Engin fyrirsögn

Brekkuskóli
Íbúaþing um skólamál í Brekkuskóla

Í dag var haldið opið íbúaþing hér á Akureyri um skólamál. Var um að ræða stefnuþing þar sem til umræðu voru drög að skólastefnu Akureyrarbæjar. Þingið fór fram í nýjum sal Brekkuskóla, en nýbygging skólans var tekin í notkun fyrir nokkrum mánuðum. Skólanefnd Akureyrarbæjar boðaði til þingsins alla íbúa bæjarins sem hefðu áhuga á að kynna sér fyrirliggjandi drög að skólastefnunni, hefðu áhuga á að taka þátt í umræðu um málin og hafa með því áhrif á endanlega gerð skólastefnunnar. Drög að skólastefnunni voru kynnt formlega á vef Akureyrarbæjar nokkru fyrir páska og gafst því þeim sem áhuga hefðu tækifæri til að tjá sig um málin og fara yfir skoðanir sínar á stefnunni og ræða þau atriði sem þyrfti að fara yfir og áhugavert væri að leita umræðu um. Gátu því áhugasamir litið á drögin, mótað skoðanir sínar til málsins og undirbúið sig fyrir hið opna þing. Þessi vinna og drög eru áhugaverð og var mjög gaman að taka þátt í þessu ferli.

Vel var mætt á íbúaþingið, enda eru skólamálin, og verða ávallt, stór og víðfeðmur málaflokkur sem skiptir alla máli. Skólamálin eru hjarta og sál hvers sveitarfélags - það gildir ekkert annað um Akureyri en önnur sveitarfélög. Hér í bænum eru sjö grunnskólar: Brekkuskóli, Giljaskóli, Glerárskóli, Hlíðarskóli, Lundarskóli, Oddeyrarskóli og Síðuskóli. Á Akureyri eru tólf leikskólar: Naustatjörn, Iðavöllur, Lundarsel, Flúðir, Síðusel, Holtakot, Pálmholt, Sunnuból, Krógaból, Klappir, Kiðagil og Tröllaborgir. Framundan er bygging nýs leikskóla við Helgamagrastræti sem opna á, á næsta ári og nýs grunnskóla í Naustahverfi, Naustaskóla, sem verður byggður á næsta kjörtímabili bæjarstjórnar. Það er því öflugt skólalífið hér og getum við Akureyringar verið stoltir af skólamálum okkar og skóladeildinni okkar sem vinnur gott starf undir forystu Gunnars Gíslasonar. Hér, rétt eins og í flestum sveitarfélögum, eru skólamálin stór hluti málefna sveitarfélagsins, málaflokkur sem alltaf þarf að vinna að og hlúa að til að hann sé í forystusessi.

Íbúaþingið var góður vettvangur til þess að vinna saman hér að því að efla skólamálin, fá mat fólks á stöðu mála og heyra skoðanir fólks á drögunum að skólastefnunni og fá punkta inn í þá vinnu. Jón Kr. Sólnes formaður skólanefndar, setti íbúaþingið með ræðu þar sem hann kynnti helstu áhersluatriði skólastefnunnar. Kynnt var yfirlit yfir athugasemdir sem borist höfðu til skóladeildar bæjarins fyrir 1. apríl. Þeir sem skiluðu tillögur mæltu að því loknu fyrir þeim og fóru yfir það sem þeir höfðu um skólastefnuna að segja. Komu margar mjög spennandi tillögur og var fróðlegt að heyra gerð grein fyrir þeim og farið yfir mat viðkomandi á málum, fá mat þess á stöðunni og hvað mætti betur fara og eða hvað vantaði jafnvel inn í drögin. Allt hið besta mál og notaleg skoðanaskipti og pælingar um málin sem áttu sér stað. Mikil umræða varð um tillögurnar sem kynntar voru og farið yfir skólamálin með víðfeðmum hætti og gagnlegum. Leitast var við að fá afstöðu um hverja einstaka breytingartillögu og því var um að ræða opið og skemmtilegt starf sem skilaði sér mjög vel.

Þessi dagur í Brekkuskóla var því góður og gagnlegur, skemmtileg skoðanaskipti og fín umræða sem varð um þennan mikilvæga málaflokk okkar. Það sem helst stendur eftir íbúaþingið er að álit bæjarbúa sem bera hag skólamála hér fyrir brjósti mættu til að hafa skoðun á málum og leggja fram sitt mat á þeim. Er þetta íbúaþingsferli til marks um það að skóladeild og skólanefnd bæjarins er annt um að hinn almenni bæjarbúi hafi sitt að segja um málin, enda sjálfsagt að svo sé í ljósi þess að skólamálin koma okkur öllum við. Þetta er málaflokkur sem er eins og fyrr segir hjarta og sál hvers sveitarfélags. Menntun og námsferill barnanna er grunnur í lífið og ný skólastefna leggur grunn að því að Akureyri verði í öndvegi sveitarfélaga í skólamálum. Er það markmið sem við öll vinnum saman að og þeir sem mættu á íbúaþingið lögðu sitt af mörkum til að vinna þann grunn sem til þarf. Í skólamálum sem öðrum býður Akureyri upp á öll lífsins gæði.

Saga dagsins
1941 Lengsti þorskurinn veiðist á Íslandsmiðum, 181 sm. langur - hann veiddist á línu í Miðnessjó
1959 Breski leikarinn Sir David Niven hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Major Pollock í kvikmyndinni Separate Tables - Niven var einn besti leikari Breta á 20. öld og þekktur fyrir glæsilega túlkun sína á svipmiklum breskum hefðarmönnum og litríkum karakterum. Hann lést úr hrörnunarsjúkdómi 1983
1979 Úthlutað var fyrsta sinni úr Kvikmyndasjóði - hæstu styrkir voru veittir til kvikmyndanna Land og synir, Óðal feðranna og Veiðiferðin. Þessar myndir urðu fyrstu kvikmyndir íslenska kvikmyndavorsins
1996 Fyrsta apótekið var opnað eftir að frelsi var aukið í lyfsölu. Þetta var Apótek Suðurnesja. Fimm dögum síðar var Lyfja í Reykjavík opnuð og síðan komu margar lyfjaverslanir í kjölfarið á næstu árum
2000 Vatnseyrardómurinn - meirihluti Hæstaréttar dæmdi útgerð Vatneyrar til að greiða sektir fyrir að hafa farið til veiða án aflaheimildar. Héraðsdómur Vestfjarðar hafði í árslok 1999 sýknað útgerðina

Snjallyrðið
For to be free is not merely to cast off one's chains, but to live in a way that respects and enhances the freedom of others.
Nelson Mandela forseti S-Afríku (1918)

Engin fyrirsögn

Tony BlairHeitast í umræðunni
Tony Blair forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi breska Verkamannaflokksins, gekk í morgun á fund Elísabetar Englandsdrottningar í Buckingham-höll. Á fundi þeirra fór Blair fram á það við drottningu að hún myndi rjúfa þing og boða til þingkosninga fimmtudaginn 5. maí nk. Féllst hún á þá beiðni forsætisráðherrans. Tilkynnti Blair formlega um ákvörðun drottningar á blaðamannafundi við Downingstræti 10, embættisbústað forsætisráðherrans, er hann kom frá höllinni eftir samtal sitt og drottningar. Kynnti hann þar meginlínur kosninganna af sinni hálfu. Það sem helst kom fram í máli hans var að helsta markmið flokksins og af sinni hálfu á næsta kjörtímabili yrði að festa í sessi öflugt efnahagslíf og stöðugleika og tryggja fjárfestingar í opinberri þjónustu. Sagði hann að mikið væri í húfi í þessum kosningum, en nú væru örlög sín í höndum kjósenda. Það væri nú þeirra að meta verk sín í embætti og fella dóm yfir þeim, hvort honum og flokknum skyldi falin forysta áfram, líkt og í tveim seinustu kosningum.

Hefð er fyrir því í Bretlandi að kosningar fari fram á fimmtudegi í byrjun maímánaðar. Kosningabarátta flokkanna er þegar hafin af krafti. Kjörtímabil breska þingsins er 5 ár. Jafnan er þó kosið ári fyrir lok kjörtímabilsins, fer það þó oftast eftir því hversu örugg stjórnarforystan telur sig um sigur. Margaret Thatcher lét t.d. aldrei líða lengra en fjögur ár milli kosninga, en hún fór í gegnum þrennar kosningar: 1979. 1983 og 1987, og vann þær allar. Eftirmaður hennar, John Major lét líða fimm ár á milli kosninga í þau tvö skipti sem hann leiddi flokk sinn í kosningum: 1992 og 1997, þær fyrri vann hann þvert á allar kosningaspár en tapaði þeim seinni stórt fyrir Verkamannaflokknum. Í þeim kosningum komst Blair til valda eftir 18 ára valdaeyðimörk krata í Bretlandi. Með því að ljá Verkamannaflokknum mildari blæ og færa hann inn á miðjuna tókst honum að leiða flokkinn til valda. Blair hélt velli í kosningunum 2001 með svipaðri stefnu og náði að halda nokkurnveginn sínu. Frá þeim tíma hafa Blair og flokkurinn gengið í gegnum hvern öldusjóinn á eftir öðrum.

Deilur um Íraksmálið og innri valdabarátta innan Verkamannaflokksins hafa veikt mjög stöðu forsætisráðherrans og flokksins. Ljóst er að mun minni munur mun verða með stærstu flokkunum í þessum kosningum og langt í frá öruggt að Blair hljóti sigur í þriðju kosningunum í röð, líkt og Margaret Thatcher einni hefur tekist til þessa í breskri stjórnmálasögu. Ef marka má skoðanakannanir hefur Verkamannaflokkurinn meira fylgi en Íhaldsflokkurinn. Seinustu vikur hefur bilið þó minnkað mjög og að óbreyttu stefnir í spennandi kosningar. Það hefur aldrei gerst í sögu Verkamannaflokksins að hann sitji við völd lengur en tvö kjörtímabil. Blair stendur á krossgötum á ferli sínum. Aldrei hefur óánægja verið meiri með stjórn hans á landinu og flokknum en núna. Harkaleg valdabarátta stendur milli Blair og Gordon Brown bakvið tjöldin og óánægjan kraumar undir niðri. Er þar um að kenna að því er fjölmiðlar fullyrða svik þess fyrrnefnda á samkomulagi þeirra fyrir áratug um að hann drægi sig í hlé til að hleypa Brown í forsætisráðuneytið. Lengi hefur orðrómur verið á kreiki um að Brown hafi ekki gefið kost á sér í leiðtogakjöri Verkamannaflokksins 1994 en stutt Blair, vegna þess að þeir hefðu samið um að Blair yrði leiðtogi flokksins en myndi víkja úr stólnum fyrir Brown þegar hann hefði setið í 7-8 ár.

Eins og allir vita eru nú liðin 8 ár síðan Blair tók við völdum og Brown er orðinn langeygður í biðinni eftir stólnum og hefur viljað seinasta árið að valdaskiptunum kæmi, sem hefði verið lofað samkvæmt þessu. Var málið farið að skaða flokkinn, og sömdu þeir frið fyrir aukaþing flokksins í febrúar til að halda andlitinu út í frá og auka sigurlíkur flokksins. Munu þeir orðið vart talast við nema í gegnum talsmenn sína og starfsmenn í ráðuneytum. Er þeim þó báðum ljóst að slíðri þeir ekki sverðin muni flokkurinn eiga minni líkur á endurkjöri í kosningunum. Þeir séu því sammála um það að stuðla að endurkjöri flokksins en flokkspólitískir andstæðingar nái ekki að notfæra sér sundrungu milli þeirra og jafnvel vinna því kosningarnar. Það er einmitt þetta sem breskir stjórnmálaspekúlantar spá að sé líklegasta ástæða þess að Verkamannaflokkurinn gæti tapað: óeiningin verði þeim fjötur um fót. Ef marka má kannanir er staðan tvísýn og gæti því orðið naumt á mununum. Sem dæmi má nefna nýjustu könnun Daily Telegraph þar sem munar þrem prósentum og í Guardian munar nú bara einu prósenti. Verður fróðlegt að sjá hvað muni gerast á næstunni í þessu máli, en það er ljóst að kosningarnar verða þær mest spennandi frá árinu 1992, þegar litlu sem engu munaði að flokkarnir yrðu hnífjafnir.

RÚVÞað er samdóma álit fólks að Markúsi Erni Antonssyni útvarpsstjóra, hafi tekist með glæsibrag að ljúka deilum um fréttastofu útvarps og um ráðningu yfirmanns þar með þeirri ákvörðun sinni að ráða Óðin Jónsson fréttamann, til starfans á sunnudag. Með því náði hann að slá öll vopn úr höndum andstæðinga sinna og tókst algjörlega að snúa málinu sér í vil. Er það ánægjuefni að deilur um þessi mál séu nú að baki. Er mikilvægt að allir hlutaðeigandi horfi nú fram á veginn og líti í aðrar áttir. Í dag kom svo útvarpsráð saman til fundar og fór yfir málið og lyktir þess. Greinilegt er að útvarpsstjóri hefur tekið ákvörðun um ráðningu Óðins án samráðs við útvarpsráð. Er það ekki óeðlilegt, enda hafði útvarpsráð áður fjallað um umsóknirnar og lögbundið hlutverk þeirra í ferlinu því að baki. Vakti mesta athygli þar bókun fulltrúa Samfylkingarinnar í ráðinu. Þar segir að ráðning Óðins sé í samræmi við afstöðu þeirra á síðasta fundi þar sem þeir hafi lýst þeirri skoðun að velja bæri fréttastjóra úr hópi þeirra fimm umsækjenda sem Bogi Ágústsson mælti með.

Þessi bókun fulltrúa Samfylkingarinnar er í einu orði sagt rugl, hún heldur engu vatni. Fyrir það fyrsta treystu fulltrúar þessa flokks á seinasta fundi sér ekki til þess að mæla með neinum af fimmmenningunum sem leiddi til þess að Auðun Georg Ólafsson hlaut aðeins einn atkvæði í útvarpsráði. Samfylkingin er ekki trúverðug í þessu máli og vinnubrögð fulltrúa flokksins í ráðinu alveg stórundarleg. Þeim bar skylda til að tjá skoðun sína á því hver væri hæfastur umsækjenda og ætti að taka við stöðunni á þeim tímapunkti. Bókun þeirra í gær er í engu samræmi við álit þeirra þegar málið fór fyrir ráðið. Tvískinnungur þeirra í málinu er algjör. Ef þeim var alvara með því að álit Boga skipti máli áttu þeir að velja úr hópnum einn þeirra fimmmenninganna sem þau töldu hæfastan. Það þýðir ekkert fyrir Samfylkingarfulltrúana að tala með þessum hætti en með þeim hætti afhjúpa þau þó tvískinnung sinn augljóslega. Samfylkingin hefur í ráðinu oft áður tekið þátt í þessu ferli og valið fulltrúa og kosið þá. Eitthvað varð til þess að svo varð ekki nú. Er það kannski ástæðan eins og DV heldur fram að Eiríkur Bergmann Einarsson hafi nauðað í Ingvari Sverrissyni um að kjósa Auðun Georg, stórvin sinn. Þessu heldur Illugi Jökulsson nú fram líka í langri grein. Eitthvað er það, enda er afstaða Samfylkingarfulltrúanna ein tækifærismennska í gegn.

Punktar dagsins
Jóhannes Páll páfi II liggur á viðhafnarbörum í St. Péturskirkju

Lík Jóhannesar Páls páfa II var í gær flutt með mikilli viðhöfn úr Postulahöllinni í Péturskirkjuna. Þar mun það hvíla fram á föstudag en þá verður páfi lagður til hinstu hvíldar í hvelfingu undir kirkjunni við hlið annarra páfa. Tólf menn báru líkbörurnar út um bronshliðið og út á Péturstorgið. Við hlið þeim gengu svissnesku varðliðarnir í sínum skrautlegu búningum og lá reykelsisilmur yfir öllu. Áður en athöfnin hófst, fór Eduardo Martinez Somalo kardináli, sem nú fer með stjórn innri málefna kirkjunnar, með bæn og blessaði lík páfa með vígðu vatni. Var þetta mjög merkileg stund og athyglisvert að fylgjast með henni, en ég sá hluta hennar í beinni netútsendingu BBC. Skömmu eftir athöfnina var kirkjan opnuð almenningi og þeim leyft að fara að viðhafnarbörunum og votta páfa virðingu sína. Var þá þegar komin löng röð af fólki sem beið og jókst röðin sífellt eftir því sem leið á daginn. Seinnipartinn í dag höfðu um hálf milljón manns þegar farið í kirkjuna, en kirkjan verður opin 21 tíma á dag fram að útförinni. Búist er við að um 200 þjóðarleiðtogar verði við útförina og því um að ræða einn merkasta atburð samtímasögunnar. Ákveðið hefur verið að páfi verði jarðsettur í hvelfingunni í St. Péturskirkju, þar sem Jóhannes páfi XXIII var grafinn við andlát sitt árið 1963.

Deiglan

Norræna ráðherranefndin og Norðurlandaráð, héldu á föstudag fund hér í Deiglunni á Akureyri í samvinnu við Norrænu upplýsingaskrifstofuna á Akureyri. Var þar fjallað um þróun íslenska velferðarkerfisins. Komst ég því miður ekki á fundinn vegna anna, en á sama tíma héldum við ungir sjálfstæðismenn fund á Café Karólínu. Á fundinum fluttu Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi, Rannveig Guðmundsdóttir alþingismaður og forseti Norðurlandaráðs, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarfulltrúi og verðandi alþingismaður, erindi um málið. Hitti ég Sigrúnu að fundinum loknum í miðbænum og ræddum við um niðurstöður fundarins og ræðurnar sem fluttar voru. Var fundurinn vel sóttur og gagnlegur að sögn Sigrúnar. Margar áleitnar spurningar koma eflaust fram. Til dæmis: munu Íslendingar kjósa að halla sér í æ meira mæli að bandaríska velferðarmódelinu eða halda í það norræna? Hver er raunveruleg staða íslenska velferðarkerfisins? Af hverju eru fleiri konur en karlar undir fátækramörkum? Hvernig er hlúð að barnafjölskyldum? Einstæðum foreldrum? Börnum með sérþarfir? Áhugaverður fundur, hefði reynt að fara á hann hefði öðruvísi staðið á. Allavega, gagnlegur fundur og mikilvægt umfjöllunarefni og greinilegt að fólk hefur áhuga á umræðuefninu.

Síminn

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, kynnti á þingi í gær um samkomulag stjórnarflokkanna vegna væntanlegrar sölu Símans. Ríkið á 98,8% hlut í Símanum nú. Samkvæmt yfirlýsingunni á að selja hann allan fyrir lok júlímánaðar í einu lagi til eins hóps kjölfestufjárfesta. Salan mun þó verða háð ýmsum skilyrðum. Skilyrðin eru eftirfarandi: í fyrsta lagi að enginn einn einstakur aðili, skyldir eða tengdir aðilar, má eignast stærri hlut en sem nemur 45%, beint eða óbeint, fram að skráningu félagsins í Kauphöll. Í öðru lagi að tiltekinn hluti keyptra hlutabréfa og ekki minna en 30% af heildarhlutafé félagsins verði af hálfu kaupanda boðinn almenningi og öðrum fjárfestum til kaups fyrir árslok 2007, og sala á hlutum í félaginu til annarra eigi sér ekki stað fyrr en að lokinni sölu. Í þriðja lagi er að Síminn verði skráður á aðallista Kauphallar að uppfylltum skilyrðum hennar. Í fjórða og síðasta lagi að kjölfestufjárfestir fari ekki með eignaraðild, beina eða óbeina, í fyrirtækjum í samkeppni við Símann. Er ánægjulegt að ákveðið hafi verið að selja Símann og hann verði seldur í einu lagi eins og áður hafði verið ákveðið. Hinsvegar eru að mínu mati undarlegir skilmálarnir sem settir eru og seint hægt að segja að allir séu þeir gáfulegir. En mikilvægast er að fyrirtækið verður selt eins og að hafði verið stefnt.

The Sixth Sense

Var nóg að gera í gærkvöldi. Fór á þrjá fundi frá kl. 17:00 allt fram til 22:00. Það var því ekki komið heim fyrr en á ellefta tímanum. Er heim kom var því tekið því rólega: poppað og horft á góða mynd. Leit á hina stórfenglegu The Sixth Sense með Bruce Willis og Haley Joel Osment. Myndin segir frá virtum barnasálfræðingi, Malcolm Crowe, sem hefur tekið að sér að hjálpa átta ára gömlum strák, Cole Sear, að vinna bug á ótta sínum, en hann er gæddur þeim yfirskilvitlega hæfileika að geta séð hina dauðu og talað við þá. Málið er Malcolm einkar hugleikið því nokkrum árum fyrr hafði hann glímt við svipaðan vanda sem annar drengur átti við að stríða, en mistekist við að leysa. Við tekur flétta sem erfitt er að lýsa í orðum. Það er enginn vafi á því að The Sixth Sense er ein af eftirminnilegustu kvikmyndum tíunda áratugarins. Þar vinnur allt saman til að skapa hina frábæru kvikmynd; góð leikstjórn, frábært handrit, góð myndataka og síðast en ekki síst frábær leikur. Bruce Willis sýnir einn af allra bestu leiktilbrigðum ferils síns sem sálfræðingurinn Malcolm Crowe, Toni Collette er stórkostleg í hlutverki móðurinnar Lynn Sear, en senuþjófur myndarinnar er hiklaust Haley Joel Osment sem er í einu orði sagt stórfenglegur í hlutverki Cole, stráksins sem hefur skyggnigáfuna. Frábær mynd.

Saga dagsins
1940 Hægri umferð var samþykkt á Alþingi - vegna hernáms Breta varð ekki af því, enda voru þeir vanir vinstri umferð. Það var loks á sjöunda áratugnum sem þetta varð að veruleika. Árið 1967 var samþykkt á þingi að breyta lögunum og 26. maí 1968 var formlega fært úr vinstri umferð yfir í hægri
1955 Sir Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi breska Íhaldsflokksins, tilkynnti um afsögn sína úr embætti - hann hafði þá verið leiðtogi flokksins frá 1940 og forsætisráðherra tvívegis: 1940-1945 og frá 1951. Hann leiddi Bretland í gegnum seinni heimsstyrjöldina og hafði verið ötull talsmaður bandamanna í stríðinu gegn mætti nasista og Hitlers. Churchill var þá rúmlega áttræður, enginn hefur orðið eldri sem forsætisráðherra Bretlands. Churchill andaðist í janúar 1965
1958 Ásgrímur Jónsson listmálari, lést, 82 ára að aldri - hann var brautryðjandi nútímamyndlistar á Íslandi og hélt fyrstu málverkasýningu sína árið 1903. Ásgrímur varð einn fremsti málari aldarinnar
1965 Leikkonan Julie Andrews hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á barnfóstrunni hnyttnu Mary Poppins - hún hlaut verðlaunin aftur ári síðar fyrir stórfenglega túlkun sína á hinni söngelsku nunnu Mariu í The Sound of Music. Dame Julie er ein af allra fremstu leikkonum Breta á 20. öld og hefur verið rómuð fyrir glæsilegan leik sinn, bæði á leiksviði og í kvikmyndum og næma túlkun sína
1971 Söngleikurinn Hárið var frumsýndur í Glaumbæ og vakti bæði hrifningu og deilur. Sýningin varð gríðarlega vinsæl og vakti athygli. Hárið var sett upp aftur í misjöfnum útfærslum árin 1994 og 2004

Snjallyrðið
It's the friends you can call up at 4 a.m. that matter.
Marlene Dietrich leikkona (1901-1992)


Engin fyrirsögn

Lík Jóhannesar Páls páfa II flutt á viðhafnarbörum yfir PéturstorgiðHeitast í umræðunni
Útför Jóhannesar Páls páfa II mun fara fram í Róm á föstudaginn. Jarðarförin hefst klukkan 10 að morgni að ítölskum tíma, 8 að morgni að íslenskum tíma. Þetta var ákveðið á fundi æðstaráðs Vatíkansins í morgun, en eina verkefnið sem ráðið má annast eftir andlát páfa er undirbúningur jarðarfarar hans og skipulagning vals á eftirmanni hans, sem fram mun fara á tímabilinu 18. - 22. apríl nk. Lík páfa var í dag flutt, að viðstöddu miklu fjölmenni, yfir Péturstorgið í St. Péturskirkju, þar sem páfi verður jarðsettur á föstudag. Á næstu dögum mun almenningi verða leyft að kveðja hann hinsta sinni. Búist er við því að vel á þriðja milljón manns muni leggja leið sína til Rómar til að kveðja páfann. Pílagrímar hafa þegar safnast saman við Péturskirkjuna og bíða þess að mega fara og kveðja páfa. Enginn vafi leikur á því að jarðarför Jóhannesar Páls II verði einn helsti viðburður seinni tíma, enda stórmerkilegur maður í sögu 20. aldarinnar kvaddur. Mikill fjöldi þjóðarleiðtoga og forystumanna á víðum vettvangi alheimsstjórnmála mun þar væntanlega koma saman til að sýna virðingu sína við páfann og kaþólsku kirkjuna.

Frá því að tilkynnt var um lát páfa á laugardagskvöld hefur fólk um allan heim minnst hans og 27 ára ferils hans í embættinu. Er það samdóma álit flestra að páfinn hafi verið boðberi friðar, ötull talsmaður friðarboðskapar og hans framlag skipt sköpum er kom að endalokum kommúnismans og grimmilegs einræðis sem predikað var í nafni hans. Jóhannes Páll páfi II skilur því eftir sig merkan feril seinustu þrjá áratugina nú þegar hann kveður. Því fer víðsfjarri að ég hafi verið sammála honum í öllum málum. Hinsvegar met ég mikils forystu hans í friðarmálum, hans rödd var öflug á því sviði og það leikur enginn vafi á því að hann hafði mikil áhrif. Heimsókn hans til heimalands síns, Póllands, árið 1979, markaði söguleg skref og það er ekkert vafamál á að hann var ötull talsmaður gegn kommúnisma í heimalandi sínu og forysta hans hafði áhrif við að berja hann niður í A-Evrópu að lokum. Svo má ekki gleyma sögulegri ferð hans til N-Írlands 1979 sem varð víðfræg. Þrátt fyrir átök þar hélt hann fjölmenna útimessu í Ulster. Það var söguleg messa.

En það sem helst stendur eftir er baráttan gegn einræði kommúnismans. Enda reyndi KGB að láta ráða hann af dögum í maí 1981, litlu munaði að það tækist. Það segir mikið að Lech Walesa leiðtogi Samstöðu og síðar forseti Póllands, minnist páfa með þeim orðum að hann hafi lagt mest að mörkum til þess að fella austantjaldskommúnismann niður. Hann eignar honum 50% árangursins, hitt skiptist á milli stjórnmálamannanna. Þetta er rétt. Framlag JPII til friðarmála mun halda hans merki á lofti. Sama hvað segja má um skoðanir hans t.d. á samkynhneigð, getnaðarvörnum og fleiru deilir enginn um áhrifamátt hans í friðarmálum. Þar markaði hann skref sem aldrei hverfa. Í gær átti ég notalegt spjall við nokkra vini á kaffihúsi. Ræddum við þar páfann og þátt hans í mannkynssögunni. Höfðu þeir lesið skrif mín um páfann hér að kvöldi laugardags, eftir andlát hans, og svo pistil eftir mig sem birtist í gær og fjallaði um páfann. Ræddum við þar um skoðanir páfa á málum og afstöðu mína til hans og framlags hans til trúar- og friðarmála. Enginn vafi leikur á því að ég tel hans framlag skipta sköpum. Eins og fyrr segir er ég ekki sammála öllum hans grunnáherslum, en ég tel persónu hans sýna vel að um mikinn merkismann var að ræða.

Annars tjáði ég vel skoðun mína á verkum og forystu páfa í sunnudagspistli mínum í gær. Helgaði ég pistil minn að öllu leyti í gær páfa og verkum hans og vildi með því tjá þann hug minn að með honum er genginn einn merkasti maður 20. aldarinnar. Sannkallaður áhrifamaður á samtíð sína og alla framtíð, bæði kristinnar trúar og þess embættis sem hann gegndi af trúmennsku og mikilli samviskusemi í þrjá áratugi og sýndi ótrúlegan styrk sérstaklega seinustu árin, er hann barðist við veikindi og sífellt minni þrótt til starfa. Hann réði ekki yfir herstyrk eða vopnavaldi en vald hans og áhrif var öflugra en það allt til samans, hann vann á grundvelli trúar og var einlægur fulltrúi þess sem kristin trú byggir á. Áhrif hans við að tjá þann boðskap var sterkari en allt mannlegt. Hann var allt til hinstu stundar ötull og öflugur talsmaður Guðs.

Óðinn Jónsson fréttastjóriÓðinn Jónsson fréttamaður og varafréttastjóri Ríkisútvarpsins var í gær ráðinn fréttastjóri á fréttastofu Útvarps. Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri, ákvað eftir hádegið í gær að bjóða Óðni starfið og ræddu þeir málið með þeim afleiðingum að þeir sömdu um að Óðinn tæki við starfinu samstundis. Með ráðningu Óðins í fréttastjórastól fréttastofu Útvarps lýkur langri atburðarás sem hófst er Kári Jónasson lét af störfum sl. haust til að fara til starfa á Fréttablaðinu. Hafði lengi verið talað um hver tæki við starfinu og loks var það auglýst og er kom að ráðningu var deilt um val útvarpsstjóra á Auðuni Georg Ólafssyni, einum af 10 umsækjendum. Ólga vegna ráðningarinnar varð til þess að Auðun Georg afþakkaði starfið. Enginn vafi leikur nú á að fagmaður er orðinn fréttastjóri og yfirmaður á fréttastofu Útvarpsins. Ég tel að Markús Örn hafi gert hárrétt í að taka strax ákvörðun um nýjan fréttastjóra og taka af skarið. Með þessu hefur útvarpsstjóri slegið öll vopn úr höndum andstæðinga sinna og tekist að snúa málinu sér í vil og samið frið við starfsmenn.

Óðinn á að baki langan feril í fréttamennsku. Hann hefur starfað sem fréttamaður á fréttastofu Ríkisútvarpsins frá árinu 1987 og hefur verið varafréttastjóri þar frá því að Sigríður Árnadóttir lét af störfum í janúarlok 2004. Óðinn hefur verið umsjónarmaður Morgunvaktarinnar frá upphafi, í mars 2003, eða í rúmlega 2 ár. Hann hefur haldið vel á þeim þætti að mínu mati og markað honum góða tilveru. Hlusta ég oftast nær á þáttinn snemma á morgnana. Þar er jafnan skemmtileg og góð blanda af málefnum samtímans og fróðleg úttekt á því sem er að gerast og tekið á áhugaverðum málum. Það er grunnmál að mínu mati að fréttastjóri, alveg sama hvort það er á útvarpi eða sjónvarpi meðan ríkið á það, sé fagmaður í fréttamennsku og hafi langan feril á að skipa og geti haldið með trúverðugleika utan um fréttapakkann. Verkefni fréttastofunnar er að segja fréttir og því er fréttastjórinn auðvitað yfirmaður fréttastofu, faglegur stjórnandi frétta. Hann er ekki baunateljari. Því skiptir fréttamannsreynsla miklu í þessum efnum. Ég hef enga hugmynd um það hvað Óðinn Jónsson kýs þegar hann er einn í kjörklefanum. Um það snýst ekki málið. Það snýst um að fréttastjórinn sé fagmaður frétta og hafi reynslu á að skipa. Einfalt mál. Ég tel Óðinn hæfan til verksins og hef væntingar í þá átt að hann nái að vinna af krafti og skapa þann trúverðugleika sem nauðsynlegur er á fréttastofunni. Reynir nú á það. Ég óska honum til hamingju með starfið og vona að honum muni ganga vel í starfinu á komandi árum.

Punktar dagsins
Tony Blair

Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, ákvað að fresta því að boða formlega til bresku þingkosninganna í dag vegna fráfalls páfa. Í staðinn mun hann væntanlega tilkynna um kosningarnar á morgun. Verða þær að öllum líkindum haldnar eins og áður hafði verið talið líklegast: þann 5. maí. Er því ljóst að snörp og beinskeytt kosningabarátta er framundan næstu vikurnar í Bretlandi. Hún hefur þó staðið nokkurn tíma nú þegar, segja má að hún hafi hafist af krafti strax í febrúar. Þess er nú bara beðið að þingið verði leyst upp og frambjóðendur og forystumenn flokkanna geti farið heim í hérað og kynnt sig og stefnu sína betur og án skugga þingstarfanna í London. Við blasir að kosningabaráttan verði spennandi, eflaust mun spennandi en kosningabaráttan 1997 og 2001. Þessar tvær kosningar vann Verkamannaflokkurinn með afgerandi mun og aldrei var vafi á sigri flokksins. Skv. nýrri könnun Daily Telegraph í dag getur allt gerst. Munurinn er einungis þrjú prósent: LP hefur 36% en CP hefur 33%. Frjálslyndir hafa 22%. Þessi munur er því mun minni nú en var þegar boðað var áður til kosninganna. Ljóst er að þreytan er orðin nokkur með Blair og kratana og viðbúið að baráttan verði eitilhörð og beitt. Verður fróðlegt að fylgjast með lokahnykk baráttunnar.

Camilla Parker Bowles og Karl Bretaprins

Fyrirhuguðu brúðkaupi Karls prins af Wales og unnustu hans Camillu Parker Bowles hefur verið frestað til laugardags. Átti það upphaflega að fara fram á föstudag, en sú dagsetning gengur ekki lengur, enda stangast hún á við útför Jóhannesar Páls páfa II. Hefði það orðið algjör hneisa fyrir bresku konungsfjölskylduna ef haldið hefði verið til streitu, eins og áður hafði verið lýst yfir, að hafa brúðkaupið á föstudag þrátt fyrir útför páfa. Sérfræðingar í málefnum hirðarinnar voru fljótir að benda á að ákvörðun þess eðlis að hafa brúðkaupið á sama degi og útför páfa hefði orðið PR slys allra tíma fyrir hina álappalegu konungsfjölskyldu. Karl og Camilla hætta ekki á þann dans sem hefði hlotist af því, ofan á allt annað PR ruglið í kringum borgarfógetagiftingu þeirra. Hefur þessi undirbúningur markast af hverju klúðrinu eftir öðru. Hef ég áður rakið það sem hefur átt sér stað. Það nýjasta er að Camilla getur borið prinsessutitil af Wales eftir giftinguna. Er það auðvitað titill Díönu prinsessu, sem hún bar frá því hún giftist Karli allt þar til hún lést sumarið 1997. Varla fer Camilla þó að bera hann nema þau ætli endanlega að gera allt vitlaust.

Akureyri að vori 2003

Akureyrarbær hefur að nýju hafið auglýsingaherferðina Akureyri - öll lífsins gæði! sem stóð áður 2001-2003 með góðum árangri. Er þetta hárrétt ákvörðun og mikilvægt að kynna vel alla kosti bæjarins og þá mikilvægustu punkta sem máli skipta. Unnið hefur verið markvisst að markaðssetningu bæjarins á síðustu árum og markaði skipun umboðsmanna bæjarins í byrjun marsmánaðar upphaf þessarar nýju herferðar þar sem verði lögð hefur verið áhersla á þann árangur sem náðst hafi og að bjartar horfur séu framundan í málum bæjarins. Í sveitarstjórnarkosningunum 1998 fórum við sjálfstæðismenn fram undir kjörorðinu: Kraftur í stað kyrrstöðu. Það hefur sannast, svo ekki verður um villst, að kraftur hefur verið mikill hér og verið áþreifanlegur og sést í öllum tölum síðan, þegar farið er yfir stöðu mála. Kraftur kom í stað kyrrstöðu undir forystu okkar sjálfstæðismanna í samstarfi okkar fyrst við Akureyrarlista og síðar Framsóknarflokk, og hefur verið til staðar í valdatíð okkar í bænum. Akureyri er svo sannarlega í öndvegi sveitarfélaga, enda vel hér haldið á málum og staða bæjarins mjög sterk og kraftmikil þegar litið er til framtíðar.

Bubbi Morthens

Bubbi Morthens hefur lengi verið einn af mínum uppáhaldstónlistarmönnum. Ég met mikils tónverk Bubba og framlag hans til íslenskrar tónlistar. Það fer ekki framhjá neinum að hann er einn af fremstu tónlistarmönnum landsins seinustu áratugina. Hefur hann seinustu árin samið hvern smellinn á eftir öðrum og náð að toppa sig sem tónlistarmann með hverri plötunni. Í fyrra samdi hann að mínu mati sitt besta lag til fjölda ára, sannkallaðan gullmola. Er ég að tala um lagið Fallegur dagur. Þetta er glæsilegt lag sem hittir beint í mark. Í dag gaf hann formlega út annað nýtt lag, sem verður ásamt Fallegum degi á nýrri plötu hans sem kemur út á afmælisdegi hans, 6. júní. Er þetta lagið Þú. Hlustaði ég á lagið á tonlist.is um leið og það var kynnt þar í morgun. Er þar komið annað stórfenglegt lag sem hittir beint í mark. Hvet alla til að fara á vefinn og hlusta á þetta frábæra lag Bubba. Greinilegt að Bubbi og Barði í BangGang eru að semja eðalefni saman og samstarf þeirra að skila af sér frábærum lögum.

Saga dagsins
1897 Hið íslenska prentarafélag stofnað - er félag prentara elsta starfandi verkalýðsfélag landsins
1960 Kvikmyndin Ben-Hur hlýtur 11 óskarsverðlaun - engin kvikmynd hafði fram að þeim tíma hlotið fleiri óskarsverðlaun. Nokkrum áratugum síðar jöfnuðu Titanic og The Lord of the Rings: The Return of the King þetta met myndarinnar og hlutu ennfremur 11 óskarsverðlaun. Aðalleikari myndarinnar, Charlton Heston hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á Judah Ben-Hur og Hugh Griffith einnig, en hann túlkaði Sheik Ilderim. Leikstjóri myndarinnar, William Wyler hlaut á sömu óskarshátíð bæði leikstjóraóskarinn og heiðursóskar fyrir æviframlag sitt. Ben-Hur er ein besta kvikmynd 20. aldarinnar
1968 Blökkumannaleiðtoginn Martin Luther King, er var einn af ötulustu málsvörum mannréttinda blökkumanna á 20. öld, skotinn til bana á svölum hótelherbergis í Memphis í Tennessee-fylki, 39 ára að aldri. James Earl Ray var dæmdur fyrir morðið en hann hélt alla tíð fram sakleysi sínu. Hann lést í fangelsi árið 1998, en reyndi í mörg ár að vinna að því að mál hans væri tekið upp á nýjan leik
1979 Zulfikar Ali Bhutto fyrrum forseti og forsætisráðherra Pakistans, tekinn af lífi - Bhutto sat á forsetastóli landsins 1971-1973 og forsætisráðherra 1973-1977 er honum var steypt af stóli. Dóttir hans, Benazir Bhutto, varð forsætisráðherra Pakistans árið 1988, fyrst allra kvenna í íslömsku ríki
1995 Ragnar Th. Sigurðsson og Ari Trausti Guðmundsson komust á Norðurpólinn, fyrstir Íslendinga

Snjallyrðið
Good works are links that form a chain of love.
Móðir Teresa (1910-1997)


Engin fyrirsögn

Jóhannes Páll páfi II
1920-2005


Jóhannes Páll páfi II liggur á viðhafnarbörum í Vatíkaninu

Kaþólskir menn og kristnir um allan heim hafa í dag minnst Jóhannesar Páls páfa II, sem lést í Vatíkaninu í Róm í gærkvöldi, 84 ára að aldri. Um leið og andlát hans var formlega tilkynnt í gærkvöldi komu rúmlega 100.000 manns saman á Péturstorginu og minntist hans og bað saman til heiðurs honum. Fylgdist ég með þeirri merku athöfn í beinni netútsendingu á sjónvarpsstöð Vatíkansins. Sérlega áhrifamikið var þegar klukkunum var hringt til heiðurs honum og til að marka þau sögulegu þáttaskil sem átt höfðu sér stað. Ennfremur var táknrænt að sjá þegar bronsdyrum Vatíkansins var lokað, sem merki um það að páfi væri látinn. Hurðin verður ekki opnuð að nýju fyrr en eftirmaður hefur verið kjörinn. Nú, er páfi hefur lokið jarðvist sinni, tekur sérlegur aðstoðarmaður páfa, Eduardo Martinez Somalo kardináli, við daglegum skyldum hans fram yfir vígslu nýs páfa. Somalo hefur verið nánasti aðstoðarmaður páfa í tvo áratugi. Skrifstofa utanríkis- og innanríkismála Vatíkansins er nú með öllu umboðslaus og ekki er því hægt að sinna diplómatískum málefnum fyrr en eftirmaður hefur verið kjörinn. Engin ákvarðanataka má eiga sér stað nema minniháttar tengd daglegum athöfnum.

Þjóðarsorg verður í mörgum ríkjum í dag og næstu daga vegna andláts páfans. Í heimalandi hans, Póllandi, hefur verið lýst yfir sex daga þjóðarsorg en þriggja daga á Ítalíu. Samhliða því að vera páfi var Jóhannes Páll II auðvitað trúarlegur leiðtogi rómversku kirkjunnar og því er mikil sorg þar, rétt eins og í Póllandi. Angelo Sodano kardináli, söng í morgun sálumessu til heiðurs páfa á Péturstorginu. Við þá athöfn voru viðstaddir fjöldi trúarleiðtoga kaþólsku kirkjunnar og erlendir erindrekar á hennar vegum og tæplega 140.000 manns voru saman komin á Péturstorginu. Við þetta tækifæri var lesið seinasta ávarpið sem páfi samdi fyrir dauða sinn. Á sömu stund var flutt annað ávarp hans við minningarathöfn í Krakow í Póllandi þar sem Jóhannes Páll II var erkibiskup til fjölda ára, áður en hann var kjörinn páfi í október 1978. Mikill hátíðarblær var yfir athöfninni á Péturstorginu í morgun og sérlega áhrifaríkt að sjá hversu mjög fólk tók andlát páfa nærri sér og bar mikla virðingu fyrir trúarlegu starfi hans seinustu áratugina. Sodano kardináli, flutti falleg minningarorð um páfa við þetta tækifæri.

Um hádegið, eftir athöfnina á Péturstorgi var lík páfa lagt á viðhafnarbörur í Höll miskunnseminnar í Vatikaninu. Fór þar fram mjög hátíðleg stund, þar sem æðstu forystumenn Ítalíu, stjórnarerindrekar og leiðtogar kaþólsku kirkjunnar minntust páfa. Carlo Azeglio Ciampi forseti Ítalíu, og Silvio Berlusconi forsætisráðherra Ítalíu, voru þar viðstaddir ásamt eiginkonum sínum. Lík páfa var sveipað fullum skrúða, hann var á viðhafnarbörunum klæddur rauðum og hvítum klæðum og með gylltan mítur á höfði, sem er til marks um virðingu fyrir honum og verkum hans í embætti. Hafði biskupsstaf verið komið fyrir í annarri hendi hans eins og páfi héldi á honum. Eftir táknræna og virðulega athöfn voru honum flutt blessunarorð og að því loknu var líkinu komið fyrir á börum í Péturskirkjunni þar sem almenningur mun geta kvatt páfa hinsta sinni á næstu dögum. Má búast við að vart muni færri en tvær milljónir manna um allan heim, pílagrímar og fólk víðsvegar að, leggja leið sína næstu daga í Vatíkanið til að kveðja páfann hinsta sinni. Er Jóhannes Páll páfi I lést í september 1978 komu tæplega ein og hálf milljón manns til að kveðja hann hinsta sinni.

Útför páfa mun væntanlega fara fram á fimmtudag, þó það hafi ekki endanlega verið ákveðið blasir við að svo muni að öllum líkindum vera. Mun það verða söguleg stund, enda markar dauði páfans söguleg þáttaskil í sögu kaþólsku kirkjunnar. Hafa aðeins tveir menn ríkt lengur í embættinu og margir þjóðarleiðtogar og forystumenn kristinnar trúar í heiminum munu vera viðstaddir athöfnina, fyrstu útför leiðtoga kaþólskrar trúar í 27 ár. Að athöfn á Péturstorginu og í St. Péturskirkju lokinni mun kista Jóhannesar Páls páfa II væntanlega verða grafin í grafhvelfingu kirkjunnar. Þar eru páfar sögunnar flestir grafnir. Eftir greftrun hans mun taka við svokallað tímabil sem ber nafnið Novemdialis, 9 daga formlegt sorgartímabil, sem markast af því að á hverjum degi er haldin hátíðarmessa í St. Péturskirkju. Eftir að Novemdialis er lokið er komið að stærsta verkefninu sem fylgir andláti páfa, því að velja formlega eftirmann hans. Kjörmannasamkunda kardinála ber að koma saman 15 dögum eftir formlegan dánardag páfa og alls ekki síðar en 18 dögum.

Andlát páfa eftir svo langan tíma í forystu kaþólsku kirkjunnar eru tímamót. Jóhannes Páfi II var litríkur páfi og markaði stór spor í sögu kirkjunnar. Hann fór í 104 opinberar heimsóknir og heimsótti 129 lönd. Samkvæmt upplýsingum frá Vatíkaninu eyddi hann 822 dögum embættisferils síns, eða 2 árum og 3 mánuðum, í ferðir utan Vatíkansins. Hann flutti 20.000 ræður og ávörp og veitti rúmlega 1.000 áheyrnir í Vatíkaninu sem 17 milljónir og 800.000 manns sóttu. Hann átti fundi með 1.600 stjórnmálaleiðtogum þar af 776 þjóðarleiðtogum. Hann gaf út fleiri grundvallaryfirlýsingar og tilskipanir innan kirkjunnar en áður hefur þekkst og tók 482 menn í dýrlingatölu sem er meira en allir forverar hans hafa gert í 400 ár. Það deilir því enginn um áhrifamátt þessa trúarleiðtoga sem nú hefur kvatt. Hvað sem segja má um skoðanir hans voru áhrif hans mikil og enginn vafi leikur á að hann var einna merkastur af trúarleiðtogum í sögu kaþólsku kirkjunnar.

Jóhannes Páll páfi II kemur fram í glugga íbúðar sinnar í Vatíkaninu í hinsta skipti - 30. mars 2005

Í sunnudagspistli mínum í dag minnist ég Jóhannesar Páls páfa II, eins eftirminnilegasta trúarleiðtoga kaþólskra, manns sem hafði mikil áhrif á sögu 20. aldarinnar. Pólverjinn Karol Józef Wojtyla var fyrsti páfinn í 455 ár sem ekki var Ítali að uppruna. Hann fæddist 18. maí 1920 í smábænum Wadowice í Póllandi. Hann var kjörinn páfi í október 1978 og gegndi embætti, þrátt fyrir slæma heilsu, allt til dauðadags. Hann heimsótti um 130 lönd á 27 ára páfaferli og var víðförlasti páfi sögunnar og flutti fleiri ræður og predikanir en nokkur annar trúarleiðtogi í sögu kristinnar trúar. Verk páfa og trúarleg forysta verða lengi í minnum höfð. Fer ég yfir ævi hans og feril í embætti og fer ennfremur yfir það ferli sem nú tekur við, er kardinálar þurfa að velja nýjan trúarleiðtoga sinn. Jóhannes Páll páfi II var heillandi og traustur fulltrúi embættis síns og ekki síður trúarinnar. Framlag hans gleymist ekki. Hann markaði skref í sögu mannkyns sem gleymast ekki að mínu mati. Verk hans skipta alla heimsbyggðina miklu máli. Þau hverfa ekki með honum, nú er hann kveður okkur öll hinsta sinni. Gildi verka hans verða að eilífu til staðar fyrir alla kristna menn.

Saga dagsins
1882 Bergur Thorberg landshöfðingi, tilkynnir um stofnun sameiginlegrar geymslu fyrir skjalasöfn æðstu embætti Íslendinga. Með þessari ákvörðun var lagður grunnurinn að Þjóðskjalasafni Íslands
1975 Bobby Fischer heimsmeistari í skák, sviptur titlinum í kjölfar þess að hann tilkynnti að hann myndi ekki keppa um hann við Anatoly Karpov á forsendum FIDE - Fischer varð heimsmeistari árið 1972 í kjölfar sögulegs skákeinvígis við Boris Spassky í Reykjavík. Fischer sneri aftur og keppti við Spassky í Júgóslavíu 1992 til að minnast hins sögulega einvígis í Reykjavík. Með því að keppa þar braut Fischer gegn viðskiptabanni Bandaríkjanna á hendur Júgóslavíu og var hann á flótta undan bandarískum yfirvöldum í 12 ár. Hann var handtekinn í Japan árið 2004, vegna þess að hann hafði ekki gild skilríki. Íslensk stjórnvöld björguðu Fischer úr vandræðum sínum með því að gera hann að íslenskum ríkisborgara í mars 2005. Kom hann til landsins eftir langa ferð frá Japan 24. mars 2005
1978 Leikkonan Diane Keaton hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Annie Hall í samnefndri kvikmynd meistara Woody Allen - Keaton er ein af bestu leikkonum sinnar kynslóðar og hefur hún átt fjölda af glæsilegum leikframmistöðum á ferlinum og þykir jafnvíg á bæði dramatísk og gamansöm hlutverk
1984 Hundahald leyft að nýju í Reykjavíkurborg, en þó gert að uppfylltum mjög ströngum skilyrðum
2001 Grænmetisskýrslan kynnt - innflytjendur grænmetis og ávaxta sektaðir um 105 milljónir króna

Snjallyrðið
When freedom does not have a purpose, when it does not wish to know anything about the rule of law engraved in the hearts of men and women, when it does not listen to the voice of conscience, it turns against humanity and society.
Jóhannes Páll páfi II trúarleiðtogi kaþólskra (1920-2005)


Engin fyrirsögn

Jóhannes Páll páfi II
1920-2005


Jóhannes Páll páfi II (1920-2005)Jóhannes Páll páfi II lést í Vatíkaninu í Róm í kvöld, 84 ára að aldri, eftir mikil og erfið veikindi. Seinustu vikur hefur heimsbyggðin öll fylgst með dauðastríði páfa, einbeittum styrk hans og ekki síður ákveðni í að reyna eftir fremsta megni að sinna störfum sínum þrátt fyrir hnignandi heilsu. Hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með páfanum reyna að gera sitt besta til að sinna verkum sínum. Sérstaklega varð ég snortinn að fylgjast með ákveðni hans á páskadag og miðvikudag, þegar ljóst var orðið hvert stefndi í veikindastríði hans: að reyna að ávarpa mannfjöldann og birtast almenningi við Péturstorgið. Gat hann ekki tjáð sig en nærvera hans var gríðarlega sterk og hafði áhrif á alla sem fylgdust með. Var hann ákveðinn í að heimsbyggðin gæti séð með eigin augum þjáningu sína og ákveðni í að reyna að gera sitt besta til að vera þjónn Guðs í störfum sínum. Allt til loka var páfi staðráðinn í að gera það sem honum var frekast unnt til að þjóna almenningi og reyna að sinna embættisskyldum sínum, þjóna trúnni og frelsaranum.

Jóhannes Páll páfi II sat á páfastóli í tæp 27 ár. Hann var kjörinn til páfasetu þann 16. október 1978 og tók við embætti af Jóhannesi Páli páfa I sem aðeins sat á páfastóli í rúman mánuð, 33 daga. Jóhannes Páll páfi II sat lengst allra páfa á 20. öld og einungis tveir páfar sátu lengur á páfastóli en hann, þeir Pius IX og Saint Peter. Pólverjinn Karol Józef Wojtyla var fyrsti páfinn í 455 ár sem ekki var Ítali. Hann fæddist 18. maí 1920 í smábænum Wadowice í Póllandi. Upplifði hann ógnir seinni heimsstyrjaldarinnar á unglingsárum sínum en Pólland var hernumið af Þjóðverjum árið 1939. Á æskuárum sínum áður en hann ákvað að nema guðfræði og helga sig kristinni trú var hann kraftmikill íþróttamaður og stundaði einkum knattspyrnu og sund og vann til fjölda verðlauna á unglingsárum í sundi. Hann tók vígslu sem prestur eftir nám sitt árið 1946. Hann kenndi siðfræði við Jagiellonian-háskólann í Kraków og síðar kaþólska háskólann í Lublin til fjölda ára. Árið 1958 var hann skipaður prestur í Kraków og fimm árum seinna, í desember 1963, var hann skipaður erkibiskup í Kraków. Sem prestur og biskup þar varð Karol þátttakandi í starfsemi Vatikansins og tók sæti í æðsta ráði páfadæmisins.

Árið 1967 var hann skipaður kardináli af Páli páfa VI og varð með því orðinn einn af forystumönnum Vatikansins og kaþólsku kirkjunnar. Var hann því orðinn kjörgengur við páfakjör. Reyndi fyrst á það í ágúst 1978 er Páll páfi lést og eftirmaður hans var kjörinn. Hlaut Albino Luciani kjör og tók sér nafnið Jóhannes Páll páfi I. Hann lést eins og fyrr segir 33 dögum eftir vígslu sína. Fór páfakjör fram í október 1978 og þótti fyrirfram líklegast að baráttan um páfatignina myndi standa milli Giuseppe Siri og Giovanni Benelli. Gekk brösuglega fyrir þá að ná tilskyldum meirihluta. Í fyrstu umferð vantaði Benelli 9 atkvæði til að sigra í kjörinu. Varð þá úr að samstaða náðist milli vissra arma í trúarhreyfingunni um að Wojtyla gæfi kost á sér og náði hann kjöri sem málamiðlunarkostur. Var undrun víða um heim við kjör hans, enda var hann lítt þekktur og hafði verið lítt umdeildur í störfum sínum. Margir nefndu hann manninn frá fjarlæga landinu, sem til marks um það að hann gat verið sameiningartákn ólíkra hluta og gæti því tekið við forystunni með lítt umdeildum hætti. Enginn vafi leikur á því að Jóhannes Páll páfi II hafi verið litríkasti og mest áberandi páfi í sögu kaþólsku kirkjunnar og hafi sett einna mest mark á sögu embættisins.

Enginn vafi er á að þrátt fyrir farsæla setu á páfastóli var páfinn umdeildur. Fylgismenn hans staðhæfa að hann hafi átt drjúgan þátt í endalokum kommúnismans með baráttu sinni fyrir frelsi og mannlegri reisn í Póllandi og öðrum A-Evrópuríkjum. Andstæðingar hans segja að páfi hafi hrakið milljónir manna úr kaþólsku kirkjunni með íhaldssemi. Hann hafi líkt og forverar hans verið andvígur því að konur gegni prestþjónustu, hann hafi lagst gegn getnaðarvörnum, ástarsamböndum samkynhneigðra og því að prestar kvænist. Hann hafi verið gamaldags fulltrúi og lagst gegn framþróun og verið andvígur mikilvægum mannréttindaatriðum. Stuðningsmenn hans segja að páfi hafi á löngum ferli verið kraftmikill málsvari mannréttinda og stutt "réttar" mannlegar áherslur, eins og þeir segja. Á löngum ferli var hann áberandi talsmaður grunnmannréttinda: málfrelsis og andvígur stríðum, einræði og blóðsúthellingum. Litlu munaði að páfaferli hans lyki er hann varð fyrir skoti leyniskyttu þann 13. maí 1981, er hann kom inn á Péturstorgið. Það var tyrkneskur múslimi, Mehmet Ali Agca, sem skaut hann. Í 14 tíma lá páfi á skurðarborðinu á sjúkrahúsi í Róm og barðist fyrir lífi sínu. Náði hann heilsu aftur og vakti mikla athygli er hann fór til tilræðismanns síns í fangelsið og fyrirgaf honum.

Jóhannesar Páls páfa II verður að mínu mati, nú við leiðarlok, helst minnst í sögunni fyrir forystu hans í friðarmálefnum, baráttuna gegn kommúnismanum og fyrir það að vera kraftmikill talsmaður gegn stríðshörmungum. Hann ferðaðist víða á löngum ferli og heimsótti 129 lönd á þeim 27 árum sem hann ríkti í embættinu. Hann flutti fleiri hundruð ræður í embætti og mörg þúsund blessunarorð. Helgast það auðvitað af langri setu hans. Ferðalögin helgast af því að hann er fyrsti nútímapáfinn, ef segja má sem svo. Hann notaði embættið með öðrum hætti en forverar hans og var mun virkari út í frá. Hann flutti fleiri ræður og predikanir en nokkur trúarleiðtogi í sögu kristinnar trúar. Í byrjun júnímánaðar 1989 kom Jóhannes Páll páfi II í opinbera heimsókn til Íslands og dvaldi hér dagana 3. og 4. júní. Hélt hann hátíðlega stund á Þingvöllum og messaði við Kristskirkju í Landakoti. Var ég staddur í Reykjavík á þeim sögulega degi og varð vitni að því er hann predikaði í útimessunni. Þessi stund mun aldrei gleymast mér. Talaði páfi stutt til Íslendinga á íslensku, en Gunnar Eyjólfsson leikari, hafði kennt páfa íslensku í aðdraganda Íslandsferðarinnar. Var páfi alla tíð þekktur fyrir tungumálakunnáttu sína. Jafnan flutti hann blessunarorð á Péturstorginu á um 60 tungumálum. Sjálfur gat hann reiprennandi talað 13 tungumál.

Nú, þegar páfi hefur kvatt þennan heim og er kominn á annað tilverustig tekur við staðlað sorgarferli skv. fornum hefðum og venjum kaþólsku kirkjunnar. Í kjölfarið tekur við það verkefni að velja eftirmann Jóhannesar Páls páfa II. Við blasir að næsta páfakjör, sem framundan er, verði sögulegt. Um verður að ræða fyrsta páfakjörið sem fer fram í kastljósi fjölmiðla í nútímaumhverfi fjölmiðla. Skiljanlega geta fjölmiðlar þó ekki fylgst með í algjöru návígi, enda eru fundir æðstaráðsins sem velur páfa með öllu lokaðir öðrum en þeim sem eiga þar kjörrétt. Siðareglur við kjör páfa eru mjög skýrar og eru öllum vel þekktar. Við andlát páfa á sjúkrabeði í kvöld var skírnarnafn hans kallað þrisvar: Karol, Karol, Karol! Þar sem hann sýndi þá engin svipbrigði var hann formlega úrskurðaður látinn. Í kjölfar þess gerist sú táknræna stund að bronsdyrum Vatíkansins er lokað sem merki um það að páfi hafi kvatt þennan heim. Hurðin verður svo ekki opnuð að nýju fyrr en eftirmaður hefur verið kjörinn. Nú, við andlát páfa, tekur sérlegur aðstoðarmaður páfa við daglegum skyldum hann fram yfir vígslu nýs páfa. Að honum og fleiri forystumönnum páfagarðs viðstöddum var hvítri andlitsslæðu sem hylur andlit páfa fjarlægð og beðið var fyrir sálu hans.

Tilkynnt var formlega um lát Jóhannesar Páls páfa II í kjölfarið. Hringur páfa, svonefndur hringur fiskimannsins, sem páfi hlaut við kjör sitt, er færður á fyrsta fund kardínálanna þar sem hringurinn er brotinn. Nú, er páfi hefur skilið við hefur söfnuður kardinálanna, sem sinnir málefnum kirkjunnar ekkert vald lengur. Þá verður skrifstofa utanríkis- og innanríkismála Vatíkansins með öllu umboðslaus og ekki er því hægt að sinna diplómatískum málefnum fyrr en eftirmaður hefur verið kjörinn. Sama hversu stór mál koma til eða atburðir verða er engin undantekning á því. Öllum heimsóknum til Páfagarðs, óformlegum sem formlegum, er frestað og engin ákvarðanataka má eiga sér stað nema minniháttar tengd daglegum athöfnum. Nú tekur eins og fyrr segir við staðlaður sorgartími kaþólskra um allan heim. Kaþólskir syrgja nú fallinn trúarleiðtoga sinn. Kaþólikkar flykkjast í kirkju til að biðja fyrir sálu páfa og helga sig sorg, eins og þeim er skylt. Næstu daga verður lík Jóhannesar Páls páfa II klætt rauðum klæðum og með gylltum mítur á höfði, er það til marks um virðingu fyrir honum og til að biðja fyrir sálu hans. Lík páfans verður fyrir formlega útför fært í þrefalda kistu og mun pyngja með öllum þeim myntum og orðum páfadóms hans seinustu 27 ár verða lögð við fætur hans.

Áður en lík páfa var flutt úr einkaherbergi hans fékk hann staðlaða syndafyrirgefningu og mun lík hans verða til sýnis í hátíðarsal í Vatíkaninu. Útför Jóhannesar Páls II páfa mun væntanlega fara fram fyrir næstu helgi, líklega á miðvikudag. Að athöfn á Péturstorginu og í St. Péturskirkju lokinni mun kista Jóhannesar Páls páfa II væntanlega verða grafin í grafhvelfingu kirkjunnar. Þar eru páfar sögunnar flestir grafnir. Eftir greftrun hans mun taka við svokallað tímabil sem ber nafnið Novemdialis, 9 daga formlegt sorgartímabil, sem markast af því að á hverjum degi er haldin hátíðarmessa í St. Péturskirkju. Eftir að Novemdialis er lokið er komið að stærsta verkefninu sem fylgir andláti páfa, því að velja formlega eftirmann hans. Kjörmannasamkunda kardinála ber að koma saman 15 dögum eftir formlegan dánardag páfa og alls ekki síðar en 18 dögum. Allir kardínálar, nema þeir sem hafa náð áttræðu, geta tekið þátt í kjöri nýs páfa. Ef marka má fréttir erlendra vefmiðla eru um 130 kardinálar sem standast kjörskilyrðin að þessu sinni. Eru kardinálar nú að flykkjast til Rómar og voru margir þegar farnir að leggja leið sína þangað í gær er ljóst varð að páfinn lá banaleguna. Tekur nú æðsta verkefni starfs þeirra við, að velja sér nýjan trúarleiðtoga, í fyrsta skipti í tæpa þrjá áratugi.

Kardinálarnir eru skiljanlega bundnir trúnaði. Mega þeir ekki ræða kosninguna eða neina þætti þess sem gerist nú við fjölmiðla eða aðra en lærða menn. Þar til þeir hafa náð niðurstöðu og páfi verið kjörinn eru þeir læstir inni og þá fyrst má ræða um heppilega kandidata við aðra kardínála innbyrðis og hefja einhvers konar kosningabaráttu. Er kjörfundur er formlega hafinn má honum ekki ljúka eða kardinálar að yfirgefa hann fyrr en niðurstaða er komin, eins og fyrr segir. Fyrir þarf að liggja bæði stór og gild ástæða fyrir brotthvarfi kardinála frá þeirri stundu. Þrjár aðferðir eru til að velja nýjan páfa. Í fyrsta lagi er sú aðferð sem algengust er: að velja páfa með beinni kosningu. Frambjóðandi verður þá að hljóta 2/3 allra atkvæða til að vera kjörinn, í öðru lagi er hægt að kjósa páfa með upphrópun. Þá eru allir kardínálarnir sammála um hver skuli taka við sem páfi og kalla nafn hans upphátt. Að lokum er hægt að velja páfa með málamiðlun. Atkvæðagreiðslan fer fram í Sixtínsku kapellunni. Eftir að samstaða hefur náðst eru atkvæðaseðlarnir brenndir. Reykur leggur þá upp yfir Péturstorgið til marks um niðurstöðuna - páfi hafi verið kjörinn.

Söguleg tíðindi hafa átt sér stað. Páfi til tæplega þriggja áratuga er fallinn frá. Arfleifð hans og verk, forysta í trúarlegum málefnum og friðarbarátta hans verður lengi í minnum höfð. Einn merkasti maður 20. aldarinnar, leiðtogi eins stærsta trúarhóps mannkyns hefur kvatt þennan heim. Við minnumst nú þessa merka manns og lútum höfði og hugsum til persónulegs styrks, einbeitni hans og staðfestu í því verkefni seinustu árin að þjóna Guði og söfnuði sínum til hinstu stundar, þrátt fyrir hnignandi heilsu. Merkismaður er fallinn í valinn. Megi almáttugur Guð blessa þennan dygga þjón sinn. Minning hans mun lengi lifa, í huga okkar sem lifðum það að fylgjast með verkum hans og ekki síður fyrir komandi kynslóðir í sögubókum framtíðarinnar. Jóhannes Páll páfi II var eitt af stórmennum mannkynssögunnar.

Saga dagsins
1725 Eldgos hófst í nágrenni eldfjallsins Heklu í Haukadal og fylgdu því mjög snarpir jarðskjálftar
1928 Jóhanna Magnúsdóttir hlaut lyfsöluleyfi, fyrst íslenskra kvenna - starfrækti lyfjaverslun í 33 ár
1974 Leikarinn Jack Lemmon hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Harry Stoner í Save the Tiger - hann hlaut óskarinn áður fyrir túlkun sína á óbreyttum Pulver í Mister Roberts árið 1954. Lemmon var einn af bestu leikurunum í kvikmyndasögu 20. aldarinnar og varð rómaður fyrir að vera jafnvígur á bæði gamansamar og dramatískar túlkanir á svipmiklum karakterum. Hann lést úr krabbameini í júní 2001
1982 Argentína ræðst inn í Falklandseyjar, breskt yfirráðasvæði við S-Atlantshaf - leiddi þessi innrás Argentínumanna til hernaðar Breta gegn þeim. Lauk þeim átökum með fullnaðarsigri breska hersins
2005 Jóhannes Páll páfi II lést í Vatíkaninu í Róm, 84 ára að aldri, eftir mikil veikindi - Pólverjinn Karol Józef Wojtyla var fyrsti páfinn í 455 ár sem ekki var Ítali að uppruna. Hann fæddist 18. maí 1920 í smábænum Wadowice í Póllandi. Hann var kjörinn páfi í október 1978 og gegndi embætti, þrátt fyrir slæma heilsu, allt til dauðadags. Hann heimsótti um 130 lönd á 27 ára páfaferli og var víðförlasti páfi sögunnar og flutti fleiri ræður og predikanir en nokkur annar trúarleiðtogi í sögu kristinnar trúar

Snjallyrðið
When you wonder about the mystery of yourself, look to Christ, who gives you the meaning of life. When you wonder what it means to be a mature person, look to Christ, who is the fulfillness of humanity. And when you wonder about your role in the future of the world look to Christ.
Jóhannes Páll páfi II trúarleiðtogi kaþólskra (1920-2005)


Engin fyrirsögn

Mary Schindler og Terri SchiavoHeitast í umræðunni
Seinustu vikurnar höfum við öll fylgst með lagalegum deilum um örlög bandarísku konunnar Terri Schiavo, sem verið hefur heilasködduð eftir hjartastopp fyrir 15 árum og ekki getað tjáð sig eða gert sig skiljanlega. Hafa eiginmaður hennar, Michael, og foreldrar hennar, Mary og Bob Schindler, háð harða baráttu um það seinasta áratuginn hvort rétt sé að halda henni áfram á lífi eða láta hana deyja. Foreldrarnir hafa viljað að hún fengi að lifa allt til loka og njóta umönnunar en eiginmaðurinn vill að hún fái að deyja, enda segir hann að ekkert sé fyrir hana hægt að gera. Með dómsúrskurði þann 18. mars var slanga í maga hennar, sem tryggði henni næringu og vökva í æð, fjarlægð. Með því var hún sett á líknandi meðferð. Reyndu foreldrarnir í 13 daga að hnekkja þeirri ákvörðun, en án árangurs.

Í dag lést svo Terri eftir þrettán daga dauðastríð. Var ljóst að barátta foreldranna væri töpuð í gær er áfrýjunardómstóll og hæstiréttur höfnuðu í þriðja sinn að taka málið til endurskoðunar eða til efnismeðferðar. Með því var lagalega hliðin lokuð og ljóst að ekkert gæti bjargað Terri. Reyndar er ljóst skv. áliti lækna að ljóst hafi verið á sunnudag að ekkert gæti bjargað, enda þá verið það lengi án næringar að skaðinn var skeður. Hefur barátta foreldranna og eiginmannsins verið mjög harðskeytt og ótrúlega hvöss skot gengið þeirra á milli seinustu 8 árin, eða frá því að foreldrarnir reyndu að hnekkja því að Michael væri lagalegur umsjónarmaður Terri. Ekki hefur bætt úr skák að mati foreldranna að Michael er í sambúð með annarri konu og á með henni tvö börn.

Hafa þau haldið fram að hann hafi viljað hana feiga til að halda áfram að lifa öðru lífi, en ekki skeytt neinu um sig eða Terri sjálfa. Michael hefur aftur á móti sagst hafa gert þetta fyrir Terri. Hefur hann haldið fram að áður en hún féll í dá árið 1990 að hún vildi ekki að vélar héldu sér á lífi. Hefur hann sagt að hún hefði ekki viljað lifa með þessm hætti en foreldrarnir töldu að ekki væri fullreynt að hún gæti náð einhverjum bata. Baráttan fyrir dómstólunum var beisk og hörð og reyndu margir málsmetandi menn að hjálpa foreldrunum, t.d. George W. Bush forseti Bandaríkjanna, og Jeb Bush ríkisstjóri í Flórída. Fyrir nokkrum dögum sagði Bush að baráttunni væri lokið, ekkert væri hægt að gera og öll sund lokuð. Í dag dó svo Terri. Fannst mér óneitanlega harkalegt að foreldrunum og systkinum hennar var meinað af eiginmanninum að vera hjá henni þegar hún skildi við. Þetta er ótrúleg grimmd og lýsandi um persónu viðkomandi manns. En í grunninn tel ég líknardráp eiga rétt á sér ef ekkert er framundan nema dauðinn. En svo lengi sem lífsvon er tel ég það ekki réttlætanlegt. Þetta mál hefur verið mjög mikið í fréttum og sitt sýnist hverjum.

Tekist er á um grunn tilverunnar að margra mati. Lífið er annars aldrei einskis virði, en fyrst og fremst á að fara eftir vilja viðkomandi. Ef ekki liggur fyrir vilji þess sem um er að ræða verður auðvitað að fara eftir mati nánustu ættingja. Lagalega er réttur maka fremstur, og þess vegna auðvitað lauk þessu máli með þessum hætti. Maki er nánasti aðstandandi og hefur lagalega réttinn á að taka slíka ákvörðun. Best er ef foreldrar viðkomandi og nánustu ættingjar séu sammála í ákvarðanatöku í slíkri stöðu. Án þess er staðan erfið. Ég man ekki eftir slíkum átökum hér á landi, en eflaust er staða mála önnur hér og fólk hefur aðra hagsmuni. Það hefur ekki farið leynt að deilur um peninga leiddu í upphafi til deilanna milli foreldranna og Michaels, er kom að því að úthluta peningum til hans til að annast hana. Þau vildu hluta peninganna, með því jókst kergjan svo stig af stigi. Siðferðislega eru örlög fólks í dái átakamál. Í grunninn tel ég lífið svo mikils virði að berjast á fyrir því svo lengi sem lífsvon er. En án lífsvonar er lífið auðvitað farið í raun og rétt að viðkomandi einstaklingur kveðji með þeirri reisn sem viðkomandi á skilið, en veslist ekki upp í vélum endalaust. Það er mitt mat allavega.

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherraÍ gær ávarpaði Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, ársfund Seðlabankans. Þar fór yfir efnahagsmálin og tengd málefni, t.d. varðandi gjaldmiðilinn og kom með mörg merkileg ummæli en talaði ekki hreint út að fullu. Í upphafi ræðunnar kom fram það mat hans að aðstæður séu einstakar í efnahagslífinu nú meðan stóriðjuframkvæmdir standa yfir. Þær eigi sér ekki fordæmi og ekki séu til töfraformúlur til að leysa þau vandamál sem upp kunni að koma, hvort sem litið sé til almennrar hagstjórnar eða þrengri þátta eins og vinnumarkaðar. Um þetta geta flestir verið sammála og því ekki sá punktur sem mest var fjallað. Sérstaklega athyglisvert var þó að heyra ummæli hans um gjaldmiðilinn. Sagði hann að við værum að gjalda þess að fjármagnsmarkaðurinn væri lítill. Sagði hann að tiltölulega litlar fjármagnshreyfingar inn og út úr landinu gætu skapað sveiflur í gengi krónunnar. Sagði hann að þetta væri staða sem við yrðum að búa við á meðan við hefðum eigin gjaldmiðil.

Með þessu var Halldór auðvitað að opna mjög á umræðuna um Evruna og Evrópumálin ennfremur. Sagði hann þó að með þessu mati sínu væri hann ekki að segja að upptaka evru hérlendis myndi leysa öll vandamál. Sagði hann það þó eitt atriði sem kæmi vissulega til greina er sveiflur gengisins væru skoðaðar. Halldór segir eitt en botnar það ekki. Afhverju talar hann ekki hreint út? Þetta er óttalegt rósahjal sem ekkert skilur eftir sig nema spurningar og það sem meira er undrun. Undrun vegna þess að hér er um að ræða yfirmann Seðlabankans, forsætisráðherrann. Þessi maður getur því talað hreint út og sagt hug sinn. Það gerir hann ekki. Afhverju ætli svo sé? Er það ekki vegna þess að hann hefur ekki flokkinn að fullu á bakvið sig í málinu. Hann hefur ekki yfirgnæfandi stuðning innan eigin raða til Evróputalsins og hvað þá þess að boða Evruna sem gjaldmiðil. Þetta er umdeilt, og það mjög skiljanlega. Hinn brothætti Framsóknarflokkur á erfiða tíma framundan hvað varðar þessi mál. Átökin þar virðast rétt að hefjast. Fyrir liggur að átakalínurnar eru víða og flokkurinn horfir brothættur fram á veginn til þess uppgjörs sem verður fyrir lok kjörtímabilsins um stefnu og áherslur flokksins í Evrópumálunum.


Punktar dagsins
Harry prins, Karl Bretaprins og Vilhjálmur prins

Karl Bretaprins og synir hans hafa seinustu dagana verið í skíðafríi í Klosters í Sviss. Í dag stilltu þeir sér upp til myndatöku. Greinilegt var að þungt var í prinsinum og hann ekki í góðu skapi. Náðu fjölmiðlar með víðdrægum hljóðnemum orðaskiptum prinsins við syni sína fyrir myndatökuna og á meðan henni stóð. Er hann kom gangandi að fjölmiðlaskaranum heyrðist hann muldra: "Ég þoli ekki þetta, þetta er gjörsamlega óþolandi rugl" "Bölvaðir durgarnir". Ekki hefur farið leynt að prinsinum er mjög illa við aðgangshörku fjölmiðla í fríi þeirra og almennt verið lítt hrifinn af fjölmiðlum. Ekki bætti úr skák er fréttamaðurinn Nicholas Witchell spurði hann um væntanlegt brúðkaup hans og Camillu í næstu viku. Sagði hann með vandlætingarsvip: "Já, það er gott að þú hefur heyrt af því". Í kjölfarið heyrðist hann muldra lágt við syni sína: "Ég þoli alls ekki þennan mann. Hann er alveg hræðilega leiðinlegur". Fara Karl og synirnir árlega til Klosters og leyfa eina myndatöku, og fá annars að vera í friði. Að þessu sinni tókst ljósmyndurum að taka myndir af prinsunum án þess að þeir yrðu þess var. Sagt er svo að prinsinum hafi gramist um þá aðgangshörku sem ljósmyndarar hafa að undanförnu sýnt Vilhjálmi og unnustu hans, Kate Middleton. Ekki batnaði er prinsinn labbaði í burt að hann muldraði: "Þá er þessum fjára loksins lokið".

Ríkisútvarpið við Efstaleiti

Auðun Georg Ólafsson tekur formlega við starfi fréttastjóra Ríkisútvarpsins á morgun. Hefur ráðning hans verið umdeild og allt logað í illdeilum innan veggja Ríkisútvarpsins að Efstaleiti frá því tilkynnt var um ráðningu hans í starfið. Á fjölmennum starfsmannafundi starfsmanna Ríkisútvarpsins í dag var samþykkt vantraust á útvarpsstjóra vegna ráðningar Auðuns Georgs Ólafssonar í stöðu fréttastjóra Útvarpsins. 178 samþykktu tillöguna, 12 sögðu nei og einn skilaði auðu. Tillagan var því samþykkt með 93,2% atkvæða. Er þetta sögulegt, enda aldrei gerst fyrr að starfsmenn RÚV lýsi yfir vantrausti á útvarpsstjóra. Ljóst er því að allt logar stafna á milli hjá stofnuninni og mikill órói er þar vegna ráðningarferlisins og ákvörðunar útvarpsstjórans. Er vandséð hvernig muni geta gróið um heilt milli starfsmannanna og útvarpsstjóra að óbreyttu. Greinilegur trúnaðarbrestur hefur orðið milli starfsmanna og yfirstjórnar Ríkisútvarpsins. Verður fróðlegt að fylgjast með framhaldi málsins og hvernig samskipti starfsmanna og fréttastjórans nýja verði á næstunni.

Vilhelm Þorsteinsson EA-11

Tilkynnt var í gær að sjávarútvegsfyrirtækið Samherji myndi fara af markaði og form þess verði stokkað upp. Munu meirihlutaeigendur nú gera öðrum hluthöfum yfirtökutilboð sem miðast við 12,1 krónu á hlut. Að viðbættri 30% arðgreiðslu, sem stjórn hefur gert tillögu um og liggur fyrir aðalfundi, samsvarar tilboðið því um 12,4 krónum á hlut. Samhliða þessu seldi KEA formlega stóran hlut sinn í fyrirtækinu. Í kjölfar kaupa Fjárfestingafélagsins Fjarðar ehf. á 7,33% eignarhlut í Samherja hf. hafa helstu eigendur: þeir Kristján Vilhelmsson, Þorsteinn Már Baldvinsson, Fjárfestingarfélagið Fjörður ehf., Bliki ehf., Tryggingamiðstöðin hf., F-15 sf., Finnbogi A. Baldvinsson og fjárhagslega tengdir aðilar, sem samtals eiga 55,4% hlutafjár í félaginu, gert með sér samkomulag um stjórnun og rekstur fyrirtækisins í kjölfar þessa. Eru þetta mikil tíðindi skiljanlega og merkilegt að sjá hvernig fyrirtækið breytist við að fara af markaði. Samherji fór á markað árið 1996 og hefur verið mjög öflugt í þau 20 ár sem fyrirtækið hefur verið undir stjórn Akureyringa.

Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra

Í kvöld heldur fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis, Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra, fund á Fiðlaranum og fjallar þar um stóriðjumálin. Hefur mikil umræða verið um að næsta stóriðja eigi að rísa hér á Norðurlandi og oftast þá talað um svæði við Húsavík og Dysnes í Eyjafirði í þeim efnum. Enginn vafi leikur á því að gert hefur verið ráð fyrir því að næsta álver verði reist á Norðurlandi, enginn hefur reynt að bera á móti því að svo sé, gert er ráð fyrir slíku t.d. í byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar sem kynnt var fyrir nokkrum árum. Er gott að ráðherra haldi fund og fari yfir stöðu mála og fólk getur heyrt skoðanir hennar á málum og fengið meiri yfirsýn yfir stöðuna. Þessi fundur verður vonandi gagnlegur og góður.

Saga dagsins
1863 Vilhelmína Lever kaus í bæjarstjórnarkosningum á Akureyri og varð með því fyrsta konan sem kaus til sveitarstjórnar á Íslandi - konur hlutu almennan kjörrétt með formlegum hætti loks árið 1915
1909 Björn Jónsson tók við embætti ráðherra af Hannesi Hafstein - Björn sat á ráðherrastóli í tvö ár
1967 Snjódýpt á Raufarhöfn mældist um 205 sentimetrar, sem er með eindæmum í þéttbýli hérlendis
1979 Steingrímur Hermannsson kjörinn formaður Framsóknarflokksins á miðstjórnarfundi flokksins - hann tók við formennsku af Ólafi Jóhannessyni. Steingrímur var dómsmála- og landbúnaðarráðherra 1978-1979, sjávarútvegs- og samgönguráðherra 1980-1983, var forsætisráðherra 1983-1987 og svo aftur 1988-1991 og utanríkisráðherra 1987-1988. Steingrímur lét af formennsku flokksins árið 1994 og varð seðlabankastjóri og gegndi þeim störfum allt til 1998. Ævisaga hans kom út í þrem bindum 1998-2000
1981 Leikarinn Robert De Niro hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun á Jake La Motta í Raging Bull - De Niro hlaut óskarinn 6 árum áður fyrir glæsilega túlkun sína á Don Vito Corleone í The Godfather, Part II. De Niro er einn besti leikari sinnar kynslóðar og hefur hann átt mjög litríkan og glæsilegan feril og túlkað allmikinn fjölda svipmikilla karaktera af stakri snilld og hlotið hrós kvikmyndaunnenda

Snjallyrðið
I have no regrets. I wouldn't have lived my life the way I did if I was going to worry about what people were going to say.
Ingrid Bergman leikkona (1915-1982)


Engin fyrirsögn

Bobby Fischer í hamHeitast í umræðunni
Með ólíkindum hefur verið að horfa á framgöngu og talsmáta nýjasta Íslendingsins, skákmeistarans Bobby Fischer. Á föstudaginn langa hélt Fischer blaðamannafund á Hótel Sögu. Þar kjaftaði á honum hver tuska. Lét hann þar ýmis orð falla og dró ekkert undan. Sérstaka athygli vöktu öfgakennd og ógeðfelld ummæli hans um gyðinga. Er með ólíkindum að lesa fréttir erlendra fréttamiðla af orðalagi skákmeistarans. Öfgakenndar skoðanir Fischers eiga ekkert skylt við þreytu eða óróleika vegna stöðu hans eins og sumir hafa látið í veðri vaka. Þessi ummæli og tilburðir í þessa átt er ekkert nýtt. Þetta hefur sést margoft áður og komið vel fram. Þeir sem muna eftir viðtali Egils Helgasonar við Fischer á Skjá einum árið 2002 muna vel eftir því hvernig hatrið og öfgarnar vall upp úr honum, svo mikið að meira að segja Agli var nóg boðið. Okkur Íslendingum er að lærast það núna endanlega að koma Fischers verður okkur ekkert nema vesin og vandræði. Er enda svo að erlend og áhrifamikil dagblöð ausa yfir okkur neikvæðri umfjöllun fyrir það að hafa tekið Fischer upp á sína arma og gert hann að íslenskum ríkisborgara. Um helgina sáum við beitt skrif Washington Post og Guardian, þar sem ákvörðun okkar um að taka Fischer á okkar arma var gagnrýnd.

Sérstaklega var merkilegt að sjá skrif hins vinstrisinnaða demókrataskotna dagblaðs Washington Post. Í leiðaraskrifum þar segir að Fischer hafi fyrir margt löngu sagt skilið við háttprýði og heiðvirða framkomu. Hann sé heiftúðugur gyðingahatari sem hafi fagnað hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin ellefta september 2001. Blaðið segir það hafa verið sorgardag þegar íslenska þingið hafi samþykkt að veita Fischer ríkisborgararétt. Í greininni segir að Fischer sé hetja í augum Íslendinga sem sé skákelskandi þjóð. Sigur hans á Boris Spassky í Reykjavík 1972 hafi verið ein stórbrotnasta stund í skáksögunni ekki sé deilt um skáksigra Fischers. Íslendingar hafi kosið að muna Fischer eins og hann var á hátindi frægðar sinnar en þing lýðræðisríkis eigi ekki að horfa framhjá því hversu djúpt skákmeistarinn hafi sokkið síðan hann vann sína mestu sigra. Í einangrun sinni hafi Fischer orðið heiftúðugur gyðingahatari og árið 1992 hafi hann teflt í Júgóslavíu þvert á viðskiptabann og refsiaðgerðir á sama tíma og mannfall hafi verið mikið í Bosníu. Blaðið vitnar til ummæla hans á Filippseyjum árið 2001. Þar hafi hann sagt fréttir að árásunum yndislegar og látið í ljós þá von að herinn myndi taka völdin í Bandaríkjunum. Öllum samkunduhúsum gyðinga yrði þá lokað, allir gyðingar yrðu handteknir og mörg hundruð leiðtogar þeirra færðir í varðhald. Nú hefur Boston Globe t.d. bæst við. Ekki er hægt að kenna hér pólitík um eins og sumir hafa reynt við að verja Fischer. Vinstra- og hægrafólk í bandarískri pólitík er illa við Fischer og hefur fengið nóg af honum eins og þessi skrif kristalla vel. Er með ólíkindum að fylgjast með Fischer og talsmáta hans og ekki laust við að það staðfestist að það var kolröng ákvörðun að stuðla að því að hann kæmi hingað til lands.

Kofi AnnanSeinustu vikur og mánuðir hafa verið erfiðar fyrir Kofi Annan framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Hefur hann verið undir miklu ámæli vegna málefna sonar síns, Kojo Annan. Hefur verið deilt um það hvort Annan hafi haft vitneskju um það að svissneskt fyrirtæki sem sonur hans starfaði hjá, hafi gert samninga í tengslum við áætlun Sameinuðu þjóðanna um olíusölu frá Írak meðan á viðskiptabanninu við landið stóð. Í gær lauk formlegri rannsókn eða úttekt á málinu. Niðurstaða hennar er að ekki séu nægar vísbendingar fyrir hendi um að Annan hafi vitað um málið fyrirfram. Hinsvegar er Annan gagnrýndur harkalega í úttektinni um málið fyrir að ganga ekki úr skugga um hvernig sonur hans tengdist fyrirtækinu. Þau liggja engar beinar sannanir fyrir um það að Annan hafi beitt sér fyrir því að SÞ samdi við fyrirtækið. Hafði verið talið fyrirfram að úttektin myndi hreinsa Annan af öllum grun, og því enginn vafi á að þetta er áfall fyrir hann að hann er ekki alveg hreinsaður af málinu, enda m.a. sagt að hann hafi fyrirskipað eyðingu gagna eftir að rannsóknin hófst.

Enginn vafi leikur á að sonur Annans hefur leynt föður sinn þó því að hann væri að vinna hjá fyrirtækinu. Hafði hann sagt föður sínum áður að hann væri hættur þar störfum, meðan svo var ekki. Annan er ekki sakaður um spillingu í úttektinni. Engar beinar sannanir liggja fyrir um þátt Annan en tengslin eru honum til vansa og munu án vafa verða skuggi yfir hans störfum hjá Sameinuðu þjóðunum. Annan hefur verið umdeildur eins og fyrr segir seinustu ár. Hann hóf störf af krafti í ársbyrjun 1997 og ávann sér sterkan sess fyrstu árin. Hlaut hann friðarverðlaun Nóbels árið 2001. Sama ár var hann skipaður að nýju til fimm ára í embættið. Getur framkvæmdastjóri að hámarki setið í embættinu í 10 ár og því ljóst að hann mun láta af störfum í lok næsta árs. Hinsvegar hefur trúverðugleiki hans skaddast vegna þessara mála. Hafa íhaldsmenn í Bandaríkjunum, sem jafnan hafa haft horn í síðu hans, notað málið gegn honum og krafist afsagnar hans. Er ólíklegt að hann víki vegna málsins og klári því þann tíma sem hann á eftir í embættinu. Hinsvegar er ljóst að málið hefur allt skaðað hann og trúverðugleika hans. Það er vissulega leitt að jafnöflugur maður og Annan láti svona smávægilegt mál leika sig jafngrátt og hafi ekki komið fram af hreinskilni allt frá upphafi rannsóknarinnar og láti það eyðileggja annars ágæt störf hans.

Punktar dagsins
Jóhannes Páll páfi II

Eins og ég sagði frá í gær var mjög átakanlegt að fylgjast með Jóhannesi Páli páfa II á páskadag er hann kom fram opinberlega til að blessa mannfjöldann sem saman var kominn á Péturstorgið. Greinilegt var að hann var sárkvalinn og gat t.d. ekki tjáð sig eða flutt bæn vegna þess hversu óskýrmæltur hann var. Tal hans varð ein ósamfella sem var óskiljanlegt. Þetta er skelfilegt á að horfa og greinilegt að páfi er sárkvalinn. Í dag kom svo páfi fram aftur og gat hann ekki talað í dag heldur. Virkaði hann enn veiklulegri í dag og var tekinn í andliti. Hefur framkoma hans í þessi tvö skipti vakið mikla umræðu um heilsu hans og hver staða hans sé. Í dag var tilkynnt að páfi fengi nú næringu í gegnum slöngu sem þrædd er gegnum nef hans og niður í maga. Er þetta gert til að tryggja honum næga næringu. Með þessu er ljóst að hann heldur ekki mat niðri og getur ekki nærst með eðlilegum hætti. Er alveg ljóst núna að hverju stefnir. Er heilsa páfa orðin svo bágborin að hann getur varla nærst. Það blasir því við að hann eigi skammt ólifað nema heilsa hans batni fljótlega. Engum duldist á páskadag að páfi er bæði veikburða og þjáður. Lítill vafi leikur á, eins og staðan er, að brátt líður að þeim tímapunkti að löngum ferli páfa ljúki.

Listagilið

Ungir sjálfstæðismenn ætla að hittast á Café Karólínu á Akureyri á föstudaginn kl. 17. Á fundinum mun ég kynna starf Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna hér á Akureyri, og fara yfir hvað hefur verið gert og ennfremur minna á ályktanir okkar og vinnu í vetur. Að því loknu mun Jón Hákon Halldórsson framkvæmdastjóri SUS, kynna starf Sambands ungra sjálfstæðismanna. Rætt verður um undirbúning að 75 ára afmæli SUS, næsta landsfund Sjálfstæðisflokksins, sem verður væntanlega í október, og fleiri þætti sem lúta að starfi ungra sjálfstæðismanna. Allir sjálfstæðismenn eru velkomnir á fundinn. Þeir sem vilja taka þátt í starfinu hér eða koma á framfæri skoðunum á pólitíkinni, ungliðastarfinu hér á svæðinu og almennt eru hvattir til að mæta á staðinn, eiga gott spjall og fara yfir stöðuna. Hef ég alltaf minnt á mikilvægi þess að hafa kraftmikið pólitískt starf svo þeir sem áhuga hafi á pólitík geti valið skoðunum sínum og pólitískum hugsjónum farveg í pólitísku starfi. Allavega er öllum frjálst að mæta, ræða málin og fara yfir hvað er að gerast. Hvet alla sem áhuga hafa til að mæta og kynna sér stöðu mála hér og væntanleg verkefni.

Deiglan

Norræna ráðherranefndin og Norðurlandaráð, í samvinnu við Norrænu upplýsingaskrifstofuna á Akureyri, hafa boðað til opins fundar um þróun íslenska velferðarkerfisins á föstudaginn ennfremur, föstudaginn 1. apríl. Fundurinn verður í sama húsi og fundur okkar ungra sjálfstæðismanna, nema veggurinn er á milli, enda er fundurinn á Deiglunni og hefst kl. 18.00. Mun Rannveig Guðmundsdóttir alþingismaður og forseti Norðurlandaráðs, opna fundinn, en síðan munu Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og formaður menningarmálanefndar Akureyrarbæjar, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarfulltrúi og verðandi alþingismaður, fjalla um stöðu mála. Umræður verða svo í fundarlok. Margar áleitnar spurningar koma eflaust fram. Til dæmis: munu Íslendingar kjósa að halla sér í æ meira mæli að bandaríska velferðarmódelinu eða halda í það norræna? Hver er raunveruleg staða íslenska velferðarkerfisins? Af hverju eru fleiri konur en karlar undir fátækramörkum? Hvernig er hlúð að barnafjölskyldum? Einstæðum foreldrum? Börnum með sérþarfir? Áhugaverður fundur, hefði reynt að fara á hann hefði öðruvísi staðið á. Spennandi efni og verður þetta án vafa merkilegur fundur og vonandi verður hann vel sóttur.

Bob Woodward - Plan of Attack

Undanfarna daga hef ég verið að lesa athyglisverða bók, Plan of Attack eftir Bob Woodward. Bókin fjallar um aðdraganda innrásar Bandamanna í Írak og eftirmála falls stjórnar Saddams Husseins í apríl 2003. Bókin er virkilega vönduð og skemmtileg til lestrar og fræðandi. Fer Woodward yfir marga þætti tengda málinu og veltir upp atriðum og staðreyndum sem ekki lágu fyrir áður. Fjallar hann um málið frá hlið bæði þeirra sem voru hlynntir og andvígir innrásinni í Írak og kemur með athyglisverðan vinkil á málið. Woodward er einn þekktasti blaðamaður og fréttaskýrandi Bandaríkjanna. Woodward er kunnastur fyrir að hafa ásamt félaga sínum á The Washington Post, Carl Bernstein, náð að vekja athygli á þætti nánustu aðstoðarmanna Nixons Bandaríkjaforseta, í innbrotinu í Watergate-bygginguna í júní 1972, sem lauk með því að Richard Nixon sagði af sér embætti forseta Bandaríkjanna, fyrstur manna, í ágúst 1974. Sú saga var sögð í verðlaunamyndinni All the President´s Men, árið 1976. Ég hvet alla til að kynna sér feril Woodwards með því að horfa á myndina og ekki síður lesa bókina, sem er mögnuð heimild um eitt mesta hitamál seinustu ára á vettvangi alheimsstjórnmála.

Saga dagsins
1949 Aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu var samþykkt á Alþingi - mikil mótmæli urðu vegna þess við Alþingishúsið við Austurvöll og í fyrsta skipti í sögu landsins var táragasi beitt á mannfjölda
1955 Leikkonan Grace Kelly hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Georgie Elgin í The Country Girl - hún var ein frægasta leikkonan í Hollywood á sjötta áratug aldarinnar og lék í nokkrum heimsfrægum kvikmyndum. Hætti kvikmyndaleik og vék af braut lífsins í Hollywood, er hún kvæntist Rainier fursta af Mónakó, 1956. Eftirsjá þótti af henni af hvíta tjaldinu. Grace fórst í bílslysi árið 1982, 53 ára að aldri
1981 Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna, særist lífshættulega í skotárás fyrir utan Hilton hótelið í Washington. Geðbilaður maður, John Hinckley, skaut sex skotum að forsetanum og lífvörðum hans er forsetinn var að yfirgefa hótelið eftir að hafa flutt ræðu. Skaut hann blaðafulltrúa forsetans, James Brady, í höfuðið og slapp hann naumlega lifandi frá skotárásinni. Fyrst var talið að Reagan hefði sloppið ómeiddur úr skotárásinni en hann var fluttur á George Washington-spítala til öryggis. Kom í ljós við komuna á spítalann að ein byssukúla hafði lent nærri hjarta forsetans og þurfti hann að fara fljótt í aðgerð, til að bjarga mætti lífi hans. Meðan hann lá á skurðarborðinu í skurðaðgerð upp á líf og dauða, var landið í kreppu. Enginn sýnilegur leiðtogi var við stjórnvöl. Bush varaforseti, var staddur í Texas. Tók Alexander Haig utanríkisráðherra, sér umdeilt vald til forystu landsins þar til Bush kom til Washington. Tókst læknum að bjarga lífi Reagans - sat á forsetastóli til 1989 og lést 2004
1992 Leikararnir Sir Anthony Hopkins og Jodie Foster hlutu óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á mannætunni Hannibal Lecter og alríkislögreglukonunni Clarice Starling í myndinni The Silence of the Lambs. Hopkins er einn af bestu leikurum Breta og hefur átt stórleik í fjölda kvikmynda á löngum ferli og verið öflugur sviðsleikari ennfremur. Foster er ein af bestu leikkonum sinnar kynslóðar og átt margar glæsilegar leikframmistöður og hlaut óskarinn þrem árum áður fyrir leik sinn í The Accused
2002 Elísabet drottningarmóðir, ekkja George VI Englandskonungs og móðir Elísabetar drottningar, lést í Royal Lodge í Windsor, 101 árs að aldri. Eiginmaður hennar, George VI, var konungur Englands í 16 ár, frá 1936 til dauðadags 1952. Frá þeim tíma var drottningin titluð drottningamóðir af hálfu krúnunnar. Á þeim fimm áratugum sem hún lifði eiginmann sinn var Elísabet einn öflugasti fulltrúi krúnunnar og var vinsælust af meðlimum konungsfjölskyldunnar. Hún sinnti mörgum verkefnum þá rúmu átta áratugi sem hún var fulltrúi fjölskyldunnar og var alla tíð rómuð fyrir tignarlegan glæsileika

Snjallyrðið
More than any time in history mankind faces a crossroads. One path leads to despair and utter hopelessness, the other to total extinction. Let us pray that we have the wisdom to choose correctly.
Woody Allen leikari og leikstjóri (1935)


Engin fyrirsögn

Bobby FischerHeitast í umræðunni
Það hefur varla farið framhjá neinum að skákmeistarinn Bobby Fischer kom til landsins að kvöldi skírdags. Sjónvarpsáhorfendur Stöðvar 2 urðu þá vitni að einhverjum mesta fjölmiðlasirkus í sögu landsins. Í pistli mínum á föstudaginn langa fjallaði ég um komu Fischer til landsins og því þegar íslenskt fjölmiðlafyrirtæki allt að því tók Fischer á vald sitt því að hann hafði flogið til landsins frá Svíþjóð í einkaflugvél þeirra. Mikið hefur verið rætt og ritað um komu Fischers nú um helgidagana. Umfram allt stendur eftir sameiginlegt mat fólks að umfjöllun Stöðvar 2, frá því er skákmeistarinn kom til landsins, hafi verið eitt tilþrifamesta fíaskó íslenskrar fjölmiðlasögu, sannkallað skot í myrkrið hjá fréttastofu sem vill láta taka sig alvarlega í vinnubrögðum sínum. Sérstaklega var með hreinum ólíkindum að fréttastjóri Stöðvar 2 var þátttakandi í vinnubrögðunum og Stöð 2 fór með skákmeistarann eins og hann væri algjörlega á þeirra valdi. Sama hvernig Stöð 2 snýr málinu, eða reynir að gera það öllu heldur, stendur ennþá eftir sú staðreynd að fréttastofa Stöðvar 2 og Bylgjunnar skoraði eitt tilþrifamesta og mest áberandi sjálfsmark í sögu íslenskrar fjölmiðlunar með vinnubrögðum sínum þá. Um þetta er vart deilt.

Eini maðurinn sem stigið hefur fram til að reyna að verja aumingjaleg vinnubrögð fréttastofunnar er Páll Magnússon fréttastjóri Stöðvar 2 og Bylgjunnar, maðurinn sem settist í farþegasætið í Range Rover jeppanum margfræga. Óneitanlega var skrautlegt hvernig farið var með skákmeistarann undir yfirskini þess að hann væri "örþreyttur" og þyrfti að koma honum á burtu sem fyrst. Samt sem áður var hann ekki þreyttari en svo að komið var með hann eftir nokkra stund á sama stað, þegar aðrir fjölmiðlar voru annað hvort farnir eða búnir að taka niður búnað sinn. Hann varð eins og ódýrt sirkusdýr sem er til sýnis lokað í búri. Nema sá var munurinn að þessu sirkusdýri var keyrt um á rándýrum Range Rover að hálfu fjölmiðlafyrirtækis. Ekki var betur hægt að sjá en að lögreglan væri þátttakandi í vinnubrögðum Stöðvar 2 á staðnum. Fulltrúum annarra fjölmiðla og þeim sem börðust hvað mest fyrir komu skákmeistarans var einfaldlega bara stjakað frá af lögreglunni og til að kóróna allt gat fréttamaður Stöðvar 2 farið beint upp að Fischer er hann kom úr Baugsvélinni meðan öðrum var ekki hleypt nær. Það sést því vel hver stjórnaði för við komu Fischer. Á föstudaginn langa sendi fréttastjórinn út fréttatilkynningu og bar af sér þær sakir að hann hefði fjarstýrt komu Fischers og atburðarásinni. Sú skýring hljómar mjög hjáróma þegar horft er á þessa dæmalausu útsendingu. Það virðist vera sem að fréttastjórinn treysti á að fólk sé svo skyni skroppið að geta ekki reiknað saman tvo og tvo. Þeir sem horfa á útsendinguna sjá eitt fyrirtæki eigna sér stóran fjölmiðlaatburð og taka aðalpunkt atburðarins og gera hann að sinni eign. Það er grátlegt að fylgjast með aðförum hans og hann á að sjá sóma sinn í að víkja sem fréttastjórnandi.

Ásdís Halla BragadóttirÞað er mjög ánægjulegt að fylgjast með pólitískri forystu Ásdísar Höllu Bragadóttur í Garðabæ. Þau fimm ár sem hún hefur verið bæjarstjóri þar hefur Garðabær eflst og hefur náð mikilli forystu á mörgum sviðum varðandi málefni sveitarfélagi. Sérstaklega er gaman að kynna sér stefnu Garðabæjar í skóla- og menntamálum og þátt Ásdísar Höllu í þeirri stefnu sem þar hefur verið mörkuð með mjög farsælum hætti. Þriðja hvert barn á leikskólaaldri í Garðabæ er í einkareknum leikskóla og árið 2006 þegar nýr skóli opnar í Sjálandshverfi mun þetta hlutfall hækka í annað hvert barn. Með verkum sínum í Garðabænum hefur Ásdís Halla horft til framtíðar í þessum málaflokki og ennfremur farið nýjar og markvissar leiðir og starfað vel eftir skoðunum og áherslum okkar SUS-ara í menntamálum. Er það ánægjulegt að kynna sér stöðu mála í sveitarfélaginu og öflugt starf hennar og annarra forystumanna flokksins þar.

Ásdísi hefur tekist að umbylta skólakerfi bæjarins með glæsilegum hætti og stokka það upp og gera það að fyrirmyndarkerfi í íslenskum menntamálum: kerfi sem aðrir hafa hug á að taka upp og þróa í þá átt að fylgja frumkvæði sjálfstæðismanna þar. Athygli hefur alla tíð vakið hversu hljóðlega þessi mikla breyting, eða ætti maður ekki miklu frekar að segja bylting, í skólamálum hefur gengið yfir. Er það eflaust til marks um hversu vel hún hefur gengið. Á fleiri sviðum er Ásdís Halla að standa sig vel. Sérstaklega er gaman að kynna sér málefni nýs vefs bæjarins. Nýi vefurinn boðar alger tímamót í rafrænum samskiptum sveitarfélags við íbúa sína. Allir Garðbæingar geta fengið lykilorð að vefnum og gert eigin útgáfu af vefnum, tekið þátt í umræðum og ákvarðanatöku almennt. Meðal þess sem hægt er að skoða á vefnum er staða gjalda svo sem fasteigna- og leikskólagjalda. Hægt er að senda formleg bréf til bæjarstjórnar og senda inn athugasemdir við auglýst skipulag. Ánægjulegt hvernig unnið er í málum þarna. Hvet alla til að kynna sér vefinn. Vonandi er þetta það sem koma skal varðandi vefi sveitarfélaga. Ásdís stendur sig vel, gaman að fylgjast með verkum hennar.

Punktar dagsins
Jóhannes Páll páfi II

Átakanlegt var að fylgjast með Jóhannesi Páli páfa II á páskadag er hann kom fram opinberlega samkvæmt venju um trúarhátíðina. Í fyrsta sinn í páfatíð sinni flutti páfinn ekki páskamessu í Péturskirkjunni, vegna veikinda sinna, en hann hefur verið mjög veiklulegur að undanförnu í kjölfar barkaskurðar sem gerður var á honum í síðasta mánuði. Hinsvegar kom páfi út í glugga íbúðar sinnar í Vatíkaninu og blessaði tugþúsundir pílagríma sem safnast höfðu saman á Péturstorginu. Ávarpaði hann ekki mannfjöldann, þó að aðstoðarmenn hans hafi verið tilbúnir með hljóðnema fyrir hann. Virtist sem páfi væri að reyna að segja nokkur orð, en svo fór að hann gerði krossmark og hljóðneminn var svo fjarlægður. Var óneitanlega nokkur kaldhæðni í því að á sama tíma og kristnir menn minntust pínu frelsarans horfðu kaþólskir upp á trúarleiðtoga sinn fársjúkan og augljósa pínu hans við að reyna að sinna verkum sínum. Gat hann ekki tjáð sig og reyndi augljóslega af veikum mætti að sinna sínu. Þetta er átakanlegt á að horfa og vekur spurningar um hversu fáránlegt það er að maðurinn sinni áfram þessum starfa þegar hann augljóslega getur það ekki.

Skattframtöl

Lagt hefur verið fram á þingi, frumvarp til laga um breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt. Í frumvarpinu felst einkum að opinber birting og framlagning álagningar- og skattskráa landsmanna verði með öllu lögð af. Á föstudaginn langa fór ég yfir málið í ítarlegum pistli á ihald.is og talaði um þingumræðu þar sem vinstrimenn töluðu margir hverjir gegn þeim breytingum sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Þar segir svo um málið: "Þetta er grunnpunktur vinstrimanna virðist vera að það sé málefni almennings hvað næsti maður hafi í laun eða vilji svala forvitni sinni með því að vita allt um hagi viðkomandi að þessu leyti. Ég og við sjálfstæðismenn almennt segjum að þetta gangi ekki upp. Þetta frumvarp er sett fram umfram allt til að fá umræðu um málið og vonandi leiða til þess að tekin verði upp önnur vinnubrögð og annað fyrirkomulag taki við. Þetta frumvarp er mikilvægt og sett fram sem grunnpunkt í mikilvægt prinsippmál: það að almenningur hafi sín lykilmál, tekjugrunn sinn sem sitt einkamál. Eða það er mitt mat og okkar sjálfstæðismanna. Það er reyndar hlægilegt að til sé fólk sem tali gegn þessu og afhjúpi með því gamaldags vinstrikreddupólitík."

James Callaghan (1912-2005)

James Callaghan fyrrum forsætisráðherra Bretlands, lést á laugardag. Honum vantaði þá aðeins sólarhring upp á að verða 93 ára gamall. Callaghan var til fjölda ára einn af mest áberandi stjórnmálamönnum Bretlands og var í fremstu víglínu Verkamannaflokksins í fjóra áratugi. Hann er eini maðurinn í sögu landsins sem hefur náð að gegna öllum fjórum valdamestu ráðherraembættum landsins: forsætisráðherra, fjármálaráðherra, utanríkisráðherra og innanríkisráðherra. Callaghan var kjörinn á breska þingið árið 1945 og átti þar sæti allt til ársins 1987 fyrir Cardiff í Wales. Hann var samgönguráðherra 1947-1951. Hann varð lykiltalsmaður flokksins í stjórnarandstöðu 1951-1964. Loks þegar langri valdatíð íhaldsmanna lauk 1964 varð hann fjármálaráðherra. Hann var innanríkisráðherra 1967-1970 en vinstrimenn misstu þá völdin. Er flokkurinn komst aftur til valda 1974 varð hann utanríkisráðherra. Er Harold Wilson hætti snögglega í pólitík 1976 var tími Callaghans loks kominn og hann varð eftirmaður hans sem forsætisráðherra og leiðtogi Verkamannaflokksins. Hann sat í embætti allt til maímánaðar 1979 er flokkurinn missti völdin til íhaldsmanna. Hann lét af leiðtogastöðunni árið eftir. Nýlega varð Callaghan elstur allra þeirra sem setið hafa á forsætisráðherrastóli. Lést hann snögglega á laugardag, aðeins 11 dögum eftir andlát eiginkonu sinnar, Audrey. Með láti Callaghans er einn af helstu forystumönnum Verkamannaflokksins á 20. öld fallinn í valinn.

Margaret Thatcher og John Major

Meira um breska pólitík. Um páskana las ég pólitíska ævisögu breska stjórnmálamannsins John Major fyrrum forsætisráðherra Bretlands. Lengi hef ég haft mikinn áhuga á breskri pólitík og haft gaman af að lesa pólitískar ævisögur lykilleiðtoga sögu Bretlands og fara yfir feril þeirra og pólitískan feril í fremstu víglínu. Major er langt í frá uppáhaldsstjórnmálamaður. Hef ég mun meiri álit á risum breskra stjórnmála á öldinni, t.d. Margaret Thatcher, Harold Macmillan, Harold Wilson og Sir Winston Churchill. En þáttur Major í stjórnmálasögu Bretlands er nokkur og má ekki vanmeta hann þó hann hafi ekki verið jafnáhrifamikill og þau sem fyrr eru nefnd. Kosningasigur hans í bresku þingkosningunum í apríl 1992, þvert á allar skoðanakannanir, er stórmerkilegur og telst eitt af helstu mótsögnum kannana í stjórnmálasögu 20. aldarinnar. Bókin er áhugaverð, mjög svo. Í henni fer Major yfir stjórnmálaferil sinn. Major var fyrst kjörinn á breska þingið fyrir Huntingdon hérað í maímánuði 1979. Í þeim kosningum vann flokkurinn sögulegan kosningasigur undir forystu Margaret Thatcher, og komst til valda eftir fimm ár í stjórnarandstöðu.

Eftir þingkosningarnar 1983 varð hann aðstoðarráðherra í stjórnum frú Thatchers og forystumaður í þingflokknum. Í kjölfar kosninganna 1987 varð Major viðskiptaráðherra Bretlands. Árið 1989 varð Major utanríkisráðherra og tók skömmu fyrir lok þess árs við embætti fjármálaráðherra, og var þarmeð orðinn einn valdamesti ráðherra flokksins. Frú Thatcher neyddist til að víkja af valdastóli í nóvember 1990 eftir innbyrðis valdaerjur og gaf Major kost á sér í leiðtogaslag flokksins. Hann var kjörinn eftirmaður hennar í leiðtogakjöri þann 27. nóvember 1990. Hann tók við embætti sem forsætisráðherra Bretlands sólarhring síðar. Hann vann sigur í þingkosningunum 1992, þvert á allar spár. Árið 1995 réðst hann að andstæðingum sínum innan flokksins og efndi til leiðtogakjörs sem hann vann. Hann beið ósigur í þingkosningunum 1997 fyrir Verkamannaflokknum og vék þá jafnframt af leiðtogastóli flokksins, hafði þá setið á valdastóli tæp 7 ár. Hann lét af þingmennsku í kosningunum 2001. Hvet alla til að lesa þessa góðu bók. Annars var páskahelgin róleg og góð, fín afslöppun og mikil notalegheit, eins og vera ber á langri og góðri helgi.

Saga dagsins
1947 Heklugos hófst - þá voru 102 ár liðin frá því að gosið hafði í Heklu. Gosið var mjög kraftmikið og náði gosmökkurinn upp í 30 þúsund metra hæð og aska barst allt til Bretlands. Gosið stóð í ár
1961 Lög um launajöfnuð kvenna og karla samþykkt á þingi - markaði tímamót í jafnréttisbaráttu
1982 Leikararnir Henry Fonda og Katharine Hepburn hlutu óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á hjónunum Norman og Ethel Thayer í myndinni On Golden Pond. Þetta var síðasta hlutverk Fonda í kvikmynd á löngum og glæsilegum leikferli og hans einu óskarsverðlaun. Hann lést í ágúst 1982. Hepburn var svipmesta og glæsilegasta kvikmyndaleikkona 20. aldarinnar og lék í miklum fjölda úrvalsmynda á ferli sem spannaði sex áratugi. Hún hlaut fjórum sinnum óskarsverðlaun, oftar en nokkur annar til þessa og var tilnefnd alls 12 sinnum til verðlaunanna. Hepburn vann áður óskarinn 1933 fyrir Morning Glory, 1967 fyrir Guess Who's Coming to Dinner og 1968 fyrir The Lion in Winter. Hún hlaut heiðursóskar fyrir æviframlag sitt til kvikmynda árið 1987. Kate Hepburn lést í júní 2003
1988 Leikarinn Dustin Hoffman hlaut óskarinn fyrir stórfenglega túlkun sína á Raymond Babbitt, einhverfum manni, í kvikmyndinni Rain Man - Hoffman hlaut óskarinn níu árum áður fyrir leik sinn í Kramer vs. Kramer. Hoffman er einn besti leikari sinnar kynslóðar og hefur hann átt mjög litríkan og glæsilegan feril og túlkað fjölda svipmikilla karaktera af stakri snilld og hlotið lof kvikmyndaunnenda
1993 Heimir Steinsson útvarpsstjóri, segir Hrafni Gunnlaugssyni dagskrárstjóra innlends efnis hjá Ríkissjónvarpinu upp störfum - nokkrum dögum síðar var Hrafn ráðinn framkvæmdastjóri Sjónvarps af Ólafi G. Einarssyni menntamálaráðherra. Leiddi til átaka innan Ríkisútvarpsins í garð stjórnvalda. Hrafn leysti af Pétur Guðfinnsson framkvæmdastjóra, í ársleyfi hans og lét svo af störfum hjá RÚV

Snjallyrðið
I don't want to achieve immortality through my work. I want to work, and work hard while I am living. Those who appreciate will appreciate, others don´t. That´s fine by me. I am not working for others, this is my work and my choice of living.
Richard Nixon forseti Bandaríkjanna (1913-1994)


Engin fyrirsögn

Davíð Stefánsson skáld frá FagraskógiDavíð Stefánsson frá Fagraskógi (1895-1964)
Í janúar voru liðin 110 ár frá fæðingu Davíðs Stefánssonar, skálds frá Fagraskógi í Eyjafirði. Davíð var eitt helsta skáld landsins. Fáum íslenskum skáldum tókst betur að tjá sig frá hjartanu, er þá sama hvort átt er við t.d. gleði, sorg, ástina eða lífskraftinn. Davíð tjáði af stakri snilld sannar tilfinningar og varð eitt ástsælasta skáld okkar á 20. öld. Hann er að mínu mati besta ljóðskáld landsins á 20. öld, meistari fallegs íslensks máls. Er rétt að fara örlítið yfir ævi hans og skáldferil í tilefni afmælis hans.

Davíð fæddist að Fagraskógi, 21. janúar 1895. Kenndi hann sig ávallt við æskuheimili sitt og varð það alla tíð fastur hluti af skáldnafni hans. Foreldrar hans voru Stefán Stefánsson bóndi og alþingismaður, og eiginkona hans, Ragnheiður Davíðsdóttir. Davíð var fjórði í röð sjö systkina. Fagriskógur var þá og er enn í dag eitt af helstu býlunum í Arnarneshreppi og mikið fremdarheimili. Ungur fór Davíð til náms í Gagnfræðaskólanum á Akureyri, lauk hann gagnfræðaprófi 16 ára gamall, 1911. Davíð dvaldist í Kaupmannahöfn 1915-1916 og komst á skrið sem skáld. Fyrstu ljóð Davíðs birtust í tímaritum á þessu tímabili.

Fór hann í lærdómsdeild Menntaskólans í Reykjavík og lauk þaðan stúdentsprófi vorið 1919. Sama ár kom fyrsta ljóðabók hans, Svartar fjaðrir út. Með útkomu hennar var braut skáldsins mörkuð. Bókinni var tekið mjög vel og varð ein af helstu ljóðabókum aldarinnar. Haustið 1920 hélt Davíð til útlanda og dvaldi víðsvegar um Evrópu, t.d. á Ítalíu. Samdi hann þar fjölda fallegra ljóða og setti Evrópuferðin mikinn svip á aðra ljóðabók hans, Kvæði, sem kom út árið 1922. Davíð kenndi sögu við Gagnfræðaskólann á Akureyri 1922-1924 en hélt þá til Noregs og var þar í nokkra mánuði. Hann kom heim síðar sama ár og þá kom út þriðja ljóðabókin, Kveðjur. Með henni festi Davíð sig endanlega í sessi sem eitt vinsælasta ljóðskáld landsins.

Árið 1925 fluttist Davíð til Akureyrar þar sem hann bjó allt til æviloka. Hann varð bókavörður við Amtsbókasafnið á Akureyri sama ár. Ennfremur reyndi hann þá fyrir sér við leikritagerð og hið fyrsta kom til sögunnar ári síðar, Munkarnir á Möðruvöllum. Næsta ljóðabók Davíðs kom út árið 1929 og bar heitið Ný kvæði. Árið 1930 vann Davíð til verðlauna í samkeppni um Alþingishátíðarkvæði. Sá hluti kvæðisins sem helsta frægð hlaut var Sjá dagar koma, sem hefur löngum verið mikið hátíðarkvæði. Næsta ljóðabók Davíðs kom út árið 1933 og bar heitið, Í byggðum. Þóttu ljóðin í henni bera annan keim en þau sem áður höfðu komið út og vera nokkuð meiri félagsleg ádeila og horfa í aðra átt og sýna Davíð í öðru ljósi sem ljóðskáld. Ein þekktasta ljóðabók Davíðs, Að norðan, kom út árið 1936 og telst enn í dag marka mikil þáttaskil á ferli hans.

Á þessum árum hóf hann að safna bókum af miklum áhuga og átti við ævilok sín á sjöunda áratugnum mikið safn bóka sem ættingjar hans ánöfnuðu Amtsbókasafninu. Að norðan markaðist vissulega af því að Davíð fór eigin leiðir í yrkisefnum og leitaði sífellt meir til fortíðar í yrkisefnum og hugsunum í ljóðlist. Vinsældir hans voru mestar á þessu tímabili og má fullyrða að bókin Að norðan hafi átt stóran þátt í hversu vel hann festist í sessi sem eitt helsta ljóðskáld aldarinnar. Í kjölfarið fór Davíð í auknum mæli að leggja rækt við leikritagerð og skáldsagnaritun og sinnti því fleiru en ljóðunum. Árið 1940 kom út skáldsaga Davíðs í tveim bindum og bar heitið Sólon Íslandus. Fjallar hún um einn þekktasta flæking Íslandssögunnar, Sölva Helgason.

Ári síðar gaf Davíð út leikritið Gullna hliðið, byggt á hinni þjóðkunnu sögu, Sálin hans Jóns míns, sem hann hafði áður ort um þekkt kvæði. Leikritið varð strax mjög vinsælt og urðu söngljóðin í leikritinu landsfræg í þekktum búningi Páls Ísólfssonar sem gerði við þau þekkt lög. Davíð hóf aftur að yrkja um miðjan fimmta áratuginn. Árið 1947 kom út ljóðabókin Nýja kvæðabókin. Skömmu síðar veiktist hann alvarlega og varð óvinnufær næstu árin. Í upphafi sjötta áratugarins samdi hann leikritið Landið gleymda. Tæpum 10 ár liðu á milli þess að Davíð gæfi út ljóðabók, árið 1956 kom út ljóðabókin Ljóð frá liðnu sumri. Það síðasta sem birtist eftir Davíð meðan hann lifði voru Háskólaljóð árið 1961. Síðasta ljóðabók Davíðs Stefánssonar kom út árið 1966, að honum látnum. Bókin bar hið einfalda nafn Síðustu ljóð. Í þeirri ljóðabók birtist það síðasta sem skáldið orti fyrir andlát sitt.

Davíð Stefánsson fluttist árið 1944 í hús sem hann reisti sér að Bjarkarstíg 6 á Akureyri. Þar bjó hann allt til æviloka. Eftir daga hans var húsið ánafnað Akureyrarbæ og þar er safn til minningar um hann. Húsið er varðveitt eins og það var er hann yfirgaf það síðasta sinni og er engu líkara en þegar gesturinn sem kemur til að líta þar inn og skoða heimili skáldsins en að viðkomandi sé gestur Davíðs en hann hafi í raun brugðið sér frá örskotsstund. Andi skáldsins er ljóslifandi í húsinu þó fjórir áratugir séu liðnir síðan hann yfirgaf það hinsta sinni. Þeir sem eiga leið um Akureyri eru eindregið hvattir til að líta í Bjarkarstíg 6 og kynna sér þetta merka hús, heimili sannkallaðs heimsmanns sem þrátt fyrir að vera sveitastrákur að uppruna varð sannkallaður veraldarmaður að lokum. Bý ég skammt frá Bjarkarstíg og fer ég oft á sumrin í safnið og á veturna er einnig oft gengið þar framhjá. Húsið er lítið en fullt af merkilegum sjarma. Sjón er svo sannarlega sögu ríkari.

Á sextugsafmæli Davíðs, 21. janúar 1955 var Davíð sýndur sá heiður að hann var gerður að heiðursborgara Akureyrarbæjar. Er líða tók að ævilokum skáldsins varð hann sífellt minna áberandi. Hann sat oft heima við bókalestur og varð æ minna sýnilegur í skemmtanalífinu, en hann var rómaður gleðimaður og var þekktur fyrir að skemmta sér með veraldarbrag, eða ferðaðist sífellt minna um heiminn. Seinustu árin áttu Eyjafjörður og Akureyri hug hans allan, eins og sést af seinustu kvæðum hans og skrifum. Hugurinn leitaði heim að lokum. Fjörðurinn og það sem hann stóð fyrir að mati skáldsins var honum alla tíð mjög kær og jókst það sífellt eftir því sem leið að ævikvöldi hans.

Davíð Stefánsson frá Fagraskógi, lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, þann 1. mars 1964, 69 ára að aldri. Seinustu árin hafði Davíð átt við veikindi að stríða og hafði kennt sér hjartameins sem að lokum leiddi hann til dauða. Akureyrarbær lét gera útför hans eins virðulega og mögulegt var og fór hún fram frá Akureyrarkirkju, þann 9. mars 1964. Mikið fjölmenni fylgdi Davíð seinasta spölinn. Hann var jarðsettur í kirkjugarðinum í sveitinni heima, að Möðruvöllum í Hörgárdal. Eins og sagði í upphafi var Davíð skáld tilfinninga, hann orti frá hjartanu og talaði beint til hjarta þess sem las. Þess vegna mun minning hans verða okkur kær og kveðskapur hans festast í sessi um ókomin ár. Hann var sannur í yrkisefnum og sannur í tjáningu um sannar tilfinningar.

Eitt fallegasta ljóð Davíðs er Vetrareldur, ljóð sem ég met mjög mikils.

Þú varst minn vetrareldur.
Þú varst mín hvíta lilja,
bæn af mínum bænum
og brot af mínum vilja.
Við elskuðum hvort annað,
en urðum þó að skilja.

Ég geymi gjafir þínar
sem gamla helgidóma.
Af orðum þínum öllum
var ilmur víns og blóma.
Af öllum fundum okkar
slær ævintýraljóma.

Og þó mér auðnist aldrei
neinn óskastein að finna,
þá verða ástir okkar
og eldur brjósta þinna
ljós á vegum mínum
og lampi fóta minna.


Saga dagsins
1875 Öskjugos hófst - þetta er talið eitt mesta öskugos sem orðið hefur á Íslandi síðan að sögur hófust - aska náði allt til Svíþjóðar og áttu afleiðingar öskufallsins mikinn þátt í Ameríkuferðunum
1909 Safnahúsið við Hverfisgötu formlega vígt - það var þá og er enn eitt glæsilegasta hús landsins
1977 Leikarinn Sir Peter Finch hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á Howard Beale í Network. Það var sögulegt við að Finch hlaut óskarinn að hann lést snögglega nokkrum vikum áður, í janúar 1977. Það kom því í hlut ekkju hans, Elethu, að taka við verðlaununum. Sir Peter er eini leikarinn í sögu bandarísku kvikmyndaakademíunnar sem hefur hlotið óskarinn eftir andlát sitt. Finch var einn af svipmestu leikurum Breta og átti stjörnuleik í fjölda mynda og túlkaði marga glæsilega karaktera
1997 Leikkonan Frances McDormand hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á hinni kasóléttu og úrræðagóðu lögreglukonu Marge Gunderson í hinni stórfenglegu úrvalskvikmynd Coen-bræðra Fargo
2004 Leikarinn Sir Peter Ustinov lést í Sviss, 82 ára að aldri - Ustinov kom fyrst fram á leiksviði 19 ára að aldri og lék eftir það í fjölda kvikmynda og leikrita. Hann sendi einnig frá sér skáldsögur og leikrit. Ustinov er ógleymanlegur kvikmyndaáhugafólki fyrir túlkun sína á spæjaranum Hercule Poirot í fimm kvikmyndum á áttunda og níunda áratug 20. aldarinnar. Hann hlaut óskarsverðlaun tvívegis á sjöunda áratugnum fyrir leik sinn í myndunum Spartacus og Topkaki. Seinustu árin vann Ustinov ötullega að mannúðarmálum og var til fjölda ára velviljasendiherra UNICEF, barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna

Snjallyrðið
Friendship... is not something you learn in school. But if you haven't learned the meaning of friendship, you really haven't learned anything.
Muhammad Ali hnefaleikameistari (1942)


Engin fyrirsögn

Gleðilega páska
Gleðilega páska!



Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli á páskum fjalla ég um mál sem eru efst á baugi:

- í fyrsta lagi fjalla ég um komu skákmeistarans Bobby Fischer á skírdag. Sjónvarpsáhorfendur Stöðvar 2 urðu þá vitni að einhverjum mesta fjölmiðlasirkus í sögu landsins. Í pistli mínum á föstudaginn langa fjallaði ég um komu Fischer til landsins og því þegar íslenskt fjölmiðlafyrirtæki allt að því tók Fischer á vald sitt því að hann hafði flogið til landsins frá Svíþjóð í einkaflugvél þeirra. Virðist vera sameiginlegt mat fólks að umfjöllun Stöðvar 2, frá því er skákmeistarinn kom til landsins, hafi verið eitt tilþrifamesta fíaskó íslenskrar fjölmiðlasögu, sannkallað skot í myrkrið hjá fréttastofu sem vill láta taka sig alvarlega í vinnubrögðum sínum. Sérstaklega var með hreinum ólíkindum að fréttastjóri Stöðvar 2 var þátttakandi í vinnubrögðunum og Stöð 2 fór með skákmeistarann eins og hann væri algjörlega á þeirra valdi. Fer ég yfir tjáningu blaðamanna og starfsmanna innan fjölmiðlafyrirtækja Baugs um atvikið og fjalla um stöðu Páls Magnússonar sem bæði er fréttastjórnandi og yfirmaður sinn á stöðinni eins furðulegt og það hljómar.

- í öðru lagi fjalla ég um innihaldslaus loforð R-listans og kostulega breytingu á borgarsjóði á skömmum tíma. Þrem mánuðum eftir að borgarstjóri hækkaði álögur á Reykvíkinga er lofað gjaldfrjálsum leikskóla. Í Reykjavík er óráðsían grasserandi. Enda hljómaði fagurgali borgarstjóra frekar falskur. Um er að ræða innistæðulausan tékka sem veifað er framan í borgarbúa. Að mestu er talað um loforð á næsta kjörtímabili varðandi leikskólann og spilað á stór slagorð eins og gjaldfrjáls leikskóli og ókeypis vist á leikskóla. Það er ekkert til sem heitir ókeypis leikskóli. Það er ekkert ókeypis í þessum heimi. Um er að ræða tilfærslu á peningum og streymi til að borga fyrir þjónustuna. Auðvitað þarf fólk áfram að borga fyrir leikskóla. Það færist þá bara yfir alla þá sem borga útsvarið og kemur öðruvísi út. Makalaust er að fylgjast með borgarstjóranum reyna að slá ryki í augu fólks.

- í þriðja lagi rita ég nokkrar hugleiðingar í tilefni páskanna á páskadegi, einum helgasta degi kristinna manna. Páskadagur er í mínum huga heilagur dagur og tími íhugunar um ýmis málefni. Páskahelgin og hátíðin sem henni fylgir er sá tími ársins sem er hvað bestur til að slappa af og íhuga málin og hafa það gott og sinna sínum innri manni. Samkvæmt venju fór ég í messu í Akureyrarkirkju í morgun og minni ég á mikilvægi kristinnar trúar í samfélaginu.

Saga dagsins
1957 Leikkonan Ingrid Bergman hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun á hinni dularfullu en heillandi Anastasiu - hún hlaut óskarinn alls þrisvar á löngum leikferli sínum: 1944 fyrir leik sinn í Gaslight og 1974 fyrir Murder on the Orient Express - Bergman var ein af svipmestu kvikmyndaleikkonunum í kvikmyndasögunni og varð vinsæl fyrir túlkun á sterkum persónum. Hún lést úr krabbameini 1982
1963 Skagafjarðaskjálftinn - mikill skjálfti, sem var um 7 stig á Richtersskala, fannst víða um land. Upptökin voru norður af Skagafirði. Hús léku á reiðiskjálfi um allt Norðurland og olli mikilli skelfingu
1973 Leikarinn Marlon Brando hlaut óskarinn fyrir stórfenglega túlkun sína á Don Vito Corleone í The Godfather. Brando hafði áður hlotið verðlaunin árið 1954 fyrir leik sinn í On the Waterfront. Brando varð einn af svipmestu leikurunum í gullaldarsögu Hollywood og þekktur fyrir glæsilega túlkun sína á svipmiklum karakterum. Marlon Brando lést í júlí 2004. Hann átti þá að baki einn litríkasta leikferil kvikmyndasögunnar og var ímynd töffarans í kvikmyndum um miðja 20. öldina, goðsögn í lifanda lífi
1979 Menachem Begin forsætisráðherra Ísraels, og Anwar Sadat forseti Egyptalands, semja um frið og undirrita friðarsamkomulag um að Ísrael og Egyptaland bindi enda á þriggja áratuga stríð á milli landanna. Samkomulagið var kennt við Camp David, sumardvalarstað Bandaríkjaforseta í Maryland, en viðræður leiðtoganna fóru fram þar undir forystu Jimmy Carter forseta Bandaríkjanna. Begin og Sadat hlutu friðarverðlaun Nóbels árið 1979 fyrir framlag sitt til friðar. Samkomulagið kostaði Sadat lífið, en öfgamenn réðu hann af dögum í nóvember 1981, en þeir töldu hann svíkja málstað þeirra
1995 Leikarinn Tom Hanks hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á Forrest Gump - Hanks, sem er einn af svipmestu leikurum nútímans, hlaut áður verðlaunin árið áður fyrir magnaða túlkun sína á lögfræðingnum alnæmissmitaða Andrew Beckett og mannlegri baráttu hans í myndinni Philadelphia

Snjallyrðið
In this life we cannot do great things. We can only do small things with great love.
Móðir Teresa (1910-1997)


Engin fyrirsögn

Bobby FischerLaugardagspælingin
Skákmeistarinn Bobby Fischer kom til Íslands að kvöldi skírdags eftir tæplega sólarhringslangt ferðalag frá Japan. Var hann látinn laus úr útlendingabúðunum í Japan um klukkan eitt að nóttu að íslenskum tíma aðfararnótt 24. mars, eftir að pappírar hans höfðu verið staðfestir og dómari samþykkt lausn hans. Fór hann að því búnu út á flugvöll þar sem hann hélt með flugvél til Kaupmannahafnar. Kjaftaði á honum hver tuska á flugvellinum. Sagði hann þar að honum hefði verið rænt af japönskum stjórnvöldum. George W. Bush forseti Bandaríkjanna, og Junichiro Koizumi forsætisráðherra Japans, hefðu bruggað sér launráð og skipulagt það að loka hann inni. Sagði hann að réttast væri að hengja þá báða. Sagði hann að Japan væri gott land en þar væru glæpamenn við völd. Þessi ummæli Fischers voru send út til fjölmiðla um allan heim og voru fyrstu skilaboð hans eftir að losna úr prísundinni. Talsmátinn og orðaforðinn segir meira en mörg orð um geðheilsu skákmeistarans.

Greinilegt var að menn höfðu lært lexíuna varðandi skákmeistarann er til Kaupmannahafnar kom og einhverjir höfðu togað í spotta til að þagga mætti niður í helstu öfgaskoðunum hans. Var honum fylgt í lögreglufylgd úr flugvélinni og fjölmiðlar fengu ekki að ræða við hann. Þá hitti hann Sæmund Pálsson, en þeir hittust fyrr í mánuðinum í fyrsta skipti í 33 ár. Aðeins íslenskum fjölmiðlum var gefið tækifæri til að ræða við hann stuttlega í bíl við flugstöðina. Vegna þoku kom í ljós að ekki var ekki hægt að fljúga þaðan til Íslands, seinasta spölinn. Varð því úr að farið var með hann til Svíþjóðar þaðan sem fljúga ætti honum með einkaflugvél til landsins. Er líða tók á fimmtudaginn kom í ljós að einkaþotan sem fljúga skyldi Fischer seinasta spölinn til Íslands var borguð af Stöð 2, sem er í eigu 365-ljósvakamiðla, fjölmiðlafyrirtækis Baugs. Með Fischer í för voru m.a. Páll Magnússon sjónvarps- og fréttastjóri Stöðvar 2 og myndatökumenn sem höfðu fylgst með máli Fischers og t.d. fylgt Sæmundi Pálssyni til Japans fyrir nokkrum vikum.

Er leið á fimmtudagskvöldið hófst einhver athyglisverðasti fjölmiðlasirkus í sögu landsins og eru þá margir ógleymanlegir fjölmiðladekurtaktarnir teknir inn í, t.d. heimkoma forseta Íslands frá Mexíkó í maí 2004 eftir 14 tíma flug frá Mexíkó. Stöð 2 og Ríkissjónvarpið sýndu beint frá heimkomu Fischers um ellefuleytið í gærkvöldi, enda vissulega um merkilegan atburð að ræða. Sá var þó munurinn á að Stöð 2 var hvorki með viðtöl við fólk á staðnum né kynnti sögu málsins í útsendingunni eins og RÚV. Byggðist útsending Stöðvar 2 eingöngu á tali Kristjáns Más Unnarssonar í myndveri og Ingólfs Bjarna Sigfússonar sem var á staðnum um allt og ekki neitt tengt flugvélinni og samtali Kristjáns Más við Pál Magnússon sem talaði fram og til baka um allt og ekki neitt er vélin kom inn til aðflugs yfir Reykjavík. Bar öll útsendingin þess merki að Fischer væri eign Baugs og sérstaklega eyrnamerktur þeim með allótrúlegum hætti. Lýsingin á aðfluginu var allkostuleg og reyndar hvarflaði þá strax að mér að eitthvað stórundarlegt væri að fara að eiga sér stað. Reyndist það rétt.

Við lendinguna urðu áhorfendur Stöðvar 2 vitni að því að Kristján og Ingólfur skeggræddu um vélina, áhöfnina og lögregluna sem tollskoðaði vélina við komuna. Ég vil taka fram að ég hef sjaldan orðið í raun vitni að mannráni í beinni útsendingu, en það sem tók við var næsti bær við það að mínu mati. Allavega eins nálægt orðinu mannrán og hægt er nokkurntímann að komast því. Eins og fram kom ljóslega í útsendingunni hélt lögreglan öllum nema fréttamanni Stöðvar 2 innan svokallaðrar öryggislínu, er Fischer sté út úr flugvélinni. Stuðningsmenn Fischers og aðrir fréttamenn horfðu því upp á það álengdar þegar Ingólfur frá Stöð 2 óð fram fyrir lögreglumennina og beint að Fischer og var einn sem komst nálægt honum. Fékk hann algjört fríspil miðað við aðra. Eins og komið hefur nú í ljós af hálfu lögreglunnar var það Páll Magnússon sjálfur sem fyrirskipaði það hvernig allt fór fram á vellinum og hvernig staðið var að komu Fischers. Það var því auðvitað þess vegna sem fréttamaður Stöðvar 2 var sá eini sem komst að Fischer á vellinum og gat rætt við hann. Var sagt að hann væri "örþreyttur" og myndi fara beint á hótelið.

Þetta er ótrúleg lágkúra og skítleg auglýsingamennska, svo vægt sé til orða tekið, sem þjóðin varð þarna vitni að. Svo var allt ruglið endanlega kórónað með því að Páll (fréttastjóri Baugsmiðlanna í sjónvarpi og yfirskipuleggjandi komu Fischer og vinnubragða lögreglunnar) fór í framsæti Range Rover bifreiðar sem stóð álengdar hjá eins og planað hafði verið af Stöð 2 beint á þeirra vegum. Í ökumannssætið settist hinsvegar Heimir Jónasson dagskrárstjóri Stöðvar 2. Aftur í jeppa Baugsliða settust svo hinn formælandi skákmeistari, sambýliskona hans og "góðvinurinn" Sæmundur Pálsson. Var þetta allt mjög kómískt og jafnaðist á við farsa, rétt eins og allt þetta ótrúlega vitlausa og hofmóðuga mál hefur verið seinustu vikurnar. Svo sáu áhorfendur á Stöð 2 jeppalinginn aka í burt. Töldu þá flestir að "show-ið" væri nú búið og sirkusdýrinu hefði verið komið áleiðis. Það var einmitt það sem kom upp í huga minn við að sjá þetta. Bobby Fischer, andstæðingur auðvaldsins og peningahyggjunnar, var orðinn leiksoppur og sirkusdýr auðvaldsins. Þetta var allt á við vænan brandara.

Héldu Kristján Már og Ingólfur Bjarni áfram að tala í útsendingunni eftir að jeppinn fór. Fannst mörgum, allavega mér, skondið að útsendingunni skyldi haldið áfram svo lengi, enda helsta "show-ið" búið. En það var nú aldeilis ekki svo. Allt í einu sagði Kristján Már við Ingólf: "Ég er að heyra það að Fischer er á leiðinni til þín og þú getur því rætt meira við hann". Allt í einu gerist það að jeppinn með hinn "örþreytta skákmeistara" kemur aftur inn á vallarsvæðið. Voru þá um 15 mínútur liðnar frá því að honum var ekið á brott og flestir því auðvitað búnir að taka niður búnað sinn. Þar sat Ingólfur Bjarni Baugsliði einn að skákmeistaranum "örþreytta" og talaði við hann í rúma mínútu. Þá var honum loks ekið á hótelið. Missti þá Kristján Már út úr sér hina gullnu setningu kvöldsins: "þetta er glæsilegur Range Rover jeppi". Það blasti því við að honum hafði verið ekið um borgina nokkra hringi og svo bara komið með hann aftur í einkaviðtal til Baugs, sem meðhöndlaði hann eins og um væri að ræða hverja aðra eign sína eins og epli og appelsínu í ávaxta- og grænmetisborðinu í Hagkaup. Þetta var með ólíkindum á að horfa, umfram allt annað. Orðið fjölmiðlasirkus og sirkusdýr á best við.

Eins og kom í ljós í fjölmiðlum í gær var þetta allt þaulskipulagt og vinnubrögð Stöðvar 2 löngu ákveðin. Planað var með viðtalið fyrirfram og uppsetningin öll í takt við að um eign fyrirtækisins væri að ræða fyrst borguð var undir hann einkaflugvél alla leið. Reyndar er nú komið í ljós að einkaflugvélin er í eigu Baugs beint og notuð af yfirmönnum fyrirtækisins. Eins og blasir við var ofríki Stöðvar 2 algjört og farið með manninn, sem barist var fyrir að fá lausan úr haldi, eins og hann væri gísl eða fangi. Það blasir við að fréttastofa Stöðvar 2 og 365 - ljósvakamiðlar urðu sér til ævarandi skammar og niðurlægingar með vinnubrögðum sínum. Merkilegast var að þeir sem börðust hvað mest fyrir að fá þennan mann til landsins, stuðningsmannasveit hans, var meðhöndluð eins og henni kæmi málið ekkert við. Fischer var alveg eins og ódýrt sirkusdýr, sem gengur kaupum og sölum og er sýnt lokað í búri til skemmtunar öðrum. Þetta var allt mjög skondið og veitir ekki af fyrir yfirmenn Stöðvar 2 að skammast sín ærlega og spyrja sig að því hvort Páll Magnússon verði einhverntímann trúverðugur í fréttamennsku aftur eftir þessi afglöp sín.

Eftir að fjölmiðlasirkusnum lauk og búið var að bruna með sirkusdýrið "örþreytta" á hótelherbergið sitt sátu eftir í huga mér nokkrar spurningar. Hér eru nokkrar þeirra: hvers vegna voru Íslendingar að blanda sér í málefni sirkusdýrsins? - hvers vegna var farið með hann eins og eign auðmanna sem lifa af því að búta og bryðja stór og lítil fyrirtæki? - og síðast en ekki síst hin gullna spurning: hversu dýrkeypt mun koma sirkusdýrsins verða okkur þegar á heildina er litið? Í mínum huga, eftir allt þetta fjölmiðlafár og afglöp einnar stærstu fréttastofu landsins, er ekki fjarri því að manni líði eins og við séum komin í eina sápuóperuna í Hollywood, þar sem allt er sokkið í dramatík og rjómalagaða ævintýrakjaftæðisvellu. Einfalt mál!

Saga dagsins
1947 Knattspyrnusamband Íslands var stofnað - KSÍ er langfjölmennasta sérsambandið innan raða Íþrótta- og Ólympíunefndar Íslands, enda munu rúmlega 14.000 landsmenn iðka fótbolta hérlendis
1958 Leikarinn Sir Alec Guinness hlaut óskarinn fyrir frábæra túlkun sína á Nicholson ofursta í The Bridge on the River Kwai - Guinness var einn af bestu leikurum Breta á 20. öld og var þekktur fyrir glæsilega túlkun sína á svipmiklum karakterum. Guinness hlaut heiðursóskar fyrir æviframlag sitt til leiklistar árið 1980. Hann var mjög sérlundaður og horfði t.d. aldrei á myndir sínar. Sir Alec lést 2000
1973 Flugvélin Vor fórst í Búrfjöllum, norður af Langjökli, og með henni fimm manns - meðal þeirra sem fórust í flugslysinu var einn af reyndustu flugmönnunum í flugsögu Íslendinga, Björn Pálsson
1990 Leikkonan Jessica Tandy hlaut óskarinn fyrir stórglæsilega túlkun sína á suðurríkjahefðarfrúnni Daisy Werthan í kvikmyndinni Driving Miss Daisy - með þessu varð Tandy elsti kvikmyndaleikarinn til að hljóta óskarsverðlaun, en hún var þá 81 árs að aldri. Tandy vann við leik allt til æviloka, þrátt fyrir að greinast með krabbamein árið 1991 vann hún við hverja myndina uns yfir lauk. Hún lést árið 1994
2000 Leikarinn Kevin Spacey hlaut óskarinn fyrir óaðfinnanlega túlkun sína á neðanmálsmanninum Lester Burnham í hinni ógleymanlegu American Beauty - Spacey, sem er einn besti leikari nútímans, hlaut áður verðlaunin fjórum árum áður fyrir magnaða túlkun sína á Verbal Kint í The Usual Suspects

Snjallyrðið
I always cheer up immensely if an attack is particularly wounding because I think, well, if they attack one personally, it means they have not a single political argument left.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)

Engin fyrirsögn

Davíð Stefánsson skáld frá FagraskógiÁ föstudaginn langa
Í dag er föstudagurinn langi - einn helgasti dagur kristinna manna um allan heim. Það er við hæfi að nota daginn til að íhuga vel og njóta kyrrðar. Að mörgu leyti er föstudagurinn langi sá dagur ársins þar sem kyrrðin nýtur sín best - hægt er að hugsa vel málin og sjá hlutina í öðru ljósi en alla aðra daga. Það er notalegt að geta með þessum hætti séð hlutina í allt öðru samhengi en í erli annarra daga.

Ungum var mér kennt að meta skáldskap Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Amma mín var mjög hrifin af ljóðum hans og átti ljóðabækur hans. Erfði ég þær bækur og nýt þeirra nú. Hann var fremsta skáld landsins á 20. öld - að mínu mati tókst fáum íslenskum skáldum betur að tjá sig frá hjartanu, er þá sama hvort átt er við t.d. gleði, sorg, ástina eða lífskraftinn.

Davíð tjáði af stakri snilld sannar tilfinningar og varð eitt ástsælasta skáld okkar á 20. öld. Davíð var skáld tilfinninga, hann orti frá hjartanu og talaði beint til hjarta þess sem las. Hann var alþýðuskáld sem snerti við fólki. Þess vegna mun minning hans verða okkur kær og kveðskapur hans festast í sessi um ókomin ár. Hann var sannur í yrkisefnum og sannur í tjáningu um sannar tilfinningar.

Eitt fallegasta kvæði Davíðs er án nokkurs vafa Á föstudaginn langa, sem margir kalla Ég kveiki á kertum mínum. Um er að ræða táknrænt og fallegt ljóð sem telst með því besta sem hann orti á löngum skáldferli sínum. Þetta ljóð snertir alltaf streng í hjartanu mínu. Það er við hæfi að líta á það á þessum helga degi.


Ég kveiki á kertum mínum
við krossins helga tré.
Í öllum sálmum sínum
hinn seki beygir kné.
Ég villtist oft af vegi.
Ég vakti oft og bað.
Nú hallar helgum degi
á Hausaskeljastað.

Í gegnum móðu og mistur
ég mikil undur sé.
Ég sé þig koma, Kristur,
með krossins þunga tré.
Af enni daggir drjúpa,
og dýrð úr augum skín.
Á klettinn vil ég krjúpa
og kyssa sporin þín.

Þín braut er þyrnum þakin,
hver þyrnir falskur koss.
Ég sé þig negldan nakinn
sem níðing upp á kross.
Ég sé þig hæddan hanga
á Hausaskeljastað.
Þann lausnardaginn langa
var líf þitt fullkomnað.

Ég bíð, uns birtir yfir
og bjarminn roðar tind.
Hvert barn, hvert ljóð, sem lifir,
skal lúta krossins mynd.
Hann var og verður kysstur.
Hann vermir kalda sál.
Þitt líf og kvalir, Kristur,
er krossins þögla mál.

Þú ert hinn góði gestur
og guð á meðal vor,
og sá er bróðir bestur,
sem blessar öll þín spor
og hvorki silfri safnar
né sverð í höndum ber,
en öllu illu hafnar
og aðeins fylgir þér.

Þú einn vilt alla styðja
og öllum sýna tryggð.
Þú einn vilt alla biðja
og öllum kenna dyggð.
Þú einn vilt alla hvíla
og öllum veita lið.
Þú einn vilt öllum skýla
og öllum gefa grið.

Að kofa og konungshöllum
þú kemur einn á ferð.
Þú grætur yfir öllum
og allra syndir berð.
Þú veist er veikir kalla
á vin að leiða sig.
Þú sérð og elskar alla,
þó allir svíki þig.

Ég fell að fótum þínum
og faðma lífsins tré.
Með innri augum mínum
ég undur mikil sé.
Þú stýrir vorsins veldi
og verndar hverja rós.
Frá þínum ástareldi
fá allir heimar ljós.


Á þessu ári eru 110 ár frá fæðingu Davíðs. Á öðrum degi páska mun ég birta hér á vefnum umfjöllun um ævi skáldsins og verk hans á glæsilegum ferli.

Saga dagsins
1954 Leikkonan Audrey Hepburn hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á Önnu prinsessu í kvikmyndinni Roman Holiday - Hepburn var ein af svipmestu kvikmyndaleikkonum í gullaldarsögu Hollywood og varð vinsæl fyrir táknræna túlkun á sterkum persónum. Hún lést úr krabbameini 1993
1975 Samþykkt á Alþingi að friðlýsa að fullu Vatnsfjörð í Barðastrandasýslu. Friðlandið var alls um 100 ferkílómetrar. Hrafna-Flóki nam land þar og nefndi landið Ísland, eins og segir frá í Landnámu
1975 Feisal konungur Saudi-Arabíu, myrtur, í höfuðborginni Riyadh. Hann var þá 68 ára að aldri
1985 Leikkonan Sally Field hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Ednu Spalding í kvikmyndinni Places in the Heart - var þetta annar óskar Field sem hlaut verðlaunin fimm árum áður fyrir leik sinn í Normu Rae. Er Field tók við verðlaununum flutti hún sögulega þakkarræðu og sagði svo: "I haven't had an orthodox career and I wanted more than anything to have your respect. The first time I didn't feel it but this time I feel and I can't deny the fact that you like me. You really like me!". Urðu fleyg orð
2001 Schengen-samstarf 15 Evrópuríkja tók gildi. Markmið þess er að tryggja frjálsa för einstaklinga um innri landamæri samstarfsríkjanna og styrkja um leið baráttu gegn alþjóðlegri afbrotastarfsemi. Breytingar á mannvirkjum og búnaði á Keflavíkurflugvelli vegna þessa kostuðu 800 milljónir króna

Snjallyrðið
Everytime you smile at someone, it is an action of love, a gift to that person, a beautiful thing.
Móðir Teresa (1910-1997)

Engin fyrirsögn

DiddúMenningarlíf á Akureyri - góðir tónleikar
Menningarlífið hér norðan heiða er engu líkt, í raun, sé miðað við íbúafjölda og framboð menningarviðburða. Akureyri hefur brag stórborgar hvað menningarlíf varðar. Hér er hægt að velja úr glæsilegum listviðburðum og njóta þeirrar sömu listaflóru og í raun og er í boði á höfuðborgarsvæðinu. Þegar ég ræði við sumt vinafólk mitt á suðurhluta landsins, sem sumt álítur mig vera staddan á hjara veraldar, bendi ég þeim á vef bæjarins og svo vefi listasafnsins og menningarvefi og þá verður þeim ljóst að hér er allt í boði sem lista- og menningarvinir þurfa á að halda. Leikhúsið okkar er fyrsta flokks, listasafnið er stórfenglegt og fullt er af skemmtilegum viðburðum í Listagilinu okkar og sköpuð þar litrík og góð list.

Við eigum öflugan Myndlistaskóla, Tónlistaskóla og svona má lengi telja. Menning og listir er fyrsta flokks hér. Marga þekki ég sem farið hafa norður í vetur og litið á leikritið Ólíver í Leikhúsinu. Hefur sú sýning gengið vonum framar, verið sýnd margoft fyrir fullu húsi og hlotið góða gagnrýni hjá leiklistarspekingum dagblaðanna. Nú um páskana verða seinustu sýningar á verkinu, vegna þess að listamenn hafa bæði lofað sér í önnur verkefni og brátt þarf að taka til sýninga annað leikverk, sem lofar ekki síður góðu. Fór ég á sýninguna um jólin og varð heillaður af henni eins og allir aðrir. Nú nýlega hafa svo verið spennandi sýningar á listasafninu. Nú þessa dagana eru þar sýnd verk Errós (Guðmundar Guðmundssonar listmálara).

Jóhann FriðgeirÍ gærkvöldi fór ég á sannkallaðan stórviðburð í menningarlífi okkar hér fyrir norðan. Sinfóníuhljómsveit Norðurlands er algjör perla í menningarlífi okkar hér fyrir norðan. Tónleikar hljómsveitarinnar eru sannkallaður hvalreki fyrir okkur sem njótum menningar og lista. Í gærkvöldi hélt sveitin tónleika þar sem fram komu með henni þau Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú) sópransöngkona og Jóhann Friðgeir Valdimarsson tenór. Voru þetta alveg frábærir tónleikar og einstaklega gaman að fara á þá og hlusta á glæsilega tónlist og heillandi. Á efnisskránni voru mörg stórfengleg tónverk. Nægir þar að nefna tónlist úr Leðurblökunni eftir Johann Strauss og Kátu ekkjunni eftir F. Lehar. Tóku Diddú og Jóhann Friðgeir ítalskar aríur og söngperlur.

Ennfremur var á efnisskránni hin sívinsælu hljómsveitarverk Keisaravalsinn, Tritsch tratsch polka og Radetzky mars eftir Johann Strauss. Stjórnandi hljómsveitarinnar er Guðmundur Óli Gunnarsson. Sinfóníuhljómsveitin okkar er alveg rómuð og hefur hróður hennar farið víða í kjölfar þeirra tónleika sem hún hefur haldið. Þeirra eftirminnilegastir eru án nokkurs vafa tónleikarnir sem haldnir voru í Íþróttahöllinni í októbermánuði 1998 til minningar um Jóhann Konráðsson söngvara á Akureyri. Einsöngvarar á þeim tónleikum voru Kristján Jóhannsson, sonur Jóhanns, Diddú og Jóna Fanney Svavarsdóttir, bróðurdóttir Kristjáns. Þeir tónleikar voru alveg einstaklega góðir og eru að margra mati, hiklaust mínu, bestu sinfóníutónleikar með söng sem haldnir hafa verið hér fyrir norðan.

Var það mjög vel skipulagður menningarviðburður og verða lengi í minnum hafðir. Man ég að Kiddi hafði á orði þegar hann kom á þá tónleika að þetta væri sinfóníuhljómsveit á toppmælikvarða og var hann reyndar undrandi á því hversu góð hún væri. Á tónleikunum í gærkvöldi var sveitin skipuð yfir 50 hljóðfæraleikurum. Flestir koma þeir héðan að norðan. Svæðið sem tónlistarmenn í sinfóníusveitinni koma frá er mjög víðfeðmt. Er um að ræða fólk frá öllu Norðurlandi og meira segja koma einhverjir að austan að mér skilst. Allavega ég hef oft farið á tónleika með sveitinni og jafnan hrifist nokkuð af. Engin undantekning var á í gær. Þetta voru stórglæsilegir tónleikar, Diddú og Jóhann voru í toppformi og góð stemmning á tónleikunum. Ég þakka kærlega fyrir mig og hlakka til næstu tónleika.

Saga dagsins
1948 Breski leikarinn Laurence Olivier hlaut óskarinn fyrir hreint stórfenglega túlkun á prinsinum Hamlet - Olivier var einn fremsti leikari og leikstjóri Breta á 20. öld og fór á kostum í dramatískum myndum og skapaði einnig ógleymanlega karaktera á hvíta tjaldinu á löngum ferli. Hann lést 1989
1973 Kjarvalsstaðir, myndlistarhús Reykjavíkurborgar á Miklatúni, tekið formlega í notkun - húsið var helgað minningu Jóhannesar Sveinssonar Kjarval listmálara, en borgin eignaðist flest listverk hans
1987 Albert Guðmundsson segir af sér ráðherraembætti - var það vegna ásakana um að hann hefði ekki talið fram til skatts sérstakar greiðslur, sem fyrirtæki í eigu hans hafði fengið frá fyrirtækinu Hafskip hf. á meðan hann var fjármálaráðherra á árunum 1983-1985. Varð skipafyrirtækið gjaldþrota í árslok 1985 og Útvegsbankinn tapaði þar stórfé en Albert hafði verið formaður stjórnar Hafskips og formaður bankaráðs Útvegsbankans árin 1980-1983. Albert gekk í kjölfarið úr Sjálfstæðisflokknum og stofnaði með stuðningsmönnum sínum Borgaraflokkinn, sem hlaut 7 þingmenn í kosningunum 1987. Albert sat á þingi fyrir flokkinn til ársins 1989 og varð sendiherra í Frakklandi. Hann lést í apríl 1994
1989 Eitt af verstu olíuslysum í sögu Bandaríkjanna á 20. öld á sér stað þegar að olíuflutningaskipið Exxon Valdez strandar við Alaska - síðar kom það í ljós að skipstjórinn hafði verið drukkinn. Leiddi til málaferla og deilna. Varð slysið álitshnekkir fyrir Exxon sem neyddist til að borga metfé í skaðabætur
2002 Leikkonan Halle Berry hlaut óskarsverðlaun fyrir túlkun sína á Leticiu Musgrove í Monster´s Ball - Berry varð fyrsta þeldökka aðalleikkonan í sögu akademíunnar til að hljóta þessi leikverðlaun

Snjallyrðið
A loving heart is the beginning of all knowledge.
Thomas Carlyle heimspekingur (1795-1881)

Engin fyrirsögn

Bobby FischerHeitast í umræðunni
Skákmeistarinn Bobby Fischer hefur nú hlotið formlega ríkisborgararétt og hann verið staðfestur með undirskrift handhafa forsetavalds. Eins og vel hefur komið fram í skrifum mínum er ég andvígur þessu ferli öllu eftir að það fór inn á þau mörk að veita ríkisborgararétt. Mun Fischer koma til landsins á morgun. Eins og fram hefur komið í fréttum mun hann fljúga frá Japan til Kaupmannahafnar í nótt og þaðan til Keflavíkur. Er stefnt að því að þau muni dvelja á hóteli fyrst um sinn. Ef marka má viðtal í dag við Fischer ætlar hann sér að slappa af við komuna hingað og taka því rólega. Eins og við er að búast er hann strax byrjaður að kasta óhróðrinum í allar áttir. Sagði hann í viðtalinu við RÚV að Íslendingar ættu losa sig við Bandaríkjamenn, loka herstöðinni og bandaríska sendiráðinu hérlendis. Kostuleg ummæli og með algjörum ólíkindum að íslenskir ráðamenn hafi veitt honum íslenskan ríkisborgararétt við þessar aðstæður og sveigt til reglur um ríkisborgararétt fyrir hann. Gott dæmi er að Dorrit Moussaieff forsetafrú, er ekki enn orðin ríkisborgari og hefur ekki sótt um flýtimeðferð.

Er alltaf jafnmerkilegt að fylgjast með tjáningu Sæmundar Pálssonar á þessu máli. Segist hann vonast til að Fischer hagi sér skikkanlega og láti af bölvi og blótsyrðum um Bandaríkjamenn og gyðinga. Er þetta algjör brandari, trúir því einhver að hann verði rólegur og hætti að fimbulfambast við að koma hingað? Skoðanir Fischer á gyðingum og mörgum málum eru auðvitað skelfilegar og fáir sem geta kvittað undir skoðanir mannsins. En það er vonandi að hann geri ekki þá sem hafa stutt hann hérlendis seinustu daga endanlega að aðhlátursefni við komu sína til landsins með því að fara að hrauna í allar áttir og sýni því stillingu. Annars er þetta auðvitað erfitt mál og ég hef enga trú á því að hann sýni stillingu þegar hann komi hingað. Það er bara mitt mat. Í dag kom Davíð Oddsson utanríkisráðherra í fjölmiðla og sagði að það væri af og frá að þessi málsmeðferð væri fordæmisgefandi og að þetta væri að sínu mati einstakt mál. Ég er algjörlega ósammála Davíð, eins og allir sjá sem lesið hafa skrif mín. Það er greinilegt að ég og utanríkisráðherra deilum ekki sömu skoðunum í málinu og lítum það ekki sömu augum. Það verður bara að hafa það. Það er hverjum manni frjálst að tjá skoðanir sínar. Ég áskil mér allan rétt að halda áfram að andmæla þessari ákvörðun sem ég get ekki stutt. Í mínum huga eiga svona mál að snúast um prinsipp, það er bara alveg einfalt. Ber svo við að ég tek undir mat tveggja þingmanna Framsóknarflokks á málinu í fjölmiðlum seinustu daga.

Össur SkarphéðinssonFormannskosningin í Samfylkingunni verður vettvangur átaka og láta í innsta hring á sama vettvangi, markað af fjölskyldu- og vinaslag sem ekki á sér mörg fordæmi í íslenskum stjórnmálum. Ekki er hægt að segja að það komi á óvart að Össur og Ingibjörg berjist um embættið. Það hefur blasað við í tvö ár, eða allt frá því að Ingibjörg fór í misheppnað varaþingmannsframboð og missti yfirburðastöðu sína á vinstrivængnum frá sér eftir klúðurslega framgöngu vegna ákvörðunar um framboð til þings sem leiddi til þess að hún missti trúnað samstarfsmanna sinna í R-listanum og varð að segja af sér embætti borgarstjóra í Reykjavík, í svo til beinni útsendingu fjölmiðla í kostulegri atburðarás í Ráðhúsinu. Virðist baráttan háð þessa dagana af hóflegum krafti, þó er ljóst að ólgan blundar undir niðri. Baráttan er háð með hálfkveðnum vísum og átakalínur eru markaðar í baktjaldaherbergjum. Um er að ræða leynileg skot sem þó eru beitt og eru sífellt að verða beittari.

Greinilegt er að Össur er farinn að fægja vopnin. Gott dæmi um það er nýjasta færslan á bloggsíðu hans. Þar segir orðrétt: "Ægivald Baugs stingur marga í augu. Við stjórnmálamenn gætum vafalítið bent á dæmi um það hvernig vild Baugs virðist stundum birtast í sérstakri umhyggju fyrir þeim stjórnmálamönnum og konum sem Baugur hefur velþóknun á. Í atvinnulífinu kvarta menn hástöfum undan því að Baugsmiðlarnir hygli fyrirtækjum sem þeim tengjast með fréttum og umfjöllun sem þeir eiga í eða hafa tengsl við." Engum þarf að blandast hugur um hvert þessu skoti er beint, þó það sé mjög pent og í fagurlega skreyttum búningi. Það er mjög beitt í eðli sínu. Greinilegt er að Össur er að opna á umræðu t.d. okkar sjálfstæðismanna fyrir nokkrum árum, fyrir og eftir þingkosningarnar 2003, um að Ingibjörg Sólrún sé boðberi fyrirtækis og sérstaklega í boði þeirra á markaðnum. Þetta er merkilegt og eiginlega ánægjulegt að formaður Samfylkingarinnar skjóti svona beint á varaformann sinn og taki undir með því sem andstæðingar Ingibjargar Sólrúnar sögðu um hana og framgöngu hennar í kosningabaráttunni. En eins og segir að þá er spennan að verða nokkur í slagnum og hún að taka á sig hvassari myndir. Þetta verður gaman á að horfa, einkum fyrir okkur andstæðinga flokksins.

Punktar dagsins
Akureyri

Stjórn Varðar samþykkti eftirfarandi ályktanir á fundi sínum í gærkvöldi:

Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, lýsir yfir ánægju sinni með að samgönguráðherra hafi nú tilkynnt um tímaramma framkvæmda við Héðinsfjarðargöng. Er mikilvægt að mati félagsins að staðfest hafi verið endanlega sú pólitíska ákvörðun að flytja Siglufjörð í annað kjördæmi og tengja það með því að verða hluti af Eyjafjarðarsvæðinu. Er ánægjulegt að mati félagsins að ráðherra standi við þann tímaramma sem lofað var árið 2003 þegar framkvæmdum var frestað tímabundið. Að mati Varðar eru þessi göng, þessar framkvæmdir, hagsmunamál fyrir Eyfirðinga alla og munu styrkja svæðið sem heild og efla það.

Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, lýsir yfir vonbrigðum með þá ákvörðun Ríkiskaupa að ganga að tilboði pólskrar skipasmíðastöðvar í viðgerðir á varðskipunum Tý og Ægi. Með þessari ákvörðun sinni vegur Ríkiskaup að mati félagsins að íslenskum iðnaði og tekur afstöðu í þá átt að ekki skipti máli hvort verkið sé unnið hérlendis. Það að taka ekki tilboði Slippstöðvarinnar á Akureyri leiðir í ljós allmikinn skort á vilja og metnaði til þess að vinna að því að efla þessa mikilvægu atvinnugrein. Skorar félagið á ráðherra ríkisstjórnarinnar að beita sér fyrir því að ákvörðun Ríkiskaupa um að taka pólska tilboðinu verði endurskoðuð svo viðgerðirnar fari fram hérlendis.

Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, lýsir yfir andstöðu við þau áform að stofna sameignarfélag um rekstur RÚV og telur að með nýju frumvarpi menntamálaráðherra sé stigið of stórt skref í þá átt að tryggja stöðu RÚV sem ríkisstofnunar. Verði frumvarpið að lögum getur RÚV staðið að annarri starfsemi sem tengist starfsemi félagsins með frjálsari hætti en áður. Lýsir félagið yfir andstöðu sinni við frumvarpið og telur það fara í vitlausa átt miðað við grunnstefnu Sambands ungra sjálfstæðismanna og margoft hefur komið fram á þingum þess. Vörður minnir á mikilvægi þess að einkavæða Ríkisútvarpið. Að mati félagsins er tímaskekkja að ríkið standi í fjölmiðlarekstri í samkeppni við einkaaðila.

Leikskólinn Naustatjörn á Akureyri

Mikið hefur verið rætt og ritað seinustu vikuna um málefni leikskólans í kjölfar kostulegra yfirlýsinga borgarstjóra. Nú ber orðið svo við að enginn má hafa skoðun á henni eða verkum hennar þá er hún komin út í skítkastið og svarar fyrir sig með ómálefnalegum hætti. Henni virðist algjörlega fyrirmunað að geta svarað fyrir sig með málefnalegum hætti. Í pistli sínum í dag fjallar, vinur minn Gísli Freyr, um málefni leikskólans og kemur með marga góða punkta. Nokkra þeirra hafði ég bent honum á, sérstaklega hvað varðar Akureyrarbæ og stöðu hans. Eins og vel hefur komið fram er staða okkar góð, nægir fólki að líta á ársreikninga sveitarfélagsins, en reksturinn hér var jákvæður um tæpar 240 milljónir króna. Hvet ég alla til að lesa þennan pistil. Þar segir meðal annars um kostuleg vinnubrögð og tjáningu væludúkkunnar borgarstjórans: "Ef einhver gagnrýnir vinnubrögð Steinunnar Valdísar getur hún ekki svarað til baka á málefnalegan hátt. Það er fjöldi manns (m.a. Geir H. Haarde) sem fara vel með það sem skattgreiðendur borga. Það hefur R-listinn hins vegar ekki gert og ætlar sér aldrei að gera. Steinunn Valdís ætti að sjá sóma sinn í því að biðja fjármálaráðherra afsökunar á þessum orðum. Hún minnir á óþroskaðan ungling sem ekkert hefur til síns máls nema að kalla menn nöfnum."

DiddúJóhann Friðgeir

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands býður til söngveislu í kvöld í Íþróttahúsi Síðuskóla. Á tónleikunum með hljómsveitinni koma fram þau Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú) sópransöngkona og Jóhann Friðgeir Valdimarsson tenór. Á efnisskránni verður t.d. flutt tónlist úr Kátu ekkjunni eftir F. Lehar og Leðurblökunni eftir Johann Strauss. Að auki er hægt að nefna hin sívinsælu hljómsveitarverk Keisaravalsinn, Tritsch tratsch polka og Radetzky mars eftir Johann Strauss. Stjórnandi hljómsveitarinnar er Guðmundur Óli Gunnarsson. Sinfóníuhljómsveitin okkar hér fyrir norðan er sannkölluð perla og alltaf gaman þegar hún kemur saman og heldur tónleika. Ógleymanlegir eru tónleikar þeirra með Kristjáni Jóhannssyni og Diddú sem haldnir voru í Íþróttahöllinni í október 1998 til minningar um söngvarann Jóhann Konráðsson, föður Kristjáns. Það var alveg söguleg stund og frábærir tónleikar, eflaust þeir bestu sem ég hef farið á, á minni ævi. Í kvöld mun sveitin vera skipuð yfir 50 hljóðfæraleikurum, sem flestir koma héðan að norðan. Sannkölluð veisla, ég ætla að fara. Missi ekki af svona frábærum tónleikum. Segi frá þessu á morgun betur.

Gettu betur

Í kvöld verður úrslitaviðureignin í Gettu betur. Fer úrslitakeppnin fram í Smáranum í Kópavogi. Keppa til úrslita Borgarholtsskóli og Menntaskólinn á Akureyri. Gengi Akureyringanna í keppninni hefur verið gott. Í sjónvarpsviðureignum til þessa hafa þeir slegið út Menntaskólann á Egilsstöðum og Verzlunarskólann, meistara síðasta árs. Hefur MA ekki keppt til úrslita í keppninni frá árinu 1992 er MA vann VMA í sannkölluðum Akureyrarslag. Vonandi gengur MA vel í kvöld. Ég óska þeim Ásgeiri, Bensa og Tryggvi Páli góðs gengis í kvöld.

Saga dagsins
1663 Ragnheiður Brynjólfsdóttir biskupsdóttir, lést í Skálholti, 21 árs að aldri - við útför Ragnheiðar var sálmur sr. Hallgríms Péturssonar, Allt eins og blómstrið eina, fluttur í fyrsta skipti. Einn þekktasti sálmur landsins og er hann sá sálmur sem oftast er spilaður við jarðarfararathafnir í kirkjum landsins
1937 Sundhöllin í Reykjavík var vígð að viðstöddu fjölmenni - markaði mikil þáttaskil í íþróttamálum
1950 Leikkonan Olivia De Havilland hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á hefðarmaddömunni Catherine Sloper í kvikmyndinni The Heiress - De Havilland hlaut áður óskarinn þrem árum áður fyrir leik sinn í To Each his Own. Hún var ein vinsælasta leikkona gullaldarsögu Hollywood og túlkaði margar sterkar kvenpersónur á hvíta tjaldinu. De Havilland hlaut heiðursóskar fyrir æviframlag að kvikmyndum 2003
1998 Leikarinn Jack Nicholson hlaut óskarinn fyrir magnaða túlkun sína á sérvitringnum Melvin Udall í kvikmyndinni As Good as it Gets. Þetta var þriðji óskar hans, en hann hafði áður hlotið verðlaunin fyrir leik sinn í One Flew Over the Cuckoo´s Nest og Terms of Endearment. Hefur verið tilnefndur til verðlaunanna tólf sinnum, oftar en nokkur annar karlleikari. Á þessari sömu óskarsverðlaunahátíð hlaut kvikmyndin Titanic alls ellefu óskarsverðlaun. Titanic varð vinsælasta mynd 20. aldarinnar í bíó
2003 Breska leikkonan Catherine Zeta-Jones hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Velmu Kelly í Chicago

Snjallyrðið
Disciplining yourself to do what you know is right and importance, although difficult, is the highroad to pride, self-esteem, and personal satisfaction.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)


Engin fyrirsögn

SiglufjörðurHeitast í umræðunni
Söguleg tímamót urðu í málum Héðinsfjarðarganga á laugardag þegar samgönguráðherra kynnti tímaramma framkvæmda við göngin sem verða til fyrir árslok 2009. Mikið hefur verið rætt um þau seinustu dagana í kjölfarið. Hefur mér blöskrað hreinlega umfjöllun sumra fjölmiðla og ekki síður fjölmiðlamanna í prívatskrifum sínum á netinu. Sem Eyfirðingi og heimamanni hér á svæðinu er mér hreinlega nóg boðið og tek sérstaklega fyrir tvenn ósvinnuefnistök tveggja fjölmiðlamanna seinustu daga. Í fyrra lagi er það Egill Helgason sem gengur svo langt og er svo ótrúlega ósvífinn á vef sínum að kalla göngin skrípaleik! Telur hann upp allskonar tittlingaskítsrök, ef svo má kalla, gegn göngunum og samgöngubótinni sem Siglfirðingar hafa alla tíð átt rétt á að fá og til að tengja þá við kjördæmið.

Það væri ráð að "spekingar" á borð við þennan sjónvarpsmann frá 101 Reykjavík settust upp í flugvél eða bílinn sinn og kæmu norður og færu svo til Siglufjarðar, annaðhvort með því að fara 234 kílómetra lykk til Skagafjarðar til að komast til Siglufjarðar, eða reyndu að berjast um á ófærri Lágheiðinni þangað! Með því gætu viðkomandi kynnt sér stöðu mála áður en þeir setja niður á blað skrif með þessum hætti, byggð á bæði vanþekkingu og skítmennsku í garð fólks hér. Í seinna lagi er það Ari Sigvaldason hjá Ríkissjónvarpinu í gærkvöld með dæmalausri samantekt um göngin og íbúaþróun hér og ekki síst fjölda þeirra sem keyra göngin og miðar þau við Hvalfjarðargöng sem voru einkaframkvæmd. Eins og allir vita sem fara Lágheiðina til Siglufjarðar er sú leið ekki mönnum bjóðandi á þeim nútíma sem við viljum kenna okkur við að lifa á. Fréttaflutningur Ara var að mínu mati (lái mér hver sem vill) með ólíkindum ósmekklegur og mjög hlutdrægur.

Ef menn vilja fara í talnasamanburð almennt á borð við þessi hráskinnavinnubrögð, væri þá ekki mun nær og eðlilegra að taka mannvirki á höfuðborgarsvæðinu, mislæg gatnamót og fleira sem kostar milljarða og reikna þá á haus hvað kosti að fara úr einu hverfi í annað, fyrir hvern mann. Hvenær sjáum við slíka frétt? Þessi fréttamennska jaðrar við skítlegheit að mínu mati. Ég fékk svo í gær tölvupóst frá vinstrimanni á Austurlandi sem sakaði mig um það í kjölfar sunnudagspistils míns að hafa hyglað þessari framkvæmd en ekki stutt í orði göngin fyrir austan. Eitthvað varð honum orðavant þegar ég í svarpósti benti honum á það tvennt að ég væri ættaður að austan og hefði með pistli í ársbyrjun 2003 stutt göng þar á sama grundvelli og göng hér. Sá stuðningur hélt sér þó að stjórnvöld völdu á milli framkvæmdanna með því að fresta hér um þrjú ár. Enda er sú framkvæmd ekkert síður nauðsynleg en þessi hér til að halda verndarhendi utan um mannlíf á landsbyggðinni.

Það hef ég þó lært seinustu daga umfram allt bæði vegna skrifa t.d. á spjallvefum að þeir sem hæst gala um göng úti á landi og að þau séu óráðsía, hafa ekki kynnt sér stöðu mála, ekki farið á staðina eða vit á því hver grunnur þess sé. Fékk ég skrif frá einum sem fullyrti að ekkert væri að veginum yfir Lágheiðina, það væri bara þjóðsaga að hann væri ónýtur. Svona lyklabörn í Reykjavík ættu að koma norður og keyra veginn, enda kom í ljós að viðkomandi hafði aldrei farið þessa leið, eða komið norður nema þá bara hingað í gegnum Akureyrina. Það er afskaplega hvimleitt að takast á við svona úrtölulið að mínu mati. En það er nauðsynlegt, en ég fann það eftir skrif mín hér um helgina að fólk sem talaði gegn göngunum og skrifum mínum hafði engin rök á bakvið sig í málinu nema þá það að þetta væri dýrt. Samgöngur, góðar samgöngur, eru alltaf dýrar. Það er alveg rétt. En þær verða að koma til eigi að haldast blómleg byggð í landinu.

Það geta jú ekki allir landsmenn búið í nátthverfisblokkum á höfuðborgarsvæðinu og lifað á loftinu þar. En góðar samgöngur opna möguleika, efla svæðin. Hér munu göng leiða til þess að Siglufjörður og Eyjafjörður sameinast. Af því leiðir að göng um Héðinsfjörð er ekki einkamál Siglfirðinga, þau skipta okkur hér öll máli! Ég tala bara sem einstaklingur sem hefur nær alla sína ævi búið hér, þekki svæðið og allt hér. Ég vil að við vinnum saman sem heild og leggjum saman krafta okkar. Það er stutt síðan Skagafjörður var sameinað sem eitt sveitarfélag, utan eins sveitahrepps. Það sama blasir við að gerist hér. Það sjá allir vegna væntanlegra sameiningarkosninga um allt land að sveitarfélögum mun fækka og menn leggja saman krafta sína. Ég vil vinna með Siglfirðingum og öðrum út með firði að þeirra verkefnum og vildi sýna það með nærveru minni þar um helgina. Málefni þeirra skipta mig ekkert síður máli en þá. Mér er annt um þetta svæði, mér er ekki sama. Lái mér hver sem vill.

Bobby FischerAlþingi samþykkti seinnipartinn í gær að veita skákmeistaranum Bobby Fischer íslenskan ríkisborgararétt. Með því er skákmeistarinn orðinn Íslendingur, rétt eins og ég og fleiri hérlendis og nýtur sömu réttinda og ég. Þessi farsi er orðinn langur og allmerkilegur. Afstaða mín hefur komið vel fram seinustu dagana. Ég er bæði undrandi og forviða á því að íslensk stjórnvöld geri Fischer að Íslending til að reyna að koma honum undan því að gera upp við Bandaríkin vegna gamalla mála. Ég er andvígur því að veita honum þennan ríkisborgararétt. Taldi ég ekkert að því að Fischer kæmi hingað, en tvennt ólíkt er hvort hann kemur hingað sem íslenskur ríkisborgari eða vegalaus einstaklingur á útlendingavegabréfi, sem þarf að komast úr haldi Japana, sem hefur farið full harkalega með hann. Tel ég þetta vanhugsaða ákvörðun. Eigum við nú eftir að sjá viðbrögð Bandaríkjamanna í stöðunni. Tel ég litlar líkur á að þeir muni hætta að elta Fischer eða gefa honum upp sakir. Hef ég áhyggjur af því hvort og þá hvaða breytingar verði á samskiptum Bandaríkjanna og Íslands, nú þegar við höfum veitt manni ríkisfang sem er á flótta undan réttvísinni í Bandaríkjunum. Hef ég alla fyrirvara á þessu og vona auðvitað að allt fari vel en óttast það versta vissulega.

Ég met samskipti Íslands við Bandaríkin mikils. Það ættu allir að vita sem fylgjast með skrifum mínum og pólitískum skoðunum, frá því ég fór að taka þátt í stjórnmálum fyrir rúmum áratug með því að ganga í Sjálfstæðisflokkinn. Er ég eiginlega vonsvikinn yfir því hvernig flokkurinn hefur unnið þetta mál og hef farið í skrifum mínum yfir undrun mína á afstöðu flokksins og reyndar allra stjórnmálaflokka, enda virðast allir flokkar leggja blessun sína yfir þetta, svo ekki er um að ræða pólitískt mál að því leyti. Eitt tók ég eftir í gær í kjölfar þess að þingmenn samþykktu að veita Fischer ríkisborgararétt sem jafnvel þingmenn höfðu greinilega gleymt í þeysireið sinni út í buskann í flýtinum við að gera Fischer að Íslendingi. Það er hvort Íslendingurinn Robert James Fischer falli undir lög um launasjóð íslenskra stórmeistara í skák og eigi því rétt á greiðslum úr sjóðnum, sem slíkur. Fischer fellur klárlega í þann flokk. Kom greinilega á fjármálaráðherra þegar hann var inntur svara um þetta á þingi í gær. Núna þegar Fischer er Íslendingur mun hann væntanlega þurfa að taka að sér kennslu á skák fyrir skólabörn til að uppfylla skyldur sínar hér. Spurt er: höfðu þingmenn fyrir því að kynna sér þessi mál fyrir þessa stórundarlegu ákvörðun sína eða lá þeim svo mikið á að þeim var alveg sama? Þetta þarf að fá fram með afgerandi hætti, hvernig staðan er. En ef marka má lögin stenst hann öll skilyrði fyrir veitingu peninga úr sjóðnum, enda orðinn eins og hver annar Íslendingur. Já, það er svona þegar, illu heilli, menn gleyma sér í svo mikilli fljótfærni að dómgreindinni er hent út á hafsjó.

Punktar dagsins
ISG og Össur

Formannsslagurinn í Samfylkingunni virðist hafinn af fullum krafti, nú þegar nákvæmlega tveir mánuðir eru til landsfundar flokksins. Össur og Ingibjörg eru farin að undirbúa sig og vinna að kjörinu og málefnum tengdum því. Nokkrar vikur eru reyndar síðan Ingibjörg hóf sinn slag í hvítri dragt, þess albúin að hvítmála sig og þvo af sér óráðsíuna í Reykjavík undir hennar stjórn. Össur hefur verið að vinna í baktjaldaherbergjum að því að undirbúa sig og sjá má að hann leggur mikla rækt við vef sinn og vinnur af krafti, tjáir þar skoðanir sínar og vinnur öflugur. Ingibjörg er einnig með vef, en hann er afskaplega sterílíseraður og ópersónulegur. Hún skrifar ekki beint til fólks, notar ekki vefinn sem bloggvef sem skapar nálægð við lesandann. Það gerir Össur, hann hefur skoðanir á málum og talar af krafti um mál. Er ég oft ósammála honum en ég fylgist með skrifum hans. Hann þorir að hafa skoðanir og tjá sig, en Ingibjörg notar ekki vefinn sem samskiptaleið til fólks með skrifum þar inn sjálf, nema ef frá er talið upphafsávarp vefsins við opnun. En svo er þetta bara. Þessi slagur verður eflaust harður og gott að Össur ætlar ekki að víkja fyrir Ingibjörgu sjálfviljugur. Það er þeim báðum enda gott að fá mælingu á stöðu sinni í flokkskjarnanum.

Göran Persson

Í nýrri skoðanakönnun í Svíþjóð kemur vel fram það sem blasað hefur við að fylgi sænskra jafnaðarmanna er í sögulegu lágmark, hann hefur misst forystuhlutverki í könnunum í fyrsta skipti frá því kannanir Gallups hófust í landinu og að staða forystumanna flokksins hefur versnað ennfremur. Sérstaklega er pólitísk staða Göran Persson leiðtoga flokksins og forsætisráðherra landsins, orðin mjög veik eins og fram hefur komið seinustu vikurnar. Blasir við að hann missi yfirburðastöðu sína í sænskum stjórnmálum að óbreyttu. Þegar er hafin víðtæk umræða innan flokks og utan meðal stjórnmálaspekinga að hann láti af embætti fyrir kosningar og Margot Wallström varaforseti Evrópusambandsins og fyrrum ráðherra í stjórn Perssons, taki við forystu flokksins og leiðtogahlutverkinu í ríkisstjórninni. Hefur hún æ ofan í æ að undanförnu hafnað þessum vangaveltum. Nýleg skoðanakönnun staðfestir að Wallström er einn vinsælasti stjórnmálamaður landsins og sá sem jafnaðarmenn vilja helst að taki við forystunni af Persson. Virðist hún nú orðin krónprinsessa flokksins og valdaerfingi hans þegar að þeim tíma kemur, sem gæti að óbreyttu gerst bráðlega. Það er allavega ljóst að það hriktir í stöðum jafnaðarmanna í Svíþjóð þegar Moderata er orðinn stærstur flokka í könnunum og Fredrik Reinfeldt leiðtogi flokksins, orðinn vinsælasti stjórnmálamaður landsins.

Fjallajeppi

Enn einu sinni gerðist það í gær að leitað var að fólki á hálendinu. Nú bar svo við að fólkið anaði af stað í ferðina, án þess að kynna sér aðstæður og stöðu mála. Var alveg kostulegt að sjá viðtöl við ungmennin þrjú sem fóru frá Dalvík í þrem jeppum yfir hálendið á leið suður. Voru þau algjörlega óundirbúin og skrautlegt að fylgjast með skýringum þeirra. Er mjög hvimleitt að sjá þetta með svo skelfilegum hætti að fólki sé alveg sama um allar aðstæður fyrir brottför. Það er bara lagt af stað. Kæruleysið er því miður algjört. Svo missti eitt þeirra út úr sér að þetta hefði nú bara verið spennandi allt saman og skemmtileg lífsreynsla hvað þetta varðaði. Alveg ótrúlegt að sjá og heyra svona ummæli og svona dómgreindarleysi. Það er lágmark þegar fólk leggur á stað yfir hálendið að það taki veðurspá og tékki á stöðu mála t.d. hvað varðar færð og þess háttar. Fannst mér reyndar kostulegt í viðbót þegar stelpan í hópnum sagði að þau hefðu nú bara týnt veginum alveg upp úr þurru. Hvað kostar svona leit? Hvert fellur kostnaðurinn? Það veitir ekki af að taka upp heilsteypta og víðtæka umræðu um þessa þætti. Vonandi verður það fólki umhugsunarefni áður en lagt er af stað í slíka ferð.

Tvær kynslóðir mætast á Hlíð

Ég verð að segja eins og er að mér hlýnaði nokkuð um hjartaræturnar við að lesa eina frétt á vef bæjarins nýlega. Hún fjallar um það að í vetur muni hafa tekist samstarf á milli leikskólans Síðusels hér í bænum og dvalarheimilis aldraðra í Hlíð. Munu nokkur fimm ára börn á leikskólanum hafa farið reglulega í heimsókn til eldri borgara á einni deildinni í Hlíð. Þessar tvær kynslóðir ólíkra tíma mannlífsins hafa eins og segir í frétt á vef bæjarins spjallað um gamla muni, farið með þulur, sungið saman, lesið sögur og sungið saman. Þetta er ein af smáu mannlífsfréttunum sem vekja athygli og ekki síður ánægjulegt framtak sem þarna á sér stað. Sjálfur ólst ég upp að mestu hjá ömmu minni og ég tel framlag hennar í mótun lífs míns mikilvægt. Ég tel að hún hafi kennt mér það sem ég tel mikilvægast: þekkingu á sögunni, kærleika, kurteisi, það að bera virðingu fyrir öðru fólki og ekki síður þá hluti sem stundum virka smáir en eru stórir er á hólminn kemur síðar á lífsleiðinni. Allavega þetta er notaleg lítil frétt sem segir manni svo margt í einfaldleika sínum, þó það helst að aldur er afstætt hugtak.

Saga dagsins
1924 Þriðja ríkisstjórnin undir forsæti Jóns Magnússonar tekur við völdum - stjórnin sat í tvö ár, eða allt til andláts Jóns í konungsheimsókn á Austurlandi, hann lést að Skorrastað í Norðfirði
1960 Samþykkt á þingi að taka upp söluskatt af starfi og þjónustu - breytt í virðisaukaskatt 1990
1972 Geirfugladrangur, vestur af Eldey, hrundi og sökk í sæ - kemur nú aðeins upp úr sjó á fjöru
1983 Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna, kynnir stjörnustríðsáætlun sína - varð mjög umdeild
1999 Breska leikkonan Dame Judi Dench hlaut óskarinn fyrir leik sinn í myndinni Shakespeare in Love - Dench er ein virtasta leikkona Breta og var kjörin besta leikkona Bretlands á 20. öld 2001

Snjallyrðið
You must not lose faith in humanity. Humanity is an ocean; if a few drops of the ocean are dirty, the ocean does not become dirty.
Mahatma Gandhi frelsishetja Indverja (1869-1948)


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um yfirlýsingu samgönguráðherra um upphaf framkvæmda við Héðinsfjarðargöng og tilkynningu um tímaramma að verkefninu á borgarafundi á Siglufirði í gær. Var um mikinn gleðidag að ræða á Siglufirði í gær og var ánægjulegt að fara þangað og taka þátt í hátíðarhöldunum þar. Ég hef barist mjög fyrir því að þessi göng komi. Ég hef tekið eftir því að margir eru andsnúnir því að göng komi þarna til sögunnar og tengi Siglufjörð við Eyjafjarðarsvæðið og verði með því öflugur hluti af Norðausturkjördæmi og nái samgöngulegri tengingu við svæðið. Ég er stoltur af því að hafa barist fyrir tilkomu þessara ganga og mun þegar tíminn líður horfa til þessarar baráttu með stolti. Ég hef næstum alla mína ævi búið í Eyjafirði. Ég skammast mín ekki fyrir að vinna að hag þessa svæðis og vera þekktur af því að vera baráttumaður fyrir því að heildin þar styrkist. Það er grunnur minnar tilveru að heildin hér verði sterk og að því mun ég alltaf vinna.

- í öðru lagi fjalla ég um nýtt frumvarp menntamálaráðherra til breytinga á útvarpslögum. Fer ég yfir afstöðu mína til þess og tengda þætti. Sem hægrisinnuðum einstakling í stjórnmálalitrófinu tel ég þetta frumvarp afleitt. Ég tel að það styrki RÚV um of og undirstöður þess með undarlegum hætti. Menn eru að veita RÚV alltof mikið fríspil til að vera á markaðnum. Um er að ræða eina verstu árás á frjálsa fjölmiðla sem um getur á Íslandi. Þetta frumvarp er ekki í anda samþykkta SUS og gengur alltof langt í ranga átt. Ég get ekki stutt það nema að mjög litlu leyti. Í heildina er það afleitt. Þannig er það bara.

- í þriðja lagi fjalla ég um farsann varðandi mál skákmeistarans Bobby Fischer, sem illu heilli mun væntanlega brátt hljóta íslenskan ríkisborgararétt. Á föstudag tjáði ég mig í tveim pistlum, annarsvegar á vef SUS og hér á vef mínum, bæði um stöðu málsins fyrir og eftir ákvörðun allsherjarnefndar á föstudaginn. Ég er algjörlega andvígur áliti allsherjarnefndar og tel hreinlegt að lýsa því yfir og tala hreint út í þeim efnum. Taldi ég þingnefndina stíga óvarlegt skref og taka afstöðu algjörlega út í hött. Það er bara þannig. Fer ég yfir málið í nokkrum orðum í lok pistilsins.

Punktar dagsins
Siglufjörður

Eins og fram kom hér í gær var mikil gleði á Siglufirði í gær er samgönguráðherra hélt þar fund og lýsti því yfir hvernig tímarammi Héðinsfjarðarganga myndi verða. Var virkilega gaman að fara vestur, vera viðstaddur fundinn og heyra hljóðið í fólki þar og ræða málin. Var gríðarlegur fjöldi viðstaddur fundinn og bátahúsið á Siglufirði var sneisafullt. Hef ég sjaldan verið viðstaddur fund þar sem allir voru eins glaðir og sameinaðir um að hefja sig yfir pólitískt dægurþras og nöldur um hitamál samtímans og sameinast um að taka höndum saman og horfa til framtíðar. Þarna fluttu ávörp pólitískir forystumenn úr flestöllum flokkum og forystumenn sveitarfélaganna auk heimamanna sem báðu um orðið og vildu ávarpa samkomuna. Merkilegast af öllu fannst mér að Frjálslyndi flokkurinn og VG áttu engan fulltrúa á þessari merku stund í sögu Siglufjarðar og ekki síður Norðausturkjördæmis þegar samgönguleg tenging Siglufjarðar við Norðausturkjördæmi var staðfest með afgerandi hætti. Frjálslyndi flokkurinn er þó að mestu eyðimörk í þessu kjördæmi eins og flestir vita. Hitt vakti meiri athygli mína að Steingrímur J. Sigfússon kaus frekar að vera á mótmælafundi í Reykjavík en gleðifundi í kjördæmi sínu. Kostuleg forgangsröðun. Og ekki var Þuríður þarna, nema hún sé endanlega orðin að gufu í augum okkar hér.

Selma Björnsdóttir

If I Had Your Love, framlag Íslands í Eurovision-söngvakeppninni, sem haldin verður í Kiev í Úkraínu þann 19. maí var frumflutt í spjallþætti Gísla Marteins í gærkvöldi. Lagið er gríðarlega gott, sterk melódía og litrík. Er ég ekki í vafa um að það eigi eftir að ná langt og reyndar hittir það alveg dúndur beint í mark að mínu mati. Selma flytur lagið af miklu öryggi og reyndar er þetta eitt af allra bestu lögum okkar í keppninni til þessa. Keppnin í ár verður sú fimmtugasta í röðinni. Selma er öllu vön þegar Eurovision viðkemur eins og við vitum öll. Hún var fulltrúi Íslands í keppninni í Jerúsalem í Ísrael í maí 1999. Með lagi sínu og Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar, All out of Luck, náði hún að lenda í öðru sæti. Lengi vel stigatalningarinnar var hún í fyrsta sæti og þótti mörgum súrt í broti að hún vann ekki keppnina þá. Eins og flestum er kunnugt náðu Íslendingar ekki að tryggja sér öruggt sæti úrslitakvöldið og því þarf Selma að fara í undankeppni til að komast á úrslitakvöldið. Það er því mikilvægasta baráttan framundan að tryggja sér farmiða á aðalkvöldið. Þorvaldur Bjarni samdi lagið ásamt Vigni í Írafár og er um að ræða magnaða smíð. Við sem fylgdumst með keppninni fyrir sex árum, er Selma var hársbreidd frá sigri með frábært lag, vitum að hún á eftir að gera sitt besta að þessu sinni. Líst allavega vel á þetta allt.

The Beatles

Á föstudagskvöld fór ég á tónleika leikhúskórsins hér á Akureyri í Ketilhúsinu. Með þeim tónleikum og öðrum í gærkvöldi fagnaði kórinn 10 ára starfsafmæli sínu. Á efnisskránni voru Bítlalög útsett af Roar Kvam tónlistarstjóra, fyrir 11 manna hljómsveit, einsöngvara og kór. Aðaleinsöngvari á tónleikunum var Pálmi Gunnarsson söngvari, og einnig sungu einsöng þeir Ingimar Guðmundsson, Sigurður Hörður Ingimarsson og Jóhann Möller. Meðal laga á efnisskrá voru: In My Life, Sgt. Peppers Lonely Harts Club Band, Girl, Because, Penny Lane, With a Little Help From my Friend, Eleanor Rigby, Michelle, Let it Be, All my loving, Strawberry Fields Forever, Good day sunshine, The Long and winding road, Yesterday, Hey Jude og mörg fleiri. Semsagt algjört creme de la creme úr tónlistarsögu Bítlanna. Frábærir tónleikar. Ég þakka leikhúskórnum kærlega fyrir góða skemmtun.

Akureyrarkirkja

Mikill gleðidagur er í minni fjölskyldu í dag. Nú, í dag, fermast í Akureyrarkirkju systkinabörn mín þrjú: Andrea Björk Hauksdóttir, Berglind Eva Hauksdóttir og Samúel Þór Jóhannesson. Andrea og Berglind eru tvíburadætur Hönnu systur minnar og Samúel er sonur Sigurlínar systur minnar. Þau eru öll í 8. bekk Oddeyrarskóla og skemmtilegt að þau fermist öll sama daginn. Þetta er því ánægjulegur og góður dagur hjá okkur í fjölskyldunni. Ég vil óska þeim til hamingju með daginn hér. Þetta verður góður dagur hjá okkur og heldur betur fjölmenn veisla framundan.

Saga dagsins
1939 Þýsk sendinefnd kom til Reykjavíkur, tæpu hálfu ári fyrir upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar. Fóru þeir fram á að fá að koma upp flugbækistöð hérlendis. Beiðninni var hafnað af stjórnvöldum
1948 Breski leikarinn Ronald Colman hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Anthony John í kvikmyninni A Double Life - var einn af virtustu leikurum Bretlands á 20. öld. Colman lést 1958, úr lungnasýkingu
1952 Bandaríski leikarinn Humphrey Bogart hlaut óskarinn fyrir stórfenglega túlkun sína á Charlie Allnut í kvikmyndinni The African Queen. Bogart var einn af svipmestu leikurum gullaldarsögunnar í Hollywood og hlaut vinsældir fyrir kraftmikla og litríka túlkun á sterkum og hnarreistum karakterum. Hann lést í janúar 1957 úr krabbameini. Bogart var valinn besti leikari 20. aldarinnar við aldamótin
1991 Ásgeir Hannes Eiríksson flutti stystu þingræðuna í sögu Alþingis Íslendinga. Við umræðu um álversbyggingu á Keilisnesi tók Ásgeir Hannes til máls og sagði 4 orð: Virðulegi forseti. Álverið rísi!
2003 Sprengjum Bandamanna rignir yfir stjórnsýslubyggingar Íraka og helstu höfuðstöðvar Saddam Hussein í höfuðborginni Bagdad - fljótt dró úr mætti Baath-stjórnarinnar og ljóst varð allt frá upphafi að auðvelt yrði að fella hana. Árásirnar lömuðu forystu landsins og landhernaður hófst í kjölfar þess

Snjallyrðið
In the sweetness of friendship let there be laughter, and sharing of pleasures. For in the dew of little things the heart finds its morning and is refreshed.
Kahlil Gibran skáld (1883-1931)


Engin fyrirsögn

SiglufjörðurGleðidagur á Sigló - göngin boðin út í haust!
Í dag náðist bæði mikilvægur og ánægjulegur sigur í baráttunni fyrir Héðinsfjarðargöngum, milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Þetta mikla baráttumál okkar Eyfirðinga er loksins endanlega í höfn. Ég var í dag staddur á Siglufirði, á borgarafundi með Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra. Þar lýsti hann því yfir með afgerandi hætti að staðið verði við loforð um tímaramma gangnaframkvæmda sem lofað var sumarið 2003 af hálfu ríkisstjórnarinnar. Stjórnarflokkarnir hafa nú endanlega ákveðið með samþykkt ríkisstjórnarinnar að bjóða út framkvæmdir við Héðinsfjarðargöng í haust og munu framkvæmdir við göngin hefjast í júlímánuði á næsta ári. Stefnt er að því að framkvæmdum muni ljúka eigi síðar en við árslok árið 2009, á 50 ára afmælisári Siglufjarðarkaupstaðar. Er Sturla lýsti þessu yfir var klappað og mikil gleði meðal viðstaddra.

Á fundinum, sem er sennilega fjölmennasti fundur í sögu bæjarins, voru samankomnir rúmlega 300 manns. 19. mars verður framvegis stór og mikill dagur í sögu Eyjafjarðar, og umfram allt Siglufjarðar. Stórum og miklum áfanga er náð - baráttunni fyrir göngum er lokið. Málið er komið á það stig að það verður ekki aftur snúið. Tímarammi sem settur var fyrir nokkrum árum mun ganga eftir og menn hafa neglt málið niður með afgerandi hætti. Mikil ánægja er á Siglufirði með þessa niðurstöðu mála, ekki síður í Eyjafirði öllum. Þetta er mál sem kemur okkur Eyfirðingum öllum við. Þetta er ekki bara málefni Siglufjarðar. Göngin verða mikil og öflug samgöngubót fyrir alla hér á þessu svæði. Þau bæði styrkja og treysta mannlífið og byggðina alla hér. Allar forsendur mála hér breytast með tilkomu Héðinsfjarðarganga á næstu árum. Með þeim verður svæðið hér ein heild og grundvöllur fyrir sameiningu alls svæðisins kominn til staðar.

Var ég mjög ósáttur við frestun framkvæmda við göngin árið 2003 og andmælti þeirri ákvörðun mjög. Við hér á þessu svæði vorum vonsvikin og slegin yfir þeirri slæmu og óverjandi ákvörðun stjórnvalda. Enn situr eftir gremja í garð þeirra sem lofað höfðu að göngin kæmu til á réttum tíma í kosningabaráttunni vorið 2003 en sviku það eftir kosningar. En það eru eðlileg viðbrögð. Það voru mikil vonbrigði og vakti undrun fólks hér þegar spurðist út að verkinu skyldi frestað á þeim tímapunkti, enda fátt sem hafði breyst í málinu frá kosningabaráttunni, og er framkvæmdin hafði verið boðin út. En mikilvægast er vissulega að menn standa við loforðið, þó seint sé. Er ómögulegt á þessum tímapunkti að vera reiður yfir fyrri ákvörðunum um að fresta verkinu. Þess þá mikilvægar er að horfa fram á veginn og fagna því að menn stíga skrefið nú, á þeim tímapunkti sem lofað var árið 2003. Dagurinn í dag er gleðidagur en ekki vettvangur þess að horft sé til gamalla atburða. Nú horfum við fram á veginn og pælum ekki í fortíðinni. Framtíðin skiptir okkur mestu hér og á henni verður byggt. Var mjög gaman að fara í dag til Siglufjarðar og vera viðstaddur þennan góða og skemmtilega fund og finna bjartsýnina í íbúum svæðisins.

Fór ég vestur í morgun með Kristjáni Þór Júlíussyni bæjarstjóra, og Birni Magnússyni formanni fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Akureyri. Fyrir fundinn, sem haldinn var í hinu stórglæsilega bátahúsi sem tilheyrir Síldarminjasafni, bauð Siglufjarðarbær aðkomufólki upp á hádegisverð og gafst þar gott tækifæri til að ræða málin. Við ræddum við Halldór, Arnbjörgu, Dagnýju, Birki og Siv Friðleifsdóttur um stjórnmálin og málefni svæðisins almennt. Var gaman að hitta fólk þarna og rabba um málin. Á fundinum í dag flutti Sturla ítarlega framsögu og ennfremur ávörpuðu fundinn fulltrúar flokkanna: þeir Halldór Blöndal forseti Alþingis, og alþingismennirnir (og Siglfirðingarnir) Birkir J. Jónsson og Kristján L. Möller. Ennfremur fluttu fulltrúar sveitarfélaganna ávörp: þau Kristján Þór að hálfu Akureyrar, Valdimar Bragason bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð, Stefanía Traustadóttir bæjarstjóri á Ólafsfirði og Ólafur Kárason formaður bæjarráðs Siglufjarðar. Eftir fundinn var boðið upp á veitingar og gafst þá tækifæri til að ræða við fólk sem var viðstatt þennan merka fund. Þessi göng, þessar framkvæmdir, eru hagsmunamál fyrir okkur öll og mikilvægt að þau komi til þess að styrkja svæðið sem heild og efla það. Með tilkynningu dagsins er málið í höfn. Sigur hefur loks náðst í málinu. Gleðin á Siglufirði og Eyjafirði í dag er mikil og við fögnum farsælum lokum málsins.

Saga dagsins
1908 Kona tók í fyrsta skipti til máls á fundi bæjarstjórnar Reykjavíkur - Bríet Bjarnhéðinsdóttir, og lagði hún til í ræðu sinni að fé yrði veitt til sundkennslu fyrir stúlkur. Tillaga Bríetar var samþykkt
1982 Argentínumenn reyna að taka völdin á Falklandseyjum - leiddi til langra stríðsátaka við Breta
1984 Sextán pólskar nunnur komu til landsins, og settust þær að í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði
1995 Við Skeiðsfoss í Fljótum í Skagafirði mældist snjódýpt 279 sentimetrar - aldrei mælst meiri hér
2003 Innrás Bandamanna í Írak hefst - aðfararnótt 19. mars 2003 rann út tveggja sólarhringa frestur sem Bandaríkjastjórn veitti Saddam Hussein og tveim sonum hans, til að yfirgefa landið. Kl. 03:15 að íslenskum tíma, flutti George W. Bush forseti Bandaríkjanna, ávarp frá forsetaskrifstofunni í Hvíta húsinu, til þjóðarinnar og heimsbyggðarinnar allrar. Þar tilkynnti hann að herför Bandaríkjanna og bandamanna gegn einræðisstjórninni væri hafin. Fyrirskipaði hann árásir á valin skotmörk í upphafi sem höfðu það að markmiði að draga úr mætti stjórnarinnar. Einræðisstjórn Íraks féll í byrjun apríl

Snjallyrðið
Accept the challenges so that you can feel the exhilaration of victory.
George S. Patton hershöfðingi (1885-1945)

Engin fyrirsögn

Kristín Ingólfsdóttir verðandi rektor HÍHeitast í umræðunni
Kristín Ingólfsdóttir prófessor í lyfjafræði við Háskóla Íslands, var í gær kjörin rektor Háskólans. Kristín verður fyrsta konan til að gegna embætti rektors skólans í 94 ára sögu hans. Hún sigraði Ágúst Einarsson prófessor við viðskipta- og hagfræðideild skólans, í síðari umferð rektorskjörsins. Vann Kristín ennfremur sigur í fyrri umferðinni fyrir viku. Kristín hlaut 52,3% greiddra atkvæða en Ágúst fékk 46,4%. Auð og ógild atkvæði í kjörinu voru 1,3%. Mun Kristín taka við rektorsembættinu af forvera sínum í embætti, Páli Skúlasyni, þann 1. júlí nk. Sigur Kristínar er mjög sögulegur, marka úrslitin þáttaskil í sögu skólans. Það eru óneitanlega sögulegt að kona sé kjörin til forystu í skólanum og taki við forystu hans. Mun Kristín taka við forystu skólans á vissum kaflaskiptum í sögu hans. Nýtt og merkilegt umhverfi blasir við skólanum núna og það verður verkefni hennar að vinna að þeim þáttaskilum sem framundan eru að vissu leyti. Í kosningabaráttu sinni bauð hún sig fram sem fagmann á sínu sviði í starfi innan skólans og öflugan þátttakanda í innri uppbyggingu náms þar.

Kristín bauð sig ekki fram á forsendum kyns, þrátt fyrir að vera fyrsta konan sem býður sig fram í forystu hans með þessum hætti. Hún notaði ekki kynjastaðla sem grunnþema í sína kosningabaráttu. Öll hennar kosningabaráttu var á forsendum þess að hún væri hæf til þess að leiða skólann og hefði reynslu fram að færa. Aldrei talaði hún á opinberum vettvangi í fjölmörgum umræðuþáttum, með þeim sem buðu sig fram til rektorskjörs auk hennar, á þeim forsendum að hún væri kona og ætti á þeim forsendum að vera vænlegri kandidat eða ætti að leiða starfið þar á forsendum þess beinlínis. Það er mjög gott skref og ég tel að það hafi tryggt henni mörg atkvæði og ekki síður virðingu margra. Oft hefur það verið svo að konur bjóða sig fram til embætta á þeim grunni að konur vanti í forystu. Þetta gerði Kristín Ingólfsdóttir ekki og það er mjög virðingarvert, að mínu mati. Fannst mér hún vera með öflugustu og heilsteyptustu kosningabaráttuna. Eini gallinn við hana tel ég vera að hún lokar t.d. á skólagjöld eða er ekki til í umræðuna um þau. En það er ekkert lokamarkmið og á ekki að ráða valinu að lokum. Aðalatriðið er persóna rektorsefnanna, framkoma þeirra og grunnstefna. Taldi ég Kristínu vera besta valkostinn og tel ánægjulegt að hún hafi unnið sigur í kjörinu. Greinilegt er að þar fer hæf og vönduð kona. Ennfremur tel ég hana vera boðbera nýrra tíma, bæði í sögu skólans og almennt séð. Verður mjög fróðlegt að fylgjast með verkum hennar og forystu á vettvangi skólans á komandi árum. Ég óska henni til hamingju með kjörið og vona að henni farnist vel í embætti á næstu árum.

Bobby FischerAllsherjarnefnd Alþingis samþykkti einróma í dag á fundi sínum að samþykkja beiðni skákmeistarans Bobby Fischer um íslenskan ríkisborgararétt. Er ég mjög andvígur þessari ákvörðun eins og vel hefur komið fram. Í upphafi þessa dags birtist á vef SUS, ítarlegur pistill minn um málefni Fischers. Þar tjái ég afstöðu mína um það hvort veita eigi skákmeistaranum íslenskan ríkisborgararétt með beinum hætti. Taldi ég í senn bæði nauðsynlegt og eðlilegt að tjá mig með þessum hætti, þegar við blasti hvert málið væri að stefna. Það er nauðsynlegt að tjá skoðanir sínar óhikað í þessu efni. Fer ég í pistlinum yfir þær forsendur sem ég hef fyrir því að vera algjörlega andsnúinn því að Fischer sé veittur ríkisborgararéttur. Málið er mjög einfalt að mínu mati. Það snýst um prinsipp varðandi veitingu ríkisfangs og ekki síður þau lög sem til staðar eru. Fékk ég í dag mörg komment á þessi skrif, margir eru mér mjög sammála, en aðrir andsnúnir eins og gengur. Það er heiðarlegt og hið eina rétta í stöðunni að tala hreint út og koma til dyranna eins og maður er. Afstaða mín til málsins hefur blasað við en rétt að tjá hana með mjög beinskeyttum hætti.

Um leið og þessi ákvörðun lá fyrir um miðjan dag ritaði ég pistil á vef minn um sama mál og fer yfir þetta í fáum línum. Það var rökrétt að tjá sig um stöðuna eftir þessa ákvörðun með þessum hætti. Ákvörðun allsherjarnefndar í dag er eitt rugl og algjörlega út í hött að mínu mati. Tel ég um mjög óráðlega ákvörðun að ræða og vart skiljanlega. Hvaða skilaboð er Sjálfstæðisflokkurinn og aðrir stjórnmálaflokkar að senda út með þessari ákvörðun? Er ríkisborgararéttur sjálfsagður fyrir hvern sem er erlendis og vantar farseðil út úr vandræðum sínum? Mér er spurn, er þessi ákvörðun blasir við. Það var eitt að veita Fischer dvalarleyfi og aðstoða hann með þeim hætti. Ríkisborgararéttur er eitt af því heilagasta hér á landi að mínu mati og það er sérmál alveg í mínum huga, hvernig það mál er unnið. Það kemur ekki til greina að mínu mati að sveigja til þau lög sem til staðar eru um þau fyrir Bobby Fischer. Algjörlega einfalt mál. Þessi ákvörðun allsherjarnefndar er þess eðlis að ég hvorki get né mun verja hana á opinberum vettvangi. Þetta er skref sem ég get ekki stutt. Það er bara þannig. Ég var alveg til í að aðstoða Fischer með þeim hætti sem gerlegt var. Þessi ákvörðun í dag er annar hluti af þessu máli. En nú er komið að því að maður ítreki hana og tjái sig um hana opinberlega. Ég get ekki annað en lýst yfir miklum vonbrigðum með afstöðu allsherjarnefndar, einkum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í nefndinni. Þetta er undarleg og ekki síður mjög slæm ákvörðun og óverjandi að mínu mati.

Punktar dagsins
Rimma Brown og Blair séð með augum skopteiknara

Valdabarátta þeirra Tony Blair forsætisráðherra Bretlands og leiðtoga breska Verkamannaflokksins, og Gordon Brown fjármálaráðherra Bretlands, virðist sífellt vera að aukast. Er greinilegt að trúnaðarsamband þeirra er við frostmark og þeir keppast bakvið tjöldin við að tryggja sig innan flokksins fyrir komandi átök. Ljóst er að reynt er að halda erjunum sem mest undir yfirborðinu fram yfir væntanlegar kosningar í maí, en það verður sífellt erfiðara. Athygli vakti að þegar Brown kynnti fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar í gær að hann var vel undirbúinn, með brandara í ræðu sinni og virkaði léttur og glaðlegur. Þótti hann aldrei hafa verið í betra formi. Bresku blöðin tala um það í dag að greinilegt væri að þarna talaði næsti leiðtogi flokksins og jafnvel næsti forsætisráðherra Bretlands. Hætt er við að forsætisráðherrann hafi tekið andköf er birtist könnun í dag sem sýnir að hann er mun óvinsælli en Brown. 52% landsmanna telja Brown standa sig betur en Blair en aðeins 17% telja Blair betri. 63% flokksmanna telja Brown sterkari leiðtoga til forystu í næstu kosningum en 34% Blair. 48% þeirra telja að Blair sé dragbítur á stöðu flokksins en aðeins 16% Brown. Það er því ljóst hvert stefnir, staða Blairs er orðin svo veik að valdadagar hans taka brátt enda á hvorn veginn sem komandi kosningar fara.

Vetrardagur á Akureyri

Stjórn Varðar stóð fyrir sýningu á kvikmyndinni Fahrenhype 9/11 á Dátanum í gærkvöldi. Mætti þónokkur slatti á sýninguna og var góð stemmning hjá hópnum. Myndin er virkilega góð og tekur vel fyrir rangfærslur í þekktri mynd Michael Moore, Fahrenheit 9/11. Eftir sýninguna ræddum við málin saman og áttum fína stund. Þetta var því góð kvöldstund á Dátanum í gærkvöldi og skemmtilegt spjall um mikilvæg mál. Fór heim eitthvað á tólfta tímanum. Er heim kom horfði ég á kvöldfréttatímana á netinu og dægurmálaþættina, en ég hafði misst af þessu öllu vegna undirbúnings fyrir myndasýninguna, sem hófst kl. 20:00. Horfði á viðtal við Jónas Kristjánsson ritstjóra, sem hefur nú verið ráðinn að nýju sem ritstjóri á DV. Hann var ritstjóri blaðsins í tvo áratugi, 1981-2001, er honum var sagt upp störfum, en var um tíma ritstjóri Fréttablaðsins gamla áður en það fór á hausinn sumarið 2002. Hann hefur seinustu tvö ár verið ritstjóri Eiðfaxa. DV hefur orðið sorprit að breskri fyrirmynd síðan og ekki stefnir í miklar breytingar á því ef marka má yfirlýsingar Jónasar. Halda á áfram á sömu slúðurslóðinni sem fetuð hefur verið. Sá svo fréttir af sigri Kristínar í rektorskjörinu, ánægjulegar fréttir af að heyra í gærkvöldi.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri

Í gær varð Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri, að einskonar jólasveini sem gengur um og gefur öllum gjafir með yfirlýsingum um ókeypis leikskóla. Ekki er hægt að segja annað eftir gærdaginn. Þó er nú maðkur í mysunni, svo ekki sé nú meira sagt. Er eitthvað til sem heitir ókeypis leikskóli? Nei, það er ekkert ókeypis í þessum heimi. En menn eiga að tala um gjaldfrjálsan leikskóla frekar en annað. Er ekki hægt að segja annað en að yfirlýsingar borgarstjóra séu kostulegar. Kemur þetta útspil borgaryfirvalda, jólasveinaandinn mikli sem kom fram hjá þeim, flatt upp á marga. Ríkisstjórnarflokkarnir voru eins og fram hefur komið í fréttum við það að kynna hugmyndir um gjaldfrjálsan leikskóla fyrir öll fimm ára börn í landinu þegar þetta útspil kom. Svo er auðvitað allskondið að borgaryfirvöld séu að nota skatt af fasteignum ríkisins til að bjóða gjaldfrjálsan leikskóla, eins og Ragnheiður Ríkharðsdóttir bæjarstjóri í Mosfellsbæ, segir. Það blasir við að þetta er rétt hjá henni. Ekki hafa borgaryfirvöld svigrúm vegna góðrar fjárhagsstöðu eins og borgarstjóri fullyrðir, enda blasir við að peningakassi borgarinnar er tómari en pólsk matvöruverslun undir lok kommúnismans.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, heldur fund í bátahúsinu á Siglufirði á morgun ásamt Jóni Rögnvaldssyni vegamálastjóra, og Hreini Haraldssyni framkvæmdastjóra Vegagerðarinnar. Mun hann þar væntanlega, og vonandi, tilkynna hvenær framkvæmdir hefjist á Héðinsfjarðargöngum, milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Fer ég á morgun til Siglufjarðar og verð viðstaddur fundinn. Nota ég tækifærið um leið og mæti í boð til vinar míns og flokksfélaga, Guðmundar Skarphéðinssonar á Siglufirði á morgun. Bindum við sjálfstæðismenn á Eyjafjarðarsvæðinu og í þessum hluta kjördæmisins að minnsta kosti vonir við að gangnaframkvæmdir hefjist brátt. Þeim var frestað árið 2003 og þá lofað að ferlið vegna útboðs og fleiri þátta færi af stað árið 2005. Nú vonandi standa menn við stóru orðin. Allavega, ég fer á Sigló á morgun á fundinn.

Saga dagsins
1760 Landlæknisembættinu var komið á fót - Bjarni Pálsson var skipaður landlæknir, fyrstur manna
1772 Björn Jónsson skipaður fyrsti lyfsalinn hérlendis - áður var lyfsala hluti af skyldum landlæknis
1926 Útvarpsstöð, sú fyrsta hérlendis, tók formlega til starfa í Reykjavík - fyrstur í útvarpið þá talaði Magnús Guðmundsson atvinnumálaráðherra. Sagði hann í ræðu sinni að miklar vonir væru bundnar við þessa miklu og nýju uppgötvun mannsandans. Stöðin hætti fljótlega starfsemi en hún markaði söguleg skref, engu að síður í íslenskt fjölmiðlalíf. Ríkisútvarpið hóf útsendingar fjórum árum síðar
1938 Spencer Tracy hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Manuel í kvikmyndinni Captains Courageous. Tracy hlaut verðlaunin aftur ári síðar fyrir stórleik sinn í kvikmyndinni Boys Town. Tracy var einn af svipmestu leikurum gullaldarsögunnar í Hollywood og var mjög vinsæll fyrir kraftmikla og mannlega túlkun á sterkum karakterum. Hann lést í júní 1967, örfáum dögum eftir að hann lauk vinnu við sína síðustu mynd, Guess Who's Coming to Dinner?, þar sem hann fór á kostum með Katharine Hepburn
1971 Hæstiréttur Danmerkur kvað upp úrskurð sem ruddi úr vegi síðustu hindrun fyrir afhendingu handritanna til Íslendinga. Fyrstu handritin voru afhend formlega mánuði síðar við hátíðlega athöfn

Snjallyrðið
Experience taught me a few things. One is to listen to your gut, no matter how good something sounds on paper. The second is that you're generally better off sticking with what you know. And the third is that sometimes your best investments are the ones you don't make.
Donald Trump kaupsýslumaður (1946)


Engin fyrirsögn

Alþingi ÍslendingaHeitast í umræðunni
Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður, mælti á mánudag fyrir frumvarpi sínu og fleiri þingmanna Sjálfstæðisflokksins, sem felur einkum í sér að opinber birting og framlagning álagningar- og skattskráa landsmanna verði með öllu lögð af. Fór Sigurður Kári yfir grunn málsins í ítarlegri ræðu og kynnti það vel. Að lokinni ræðu Sigurðar Kára var fróðleg umræða um málið. Var mjög merkilegt að kynna sér afstöðu þingmanna til þess. Sérstaklega fannst mér merkilegt að heyra skoðanir Ögmundar Jónassonar. Snerist hann öndverður gegn áætluðum breytingum og talaði af krafti gegn þeim. Var merkilegt að sjá þetta gamla og úrelta forræðishyggjuhjal hjá Ögmundi. Ekki er hægt að segja að tal hans sé nýtt af nálinni. Forræðishyggja Ögmundar og annarra þingmanna Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs er fyrir löngu orðið landsþekkt og þarf vart að hafa um það mörg orð. En það er vissulega mjög fyndið að sjá grunn VG og vinstrikreddur opinberast með svo galopnum hætti. En Ögmundur er og verður forræðishyggjumaður, það breytist ekki svo glatt eins og við vitum öll sem fylgjumst með honum, flokknum og þeim sem sitja í umboði hans á löggjafarþinginu.

Fleiri vinstrisinnaðir þingmenn komu í pontu og tóku undir málflutning Ögmundar eða grunnstef hans: semsagt að það komi fólki úti í bæ við hvað Jón Jónsson verkamaður í Breiðholtinu, eða Jón Jónsson athafnamaður í Grafarvogi, er með í laun. Þetta er grunnpunktur vinstrimanna virðist vera að það sé málefni almennings hvað næsti maður hafi í laun eða vilji svala forvitni sinni með því að vita allt um hagi viðkomandi að þessu leyti. Ég og við sjálfstæðismenn almennt segjum að þetta gangi ekki upp. Þetta frumvarp er sett fram umfram allt til að fá umræðu um málið og vonandi leiða til þess að tekin verði upp önnur vinnubrögð og annað fyrirkomulag taki við. Þetta frumvarp er mikilvægt og sett fram sem grunnpunkt í mikilvægt prinsippmál: það að almenningur hafi sín lykilmál, tekjugrunn sinn sem sitt einkamál. Eða það er mitt mat og okkar sjálfstæðismanna. Það er reyndar hlægilegt að til sé fólk sem tali gegn þessu og afhjúpi með því gamaldags vinstrikreddupólitík. Þessir gamaldags vinstrimenn ættu að taka af sér hofmóðugu gleraugun og horfa fram fyrir sig án þeirra. Það gæti orðið þeim gæfuleg ákvörðun. Ekki veitir þeim af að hugsa málið frá öðrum forsendum og frá öðrum grunni beint. Ég tek bara undir orð Sigurðar Kára í umræðunni á mánudag: "Við höfum engan rétt á því að vera að grafast fyrir um það í einhverjum skattskrám hvað náunginn í sama stigahúsi og við er með í laun." Það er því verðugt verkefni okkar sjálfstæðismanna, sérstaklega okkar ungra sjálfstæðismanna að kalla til Ögmundar og félaga hans í forræðishyggjunni: komið þið inn í framtíðina, ekki veitir ykkur af!

RÚVÞorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, tilkynnti í gær að umræða um frumvarp hennar til laga um breytingar á útvarpslögum, muni ekki fara fram fyrr en eftir páska. Þá mun fjölmiðlanefndin hafa skilað áliti sínu og grunni að nýjum fjölmiðlalögum. Með því gefst þingmönnum færi á að ræða þessi tvö mál, grunnvettvang fjölmiðlaumhverfis og grunnbreytingar á Ríkisútvarpinu á sama stað á sama tíma og það sem best er: á sama grundvelli efnislega. Það veitir ekki af því. Hefðu menn átt að taka þennan pól í hæðina strax í fyrra þegar menn lögðu af stað í för með lagasetningu um fjölmiðla almennt. Fyrir tæpu ári, þegar umræða var sem mest í þinginu um fjölmiðlalögin hin fyrri, skrifaði ég ítarlegan pistil um stöðu þess þá. Ítrekaði ég þá mikilvægi þess að menn yrðu að taka RÚV fyrir samhliða, til að ná trúverðugum grunni undir málin. Ítrekaði ég þessa skoðun með titli pistilsins, sem var: Já, en hvað með RÚV??. Loks eru menn því að leggja af stað í vegferð um réttan stíg að mínu mati.

Þetta tvennt; grunnur fjölmiðlaumhverfis og framtíð ríkisrekins fjölmiðils er sama málið í grunninn séð og átti að taka fyrir saman. Því er það auðvitað mat mitt að menn hefðu átt að bíða með fjölmiðlafrumvarp þar til frumvarp um breytt útvarpslög hefðu legið fyrir. Menn fóru allt of geyst af stað og áttu að bíða. Þetta sagði ég fyrir ári, menn áttu að taka þetta saman og vinna saman sem einn pakka og taka fyrir með þeim hætti. En það er að gerast og því fagna ég. Menn eiga að feta málið með þessum hætti. Það er hárrétt ákvörðun hjá Þorgerði Katrínu að vinna málið með þessum hætti. Fagna ég einnig því sem heyrist að samstaða sé að mestu í fjölmiðlanefndinni um nýtt fjölmiðlafrumvarp. Það er mikilvægt að svo verði og þverpólitísk samstaða náist um grunnáherslur og ramma utan um íslenskt fjölmiðlaumhverfi. Nú hefur borið svo við að átök verða sennilega um frumvarp menntamálaráðherra um RÚV sf. Er ekkert að því að takast á um það og fara yfir alla fleti þessa forms sem taka á upp og þau sjónarmið sem uppi eru um málið. En fyndnast af öllu í málinu er að sjá framtíðarsýn VG um RÚV. Ef marka má tillögur þeirra er það vilji flokksins að koma á fót dagskrárráði í RÚV. Það muni miðstýra dagskrárgerð og verða sett yfir hana. Þvílíkar kommakreddur og miðstýringarárátta hjá forræðishyggjulufsunum. Segi ekki annað!

Punktar dagsins
Paul Wolfowitz

George W. Bush forseti Bandaríkjanna, tilkynnti formlega í gær að hann hefði tilnefnt Paul Wolfowitz aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sem forstjóra Alþjóðabankans. James Wolfensohn sem nú er forstjóri bankans, mun láta af embætti þann 1. júlí nk. eftir að hafa setið í embættinu í áratug. Hefð er fyrir því að Bandaríkin tilnefni forstjóra Alþjóðabankans en Evrópumenn tilnefni þess í stað forstjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hefur þetta verið byggt á samkomulagi sem gert var eftir seinni heimsstyrjöldina, er þessar tvær alþjóðastofnanir komu til sögunnar. Wolfowitz hefur verið aðstoðarvarnarmálaráðherra allt frá því að Bush tók við forsetaembætti í janúar 2001 og verið því einn af nánustu pólitísku samstarfsmönnum hans og Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra. Hefur hann jafnan verið mjög umdeildur, ekki síst vegna árásarinnar í Írak fyrir tveim árum, en hann var einn af lykilforystumönnum hennar á alþjóðavettvangi. Er ákvörðunin var kynnt í gær tjáði Bush sig mjög hlýlega um Wolfowitz og verk hans. Hætt er við að þessi ákvörðun muni valda titringi og ósætti, enda mjög deilt um ágæti Wolfowitz og verk hans á vettvangi stjórnmála.

Háskóli Íslands

Nýr rektor Háskóla Íslands verður kjörinn í kosningu í skólanum í dag. Kjörgengir eru allir starfsmenn hans og nemendur við skólann. Um er að ræða seinni umferð kjörsins. Í fyrri umferð kjörsins voru fjórir í kjöri og féllu tveir út í fyrri umferðinni: þeir Einar Stefánsson og Jón Torfi Jónasson. Flest atkvæði í kjörinu fyrir viku hlutu Ágúst Einarsson prófessor og fyrrum alþingismaður, og Kristín Ingólfsdóttir prófessor. Fyrir viku hlaut Kristín 28,5% atkvæða í kjörinu, Ágúst Einarsson hlaut 27,4%, Jón Torfi Jónasson hlaut 24,5% og Einar Stefánsson 18,9%. Atkvæði háskólakennara og annarra starfsmanna sem hafa háskólapróf gilda sem 60% greiddra atkvæða. Atkvæði stúdenta gilda sem 30% greiddra atkvæða og atkvæði annarra atkvæðisbærra aðila gilda sem 10% greiddra atkvæða. Gilda því sömu reglur um kjörið í dag og fyrri umferðina fyrir viku. Sá sem hlýtur meirihluta atkvæða hlýtur kjör. En það er menntamálaráðherra skipar í stöðu rektors, en það er alveg ljóst að ráðherra mun skipa þann sem sigrar í kjörinu. Er merkilegt að líta á vefi þeirra og kynna sér stefnu þeirra í málefnum skólans. Hvet ég alla til að gera það. Verður fróðlegt að sjá hvort þeirra sigrar og leiðir skólann næstu árin. Nýr rektor tekur við embætti af Páli Skúlasyni þann 1. júlí nk.

Gettu betur

Í Íslandi í dag var fróðleg umræða í gærkvöldi um málefni RÚV. Þar ræddu Einar K. og Óli Björn málin og voru ekki sammála um grunn nýs frumvarps um RÚV sf. Kvöldfréttir Ríkissjónvarpsins voru sendar út héðan frá Akureyri í gærkvöldi. Var gott að RÚV skyldi gera það samhliða öðrum útsendingum og ánægjulegt að Elín Hirst skyldi koma norður og lesa fréttirnar frá Kaupvangsstrætinu. Kastljósið var ennfremur sent út héðan frá Akureyri. Sigurður og Eyrún fengu til sín þau Gunnar Ragnars stjórnarformann Slippstöðvarinnar, og Ingu Eydal hjúkrunarfræðing og deildarstjóra öldrunardeildar Akureyrarbæjar. Þau ræddu mál málanna hér þessa dagana við Gunnar: ákvörðun Ríkiskaupa að taka frekar pólsku tilboði en innlendu í endurbætur á varðskipum. Ræddu þau svo öldrunarmál við Ingu. Eftir þáttinn var viðureign MA og Verzló í Gettu betur sýnd í beinni útsendingu frá Hólum, sal skólans. Var þetta skemmtileg viðureign og gaman að fylgjast með. Lauk henni með þeim hætti að Akureyringar unnu og slógu með því sigurvegara seinasta árs úr keppninni. Munu strákarnir mæta Borgarholtsskóla í hreinni úrslitaviðureign í næstu viku. Glæsilegt hjá Ásgeiri, Bensa og Tryggvi Páli. Góð úrslit og fínt að MA komist í úrslit keppninnar í fyrsta skipti frá 1992!

Fahrenhype 9/11

Eins og fram kom hér í gær mun Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, sýna myndina Fahrenhype 9/11 á skemmtistaðnum Dátanum, hér á Akureyri í kvöld. Hvet ég alla sem áhuga hafa til að mæta og horfa á myndina. Allir eru velkomnir á staðinn, til að fræðast um málin og svo ekki síður eiga ánægjulega stund. Myndin hefur vakið mikla athygli, er umdeild og hefur vakið viðbrögð og miklar umræður. Þess þá mikilvægara að fræðast um hana og sjá hana til að geta bæði talað um hana og bent á punktana sem mestu skipta í henni.

Saga dagsins
1917 Tíminn, flokkspólitískt blað Framsóknarflokksins, kom út í fyrsta skipti - kom út allt til 1996
1953 Leikarinn Gary Cooper hlaut óskarinn fyrir meistaralega túlkun sína á Will Kane í kvikmyndinni High Noon. Cooper hlaut verðlaunin áður fyrir leik sinn í myndinni Sergeant York árið 1942. Cooper var einn af svipmestu leikurum gullaldarsögunnar í Hollywood og var mjög vinsæll fyrir kraftmikla og mannlega túlkun á sterkum karakterum, t.d. í The Pride of the Yankees og Meet John Doe. Cooper hlaut heiðursverðlaun kvikmyndaakademíunnar í apríl 1961. Hann lést úr krabbameini mánuði síðar
1987 Beinar kosningar um prestsembætti voru afnumdar með nýjum lögum um veitingu prestakalla
1988 Fyrsta glasabarnið fæddist hérlendis - nákv. 10 árum eftir að fyrsta barnið fæddist á heimsvísu
2001 Kosið var um það í beinni atkvæðagreiðslu meðal borgarbúa um framtíðarskipulag flugvallar í Vatnsmýrinni og um skipulagslegt byggingarfyrirkomulag alls svæðisins - mjög dræm þátttaka var í kosningunni. Andstæðingar flugvallarins náðu þó naumlega sigri kosningunni. Úrslitin breyttu þó litlu, enda er enn tekist á af krafti um málið. Forsendur flugvallarmála eru og verða átakamál að óbreyttu

Snjallyrðið
A week is a long time in politics.
Harold Wilson forsætisráðherra Bretlands (1916-1995)


Engin fyrirsögn

Gettu betur

Áfram MA í kvöld!!!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband