar er kenndir voru við föstudaginn langa voru undirritaðir á N-Írlandi

Snjallyrðið
A people that values its privileges above its principles soon loses both.
Dwight D. Eisenhower forseti Bandaríkjanna (1890-1969)


Engin fyrirsögn

Brúðkaup Karls og Camillu

Karl Bretaprins og Camilla hertogaynja af Cornwall

Karl prins af Wales, ríkisarfi Bretlands, og Camilla Parker Bowles unnusta hans, gengu í hjónaband í dag. Þau voru gefin saman með borgaralegum hætti við látlausa athöfn í Guildhall-ráðhúsinu í Windsor um ellefuleytið í morgun. Upphaflega átti athöfnin að fara fram í gær, en henni var frestað um sólarhring vegna útfarar Jóhannesar Páls páfa II. Aðeins um 30 manns voru viðstaddir athöfnina sem stóð í 20 mínútur. Að því loknu héldu þau í St. George kapellu við Windsor-kastala og hlutu þar blessun George Carey erkibiskups, og þar með bresku biskupakirkjunnar. Sem ríkisarfi Bretlands mun Karl að lokum verða verndari biskupakirkjunnar. Foreldrar prinsins, Elísabet II Englandsdrottning og Filippus hertogi af Edinborg, voru ekki viðstödd brúðkaupið. Er það sögulegt, enda ekki gerst í 142 ár að breskur konungur eða drottning á lífi hafi ekki verið viðstödd brúðkaup barna sinna. Taldi drottningin ekki sæma sér að vera viðstödd borgaralega giftingu, þar sem hún er verndari kirkjunnar. Hefur þessi ákvörðun orðið umdeild og vakið mikla athygli, enda neyðarlegt fyrir prinsinn að foreldrar hans hafi ekki verið viðstödd hina formlegu giftingarathöfn.

Foreldrar prinsins, systkini hans og nánasta fjölskylda var hinsvegar viðstödd athöfnina í St. George kapellu. Hefur flest gengið á afturfótunum við skipulagningu athafnarinnar. Hvert áfallið rak annað við undirbúninginn og var talað opinberlega um mjög áberandi PR-mistök, sem hafi átt fáa sína líka á seinni árum, þó saga konungsfjölskyldunnar seinustu 15 árin sé vissulega nærri því að vera ein samfelld sorgarsaga. Gott dæmi um það er að í upphafi átti athöfnin að fara fram í kapellunni. Þótti það merki um að athöfnin ætti að fá vissan viðhafnarbrag, þó auðvitað væri um borgaralega giftingu að ræða. Var fyrst því gert ráð fyrir að drottningin mætti og flestallir í nánustu fjölskyldu brúðhjónanna. En þá kom babb í bátinn. Í ljós kom að lög heimiluðu ekki að athöfnin færi fram utan skrifstofu borgardómara, nema þá að slíkt gengi yfir alla landsmenn. Slíkt gat auðvitað ekki orðið. Því breyttist allt planið og formlegheitin við athöfnina minnkuðu enn. Ljóst er að drottningin taldi ekki viðeigandi að vera viðstödd slíka athöfn í ráðhúsinu. Slíkt má eflaust flokka undir snobb að hætti aristókratanna. Óneitanlega er þetta allt mjög hlægilegt og vekur upp allnokkrar spurningar.

Með giftingu Karls og Camillu lýkur áralöngum vangaveltum um samband þeirra og eðli þess. Þrátt fyrir að prinsinn og Camilla gangi loks í hjónaband þýðir það þó ekki að hún verði Englandsdrottning eða taki stöðu sem slík, þegar og ef hann verður konungur Englands. Hlýtur hún nú titilinn: hennar konunglega hátign, hertogaynjan af Cornwall. Verði hann konungur tekur hún prinsessutitil og hlýtur formlegan titil sem hennar konunglega hátign, eiginkona konungs (Princess Consort). Allt var þetta mjög viðkvæmt mál og mikið samkomulagsatriði. Fyrir liggur að kirkjuyfirvöld og foreldrar prinsins hafi samþykkt ráðahaginn, en með því skilyrði að Camilla hlyti aldrei drottningartign eða sömu stöðu og móðir prinsins. Stóð Elísabet drottning, lengi í vegi þess að þau myndu giftast og tók aldrei í mál að hún hlyti stöðu drottningar. Camilla og Karl eru bæði fráskilin. Þjóðhöfðingi Bretlands er verndari kirkjunnar og því málið mjög erfitt í vöfum fyrir hana að samþykkja ráðahaginn. Eðli sambands Karls og Camillu hefur lengi verið fjölmiðlamatur og umdeilt meðal Breta hvernig taka eigi því. Hafa þau verið sundur og saman í rúma þrjá áratugi og lengi verið tekist á um ástir þeirra.

Sambandi Karls og Camillu er umfram allt kennt um að draumahjónaband Karls og Díönu prinsessu af Wales, leið undir lok. Þau giftust með miklum viðhafnarbrag 29. júlí 1981 og var það almennt kallað brúðkaup 20. aldarinnar. Brestir komu fljótt í draumahjónabandið vegna þess að Karl og Camilla héldu áfram sambandi sínu. Karl og Díana skildu að borði og sæng árið 1992 og hlutu lögskilnað 1996. Díana prinsessa, lést í bílslysi 31. ágúst 1997. Í kjölfarið fóru Karl og Camilla að vera saman opinberlega og Camilla flutti til Karls árið 2002 í Clarence House. Tæknilega er Camilla nú orðin prinsessan af Wales, enda gift prinsinum af Wales. Hún hefur þó ekki í hyggju að taka þann titil upp, af skiljanlegum ástæðum og til að virða minningu Díönu, sem nýtur mikilla vinsælda og virðingar bresks almennings. Enn er biturleiki í garð Karls vegna þess hvernig fór fyrir Díönu og hefur það sett mark sitt á umræðu seinasta áratugar varðandi sambandið við Camillu. En nú hefur samband þeirra hlotið formlega staðfestingu og þau eru gengin í hjónaband. Verður fróðlegt að fylgjast með bresku krúnunni og örlögum hennar, er þessar fornu turtildúfur hafa nú játast hvoru öðru.

Saga dagsins
1869 Kristján Jónsson Fjallaskáld lést, 26 ára gamall - þekktasta kvæði hans er Yfir kaldan eyðisand
1962 Ítalska leikkonan Sophia Loren hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Cesiru í kvikmyndinni Two Women (La Ciociara) - Loren er ein glæsilegasta kona sögunnar og hefur alla tíð verið rómuð fyrir þokka sinn. Einnig ein svipmesta leikkona 20. aldarinnar og hefur átt litríkan og glæsilegan leikferil
1979 Leikararnir Jane Fonda og Jon Voight hlutu óskarinn fyrir túlkun sína á Sally Hyde og Lucas Martin í kvikmyndinni Coming Home. Myndin var mikil ádeila á hið langvinna og bitra Víetnamsstríð og þótti vera mjög umdeild. Ekki síður var umdeild barátta aðalleikaranna á opinberum vettvangi gegn stríðinu. Sérstaklega var Fonda öflug í að tjá andstöðu sína á stjórnvöldum meðan á stríðinu stóð. Fonda hlaut áður óskarinn árið 1971 fyrir leik sinn í myndinni Klute og var eitt helsta kyntákn sinnar kynslóðar og átti glæsilegan leikferil. Voight fór á kostum í mörgum litríkum hlutverkum á ferlinum
1984 Leikararnir Shirley MacLaine og Jack Nicholson hlutu óskarinn fyrir glæsilega túlkun á Auroru Greenway og Garrett Breedlove í myndinni Terms of Endearment - voru þetta önnur óskarsverðlaun Nicholson, en hann hlaut verðlaunin 1975 fyrir leik sinn í One Flew Over the Cuckoo's Nest og aftur 1997 fyrir leik sinn í As Good as it Gets. Hann hefur verið tilnefndur til óskarsverðlauna tólf sinnum, oftar en nokkur karlleikari. Nicholson og MacLaine eru bæði með betri leikurum sinnar kynslóðar
2003 24 ára einræðisferli ríkisstjórnar Saddams Husseins í Írak lýkur formlega - stjórnin féll í beinni útsendingu fréttamiðla af gangi Íraksstríðsins. Almenningur í Írak gladdist yfir falli einræðisaflanna og felldu ásamt bandaríska hernum risavaxna styttu af Saddam sem stóð á miðju Firdos-torgi í Bagdad

Snjallyrðið
A good marriage would be between a blind wife and a deaf husband.
Honore de Balzac rithöfundur (1799-1850)


Engin fyrirsögn

Jóhannes Páll páfi II
1920-2005


Loftmynd af Péturstorginu í Róm er útför Jóhannesar Páls páfa II fór fram - 8. apríl 2005

Jóhannes Páll páfi II var jarðsunginn við hátíðlega athöfn á Péturstorginu í morgun. Fullyrða má að útför páfa sé fjölmennasta útför sem haldin hefur verið í mannkynssögunni. Talið er að 5-6 milljónir manna hafi verið viðstaddir útförina á Péturstorginu og verið í Róm á þessum merka degi. Útförin var sýnd í beinni útsendingu um allan heim, ekki aðeins í ríkjum kristinna manna, heldur einnig í ríkjum múslíma og gyðinga, t.d. í Egyptalandi og Ísrael. Ljóst má vera að þessi einstaka kveðjuathöfn hafi fangað athygli flestra íbúa heimsins og að hundruð milljóna manna um heim allan hafi fylgst með henni. Áður en athöfnin hófst var formleg kistulagning inni í Péturskirkjunni. Sú athöfn var lokuð og aðeins fyrir kardinálana og nánustu vini páfans og starfsfólk á embættisferli hans. Eduardo Martinez Somalo kardínáli, sem nú fer með daglega stjórn mála í Vatíkaninu og gegnir því embætti camerlengo þar til nýr páfi hefur verið kjörinn, huldi andlit páfa með hvítu silkiklæði við athöfnina og dreypti vígðu vatni á líkið. Áður en kistunni var lokað var pyngju með öllum myntum og orðum páfadóms Jóhannesar Páls II seinustu 27 ár lögð við fætur hans.

Kista páfa var mjög einföld í sniðum. Einföld viðarkista án alls íburðar og látlaus að sjá. Kistan var með upphleyptu krossmarki og stafnum M sem táknar Maríu Guðsmóður. Kistan var borin inn á Péturstorgið og lögð þar á teppi framan við altari og bók með guðspjöllunum var lögð ofan á kistuna. Yfirumsjón með útförinni og sálumessu til minningar um ævi og störf páfa hafði Joseph Ratzinger kardináli. Útförin var þrískipt og stóð hún í tæpa þrjá tíma. Fór sjálf sálumessan fram á mörgum tungumálum. Páfi lagði alla tíð mikla áherslu á ferli sínum að tala til sem flestra þjóða og fólks þar með tungumáli þeirra. Hann flutti blessunarorð á rúmlega 60 tungumálum við stórathafnir á ferli sínum í embættinu. Athöfnin sjálf fór fram eftir ákvörðunum páfa sjálfs sem hafði skipulagt athöfnina og uppbyggingu hennar mjög nákvæmlega á löngu tímabili. Farið er eftir fyrirmælum sem hann skrifaði árið 1998, og skildi eftir samhliða erfðaskrá sinni. Blandað var saman fornum og nýjum siðum kaþólskrar trúar og voru hlutar sálumessunnar bæði frá 13. öld og allt fram til þeirrar 19. Sálumessan var sungin að stærstum hluta á latínu, sem er opinbert tungumál kaþólsku kirkjunnar, en fór einnig fram á ýmsum nútímamálum.

Útför Jóhannesar Páls páfa II

Ratzinger flutti sérlega áhrifamikla og glæsilega minningarræðu um páfa. Sagði hann þar að páfi hefði verið prestur allt til hinstu stundar og hefði á löngum ferli sínum axlað ofurmannlegar byrðar. Ratzinger sagði að allir trúaðir menn væru daprir er kæmi nú að kveðjustund, en um leið fullir gleði og vonar og þakklát fyrir þjónustu páfans. Rödd hans brast er hann minntist þess er páfi kom fram í næstsíðasta skipti opinberlega á páskadag er hann blessaði mannfjöldann á Péturstorgi. Gat hann þá ekki tjáð sig en var staðráðinn í að heimsbyggðin finndi fyrir nærveru sinni og gæti skynjað pínu sína og dvínandi mátt. Sagði Ratzinger orðrétt um það: "None of us can ever forget how in the last Easter Sunday of his life, the Holy Father, marked by suffering, came once more to the window of the Apostolic palace and one last time gave his blessing urbi et orbi. We can be sure that our beloved Pope is standing today at the window of the Father's house, that he sees us and blesses us." Mjög sérstakt var að sjá að almenningur klappaði margoft meðan á útförinni stóð. Það er hefðbundinn ítalskur siður að klappa til að sýna virðingu, er það frábrugðið íslenskum sið við kveðjuathöfn en mjög athyglisverður.

Fjöldi þjóðarleiðtoga og forystumanna á alþjóðavettvangi voru við útförina. Meðal þeirra voru George W. Bush forseti Bandaríkjanna, Alexander Kwasniewski forseti Póllands, Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, Karl Bretaprins, Karl Gústaf Svíakonungur, Juan Carlos Spánarkonungur, Margrét Danadrottning, Jacques Chirac forseti Frakklands, Gerhard Schröder kanslari Þýskalands, Kofi Annan framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Bashar Assad forseti Sýrlands, Moshe Katsav forseti Ísraels, Albert Belgíukonungur, Luiz Inacio Lula da Silva forseti Brasilíu, Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra, Jose Manuel Barroso forseti ESB, Mohammad Khatami forseti Írans, Bertie Ahern forsætisráðherra Írlands, Abdullah Jórdaníukonungur, Vicente Fox forseti Mexíkó, Gloria Arroyo forseti Filippseyja, Göran Persson forsætisráðherra Svíþjóðar, Kjell Magne Bondevik forsætisráðherra Noregs, Viktor Yushchenko forseti Úkraínu og Robert Mugabe forseti Zimbabwe, svo fáir séu aðeins nefndir af lista þeirra sem mættu. Var mjög merkilegt að sjá Bush, Mugabe og Khatami mætta á sama staðinn. Sérstaka athygli vakti þegar Assad og Katsav tókust tvisvar í hendur við athöfnina og þegar Katsav heilsaði Khatami. Fulltrúi Íslands við útförina var Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra.

Gröf Jóhannesar Páls II í grafhvelfingu Péturskirkjunnar

Að athöfninni lokinni var kista páfa flutt inn í Péturskirkjuna. Var hún flutt í grafhvelfinguna undir basiliku kirkjunnar. Var kistan sett ofan í aðra kistu úr málmi, sem var svo aftur sett í eikarkistu, og loks grafin undir marmarahellu í grafhvelfingunni. Var páfi lagður til hinstu hvílu í grafreit þar sem lík Jóhannesar páfa XXIII var jarðsett árið 1963. Var kista hans þar til ársins 2001 er hún var flutt til geymslu í kirkjunni sjálfri. Tók athöfnin í grafhvelfingunni um 20 mínútur og var hún ekki sýnd opinberlega en ljósmyndir af greftrunarathöfninni voru gerðar opinberar síðdegis í dag. Merkilegum tíma í sögu kaþólsku kirkjunnar er lokið. Trúarleiðtogi til tæplega þriggja áratuga hefur verið kvaddur og nýr kafli í sögu kirkjunnar hefst brátt með nýjum páfa. Tekur nú við tímabil sem ber nafnið Novemdialis, 9 daga formlegt sorgartímabil, sem markast af því að á hverjum degi er haldin hátíðarmessa í Péturskirkju. Eftir að Novemdialis er lokið er komið að stærsta verkefninu sem fylgir andláti páfa, því að velja formlega eftirmann hans. Kjörmannasamkunda kardinála mun koma saman þann 18. apríl nk. Hafa 117 kardinálar kjörrétt þar.

Jóhannes Páll II páfi hefur nú kvatt og heimsbyggðin hefur sýnt honum virðingu seinustu daga og minnst hans og verka hans með hlýhug. Jóhannes Páll II var sannkallaður áhrifamaður á samtíð sína og alla framtíð, bæði kristinnar trúar og þess embættis sem hann gegndi af trúmennsku og mikilli samviskusemi í þrjá áratugi og sýndi ótrúlegan styrk sérstaklega seinustu árin, er hann barðist við veikindi og sífellt minni þrótt til starfa. Hann réði ekki yfir herstyrk eða vopnavaldi en vald hans og áhrif var öflugra en það allt til samans, hann vann á grundvelli trúar og var einlægur fulltrúi þess sem kristin trú byggir á. Áhrif hans við að tjá þann boðskap var sterkari en allt mannlegt. Hann var allt til hinstu stundar ötull og öflugur talsmaður Guðs. Hann markaði skref í sögu mannkyns sem gleymast ekki að mínu mati. Eftirmanns hans bíður ekki auðvelt verkefni að taka við embættinu, nú þegar hann hefur kvatt.

Jóhannes Páll páfi II (1920-2005)
Jóhannes Páll II páfi kvaddur - pistill SFS
Minningarvefur um Jóhannes Pál II páfa
Jóhannes Páll II páfi (1920-2005)



Ömmusystir mín, Hugrún Stefánsdóttir, lést í gær. Ég vil að leiðarlokum þakka henni allt það sem hún gerði fyrir mig og fjölskyldu mína. Ástúð hennar og umhyggja fyrir öllum ættingjum sínum verður seint fullþökkuð. Minning hennar mun lifa.

Við biðjum góðan Guð að launa
gæðin öll og þína tryggð
ástkær minning þín mun ávallt lifa
aldrei gleymsku hjúpi skyggð.

Falin sértu frelsaranum
frjáls í náðarörmum hans
hljótir þú um eilífð alla
ástargjafir kærleikans.
SFS



Saga dagsins
1963 Gregory Peck hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á lögfræðingnum Atticus Finch í úrvalsmyndinni To Kill a Mockingbird. Peck var einn besti leikari sinnar kynslóðar og átti litríkan og glæsilegan feril og túlkaði fjölda svipmikilla og ógleymanlegra karaktera í frábærum kvikmyndum. Hann lést í júní 2003
1973 Spænski listmálarinn Pablo Picasso, fremsti málari 20. aldarinnar, lést á heimili sínu í Cannes
1989 Jóhannes Jónsson opnaði fyrstu Bónusverslunina við Skútuvog í Reykjavík - markaði upphaf verslunarrisans Baugs sem varð myndaður eftir að Jóhannes eignaðist verslunarfyrirtækið Hagkaup
1994 Bandaríski rokksöngvarinn Kurt Cobain í Nirvana, svipti sig lífi - Cobain var þá 27 ára að aldri
2005 Jóhannes Páll páfi II jarðsunginn í Róm - varð fjölmennasta útför í sögu mannkyns. Tæplega 200 þjóðarleiðtogar og forystumenn á alþjóðavettvangi vottuðu páfa virðingu sína með nærveru sinni þar

Snjallyrðið
I come as a pilgrim of love, of truth and of hope.
Jóhannes Páll páfi II trúarleiðtogi kaþólskra (1920-2005)


Engin fyrirsögn

Rainier III fursti (1923-2005)Heitast í umræðunni
Rainier III fursti í Mónakó, lést í gærmorgun, 81 árs að aldri, á sjúkrahúsi í Monte Carlo. Hann hafði legið þar seinustu vikurnar mikið veikur og var í dái undir lokin og því ljóst að hverju dró seinustu vikurnar og að hann lægi banaleguna. Tekur Albert sonur hans við furstadæminu við fráfall föður síns, en Albert hafði tekið við skyldustörfum föður síns í síðustu viku, er ljóst var hvert stefndi. Rainier fursti ríkti í Mónakó í 56 ár, eða allt frá árinu 1949. Er hann lést, var hann einn af þeim þjóðarleiðtogum heims, sem lengst höfðu ríkt. Rainier var af Grimaldi-ættinni, sem ráðið hefur ríkjum í Mónakó í rúmar sjö aldir. Hann tók við furstadæminu árið 1949, af afa sínum, Louis II. 19. apríl 1956 kvæntist Rainier fursti, bandarísku óskarsverðlaunaleikkonunni Grace Kelly.

Það þóttu stórtíðindi þegar furstinn kvæntist Grace. Að flestra mati var Grace ein þokkafyllsta kona 20. aldarinnar og var rómuð fyrir glæsileika. Gifting Rainiers og hennar þótti styrkja mjög undirstöður furstadæmisins og tryggja áframhaldandi líf þess og ekki síður bæta ímynd þess verulega. Grace var ein frægasta leikkonan í Hollywood á sjötta áratug 20. aldarinnar og lék í nokkrum heimsfrægum kvikmyndum og var rómuð fyrir glæsilega túlkun sína á litríkum kvenpersónum. Hún hlaut óskarsverðlaunin í mars 1955 fyrir leik sinn í The Country Girl, en hún og Rainier kynntust við gerð kvikmyndarinnar To Catch a Thief í Mónakó. Var hún aldrei meira heillandi á sínum ferli en í þessari mynd og enginn vafi á því í mínum huga að hún slær út náttúrufegurð ríveríunnar og gott betur en það.

Grace hætti kvikmyndaleik og vék af braut lífsins í Hollywood ári síðar. Eftirsjá þótti af henni af hvíta tjaldinu. Leikstjórinn Sir Alfred Hitchcock var heillaður af Grace og harmaði mjög þegar hún tók þá ákvörðun að hætta leik, enda var hún af honum sem mörgum öðrum talin mesta stjarna þess tíma og náttúrutalent í leik. Fyrir Grace var það erfið ákvörðun og bitur að þurfa að hætta að leika og er sagt í ævisögu hennar að hún hafi í raun aldrei komist yfir það að fórna ferlinum fyrir Rainier. Engu að síður var hjónaband þeirra ástríkt og eignuðust þau þrjú börn: Karólínu, Albert og Stefaníu. Þar sem furstadæmið hefur byggst lengst af á því að karlkyns þjóðhöfðingi sé í Mónakó varð Albert ríkisarfi og því fremri í erfðaröð en systir hans, þó hún væri eldri. Rainier og börn hans urðu fyrir miklu áfalli er Grace fórst í bílslysi 14. september 1982, 52 ára að aldri. Hún hafði verið að keyra í hæðóttum beygjum ofan við Monte Carlo með Stefaníu og misst stjórn á bílnum. Stefanía lifði slysið af en Grace komst aldrei til meðvitundar. Hún varð fyrir innvortis meiðslum og banamein hennar var heilablóðfall. Kaldhæðnislegt var að slysið gerðist á svo til sama stað og hið fræga bílaatriði Grace og Cary Grant í To Catch a Thief árið 1955.

Sviplegt fráfall Grace varð Rainier mikið áfall og fullyrða kunnugir að hann hafi aldrei náð sér af að hafa misst hana. Eftir lát hennar var Rainier mun minna í sviðsljósinu og lét börnum sínum það eftir að eiga sviðsljósið og athygli fjölmiðla. Sem dæmi um tryggð hans við Grace var að aldrei voru teknar fjölskyldumyndir án þess að í bakgrunni væru málverk eða ljósmyndir af Grace. Nú er Rainier hefur kvatt eftir langan valdaferil tekur við nýr kafli í sögu furstadæmisins. Albert hefur verið umdeildur alla tíð og eru margir fullir efasemda um hvernig hann muni standa sig. Hann er 47 ára gamall og hefur aldrei kvænst og á engin börn. Var lögum um furstadæmið breytt árið 2002 til að tryggja framtíð þess og mun erfðarétturinn halda sér þó Albert eignist engin börn, fram að þeim tíma varð hann að eignast sjálfur börn til að halda furstadæminu á lífi og tryggja framgang þess. Nú er Karólína fremst í erfðaröðinni og næst koma börn hennar og Stefano Casiraghi, sem lést 1990: þau Andrea, Charlotte og Pierre. Það verður því líklega Andrea sem tekur við af móðurbróður sínum þegar sá tími kemur. Rainier verður jarðsunginn 15. apríl nk. og mun hann verða lagður til hinstu hvíldar í dómkirkju Monte Carlo við hlið eiginkonu sinnar.

Jóhannes Páll páfi II (1920-2005)Jóhannes Páll páfi II verður jarðsunginn í Róm á morgun. Lík páfa hefur legið á viðhafnarbörum í St. Péturskirkju frá því á mánudag. Hafa rúmlega 2 milljónir manna þegar vottað honum virðingu sína með því að fara að líkbörunum. Er talið að um milljón manns sé enn í biðröðum í miðborg Rómar og bíði eftir að komast inn í kirkjuna. Öngþveiti hefur skapast seinustu daga í borginni og ljóst að færri komast að en vilja til að votta páfanum virðingu sína. Í gærkvöldi var sú erfiða ákvörðun tekin að loka fyrir biðraðirnar, enda þá ljóst að aðeins takmarkaður fjöldi myndi ná að kirkjunni og fara að líkbörunum áður en loka þyrfti henni aðfararnótt föstudags til að undirbúa kirkjuna fyrir athöfnina og sinna lokafrágangi á líki páfa og færa það í kistu. Hefur verið með ólíkindum að fylgjast með fréttum af fólksfjöldanum í Rómarborg. Fyrirfram var vitað að fjöldinn yrði mikill en nú blasir við að vel á fjórða milljón manns muni ná að fara að líkbörunum áður en loka verður kirkjunni og ekki nærri því allir sem fá ósk sína uppfyllta. Hefur fjöldinn sprengt af sér allar spádóma um mögulegar tölur og enn streymir fólk til borgarinnar. Ljóst er að mesti mannfjöldi í sögu Rómar mun verða í miðborginni á morgun til að votta páfa hinstu virðingu sína.

George W. Bush forseti Bandaríkjanna, og eiginkona hans, Laura Bush, komu í gærkvöldi til Rómar ásamt Condoleezzu Rice utanríkisráðherra, og fyrrum forsetunum George H. W. Bush og Bill Clinton. Mun Bush forseti, verða einn af tæplega 200 þjóðarleiðtogum og stjórnarerindrekum við útför páfa. Fóru þau beint í St. Péturskirkju til að votta páfa virðingu sína. Stöldruðu þau við þar í fimm mínútur og kraup Bush á kné fyrir framan kistu páfans. Verður Bush fyrsti forsetinn í sögu Bandaríkjanna sem er viðstaddur útför trúarleiðtoga kaþólskra. Tilkynnt var í gær að páfakjör myndi hefjast að loknu sorgartímabilinu Novemdialis, sem hefst eftir útför páfa. Munu kardinálarnir koma saman þann 18. apríl til að velja nýjan páfa. Sú nýbreytni verður á vali páfa að þessu sinni að ekki mun aðeins hvítur reykur marka kjör nýs páfa, heldur mun bjöllum Vatíkansins verða hringt til merkis um að kardinálarnir hafi náð samstöðu. Í dag var erfðaskrá páfa kynnt opinberlega. Þar kemur fram að páfi íhugaði að segja af sér embætti árið 2000 og hugleiddi mjög stöðu sína. Tók hann þá ákvörðun að halda áfram, í þágu Guðs, eins og segir í erfðaskránni. Kemur þar ennfremur fram að páfinn hafi ekki ákveðið hvar hann vildi hvíla, hann taldi réttast að kardinálarnir réðu því. Töldu margir að páfi yrði jarðsettur í heimalandi sínu, Póllandi, en kardinálarnir hafa ákveðið að hann muni hvíla með öðrum páfum í grafhvelfingu basilikunnar í St. Péturskirkju. Fram kemur ennfremur að páfi skilji ekki eftir neinar veraldlegar eigur og að brenna eigi öll persónuleg skrif hans.

George W. Bush, Laura Welch Bush, George H. W. Bush og Bill Clinton við líkbörur Jóhannesar Páls páfa II


Punktar dagsins
Michael Howard

Kosningabaráttan fyrir bresku þingkosningarnar, þann 5. maí nk. er komin á fullan skrið og allt hefur verið sett af stað af hálfu flokkanna. Er tekist á af mikilli hörku og öllu beitt í slagnum. Michael Howard leiðtogi breska Íhaldsflokksins, var um leið og Blair hafði tilkynnt um kosningarnar, kominn á fullt í ferðalög um landið og að kynna stefnu flokksins. Howard og íhaldið hefur í raun tekist að taka alla taktísku baráttuna og hafa betur í henni að þessu sinni. Mestu skiptir þar innkoma áróðursmeistara íhaldsmanna, Lynton Cosby. Sérstaklega hefur þeim tekist að taka innflytjendamálin upp og gera þau að kosningamáli og leiða umræðuna þar. Cosby hefur löngum þótt snillingur í að finna málefni, halda þeim með því að leiða umræðuna og snúa jafnvel tapaðri kosningabaráttu í unnið spil. Fyrir þessu eru mörg dæmi, hin bestu kosningabaráttan í Ástralíu er John Howard tókst að komast til valda. Það vekur mesta athygli nú að íhaldsmönnum hefur tekist með glæsibrag að vinna allar taktísku og mikilvægustu orrusturnar. Innflytjendamálin eru skólabókardæmi um þessi mál. Hið besta við það af þeirra hálfu að Verkamannaflokkurinn getur varla höggvið til baka á íhaldsmenn í þeirri rimmu. Howard er enda af innflytjendaættum sjálfur og því eiga kratarnir mjög óhægt um vik í rimmunni. Bendi áhugafólki um breska pólitík sérstaklega á kosningavef BBC.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, og Karl Axelsson formaður nefndar um eignarhald á fjölmiðlum, kynntu í dag niðurstöður nefndarinnar á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar allra flokka og hefur nú náðst þverpólitísk samstaða um niðurstöðu. Sannkölluð söguleg sátt, eftir fyrri deilur. Nefndin leggur í skýrslu sinni til að settar verði reglur um að enginn einn aðili eða tengdir aðilar geti átt ráðandi hlut í fjölmiðli, sem hafi þá stöðu að í það minnsta þriðjungur þjóðarinnar notfærir sér miðilinn að jafnaði á degi hverjum eða markaðshlutdeild fjölmiðilsins fari yfir þriðjung af heildarupplagi, heildaráhorfi eða heildarhlustun á hverjum fjölmiðlamarkaði fyrir sig. Leggur nefndin til að þessi eignarmörk verði 25%. Nefndin leggur til að almennar takmarkanir verði settar á eignarhald ljósvaka- og prentmiðla sem starfa hér á landi, þó þannig að takmörkunin nái aðeins til fjölmiðla sem náð hafi ákveðinni útbreiðslu og þar með ákveðnu áhrifavaldi. Leggur nefndin til að öllum aðilum í þeim fjölmiðlarekstri, sem umræddar takmarkanir nái til, verði veittur tveggja ára aðlögunarfrestur að nýrri löggjöf, verði hún sett. Blasir við að þetta eigi við um Morgunblaðið, 365 og Skjá einn, því þurfi að stokka eignarhald þar eitthvað upp. Renndi ég yfir niðurstöðurnar síðdegis og hvet alla til að líta á skýrsluna. Ég fjalla nánar um niðurstöður hennar í pistli mínum á sunnudag.

Megas

Tónlistarmaðurinn Megas, Magnús Þór Jónsson, er sextugur í dag. Fullyrða má að Megas sé merkilegur tónlistarmaður í tónlistarsögu landsins. Hann er snillingur orðsins í nútíma ljóðlist og hefur tekist með undraverðum hætti að tjá sig með næmleika og merkilegri fegurð um daglegt líf og getur tjáð sig með svipmiklum hætti um samtíma sinn. Umfram allt er þó Megas kaldhæðinn og napur í yrkisefnum, það er viss ádeila í honum sem alltaf er gaman af. Það hefur líka verið gaman af því hvernig hann hefur notað heimsbókmenntirnar, sagnaarfinn okkar og þá hefð sem hann byggist á og kveðskap fyrri tíma sem efnivið í verk sín. Hann hefur með merkilegum hætti náð að flétta saman slangri, rokkfrösum seinustu áratuga, nýyrðum og sett saman við gullaldarmál fyrri tíma, svo úr verði næm meistaraverk. Hef ég lengi borið mikla virðingu fyrir verkum hans og tónverkum. Með vinnubrögðum sínum hefur hann tekist bæði að heilla og hneyksla. Hvað sem segja má þó um Megas leikur þó enginn vafi á því að hann hefur náð til fólks og hreyft við samtímanum með merkilegum hætti. Það er hans afrek og verður það sem mun ávallt setja mestan svip á feril hans.

Hvernig er annars hægt að gera upp tónlistarsögu 20. aldarinnar án þess að taka fyrir plötur hans, t.d. Millilendingu, Fram og aftur blindgötuna, Á bleikum náttkjólum, Drög að sjálfsmorði og síðast en ekki síst Loftmynd. Árið 2000 hlaut Megas verðlaun Jónasar Hallgrímssonar fyrir kveðskap sinn. Mörgum kom það verulega á óvart en varla þarf að undrast það, sé litið á verk hans og kveðskap. Í rökstuðningi nefndarinnar á þeim tíma sagði svo: "Megas hefur með skáldskap sínum auðgað íslenskt mál. Ljóðmál hans er frumlegt og nýtt og sækir líf sitt í hversdagsleika borgarinnar, fegurð og ljótleika mannlífsins og skeikula ásýnd náttúrunnar. Ljóð hans hafa sérstæða rödd, kímna og kaldhæðna. Íslenska menningu og menningararf skoðar hann með gagnrýnum og hvössum hætti og veitir hlustendum og lesendum sínum nýja sýn á viðteknar hugmyndir. Megas hefur haft mikil áhrif á skáldskap, tónlist og ekki síst á gerð dægurlagatexta á síðustu áratugum og hvatt ungt fólk til að kanna möguleika móðurmálsins í stað þess að flýja á náðir enskunnar." Svo sannarlega orð að sönnu. Sérstaklega bendi ég að lokum lesendum á ítarlega umfjöllun Jónatans Garðarssonar um Megas.

Séð út Eyjafjörð á júlíkvöldi 2004

Stjórn Varðar samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum í gærkvöldi:

Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, telur að Norðlendingar eigi að sameinast um það markmið að tryggja að næsta stóriðja verði reist á Norðurlandi. Á meðan Norðlendingar deila um mögulegar staðsetningar er hættan á því að fjárfestar snúi sér annað og reisi næstu stóriðju á öðrum stað. Hentugast er að þeir staðir sem komi til greina á Norðurlandi séu kynntir saman og kynni kosti sína fyrir fjárfestum. Ef Norðlendingar sameina krafta sína í stað þess að deila um staðsetninguna innbyrðis eiga þeir mun meiri möguleika á að tryggja að farsæl lausn náist fyrir Norðlendinga alla.

Saga dagsins
1906 Ingvarsslysið - 20 menn fórust er þilskipið Ingvar RE 100 strandaði í ofsaveðri skammt undan Viðey. Í sama ofsaveðri fórst alls 48 menn með tveimur skipum við Mýrar, Sophie Wheatly og Emilie
1943 Laugarnesspítali í Reykjavík brann - hann var byggður í kringum 1900 sem holdsveikraspítali
1968 Formúlukappinn Jim Clark, lætur lífið í alvarlegu slysi á Hockenheim-brautinni í Þýskalandi
1970 Leikarinn John Wayne hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Rooster Cogburn í kvikmyndinni True Grit - Wayne var einn af litríkustu leikurum Bandaríkjanna á 20. öld og varð hann heimsfrægur fyrir leik sinn í ýmsum helstu gullaldarvestrum Hollywood á öldinni. Hann lést úr krabbameini í júní 1979
1979 Fjögur systkini frá Vestmannaeyjum gengu í hjónaband við sömu athöfn - einsdæmi hérlendis

Snjallyrðið
You can't help getting older, but you don't have to get old.
George Burns leikari (1896-1996)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband